Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/2001


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Hraðakstur
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Ítrekun
  • Svipting ökuréttar
  • Blóðsýni


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001.

Nr. 219/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Daníel Helgasyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

                                                   

Ölvunarakstur. Hraðakstur. Líkamsmeiðing af gáleysi. Ítrekun. Svipting ökuréttar. Blóðsýni.

D var gefið að sök að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og of hratt miðað við aðstæður, aftan á aðra bifreið, með þeim afleiðingum að sú bifreið fór út af veginum og valt og ökumaður hennar hlaut líkamstjón. Reyndist magn alkóhóls í blóði D vera 1,82‰, en blóðsýni var tekið úr D um einum og hálfum tíma eftir slysið. D neitaði að hafa verið undir áhrifum áfengis er hann ók bifreiðinni í greint sinn. Kvaðst hann hafa drukkið vín með mat kvöldið fyrir áreksturinn og haldið áfram áfengisdrykkju um nóttina og fram til morguns og þá verið orðinn blindfullur enda hafi hann drukkið mjög mikið. Við yfirheyrslu hjá lögreglu tæpum þremur mánuðum eftir slysið, sem verjandi hans var viðstaddur, hélt hann því að auki fram að hann hefði drukkið um fimm hálfslítra dósir af léttöli eftir að hann settist undir stýri. Um drykkju sína eftir áreksturinn sagði hann við þessa yfirheyrslu og þingfestingu málsins að hann hafi drukkið úr einni bjórdós. Kom jafnframt fram í framburði D í lögregluskýrslu að hann hefði helt úr bjórdósinni smáræði og hafi fólk í næsta bíl fyrir aftan séð það. Var þessi framburður D í samræmi við framburð vitnisins K og að á vettvangi fannst bjórdós á vél bifreiðar hans. Í dómi Hæstaréttar segir að þegar litið sé til framburðar D um drykkju sína nóttina áður og sama dag og hann ók, framburðar hans um drykkju eftir slysið, mikils áfengis í blóði og alls annars þyki hafið yfir allan skynsamlegan vafa að hann hafi við aksturinn verið undir áhrifum áfengis í skilningi 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Var D sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru, en hann látinn njóta vafa um hversu mikið magn áfengis yfir löglegum mörkum var í blóði hans við aksturinn. Um var að ræða aðra ítrekun á ölvunarakstursbroti. Var D dæmdur í 2 mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvalds 28. maí 2001. Hann krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, refsing hans verði þyngd og að hann verði sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvalds.

I.

Eins og getið er í ákæru er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni LZ 307 vestur Suðurlandsveg um þéttbýlið við Hellu að Lyngási í Holta- og Landssveit laugardaginn 24. júní 2000, of hratt miðað við aðstæður, undir áhrifum áfengis og ekið aftan á bifreiðina IE 222 með þeim afleiðingum að sú bifreið fór út af veginum og valt og ökumaður hennar, Andrea Jónsdóttir, hlaut líkamstjón, sem nánar er lýst í ákæru. 

Farþegi í bifreið ökumanns, sem ók næstur á eftir bifreið ákærða er áreksturinn varð, tilkynnti lögreglu slysið kl. 16.55. Komu tveir lögreglumenn á vettvang kl. 17.05. Er aðkomu lögreglu á vettvang og ástandi þar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að ákærði hafi ekki verið á staðnum en fljótlega hafi vitni, Örn Guðjónsson, gefið sig fram og sagst vera með ökumann LZ 307 í bifreið sinni skammt frá slysstað. Hafi Örn sagt að ákærði, sem væri lítið slasaður og utan við sig, vildi komast á brott. Lögreglumenn hafi því beðið Örn að hafa hann í sinni umsjá meðan þeir væru að sinna störfum á vettvangi, meðal annars hinni slösuðu. Að því loknu hafi lögregla farið kl. 18.05 í nærliggjandi hús, Lyngás 3, en þar hafi ákærði þá verið staddur. Hann hafi verið færður út í lögreglubifreiðina til viðræðna um tildrög árekstrarins. Samkvæmt skýrslunni ræddi annar lögreglumannanna þar við ákærða. Fann hann áfengislykt af ákærða og lét hann í framhaldi þess blása í öndunarmæli, sem gaf til kynna að ákærði hefði neytt áfengis. Ákærða var tilkynnt í framhaldi þess kl. 18.10 að hann væri handtekinn. Var hann færður til alkóhólrannsóknar á heilsugæslustöðina á Hvolsvelli, þar sem læknir tók úr honum blóðsýni kl. 18.30. Samkvæmt vottorði Rannsóknastofu í lyfjafræði reyndist magn alkóhóls í blóði ákærða vera 1,82‰, en ekki var tekið þvagsýni.

