Hæstiréttur íslands
Mál nr. 547/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Erfðaréttur
- Kaupmáli
- Séreign
|
|
Miðvikudaginn 15. nóvember 2006. |
|
Nr. 547/2006. |
C D og E (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn F G og H (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðaréttur. Kaupmáli. Séreign.
Við skipti á dánarbúum A og B greindi erfingja á um hvort fasteignin X, sem A og B byggðu á árunum 1973 til 1977, hafi átt að teljast séreign B á grundvelli kaupmála frá 1967, þar sem húseignin Y var gerð að séreign hennar. Ennfremur var deilt um hvort lögmæltur erfðaréttur A eftir B hefði fallið niður samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Talið var að arður af húseigninni Y og andvirði af sölu á þeirri eign hefði verið notað til að byggja X. Var áætlað að sá hluti ásamt eigin vinnu við húseignina X hefði svarað til 60% af verðmæti hennar. Séreignarfé B og annað framlag, sem jók séreign hennar, var því talið hafa staðið undir meirihluta kostnaðar við hina nýju fasteign. Í samræmi við það og vilja hjónanna taldist hún hafa verið séreign hennar í heild sinni þar sem hún kom í stað eldri séreignar. Ekki var gerð endurgjaldskrafa samkvæmt 107. gr. hjúskaparlaga vegna þess hluta andvirðis eignarinnar, sem taldist hafa verið greiddur af hjúskapareign, og varð því ekki skorið úr um það atriði í málinu. Þar sem A hafði ekki aflað leyfis til setu í óskiptu búi auk þess sem hann lést skömmu eftir andlát B var ekki fallist á að 1. málsl. 2. mgr. 19. gr. erfðalaga ætti við um skiptin.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar og 7. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2006, þar sem fallist var á að fasteignin X, Reykjavík, yrði talin séreign B, móður varnaraðila, í samræmi við kaupmála, sem hún og A, faðir sóknaraðila, gerðu 27. maí 1967, og að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 ætti ekki að gilda um skipti á dánarbúum þeirra. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að viðurkennt verði að fasteignin X í Reykjavík teljist hafa verið hjúskapareign B og A við andlát þeirra. Þá krefjast þau staðfestingar úrskurðar héraðsdóms um að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga gildi ekki við skipti á dánarbúum B og A. Sóknaraðilar krefjast málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar kærðu úrskurðinn fyrir sitt leyti 6. október 2006. Þau krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá lund að viðurkennt verði að við skipti á dánarbúi B og A gildi 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga og að staðfest verði niðurstaða hans um að fasteignin X í Reykjavík verði talin hafa verið séreign B í samræmi við áðurnefndan kaupmála. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilar hafa lagt fyrir Hæstarétt bréf Önnu Sifjar Jónsdóttur, löggilts endurskoðanda, 10. október 2006, sem er svar við erindi lögmanns þeirra í málinu. Þá hafa varnaraðilar lagt fyrir réttinn bréf Sighvats Halldórssonar, löggilts endurskoðanda, 31. október 2006, sem er svar við erindi lögmanns þeirra í málinu.
Ágreiningur aðila lýtur annars vegar að því hvort fasteignin X eigi við skipti á dánarbúum B og A að teljast hafa verið séreign B á grundvelli kaupmála, sem þau gerðu 27. maí 1967. Hins vegar greinir aðila á um hvort lögmæltur erfðaréttur A, sem lést 29. desember 2004, eftir B, en hún lést 12. nóvember sama ár, hafi fallið niður, sbr. 1. málslið 2. mgr. 19. gr. erfðalaga, þar sem skipti á dánarbúi hins skammlífara fari fyrst fram eftir lát þess sem lifði lengur.
I.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er þess getið í áðurnefndum kaupmála að húseign B að Y í Ytri-Njarðvík eigi að vera séreign hennar ásamt öllu því sem eigninni fylgir og leigutekjum af henni. Sama eigi við um andvirði eignarinnar ef hún yrði seld svo og aðra húseign sem yrði keypt ef téð eign yrði seld. B og A hófu byggingu húseignarinnar að X árið 1973. B seldi fasteignina að Y hinn 15. maí 1974 og var söluverð hennar 4.700.000 krónur. Kaupandi yfirtók áhvílandi lán samtals að fjárhæð 573.943 krónur og greiddi kaupverðið að öðru leyti með 1.200.000 krónum í peningum og víxli að upphæð 600.000 krónur ásamt skuldabréfi, sem gefið var út fyrir eftirstöðvunum að fjárhæð 2.328.056 krónur.
Þegar þessi viðskipti fóru fram stóð bygging húseignarinnar að X yfir. Verður að leggja til grundvallar að það fjármagn, sem fékkst fyrir fasteignina að Y, hafi verið notað til að greiða byggingarkostnað húseignarinnar að X. Samkvæmt skattframtali A og B árið 1975 fyrir skattárið 1974 voru greiðslur, sem féllu til á því ári vegna sölu fasteignarinnar, samtals 2.124.460 krónur. Fram til ársloka 1977, en á því ári virðist byggingu hússins við X hafa lokið, námu afborganir og vextir af áðurnefndu skuldabréfi samtals 1.421.550 krónum. Skuldabréfið var síðan greitt upp á næstu fjórum árum og námu þá afborganir og vextir af því samtals 1.686.522 krónum.
Gögn málsins gefa enn fremur til kynna að árið 1973 hafi fasteignin að Y verið veðsett fyrir 300.000 króna láni frá Sparisjóði Keflavíkur. Í ljósi þess að þá voru framkvæmdir að hefjast við X verður að líta svo á að þetta lán hafi verið tekið í tengslum við þær enda verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að þeir fjármunir kunni að hafa verið notaðir í annað. Við sölu fasteignarinnar 1974 yfirtók kaupandi þetta lán og nokkur eldri lán, þar á meðal annað lán frá Sparisjóði Keflavíkur. Ekki liggur fyrir hverjar eftirstöðvar fyrstgreinda lánsins hafi þá verið, en fram kemur í skattframtali A og B að kaupandi Y hafi meðal annars yfirtekið 321.000 króna lán frá Sparisjóði Keflavíkur. Má ætla að meginhluti þessarar skuldar, sem kaupandi fasteignarinnar yfirtók, verði samkvæmt framansögðu rakin til framkvæmdanna við X. Ber því að líta svo á að B hafi lagt þennan hlut af söluverði séreignar sinnar að Y til byggingar húseignarinnar að X. Bætist þetta við aðrar greiðslur, sem hún fékk á byggingartímanum vegna sölu fasteignarinnar. Nemur framlagið því í heild nálægt 3.800.000 krónum.
Varnaraðilar hafa enn fremur vísað til þess að B hafi frá 1968 til 1973 haft miklar leigutekjur af séreign sinni við Y. Hafi húseignin á þessum tíma verið leigð út til hermanna á Keflavíkurflugvelli og fjölskyldna þeirra og fyrir það hafi verið greitt í bandaríkjadölum. Þessar tekjur hafi í heild numið að minnsta kosti 1.660.000 krónum og hafi þeim fjármunum verið varið til byggingar á húseigninni að X. Samkvæmt skattframtölum A og B fyrir þessi ár töldu þau fram tekjur vegna útleigu húsnæðis að fjárhæð samtals 220.000 krónur. Gegn mótmælum sóknaraðila verður að telja ósannað að B hafi haft meiri leigutekjur af séreign sinni en sem þessu nemur.
