Hæstiréttur íslands

Mál nr. 111/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 21. febrúar 2012.

Nr. 111/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. febrúar 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og hafnað verði kröfu sóknaraðila að varnaraðili verði látinn sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærði, X, kt. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. mars nk. kl. 16:00, og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu standi.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar ítrekuð og gróf kynferðisbrot X gagnvart fjölda stúlkna. Upphaf málsins megi rekja til tveggja kæra á hendur X í október 2011 og þá hafi, í þágu rannsóknar, verið lagt hald á tölvubúnað hans. Við nánari skoðun hafi komið í ljós mikið magn af myndum af stúlkubörnum, klæðalitlum og nöktum. Kærði X hafi verið handtekinn föstudaginn 3. febrúar og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 81/2012.

Þá er þess getið að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að kærði X vinni á skipulagðan hátt að því að fá ungar stúlkur til að bera sig í gegnum vefmyndavélar, sitja naktar fyrir eða horfa á hann í gegnum vefmyndavél stinga hlutum upp í endaþarm sinn. Þegar samband hafi komist á milli hans og stúlknanna leggi hann sig fram um að fá að hitta þær í kynferðislegum tilgangi. Í ljós hafi komið að kærði eigi mikið magn mynda af ungum stúlkum, klæðalitlum og nöktum, sem beri með sér að séu teknar í kynferðislegum tilgangi. Myndirnar séu í fyrsta lagi teknar í vefmyndavélum sem sýni stúlkurnar í kynferðislegum stellingum, klæðalitlar og eða klæðalausar, þar sem þær hafi berað brjóst sín og kynfæri í sumum tilvikum. Á samskiptasíðum, sem liggi í sumum tilvikum fyrir með myndunum, komi fram ýtni af hálfu hans um að þær fækki fötum og í sumum tilvikum sýni sig með kynferðislegum tilburðum. Þá séu myndir sem beri með sér að hafa verið teknar í ljósmyndastúdíói, þar sem stúlkur, sumar barnungar, sitji fyrir naktar, og tilvik þar sem mynduð séu ber brjóst þeirra og kynfæri. Þá séu einnig til myndir og myndskeið þar sem kærði sé einnig á myndum með stúlkum ber eða klæðalaus. Þrátt fyrir að kærði hafi sett sig í samband við stúlkurnar undir ólíkum kenniheitum, sem að mati lögreglu staðfesti það sem fram komi í kærum að kærði hafi reynt að villa á sér heimildir, megi sjá upplýsingar sem geri það auðvelt að hafa upp á stúlkunum sem hann virðist hafa verið í sambandi við og myndirnar séu af. Ljóst sé að fjöldi stúlknanna, sem hafa þurfi samband við, skipti a.m.k. tugum. Torveldara kunni að vera að hafa upp á þeim stúlkum sem myndir séu af frá ljósmyndastúdíói, en þó megi ætla að í þeim tilvikum megi styðjast við vefsamskipti sem finnist í gögnum kærða, enda virðist kærði með þeim hætti hafa fengið og tælt stúlkurnar til samskipta.

Af því mikla myndasafni, sem lýst sé hér að framan og fundist hafi í tölvu kærða, hafi lögreglu tekist að bera kennsl á og ræða við sex stúlkur á aldrinum 13–15 ára sem allar beri á þá leið að kærði hafi þrýst á þær að sýna sig fáklæddar og jafnvel naktar. Sé framburður þriggja stúlknanna á þann veg að kærði X hafi leitað á þær kynferðislega og í tveimur tilfellum nauðgað þeim. Nánar um málavexti og framburði telpnanna vísi lögregla til meðfylgjandi samantektar rannsakenda, dags. 16. febrúar 2012.

Lögregla tekur fram að hún vinni nú hörðum höndum að því að hafa uppi á þeim stúlkum sem finna megi ljósmyndir af í tölvu kærða, þar sem þær sitja fyrir fáklæddar og naktar í kynferðislegum stellingum. Í því skyni hafi í gær m.a. verið bornar undir kærða 14 ljósmyndir af mjög ungum stúlkum, þar sem þær séu að sýna brjóst, rass og kynfæri sín. Kærði X hafi litlar sem engar upplýsingar getað gefið um hvaða stúlkur þetta væru, þrátt fyrir að hafa verið í töluverðum samskiptum við þær.

Þá hafi lögreglan, fyrr í dag, fundið og borið kennsl á tvær stúlkur til viðbótar, 14 og 15 ára. Hafi forsjáraðili annarrar stúlkunnar lagt fram formlega kæru á hendur X vegna kynferðisbrots af hans hálfu er stúlkan var 12 ára gömul. Kæra frá hinni muni berast lögreglu næstkomandi mánudag, en þar sé um að ræða brot gagnvart stúlkunni er hún var 14 ára.

Tekið er fram að rannsókn málsins sé skammt á veg komin og sé málið, sem verði að teljast nokkuð umfangsmikið, á viðkvæmu stigi. Það sé því afar brýnt að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi enda sé hann nú undir rökstuddum grun um að hafa brotið kynferðislega gegn fjölda stúlkna á aldrinum 13–15 ára á síðastliðnum misserum. Þá kunni kærði, gangi hann frjáls ferða sinna, að torvelda rannsóknina, svo sem með því að hafa áhrif vitni málsins eða koma undan munum sem sönnunargildi hafi.

Lögregla telji sakarefni málsins varða við ákvæði XXII. kafla, einkum 194. gr., 202 gr., 206. gr., 209. gr. og 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og ofangreindra lagaákvæða sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Eins og að framan hefur verið rakið er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga og geta brotin varðað fangelsisrefsingu ef sök sannast. Hin ætluðu brot beinast að mörgum stúlkum.  Rannsókn málsins hefur staðið yfir í nokkurn tíma og hefur kærði setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 4. febrúar sl.  Með vísan til framanritaðs og þess hve umfangsmikil rannsókn málsins virðist vera verður fallist á að kærði geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Er því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og verður orðið við kröfunni, þó þannig að kærði skal gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 24. febrúar nk. kl. 16.00.  Með sömu rökum er fallist á þá kröfu lögreglustjórans að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. febrúar nk. kl. 16:00, og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.