Hæstiréttur íslands

Mál nr. 93/2008


Lykilorð

  • Húsbrot
  • Frelsissvipting
  • Rán
  • Skaðabætur
  • Upptaka
  • Skilorðsrof
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. janúar 2008. 

Nr. 93/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson settur saksóknari)

gegn

Arnari Óla Bjarnasyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

og

Róberti Wayne Love

(Páll Arnór Jónsson hrl.)

Húsbrot. Frelsissvipting. Rán. Skaðabætur. Upptaka. Skilorðsrof. Ítrekun.

AÓ og R voru sakfelldir fyrir húsbrot, rán og frelsissviptingu fyrir að hafa í heimildarleysi ruðst inn á heimili A, svipt hann frelsi sínu og beitt hann ofbeldi og hótunum um ofbeldi í því skyni að ná frá honum verðmætum. Háttsemi þeirra var talin varða við 252. gr., 231. gr. og 2. mgr. 226. gr.  almennra hegningarlaga. Þá var R  einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot.  Brot ákærðu var unnið í sameiningu og var fyrirfram skipulagt sem talið var sýna einbeittan brotavilja, einkum af hálfu AÓ, og var virt til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Refsing A var ákveðin fangelsi í tvö og hálft ár og refsing R fangelsi i tvö ár. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 6. febrúar 2008 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærðu, upptöku muna samkvæmt ákæru en þyngingar á refsingu. Þá er krafist að ákærði Arnar Óli Bjarnason verði dæmdur til greiðslu skaðabóta eins og greinir í ákæru.

Ákærði Arnar Óli krefst þess að refsing hans verði milduð og gæsluvarðhaldsvist sem hann sætti við rannsókn málsins frá 2. febrúar 2007 til 7. sama mánaðar komi til frádráttar dæmdri refsingu. Hann krefst einnig að skaðabótakrafa A verði lækkuð, en skaðabótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af henni.

Ákærði Róbert Wayne Love krefst mildunar refsingar og að hún verði skilorðsbundin. Hann krefst þess jafnframt að gæsluvarðhaldsvist hans frá 2. febrúar 2007 til 7. sama mánaðar komi til frádráttar dæmdri refsingu.

I

Í greinargerð ákærða Róberts Wayne fyrir Hæstarétti er gerð sú krafa að bótakrafa A verði lækkuð frá héraðsdómi. Samkvæmt 2. mgr. 151. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, skal í bréflegri tilkynningu ákærða til Ríkissaksóknara um áfrýjun tekið nákvæmlega fram í hverju skyni sé áfrýjað, þar á meðal varðandi einkaréttarkröfur. Í tilkynningu ákærða til Ríkissaksóknara 30. janúar 2008 er ekki vikið að því að áfrýjunin taki til slíkra krafna. Af þessum sökum kemur þessi krafa ákærða Róberts Wayne ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti nema að því leyti sem réttinum er skylt að taka afstöðu til hennar ex officio.

Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds að skilja bæri kröfu þess um skaðabætur svo, að krafist væri staðfestingar héraðsdóms. Þar sem kröfur ákæruvalds um skaðabætur beinast fyrir Hæstarétti aðeins að ákærða Arnari Óla verður yfirlýsing þessi skýrð svo að ekki séu nú af hálfu ákæruvalds gerðar kröfur um breytingar á niðurstöðu héraðsdóms um skaðabætur. Kemur því krafa um hækkun skaðabóta ekki til álita fyrir Hæstarétti. Þá var kröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. vísað frá héraðsdómi og kemur hún heldur ekki til álita fyrir Hæstarétti.

II

Atvikum málsins og framburði ákærðu í héraði er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Fallist er á þær ályktanir sem héraðsdómari dregur af gögnum málsins og framburði fyrir lögreglu og dómi. Þó verður að gera þá athugasemd að ekki kemur fram í vitnisburði A að ákærði Arnar Óli hafi hótað honum með fjaðurhníf meðan þeir voru staddir í eldhúsi íbúðar A að [heimilisfang], Reykjavík, en Arnar Óli hefur játað að hafa haft fjaðurhníf meðferðis. Ákærði Robert Wayne hefur borið að ákærði Arnar Óli hafi hótað A með hnífnum og meðákærði í héraði, Z, að ákærði Arnar Óli hafi handleikið hnífinn fyrir framan A í eldhúsinu þótt blað hnífsins hafi ekki verið úti. Að þessu virtu verður niðurstaða héraðsdóms um þetta atriði staðfest.

III

            Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um heimfærslu brota til refsiákvæða.

Sakaferli ákærðu er nægilega lýst í héraðsdómi.     

Ásetningur ákærða Arnars Óla til þeirra brota sem hann er sakfelldur fyrir var einbeittur. Þegar til þess er litið og annars sem greinir í héraðsdómi og horfir til refsihækkunar, svo og til ítrekunaráhrifa dóms Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2003, en þá var ákærði dæmdur til sex mánaða fangelsis fyrir þjófnað, sem hann lauk við að afplána 30. desember 2004, verður refsing þessa ákærða ákveðin fangelsi í tvö og hálft ár. Til frádráttar komi sex daga gæsluvarðhaldsvist hans frá 2. febrúar 2007 til 7. sama mánaðar.

Eins og í héraðsdómi greinir hlaut ákærði Róbert Wayne hinn 12. júlí 2005 sex mánaðar fangelsisdóm fyrir líkamsárás og gripdeild, þar af voru fimm mánuðir skilorðsbundnir í tvö ár. Þessi dómur var ásamt öðrum dómi 23. maí 2006 þar sem þessi ákærði hlaut eins mánaðar fangelsisdóm fyrir þjófnað, sem var skilorðsbundinn til tveggja ára, dæmdur upp með hinum fyrri vegna skilorðsrofs. Var refsing fyrir þau brot dæmd í einu lagi með þeim brotum sem þessi ákærði var fundinn sekur um í héraði. Brotið, sem dæmt var fyrir í fyrri dóminum, framdi ákærði 17. ágúst 2003, en þá var hann 17 ára. Hefur sá dómur því ekki ítrekunaráhrif sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Síðari dómurinn var að fullu skilorðsbundinn og hefur því heldur ekki ítrekunaráhrif sbr. 61. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Róbert Wayne taldi sig ekki eiga óuppgerðar sakir við A er hann réðst í för með ákærða Arnari Óla og meðákærðu í héraði, Y, sem höfðu frumkvæði að förinni. Óljóst er hvenær ásetningur hans kviknaði til sumra þeirra brota sem hann er dæmdur fyrir. Verður refsing hans  ákveðin fangelsi í tvö ár en til frádráttar komi sex daga gæsluvarðhaldsvist hans frá 2. febrúar 2007 til 7. sama mánaðar.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og að ákærði Arnar Óli sæti upptöku á skotfærum og eftirlíkingu af skammbyssu verða staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærðu verða staðfest.

Ákærðu verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. 

Dómsorð:

Ákærði Arnar Óli Bjarnason sæti fangelsi í tvö og hálft ár. Gæsluvarðhald hans frá 2. febrúar 2007 til 7. sama mánaðar kemur til frádráttar refsingu.

Ákærði Róbert Wayne Love sæti fangelsi í tvö ár. Gæsluvarðhald hans frá 2. febrúar 2007 til 7. sama mánaðar kemur til frádráttar refsingu.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og upptöku á skotfærum og skammbyssu skulu vera óröskuð.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærðu skulu óröskuð.

Ákærði Arnar Óli Bjarnason greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur og ákærði Róbert Wayne Love greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur. Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins, 53.760 krónur. 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2007.

