Hæstiréttur íslands
Mál nr. 231/2001
Lykilorð
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2002. |
|
Nr. 231/2001. |
Friðgeir Stefánsson(Helgi Birgisson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) |
Niðurfelling máls. Málskostnaður. Gjafsókn.
Mál F gegn V hf. var fellt niður að ósk málsaðila, sem jafnframt voru sammála um að leggja það í dóm um málskostnað. Rétt var talið að aðilarnir bæru hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en kveðið á um að gjafsóknarkostnaður F fyrir Hæstarétti greiddist úr ríkissjóði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2001. Með bréfum 25. og 26. janúar 2002 tilkynntu aðilarnir að þeir hefðu komið sér saman um að óska eftir að málið yrði fellt niður fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að það gengi til dóms um málskostnað. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Stefndi krefst þess að málskostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur niður.
Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga eins og henni var breytt með 20. gr. laga nr. 38/1994, er málið fellt niður fyrir Hæstarétti.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Mál þetta er fellt niður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Friðgeirs Stefánssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 75.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. mars síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 5. september 2000.
Stefnandi er Friðgeir Stefánsson, kt. 020435-2169, Guðrúnargötu 2, Reykjavík.
Stefndi er Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsing stefnanda, undirrituð 26. apríl 1993, verði dæmd ógild og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 200.000 krónur, með dráttarvöxtum frá 15. júní 1998 og 1.300.000 krónur með dráttarvöxtum frá 26. júní 1998 samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Til vara er þess krafist, að sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu stefnanda verði vikið til hliðar að hluta og að stefnda verði dæmdur til að endurgreiða samsvarandi hluta til stefnanda, ásamt dráttarvöxtum frá 26. júní 1998 samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Í báðum tilvikum er krafist, að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, en til vara, að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Málsatvik
Þann 26. júní 1993 ritaði stefnandi undir sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu fyrir skuld samkvæmt skuldabréfi, að fjárhæð 1.058.000 krónur, útgefnu af Gunnari Gunnarssyni, kt. 130436-3749. Skyldi skuldin greidd með eingreiðslu 1. nóvember 1993. Auk stefnanda var systir hans, Sigrún Stefánsdóttir, kt. 130840-3969, sjálfskuldarábyrgðaraðili á skuldabréfinu. Skuldabréfið var til komið vegna ítrekaðrar beiðni Gunnars Guðmundssonar til stefnda, um að brunatryggingariðgjöld, áhvílandi með lögveði í Kothúsvegi 16, Garði, yrðu sett á skuldabréf, í stað þess að þau fengjust greidd af uppboðsandvirði eignarinnar, sem var til nauðungarsölu. Samþykkti stefndi það, en hafði engin afskipti af því, að stefnandi gerðist ábyrgðarmaður á skuldabréfinu. Innheimta skuldarinnar úr hendi aðalskuldara reyndist árangurslaus og fór svo, að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Hóf stefndi þá innheimtu og gerði fjárnám í eign stefnanda að Guðrúnargötu 2, Reykjavík 22. ágúst 1996, en jafnframt hafði verið gert árangurslaust fjárnám hjá systur stefnanda. Krafist var nauðungarsölu á umræddri eign 16. janúar 1997 og