Samkvæmt því sem að framan greinir virðist B að hafa lagt til um 4.020.000 krónur af leigutekjum og þeim fjármunum, sem komu til vegna sölu áðurnefndrar séreignar hennar, til byggingar X. Af skattframtölum fyrir árin 1973 til 1977 verður ráðið að byggingarkostnaður X hafi numið rúmlega helmingi hærri fjárhæð eða 8.767.830 krónum ef ekki er tekið tillit til eigin vinnu við bygginguna. Þennan mismun hefur þurft að brúa með lántöku eða með því að greiða af hjúskapareignum B og A. Af framlögðum skattframtölum verður ráðið að skuldir þeirra hafi aukist umtalsvert á byggingartímanum. Í árslok 1977 voru þær 4.247.900 krónur en höfðu verið 415.747 krónur árið 1972. Þá liggur fyrir að A tók umrædd lán, sem voru tryggð með veði í X. Við athugun skattframtala frá þessum tíma verður ekki annað ráðið en að þessar lántökur megi rekja til byggingar húseignarinnar við X. Má ljóst vera að framangreindar afborganir og vaxtagreiðslur af fyrrgreindu skuldabréfi, sem Bhafði fengið við sölu Y, og til féllu eftir árslok 1977, hafi að hluta náð að standa undir afborgunum og greiðslu vaxta af ofangreindum lánum. Þegar á framangreint er litið má áætla að ríflega helmingur byggingarkostnaðar húseignarinnar að X hafi verið greiddur með fjármunum, sem fengust sem arður af B og við sölu á þeirri eign.
II.
Varnaraðilar reisa kröfu sína um að X eigi að teljast hafa verið séreign B á framangreindum kaupmála 27. maí 1967. Telja þau að orðalag kaupmálans um að húseign, sem yrði keypt ef húseignin að Y yrði seld, ætti að teljast séreign hennar, sé í samræmi við ígildisreglu 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 3. tölulið 1. mgr. 23. gr. laga nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna, en síðargreinda ákvæðið var í gildi þegar kaupmálinn var gerður. Í því ákvæði sagði að það sem komi í stað séreignar samkvæmt 1. og 2. tölulið málsgreinarinnar teljist vera séreign nema öðru vísi sé ákveðið svo gilt sé. Ljóst er að B var einni úthlutað lóð við X árið 1973 auk þess sem hún var ein þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Í framlögðum skattframtölum þeirra hjóna frá þessum árum til og með 2004 er þess ávallt getið að umrædd fasteign væri séreign B. Með hliðsjón af þessu og öðrum gögnum málsins verður að teljast upplýst að þau hafi bæði litið svo á að téð fasteign hefði komið í stað séreignar B að Y og teldist því séreign hennar á grundvelli kaupmálans 27. maí 1967. Af þessum sökum og með vísan til framburðar vitna í málinu verður ennfremur að líta svo á að í flestum tilvikum hafi þeir, sem lögðu eigin vinnu af mörkum við byggingu fasteignarinnar, ætlast til að fasteignin yrði séreign B. Samkvæmt skattframtölum nam þessi hluti af framkvæmdunum í heild 1.381.000 krónum.
Eins og að framan greinir náðu þeir fjármunir, sem fengust við sölu séreignar B við Y, ekki að fullu að standa undir kostnaði við byggingu húseignarinnar við X. Að viðbættum leigutekjum af séreigninni og eigin vinnu við X telst séreign B svara til samtals 60% af verðmæti síðarnefndu fasteignarinnar. Séreignarfé og annað framlag, sem jók séreign hennar hefur þannig staðið undir meirihluta kostnaðar við hina nýju fasteign. Telst hún í samræmi við það og vilja hjónanna hafa verið séreign B í heild sinni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 377/1991, blaðsíðu 526 í dómasafni réttarins 1994. Sóknaraðilar hafa ekki gert endurgjaldskröfu samkvæmt 107. gr. hjúskaparlaga vegna þess hluta andvirðis eignarinnar, sem telst hafa verið greiddur af hjúskapareign. Eins og málið er lagt fyrir verður því ekki skorið úr um það atriði. Með hliðsjón af því sem að framan greinir verður þessi hluti af hinum kærða úrskurði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða hans að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga eigi ekki við um skipti á dánarbúi B og A. Þá er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hver aðila eigi að bera sinn kostnað af málinu í héraði.
Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2006,
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 13. maí 2005 var dánarbú A, sem lést þann 29. desember 2004, og B, sem lést þann 12. nóvember 2004, tekið til opinberra skipta. Með bréfi skiptastjóra mótteknu 14. febrúar 2006 var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið, sem þingfest var 3. mars s.á., var tekið til úrskurðar 1. september sl.
Sóknaraðilar, C, D og E, gera þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að fasteignin X í Reykjavík teljist hafa verið hjúskapareign B og A við andlát þeirra. Þá er gerð krafa um að viðurkennt verði með dómi að ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 með síðari breytingum gildi ekki við skipti á dánarbúum B og A.
Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila óskipt.
Varnaraðilar, F, G og H, gera svofelldar dómkröfur:
1. Að fasteignin X, Reykjavík verði talin séreign B í samræmi við kaupmála sem B og A gerðu 27. maí 1967.
2. Að ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 með síðari breytingum gildi við skipti á dánarbúi B og A.
Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I
Á skiptafundi í dánarbúi B og A sem haldinn var 26. janúar 2006 reis ágreiningur um það hvort fasteignin X í Reykjavík væri séreign B í samræmi við kaupmála sem B og A gerðu 27. maí 1967. Þá var uppi ágreiningur um hvort ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 gilti við skipti á dánarbúinu.
Sóknaraðilar eru börn A og I sem gengu í hjónaband árið 1949. A lauk árið 1953 prófi í raforkuverkfræði. Hann sleit samvistum við eiginkonu sína í nóvember 1958 en gengið var frá skilnaði þeirra að borði og sæng 18. maí 1960 og lögskilnaði 23. ágúst 1961.
Varnaraðilar eru börn B og J sem gengu í hjónaband árið 1948. Hjónabandi þeirra lauk snemma árs 1951 og flutti maðurinn af landi brott síðar sama ár. Lögskilnaður þeirra átti sér stað 19. ágúst 1963. Varnaraðilar kveða móður sína hafa fengið árið 1956 eða 1957 í eingreiðslu meðlag fram að þeim tíma sem hún hafi notaði til að kaupa fasteignina Z, Ytri Njarðvík.