   Málið er höfðað með ákæru útgefinni 26. júlí 2007 á hendur:

   ,,Arnari Óla Bjarnasyni, kennitala 260283-3599,

Barmahlíð 6, Reykjavík,

X, kennitala [...],

[heimilisfang],

Y, kennitala [...],

[heimilisfang],

Z, kennitala [...],

[heimilisfang] og

Róbert Wayne Love, kennitala 251285-2769,

óstaðsettum í hús, Reykjavík,

fyrir eftirtalin brot framin að kvöldi mánudagsins 29. janúar 2007 í Reykjavík, nema annað sé tekið fram:

I.

Gegn öllum ákærðu fyrir frelsissviptingu, húsbrot og rán, með því að hafa í heimildarleysi ruðst inn á heimili A að [Heimilisfang], svipt hann frelsi sínu og beitt hann ofbeldi og hótunum um ofbeldi, í því skyni að ná frá honum verðmætum, en ákærðu höfðu á brott mér sér Toshiba fartölvu að verðmæti kr. 69.000, Nokia og Ericson farsímum að óþekktu verðmæti, Canon prentara að verðmæti kr. 10.000, Canon stafræna myndavél að verðmæti kr. 24.000, Webcam myndavél að verðmæti kr. 4.000, JDV dvd spilara að verðmæti kr. 6.000, Bosch hleðslu­borvél að verðmæti kr. 14.000, nokkur verkfæri að óþekktu verðmæti, sjókort að óþekktu verðmæti, leikfangabangsa að óþekktu verðmæti og Toyota bifreið, skráningarnúmer [...], að verðmæti kr. 326.000, allt svo sem nánar greinir með svofelldri verkaskiptingu:

1. Ákærða Y fékk A með blekkingum til að hleypa sér inn á heimili hans á meðan meðákærðu biðu fyrir utan húsið, skömmu síðar hleypti ákærða Y meðákærðu inn um inngang í sameign þaðan sem ákærðu ruddust í sameiningu inn á heimili A.

2. Ákærðu Arnar Óli og Róbert Wayne þvinguðu A með skipunum að setjast á stól og ákærða Y batt A fastan við stólinn með reipum og límbandi, keflaði hann með munnkúlu áfastri ól sem hún festi á hann og setti leðurgrímu yfir höfuð hans.

3. Ákærðu Arnar Óli og Róbert Wayne veittust að A á meðan hann var keflaður og bundinn, ákærðu báðir er þeir kýldu hann í andlitið og spörkuðu í hann, ákærði Arnar Óli er hann hellti eldfimum vökva yfir A og hótaði honum frekari barsmíðum og að ætla að mölva í honum tennurnar og bora í hnéskeljarnar á honum og jafnframt með spurningum um hvort hann vildi deyja og með því að segjast ætla að stinga hann með sprautu og dæla úr henni svo hann hlyti bana af og enn fremur með því að ógna honum með butterfly hnífi, og ákærði Róbert Wayne er hann lamdi A með járnstöng í vinstra hnéð, allt í því skyni að skapa skelfingu hjá honum og þvinga hann til að vísa á verðmæti í íbúðinni og kveikjuláslykla af bifreiðinni [...], auk þess að ætla að fá hann til að gefa út afsal fyrir bifreiðinni.

4. Ákærðu Y, X og Z söfnuðu saman framan­greindum munum í íbúðinni og í geymslu íbúðarinnar í kjallara og komu mununum fyrir í bifreiðinni [...], sem lagt var fyrir utan húsnæðið.

5. Ákærði Róbert Wayne tók að sér að aka bifreiðinni [...], hlaðinni þýfinu, frá heimili A að þáverandi dvalarstað meðákærðu Y að Fannarfelli 12, þar sem hann affermdi bifreiðina og kom þýfinu fyrir í húsnæðinu. 

Telst þetta varða við 2. mgr. 226. gr., 231. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Gegn ákærða Róbert Wayne fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa í greint skipti á leið sinni að Fannarfelli 12 ekið bifreiðinni [...] á Miklubraut gegnt Rauðagerði án nægjanlegrar aðgæslu og tillitssemi og eigi gætt að því að halda hæfilegri fjarlægð milli bifreiðarinnar og annarrar bifreiðar, ZU-365, sem ekið var á undan, með þeim afleiðingum að árekstur varð með bifreiðunum eftir að ökumaður ZU-365 hægði niður ökuhraða við strætisvagnabiðstöð, og síðan ekið þegar í stað af vettvangi án þess að sinna skyldum sínum vegna árekstursins.

Telst þetta varða við 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 14. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.

III.

Gegn ákærðu Y fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 31. janúar 2007 að Fannarfelli 12 haft í vörslum sínum 0,05 g af amfetamíni og 0,76 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem fannst við húsleit, og þá haft í vörslum sínum butterfly hníf, sem ákærða framvísaði.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, varðandi meðferð ákærðu á kannabis, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, og b-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998.

IV.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.  Einnig er krafist upptöku á haldlögðum munum sem hér greinir:

1.                       Ákærða Y sæti upptöku samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940 á leðurgrímu, munnkúlu með áfastri ól og 5 knippum af reipi, hlutir sem hafðir voru til að drýgja brot með, sbr. lið I/2.

2.                       Ákærða Y sæti upptöku samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, á 0,05 g af amfetamíni og 0,76 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem fannst við húsleit, sbr. III. lið.

3.                       Ákærða Y sæti upptöku samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 16/1998, á  butterfly hnífi, sem fannst við húsleit, sbr. III. lið.

4.                       Ákærði Arnar Óli sæti upptöku samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 16/1998, á skotfærum og eftirlíkingu af skammbyssu, sem fannst við húsleit, sbr. III. lið.

Bótakröfur:

Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 1.277.465, að viðbættum 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 29. janúar 2007 til 2. apríl 2007, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf., kennitala 660269-2079, er krafist kr. 108.652, vegna bóta sem greiddar voru vegna tjóns á bifreiðinni ZU-365.  Einnig er krafist vaxta á höfuðstól samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 29. janúar 2007 til þess dags er opinbert mál er höfðað, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.“

   Verjandi ákærða Arnars Óla krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta. Komi til refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar. Krafist er sýknu af bótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar og að bótakröfu A verði vísað frá dómi aðallega en til vara að hún sæti lækkun. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

     Verjandi ákærðu X og Z krefst fyrir hönd þeirra beggja sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og ef refsivist verði dæmd að hún verði skilorðsbundin. Þess er krafist að bótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar verði vísað frá dómi. Sama krafa er um bótakröfu A en til vara að hún sæti verulegri lækkun. Krafist er réttargæslu- og málsvarnarlauna vegna ákærða Z og  málsvarnarlauna vegna ákærða X að mati dómsins.

   Verjandi ákærða Róberts Wayne krefst þess að ákærði sæti vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist verði skilorðsbundin ef dæmd verður. Komi til óskilorðsbundinnar refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Krafist er að bótakröfum verði vísað frá dómi aðallega en til vara að þær sæti verulegri lækkun. Sakarkostnaðar er krafist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnalaun að mati dómsins.

    Verjandi ákærðu Y krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnalauna að mati dómsins. Þess er krafist að bótakrafa A sæti verulegri lækkun.

Ákæruliður I.

