Hæstiréttur íslands

Mál nr. 483/2009


Lykilorð

  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun
  • Aðfinnslur


                                                        

Miðvikudaginn 12. maí 2010.

Nr. 483/2009.

Stefán Sveinsson

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

gegn

HB Granda hf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

Ómerking héraðsdóms. Heimvísun. Aðfinnslur.

Ómerktur var héraðsdómur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju, þar sem í forsendum héraðsdóms var ekki borið við að greina með sjálfstæðum hætti hvaða varnarástæður H um einstaka kröfur S ættu að leiða til þeirrar niðurstöðu sem varð eða hvernig „full lagastoð“ væri fundin um einstakar kröfur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2009. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 868.711 krónur, til vara 853.839 krónur, til þrautavara 707.812 krónur, en að því frágengnu 217.115 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2007 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Hæstiréttur hefur tekið málið til dóms án undangengins málflutnings, sbr. 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í forsendum héraðsdómara fyrir niðurstöðu segir það eitt að fallist sé á með stefnda að „full lagastoð“ sé fyrir því að reikna meðallaun í uppsagnarfresti áfrýjanda með þeim hætti sem stefndi hafi rökstutt, auk þess sem réttur samkvæmt þrautavarakröfu hans sé fallinn niður fyrir tómlæti. Í málinu hefur áfrýjandi uppi aðalkröfu og þrjár varakröfur, sem hver um sig er rökstudd, rétt eins og varnir stefnda gegn þeim. Í forsendum héraðsdóms er ekki borið við að greina með sjálfstæðum hætti hvaða varnarástæður stefnda um einstakar kröfur áfrýjanda eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu sem varð eða hvernig full lagastoð sé fundin fyrir henni. Þessi úrlausn héraðsdómara er í senn alls ófullnægjandi og aðfinnsluverð, sbr. f. liður 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en ákvörðun um málskostnað í héraði bíður efnisdóms. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppsögu dóms að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. maí 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Stefáni Sveinssyni, kt. 311072-5369, Hólabraut 15, Skagaströnd, gegn HB Granda hf., kt. 541185-0389, Norðurgarði, Reykjavík, með því að sótt var þing af hálfu aðila er málið var þingfest hinn 23. september 2008.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 868.711 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 30. apríl 2007 til greiðsludags.  Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 853.839 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 30. apríl 2007 til greiðsludags.  Til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 707.812 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 30. apríl 2007 til greiðsludags.  Til þrautaþrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 217.115 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 30. apríl 2007 til greiðsludags.  Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.  Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður milli aðila verði felldur niður.

Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því:  Af hálfu stefnanda er því lýst að hann hafi hafið störf hjá stefnda, hinn 3. september 2005, sem háseti á frystitogaranum Engey RE-1, en stefndi hafi fest kaup á skipinu í maí sama ár.  Stefnandi hafi starfað á skipinu fram í mars 2007, en þá hafi stefndi selt Samherja hf. skipið og nýi eigandinn fengið það afhent hinn 22. mars 2007.  Þá segir að með sölu skipsins hafi stefndi rift ráðningu stefnanda, sem og annarra skipverja, og hafi skipverjarnir þannig öðlast rétt á greiðslu meðallauna á uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði kjarasamnings sjómanna og dómafordæma Hæstaréttar.

Því er lýst að ætlun Samherja hf. með kaupum á skipinu hafi verið að gera það út til veiða á erlendum miðum, en þó fyrirhugað að halda áfram síldar- og kolmunnaveiðum skipsins næstu 2-3 veiðiferðir, eins og raunin varð.  Fyrirsvarsmenn Samherja hf. hafi þess vegna óskað eftir því við hluta áhafnar Engeyjar RE-1 að þeir héldu áfram störfum á skipinu í þessum veiðiferðum.  Stefnandi hafi ekki verið einn af þeim.

Greint er frá því að skipverjum Engeyjar RE-1 hafi verið ljóst, að héldu þeir áfram störfum á skipinu, myndu þeir fyrirgera rétti til launa frá stefnda á uppsagnarfresti.  Málið hafi verið leyst með samkomulagi Sjómannafélags Íslands og stefnda, hinn 24. mars 2007, á þann vega að stefndi lofaði að greiða skipverjum meðallaun út uppsagnarfrest hvort sem þeir færu í næstu veiðiferð með skipinu eða ekki.