Árið 1958 eða 1959 hófu A og B sambúð að Z, Ytri Njarðvík en þar bjuggu þau meira og minna fram til ársins 1965 er þau fluttu að Y í Ytri Njarðvík. Þau eignuðust tvö börn dóttur árið 1960 og son árið 1961. Sóknaraðilar kveða A og B hafa byggt saman fasteignina við Y. Varnaraðilar kveða B hinsvegar hafa selt fasteignina Z og byggt aðra stærri að Y. Mótmæla varnaraðilar því að A hafi lagt fjármuni af mörkum til byggingarinnar og benda á að töluleg gögn sýni að hann hafi ekki verið aflögufær.
Varnaraðilar kveða I hafa fengið nær allar eignir þeirra A í sinn hlut samkvæmt fjárskiptasamningi þeirra dags. 17. maí 1960 en A yfirtekið allar skuldir. Samkvæmt skiptayfirlýsingu hafi I fengið eignina Þ í Garðabæ skuldlausa í sinn hlut en A yfirtekið þrjú lán sem á eigninni hvíldu. Samkvæmt skattframtali A hafi eftirstöðvar þessar lána numið í árslok 1960 kr. 221.775. Jafnframt hafi A yfirtekið aðrar skuldir búsins og hafi skuldir A í árslok 1960 verið kr. 234.992. Þessar skuldir hafi verið háar og sem hlutfall af brúttólaunum A hafi hlutfall skulda verið 111% af launum í árslok 1960, 83% af launum í árslok 1961 og 58% i árslok 1963.
Skattframtal B 1961 sýni að hún skuldaði á sama tíma aðeins kr. 83.000 vegna íbúðarkaupa. Eignir A í árslok 1960 hafi verið bifreið metin á liðlega 56.000 kr., víxlar að andvirði kr. 74.500 og hlutabréfaeign í Æ hf. að nafnverði kr. 16.500, samtals 147.650 kr. Víxileignin hafi verið á hendur K kr. 52.000 og tveimur öðrum aðilum kr. 22.500. Víxilkrafan á K sé afskrifuð í skattframtali 1964 þar sem K varð gjaldþrota. Þessi eign A hafi því reynst verðlaus. Hlutabréfaeignin í Æ hf. hafi verið afskrifuð árið 1969, sbr. skattframtal 1970, þar sem félagið varð gjaldþrota.
Þá komi fram í fjárskiptasamningi A og fyrri konu hans að A hafi tekið að sér að ljúka við og kosta viðamiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir við húseignina sem kom í hlut I fyrir árslok 1961.
Á skattframtali A 1962 komi fram að hann borgi 12.000 kr. á ári með hverjum sóknaraðila og 36.000 kr. á ári til fv. eiginkonu eða samtals 72.000 kr. á árinu 1961. Í bréfi A til skattstjóra dags. 30. ágúst 1962 (fylgiskjal með skattframtali 1963) komi fram að hann greiði auk meðlags 36.000 kr. á ári til fv. eiginkonu sinnar. Ekki liggi fyrir í gögnum málsins hversu lengi A greiddi þessa framfærslu til fv. eiginkonu.
Varnaraðilar kveða stærstan hluta þeirra skulda sem A tók á sig við skilnaðinn ekki hafa verið uppgreiddan fyrr en árið 1972. A hafi þannig verið að greiða af skuldum vegna fyrra hjónabands í 14 ár eftir að hann hóf sambúðina með B. Jafnframt hafi hann greitt meðlög með sóknaraðilum en yngsta barnið fæddist árið 1957. Öll gögn málsins staðfesti því að A hafi haft lítið svigrúm til að framfæra börn hans og B og möguleikar hans til eignarmyndunar hafi nánast verið engir, þótt tekjur hans væru þokkalegar. Enda liggi fyrir í málinu gögn frá kunnugum aðilum um að oft hafi verið þröngt í búi B og A.
B og A virðist ekki skrá sig með sama lögheimili fyrr en frá og með 1. desember 1965. Þó virðist A vera með lögheimili hjá B frá 1. desember 1960 til 1. desember 1961 en síðan eigi hann lögheimili hjá L og M í nálægu húsi til 1. desember 1965.
Árið 1964 þegar fjölskyldan flutti að Y hafi B verið útivinnandi og haft nægar tekjur til að standa straum af greiðslum af þeim veðlánum sem hvíldu á fasteign hennar. Jafnframt hafi hún átt í banka kr. 46.440 í árslok 1965. Samkvæmt skattframtölum hafi skuldir hennar lækkað alveg fram að þeim tíma að framkvæmdir hófust við X 1973.
Á árinu 1966 hafi A fjárfest í hlutabréfum í Síldarverksmiðju Þórshafnar fyrir kr. 200.000. Skuldir hans hafi hækkað mikið milli ára eða úr kr. 129.738 í kr. 353.973. Þessi fjárfesting hafi hvorki skilað tekjum né arði en kostaði A fjárútlát og skuldbindingar. Á árinu 1972 hafi þessi eign A verið afskrifuð þar sem félaginu var slitið. A hafi fjármagnað fjárfestinguna með lánum sem hann hafi þurft að greiða þótt fjárfestingin tapaðist.
A og B gengu í hjónaband 31. maí 1967 og gerðu af því tilefni með sér kaupmála þann 27. maí 1967. Samkvæmt kaupmálanum skyldi fasteignin Y Ytri Njarðvík ásamt öllu innbúi metið á 90.000 krónur vera séreign B. Fasteignamat fasteignarinnar var skv. kaupmálanum kr. 84.200. Séreign A skyldi vera hlutabréf í Síldarverksmiðju Þórshafnar hf. að nafnvirði 200.000 krónur. Í kaupmálanum kemur fram að eign sem komi í stað séreignar skuli vera séreign. Á skattframtölum eftir það, sem þau bæði undirrita, er þess ætíð getið sérstaklega að fasteignin sé séreign konu, fyrst Y og síðan X.
Ári síðar fluttu þau að [...] þar sem A var ráðinn sem [...]. Þar bjuggu þau til ársins 1972 en þá tók A við starfi deildarverkfræðings (síðar yfirverkfræðings) hjá Ö.
Varnaraðilar kveða B ekki hafa mátt stunda vinnu utan heimilis að kröfu Ö og skýri það lágar tekjur hennar á þeim tíma. Hún hafi á hinn bóginn haft miklar leigutekjur af séreign sinn að Y, sem hafi verið í ábótasamri útleigu til bandarískra yfirmanna sem greitt hafi í bandaríkjadölum, allt þar til hún var seld. Enginn sé skráður til heimils að Y árin sem húsið hafi verið í útleigu, þ.e. 1968-1974 þar sem ekki hafi tíðkast að hermenn væru skráðir til heimilis utan herstöðvar. Halda varnaraðilar því fram að líklegt sé að heildartekjur B af húsaleigu þann tíma sem séreignin var í útleigu hafi verið í kringum 1.660.000 krónur á verðlagi þess tíma.
Árið 1973 eða árið eftir að A og B flytja frá [...] hófst bygging fasteignarinnar X í Reykjavík. Kveða sóknaraðilar þau A og B hafa hafið byggingu hússins. Eignir í lok árs 1972 hafi verið kr. 130.000 í banka, aðrar eignir kr. 219,750. Þá hafi skuldir verið kr. 415.747. Árstekjur A hafi verið á þessu ári kr. 932.441 en tekjur B engar.