greiddi stefnandi 200.000 krónur inn á skuldina 16. janúar 1998. Þann 26. janúar 1998 óskaði lögmaður stefnanda eftir því við stefnda, að stefnandi yrði leystur undan sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu sinni og að fjárnámi yrði aflétt af eign hans. Þess í stað fengi stefndi tryggingarbréf, útgefið af Víði ehf., tryggt með veði í Kothúsvegi 16, Garði, Gerðahreppi, Gullbringusýslu, á 10. veðrétti. Stefndi hafnaði því og gerði þá lögmaður stefnanda tilboð 16. maí 1998 um greiðslu á hluta skuldarinnar sem fullnaðargreiðslu. Var því hafnað af hálfu stefnda, en eftir frekari bréfaskipti milli lögmanns stefnanda og stefnda náðist samkomulag 24. júní 1998 um, að stefndi gæfi eftir hluta skuldarinnar. Stefnandi greiddi 1.300.000 krónur 26. júní 1998 og fékk þá afhenta kvittun um fullnaðargreiðslu. Var enginn fyrirvari gerður af hálfu stefnanda við skuldauppgjörið. Ári eftir uppgjörið, eða 14. maí 1999, krafðist lögmaður stefnanda endurgreiðslu á þeirri fjárhæð, sem stefnandi hafði greitt samkvæmt framansögðu ári áður. Var því hafnað af hálfu stefnda.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því, að staða hans við samningsgerð, er leiddi til undirritunar á nefndri ábyrgðaryfirlýsingu, þær forsendur, sem hún byggðist á, og upplýsingagjöf stefnda leiði til þess, að ábyrgðaryfirlýsing hans sé ógild og/eða að forsendur hennar hafi brostið. Stefndi hafi ekki gert stefnanda neina gerð grein fyrir í hverju ábyrgð hans væri fólgin. Þá hafi stefnandi ekki gert sér grein fyrir þeim endanlegu réttaráhrifum, sem ábyrgðarskuldbinding hans fól í sér, þ.e. að það gæti leitt til þess, að hann þyrfti að greiða hana ellegar missa heimili sitt á nauðungaruppboði. Hafi stefnandi engan hag haft af löggerningnum. Rík ástæða hafi verið til þess, að greiðslumat færi fram, þar sem aðeins hafi verið um einn gjalddaga að ræða á nefndu bréfi og stefnandi hafi verið og sé öryrki. Stefnanda hafi á hinn bóginn verið talin trú um, að hér væri aðeins um undirskrift að ræða til bráðabirgða og að stefndi myndi lána aðalskuldara bréfsins hærri fjárhæð til þess að greiða upp veðskuldina.
Af gjalddaga umrædds skuldabréfs sé ljóst, að stefnt hafi verið að því með útgáfu bréfsins, að skuldbindingin væri aðeins gerð til bráðabirgða og það yrði greitt með öðru láni, sem stefndi veitti. Hafi það verið sú forsenda, sem stefnandi byggði á, er hann léði undirritun sína sem ábyrgðaraðali á nefnt skuldabréf. Hafi stefnda mátt vera ljóst, að skuldbinding veðskuldarbréfsins væri ekki í samræmi við fjárhag stefnanda og að stefnandi væri ekki borgunarmaður fyrir skuldinni, nema með því að selja hluta eigna sinna, eins og hann hafi neyðst til að gera. Megi segja, að stefnda hafi við þessar aðstæður mátt vera ljóst, að stefnandi væri bæði einfaldur og fákunnandi með því að afhenda eigur sínar með þessum hætti, án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir, í ljósi þess að fyrirtækið, sem skyldi ábyrgjast greiðslu bréfsins, stóð veikum fótum með litla eða enga eiginfjárstöðu og rekstur þess ekki hafinn.
Til þess að takmarka tjón stefnanda hafi verið gefið út tryggingarbréf af hálfu Víðis ehf., sem stefndi hafi neitað að taka sem greiðslu fyrir ábyrgðaryfirlýsingu stefnanda. Hafi stefnanda verið nauðugur einn kostur að semja um greiðslu skuldarinnar, ellegar missa heimili sitt á nauðungaruppboði. Hafi nefndar greiðslur bréfsins verið inntar af hendi undir þeirri þvingun. Beri stefnanda að fá þær greiðslur endurgreiddar með dráttarvöxtum.