II.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakargiftir á hendur ákærða vegna of hraðs aksturs. Þá verður einnig á sama hátt staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi hans að aka aftan á bifreiðina IE 222 með þeim afleiðingum að ökumaður hennar varð fyrir því líkamstjóni sem lýst í ákæru. Eru þessi brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í héraðsdómi. 

III.

Ákærði neitar því að hann hafi verið undir áhrifum áfengis er hann ók bifreiðinni greint sinn. Hann var færður til skýrslutöku kl. 19.15 að kvöldi sama dags en vildi ekki tjá sig um ætlaða ölvun við akstur. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 17. október 2000, að verjanda sínum viðstöddum, var eftir honum haft að hann hafi strax eftir slysið tekið bjórdós, sem hann var með í bifreiðinni, og drukkið úr henni. Hann hafi áttað sig á að „það hafi ekki verið viturlegt og því hafi hann hellt niður því sem eftir var í dósinni, en það hafi verið mjög lítið.“ Hafi fólk í næsta bíl fyrir aftan hann séð hann hella úr dósinni. Spurður um áfengisneyslu sína fyrir aksturinn sagði ákærði að hann hafi drukkið rauðvín með mat kvöldið áður og haldið áfram drykkju um nóttina og fram á morgun. Hann kvaðst ekki vita hversu mikið hann drakk, en það hafi verið „mjög mikið og hann hafi verið blindfullur um morguninn þegar hann sofnaði.“ Það hafi verið milli kl. 8 og 9. Hann hafi vaknað um kl. 12.30 til 13, farið á fætur og fengið sér að borða og drukkið úr tveimur dósum af léttöli. Hann hafi haft með sér um fimm pilsnera og drukkið þá á leiðinni frá Reykjavík að Hellu þar til skömmu fyrir áreksturinn. Við þingfestingu málsins kvaðst ákærði hafa verið að skemmta sér nóttina fyrir aksturinn og þá „neytt áfengis í töluverðu magni“ fram til kl. 8 til 9. Hann hafi drukkið einn bjór að akstri loknum og rúmri klukkustund síðar hafi hann blásið í öndunarmæli hjá lögreglu. Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði frá drykkju sinni nóttina og morguninn fyrir aksturinn á sama veg og áður. Hann hafi verið „mjög ölvaður“. Hafi hann drukkið pilsner með hádegismatnum, en hann kannaðist hins vegar ekki við að hafa drukkið áfengi á meðan á akstrinum stóð. Um drykkju sína eftir aksturinn sagði hann, að eftir að hann fékk höggið við áreksturinn væri „margt í þoku“ um hana. Hann hafi séð bjórdósina, sem fannst tóm er bifreið hans var fjarlægð af vettvangi, eftir að hann kom út úr húsinu við Lyngás, farið inn og aftur út úr bifreiðinni og setið þar „í sjokki“. Honum hafi liðið illa og hann ekki vitað hvað hefði gerst, „en þá var ég alveg handviss um það að ég drakk.“ Nánar spurður um hversu mikið hann hefði drukkið kvaðst ákærði ekki vita það nákvæmlega, en þegar hann drykki bjór gæti hann „hæglega drukkið mjög mikið, mjög hratt“. Hann hafi tekið „drasl sem hafði verið í bílnum hjá lögreglunni og þar...voru pilsnerdósir og bjórdós.”  Við lok aðalmeðferðar var enn gengið á ákærða um drykkju hans eftir akstur.  Kvaðst hann ekki vita það nákvæmlega, en ekkert útiloka í þeim efnum, en hann myndi eftir að hafa þambað og hann gæti „hæglega drukkið ... úr heilli svona dós, hálfslíters dós bara í einum slurk.“ Er ákærði var kynntur sá framburður vitnis að það hafi séð hann hella úr bjórdós sagðist hann reikna með að það væri sama dósin og hann hefði drukkið megnið úr eftir áreksturinn og lögregla síðar fundið tóma ofan á vél bifreiðar hans, en fram er komið að vélarhlífin hafði spennst upp.