Sóknaraðilar gera svofellda grein fyrir fjármögnun byggingar hússins:
Samkvæmt byggingaskýrslu skattframtals 1976 vegna tekjuársins 1975 var lagt í húsið kr. 2.192.674 auk þess sem eigin vinna var áætluð kr. 400.000. Það ár var A með kr. 2.177.402 í tekjur og kr. 209.485 í bifreiðastyrk. Tekjur B voru kr. 216.249. Sama ár jukust skuldir um kr. 705.161 en seld var þetta ár á móti byggingakostnaði bifreið, hjólhýsi og mótatimbur sem skilaði kr. 650.000. Vaxtagjöld þetta ár voru kr. 358.979, kostnaður vegna eignar kr. 8.430 og vaxtatekjur kr. 207.668.
Samkvæmt byggingaskýrslu skattframtals 1977 vegna tekjuársins 1976 var lagt í húsið kr. 1.729.168 auk eigin vinnu sem var áætluð kr. 500.000. Það ár var A með í tekjur kr. 2.965.627 auk bifreiðastyrks að fjárhæð kr. 258.756. Laun B voru sama ár kr. 734.489. Sama ár jukust skuldir um kr. 794.346 en seld var bifreið þetta ár sem skilaði kr. 195.000 á móti byggingakostnaði. Vaxtagjöld þetta ár voru kr. 551.910, kostnaður vegna eignar kr. 58.409, vaxtatekjur kr. 185.749 og leigutekjur kr. 120.000.
Samkvæmt byggingaskýrslu skattframtals 1978 vegna tekjuársins 1977 var lagt í húsið kr. 153.583 auk eigin vinnu sem var áætluð kr. 400.000. Það ár var A með í tekjur kr. 4.614.280 í tekjur og kr. 316.297 í bifreiðastyrk. Laun B voru sama ár kr. 734.489. Sama ár jukust skuldir um kr. 822.487. Vaxtagjöld þetta ár voru kr. 596.346, kostnaður við eign kr. 73.768 og vaxtatekjur kr. 160.006. Innistæða í banka var að fjárhæð kr. 558.025.
Frá árinu 1978 er ekkert lagt í húsið samkvæmt skattframtali en farið að greiða af lánum frá og með því ári. Árið 1978 var greitt af lánum kr. 1.303.086. Sama ár var A með kr. 6.680.312 í árstekjur en B engar. Vaxtatekjur voru kr. 167.228 en vaxtagjöld kr. 596.346 og kostnaður vegna eignar kr. 390.367. Árið 1979 var A með í tekjur kr. 9.831.422 en B engar tekjur. Greitt var af lánum kr. 314.233. Þá voru vaxtatekjur kr. 116.701 en vaxtagjöld kr. 596.008. Árið 1980 voru tekjur Akr. 14.473.399 en tekjur B engar. Vaxtatekjur voru kr. 3.000 en vaxtagjöld kr. 524.737.
Leigutekjur Vaxtatekjur Gr. af skbr. Vaxtagjöld Lagt í hús v/eignar Gr.af lánum
1973 72.000 0 0 -1.211.628 -41.233
1974 0 179.079 1.945.381 -79.316 -3.280.777 0
1975 80.000 207.668 290.756 -113.009 -2.192.674 -8.430
1976 120.000 185.748 291.069 -358.979 -1.729.168 -58.409
1977 0 160.000 290.446 -551910 -153.583 -73.768
1978 0 167.228 252.596 -596.346 0 -390.367 -1.303.086
1979 0 116.701 328.919 -757.594 0 0 -314.233
1980 0 3.000 290.760 -596.008 0 0 -1.128.956
Framangreind tafla sýnir í fyrsta lagi leigutekjur sem ætla má að hafi komið inn vegna fasteignarinnar við X. Þá eru tilgreindar vaxtatekjur og næst greiðslur af skuldabréfi en fjárhæðin kr. 1.945.381 áríð 1974 er útborgun vegna sölu Y að fjárhæð 1.200.000 í peningum, kr. 600.000 með víxli og mismunur á skuldabréfi við afhendingu skuldabréfsins og fjárhæð skuldabréfsins í árslok. Þá koma vaxtagjöld vegna lána og næst útlagður kostnaður vegna byggingu hússins. Þá kostnaður vegna eignar og að lokum afborganir af lánum fram til ársins 1980. Þess ber að geta að greitt var af lánum í mun lengri tíma eins og skattframtöl bera með sér. Ef gert er ráð fyrir að hver króna sem B fékk úr fasteigninni við Y hafi verið ráðstafað í X, sem telst ósannað, er ljóst að hún hefði aldrei getað kostað byggingu hússins en undir liðnum nettó má sjá hverju munar á hverju ári eða samtals kr. 10.158.117 frá árinu 1973 til 1980. Til þess ber að líta að eftir áríð 1980 var verið að greiða stóran hluta af þeim lánum sem tekin voru til að byggja húsið og vaxtagjöld. Á sama tímabili eða frá árinu 1973 til ársins 1979 voru heildartekjur B kr. 1.614.653 en tekjur A kr. 29.320.194. Má því augljóst vera að B gat aldrei, hvorki með launum sínum, né með fjármunum úr Y kostað byggingu hússins. Hér ber til þess að líta að á sama tíma voru aðilar að innrétta húsið, festa kaup á búslóð o.fl. sem ekki kemur fram í framtali. Þá ber til þess að líta að launatekjur B skapa ekki séreign heldur í besta falli það sem sannarlega var ráðstafað af söluandvirði fasteignarinnar við Y til byggingu fasteignarinnar við Xl.
Varnaraðilar halda því fram að líklegt sé að heildartekjur B af húsaleigu þann tíma sem séreignin að Y var í útleigu hafi verið í kringum 1.660.000 á verðlagi þess tíma. Þessar tekjur hafi B sparað og ráðstafað í byggingu séreignar sinnar að X. Leigutekjur hafi ekki verið gefnar upp eins og tíðkast hafi á þessum tíma en innborganir á bankabók staðfesti verulegar tekjur af húsaleigu.