Tekið er fram að sjómannafélagið hefði krafist þess að miða ætti útreikninga meðallauna „við stöðugildi/heildarlaun háseta á viðmiðunartímabilinu.“  Þessu hafi stefndi hafnað og talið að miða bæri útreikninga meðallaunanna við tekjur hvers og eins á viðmiðunartímabilinu og deila niður á ráðningardaga viðkomandi á sama tíma og „laun pr. ráðningardag yrðu svo margfölduð með fjölda daga sem viðkomandi sjómaður átti í uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi.“ Þannig hafi verið gert upp við skipverja.

Vísað er til þess að lögmaður sjómannafélagsins hafi með bréfi, dags. 13. febrúar 2008, krafið stefnda um leiðréttingar á meðallaunum stefnanda og að stefndi hafi með bréfi, dags. 11. mars 2008, hafnað kröfu félagsins.

Af hálfu stefnda segir á hinn bóginn að strax í upphafi árs 2007 hafi legið fyrir að verkefni Engeyjar RE-1 myndu breytast eftir vetrarvertíðina, en skipið hafi þá verið á síldar- og kolmunnaveiðum.  Var að því stefnt af hálfu stefnda að skipið færi til nýrra verkefna við strendur Afríku um mánaðamótin apríl/maí 2007.  Af þeirri ástæðu hafi uppsagnir á skipinu hafist í janúar og febrúar eftir lengd uppsagnarfrests skipverja.  Síðan hafi það gerst að stefndi fékk tilboð í skipið og seldi það Samherja hf., hinn 20. mars 2007, eða skömmu áður en síðasti túr þess hér á landi af hálfu stefnda hafði verið fyrirhugaður.

Þá segir að eftir kaupin hafi legið fyrir að Samherji hf. hafði hug á að halda áfram síldar- og kolmunnaveiðum eitthvað lengur en fyrirhugað var af stefnda og hafi Samherji hf. boðið áhöfninni að halda plássum sínum sem starfsmenn Samherja hf. og fara m.a. í næstu veiðiferð, sem þá hafði verið undirbúin.  Stefnandi hafi hins vegar hafnað boði um ráðningu hjá Samherja hf.

Tekið er fram að við þær aðstæður að skipti verða á útgerðarmanni og sjómaður hafnar boði um að vera áfram í skiprúmi að slíkt jafngildi uppsögn af hálfu skipverja og eigi hann þá rétt til launa á uppsagnarfresti, sem í tilviki stefnanda hafi verið 30 dagar.  Ekki sé rétt að sala á skipi feli í sér riftun á ráðningu.

Bent er á að stefnandi hafi fengið greidd laun á uppsagnarfresti, laun, sem tóku mið af launum hans síðustu 12 mánuði, eins og hjá öðrum skipverjum.  Stefnandi hafi ekki upplýst stefnda um að sérstakar aðstæður hafi verið fyrir hendi á viðmiðunartímanum sem gerðu það að verkum að laun hans á þeim tíma hæfðu ekki til viðmiðunar.

Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á:  Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefnda hefði borið að gera upp svokölluð meðallaun stefnanda miðað við tekjur, sem staða háseta gaf á öllu svokölluðu viðmiðunartímabili, og deila þeirri fjárhæð niður á lögskráningardaga háseta á sama tíma.  Meðallaun í uppsagnarfresti væri svo fundin út „með því að margfalda launum pr. lögskráðan dag saman við fjölda daga stefnanda í uppsagnarfresti (30 dagar).“  Byggt sé á því að þessi leið sé bæði sanngjörn og eðlileg.  Og staðhæft er að samkvæmt útreikningum sjómannafélags stefnanda á dskj. nr. 13 hafi heildarlaun háseta á viðmiðunartímabilinu 17. mars 2006 til 19. mars 2007 numið samtals 13.502.892 kr., en samkvæmt lögskráningarvottorði hafi í stöðu háseta á sama tíma verið lögskráð í 324 daga.  Meðallaun „pr. lögskráðan dag“ hafi hér numið 41.675 kr. á dag.  Meðallaun stefnanda í eins mánaðar uppsagnarfresti hefðu því átt að nema 1.250.250 kr.  Óútskýrð greiðsla stefnda á meðallaunum stefnanda hafi hins vegar numið 445.888 kr.  Vangreidd laun á uppsagnarfresti nemi því 804.362 kr. og til viðbótar vegna tapaðra lífeyrisréttinda stefnanda 8%, eða 64.349 kr., þ.e. samtals 868.711 kr.