Verði ekki fallist á að ábyrgðaryfirlýsing stefnanda sé að öllu leyti ógild, á grundvelli ógildingaheimilda samningalaganna eða á grundvelli meginreglunnar um ógildingu loforðs á grundvelli brostinna forsendna, er byggt á því í varakröfu, að ábyrgðaryfirlýsingu hans megi víkja til hliðar að hluta skv. mati dómara á grundvelli 1. mgr. 36. gr. samningalaganna. Beri þá að endurgreiða stefnanda samsvarandi hluta, sem talinn verði óskuldbindandi fyrir hann á þeim grundvelli, með dráttarvöxtum frá og með greiðsludegi. Ógildingarheimildum sé ætlað að koma í veg fyrir, að loforðsgjafi sé bundinn af loforði, þegar staða aðila breytist, eftir að loforð er gefið. Telja verði skuldbindingu þessa afar ósanngjarna í garð stefnanda, sem einskis hags hafi notið af gerningnum. Verði að gera þær kröfur til lánveitanda, að hann upplýsi þýðingu skuldbindingar sjálfskuldarábyrgðaraðila einkum í ljósi þess, að um hafi verið að ræða aðila, sem sé einfaldur og fákunnandi og stefnda mátt vera það ljóst.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Sýknukrafa stefnda er á því byggð, að ekki séu fyrir hendi skilyrði til að ógilda eða víkja til hliðar hinni umstefndu sjálfsábyrgðaryfirlýsingu stefnanda, hvorki í heild né að hluta. Ekki séu heldur skilyrði til að taka til greina kröfu stefnanda um endurgreiðslu á því fé, sem hann innti af hendi skv. uppgjörssamningi aðila þann 26. júlí 1998. Eigi 31. og 36. gr. laga nr. 7/1936, sem stefnandi vísi til, ekki við hér.
Fyrir það fyrsta hafi stefndi engin afskipti haft af því, að stefnandi gerðist sjálfskuldarábyrgðarmaður fyrir Gunnar Guðmundsson að skuldinni skv. skuldabréfinu, sem Gunnar hafi gefið út til stefnda, né hafi stefndi haft nokkra vitneskju um ástæður stefnanda fyrir því að gerast ábyrgðarmaður að skuld Gunnars. Þá hafi stefnandi ekki heldur verið háður stefnda á nokkurn hátt og liggi ekkert fyrir um, að stefnandi hafi verið maður einfaldur, fákunnandi eða léttúðugur eða átt í bágindum, svo vitnað sé til 31. gr. laga nr.7/1936. Sé ósannað með öllu, að Gunnar Guðmundsson eða aðrir hafi misnotað stöðu sína gagnvart stefnanda til að fá hann til að gerast ábyrgðarmaður að skuld Gunnars við stefnda, en hafi svo verið, sé stefnda það með öllu ókunnugt. Séu því ekki skilyrði til að ógilda hina umstefndu sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu stefnanda með stoð í 31. gr. laga nr. 7/1936, eða hið fyrirvaralausa uppgjör hans á skuldinni við stefnda. Leiði af því, að endurgreiðslu úr hendi stefnda verði heldur ekki krafist með stoð í 31. gr. nefndra laga.
Í annan stað séu ekki nein skilyrði til þess að ógilda ábyrgðaryfirlýsinguna og skuldauppgjörið í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. samningalaga. Sé meginregla í kröfu- og samningsrétti, að mönnum beri að standa við skuldbindingar sínar (pacta sunt servanda). Réttlæti ekki ógildingu skuldbindingar, þó að það gangi nærri fjárhag manns að standa við hana. Sé sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuld Gunnars Guðmundssonar við stefnda ekki óvenjuleg eða afbrigðileg sjálfskuldarábyrgð á nokkurn hátt. Séu sjálfskuldarábyrgðir á skuldum mjög algengar í viðskiptum og venjulegu fólki ekki framandi. Hafi stefnanda hlotið að vera kunnugt um stöðu og fjárhag Gunnars, enda séu stefnandi og hann nátengdir. Hafi ekkert gefið stefnanda ástæðu til að ætla, að skuldin skv. skuldabréfinu væri aðeins til bráðabirgða og yrði greidd með öðru láni, sem stefndi myndi veita. Hafi ekkert slíkt staðið til og staðhæfingar í stefnu í aðra átt einfaldlega rangar.
