Hæstiréttur íslands

Mál nr. 455/2000


Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Ölvunarakstur
  • Blóðsýni
  • Þvagsýn
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. mars 2001.

Nr. 455/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Birni Hrannari Björnssyni

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Umferðarlög. Ölvunarakstur. Blóðsýni. Þvagsýni. Aðfinnslur.                

B var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Lögreglumenn höfðu handtekið B í námunda við bifreið sem ekið hafði verið glannalega skömmu áður. Báru lögreglumenn fyrir dómi að B hefði verið ölvaður er hann var handtekinn. Við lögregluyfirheyrslur neitaði B í fyrstu að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar en viðurkenndi það að lokum. Kvaðst hann á hinn bóginn lítið hafa drukkið af áfengi fyrir aksturinn en talsvert eftir að akstrinum lauk. Nokkuð langur tími leið frá handtöku B þar til blóð- og þvagsýni var tekið úr honum. Vegna þess varð ekkert fullyrt um ölvun B á meðan á akstrinum stóð. Var B því sýknaður. Fundið var að því að rökstuðningur héraðsdómara að niðurstöðu hefði ekki verið nægjanlega skilmerkilegur.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2000. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að honum verði dæmd vægustu viðurlög sem lög leyfa.

I.

Svo sem greinir í ákæru var ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt 17. júní 2000 ekið bifreiðinni KI 466 undir áhrifum áfengis frá veitingastað á Flúðum að sundlaug í Þjórsárdal í Gnúpverjahreppi, þaðan eftir Þjórsárdalsvegi og inn á hjólhýsasvæði við Skriðufell og þaðan út í Sandá þar sem hann festi bifreiðina.

Lögreglu barst tilkynning kl. 6.50 sama morgun um að rauðri bifreið af gerðinni MMC Lancer væri ekið mjög glannalega á hjólhýsasvæði við Skriðufell. Komu tveir lögreglumenn á vettvang kl. 7.25 og hófu leit að bifreiðinni. Á afleggjaranum að Ásólfsstöðum sáu þeir bifreiðina í Sandá um það bil hálfan kílómetra frá veginum. Þeir höfðu tal af ákærða og vitninu Kolbeini Hjaltasyni, sem voru skammt frá bifreiðinni. Vildi hvorugur þeirra kannast við bifreiðina. Lögregla handtók ákærða og Kolbein er í ljós kom við eftirgrennslun lögreglu að ákærði reyndist vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Samkvæmt lögregluskýrslu voru þeir handteknir kl. 8.15 og færðir í framhaldi þess á lögreglustöðina á Selfossi. Klukkan 8.55 gaf ákærði þvagsýni og kl. 9.05 var tekið úr honum blóðsýni.

Samkvæmt vottorði Rannsóknastofu í lyfjafræði reyndist magn alkóhóls í þvagsýni vera 2,27‰ en 1,62‰ í blóði.

II.

Ákærði neitar því að hann hafi verið undir áhrifum áfengis er hann ók bifreiðinni í greint sinn. Við yfirheyrslu hjá lögreglu síðdegis 17. júní 2000 neitaði hann í fyrstu að hafa ekið bifreiðinni. Kvaðst hann hafa drukkið tvö til þrjú glös af rauðvíni með mat í Árnesi kvöldið áður og slatta af bjór úr krana og töluvert af eplasnöfsum á sama stað að máltíð lokinni. Hann hafi svo drukkið nokkrar hálfs lítra dósir af bjór í bifreiðinni eftir að hann vaknaði á hjólhýsasvæðinu uns lögregla handtók hann. Síðasta bjórinn hafi hann drukkið eftir að bifreiðin festist í ánni. Við yfirheyrslu að kvöldi sama dags viðurkenndi ákærði að hann hafi verið ökumaðurinn en neitaði hins vegar að hafa verið undir áfengisáhrifum við aksturinn. Kvaðst hann nú hafi drukkið tvo eða þrjá bjóra eftir að hann ók bifreiðinni í ána og festi hana þar. Fyrir dómi sagði ákærði að fyrr um kvöldið hafi hann neytt tveggja rauðvínsglasa, nokkurs bjórs og einhvers af eplasnöfsum á veitingahúsinu Árnesi. Þaðan hafi hann farið um kl. 23.00 um kvöldið og sofnað um það leyti í bifreiðinni. Hafi hann sofið til kl. 5.00 eða 6.00 um morguninn en þá haldið ásamt tveimur félögum sínum af stað á bifreiðinni. Hann hafi ekki drukkið áfengi fyrr en eftir að bifreiðin festist en þá hafi hann drukkið þrjá eða fjóra hálfs lítra bjóra fram til þess að hann var handtekinn.