Varakröfu sína byggir stefnandi á því að samkvæmt lögskráningarvottorði hafi hann farið í þrjár veiðiferðir á tólf mánaða tímabili fram til þess að skipið var selt, samtals lögskráður um borð í 124 daga.  Samkvæmt launaseðlum stefnanda og útreikningum sjómannafélags stefnanda hafi heildarlaun hans fyrir þessar veiðiferðir numið 5.110.773 kr., eða 41.216 kr. að meðaltali á dag.  Meðallaun stefnanda á eins mánaðar uppsagnarfresti hafi því átt að vera 1.236.480 kr.  Stefndi hafi hins vegar aðeins greitt stefnanda 445.888 kr.  Vangreidd laun á uppsagnarfresti nemi því 790.592 kr. og til viðbótar vegna tapaðra lífeyrisréttinda stefnanda 8%, eða 63.247 kr., þ.e. samtals 853.839 kr.  Byggt sé á því að þessi aðferð við að reikna út meðallaun sjómanna á uppsagnarfresti hafi í tilteknum dómum Hæstaréttar verið lögð til grundvallar.

Þrautavarakröfu sína byggir stefnandi á því að heildarlaun háseta á viðmiðunartímabilinu 17. mars 2006 til 19. mars 2007 hafi verið 13.502.892 kr., eða 36.709 kr. að meðaltali á dag.  Meðallaun stefnanda á eins mánaðar uppsagnarfresti hafi því átt að vera 1.101.270 kr.  Stefndi hafi hins vegar aðeins greitt stefnanda 445.888 kr.  Vangreidd laun á uppsagnarfresti nemi því 655.382 kr. og til viðbótar vegna tapaðra lífeyrisréttinda stefnanda 8%, eða 52.430 kr., þ.e. samtals 707.812 kr.

Verði litið svo á, að stefnda hafi einvörðungu borið að gera meðallaun stefnanda á uppsagnarfresti upp með hliðsjón af launum og ráðningardögum stefnanda, byggir stefnandi þrautaþrautavarakröfu sína á því að miða beri við 237 daga tímabilið frá 26. júlí 2006 til 19. mars 2007, þ.e. frá því að stefnandi fer á sjóinn á ný og þar til hann hættir störfum vegna sölu á skipinu.  Heildarlaun stefnanda á þessu tímabili hafi samtals numið 5.110.773 kr., eða 21.564 kr. á dag að meðaltali.  Meðallaun stefnanda á eins mánaðar uppsagnarfresti hafi því átt að vera 646.920 kr.  Stefndi hafi hins vegar aðeins greitt stefnanda 445.888 kr.  Vangreidd laun á uppsagnarfresti nemi því 201.032 kr. og til viðbótar vegna tapaðra lífeyrisréttinda stefnanda 8%, eða 16.083 kr., þ.e. samtals 217.115 kr.

Um réttarheimildir vísar stefnandi til ákvæða sjómannalaga nr. 35/1985, til kjarasamninga SSÍ og LÍÚ, til dóma Hæstaréttar um uppsögn og riftun skipsrúmssamninga, einkum H.2001.1483, H.2002.4277, H.2002.4317 og H.2002.4379. til almennra reglna vinnu- og kröfuréttinda um greiðslu verklauna og launa í uppsagnarfresti.  Um orlof er vísað til kjarasamninga og orlofslaga nr. 30/1987.  Um tapaðar lífeyrisgreiðslur er vísað til H.2000.2064 og H.2002.3295.

Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á:  Vísað er til þess að stefnandi hafi hafnað boði um að halda skiprúmi sínu hjá Samherja hf.  Það hafi jafngilt uppsögn af hálfu stefnanda og frá þeim tíma hafi hann átt rétt til launa á uppsagnarfresti skv. ákvæðum 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Ekki sé deilt um að uppsagnarfrestur stefnanda var 30 dagar og að hann hafi átt rétt á launum á uppsagnarfresti sem svaraði til meðallauna hans fyrir uppsögn.  Ágreiningur aðila takmarkist hins vegar við það með hvaða hætti skuli reikna meðallaun sem greidd eru á uppsagnarfresti.  Stefndi hafi notað sömu aðferð við að reikna út meðallaun allra skipverja á Engey RE- 1, sem áttu rétt á að fá greidd laun á uppsagnarfresti, þ.e. að miða við laun starfsmanns síðustu 12 mánuði, eða styttri tíma ef viðkomandi hafði ekki verið fulla 12 mánuði í áhöfn skipsins.

Stefndi byggir á því að eðli máls, rökrétt samhengi hlutanna, 28. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og dómar Hæstaréttar í málunum 326/2000 og 342/2002, kveði á um hvernig reikna skuli meðallaun.  Útreikningur á meðallaunum, sem lagður hafi verið til grundvallar greiðslum skv. 3. mgr. 22. gr. og 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga, hafi í áratugi verið óumdeildur.  Ávallt hafi meðallaun verið reiknuð sem laun á dag, þ.e. mánaðarlaun eða heildarlaun fyrir tiltekið tímabil deilt í fjölda daga á tímabilinu.  Þessi aðferð hafi verið notuð þegar samið var um uppgjör utan réttar og í dómum Hæstaréttar með tveimur tilteknum undantekningum.  Þá er byggt á því að sama grunnregla og komi fram í 28. gr. sjómannalaga gildi um meðaltalsútreikning hvort heldur sem reiknað er fyrir hluta úr mánuði eða lengri tíma.

Bent er á að lögskráning sjómanna skv. lögum um lögskráningu sjómanna nr. 43/1987 sé til öryggis og til sönnunar á siglingatíma, en ekki til að afmarka ráðningartíma né vinnudaga sjómanna.  Skylt sé að skrá sjómenn sem ráðnir eru á skip áður en skipið heldur úr höfn og einnig sé skylt að skrá sjómenn úr skiprúmi í hvert sinn er veru þeirra um borð lýkur, hvort heldur vegna ráðningarslita eða um stundarsakir vegna t.d. bilana, viðgerðar, endurbóta eða skipi er af öðrum ástæðum ekki haldið úti, sbr. 5. gr. laga nr. 43/1987.  Óþekkt sé að lögskráningu sé ætlað að vera yfirlit yfir vinnudaga eða vinnustundir með sama hætti og stimpilklukka á vinnustöðum í landi.  Lögskráningardagar gefi heldur ekki rétta mynd af þeim dögum sem sjómaður er á launum, þar sem laun vegna vinnu við skip og veiðarfæri í höfn og vinnu við skip í slipp, laun í slysaforföllum og laun í veikindaforföllum falli til án þess að lögskráð sé.  Vinna skipverja við skip og veiðarfæri í landi sé ekki síður þáttur í starfi þeirra en vinna við veiðar.  Meðallaun á lögskráningardaga gefi hvorki rétta niðurstöðu um meðallaun á vinnudaga né meðallaun á ráðningartíma og komi því ekki að gagni við að áætla launatap.

Vísað er til þess að stefndi hafi verið háseti á Engey RE-1.  Á skipinu hafi verið svokallað skiptimannakerfi, þ.e. tvöföld mönnun.  Skipverjar hafi skipt með sér veiðiferðum þannig að hver þeirra fór að jafnaði annan hvern túr.  Þetta fyrirkomulag, eða aðrar útgáfur af því, sé á öllum frystitogurum enda óhugsandi að nokkur sjómaður geti farið allar ferðir skipsins, auk þess sem það bryti gegn rétti þeirra á fríi.  Tekið er fram að allir skipverjar eigi rétt til launa á uppsagnarfresti, ef skipið er selt, enda haldi þeir ekki áfram störfum á skipinu.  Þá sé ekki spurt hvort viðkomandi hafi átt að fara næstu veiðiferð skipsins samkvæmt skiptimannakerfinu eða hver séu áætluð verkefni skipsins á uppsagnarfrestinum, sbr. eftirfarandi forsendur í dómi Hæstaréttar nr. 197/2001 þar sem segir: „Verða bætur til áfrýjanda því ákveðnar með hliðsjón af launum hans síðustu mánuðina í starfi, svo sem hann krefst, en sömu grundvallarsjónarmið eiga hér við og endranær um hvað reynsla liðins tíma hefði leitt til í stað þess að reyna óháð því að leiða getum að hvernig mál kynnu að hafa þróast.“  Útgerðin greiði þannig öllum skipverjum meðallaun sem komi þannig út að laun hvers og eins á uppsagnarfresti ræðst af því hversu oft viðkomandi hefur siglt á viðmiðunartímabilinu, sem aðilar eru sammála um að séu síðustu 12 mánuðir fyrir sölu skipsins.  Háseti sem siglir að meðaltali 2 af hverjum 3 túrum fær þannig hærri laun á uppsagnarfresti en háseti sem fer að meðaltali annan hvern túr, enda eru laun hans síðustu 12 mánuði hærri.