Árið 1974 hafi verið tekið 300.000 króna lán hjá Sparisjóðnum í Keflavík með veði í séreign B sem hafi runnið til fjármögnunar byggingarinnar. Árið 1974 hafi B selt séreign sína fyrir kr. 4.700.000. Kaupandi hafi greitt útborgun kr. 1.200.000 við kaupsamning og síðan kr. 600.000 þann 15. ágúst 1974. Eftirstöðvar kaupverðsins að frádregnum áhvílandi skuldum hafi verið greiddar með skuldabréfi samtals að fjárhæð kr. 2.326.057. Vaxtatekjur af skuldabréfinu hafi numið liðlega 835.000 kr. og þær tekjur allar hafa runnið til greiðslu byggingar séreignar B að X. Kaupandi hafi yfirtekið áhvílandi húsnæðisstjórnarlán að eftirstöðvum kr. 108.043 sem B hafði tekið þegar hún byggði húsið, lán við Ö sem hafi verið einkaskuld A vegna kaupa á bifreið árið 1970 að eftirstöðvum réttar kr. 145.000. Loks nokkur lán við Sparisjóð Keflavíkur samtals að eftirstöðvum kr. 321.000, þar af áðurnefnt lán sem B tók 1973 að fjárhæð kr. 300.000 sem hafi runnið til X. Heildartekjur B af sölu séreignarinnar hafi þannig numið kr. 5.427.121. Auk þess sem að með sölunni hafi verið greitt upp kr. 300.000 lán sem hún hafði tekið til vegna byggingar X. Til viðbótar höfðu henni safnast a.m.k. kr. 1.600.000 vegna húsaleigutekna. Heildarkostnaður við byggingu X hafi numið liðlega kr. 8,7 milljónum króna án eigin vinnu. Af þeim kostnaði hafi B átt liðlega kr. 7.300.000 en afganginn hafi hún fjármagnað með lánum sem hún hafi sjálf greitt af og tekin hafi verið á framkvæmdatímanum á nafni A þar sem konur hafi á þessum tíma ekki átt hægt um vik að fá veðlán.
Öll lán sem tekin hafi verið vegna fjármögnunar byggingarkostnaðar X hafi verið óverðtryggð. Verðbólga hafi verið mikil á þessum tíma með þeim afleiðingum að raunskuldir vegna húsbyggingarinnar að X lækkuðu hratt milli ára. Tafla nr. 9 í dskj. 36 sýni yfirlit yfir mat á fasteigninni í skattskýrslum og hækkun á því á milli ára, eftirstöðvar skulda í árslok og hlutfall skulda af mati fasteignarinnar. Taflan sýni að skuldsetning vegna byggingarinnar að X var frekar lítil og að skuldir voru greiddar upp á þremur árum eftir lok byggingar.
Lóðarleigusamningur um X er á nafni B og eignin þinglýst eign hennar. Á skattframtali 1975 er fasteignin X tilgreind sem séreign konu og er svo ætíð síðan á öllum skattframtölum hjónanna sem þau undirrituðu ávallt bæði.
A og B bjuggu að X fram á dánardag B hinn 12. nóvember 2004. Sóknaraðilar halda því fram að eftir fráfall B hafi A farið að undirbúa að greiða út arf eftir hana enda hafi hann ekki haft í hyggju að sitja í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum og börnum. A hafi hins vegar fallið frá þann 29. desember 2004 áður en hafist var handa við skiptingu búsins. Þegar til þess hafi komið að gera upp dánarbú þeirra hafi sóknaraðilar ekki getað fallist á þá kröfu varnaraðila að fasteignin við X teldist að öllu leyti séreign móður þeirra þar sem augljóst sé að stór hluti af eignum A hafi farið í fasteignina.
II
Sóknaraðilar byggja á að samkvæmt 75. gr. hjúskaparlaga verði verðmæti sem komi í stað séreignar einnig séreign. Í þessu felist svokölluð ígildisregla sem þýði að sé séreignarfé notað til kaupa á hlut eða fasteign verði hið keypta áfram séreign. Það sé hins vegar alger forsenda að ígildið sé við lýði og tengsl þess og frameignar verði rakið. Sá sem haldi fram að hlutur eða fasteign sé ígildi séreignar beri um það sönnunarbyrði.
Ljóst sé að hafist hafi verið handa við byggingu X áður en til sölu Y kom. Þá liggi fyrir að kostnaður við smíði X hafi verið langtum meiri en söluhagnaður af Y auk þess sem verðmæti X hafi verið margfalt verð Y en fasteignin við X sé meira en helmingi stærri en fasteignin við Y. Fasteignamat X sé nú tæplega kr. 40.000.000 en fasteignamat Y tæplega kr. 16.000.000 eða u.þ.b. 40% af fasteignamati X. Þá verði ekki framhjá því litið að áhvílandi hafi verið lán á Y þegar fasteignin var seld árið 1974 en engin lán séu áhvílandi á X. Augljóst sé því að fasteignin við X sé ekki ígildi fasteignarinnar við Y.
Þá sé ekkert sem bendi til þess að andvirði fasteignarinnar við Y hafi verið notað til byggingar X og ekkert liggi fyrir hvernig greiðslum af skuldabréfi allt til ársins 1981 hafi verið ráðstafað en þá hafi um nokkur ár verið að safnast fjármunir inn á bankareikning. Sé því þegar ljóst að sá hluti söluandvirðisins hafi ekki verið notaður til kaupa eða smíði á X. Þá liggi ekkert fyrir um hvernig víxlinum var ráðstafað og/eða þeim peningum sem fengust fyrir fasteignina. Þar að auki verði ekki annað séð en að skuldir hafi aukist verulega á byggingatíma hússins. Þá sé ljóst að innistæður á bankareikningum hafi verið nýttar á milli áranna 1973-1974. Jafnframt sé ljóst að A hafði rúmlega átjánföld laun B á árunum 1973 til 1979. Sé öruggt að tekjur A hafi farið að miklu leyti til byggingar hússins og greiðslu lána. Þá sé útilokað að B hafi ein getað staðið undir byggingu fasteignarinnar og/eða viðhaldi hennar.
Með vísan til þessa sé ekkert sem bendi til þess að fasteignin við X sé ígildi fasteignarinnar við Y. Hvað sem öðru líði getur ígildið ekki numið nema þeim hluta af söluandvirði síðargreindu fasteignarinnar sem sannanlega hafi farið í smíði hússins.
Á því sé byggt að fasteign verði ekki séreign við það eitt að vera skráð á nafn annars aðilans í opinberum gögnum eða á skattframtölum enda séu gerðar mjög strangar formkröfur til kaupmála, sbr. XII. kafli hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þá beri til þess að líta að ýmisleg sjónarmið geti búið að baki skráningu í skattframtölum, þ.m.t. ýmsar persónulegar ástæður, skattalegt hagræði, áhætturekstur annars maka o.fl. Jafnframt kunni að ráða misskilningur og vanþekking aðila um gildi umrædds kaupmála sem skapi eðli málsins samkvæmt ekki lagalegan rétt þegar á reyni. Þá kunni að vera að aðilar hafi litið svo á að hluti af fasteigninni væri séreign. Hvað sem framangreindu líði sé ljóst að skráning og/eða þinglýsing eignarinnar við X á nafn B hafi alls ekki úrslitaþýðingu í málinu, eins og framan greini, á meðan tengsl fasteignarinnar verði ekki rakin beint til frumeignarinnar skv. kaupmálanum enda verði fasteign ekki gerð að séreign með skattframtali. Í þessu sambandi megi benda á að áritun í skattframtali hefði ekki haft þýðingu gagnvart skuldheimtumönnum ef á hefði reynt. Þá hefði áritun í skattframtal ekki haft þýðingu ef til skilnaðar A og B hefði komið. Þá beri sérstaklega til þess að líta að á sama tíma og ritað sé í skattframtal að fasteignin sé séreign B sé fasteignin skráð í sama framtal á byggingatíma fasteignarinnar sem 100% eign A í byggingaskýrslu sem staðfesti að áritunin um séreign hafi aðeins verið til málamynda. Sóknaraðilar geti eðli málsins samkvæmt haft uppi sömu mótmæli gegn gildi kaupamáls og A ef t.d. hefði komið til skilnaðar.