1-5 Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar kom A til lögreglu kl. 23.50 mánudagskvöldið 29. janúar sl. og lýsti því að aðilar hefðu ráðist á hann á heimili hans að [heimilisfang] og í framhaldi stolið munum í hans eigu og bifreið hans nr. [...]. Er þessu lýst nánar í skýrslunni og ráðstöfunum lögreglu í framhaldinu. Hinn 31. janúar kom A til lögreglu í því skyni að kæra ,,meinta frelsissviptingu, líkamsárás og í framhaldi af því þjófnað og nytjastuld á bifreið á heimili hans að [heimilisfang] að kvöldi 29. janúar sl.“ A lýsti því að nóttina fyrir atburðinn sem hér um ræðir hafi þau ákærða, Y, og Arnar Óli verið í fíkniefnaneyslu og áfengisdrykkju á heimili hans. Um morguninn hafi hann orðið við beiðni um að keyra Y heim til sín en úr varð að Arnar Óli varð eftir í íbúð A. Er A kom aftur heim til sín frá því að keyra Y hafi íbúðin staðið opin og fartölva, prentari og vefmyndavél verið horfin. A lýsti því að hann hefði strax hringt í Y vegna þessa og hafi hún gefið í skyn að hún myndi vinna með í því að hann fengi muni sína til baka en A kvaðst ætla að kæra atvikið endurheimti hann ekki munina. A lýsti síðan samskiptum þeirra í framhaldi vegna þessa. Það hafi síðan verið laust fyrir kl. 22.00 að kvöldi 29. janúar sl. sem Y hafi hringt og sagt að hún væri búin  hafa uppi á mununum og væri á leiðinni til A með þá. Hafi hann spurt hana að því hvort hún væri ein á ferð og hún sagt svo vera. Y hafi síðan komið ein og hafi hann þá spurt hana hvernig hún hefði endurheimt munina og hafi hún greint honum frá því. Hún hafi síðan verið í símanum og sagði A að hún þyrfti að skreppa út í bíl og A sagt það í lagi. Skömmu síðar kvaðst A hafa heyrt karlmannsraddir í stigaganginum. Í framhaldinu lýsti A því sem gerðist inni í búðinni og er í skýrslunni svofelldur kafli þar um:

 ,,Ég sé þá að Arnar Óli ryðst þar upp með butterfly hníf í hendi ásamt tveimur karlmönnum sem ég þekki ekki og Y. Annar þessara manna sem voru með þeim í för var með silfraða járnkylfu í hendinni. Þau skipuðu mér að setjast við eldhúsborðið og sögðu mér að setja hendurnar fyrir aftan bak. Y byrjaði svo að líma handleggina á mér fasta við stólinn með svörtu þykku límbandi. Síðan batt hún fæturnar á mér með snæri við stólfæturnar og hún tróð síðan upp í mig golfkúlu og setti svo límband yfir varirnar á mér, auk þess setti hún svo teygjanlega leðurhettu yfir andlitið á mér. Arnar Óli er með ásakanir gagnvart mér um það að ég hafi verið að reyna við Y og ég hefði svikið hann með því,. Hann tók það líka fram að ég skuldaði honum ekki neitt, en hann yrði að gera þetta út af þessu. Hann hótaði að mölva í mér tennurnar og bora í hnéskeljarnar á mér. Hann var með ásakanir gegn mér að ég hefði stolið einhverjum bíllykli af honum. Þeir eru svo að kýla mig í andlitið 5-6 sinnum með hnefunum og svo lemur einhver mig með járnkylfunni í hnéskelina. Þeir hótuðu að setja ,,overdoze“ í sprautu og sprauta því í mig. Svo var ég barinn með kylfunni í höfuðið og Arnar hafi kýlt mig í sama mund þannig að ég féll í gólfið, en áður hafði Y sennilega losað af mér límbandið og hettuna. Þeir spörkuðu í mig þar sem ég lá á gólfinu og ég ældi aðeins við höggin. Þeir skipuðu mér svo að drulla mér á fætur og hótuðu að þagga niðri mér ef ég hefði ekki hljóð. Þeir spyrja mig svo hvar kvittunin af fartölvunni er og báðu mig um afsalið af bílnum. Ég sagðist ekki vera með afsal af bílnum og þá kýldi Arnar mig í andlitið. Á meðan á þessu þá er Y og einn þessara manna sem voru með þeim í för að gramsa í dótinu mínu í íbúðinni. Arnar Óli og annar mannanna fóru síðan reglulega út úr eldhúsinu til að hjálpa þeim að leita og Arnar spurði mig hvar stafræna myndavélin mín væri. Arnar þóttist síðan vera að gera mér einhvern greiða með því að segja við mig að hann ætlaði að skilja sjónvarpið eftir. Þau voru talsverðan tíma að róta til í íbúðinni hjá mér og leita að verðmætum. Þessi sem hélt á kylfunni hélt að það væru falin fíkniefni í íbúðinni og var að reyna að veiða þau upp úr mér. Arnar fleygði svo einni e-töflu á borðið hjá mér áður en hann fór og sagði að ég mætti eiga hana, en áður sagði hann við mig að ég ætti að halda mér heima daginn eftir og ekki fara í vinnuna svo hann gæti haft upp á mér í þeim tilgangi að skrifa undir afsal á bílnum mínum. Að auki tóku þeir símkort og rafhlöðu mína úr farsímanum mínum. Hann skrifaði farsímanúmerið 845-2444 á miða og lagði það á eldhúsborðið og sagði mér að vera í sambandi ef ég væri ekki búinn að heyra frá honum.“

                   Nú verður rakinn framburður ákærðu fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir og vitnisburður.  

   Ákærði Arnar Óli játar sök að hluta en neitar að hluta eins og nú verður rakið. Hann kvað aðdraganda þess að farið var á heimili A hafa verið þann að þeir A hefðu rifist nóttina áður er þeir sátu að drykkju saman á heimili A. Þá hafi ákærði tekið tölvu frá honum, en til hafi staðið að skila tölvunni. Þá hafi A haft undir höndum bíllykla af bíl sem ákærði hafði að láni auk þess sem A hafi verið búinn að ,,angra hana Y“. Tilgangur ferðarinnar til A hafi verið að finna lyklana og að „hræða A.“ Ákærði kvað ekki hafa verið farið í íbúðina í því skyni að taka munina sem lýst er í ákæru. Ákærði kvað Y fyrst hafa farið inn til A og rætt við eitthvað við hann. Hún hafi síðan hleypt öðrum ákærðu inn og hafi ákærði og aðrir sem inn fóru farið þangað óboðnir. Ákærði hvað A einhvern tímann í atburðarásinni hafa beðið ákærðu um að fara út. Eftir að inn var komið höfðu þau meðákærðu, Róbert Wayne og Y. verið ásamt A inni í eldhúsi þar sem þeir Róbert skipuðu A að setjast á stól. Eftir það hafi Y bundið A eins og lýst er í ákærunni. Eftir það hafi Y, Z og Róbert farið inn í herbergi. Á meðan hafi ákærði reynt að tala við A inni í eldhúsi og leyst hann úr böndunum stuttu síðar. Ákærði kvaðst ekki hafa veist að A meðan hann var bundinn eins og lýst er í ákærunni og hvorki hafa kýlt hann né sparkað í hann eins og lýst er í 3. lið ákærunnar. Ákærði játaði að hafa hellt eldfimum vökva yfir A eins og lýst er í ákærunni. Hann kvaðst hvorki hafa hótað A með því að mölva í honum tennurnar né að bora í hnéskeljar hans. Þá kvaðst ákærði ekki hafa hótað A með sprautunni eins og lýst er í ákærunni. Ákærði kveðst ekki vita hvað aðrir í íbúðinni afhöfðust meðan þeir Róbert voru með A inni í eldhúsinu. Hann kvaðst síðan hafa komist að því heima hjá Y að munirnir hefðu verið teknir úr íbúðinni. Hann kvaðst ekki hafa ógnað A með hnífi en hins vegar hafi hann haft hnífinn meðferðis og notað hann til að skera böndin af A en hann taldi að A hafi verið bundinn fastur í 10-15 mínútur. Ákærði kvað það sem A var gert hafa verið gert í því skyni að skapa hjá honum skelfingu eins og ákært er fyrir en ekki í því skyni að þvinga hann til að vísa á verðmæti í íbúðinni. Ákærði mundi ekki hvort reynt hafi verið að fá A til að vísa á kveikjuláslykla. Þá sé niðurlag ákærunnar rangt en ekki hafi verið reynt að fá A til að gefa út afsal eins og þar sé lýst og kvaðst ákærði ekki muna eftir því að afsal hafi borið á góma. Ákærði kvaðst hafa séð Róbert slá A einu sinni í hnéð með járnstöng meðan á þessu stóð en hann mundi ekki hvort A var bundinn þá. Ákærði kvað réttan framburð sinn hjá lögreglu varðandi það að hann hafi séð Róbert slá A með járnstönginni, kýla og sparka í hann nokkrum sinnum, auk þess að slá hann í annan fótinn þannig að hann datt í gólfið. Þetta hafi Róbert gert eftir að hann reiddist A.

   Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi ákærði m.a. svo frá að hann hafi sagt við Aað hann vildi fá allt sem A skuldaði honum. A hafi þá sagt að hann gæti tekið allt sem þau vildu og hafi hann greint frá því hvar munir væru og afsöl. Ákærði kvaðst ekki geta gefið skýringu á því hvers vegna hann hagaði framburði sínum svo hjá lögreglu en hann væri ekki réttur. Ákærði kvað X hafa verið staddan heima hjá Y þegar farið var heim til A og því hafi hann komið með. Ekki minntist ákærði þess að hafa beðið hann um að koma. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum að minnsta kosti 5 tegunda af fíkniefnum, auk áfengis, á þessum tíma. Hann kvaðst hafa farið í meðferð hjá geðlækni frá því í marsbyrjun.

   Ákærði X neitar sök. Hann kvaðst á þessum tíma hafa verið í för með meðákærða Zvini sínum á rúntinum uns Z hafi sagst þurfa að hitta fólk sem hann þekkti. Eftir þetta hafi öll ákærðu farið að [heimilisfang], þar sem Y fór inn og ræddi við húsráðanda og hleypti öðrum ákærðu inn skömmu síðar. Skilja mátti á ákærða að það hafi verið fyrir tilviljun sem hann fór með ákærðu að [heimilisfang] en ákærði tók fram að hann hafi ekki getað vitað að í heimsókninni yrði beitt ofbeldi eins og gert var. Ákærði kvað tilgang fararinnar heim til A, sem ákærði kvaðst ekki þekkja, hafa verið þann að sækja hjá honum dót sem Y, Arnar og Róbert hafi átt hjá honum. Eftir að inn var komið hafi Arnar, Róbert og Y farið með A inn í eldhús en Róbert hafi haft járnrör eða kylfu meðferðis. Þeir Arnar og Róbert hafi verið inni í eldhúsinu ásamt A mestan tímann sem dvalið var á staðnum. Hann kvaðst ekki hafa verið inni í eldhúsinu og ekki hafa séð það sem þar fór fram en hann hafi þó séð að búið var að binda A. Ákærði kvaðst hafa heyrt óp frá eldhúsinu um tíma. Hann kvaðst ekki hafa séð hvort spörk, kýlingar eða þess háttar ofbeldi hafi átt sér stað inni í eldhúsinu. Þar hafi þau ræðst við en hiti hafi færst í umræðurnar þar að sögn ákærða. Ákærði kvaðst telja að A hafi verið í eldhúsinu í góða klukkustund en hann vissi ekki hversu lengi hann var bundinn því hann sá síðast til hans í eldhúsinu er búið var að leysa hann úr böndunum. Ákærði kvaðst hafa staðið eins og illa gerður hlutur um stund eftir innkomu eða þar til Y hafi sagt ákærða að leita að einhverju sem hún átti. Þetta hafi orðið til þess að ákærði, Y og Z söfnuðu munum saman í íbúðinni og í geymslu í kjallara og hafi verið farið með munina út. Hann vissi ekki hvað varð um munina eftir það en ákærði kvað þá Z  hafa farið saman af staðnum. Ákærði kvaðst þannig, ásamt Z og Y, hafa safnað mununum saman á þann hátt sem lýst er í IV. lið ákærunnar en hann kvaðst ekki hafa verið viss um það er mununum var safnað saman hvort þetta væru munir sem þau Y, Arnar og X áttu. Ákærði kvaðst hafa talið það fremur ólíklegt í ljósi þess að húsráðandinn var bundinn fastur í eldhúsinu. Hann mundi ekki hvaða munum hann safnaði saman. Ákærði kvaðst engin samskipti hafa átt við A og því hvorki hafa beitt hann ofbeldi né hótað honum slíku. Þá kveðst ákærði neita sök varðandi frelsissviptingu og rán eins og í I. lið ákæru greinir.