Kolbeinn Hjaltason, sem var farþegi í bifreið ákærða í umræddri ferð, staðfesti að ákærði hafi ekið bifreiðinni frá Flúðum og allt þar til hún festist í Sandá. Kolbeinn bar fyrir dómi að hann hafi ekki séð ákærða drekka áfengi fyrr en að akstri loknum.  Ákærði hafi þá drukkið „sirka þrjá“ bjóra. Við rannsókn málsins 17. júní sl. bar hann hins vegar að hann hafi ekki séð ákærða drekka áfengi frá því deginum áður þangað til þeir voru handteknir. Hinn farþeginn, Guðmundur Árnason, kvaðst hafa séð ákærða drekka eitt rauðvínsglas á veitingastaðnum Árnesi fyrr um kvöldið en annarrar áfengisneyslu ákærða kvaðst Guðmundur ekki hafa orðið áskynja. Bar hann að fljótlega eftir að bifreiðin festist hefði hann farið að sækja aðstoð til að losa hana. Kvaðst Guðmundur ekki hafa séð að ákærði hafi þá verið með bjór eða verið farinn að drekka bjór.

Leifur Gauti Sigurðsson lögreglumaður, sem handtók ákærða að morgni 17. júní, bar fyrir dómi að hann hafi farið á vettvang við annan mann til að svipast um eftir rauðri bifreið af gerðinni MMC Lancer. Þeir hafi þá séð bifreiðina fasta í Sandá og tvo menn á gangi nokkur hundruð metra frá henni í átt að hjólhýsasvæði við Skriðufell. Hafi þeir rætt við mennina sem hafi verið tregir til að gefa upplýsingar um hverjir þeir væru. Það hafi þeir þó gert að lokum og reyndust þar vera á ferð ákærði og vitnið Kolbeinn Hjaltason. Hafi ákærði þá verið mjög ölvaður. Kvað Leifur sig ekki reka minni til að ákærði hafi þá verið með áfengi. Leifur kvaðst því næst hafa skoðað bifreiðina og vél hennar hafi þá enn verið volg. Sagði hann að talsvert af áfengisumbúðum hafi verið í bifreiðinni, en hann gat ekki um það borið hvort þær voru tómar eða fullar. Þeir hafi kannað símleiðis hver eigandi bifreiðarinnar væri. Þegar í ljós kom að ákærði var eigandinn kvað Leifur þá hafa handtekið ákærða og vitnið Kolbein og fært þá á lögreglustöðina á Selfossi.

Andrés Ævar Grétarsson lögreglumaður, kvaðst hafa farið á vettvang umræddan morgun ásamt vitninu Leifi Gauta Sigurðssyni. Bar hann á sama veg um atvik og staðfesti að ákærði hafi verið ölvaður þegar þeir gáfu sig á tal við hann. Andrés treysti sér ekki til að fullyrða hvort ákærði hafi verið með áfengi þegar þeir ræddu við hann.

III.