Eins og fram kemur í héraðsdómi gáfu nokkur vitni skýrslu við meðferð málsins. Var framburður þeirri í öllum meginatriðum á sama veg og við rannsókn þess. Meðal þeirra var Kolbrún Sigþórsdóttir, sem var farþegi í bifreið sem ekið var næst á eftir bifreið ákærða er áreksturinn varð. Kolbrún bar að bifreiðinni, sem hún var í, hafi verið lagt fyrir aftan bifreið ákærða á vettvangi. Hún hafi fylgst með ákærða, sem hafi kannað skemmdir á bifreið sinni. Hann hafi teygt sig inn í bíl sinn eftir áldós og hellt úr henni. Síðan hafi komið þar að maður, sem rætt hafi við ákærða á vettvangi, og þeir farið saman á brott í bifreið þess fyrrnefnda. Örn Guðjónsson kvaðst hafa gefið sig á tal við ákærða á vettvangi. Ákærði, sem hafi verið lítillega blóðugur, hafi greinilega verið í “sjokki“ og liðið illa. Hafi ákærði viljað fara til læknis og sagðist Örn því hafa tekið hann upp í bifreið sína, enda hafi lögregla haft öðru að sinna á vettvangi, og ekið áleiðis til Hellu. Á leiðinni hafi þeir mætt lækninum á Hellu og því kvaðst Örn hafa snúið við og ekið að söluskálanum á Hellu, þar sem hann hafi þvegið sár ákærða. Þeir hafi svo farið aftur á slysstað. Kvaðst Örn hafa rætt þar við Ingólf Waage lögreglumann, sem hafi beðið vitnið að hafa ákærða í sinni umsjá þangað til vinnu lögreglu á vettvangi væri lokið. Hann hafi þá tekið ákærða aftur upp í bíl sinn og farið síðan með hann inn í húsið við Lyngás, en þangað hafi læknirinn komið og litið á hann. Örn kvaðst hvorki hafa merkt áfengisáhrif á ákærða né fundið af honum áfengislykt. Vitnið taldi að þeir ákærði hafi verið saman í 20 til 30 mínútur.  Gunnar Þórisson, sem bjó að Lyngási 3, var að vinna í garði sínum er áreksturinn varð. Kvaðst hann hafa heyrt hávaða og séð jeppabifreið endastingast út af veginum áður en hún valt. Er þessi lýsing vitnisins í samræmi við framburð Gottliebs Gunnars Gunnarssonar, sem bar að bifreiðin sem ákærði ók á hefði „spýst út af“ veginum. Staðfesti Gunnar að ákærði hefði komið inn á heimili sitt og fengið þar kaffi að drekka, en annað ekki.  Ingólfur Waage lögreglumaður, sem gerði frumskýrslu og uppdrátt af vettvangi, staðfesti gögnin. Hann staðfesti einnig að hann hafi fundið samanbrotna blóðkámuga hálfs lítra bjórdós ofan á vél bifreiðarinnar, en fram kemur í lögregluskýrslu að áfengisstyrkur bjórsins hafi verið 5,5%. Er framburður vitnanna nánar rakinn í héraðsdómi.

Kristín Magnúsdóttir lyfjafræðingur, starfsmaður Rannsóknastofu í lyfjafræði, bar vitni fyrir héraðsdómi. Vitnið bar að „venjulegur maður“ skilji út 0,15‰ til 0,20‰ alkóhóls á klukkustund og miðað við 70 kg. karlmann og að því gefnu að áfengismagn skilaði sér strax út í blóðið gæti einn bjór með áfengisstyrkleikanum 5,5% mælst í blóði 0,40‰, en mun minna ef einhver tími liði frá því að áfengis væri neytt.