Áréttað er að uppsagnarfrestur stefnanda hafi verið einn mánuður skv. grein 1.11 í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands annars vegar og Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins hins vegar.  Samkvæmt ákvæðum 28. gr. sjómannalaga nr. 54/1985 og óumdeildri venju sé mánuður ávallt reiknaður sem 30 dagar, þ.e. almanaksdagar.  Uppsagnarfrestur sé ekki reiknaður í lögskráningardögum og sé hvorki 30 lögskráningardagar né 30 dagar um borð í fiskiskipi við veiðar né 30 dagar á netaverkstæði.  Uppsagnarfrestur sé 30 almanaksdagar.  Það sem leita beri eftir við útreikninga á launum á uppsagnarfresti séu laun á almanaksdag til að unnt sé að margfalda þá fjárhæð með fjölda daga á uppsagnarfresti.  Eigi að áætla meðallaun fyrir 30 almanaksdaga í framtíðinni verði að miða við meðallaun almanaksdaga í fortíðinni.  Útreikningar eins og stefnandi leggur fram þar sem fyrst eru reiknuð meðallaun á hvern lögskráningardag og útkoman síðan margfölduð með 30 almanaksdögum á uppsagnarfresti gefi ekki rétta niðurstöðu um áætlaðan launamissi.

Bent er á að stefnandi byggi þrautavarakröfu sína á því að 12 mánaða viðmiðunartímabilið gefi ekki rétta mynd af meðallaunum hans þar sem í upphafi viðmiðunartímabilsins hafi hann verið í 4 mánaða fríi.  Af hálfu stefnda sé fallist á að við útreikninga á meðallaunum verði að leggja til grundvallar tímabil sem gefur rétta mynd.  En jafnframt er vísað til þess stefnandi fékk greidd laun á uppsagnarfresti, hinn 27. apríl 2007, sbr. dskj. nr. 11, og hafi hann ekki gert athugasemdir við viðmiðunartímabil útreiknings stefnda fyrr en í stefnu, sem þingfest var hinn 23. september 2008.  Með öðrum orðum hafi liðið um 17 mánuðir frá launauppgjöri til þess dags er athugasemdir voru gerðar á viðmiðunartímabilinu.  Við mat á tómlæti stefnanda verði einnig að horfa til þess að á þeim tíma hafi hann falið stéttarfélagi sínu og síðar lögmanni að ganga eftir því á fá leiðréttingu á útreikningi meðallauna í samræmi við varakröfu hans í þessu máli.  Lögmaðurinn og forsvarsmenn sjómannafélagsins hefðu verið í sambandi við stefnda vegna stefnanda og annarra fyrrverandi skipverja Engeyjar RE-1 og lögmaðurinn sent innheimtubréf, dags 13. febrúar 2007, þar sem krafist var leiðréttingar á meðallaunum stefnanda.  Hvorki í því innheimtubréfi né áður hafi því verið haldið fram að síðustu 12 mánuðir gæfi ekki rétta mynd að meðallaunum stefnanda heldur hafi verið almenn samstaða um að leggja síðustu 12 mánuði til grundvallar við útreikning meðallauna.  Þannig hafi réttur stefnanda til leiðréttingar á viðmiðunartíma við útreikning á meðallaunum fallið niður fyrir tómlæti.