   Ákærða Y  játar sök að mestu leyti. Hún kvað aðdraganda málsins hafa verið þann að Arnar Óli hafi tekið fartölvu á heimili A nóttina áður er þau Arnar Óli voru á heimili A. Erindi þeirra þangað á þeim tíma sem í ákæru greinir hafi verið að skila fartölvunni. Y lýsti því að tilgangur fararinnar til A að öðru leyti hafi verið að sækja lykla að bíl sem Arnar Óli hafði að láni og hún hafi ætlað að ræða við A þar sem eitthvert ósætti átti sér stað við hann. Hún kvaðst ekki vita ástæðu þess að meðákærðu X, Z og Róbert fóru með að [heimilisfang] á þessum tíma. Ferðin hafi ekki verið skipulögð fyrir fram á neinn hátt, hvorki samskiptin við A né að taka þaðan muni eins og gert var. Hins vegar hafi hún haft meðferðis dótið sem hún batt A með til notkunar  „ef til kæmi“  að hennar sögn. Öll ákærðu hafi haldið þangað saman. Hún kvað A hafa hleypt sér inn og eftir það hafi dyrnar verið skildar eftir opnar og meðákærðu þannig komist inn á eftir ákærðu. Við þingfestingu málsins játaði ákærða sök samkvæmt 1. lið ákæru en undir aðalmeðferð málsins var framburður hennar breyttur um þetta og hún kvaðst ekki hafa hleypt meðákærðu inn eins og lýst er í 1. lið þessa kafla ákærunnar. Hún kvaðst ekki muna hvort borið hafi á góma fyrir ferðina að sækja ætti muni til A, sem þau Y, Arnar Óli og Róbert ættu. Eftir að inn var komið hafi Arnar Óli og Róbert þvingað A til að setjast og hafi hún bundið hann fastan, allt eins og lýst er í 2. tölulið ákærunnar. Hún kvaðst hafa sett höfuðgrímuna þannig á A að útilokað hafi verið fyrir hann að sjá það sem gerðist þar sem göt fyrir augu hafi snúið aftur, auk þess sem bundið hafi verið fyrir augu A með nælonsokk. Hún kvaðst telja að þau hafi verið í húsnæði A í um 20 mínútur, þar af hafi A verið bundinn hluta tímans. Ákærða bar um það að A hafi tekið eitthvað frá þeim Arnari Óla. Ráða mátti af framburði hennar að tilgangurinn með því að binda hann fastan hafi verið að ræða við hann vegna þessa og „sýna honum að svona gengur ekki“ og hafi hann verið spurður hvernig hann ætlaði að greiða það sem hann hefði tekið frá þeim. Eftir þetta og meðan A var bundinn fastur hafi hann sagt að þau mættu fá hjá honum muni þar sem hann hefði ekki peninga til að greiða með. Y kvaðst ekki hafa séð samskipti Arnars Óla og Róberts við A og ekki geta borið um það sem þeim er gefið að sök í 3. lið ákærunnar. Hún kvað A hafa rænt Arnar Óla í hvert sinn sem hann sofnaði, að því er skilja mátti er hann var í heimsókn hjá A. A hafi sagst ætla að láta af hendi muni í stað þess sem hann hefði áður „rænt af þeim Arnari Óla“. Munirnir sem teknir voru og þau ákærðu Z og Róbert tíndu saman hafi verið munir sem A benti á. Hann hafi sagt „gerið svo vel“ en hann hafi að vísu verið bundinn er hann sagði þetta. Hún kvaðst hafa borið munina samkvæmt 4. lið ákæru út í bíl og hafi þeir síðan verið fluttir á heimili hennar. Hjá lögreglu greindi ákærða m.a. svo frá að hún hafi séð Róbert lemja A og fleira. Fyrir dómi kvað hún þennan framburð sinn rangan, ósætti hafi verið milli þeirra Róberts á þessum tíma og hún í mikilli neyslu og hið rétta sé að hún hafi ekki séð það sem fram fór í eldhúsinu eftir að hún fór þaðan.                Ákærði Z neitar sök. Hann kvað annað hvort Y eða Arnar hafa hringt í sig á þessum tíma og beðið sig um að keyra þau. Hann kvaðst þá hafa farið ásamt X, sem var með honum í bílnum, heim til Y  þar sem hann stoppaði stutta stund en þá hafi verið þar fyrir, auk Y, þeir Arnar Óli og Róbert. Hann kvaðst ekki minnast þess að rætt hafi verið um tilgang fararinnar að [heimilisfang], þangað sem haldið var skömmu síðar en ákærði hafi einungis tekið að sér að keyra fólkið þangað. Er komið var í [heimilisfang] hafi Y og Arnar rætt um að sækja þyrfti dót inn í húsnæðið. Y hafi þá farið út og inn í húsnæðið en hún hafi síðan opnað fyrir öðrum ákærðu um 10 mín. síðar og allir farið inn í íbúðina. Ákærði kveðst ekki þekkja Aog ekki hafa átt nein samskipti við hann á staðnum. Ákærði kvað Róbert og Arnar hafa rætt eitthvað við A inni í eldhúsi. Ákærði kvaðst ekki hafa séð hvað þar átti sér stað en hann kvaðst hafa séð A bundinn í eldhúsinu og með hettu yfir höfðinu. Hann kvað Arnar Óla hafa haft meðferðis fjaðurhníf. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa séð hann ógna Ameð hnífnum og framburður sinn hjá lögreglu þar um væri rangur og hann tæki hann til baka. Hnífurinn hafi ekki verið opinn. Hin ákærðu hafi farið inn í stofu þar sem Y hafi beðið þau Róbert um að taka muni sem ákærði kvaðst hafa gert ásamt þeim Róbert og Y. Munirnir, sem í ákæru greinir, hafi verið tíndir til og fluttir út í bíl en hann taldi að ákærðu hafi verið á heimili A í um hálfa klukkustund. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að rætt hafi verið um afsal meðan á dvölinni hjá A stóð. Hann kvað þá X hafa farið saman í burtu.

   Ákærði Róbert Wayne neitar sök að hluta en játar að hluta eins og nú verður lýst. Hann kvaðst ásamt Arnari Óla hafa verið staddur á heimili Y ásamt henni er Arnar Óli hafi greint frá því að hann ætti bíllykla hjá A sem A vildi ekki láta af hendi. Hann kvaðst ekki vita hvernig til þess kom að ákærðu, Z og X, komu með heim til A  nema vegna þess að þeir hafi ætlað að keyra önnur ákærðu heim til hans. Y hafi farið heim til A og rætt við hann er komið var í [heimilisfang]. Hún hafi verið á leiðinni út og A staðið í útidyrunum er ákærðu fóru inn í íbúðina til hans. Eftir að þangað var komið hafi A farið inn í eldhús og kvað ákærði sig minna að Arnar hafi sagt A að setjast niður. Ákærði kvaðst ekki hafa sagt honum að setjast og neitaði þannig sakargiftum sem lýst er í 2. tölulið ákærunnar. Hann kvaðst ekki tjá sig um það hvort A var bundinn í eldhúsinu en lýsti því síðar í skýrslutökunni að það hafi átt sér stað án hans vitneskju. Arnar hafi síðan losað A með því að skera á böndin en þeir Arnar hafi verið inni í eldhúsinu auk A allan tímann sem dvalið var í íbúðinni. Ákærði neitaði því að hafa veist að Ameðan hann var keflaður og bundinn eins og lýst er í 3. tölulið ákærunnar. Hann neitaði að hafa kýlt og sparkað í A. Hann kvaðst hafa séð Arnar Óla hella eldfimum vökva yfir A. Þá kvaðst hann hafa heyrt Arnar Óla hóta að stinga A með sprautu eins og lýst er í ákærunni. Þá hafi Arnar Óli hótað A með fjaðurhníf. Hann kvaðst ekki muna að hafa heyrt Arnar Óla hóta A með því að bora í hnéskeljar á honum eða mölva í honum tennur. Ákærði kvaðst hafa haft járnstöng meðferðis en hann hafi ekki notað stöngina og sé ákæran röng að því leyti. Hann hafi tekið járnstöngina með vegna þess að fyrir lá að A vildi ekki láta lyklana fúslega af hendi eftir því sem Arnar Óli hafði sagt. Ákærði kveðst aldrei hafa vitað af öðrum tilgangi fararinnar í [heimilisfang] en þann að sækja bíllyklana sem áður er getið um. Hann neitaði þannig að tilgangurinn hefði verið sá sem lýst er í niðurlagi þessa ákæruliðar. Hann kvað hafa verið rætt um það að bíll í eigu A ætti að ganga upp í skuld BA við Arnar og í því sambandi hafi verið rætt um að A gæfi út afsal til Arnars. Ákærði kvaðst hafa verið inni í eldhúsinu meðan munirnir voru teknir úr íbúðinni og hafi hann ekki vitað af því hvað var tekið og hann hafi heldur ekki orðið „mjög mikið“ var við meðan á dvölinni stóð að verið væri að fjarlægja muni þaðan en hann hafi vitað að verið væri að leita bíllyklanna sem áður er lýst. Hann kvaðst áætla að ákærðu hafi dvalið í um eina klukkustund í íbúð A.

   Ákærði játaði sök samkvæmt 5. tölulið þessa kafla ákærunnar.