IV.

Af hálfu ákærða er niðurstaða alkóhólrannsóknar dregin í efa á þeim forsendum að handvömm hafi orðið við sýnatökuna og niðurstaðan sé í engu samræmi við ástand ákærða á vettvangi. Karl Reynir Einarssonar læknir, sem tók  blóðsýni úr ákærða, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu um hvernig staðið var að töku sýnisis. Kemur ekkert fram í vætti hans né öðrum gögnum, sem gefur tilefni til að vefengja niðurstöðu rannsóknarinnar.

Ákærði hefur frá upphafi sagt að hann hafi drukkið rauðvín með mat kvöldið fyrir áreksturinn og haldið áfram áfengsidrykku um nóttina fram til kl. 8 til 9 um morguninn og þá verið orðinn „blindfullur“ enda hafi hann drukkið mjög mikið. Í yfirheyrslu hjá lögreglu tæpum þremur mánuðum eftir atvikið, sem verjandi hans var viðstaddur, hélt hann því að auki fram að hann hefði drukkið um fimm hálfslítra dósir af léttöli á leið sinni frá Reykjavík til Hellu. Um drykkju sína eftir áreksturinn sagði hann við þessa yfirheyrslu og þingfestingu málsins að hann hafi drukkið úr einni bjórdós. Kom jafnframt fram í framburði ákærða í lögregluskýrslu að hann hafi hellt úr bjórdósinni smáræði og hafi fólk í næsta bíl fyrir aftan séð það. Er þessi framburður ákærða í samræmi við vætti Kolbrúnar Sigþórsdóttur, en hún sat, eins og að framan er rakið, í kyrrstæðri bifreið fyrir aftan bifreið ákærða og sá til ferða hans eftir áreksturinn. Þessi framburður ákærða er einnig í samræmi við það að á vettvangi fannst bjórdós á vél bifreiðar hans. Framburður ákærða við aðalmeðferð málsins um drykkju hans eftir aksturinn er mjög óljós og á reiki. Af honum verður ekki ráðið hvað hann hafi drukkið umfram þessa einu dós sem fannst á vettvangi. 

Vitnið Kolbrún fylgdist með ferðum ákærða á vettvangi frá því slysið varð þangað til Örn Guðjónsson kom ákærða til aðstoðar. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við að ákærði hafi verið með annað áfengi undir höndum en ofangreinda bjórdós. Af vætti Arnar verður ráðið að hann hafi verið með ákærða í 20-30 mínútur þangað til lögregla hafði afskipti af honum á heimili vitnisins Gunnars Þórissonar í Lyngási 3, en þar beið ákærði og drakk kaffi. Samkvæmt vitnisburði Gunnars og Arnar drakk ákærði ekkert áfengi í viðurvist þeirra. Frá því slysið var tilkynnt kl. 16.55 þar til ákærði komst í vörslur lögreglu í Lyngási 3 kl. 18.05 leið ein klukkustund og tíu mínútur. Á þessum tíma fylgdist vitnið Kolbrún með ferðum ákærða uns vitnið Örn hafði af honum afskipti. Til þess er að líta að ákærði var ýmist á vettvangi eða í fylgd vitna, eins og lýst hefur verið. Ekkert framangreindra vitna varð vart við að ákærði neytti bjórs, en vitnið Kolbrún staðfesti að ákærði hefði hellt úr bjórdós, sem ákærði hefur staðfastlega sagt að hann hafi neytt úr að akstri loknum.

Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar mældist verulegt áfengismagn í blóði ákærða. Hann kvaðst ekki hafa neytt sterkara áfengis en bjórs að akstri loknum. Er ljóst samkvæmt vætti Kristínar Magnúsdóttur lyfjafræðings að til þess að svo mikið magn alkóhóls mældist, sem raun varð á, þyrfti ákærði, eins og hér stóð á, að hafa neytt nokkurra lítra af sterkum bjór eftir áreksturinn. Frá því ákærði var kominn í hendur lögreglu þangað til honum var tekið blóðsýni liðu 25 mínútur. Gafst því nokkur tími til þess að af honum rynni áfengisvíma. Þegar litið er til framburðar ákærða um drykkju sína nóttina fyrir og sama dag og hann ók, framburðar hans um drykkju eftir slysið, mikils áfengis í blóði og alls annars, sem að framan greinir, þykir hafið yfir allan skynsamlegan vafa að hann hafi við aksturinn verið undir áhrifum áfengis í skilningi 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi. Þar sem ákærði hafði færi á að neyta einhvers áfengis að akstri loknum og rúmlega einn og hálfur tími leið frá því að akstri lauk þangað til blóðsýni úr honum var tekið verður ekki slegið föstu hversu mikið magn áfengis yfir lögleyfðum mörkum var í blóði hans við aksturinn. Nýtur hann vafa, sem um það kann að vera, og verður brot hans því fært undir 1. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Með dómi héraðsdóms 9. mars 1992 var ákærði dæmdur til greiðslu 30.000 króna sektar og sviptur ökurétti í 12 mánuði vegna ölvunar við akstur. Sá dómur var staðfestur með dómi Hæstaréttar 10. desember sama árs. Þá gekkst hann undir sátt hjá lögreglustjóra 15. apríl 1997 vegna ítrekaðs ölvunaraksturs með greiðslu 35.000 króna sektar og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði. Loks gekkst hann undir sátt 5. janúar 1998 fyrir akstur án ökuréttar með greiðslu 47.000 króna sektar. Ákærði hefur nú ítrekað ölvunarakstursbrot sitt í annað sinn. Verður refsing hans ákveðin með hliðsjón af því og þeirri háttsemi ákærða að aka einnig of hratt með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðar þeirrar er hann ók á hlaut þau alvarlegu meiðsli sem lýst er í ákæru, en ljóst er af vætti vitna og gögnum málsins að áreksturinn var mjög harður. Við ákvörðun refsingar hans verður einnig litið til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði. Þar sem ákærði hefur ítrekað gerst sekur um ölvunarakstur ber með vísan til 1. mgr., sbr. 3. mgr. og 4. mgr. 101. gr. og 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 23/1998, að svipta hann ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa.

          Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins,  eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Daníel Helgason, sæti fangelsi í 2 mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

 

Dómur Héraðdsóms Suðurlands 10. apríl 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. mars sl., er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Rangárvallasýslu dags. 11. janúar 2001 á hendur ,,Daníel Helgasyni, kt. 240459-2139, Bakkagerði 17, Reykjavík fyrir umferðar- og hegningarlagabrot með því að hafa síðdegis laugardaginn 24. júní 2000 ekið bifreiðinni LZ-307 vestur Suðurlandsveg um þéttbýlið við Hellu að Lyngási, Holta- og Landsveit, of hratt miðað við aðstæður, undir áhrifum áfengis og ekið aftan á bifreiðina IE-222 við Lyngás, með þeim afleiðingum að sú bifreið fór út af veginum og valt. Við það slasaðist ökumaður bifreiðarinnar IE-222, Andrea Jónsdóttir kt. 210769-3909 og hlaut hún mar á báðum lungum, rifbrot báðu megin, brot á hryggjarlið, liðbandaáverka og fleiri áverka á hægri ökkla, liðhlaup í olnboga, brot á báðum örmum lífbeinsins vinstra megin, útbreidd sár á hægri framhandlegg og sár í andliti.

Telst þetta brot varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, 1. mgr. og a. lið 2. mgr. 36. gr. og 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. sbr. 100. og 101. gr. umferðarlaga nr. 50,1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökurétti samkvæmt 101. og 102. gr. áðurnefndra umferðarlaga”.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara gerir hann kröfu um vægustu refsingu sem lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna, sem greiðist úr ríkissjóði.              