Við meðferð málsins fór ákæruvaldið fram á, að Rannsóknastofa í lyfjafræði gæfi álit sitt á því hvað álykta mætti um ölvun ákærða kl. 6.50 umræddan morgun út frá blóðsýni, sem tekið var úr honum kl. 9.05 og þvagsýni, sem hann gaf kl. 8.55. Var niðurstaða rannsóknastofunnar sú, að hlutfall etanóls í blóði og þvagi benti til þess að ákærði hefði ekki neytt áfengis svo nokkru næmi í að minnsta kosti 1-2 klukkustundir áður en sýnin voru tekin. Ekki væri hægt að segja með nákvæmni um etanólþéttni í ákærða kl. 6.50 en miðað við hið mikla áfengismagn í blóði og þvagi hans mætti ætla að hann hefði þá verið undir áhrifum áfengis. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf ákæruvaldsins til rannsóknastofunnar 3. janúar 2001 þar sem leitað var eftir því hvort unnt væri að gefa afdráttarlausari svör eða svara með öðru orðalagi fyrra erindi ákæruvaldsins. Í svarbréfi rannsóknastofunnar 19. janúar sama árs, sem jafnframt hefur verið lagt fyrir Hæstarétt, kemur fram að það sé „nánast útilokað að drykkja 2-3 bjóra dugi til að skýra þá etanólþéttni sem mældist í blóði og þvagi.“ Í bréfinu segir ennfremur: „Okkar niðurstaða er sú að vegna þess langa tíma sem leið frá tilkynningu um grunsamlegan akstur til handtöku og annarra óvissuþátta í þessu máli sé ekki hægt að kveða miklu fastar að orði en gert var í upphaflegu áliti rannsóknastofunnar.“

IV.

Óumdeilt er að um kl. 9.00 að morgni 17. júní 2000 hafi alkóhól í blóði og þvagi ákærða verið það sem að framan greinir. Á hinn bóginn er deilt um hvort það verði rakið til drykkju ákærða áður en akstrinum umræddan morgun lauk eða eftir það tímamark.

Framburður ákærða um atvik málsins var óstöðugur um akstur hans og drykkju og tók talsverðum breytingum við lögregluyfirheyrslur. Í fyrstu neitaði hann að hafa ekið bifreiðinni en við síðari yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi viðurkenndi hann að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar. Þeir lögreglumenn sem handtóku ákærða báru báðir að við handtöku hafi hann verið ölvaður og vél bifreiðarinnar heit eða volg. Þykir hið síðarnefnda benda til þess að skammur tími hafi þá verið liðinn frá því að akstrinum lauk. Þá kemur fram í áliti Rannsóknastofu í lyfjafræði að nánast útilokað sé að drykkja tveggja til þriggja bjóra dugi til að skýra það vínandamagn sem mældist í blóði og þvagi ákærða. Þykir þetta allt eindregið benda til þess að ákærði hafi ekið undir áhrifum áfengis umræddan morgun.

Í framangreindu áliti rannsóknastofunnar kemur á hinn bóginn fram að vegna þess langa tíma sem leið frá því að lögreglu barst tilkynning um aksturslag ákærða þangað til hann var handtekinn og rannsökuð voru þvag- og blóðsýni úr honum verði ekki fullyrt að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn, þótt ætla megi að svo hafi verið. Frá því lögreglu barst tilkynning um akstur ákærða uns lögregla kom í Þjórsárdal liðu 35 mínútur. Þá hófst leit að ökumanninum. Af lögregluskýrslunni og framburði ofangreindra lögreglumannanna er óljóst hvenær þeir hittu ákærða í fyrra sinnið, en af lýsingu þeirra má ráða að leitin hafi ekki tekið langan tíma. Ekki er fram komið hvort ákærði var þá með áfengi undir höndum. Er ákærði var handtekinn var liðin tæplega ein og hálf klukkustund frá því tilkynning um akstur hans barst lögreglu.  Ólíklegt er að ákærði hafi drukkið 1½–2 lítra af sterkum bjór á þessum tíma. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir þó, gegn neitun ákærða og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, varhugavert að telja nægilega sannað að ákærði hafi í greint sinn verið undir áhrifum áfengis við akstur í skilningi 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Verður því að fallast á þá niðurstöðu héraðsdómara að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Í hinum áfrýjaða dómi er rökstuðningur að niðurstöðu ekki nægilega skilmerkilegur. Er þetta í andstöðu við 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 og aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 31. október 2000.

Mál þetta var höfðað með ákæru Sýslumannsins á Selfossi, dagsettri 6. september sl., á hendur Birni Hrannari Björnssyni, kt. 110975-4069, Háengi 6, Selfossi. 

Sakarefnið er:  "…umferðarlagabrot, með því að hafa, síðla nætur aðfaranótt laugardagsins 17. júní 2000, ekið bifreiðinni KI 446 undir áhrifum áfengis frá veitingastaðnum Úlaganum, Flúðum, að sundlaug Landsvirkjunar í Þjórsárdal, Gnúpverjahreppi, þaðan eftir Þjórsárdalsvegi í átt að bænum Ásólfsstöðum, inn á hjólhýsasvæði við Skriðufell og út í Sandá, þar sem bifreiðin festist, en lögregla kom að ákærða þar sem hann var á gangi frá bifreiðinni." 