Þá beri til þess að líta að í kaupmálanum frá 1967 segi að til séreignar skuli teljast ...önnur húseign, ef keypt yrði, yrði nefnd húseign seld. Ljóst megi vera að ekki sé unnt að túlka fyrirmæli þessi svo að allar fasteignir sem kynnu að koma í stað tilgreindrar fasteignar yrðu séreign B sama hvaða verð yrði greitt fyrir þær. Með því hefði verið ákveðið að eignir sem maðurinn eignaðist í framtíðinni yrðu séreign konunnar sem er óheimilt skv. 3. mgr. 76. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Því hafi hvorki með kaupmálanum frá árinu 1967 né með áritun á skattframtöl verið unnt að gera eignir og tekjur A til framtíðar að séreign B.
Þá verði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að fasteignin að X hafi ekki verið keypt heldur byggð og nái kaupmálinn því ekki til fasteignarinnar samkvæmt orðanna hljóðan. Þá verði að taka tillit til þess að hafist hafi verið handa við byggingu X ári áður en Y var seldur og X hafi því alls ekki komið í stað Y. Þá sé ljóst að verulegt fé hafði farið til byggingar fasteignarinnar við X áður en fasteignin við Y var seld. Jafnframt sé ljóst að meirihluti af söluandvirði fasteignarinnar rann alls ekki til byggingar fasteignarinnar við X. Væri því óeðlilegt og ósanngjarnt að líta svo á að fjármunir þessir yrðu að séreign Y við það eitt að hún seldi séreign sína á síðari stigum enda í andstöðu við ákvæði hjúskaparslaga.
Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið er á því byggt að fasteignin við X hafi verið hjúskapareign A og B enda verði tengsl fasteignarinnar ekki rakin beint til frumeignarinnar skv. kaupmálanum. Hvað sem öðru líði geti séreign B aldrei talist annað og meira en sem nemi þeim hluta söluandvirðis Y sem augljóslega og sannarlega rann til byggingar X. Samkvæmt framangreindu sé á því byggt að fasteignin ásamt öðrum eigum búsins standi til skiptanna í báðum dánarbúunum enda eign beggja hinna látnu.
Sóknaraðilar mótmæla því að A hafi greitt fjármuni til fyrri eiginkonu sinnar eða barna eftir að hann og B gengu í hjónaband eða eftir að fasteignin við Y var seld sem hljóti að hafa þýðingu frekar en ætlaðar greiðslur meira en tíu árum áður. Þá mótmæla sóknaraðilar sérstaklega öllum fullyrðingum um bága fjárhagsstöðu A enda í engu samræmi við gögn málsins og raunveruleikann. Sóknaraðilar vekja athygli á að A var alla tíð í hálaunastörfum, þ.m.t. þegar hann og B tókum saman. Þá er því mótmælt að skuldir hans hafi verið meiri en skuldir B þegar þau tóku saman. Þá mótmæla þeir því sérstaklega að skuldir hans hafi verið meiri en skuldir B þegar þau gengu í hjónaband. Jafnframt mótmæla þeir því sérstaklega að B hafi fengið "fúlgufé" út úr skilnaði sínum við fyrri eiginmann og að hún hafi leigugreiðslur í stórum fjárhæðum í erlendri mynt þann tíma er A vann sem [...]. Vekja sóknaraðilar athygli á því að leigutekjurnar séu tilgreindar í skattframtölum árið 1968 kr. 16.000, árið 1969 kr. 24.000, árið 1970 kr. 24.000 og árið 1971 kr. 25.420. Ekkert bendi til þess að þessum fjármunum hafi verið haldið sérgreindum þau ár sem A og B bjuggu fyrir austan. Þá mótmæla sóknaraðilar því að þessar leigutekjur hafi getað kostað byggingu X ásamt greiðslum frá sölu Y enda sé það bæði rangt auk þess ósannað. Þá mótmæla sóknaraðilar því að B hafi byggt húsið við X án aðkomu A og að börn hennar hafi byggt fasteignina fyrir hana enda muni A, sem var verkfræðingur, með öllu hafa haft umsjón með byggingu hússins, byggt það með eigin vinnuframlagi, aðkeyptu vinnuframlagi og vinnuframlagi vina og vandamanna, þ.m.t. sonar síns, E, sbr. yfirlýsing hans. Fullyrðingar um annað séu rangar, ósannaðar og raun fjarstæðukenndar.
B hafi látist á undan A. Byggja sóknaraðilar á því að ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 gildi ekki við skipti á dánarbúinu. Leyfi til handa hinu langlífara til setu í óskiptu búi sé forsenda þess að 1. mgr. 2. mgr. 19. gr. erfðalaga verði beitt við búskipti eftir lát langlífari maka samkvæmt skíru orðalagi 19. gr. erfðalaga. A hafi ekki óskað eftir setu í óskiptu búi og þá hafi hann alls ekki haft hug á að óska búsetuleyfi enda þegar farinn að undirbúa skipti á dánarbúi B þegar hann féll frá. Fullyrðingar um annað séu rangar og ósannaðar og beri varnaraðilar að sjálfsögðu sönnunarbyrgði um að A hafi haft hug á að óska eftir setu í óskiptu búi. Hér beri jafnframt til þess að líta að A hafi orðið að fá samþykki allra stjúpniðja sinna til þess að fá heimild til setu í óskiptu búi sbr. 2. mgr. 8. gr. erfðalaga en fyrirséð hafi verið að slíkt samþykki fengist ekki a.m.k. sé það með öllu ósannað.
Með vísan til framangreinds sé á því byggt að erfðaréttur A eftir B hafi ekki fallið niður með vísan til 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga.
III
Varnaraðilar byggja á að við skipti á dánarbúi móður þeirra, B, og A beri að líta svo á að fasteignin að X hafi verið séreign B skv. ígildisreglu 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í kaupmálanum sem B og A hafi gert með sér fyrir hjúskap sé kveðið á um að fasteign B að Y, Ytri Njarðvík, svo og andvirði hennar, ef seld væri, sem og önnur húseign, ef keypt yrði, yrði fasteignin seld, skyldi vera séreign B og vera utan hjúskapareigna hjónanna. Þetta sé í samræmi við ígildisreglu 75. gr. hjúskaparlaganna sem mæli fyrir um að verðmæti sem komi í stað séreignar verði einnig séreign. Sambærilegt ákvæði hafi verið í eldri hjúskaparlögum. Þessi regla sé meginregla varðandi séreignir. Sá sem haldi því fram að eign sem kemur í stað séreignar verði ekki séreign beri sönnunarbyrði fyrir því en ekki öfugt.