Málsatvik

                Í frumskýrslu lögreglunnar á Hvolsvelli kemur fram að kl. 16:55 hafi verið tilkynnt um umferðarslys á Suðurlandsvegi, rétt fyrir utan Lyngás í Holta- og Landsveit. Lögregla hafi komið á slysstað kl. 17:05.  Bifreiðin IE-222 hafi verið á hvolfi utan vegar að norðanverðu með framenda í norðaustur.  Bifreiðinni var velt til að auðveldara væri að komast að ökumanni sem var mikið slasaður. Þegar ökumaður, Andrea Jónsdóttir, hafði verið losuð úr bifreiðinni var hún flutt á sjúkrahús með þyrlu. Sonur ökumanns, níu mánaða drengur, var farþegi í bifreiðinni. Eftir læknisskoðun var hann settur í umsjá íbúa að Lyngási 3, en drengurinn var ekki slasaður. Í skýrslu lögreglu kemur fram að bifreið ákærða, LZ-307 hafi verið nokkru vestar á veginum með framenda í norðvestur og mikið skemmd á hægra framhorni. Á vettvangi gaf sig fram við lögreglu maður að nafni Örn Guðjónsson. Kvað hann ökumann bifreiðarinnar LZ-307 vera í bifreið sinni.  Hann kvað ökumann ekki slasaðan, en mjög utan við sig og vildi komast í burtu.  Lögregla fór þess á leit við Örn að hann héldi ökumanninum hjá sér meðan verið væri að greiða úr málinu og varð hann við því.

Aðstæðum á slysstað er í lögregluskýrslu lýst svo, að sólskin hafi verið og hægur vindur af suð-vestri. Yfirborð vegarins var olíuborið, slétt og þurrt. Stöðug og mikil umferð hafi verið um Suðurlandsveg.

                Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að báðar bifreiðirnar hafi verið mikið skemmdar og við skoðun á bifreiðinni LZ-307 hafi komið í ljós að líknarbelgir fyrir ökumann og farþega höfðu blásist upp við áreksturinn. Einnig kom þá í ljós samanbrotin 50 cl. Bud Ice bjórdós. Á dósinni voru blóðblettir og lá hún ofan á vél bifreiðarinnar, en vélarlokið var kýlt upp eftir árekstrurinn.

Lögregla kom að Lyngási um kl. 18:05 þar sem ökumaður LZ-307, ákærði í máli  þessu, var staddur.  Hann var með skrámur m.a. á höndum og hafði læknir gert að sárum hans.  Hann var færður út í lögreglubifreið þar sem lögregla ræddi við hann um tildrög áreksturs. Í lögregluskýrslu segir að áfengisþef hafi lagt frá vitum hans. Aðspurður um áfengisneyslu kvaðst hann hafa verið að skemmta sér nóttina áður framundir kl. 05:00 og hafi hann þá hætt að drekka, en hann hafi einungis drukkið bjór.  Þá hafi hann fengið pilsner og kaffi að drekka eftir áreksturinn í Lyngási 3. Klukkan 18:08 blés ákærði í öndunarmæli, sem sýndi 1,25 o/oo. Í framhaldi af því, kl. 18:10, var hann handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur og aðild að umferðarslysi og var blóðsýni tekið úr ákærða kl. 18:30 á Heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli.  Endanleg niðurstaða  alkóhólákvörðunar í blóði ákærða mældist 1,82 o/oo.  Þvagsýni var ekki tekið. Í frumskýrslu lögreglu er ástandi ákærða lýst á eftirfarandi hátt: Sjáaldur eðlileg, jafnvægi stöðugt, framburður ruglingslegur, málfar skýrt. Nánar er ástandi hans lýst þannig að hann hafi verið í uppnámi og mikið brugðið og ekki virst gera sér nægilega skýra grein fyrir atvikum.

