Hæstiréttur íslands
Mál nr. 405/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Miðvikudaginn 24. júní 2015. |
|
Nr. 405/2015. |
A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Seltjarnarnesbæ (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 8. sama mánaðar um nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa verði tekin til greina, en staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um þóknun verjanda síns. Þá krefst hún þóknunar til handa verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að þóknun talsmanns síns fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði.
Með samþykki innanríkisráðuneytisins 8. júní 2015 var sóknaraðili vistuð á sjúkrahúsi gegn vilja sínum í allt að 21 sólarhring frá þeim tíma. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Árna Ármanns Árnasonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur til handa hvorum um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2015.
Með beiðni, dagsettri 12. þ.m. hefur A, kt. [...], [...], [...], [...], farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 8. þ. m., um það að hún skuli vistast á sjúkrahúsi. Af hálfu varnaraðila í málinu, velferðarsviðs Seltjarnarnesbæjar, er kröfu sóknaraðila mótmælt.
Í málinu er álit tveggja geðlækna, þeirra B og C, um það að sóknaraðili hafi að undanförnu verið haldinn geðrofsgeðklofa með miklum ranghugmyndum. Að sögn B hefur dregið úr einkennum sjúkdómsins að undanförnu en hann kveður A þó enn vera í geðrofi. Enn sé þó ekki óhætt að aflétta nauðungarvistuninni og því brýnt að hún sæti henni áfram til þess að veita megi meðferð við sjúkdóminum og koma í veg fyrir að hún veikist aftur. Dómarinn telur ljóst af þessu áliti læknanna að brýnt sé að sóknaraðili vistist á sjúkrahúsi um sinn til þess að hann fái meðferð við alvarlegum geðsjúkdómi. Ber því að synja kröfu hans og ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.
Þóknun til skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 150.000 krónur, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Heimis Fannars Hallgrímssonar hdl., 75.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], [...], [...], þess efnis að felld verði úr gildi sú ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 8. júní sl., að vista hann á sjúkrahúsi.
Þóknun skipaðra talsmanna aðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 150.000 krónur, og Heimis Fannars Hallgrímssonar hdl., 75.000, krónur, greiðist úr ríkissjóði.