Varnaraðilar byggja á að slík tengsl séu milli séreignarinnar að Y og þeirrar í X, að líta beri svo á að sú síðarnefnda sé ígildi þeirrar fyrrnefndu, og að líta beri á X sem séreign B. Allt söluandvirði séreignar B að Y hafi runnið til byggingar X. Allur arður sem B hafi haft af séreign sinni, sem hafi verið umtalsverður, hafi runnið til byggingar X. Þá hafi varnaraðilar unnið fjölmargar vinnustundir í þágu móður sinnar við húsbygginguna. Töluleg gögn staðfesti að móðir þeirra hafi haft fjárhagslegt bolmagn til að standa sjálf undir fjármögnun byggingarkostnaðar vegna X.
Þyngst vegi þó að mati varnaraðila tilgreining móður þeirra og föður sóknaraðila á skattframtölum á X. Greinilegt sé af öllum gögnum að þau sjálf litu ætíð á X sem séreign B. Þessi skilningur hjónanna komi fram með margvíslegum hætti:
1. Lóðarleigusamningur sé gerður í nafni B.
2. Eignin hafi verið þinglýst á nafn B um leið og unnt hafi verið að færa eignina í veðmálabækur.
3. X sé tilgreint sem séreign B í skattframtali árið 1975 (vegna ársins 1974), þ.e. um leið og séreign B að Y hafi verið seld. Óslitið síðan hafi verið sett sú skýring við eignina á skattframtali aðila að hún sé séreign konu. Skattframtölin séu ætíð undirrituð af hjónunum báðum og teljist þau því gleggsta heimildin um þann skýra gagnkvæma skilning hjónanna að eignin væri séreign B.
4. Systir B og nánir vinir A og B staðfesti í yfirlýsingum sínum að eignin hafi verið séreign B, þannig hafi þau bæði alltaf vísað til eignarinnar. Sömu aðilar vitni um að A hafi talið sig í raun hafa greitt sóknaraðilum föðurarf sinn með því að ganga svo til eignalaus út úr hjónabandi hans og móður þeirra.
Með öllu framangreindu telja varnaraðilar sig hafa sannað að A og B hafi litið með bindandi hætti á X sem séreign B, enda hafi það komið í stað annarrar séreignar B. Sóknaraðilar séu bundnir af þessari afstöðu aðila sjálfra, enda sé afstaða A og B í samræmi við meginreglur hjúskaparlaga um að séreign komi í stað séreignar. Varnaraðilar mótmæli því sem hverjum öðrum útúrsnúningi að A og B hafi með áritun á skattframtali verið að gera eign að séreign og að slíkt hafi þeim verið óheimilt. Með árituninni hafi þau verið að staðfesta kaupmálann sem hafi verið skýr um það að eign sem kæmi í stað séreignar yrði séreign. Með árituninni hafi þau verið að staðfesta að þau litu bæði svo á að X kæmi í stað Y og væri þar af leiðandi séreign B. Töluleg gögn staðfesti að allt andvirði Y hafi runnið til byggingar X. Uppsafnaðar tekjur B af leigu Y, sem hafi verið umtalsverðir fjármunir, hafi runnið til byggingar X. Mismunurinn hafi verið fjárhæð sem B hafi auðveldlega getað bæði brúað og greitt af.
Varnaraðilar mótmæla því harðlega sem haldið er fram í greinargerð sóknaraðila, að ákvæði kaupmálans um séreign geti ekki átt við um X af þeirri ástæðu einni, að fasteignin hafi verið byggð en ekki keypt. Varnaraðilar telji að hér séu sóknaraðilar að leggja of þröngan orðskilning í orðalag kaupmálans. Ígildisreglur varðandi séreign séu skýrar: Skv. 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 verði verðmæti sem komi í stað séreignar einnig séreign svo og arður af þessum verðmætum, nema annars sé getið í kaupmálanum. Fyrirmæli kaupmálans séu á þann veg að eign sem komi í stað séreignar skuli vera séreign og skipti í því sambandi ekki máli þótt hugtakið keypt sé notað. Þá hafi auðvitað allt efni sem notað var í bygginguna verið keypt, sem og hluti vinnu. Þá sé þessi fullyrðing sóknaraðila þvert á túlkun hjónanna sjálfra, sbr. skattframtöl þeirra frá árinu 1975 um að X sé séreign konu. Sú tilgreining hljóti að vega þyngst við mat í þessu máli.
Varnaraðilar byggja á að það væri bæði í ósamræmi við gögn málsins og ósanngjarnt að láta orðalag í kaupmála ráða því að ígildisreglan ætti ekki við þar sem X hafi verið byggt en ekki keypt. Auk þess megi benda á að auðvitað hafi Xverið keypt í þeim skilningi að B hafi fengið lóð úthlutað sem hún greiddi tilskilin gjöld fyrir. Síðan hafi hún notað arð af séreign sinni og andvirði séreignarinnar til að byggja nýtt hús sem hún og A hafi tilgreint alla tíð síðan sem séreign B í skattframtali.
Skilja megi greinargerð sóknaraðila svo að þar sem tekjur A hafi verið hærri á hjúskapartímanum beri að líta svo á að hann hafi fjármagnað byggingu X. Þessari fullyrðingu sé mótmælt og ítrekað það sem að framan er rakið um fjármögnun byggingarinnar, þ.e. að:
1. Með áralangri útleigu á séreign sinni hafi B safnast umtalsverðir fjármunir sem allir runnu til húsbyggingarinnar.
2. Andvirði séreignar B hafi allt runnið til byggingar hússins.
3. Varnaraðilar F og G hafi í þágu móður sinnar lagt af mörkum fjölmargar vinnustundir við byggingu eignarinnar. Mikil eigin vinna komi fram í byggingarskýrslum í skattframtölum og sé þar á meðal vinna þessara varnaraðila.
4. Á þessum tíma hafi helmingur af tekjum eiginkonu verið undanþegnar skatti. Þótt tekjur B hafi verið lægri en tekjur A þá hafi þær nýst betur en tekjur A vegna hagstæðari skattareglna sem um þær giltu.
Þá verði ekki fram hjá því litið að A hafi komið inn í sambúðina nánast eignalaus með öllu og að auki með mikinn skuldabagga vegna fyrra hjónabands. Lengi framan af hafi hann því lítið átt aflögðu til framfærslu heimilisins. Framfærsla heimilisins hafi því ekki síður hvílt á B en honum sem m.a. hafi komið fram í því að varnaraðilar hafi öll byrjað að stunda launavinnu meðfram skóla og á sumrin frá unga aldri og lagt þannig fjármuni til heimilisins. Komi þetta m.a. fram á skattframtölum.