   Vitnið, A, kvaðst þekkja ákærðu Arnar og Y lítils háttar en aðra ákærðu þekki hann ekki. Hann kvaðst hafa setið að drykkju ásamt Arnari og Y deginum áður á heimili sínu. Um morguninn kvaðst A hafa ekið Y heim til sín en Arnar hafi orðið eftir á heimili hans. Er hann kom til baka hafi allt verið uppljómað og opið upp á gátt. Hann hafi þá séð að fartölva og prentari var horfinn. Hann hafi þá árangurslaust reynt að ná sambandi við Arnar. Hann hafi þá hringt í Y og sagt henni að Arnar fengi frest til kvölds til að skila því sem hann tók ella myndi hann kæra. Y hafi ætlað að reyna að hafa upp á mununum og hafi hann verið í símsambandi við hana af og til allan daginn uns hún hringdi og sagðist hafa haft upp á tölvunni en ekki prentaranum. Y kvaðst hafa komið heim til sín upp úr klukkan 19 þetta kvöld og Y hafi boðað komu sína síðar með tölvuna. Y hleypti henni inn er hún hringdi á dyrabjöllunni en Y hafi aðspurð sagst vera ein á ferð. Hún hafi síðan komið og skilað tölvunni. Skömmu síðar hafi hún sagst þurfa að sækja eitthvað út í bíl. Hún hafi þá farið niður og hleypt hinum þremur inn en A kveðst ekki vita hvort fjórir komu inn auk Y. Mönnunum hafi hann ekki hleypt inn til sín. Atók fram að hann hafi ekki séð annað en það sem gerðist í eldhúsinu og því viti hann ekki með vissu fjölda þeirra sem komu inn í húsið.  Eftir að inn var komið hafi Arnar og Róbert skipað sér að setjast á stól. Y hafi síðan bundið sig á höndum og fótum, auk þess að setja gúmmíhettu yfir höfuðið á honum. Hann kvað Arnar ranglega hafa sakað sig um að halda fyrir sér bíllyklum. Eftir þetta hafi hann svo verið spurður um verðmæti sem væru í íbúðinni en það hafi Arnar gert. Bæði Arnar og Róbert hafi lamið sig með hnefum og sparkað í sig en A hafi séð illa það sem fram fór. Þó hafi hann séð þetta en sum höggin komu eftir að gríman var tekin af höfði hans. Eftir að böndin voru losuð af honum, sem hann kvað sig minna að Arnar hafi byrjað að losa en Y klárað að mestu leyti, hafi Róbert slegið hann í höfuðið með járnkylfu svo hann féll í gólfið þar sem báðir spörkuðu í hann liggjandi. Róbert hafi einnig lamið hann með járnkylfu í hnéskelina. Þá hafi Arnar hótað sér með sprautu eins og lýst er í ákærunni. Hann kvað Arnar og Óla hafa hótað sér að mölva í sér tennur og bora í hnéskeljar á honum auk hótunar með sprautu eins og lýst er í ákærunni. Þetta hafi allt átt sér stað í eldhúsinu en annað veifið hafi annar þeirra Arnars og Róberts farið inn í stofu að leita verðmæta. a kvað fólkið ekki hafa komið til sín vegna skulda sem hann stæði í við eitthvert af fólkinu og A kvaðst aldrei í atburðarásinni hafa sagt að þau mættu taka það sem þau vildu. Arnar Óli hafi hins vegar spurt sig um myndavél en hann hafi aldrei verið spurður um önnur verðmæti. Þá kvað hann Arnar hafa tekið fram að þau hafi ekki komið vegna neinnar skuldar og aldrei hafi komið fram hjá þeim hvert tilefni komu þeirra var. Arnar hafi farið fram á að hann afsalaði bílnum til sín og hafi hann spurt um afsal í þessu sambandi. Arnar og Róbert hafi reynt að fá sig til að gefa út afsal í þessu skyni eins og lýst er í ákærunni. A taldi að fólkið hefði dvalið í um eina klukkustund á heimili sínu. Hann kvað einhver högg hafa dunið á sér eftir að hann var losaður úr böndunum og dót í hans eigu hafði verið sett í tösku. Hafi fólkið farið út og hafi þau haft á orðið að þau kæmu daginn eftir til að ganga frá afsalinu fyrir bílnum. A kvaðst engin samskipti hafa átt við aðra ákærðu en þau sem rakin hafa verið hér að framan. A kvaðst hafa farið á slysadeild til skoðunar eftir þetta. Hann lýsti afleiðingum árásarinnar fyrir sig. Hann hafi m.a. verið frá vinnu í rúma viku vegna þessa og auk þess lýsti A andlegum áhrifum þessa á sig. Hann hafi ekki þorað út úr húsi um tíma og lýsti því að hann hafi ekki enn jafnað sig eftir þetta.

   Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss, staðfesti og skýrði læknisvottorð dagsett 2. febrúar 2007 en vottorðið er ritað vegna komu A á slysadeild klukkan 22.30 að kvöldi 30. janúar sl.

   John Donne de Niet geðlæknir lýsti meðferð sem ákærði Arnar Óli sætti hjá honum frá því í febrúar til ágúst á þessu ári meðan hann sætti fangavist. Hann lýsti andlegu ástandi Arnars Óla á þessum tíma.

   B varðstjóri og C rannsóknar­lögreglu­maður staðfestu skýrslur sem hvor um sig ritaði vegna málsins. Ekki er ástæða til þess að rekja þær hér.

   Vitnið, D, kom fyrir dóminn. Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð hans sem varpar ekki ljósi á málavexti.

                   Ákæruliður II.

   Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

   Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

   Ákæruliður III.

   Sannað er með skýlausri játningu ákærðu fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að ákærða hafi gerst sek um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir og eru brot hennar rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

   Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

   Niðurstaða ákæruliðar I.

   1-5

   Samkvæmt þessum kafla ákærunnar er öllum ákærðu gefin að sök frelsissvipting, húsbrot og rán. Öllum er gefið að sök að hafa í heimildarleysi ruðst inn á heimili A, svipt hann frelsi sínu og beitt hann ofbeldi og hótunum um ofbeldi í því skyni að ná frá honum verðmætum en ákærðu höfðu verðmætin á brott með sér. Undir meðferð málsins féll ákæruvaldið frá þeim hluta I. kafla ákæru er lýtur að Canon prentara að verðmæti 10.000 krónur og Webcam myndavél að verðmæti 4.000 krónur.

   Með framburði ákærðu Y, Z og Róberts Wayne og með vitnisburði A er sannað að munirnir, sem taldir eru upp í I. kafla ákæru að teknu tilliti til breytinga á ákæru sem raktar voru, voru fjarlægðir af heimili A að kvöldi mánudagsins 29. janúar 2007.

   Öllum ákærðu er gefið að sök húsbrot. Samkvæmt 2. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga sæta húsbrot opinberri ákæru eftir kröfu þess manns sem misgert er við. Dómurinn lítur svo á að með kæruskýrslu A frá 31. janúar 2007 hafi komið fullnægjandi kæra af hans hálfu sem taki jafnt til húsbrots sem annarra brota sem framin voru á þessum tíma.

                   Verður nú vikið að einstökum töluliðum þessa kafla ákæru en fjallað verður um ætlað húsbrot allra ákærðu undir tölulið 1.