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð um áverka Andreu Magdalenu Jónsdóttur, dags. 28. júlí 2000. Í vottorðinu kemur fram að rannsóknir hafi staðfest eftirfarandi áverka: Útbreitt lungnamar í báðum lungum. Fjölrifjabrot vinstra megin auk rifbrota hægra megin. Brot á öðrum hálshryggjarliðbol með afrifu á þeim fyrsta. Liðhlaup í hægri olnboga. Útbreiddan liðbandaáverka utanvert á hægri ökkla með fleiri afrifum, afrifubrotum á aftanverðu völubeininu og broti á innri ökklahnyðjunni. Brot á báðum örmum lífbeinsins vinstra megin. Útbreidd sár á hægri framhandlegg og sár í andliti. Í lokaorðum vottorðsins kemur fram að hún hafi strax gengist undir viðamikla aðgerð og síðar fleiri aðgerðir, en þegar vottorðið var gefið lá Andrea enn inni á sjúkrahúsi.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvaðst hafa verið að skemmta sér kvöldinu áður en umrætt slys varð og verið við drykkju allt fram til þess tíma er hann fór að sofa, um átta- eða níuleytið um morguninn. Hann hafi verið mjög ölvaður þá. Hann hafi vaknað um eittleytið og fengið sér hádegismat og Pripps pilsner með, ,,alveg örugglega tvo ef ekki þrjá". Hann hafi ákveðið að keyra austur fyrir fjall til að fara þar í sund. Þegar hann hafi verið kominn austur fyrir Hellu hafi hann snúið við og keyrt til baka. Hann kvaðst hafa farið fram úr fleiri en einum ,,trukkum” á leið sinni til Hellu. Um kaffileytið hafi hann komið að bensínstöðinni á Hellu og þá hafi hann séð að best væri að fara í sundlaugina á Selfossi. Þegar hann hafi ekið frá bensínstöðinni hafi hann séð bifreið á veginum, sem honum hafi fundist aka mjög hægt. Er hann hafi nálgast bifreiðina hafi hann séð tré sem virtust þrengja útsýni hans fram á veginn og einnig hafi hann séð er hann nálgaðist bifreiðina að brotin veglína breyttist í óbrotna línu. Hann kvað bifreiðina á undan sér hafa hægt á sér í sömu mund og hann nálgaðist hana. Hann hafi ekki verið nógu snöggur að hægja á sér og skollið með hægra hornið á sinni bifreið á hægra aftanverðu horni bifreiðarinnar fyrir framan.  Ákærði kvaðst ekki hafa drukkið áfengi meðan á akstri stóð en kvaðst hafa drukkið eftir slysið. Hann sagði orðrétt: „en það er bara alveg augljóst mál að þessi bjórdós sem fannst fyrir utan bílinn og ég sá eftir að ég var orðinn rólegri og hafði verið inni í húsinu þarna hjá fólkinu í þessu litla þorpi sem heitir Lyngás er það ekki, og þeir voru að taka bílinn og ég semsé sá þessa dós og ég fór inn og út úr bílnum og ég sat þar og ég var í sjokki og mér leið illa og ég vissi raunverulega ekkert almennilega hvað hafði skeð en, en þá var ég alveg handviss um það að ég drakk…"

Ákærði kvaðst þó ekki geta fullyrt hversu mikið hann hefði drukkið, en hann hefði drukkið Budweiser, Bud Ice. Hann væri sterkari en venjulegur Budweiser. Hann kvaðst reikna með að sú bjórdós sem fannst á vettvangi hafi verið sú sama og hann hafi drukkið úr. Hann kvaðst halda að hann hefði drukkið ,,hana meira eða minna alla…og meira til". Hann kvaðst hafa verið einn drykklanga stund eftir að slysið varð og enginn hafi talað við sig. Lögreglan hafi fyrst haft tal af sér er hann var kominn að Lyngási og kvaðst telja að þá hafi verið liðnar 15-30 mínútur frá slysinu. Þegar hann hafi verið sestur inn í lögreglubíl hafi lögregla tjáð sér að hann þyrfti að blása í öndunarmæli og hafi hann sýnt 1,2o/oo. Þá hafi hann verið drifinn í blóðprufu, sem hafi svo verið endurtekin vegna þess að sú fyrri hafi ekki tekist nægilega vel.

Ákærði lýsti bifreið sinni fyrir dóminum, en hún er mjög hraðskreið með öfluga vél. Hann kvaðst þekkja eiginleika bifreiðarinnar vel og hafa átt hana í rúmt ár er slysið varð.

