Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2001


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Ökuréttur
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. mars 2002.

Nr. 453/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararríkissaksóknari)

gegn

Agnari Víði Bragasyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamsmeiðing af gáleysi. Ökuréttur. Hegningarauki.

B hlaut alvarlega líkamsáverka er bifreið, sem hún var farþegi í, valt utan vegar. Ökumaðurinn A, sem ákærður var fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi, auk umferðarlagabrota, lýsti aðdraganda slyssins svo, að hann hefði brennt sig við að missa logandi sígarettu milli læra sinna og hafi viðbrögð hans verið þau að kippa í stýri bifreiðarinnar sem þá hafi farið yfir á öfugan vegarhelming og þaðan út af veginum. Ekkert var komið fram í málinu um að A hefði ekið of hratt eða óvarlega miðað við aðstæður. Varð því að leggja frásögn A til grundvallar. Gegn neitun A þótti ósannað að slysið yrði rakið til gáleysis hans. Var hann því sýknaður af broti gegn 219. gr. laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1987. Með vísan til 78. gr. laga nr. 19/1940 var honum ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. laga nr. 50/1987.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. nóvember 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til frekari sviptingar á ökurétti, en að héraðsdómur verði að öðru leyti staðfestur.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá er krafist málsvarnarlauna fyrir Hæstarétti.

Atvikum málsins er lýst í héraðsdómi. Svo sem þar kemur fram ók ákærði bifreiðinni Y-18403 (fastanúmer JU 476) út af Þrengslavegi, vinstra megin miðað við akstursstefnu, þar sem hún valt, með þeim afleiðingum að farþegi í aftursæti bifreiðarinnar, Betaný Rós Samúelsdóttir, hlaut alvarlega líkamsáverka. Atburður þessi varð laust fyrir kl. 15 laugardaginn 19. ágúst 2000. Betaný Rós var sofandi þegar slysið varð og hefur því ekki getað greint frá aðdraganda þess. Farþegi í framsæti bifreiðarinnar, Árni Hörður Ragnarsson, bar í skýrslu sinni hjá lögreglu 3. október 2000 að hann hafi verið milli svefns og vöku þegar atburðurinn varð og ekki vitað hvers vegna bifreiðinni var ekið útaf og hún oltið. Hann kom ekki fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 29. desember 2000 lýsti ákærði aðdraganda slyssins svo, að hann hefði misst logandi sígarettu milli læra sinna. Þetta hafi verið „algert óhapp og er hann hafi risið aðeins upp í sætinu og ætlað að ná sígarettunni hafi hann líklega tekið í stýrið þannig að bifreiðin fór yfir á öfugan vegarhelming og síðan út af veginum vinstra megin miðað við akstursstefnu.” Þegar hann hafi áttað sig á því að bifreiðin var komin út fyrir veginn hafi hann reynt að hemla, en þá hafi bifreiðin oltið. Aðspurður kvaðst hann ekki vera viss um hver ökuhraði hans hafi verið er hann missti sígarettuna, en sagði hraðann hafa getað verið á bilinu 80 til 90 km miðað við klukkustund. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi mótmælti ákærði því að hann hafi ekið óvarlega í umrætt sinn, en ítrekaði fyrri skýringar sínar á aðdraganda slyssins með þeim orðum að hann hafi brennt sig á innanverðu læri við að missa sígarettuna og hafi viðbrögð hans verið þau að kippa í stýri bifreiðarinnar sem þá hafi farið yfir á öfugan vegarhelming og þaðan út af veginum.

Meðal málsskjala er uppdráttur lögreglu af vettvangi slyssins, þar sem sýnd eru hjólför bifreiðarinnar Y-18403 utan Þrengslavegar og dældir er gefa vísbendingu um feril bílsins í veltunni. Af uppdrættinum og ljósmyndum af vettvangi má ráða að bifreiðinni hafi verið ekið yfir vinstri helming vegarins og vegöxl utan slitlags hans og þaðan beint áfram fáeina tugi metra skáhallt niður eftir hallandi vegkantinum áður en stefna hennar breyttist og hún valt. Í málinu nýtur ekki annarra gagna um aðdraganda þess að ákærði ók bifreiðinni út af með þeim afleiðingum, sem í ákæru greinir. Þá er ekkert komið fram í málinu um að hann hafi ekið of hratt eða óvarlega miðað við aðstæður, en óumdeilt er að þær voru allar hinar ákjósanlegustu. Í ljósi alls þessa verður að leggja frásögn ákærða um akstur hans og aðdraganda slyssins til grundvallar í málinu. 

         Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið og gegn neitun ákærða þykir ósannað að hann hafi ekið ofangreindri bifreið umrætt sinn óvarlega og án nægilegrar aðgæslu þannig að slysið verði rakið til gáleysis hans. Verður hann því sýknaður af broti gegn 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 14. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Eins og fram kemur í héraðsdómi leiðrétti ákæruvaldið undir rekstri málsins ákæruna og verður niðurstaða héraðsdóms um brot ákærða gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga staðfest með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. janúar 2001 til að greiða 40.000 króna sekt vegna ölvunar við akstur og akstur án þess að hafa gilt ökuskírteini og var þá jafnframt sviptur ökurétti í 4 mánuði. Með þremur sektargerðum hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 21. maí 2001 gekkst hann undir greiðslu sektar með samtals 150.000 krónum vegna aksturs sviptur ökurétti. Hann var dæmdur vegna sams konar brots með dómi Héraðsdóms Reykjaness 8. ágúst sama ár til að greiða 100.000 krónur í sekt. Loks gekkst hann undir greiðslu 28.000 króna sektar hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 4. september 2001 vegna fíkniefnabrots. Refsing sem ákærði hefur nú unnið til er hegningarauki við framangreindar fjórar sáttir og tvo dóma. Þegar það er virt og með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga verður ákærða ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.

Um sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærða, Agnari Víði Bragasyni, verður ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.

Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 175.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 29. október 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. október sl., er höfðað með ákæru Sýslumannsins á Selfossi dags. 17. apríl 2001 á hendur ,,Agnari Víði Bragasyni, kt. 160966-3009, Hverfisgötu 86, Reykjavík fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa  laugardaginn 19. ágúst 2000, laust fyrir kl. 15, ekið bifreiðinni JU 476 suður Þrengslaveg, sveitarfélaginu Ölfusi, óvarlega og án nægilegrar aðgæslu, með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir á vinstri vegarhelming og út fyrir veginn, vinstra megin miðað við akstursstefnu, þar sem hún valt.  Við veltuna hlaut farþegi í aftursæti bifreiðarinnar, Betaný Rós Samúelsdóttir, kt. 100282-5939, tvo álíka stóra skurði á höfði, 8 -10 cm sem náðu í gegnum allt höfuðleðrið, brot á hálshrygg, nánar tiltekið á þvertindi á VII. hálslið, samfallsbrot neðst á lendhrygg og brot á þvertindi í II., III. og IV. lið lendhryggjar.  Umrætt sinn ók ákærði án þess að hafa gilt ökuskírteini, en ökuskírteini hans rann út þann 25. september 1993.  

Telst brot þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, 1. mgr. 4.gr., 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1.mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar frá 1. júní 2001 samkvæmt 101. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 44, 1993 og lög nr. 57, 1997”.

    Við aðalmeðferð málsins leiðrétti ákærandi ákæruskjalið þannig að þar sem segir ,,umrætt sinn ók ákærði án þess að hafa gilt ökuskírteini, en ökuskírteini hans rann úr 25. september 1993”, á að vera ,,umrætt sinn ók ákærði án þess að hafa gilt ökuskírteini meðferðis”. Þá krafðist ákæruvaldið þess að ákærði yrði sviptur ökurétti frá birtingu dómsins að telja. Að öðru leyti voru kröfur ákæruvaldsins óbreyttar.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara gerir hann kröfu um vægustu refsingu sem lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna, sem greiðist úr ríkissjóði.              

Málsatvik

Í frumskýrslu lögreglunnar á Selfossi kemur fram að kl. 14:45 hafi verið tilkynnt um alvarlegt umferðarslys á Þrengslavegi móts við Votaberg í Ölfusi. Lögregla hafi komið á slysstað kl. 15:06. Í skýrslu lögreglu segir að bifreiðinni Y 18403, fastanúmer JU 476, hafi verið ekið suður Þrengslaveg og að auk ökumanns, ákærða í máli þessu, hafi tveir farþegar verið í bifreiðinni.  Betaný Rós Samúelsdóttir, sem var farþegi í aftursæti bifreiðarinnar, hafði kastast út úr bifreiðinni og lá hún mikið slösuð rétt sunnan við bifreiðina er lögregla kom á vettvang. Hún var flutt með þyrlu á Slysadeild Landspítalans. Árni Hörður Ragnarsson, sem var farþegi í framsæti, var enn í bifreiðinni er lögregla kom á staðinn.  Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild Landspítalans, Fossvogi. Í frumskýrslu lögreglu segir að ákærði hafi staðið þar rétt hjá og borið sig ágætlega. Á uppdrætti lögreglu af vettvangi kemur fram að bifreiðin Y 18403 hafði lent utan vegar öfugu megin við akstursstefnu. 