Ekkert hafi heldur bent til þess, að stefnandi hafi verið einhver undirmálsmaður og stefndi enga ástæðu haft til þess að hafa sérstaklega samband við hann og útskýra fyrir honum eðli sjálfskuldarábyrgða. Þá hafi stefndi ekki haft neina ástæðu til þess að setja stefnanda í einhvers konar greiðslumat, áður en stefndi tók við skuldabréfinu úr hendi Gunnars, enda sé stefndi ekki lánastofnun. Þá hafi stefnda verið alls ókunnugt um meinta örorku stefnanda og fjárhagsstöðu. Sé algerlega rangt, sem haldið er fram af hálfu stefnanda, að stefnda hafi mátt vera ljóst, að ábyrgðin samrýmdist ekki fjárhag stefnanda og að hann væri ekki borgunarmaður fyrir skuldinni.
Loks hafi ekki orðið neinar breytingar á skuld Gunnars skv. skuldabréfinu eða á ábyrgð stefnanda skv. því, eftir að til skuldbindinganna var stofnað, sem gætu réttlætt endurskoðun á sjálfskuldarábyrgð stefnda. Hafi þannig ekkert verið athugavert við, að stefndi gengi að stefnanda á grundvelli ábyrgðarinnar, þegar innheimta á aðalskuldara og hinn ábyrgðarmann skuldarinnar hafi reynst árangurslaus.
Sama gildi um uppgjör skuldarinnar, sem stefnandi hafi samið um við stefnda með aðstoð lögmanns og greitt síðan án nokkurs fyrirvara, eftir að stefndi hafi veitt honum verulegan afslátt af skuldarupphæðinni. Sé stefnandi því bundinn við uppgjörssamninginn og með ólíkindum, að hann, með aðstoð sama lögmanns, komi nú tveim árum síðar aftan að stefnda og krefjist endurgreiðslu.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Fram er komið í málinu, að stefndi féllst á, fyrir þrábeiðni fyrrnefnds Gunnars Guðmundssonar, að færa skuld vegna brunatryggingariðgjalds, er hvíldi sem lögveð á tiltekinni fasteign í Keflavík, á skuldabréf. Var fasteignin á þeim tíma til nauðungarsölumeðferðar, sem lauk með nauðungarsölu 3. febrúar 1993. Er óumdeilt, að stefndi hefði fengið kröfu sína greidda af uppboðsandvirði eignarinnar, hefði hann haldið henni til streitu við nauðungarsöluna. Þá er ljóst, að stefndi ritaði sem sjálfskuldarábyrgðarmaður á bréfið að beiðni aðalskuldara og að stefndi hafði ekkert með það að gera. Með undirritun sinni skuldbatt stefnandi sig persónulega gagnvart stefnda til greiðslu skuldarinnar, yrði greiðslufall af hálfu aðalskuldara.
Gegn andmælum stefnda er með öllu ósannað af hálfu stefnanda, að stefndi hafi gefið áðurnefndum aðalskuldara bréfsins vilyrði fyrir láni til greiðslu þess og að útgáfa skuldabréfsins væri einungis bráðabirgðaráðstöfun. Skiptir ekki máli varðandi lögskipti aðila þessa máls, hvað stefnanda og aðalskuldara bréfsins kann að hafa farið á milli í því efni og þar með, hvort aðalskuldari hafi talið stefnanda trú um, að hann ætti von á lánveitingu frá stefnda til að greiða upp skuldabréfið. Þá verður heldur ekki fallist á með stefnanda, að stefnda hafi borið að veita stefnanda sérstakar leiðbeiningar um þá skyldu, sem hann tók á sig með undirritun bréfsins, í greiðaskyni við aðalskuldara þess.