   1.  Vitnið A og ákærða Y bera á sama veg um það að A hafi hleypt Y inn í húsnæði sitt á þeim tíma sem hér um ræðir. Hún fór því ekki þangað inn án heimildar og varðar innganga hennar í húsnæðið því ekki við 231. almennra hegningarlaga og er hún sýknuð af því ákæruefni. Við þingfestingu málsins játaði ákærða sök samkvæmt þessum ákærulið en breytti framburði sínum síðar. Breyttur framburður ákærðu Y varðandi það að hún hafi ekki hleypt öðrum ákærðu inn í húsnæðið, eins og lýst er í þessum ákærulið, er órökstuddur og í ósamræmi við flest annað sem fram er komið í málinu. Er þannig sannað, með upphaflegum framburði ákærðu Y fyrir dómi og með framburði meðákærðu Arnars Óla, X og Z og með stuðningi af vitnisburði A, að ákærða hafi hleypt meðákærðu inn í húsnæðið eins og hér er lýst og þykir hún með því hafa gerst sek um hlutdeild í húsbroti meðákærðu og varðar þessi háttsemi hennar þannig við 231. sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Húsbrot annarra ákærðu er sannað á sama hátt og breytir framburður ákærða Róberts Wayne engu hér um en hann kvað A hafa staðið í dyrunum er ákærðu fóru inn í húsnæðið. Fyrir liggur samkvæmt vitnisburði A og svo sem ráða má af framburði allra ákærðu, að þau fóru öll, utan ákærða Y, heimildarlaust inn á heimili A og varðar sú háttsemi við 231. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir. Ránsbrot ákærðu tæmir því ekki sök gagnvart húsbroti þeirra skv. 231. gr. almennra hegningarlaga eins og á stendur. 

   2.  Sannað er með vitnisburði Aog með skýlausri játningu ákærðu Y og Arnars Óla en gegn neitun ákærða Róberts Wayne, að ákærðu hafi öll gerst sek um háttsemi þá sem hér er ákært fyrir. Virða ber háttsemina sem hér um ræðir sem samverknað. Samkvæmt ákærunni er brot ákærðu talið varða við 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga. Skilja verður ákæruna svo að sú heimfærsla byggist á því sem segir í upphafi I. liðar ákæru, að brotin hafi ákærðu framið í því skyni að fá hjá A verðmæti. Frelsissviptingin hafi þannig verið framin í ávinningsskyni eins og lýst er í 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga. Ákærðu hafa neitað því að hafa framið þetta brot í ávinningsskyni og vísast til framburðar þeirra hér að framan um þetta. Hins vegar er atburðarásin er virt í heild og með hliðsjón af því sem síðar gerðist og rakið er í ákæruliðnum 3 og 4 og með vísan til vitnisburðar A, telur dómurinn sannað gegn neitun ákærðu að frelsissviptingin hafi átt sér stað í ávinningsskyni og varðar brot ákærðu því við 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga.

   3.  Ákærðu Arnar Óli og Róbert Wayne veittust að A meðan hann var keflaður og bundinn eins og nú verður lýst.

   Sannað er með játningu ákærða Arnars Óla og öðrum gögnum málsins að hann hellti yfir A eldfimum vökva, eins og lýst er í þessum ákærulið. Öðrum hlutum þessa ákæruliðar hefur ákærði Arnar Óli neitað. Með vitnisburði A og með framburði meðákærða Róberts Wayne er sannað, gegn neitun ákærða Arnars Óla, að hann hafi hótað að stinga A með sprautu og ógnað A með fjaðurhníf eins og lýst er í þessum ákærulið. Gegn eindreginni neitun ákærða Arnars Óla er ósannað að hann hafi framið aðra þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þessum ákærulið og er hann sýknaður að því leyti.

   Sannað er með vitnisburði Aog með framburði ákærða Arnars Óla en gegn neitun ákærða Róberts Wayne að hann kýldi og sparkaði í A, auk þess að slá hann með járnstöng í vinstra hnéð. Málsatvik varðandi afsalsgerð eru mjög óljós og eru ákærðu sýknuð af þeim hluta þessa ákæruliðar. Ákærða Y kvað A, meðan hann var bundinn fastur, hafa sagt ákærðu að gjöra svo vel að taka muni sem þau vildu en sækja hafi átt bíllykla til hans. Ákærði Róbert  Wayne bar m.a. um þann tilgang ferðarinnar að [heimilisfang] að sækja þangað bíllykla sem A hafi ekki viljað láta af hendi og hann hafi þess vegna tekið með sér járnstöng. Ákærði Arnar Óli bar um að finna hafi átt lykla hjá A auk þess að ,,hræða hann“. Að þessu og öðrum gögnum málsins virtum, og með vitnisburði A, er sannað gegn neitun ákærðu að hluta að ákærðu gerðu það sem þeir eru hér sakfelldir fyrir í því skyni að skapa skelfingu hjá Aog þvinga hann eins og greinir í ákærunni. 

   4.  Eins og rakið var að framan er sannað að verðmætin, sem talin eru upp í I. lið ákærunnar voru tekin á heimili A og komið fyrir í bifreiðinni fyrir utan. Hafa öll ákærðu samkvæmt þessum ákærulið borið um sinn þátt í því en ákærðu X og Z neita sök. Fram er komið að ákærði Z tók að sér að keyra ákærðu Arnar Óla, Y og Róbert Wayne að [heimilisfang] þetta kvöld. Það að ákærði X fór í þessa ferð virðist hafa verið sökum þess að þeir ákærðu Z voru saman á bíl þess síðarnefnda. Hvorugur þessara ákærðu kvaðst hafa vitað um annan tilgang ferðarinnar að [heimilisfang] en að sækja þangað muni í eigu ákærðu Y, Arnars Óla og Róberts Wayne. Þá þekkti hvorugur þeirra A fyrir eins og raunin var um ákærðu Y og Arnar Óla. Eins og lýst er í upphafi I. kafla ákærunnar er öllum ákærðu gefin að sök frelsissvipting, húsbrot og rán. Áður var fjallað um húsbrot allra ákærðu og vísast til umfjöllunar þar um undir lið 1. Ákærðu X og Z höfðu engin samskipti við A meðan þeir og aðrir ákærðu dvöldu á heimili hans. Engin efnislýsing er í ákærunni varðandi þessa ákærðu er lýtur að ætlaðri frelsissviptingu þeirra enda áttu þeir engin samskipti við A og sömuleiðis er ekkert í ákærunni utan inngangskaflans, sem varðar ætlað ránsbrot þessara tveggja ákærðu en í inngangskaflanum segir að A hafi verið beittur ofbeldi og hótunum um ofbeldi í því skyni að ná frá honum verðmætum. Ekkert er fram komið í málinu um það að ákærðu X og Z hafi viðhaft slíka háttsemi gagnvart A og hefur A sjálfur ekki borið um það. Samkvæmt þessu er ósannað að þessir tveir ákærðu hafi gerst sekir um frelsissviptingu og rán og eru þeir sýknaðir af þessum hluta ákærunnar.

   Þegar þáttur ákærðu Y er virtur í heild en hún tók þátt í frelsissviptingarbrotinu, sbr. ákærulið 2, er ljóst að virða ber háttsemi hennar samkvæmt þessum ákærulið þannig að hún varði við 252. gr. almennra hegningarlaga.

   5.                Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem hér um ræðir. Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu samkvæmt þessum ákærulið

   Háttsemi ákærðu Arnar Óla, Y og Z virt í heild þykir varða við þau lagaákvæði sem í ákæru greinir.

                   Þótt ekki sé unnt að slá neinu föstu um tímann sem A var bundinn og keflaður á heimili sínu er ljóst að hann var nokkur og augljóst hversu þungbært þetta hefur verið fyrir A eins og hann lýsti sjálfur fyrir dóminum. Brot ákærðu Arnar Óla, Y og Róberts Wayne samkvæmt I. kafla ákæru er ófyrirleitið og unnið í sameiningu og er það virt ákærðu til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þessi ákærðu virðast að einhverju leyti hafa skipulagt fyrirfram hvað gera átti við A enda fór ákærða Y með útbúnað til að binda og kefla A og ákærði Róbert Wayne með barefli. Allt þykir þetta bera vott styrkum og einbeittum brotavilja þessara ákærðu, sbr. 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og er það virt til refsiþyngingar.  