Á vettvangi var haft eftir ákærða  að hann hafi verið að aka suður Þrengslaveg og ekki verið nógu vakandi við aksturinn. Skyndilega hafi hann verið kominn í vinstri vegaröxl miðað við akstursstefnu og hafi hann misst stjórn á bifreiðinni.  Þá upplýsti hann að farþegi í framsæti, Árni Hörður Ragnarsson og hann sjálfur hafi verið með spennt öryggisbelti, en farþegi í aftursæti, Betaný Rós Samúelsdóttir, hafi ekki verið með öryggisbelti spennt.

Aðstæðum á slysstað er í lögregluskýrslu lýst svo, að dagsbirta og sólskin hafi verið. Yfirborð vegarins var olíuborið, slétt, fast og þurrt. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að bifreiðin Y 18403 hafi skemmst mikið.   

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð Gunnars Péturssonar, læknis á bæklunarskurðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi. dags. 12. desember 2000.  Þar segir um áverka Betanýjar Rósar Samúelsdóttur.: „Við skoðun er hún með tvo stóra skurði fronto parietalt annan  8-10 cm og náði hann í gegnum allt höfuðleðrið og sást í höfuðkúpu þar undir. Töluverð óhreinindi voru í skurðinum. Vinstra megin er álíkastór skurður jafn djúpur og einnig óhreinn. Sárbarmar tættir. Var hún send í tölvusneiðmynd af höfði, hálsi og svonefnt traumascann. Ekki var að sjá neina innri höfuðáverka né beináverka í höfðukúpu. Í ljós kom brot á hálshrygg það er processus transversus CVII.  Samfallsbrot  á distal lendarhrygg og brot á processus transversus L II - III og IV”.  Í lokaorðum vottorðsins kemur fram að Betaný Rós hafi verið flutt á bæklunarskurðdeild eftir sólarhrings dvöl á gjörgæslu og hafi þá komið í ljós að hún var með íferð í lunga, sýkingu í hægri olnbogabót og ræktuðust bakteríur úr blóði.  

Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum á þann veg að hann hafi verið að aka bifreið sinni umrætt sinn suður Þrengslaveg. Hann kvaðst ekki hafa ekið óvarlega, en ástæða þess að bifreiðin hafi farið út af veginum hafi verið sú að hann hafi misst sígarettuglóð milli læra sinna og brennt sig á innanverðu læri. Viðbrögð hans hafi verið þau að hann kippti í stýri bifreiðarinnar sem hafi þá farið yfir á öfugan vegarhelming og þaðan út af veginum og síðan oltið.  Ákærði kvaðst í umrætt skipti hafa haft gilt danskt ökuskírteini.

Vitnið Betaný Rós Samúelsdóttir kom fyrir dóm. Hún kvaðst hafa verið að skemmta sér í Reykjavík og hitt ákærða. Hún kvaðst ekki muna eftir atvikum, en ákærði hafi sagt sér að hún hafi farið með sér í partý fyrir umrædda ökuferð austur fyrir fjall. Hún hafi ákveðið að fara með ákærða austur því kærasti hennar hafi búið nálægt Þorlákshöfn, en þangað hafi ferðinni verið heitið. Hún hafi hins vegar sofnað fljótlega eftir að hún kom í bílinn og verið sofandi þegar áreksturinn varð. Hún kvaðst ekki muna eftir sér fyrr en á sjúkrahúsinu. Vitnið upplýsti að hún hafi verið tæpan mánuð á spítala, en náð nokkurn veginn heilsu aftur. Endanlegt mat á heilsu hennar liggi hins vegar ekki fyrir.

    Björn E. Grétarsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti aðstæðum á vettvangi þannig að bifreiðin hafi verið utan vegar og greinilegt hafi verið af ummerkjum að hún hafði oltið. Vitnið kvaðst hafa komið með þeim síðustu á vettvang. Þá hafi sjúkraliðar verið að sinna stúlkunni, maður hafi setið í framsæti bifreiðarinnar og annar maður, ákærði, hafi ráfað þarna um. Vitnið kvaðst hafa rætt við ákærða á vettvangi og spurt hann hvar stúlkan hafi setið og hvort hún hafi verið í öryggisbelti. Ákærði hafi sagt að stúlkan hafi ekki verið í öryggisbelti. Um ástæðu þess að bifreiðin fór út af minnti vitnið að ákærði hafi sagt að hann hafi hreinlega verið þreyttur og ekki með hugann við aksturinn. Akstursskilyrði hafi verið mjög góð, enda bjartur dagur. Vitnið kvaðst meta það svo að það hafi verið langur aðdragandi að óhappinu og hjólför bentu til þess að bifreiðinni hafi lengi verið ekið á öfugum vegarhelmingi.