Eftir að innheimtutilraunir gagnvart aðalskuldara reyndust árangurslausar hóf stefndi innheimtuaðgerðir gagnvart stefnanda og hinum sjálfskuldarábyrgðarmann-inum, Sigrúnu Stefánsdóttur, systur stefnanda. Eftir að gert hafði verið árangurslaust fjárnám hjá henni var ljóst, að frekari innheimta skuldarinnar hjá henni var vonlaus. Í framhaldi af fjárnámi í fasteign stefnanda að Guðrúnargötu 2 hér í borg var krafist nauðungarsölu á eigninni 16. janúar 1997. Nam heildarkrafa stefnda þá 1.859.975 krónum. Stefnandi greiddi 200.000 krónur inn á skuldina 16. janúar 1998. Með bréfi 16. maí 1998 gerði lögmaður stefnanda stefnda tilboð um greiðslu á hluta skuldarinnar sem fullnaðargreiðslu. Var því hafnað af hálfu stefnda með bréfi, dagsettu 28. sama mánaðar, þar sem fram kemur, að skuldin stæði þann dag í 2.046.178 krónum. Eftir frekari bréfaskipti milli lögmanns stefnanda og stefnda náðist samkomulag 24. júní 1998 um, að stefndi gæfi eftir hluta skuldarinnar. Greiddi stefnandi 1.300.000 krónur 26. júní 1998 og fékk í hendur kvittun um fullnaðargreiðslu. Enginn fyrirvari var gerður af hálfu stefnanda við skuldauppgjörið. Af framansögðu er ótvírætt, að samkomulag náðist milli aðila um greiðslu skuldarinnar að frumkvæði stefnanda, sem naut lögmannsaðstoðar við hið fyrirvaralausa uppgjör. Jafnframt er ljóst, að stefnanda var veittur talsverður afsláttur af skuldinni, eða 764.203 krónur.
Þegar allt framangreint er virt í heild, þykir ekkert fram komið í málinu um, að stefndi hafi á einhvern hátt notfært sér bágindi stefnanda, einfeldni hans eða fákunnáttu til þess að afla sér hagsmuna, þannig að til ógildingar sjálfskuldar-ábyrgðarinnar leiði samkvæmt ákvæði 31. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 1. gr. laga nr. 11/1986. Að auki þykir rétt að geta þess, að til sjálfskuldarábyrgðar stefnanda var stofnað vegna hagsmuna aðalskuldara bréfsins, þar sem stefndi var á þeim tíma, sem ábyrgðin kom til, með örugga tryggingu fyrir greiðslu skuldar þeirrar, sem flutt var á hið umdeilda skuldabréf. Enn fremur þykir ekki fara saman að semja sérstaklega um greiðslu skuldarinnar, með afslætti, greiða hana án nokkurs fyrirvara og höfða, ári síðar, mál til ógildingar sjálfskuldarábyrgðinni. Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á aðalkröfu stefnanda.
Um varakröfu stefnanda er það að segja, að 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 1. gr. laga nr. 14/1995 og 6. gr. laga nr. 11/1986, er undantekningarregla, sem skýra ber þröngt. Samkvæmt framansögðu verður hvergi talið, að stefnandi hafi sýnt fram á, að einhverjum þeim atvikum, sem þar er lýst, sé til að dreifa um ofangreind lögskipti málsaðila, sem leiði til þess að víkja beri samningi þeirra um uppgjör skuldarinnar til hliðar að hluta eða í heild sinni. Þá brestur og lagaskilyrði til að víkja umræddri sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu til hliðar að hluta til. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum þykir mega ákveða, að málskostnaður þeirra í millum falli niður.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 21. september 1999. Greiðist gjafsóknarkostnaður stefnanda, 253.500 krónur, sem samanstendur af málflutningsþóknun lögmanns hans, Magnúsar Inga Erlingssonar hdl., er þykir hæfileg 250.000 krónur, og útlögðum kostnaði, 3.500 krónum, úr ríkissjóði.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Friðgeirs Stefánssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 253.500 krónur, þar með talin málflutnings-þóknun lögmanns hans, Magnúsar Inga Erlingssonar hdl., 250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.