Varnaraðilar byggja á að þó að ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sem kveði á um að ef skipti fari fram eftir lát beggja hjóna þá falli niður lögmæltur erfðaréttur hins langlífara eftir hið skammlífara, sé í þeim kafla erfðalaganna er lúti að setu í óskiptu búi verði það ekki, skv. skýru orðalagi, túlkað öðru vísi en svo, að í því felist skýr fyrirmæli um það hvernig skipta skuli búi, fari skiptin ekki fram fyrr en eftir lát beggja hjóna. Í því sambandi skipti ekki máli hvort hugsanlega kunni langlífari makinn að hafa verið að undirbúa skipti á dánarbúi skammlífari makans. Orðalag ákvæðisins sé með þeim hætti að það beri skýrt með sér að það sem úrslitum ráði sé það hvenær skiptin fari fram í raun en ekki hvort langlífari makinn hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi. Réttar 6 vikur hafi liðið milli andláts móður varnaraðila og föður sóknaraðila. Er faðir sóknaraðila lést hafði ekkert verið gert varðandi skipti á dánarbúi móður varnaraðila. Við búskipin sé því verið að skipta dánarbúi þeirra að þeim báðum látnum og því niður fallinn lögmæltur erfðaréttur föður sóknaraðila eftir móður varnaraðila, skv. fyrirmælum 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga en í skýringum með ákvæðinu komi fram að 2. mgr. svari til 69. gr. laga nr. 20/1923 og að ákvæðið sé eðlilegt ákvæði að báðum hjónum látnum.
Varnaraðilar mótmæla fullyrðingum sóknaraðila um að faðir þeirra hafi verið að undirbúa skipti á dánarbúi eiginkonu sinnar. Varnaraðili G, hafi átt langt samtal við föður sóknaraðila tveimur dögum fyrir andlát hans og hafi hann þá nefnt það að hann hygðist fá leyfi varnaraðila til setu í óskiptu búi. Hafi varnaraðili staðfest fyrir sína hönd að það myndi hann samþykkja.
Varnaraðilar telji því að við skipti á dánarbúi móður þeirra og föður sóknaraðila beri að fylgja skýrum lagafyrirmælum 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga um það að erfðaréttur föður sóknaraðila hafi fallið niður þar sem verið sé að skipta búinu að báðum látnum og að engin rök séu til þess að líta svo á að skilyrði þess að ákvæðinu sé beitt séu að leyfi til setu í óskiptu búi hafi verið veitt. Sóknaraðilar eigi því engan afleiddan erfðarétt í séreign móður þeirra. Séreign móður þeirra skiptist því eingöngu milli varnaraðila og barna hennar og A. Hjúskapareignum A og B beri að skipta að jöfnu í tvo helminga, í búshluta A og búshluta B.
IV
Samkvæmt kaupmála þeim sem A og B gerðu þann 27. maí 1967 skyldi húseign hennar Y Ytri Njarðvík ásamt öllu sem henni fylgdi, svo og andvirði hennar ef seld yrði, sem og önnur húseign, ef keypt yrði, yrði nefnd húseign seld, vera séreign B. Þá var kveðið á um að leigutekjur af húseigninni skyldu vera séreign B.
Árið 1974 seldi B séreign sína að Y. Ári áður hafði bygging fasteignarinnar að X í Reykjavík hafist. Er lóðarsamningur vegna eignarinnar á nafni B og hún þinglýstur eigandi eignarinnar. Þá liggur fyrir að fasteignin var alltaf sérstaklega tilgreind sem séreign B á skattframtölum hjónanna sem þau undirrituðu bæði. Þegar það er virt þykir ljóst að hjónin hafi litið á svo á að fasteignin X í Reykjavík væri séreign B. Það hafa vitni og staðfest.
Söluverð Y var 4.700.000 krónur. Halda varnaraðilar því fram að heildartekjur B vegna sölu Y hafi numið kr. 5.427.121. Auk þess sem með sölunni hafi verið greitt upp 300.000 króna lán sem hún hafði tekið vegna byggingar X. Fyrir liggur að Y var í útleigu til varnarliðsmanna frá árinu 1967 til ársins 1974 en leigutekjur skyldu vera séreign B samkvæmt kaupmálanum. Halda varnaraðilar því fram að auk heildartekna B vegna sölu Y hafi uppsafnaðar leigutekjur, a.m.k. 1.600.000 krónur, runnið til byggingar X. B hafi þannig getað kostað með eigin fé liðlega 7.300.000 krónur af byggingarkostnaði eignarinnar sem þeir kveða hafa numið liðlega 8,7 milljónum króna. Afganginn kveða þau hana hafa fjármagnað með lánum, sem tekin hafi verið á nafni A, þar sem konur hafi á þessum tíma ekki átt hægt um vik að fá veðlán.
Ekkert þykir fram komið í málinu sem bendir til annars en að andvirði Y hafi runnið til byggingar X. Þá þykir á grundvelli framburðar vitna og annarra gagna ljóst að leigutekjur af Y hafi verið til muna hærri en skattframtöl bera með sér en leigutekjur af eigninni skyldu vera séreign B. Þykir þannig ljóst að B hafi getað fjármagnað a.m.k. verulegan hluta byggingarkostnaðar X með andvirði Y og leigutekjum. Þá verður að leggja til grundvallar að varnaraðilar, synir B, hafi lagt fram umtalsverða aðstoð við byggingu X en staðhæfingum þeirra þar að lútandi hefur ekki verið mótmælt. Jafnframt þykir ekki verða dregið í efa að A hafi tekið umtalsverðan þátt í byggingu X. Þá heldur sóknaraðili, E, því fram að hann hafi aðstoðað föður sinn við byggingu hússins.
Samkvæmt framanröktu þykir ljóst að B hafi getað staðið undir byggingu X með séreignarfé sínu og lánsfé, ásamt liðsinni eiginmanns, barna og vina, sem litu á eignina sem séreign hennar.
Þegar allt framanrakið er virt þykir verða við það að miða að X hafi komið í stað Y og skiptir þar engu þó að X hafi verið byggt en ekki keypt og að byrjað hafi verið á byggingu eignarinnar áður en Y var seldur. Samkvæmt því verður að líta svo á að fasteignin X, Reykjavík hafi verið séreign B samkvæmt kaupmála hennar og A.
Fyrir liggur að B lést þann 12. nóvember 2004 og A skömmu síðar eða hinn 29. desember s.á. Greinir aðila á um hvort um hvort ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 með síðari breytingum gildi við skipti á dánarbúinu en þar er kveðið á um að fari skipti fram eftir lát beggja hjóna falli niður lögmæltur erfðaréttur hins langlífara eftir hið skammlífara.
Það ákvæði 19. gr. erfðalaga sem um er deilt í máli þessu er í II. kafla erfðalaga sem er um óskipt bú. Þykir því verða við það að miða að búsetuleyfi sé almennt forsenda fyrir því að 19. gr. eigi við. Fyrir liggur að A hafði ekki fengið leyfi til setu í óskiptu búi þegar hann lést skömmu eftir andlát B. Samkvæmt því er það niðurstaða dómsins að ákvæði 2. málsliðar 2. gr. 19. gr. erfðalaga eigi ekki við um skipti á dánarbúi B og A.
Eftir niðurstöðu málsins þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Fallist er á kröfu varnaraðila, F, G og H, um að fasteignin X, Reykjavík verði talin séreign B í samræmi við kaupmála sem B og A gerðu 27. maí 1967.
Fallist er á kröfu sóknaraðila, C, D og E um að ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 gildi ekki við skipti á dánarbúi B og A
Málskostnaður fellur niður.