    Þorgrímur Óli Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi. Hann skýrði svo frá að aðeins einn lögreglumaður hafi  verið á staðnum er hann kom á vettvang og aðstæður verið þær sem sjást á ljósmynd af vettvangi.  Hann hafi gert uppdrátt af vettvangi og síðan unnið að framhaldsrannsókn málsins. Vitnið kvað ummerki á vettvangi hafa bent til að ákærði hafi ekið nokkuð marga metra, líklega um 100 metra, á vegaröxlinni áður en hann fór út af og að ljóst væri að ökumaður hafi misst sjónar á veginum eitthvert augnablik.

Niðurstaða

Ákærði kvað ástæðu þess að bifreiðin fór út af veginum vera þá að hann hafi misst sígarettuglóð milli læra sinna. Óvarlegum akstri hans hafi því ekki verið um að kenna, en viðbrögð hans hafi verið þau að kippa í stýri bifreiðarinnar sem við það hafi farið yfir á öfugan vegarhelming. Vitnið Betaný Rós Samúelsdóttir, sem var farþegi í aftursæti bifreiðarinnar, var sofandi þegar slysið átti sér stað og gat því ekki greint frá aðdraganda þess. Farþegi í framsæti bifreiðarinnar, Árni Hörður Ragnarsson, gaf ekki skýrslu fyrir dómi og fleiri vitni eru ekki að slysinu.

Í máli þessu liggur fyrir, auk frumskýrslu lögreglu, uppdráttur og myndir sem lögregla gerði af vettvangi. Af þessum gögnum sést skýrlega aðdragandi bílveltunnar.   Af uppdrætti lögreglu má sjá að ákærði ók á röngum vegarhelmingi og síðan í vegaröxlinni sjálfri um 76 metra leið áður en bifreiðin fór út af og valt. Engin merki um hemlaför voru á vettvangi. Akstursskilyrði umrætt sinn voru góð og ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að slysið hafi orðið vegna utanaðkomandi atviks, sem ákærði hafi ekki ráðið við. Þvert á móti þykja gögn málsins bera með sér að ástæða slysins hafi verið gáleysisleg hegðun ákærða sjálfs sem leiddi til þess að hann missti stjórn á bifreiðinni.

Ákærði þykir því ekki hafa sýnt þá tillitssemi og varúð sem 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, skyldar ökumenn að sýna í umferðinni. Þá hélt ákærði   bifreið sinni ekki á hægri vegarhelmingi eins og 1. mgr. 14. gr. umferðarlaga kveður á um. Meginorsök slyssins verður rakin til þessa gáleysis ákærða. Með vísan til þessa þykir fram vera komin lögfull sönnun þess að ákærði ók óvarlega og án nægilegrar aðgæslu með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir á rangan vegarhelming og hafnaði loks utan vegar vinstra megin miðað við akstursstefnu. Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 14. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. s.l. Vegna þeirra afleiðinga sem hlutust af þessu gáleysi ákærða hefur hann unnið sér til refsingar samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda ótvírætt að þeir áverkar sem Betaný Rós Samúelsdóttir hlaut í slysinu falla undir nefnt ákvæði laganna.  Ákærði hafði ekki ökuskírteini meðferðis í greint skipti og hefur hann því gerst brotlegur við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga.

Ákærði á að baki langan brotaferil og hefur hlotið marga dóma fyrir brot gegn ákvæðum  XVII. og XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Hann hefur einnig gerst sekur um brot á lögum um ávana- og fíkniefni  og 259. gr. almennra hegningarlaga. Frá árinu 1983 hefur ákærði fimm sinnum hlotið dóm vegna umferðarlagabrota. Þá hefur hann þrisvar verið sviptur ökurétti vegna brota gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og sambærilegu ákvæði eldri umferðarlaga, síðast í fjóra mánuði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. janúar 2001.  Þá gekkst ákærði undir þrjár sektargerðir 21. maí sl. fyrir akstur sviptur ökurétti. Þegar litið er til brota ákærða nú, sakarferils hans og með vísan til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í einn mánuð, en þar sem ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot að því tagi sem hér er fjallað um, skal fresta fullnustu refsingar og hún niður falla, að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá greiði ákærði 50.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 12 daga. Með vísan til 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, skal ákærði sviptur ökurétti í 6 mánuði frá birtingu dóms að telja. 

    Samkvæmt þessum úrslitum og 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1940 um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 50.000 krónur.

    Ingveldur Einarsdóttir, settur dómstjóri, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Ákærði, Agnar Víðir Bragason, sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 50.000 króna sekt í ríkissjóð, en sæti ella fangelsi í 12 daga, greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði er sviptur ökurétti í 6 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hrl., 50.000 krónur.