Hæstiréttur íslands

Mál nr. 278/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Aðild


Föstudaginn 29

 

Föstudaginn 29. ágúst 2003.

Nr. 278/2003.

Nýherji hf.                                           

(Tómas Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu og

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

Skýrr hf. til réttargæslu

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Aðild.

N hf. var þátttakandi í útboði á vegum ríkisins um fjárhagskerfi fyrir ríkissjóð og stofnanir hans. Boð S hf. var metið hagstæðast og var gerður samningur milli hans og ríkisins um fjárhagskerfið. N hf. kærði útboðið til kærunefndar útboðsmála sem komst að þeirri niðurstöðu að ríkið væri skaðabótaskylt gagnvart N hf. vegna mistaka við framkvæmd útboðsins auk þess lagði nefndin fyrir ríkið að bjóða út gerð þjónustusamnings um fjárhagskerfi ríkissjóðs. N hf. höfðaði síðar dómsmál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu ríkisins og gerði auk þess varakröfu sem meðal annars var um staðfestingu á þeirri niðurstöðu kærunefndar að ríkinu væri skylt að láta bjóða út þjónustusamning um hugbúnaðarkerfi sín. Ríkið höfðaði gagnsök til ógildingar á úrskurði kærunefndar og stefndi S hf. til réttargæslu í því máli. Héraðsdómur sýknaði ríkið af öllum kröfum N hf. um skaðabótaskyldu, felldi umræddan úrskurð kærunefndar úr gildi en vísaði frá varakröfu fyrirtækisins um staðfestingu á útboðsskyldunni. N hf. kærði frávísunarhluta héraðsdóms til Hæstaréttar, sem komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækinu hefði verið nauðsynlegt að stefna S hf. beint til þess að fá ógiltan þjónustusamning S hf. og ríkisins. Var héraðsdómur því látinn óraskaður um frávísun varakröfu N hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. júlí sama ár. Kærður er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2003 að því er tekur til frávísunar án kröfu á hluta varakröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að frávísuninni verði hnekkt og lagt fyrir héraðsdóm að taka efnislega afstöðu til kröfunnar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kærð niðurstaða héraðsdóms verði staðfest og sér dæmdur kærumálskostnaður, en til vara að kærumálskostnaður falli niður.

Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar kröfur fyrir Hæstarétti en tekur undir staðfestingarkröfu varnaraðila.

Sóknaraðili var þátttakandi í útboði nr. 12576 á vegum varnaraðila um fjárhagskerfi fyrir ríkissjóð og stofnanir hans. Verkkaupi Ríkiskaup f.h. varnaraðila mat boð réttargæslustefnda hagstæðast og var gerður samningur milli hans og varnaraðila 17. júlí 2001 um fjárhagskerfið. Tók samningurinn til tveggja áfanga sem kallaðir voru innleiðingartímabil og þjónustutímabil. Sóknaraðili felldi sig ekki við þá niðurstöðu Ríkiskaupa og taldi að ekki hefði verið staðið rétt að mati tilboðanna og kærði því útboðið til Kærunefndar útboðsmála. Gerði hann þá kröfu fyrir nefndinni að ákvörðun Ríkiskaupa frá 17. júlí 2001 um að ganga að tilboði Skýrr hf. yrði úrskurðuð ólögmæt og að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Ríkiskaupa gagnvart sér. Meðan á rekstri kærumálsins stóð fékk sóknaraðili með úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 25. október 2001 afhentan hluta af samningi varnaraðila og réttargæslustefnda. Heldur hann því fram að þá hafi fyrst komið í ljós að samningsaðilar ætluðu einnig að gera sérstakan þjónustusamning sem ekki hafi fallið undir útboðið. Augljóst hafi verið að fjárhæðir fyrirhugaðs samnings yrðu umfram lágmörk fyrir útboðsskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 12. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup og hafi hann því krafist stöðvunar samningsgerðarinnar 7. nóvember 2001. Kærunefnd útboðsmála hafi með ákvörðun sinni 14. nóvember sama ár fallist á þá kröfu.

Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði 17. desember 2001 að varnaraðili væri skaðabótaskyldur gagnvart sóknaraðila vegna mistaka við framkvæmd útboðsins. Auk þess var lagt fyrir varnaraðila að bjóða út gerð þjónustusamnings um fjárhagskerfi ríkissjóðs. Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa leitað samninga við varnaraðila á grundvelli þessa úrskurðar en varnaraðili hafi lýst sig ósammála niðurstöðu hans. Sóknaraðili hafi því höfðað dómsmál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu varnaraðila með stefnu 5. júní 2002 og jafnframt krafist til vara staðfestingar á þeirri niðurstöðu Kærunefndar útboðsmála að varnaraðila væri skylt að láta bjóða út þjónustusamning um hugbúnaðarkerfi sín. Varnaraðili höfðaði mál til ógildingar á úrskurði Kærunefndar útboðsmála með gagnstefnu útgefinni 3. júlí sama ár og stefndi Skýrr hf. til réttargæslu í því máli.

Með dómi sínum 18. júní 2003 sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur varnaraðila af öllum kröfum sóknaraðila um skaðabótaskyldu, felldi umræddan úrskurð Kærunefndar útboðsmála úr gildi og vísaði frá án kröfu, varakröfu sóknaraðila um staðfestingu á útboðsskyldunni. Að því er skaðabótaskylduna varðaði var dómurinn byggður á efnislegri umfjöllun um málsástæður aðila og mun sóknaraðili hafa í hyggju að áfrýja þeirri niðurstöðu.

Sóknaraðili stefndi ekki Skýrr hf. til að þola dóm ásamt íslenska ríkinu um að varnaraðila yrði gert að bjóða út þjónustusamning um hugbúnaðarkerfin. Samningur þessa efnis hafði þó verið gerður við það fyrirtæki. Varnaraðili stefndi að vísu Skýrr hf. til réttargæslu um gagnsökina sem varðaði ógildingu ákvörðunar Kærunefndar útboðsmála en dómurinn verður ekki bindandi fyrir fyrirtækið við það. Skýrr hf. var samningsaðili samkvæmt greindum þjónustusamningi. Samningurinn er til þess fallinn að varða fyrirtækið miklu. Var því nauðsynlegt að stefna því beint til þess að ógilda mætti samninginn og leggja fyrir varnaraðila að bjóða út verkið að nýju.

Samkvæmt framangreindu ber að staðfesta héraðsdóm að því er varðar frávísun þeirrar varakröfu sóknaraðila að lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða út gerð þjónustusamningsins.

Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar frávísun varakröfu um gerð þjónustusamnings um fjárhagskerfi fyrir ríkissjóð.

Sóknaraðili, Nýherji hf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í kærumálskostnað.