Verði fallist á leiðréttingu launa á uppsagnarfresti í samræmi við þrautavarakröfu stefnanda krefst stefndi að félaginu verði ekki gert að greiða dráttarvexti fyrr en frá dómsuppkvaðningu í fyrsta lagi.

Niðurstaða: Bergur Þorkelsson, starfsmaður Sjómannafélags Íslands, bar fyrir rétti að hafa komið fram fyrir Sjómannafélag Íslands í viðræðum við stefnda, HB Granda hf., varðandi uppgjör á meðallaunum til skipverja Engeyjar RE-1 í mars á árinu 2007.

Bergur sagði að skipið hafi verið selt skyndilega eftir að menn voru komnir í land.  Skipið hafi verið í Færeyjum.  Þá hafi sjómenn hringt í hann, en þeim hafði verið boðið að fara túr með Samherja sem var næsti túr; menn hafi verið mjög fljótir að sjá að þeir þénuðu það sama með því að sitja heima hjá sér í mánuð og að fara túrinn.  Bergur kvaðst þá hafa haft samband við Öldu, starfsmannastjóra hjá Granda, og spurt hvort Grandi væri tilbúinn að borga uppsagnarfrestinn óháð hvort menn færu túrinn hjá Samherja eða ekki.

Bergur sagði að fljótlega síðar hafi fundur verið haldinn á laugardegi hjá Granda og málin rædd.  Síðan hafa Alda svarað honum með tölvupósti að þeir myndu borga uppsagnarfrestinn óháð hvort menn færu túrinn eða ekki.

Vísað var til þess að tölvupóstur Guðrúnar Öldu Elísdóttur starfsmannastjóra, til hans [Bergs], hinn 24. mars 2007 sbr. dskj. nr. 12, segi: „Það tilkynnist hér með að HB Grandi mun greiða skipverjum Engeyjar meðallaun út sinn uppsagnarfrest, óháð því hvort þeir fari næstu veiðiferð með Engey eða ekki.“  Og spurt var hvað átt væri við með orðunum ‘meðallaun út sinn uppsagnarfrest’ og hvort þetta hafi verið rætt eitthvað frekar.  Bergur sagði að þetta hefði ekkert verið rætt á fundinum; ekkert hefði verið farið út í útreikninga.

Bergur sagði að almennur skilningur hjá sjómannafélaginu varðandi meðallaun væri að það væru meðallaun stöðugildis sem ætti að endurspegla túrinn „hvað menn skyldu hafa haft í tekjur þennan uppsagnarfrest og það er sem við höfum alltaf haft hjá sjómannafélaginu“.  Bergur kvaðst hafa ætlað að allir hásetar fengju sömu laun á uppsagnarfresti og að það tæki ekki einungis til fastráðinna starfsmanna.

Bergur kvaðst hafa unnið hjá sjómannafélaginu frá árinu 2005 en verið í stjórn frá árinu 1987.  Hann kvaðst hafa komið að uppgjörum við sjómenn vegna launa á uppsagnarfresti frá því að hann hóf störf hjá sjómannafélaginu, en eigin uppgjör sem sjómaður frá árinu 1987.  Hann kvaðst ekki þekkja til að breytingar hafi orðið á þessum tíma í uppgjörsmálum eða hvernig menn reikna meðallaun, enda komi það hvergi sérstaklega fram í samningum eða lögum hvernig þessu skuli háttað.

Ekki er deilt um að stefnandi eigi rétt á launum á uppsagnarfresti.  Eins og rakið hefur verið er aðeins deilt um með hvað hætti reikna skuli launin, hvað sé rétt í þeim efnum.

Fallist er á með stefnda að full lagastoð sé fyrir því að reikna meðallaun á uppsagnarfresti stefnanda með þeim hætti sem greint var frá og rökstutt af hálfu stefnda hér að framan.  Óumdeilt er að stefndi greiddi stefnanda laun í samræmi við þann útreikning sinn.  Einnig er fallist á með stefnda að réttur stefnanda til leiðréttingar á viðmiðunartíma við útreikning á meðallaunum, sbr.  þrautavarakröfu stefnanda, hafi falli niður fyrir tómlæti.

Samkvæmt framangreindu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, en eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, HB Grandi hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Stefáns Sveinssonar.

Málskostnaður fellur niður.