Með þessu er ákærði talinn hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Krefst ákæruvald refsingar, sviptingar ökuréttar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Verjandi ákærða krefst þess að hann verði sýknaður og að honum verði ákveðin málsvarnarlaun úr ríkissjóði. 

Málið var dómtekið 16. þessa mánaðar að lokinni aðalmeðferð.

Ákærði kveðst hafa ekið bifreið eins og lýst er í ákæru, en segist ekki hafa verið undir áhrifum áfengis við aksturinn.  Hann kveðst hafa borðað í Árnesi að kvöldi 16. júní með kunningjum sínum.  Þar hafi hann fengið tvö rauðvínsglös með matnum.  Þá kvaðst hann hafa drukkið eitthvað af bjór og eplasnöfsum.  Eftir matinn hafi þeir farið á Útlagann, hann hafi ekki farið þar inn sjálfur, heldur sofið í bílnum.  Hann hafi ekið frá Útlaganum að sundlauginni í Þjórsárdal.  Þar hafi þeir stoppað stutt og ekið þaðan að tjaldsvæðinu við Skriðufell.  Þar hafi þeir ekið útí Sandá og festist bíllinn þar.  Þeir hafi vaðið upp á bakkann og kveðst ákærði hafa drukkið þrjá til fjóra bjóra þar á bakkanum eftir að hann hafði fest bílinn.  Lögreglan hafi komið að þeim á árbakkanum.

Ákærði staðhæfir að hann hafi ekki fundið til áfengisáhrifa við aksturinn. 

Ákærði telur að þeir hafi farið frá Árnesi um kl. 23:00.  Einhvern tíma á milli klukkan 5 og 6 um morguninn hafi þeir farið frá Útlaganum.  Þeir hafi ekki stoppað lengi í sundlauginni og farið að tjaldsvæðinu.  Lögreglu barst tilkynning um óvarlegan akstur ákærða kl. 6:50. 

Við skýrslugjöf hjá lögreglu var framburður ákærða annars efnis.  Fyrst er að geta að í frumskýrslu lögreglu segir að bifreiðin hafi fundist í ánni og þeir ákærði og Kolbeinn Hjaltason uppi á árbakkanum, en þeir hafi ekki viljað neitt kannast við bifreiðina.  Þeir voru síðan handteknir kl. 8:15 og segir í frumskýrslu lögreglu að Björn hafi sagt að Guðmundur Árnason hefði ekið bifreiðinni er hún festist.  Á sama veg var framburður hans hjá varðstjóra við skýrslutöku er hófst kl. 9:05 þennan morgun.  Við skýrslugjöf hjá rannsóknarlögreglumanni sem hófst sama dag kl. 14:30 sagði ákærði enn að Guðmundur Árnason hefði ekið bifreiðinni.  Þá lýsti hann í þessari skýrslu talsvert meiri áfengisdrykkju fyrr um nóttina en hann bar síðan um fyrir dómi.  Framburð þennan ítrekaði ákærði loks við skýrslutöku sama dag kl. 17:04.  Loks við skýrslutöku er hófst kl. 19:01 játaði ákærði að hafa ekið bifreiðinni.  Þá breytti hann og framburði um áfengisneyslu sína, kvaðst ekki hafa byrjað að drekka bjór í bifreiðinni fyrr en eftir að hann hafði fest hana í ánni. 

Við skýrslutökur hjá lögreglu óskaði ákærði ekki eftir verjanda. 

Vitnið Kolbeinn Hjaltason var á ferð með ákærða umrætt sinn.  Hann lýsti atvikum á sama hátt og ákærði.  Hann taldi að ákærði hefði ekki verið undir áhrifum áfengis og kvaðst ekki hafa orðið var við neina áfengisdrykkju ákærða um kvöldið og nóttina.  Hann hafi hins vegar drukkið bjór með sér þegar þeir voru búnir að festa bílinn. 