   Ákærði Arnar Óli hefur frá árinu 2001 hlotið 7 refsidóma fyrir fíkniefnabrot, umferðarlagabrot, skjalafals, þjófnað og brennu. Hann hlaut síðast dóm 5. desember 2005 en það var sektardómur fyrir fíkniefnabrot. Ákærði hlaut hinn 8. nóvember 2006 reynslulausn í 2 ár á 240 daga eftirstöðvum refsingar. Honum hefur þegar verið gert að afplána framangreindar eftirstöðvar refsingar og verður því ekki fjallað um reynslulausnina við úrlausn máls þessa.    

   Ákærða Y hlaut skilorðsdóm fyrir þjófnað á árinu 2004. Hún hefur staðist skilorð. Auk þessa hefur henni frá árinu 2001 fram í maí 2005 fjórum sinnum verið gerð sektarrefsing fyrir fíkniefnabrot. Ákærða hefur að langmestu  leyti játað brot sín og er það virt henni til refsilækkunar.

   Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærðu Arnars Óla og Y, hvors um sig, hæfilega ákvörðuð fangelsi í 18 mánuði.          

   Ákærði Róbert Wayne hlaut hinn 12. júlí 2005 6 mánaða fangelsisdóm fyrir líkamsárás og gripdeild, þar af voru 5 mánuðir skilorðsbundnir í 2 ár. Hinn 23. maí 2006 hlaut ákærði 1 mánaðar fangelsisdóm fyrir þjófnað og var dómurinn skilorðsbundinn til tveggja ára. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð beggja dómanna og ber að dæma þá upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða Róberts Wayne þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.

   Ekki þykja efni til að skilorðsbinda fangelsisrefsingu neins ofangreindra.

   Frá refsivist ákærðu Arnars Óla og Róberts Wayne, með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga, skal draga gæsluvarðhald er þeir sættu vegna málsins.

   Ákærðu X og Z hafa hvorugur sætt refsingu fyrr. Báðir eru sakfelldir fyrir húsbrot og þykir refsing hvors um sig hæfilega ákvörðuð 75.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 6 daga fangelsi í stað sektarinnar.

   Ákærða Y hefur samþykkt allar upptökukröfurnar sem beint er að henni. Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða varðandi hvern og einn upptökulið er hún dæmd til að þola upptöku muna eins og krafist er og nánar lýst í dómsorði.

   Með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 16/1998 er ákærði Arnar Óli dæmdur til að þola upptöku á skotfærum og eftirlíkingu af skammbyssu.

                   Skilja verður bótakröfu A þannig að hún beinist að öllum ákærðu. Ákærðu X og Z hafa verið sýknaðir af háttsemi sem bótakrafan byggist á og verður ekki fjallað um bótakröfuna varðandi þessa tvo ákærðu. Bótakrafan samanstendur af eftirfarandi kröfuliðum;

1.             Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón

65.302 krónur

2.             Bætur fyrir miska

800.000 krónur

3.             Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga

33.900 krónur

4.             Tjón á bifreiðinni [...]

272.852 krónur

5.     Lögmannskostnaður, þar með talinn virðisaukaskattur

105.411 krónur

   Öllum kröfuliðum hefur verið andmælt. Viðhlítandi gögn fylgja ekki kröfu­liðunum um tímabundið atvinnutjón og þjáningabætur og er þeim vísað frá dómi. Bifreiðin [...] var hluti ránsfengsins sem ákærðu hafa verið sakfelld fyrir og eru þau bótaskyld vegna háttsemi sinnar og tjóns sem hlaust af. Eru þau dæmd til að greiða óskipt 272.852 krónur í viðgerðarkostnað en fyrir liggur reikningur vegna hans. Þá á A rétt á miskabótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 200.000  krónur.

   Ákærðu Arnar Óli, Y og Róbert Wayne eru þannig dæmd til að greiða A 472.852 krónur óskipt auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en vaxtakröfu var ekki andmælt. Auk þessa greiði þessi ákærðu A óskipt 99.600 krónur í réttargæsluþóknun til Ólafs Arnar Svanssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.

   Ekki er ljóst að hverjum bótakrafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. beinist og ber að vísa kröfunni frá dómi.

   Ákærðu Arnar Óli, Y og Róbert Wayne greiði óskipt 60.611 krónur í sakarkostnað sem til féll á rannsóknarstigi.

   Ákærði Arnar Óli greiði 660.348 krónur í málsvarnarlaun til Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns bæði fyrir vinnu á rannsóknarstigi og við dómsmeðferð. Auk þessa greiði ákærði verjandanum 12.750 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

   Ákærðu X og Z greiði óskipt 1/4 hluta af 373.500 króna málsvarnarlauna til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns á móti 3/4 hlutum sem greiðast úr ríkissjóði. Ákærði Z greiði Hilmari 74.700 krónur vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi málsins.

   Ákærða Y greiði 311.250 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og 103.584 vegna verjandastarfa Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns.

   Ákærði Róbert Wayne greiði 621.504 króna málsvarnarlaun til Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, bæði fyrir vinnu á rannsóknarstigi og við dómsmeðferð.

   Við ákvörðun þóknunar hefur í öllum tilvikum verið tekið tillit til virðis­aukaskatts.

   Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

   Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

   Ákærði, Róbert Wayne Love, sæti fangelsi í 2 ár.

   Ákærðu, Arnar Óli Bjarnason og Y, sæti hvort um sig fangelsi í 18 mánuði.

   Frá refsivist ákærðu, Arnars Óla og Róberts Wayne, skal draga gæsluvarðhald er þeir sættu vegna málsins.

   Ákærðu, X og Z greiði hvor um sig 75.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 6 daga fangelsi í stað sektarinnar.

   Ákærða, Y, sæti upptöku á leðurgrímu, munnkúlu með áfastri ól, 5 knippum af reipi, butterfly hnífi, 0,05 g af amfetamíni og 0,76 g af tóbaksblönduðu kannabis.

   Ákærði, Arnar Óli, sæti upptöku á skotfærum og eftirlíkingu af skammbyssu.

    Ákærðu, Arnar Óli, Y og Róbert Wayne, greiði A 472.852 krónur óskipt auk 4,5 % vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, frá 29. janúar 2007 til 2. apríl 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

   Ákærðu, Arnar Óli, Y og Róbert Wayne, greiði óskipt 99.600 krónur í réttargæslu­þóknun til Ólafs Arnar Svanssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.

   Bótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er vísað frá dómi.

   Ákærðu, Arnar Óli, Y og Róbert Wayne, greiði óskipt 60.611 krónur í sakarkostnað á rannsóknarstigi.

   Ákærði, Arnar Óli, greiði Björgvini Jónssyni hæstaréttarlögmanni 660.348 krónur í málsvarnarlaun og 12.750 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

   Ákærðu, X og Z, greiði óskipt 1/4 hluta 373.500 króna málsvarnarlauna til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns á móti 3/4 hlutum sem greiðast úr ríkissjóði. Ákærði Z greiði Hilmari 74.700 krónur vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi málsins.

   Ákærða, Y, greiði Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 311.250 krónur í málsvarnarlaun og 103.584 krónur vegna verjandastarfa Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns á rannsóknarstigi málsins.

   Ákærði, Róbert Wayne, greiði Bjarna Haukssyni héraðsdómslögmanni 621.504  krónur í málsvarnarlaun.