Vitnið Guðmundur Árnason var einnig á ferð með ákærða umrætt sinn.  Hann lýsti ferðum þeirra á svipaðan hátt og ákærði.  Hann kvaðst hafa sofnað í bílnum um klukkan fjögur, en þá hafi hann verið fyrir utan Útlagann.  Hann hafi vaknað aftur við sundlaugina, sofnað síðan aftur og vaknað er bíllinn var fastur í ánni.  Hann hafi þá farið til að sækja hjálp.  Hann kvaðst hafa séð ákærða drekka eitt rauðvínsglas í Árnesi, en kvaðst ekki hafa séð hann drekka neitt meira þar eða síðar. 

Leifur Gauti Sigurðsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði að lögreglunni hefði borist tilkynning um óvarlegan akstur rauðrar bifreiðar.  Þeir hafi síðan fundið hana í Sandá og tvo menn á leið frá henni.  Þeir hafi lítið viljað segja hverjir þeir væru.  Bifreiðin hafi verið opin og þeir hafi tekið síma sem var í bifreiðinni.  Hann minnti að mennirnir hefðu ekki verið með áfengi með sér, en það hafi verið bjór í bílnum.  Vélarhlíf bifreiðarinnar hafi verið volg, en vatnsborðið hafi náð á neðsta hluta vélarinnar.  Björn hafi verið mjög ölvaður og þreytulegur. 

Andrés Ævar Grétarsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði að mennirnir tveir sem þeir sáu við ána hafi ekki viljað kannast neitt við bifreiðina. 

Blóð- og þvagsýni voru tekin úr ákærða.  Blóðsýni var tekið kl. 8:58 um morguninn og reyndist alkóhólmagn í því 1,62‰ að reiknuðu fráviki.  Í þvagsýni sem tekið var kl. 9:05 reyndist alkóhólmagn að reiknuðu fráviki 2,44‰.

Sýslumaður leitaði til Rannsóknastofu í lyfjafræði með bréfi dagsettu10. þessa mánaðar.  Í áliti Rannsóknastofunnar, dagsettu 13. þessa mánaðar, segir m.a.:

"… Bendir hlutfall etanóls í blóði og þvagi til þess að viðkomandi einstaklingur hafi ekki neytt áfengis svo nokkru nemi í að minnsta kosti 1 -2 klst. áður en sýnin voru tekin kl. 09:05 (blóðsýni) og 08:55 (þvagsýni).  Ekki er hægt að segja með nákvæmni um etanólþéttni í viðkomandi ökumanni kl. 06:50 en miðað við hið mikla áfengismagn í blóði og þvagi má ætla að hann hafi verið undir áhrifum áfengis kl. 06:50 þennan umrædda dag."

Niðurstaða.

Framburður ákærða tók talsverðum breytingum frá handtöku fram til síðustu skýrslu hans hjá lögreglu.  Dregur það nokkuð úr trúverðugleika hans.  Lýsingar hans sjálfs á áfengisneyslu sinni í Árnesi leiða nokkrar líkur að því að hann hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn sem lýst er ákæru.  Álit Rannsóknarstofu í lyfjafræði leiðir einnig nokkrar líkur að því að hann hafi verið undir áhrifum áfengis er hann festi bíl sinn í Sandá, en að áhrifin, sem staðfest eru með rannsókn á blóð- og þvagsýnum, hafi ekki að mestu verið til komin vegna drykkju hans eftir að akstri lauk í miðri ánni.  Þá töldu lögreglumennirnir að ákærði hefði augljóslega verið ölvaður er þeir komu að honum og félaga hans hið fyrra sinnið.

Þessar miklur líkur sem leiddar eru að sekt ákærða eru gegn neitun hans sjálfs og þrátt fyrir breyttan framburð hans á rannsóknarstigi málsins þó ekki nægar til að sekt hans teljist hafin yfir skynsamlegan vafa og hann sakfelldur, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991.  Verður að sýkna ákærða af kröfum ákæruvalds.  Málsvarnarlaun greiðast úr ríkissjóði, en þau eru ákveðin 75.000 krónur.

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Ákærði, Björn Hrannar Björnsson, er sýknaður af kröfum ákæruvalds.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Sigurjónssonar hdl., 75.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.