Andrea M. Jónsdóttir gaf skýrslu símleiðis. Hún kvaðst hafa verið að koma austan úr Fljótshlíð umræddan dag. Hún hafi ekið í gegnum Hellu á um 50 km hraða og hafi aukið hraðann í um 70 - 80 km hraða er hún kom frá Hellu,  en bifreiðin kæmist ekki mikið hraðar en á 90 km hraða. Hún kvaðst ekki hafa verið að hemla eða beygja þar sem ekkert hafi hindrað aksturinn á þessum hluta vegarins. Hún hafi ekki orðið vör við svartan fólksbíl sem komið hafi aftur fyrir bifreið sína fyrir austan Lyngás. Hún kvaðst hafa slasast það mikið að hún hefði misst úr minni og kvaðst ekki muna neitt frá þeim tíma er hún lagði af stað frá söluturninum Björk á Hvolsvelli og til þess tíma er hún vaknaði á gjörgæsludeild, eftir að henni hafði verið haldið sofandi í viku eftir slysið. Andrea kvaðst ekki munu ná sér fyllilega af þeim áverkum sem hún hlaut í slysinu.

Umræddan dag kvaðst Gottlieb Gunnar Gunnarsson hafa verið að aka á vörubíl sínum á Suðurlandsvegi. Er hann hafi verið kominn langleiðina að Hellu hafi bifreið ákærða ,,spýst” fram úr sér. Giskaði hann á að bifreið ákærða hafi verið ekið með 20 - 30 km meiri hraða en bifreið sinni, sem vitnið kvaðst hafa ekið á 70 km hraða. Töluverð umferð hafi verið og því hafi honum ekki fundist rétt að aka fram úr. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða aka fram úr fleirum en sér. Hann hafi svo misst sjónar á bifreið ákærða er hann hafi ekið gegnum Hellu, en þegar hann hafi verið kominn norðan við Hellu, hafi hann séð hvar svört bifreið ákærða hafi lent á öðrum bíl.

Vitnið Kolbrún Sigþórsdóttir kvaðst hafa verið á ferð með föður sínum og syni umræddan dag. Hún kvaðst hafa verið komin inn á þjóðveginn frá Gunnarsholtsvegi,  þegar svartur fólksbíll hafi farið fram úr bifreið hennar á mikilli ferð. Orðrétt sagði hún: ,, þá fer fram úr okkur svartur fólksbíll á svona mikilli ferð og hann fór svona frekar tæpt fannst mér, vegna þess að við sáum að það var bíll að koma upp á brekkunni sko á móti. Og hann var á mikilli ferð og skransaði svona svolítið, rásaði svolítið til á veginum upp brekkuna, lenti aðeins út í lausamölinni þannig að það var svona greinilegt að það var svona á mörkunum að hann réði  við semsagt að aka bílnum”. Hún kvaðst hafa séð að ökumaður ,,var mikið á bremsunni” er hann ók í gegnum Hellu, þar sem bremsuljósin hafi gefið það til kynna. Er hún hafi verið að nálgast afleggjarann að Ægissíðu hafi hún séð reyk út við Lyngás og síðan hafi komið í ljós svartur jeppi utanvegar á hvolfi og einnig svarti fólksbílinn sem hún hafði áður veitt eftirtekt. Hann hafi verið í kantinum hægra megin, klesstur að framan.  Hún hafi verið í fyrsta bílnum sem komið hafi  á vettvang á eftir fólksbílnum. Hún kvaðst telja að bifreið ákærða hafi verið ekið mun hraðar en bifreið föður síns. Hún gat ekki sagt með vissu á hvaða hraða faðir hennar hefði ekið, en hann hefði verið búinn að ná fullum ökuhraða eftir að hann kom út á þjóðveginn frá Gunnarsholtsafleggjara. Þá kvaðst hún hafa séð ákærða eftir slysið. Hann hafi staðið hægra megin við bifreið sína og horft á skemmdirnar á sinni bifreið. Hún hafi farið að sinna barni sínu, sem setið hafi í aftursæti og þegar hún hafi litið aftur við, hafi hún séð ákærða teygja sig inn í bifreið sína og ná þar áldós sem hann hafi hellt úr. Hún kvaðst ekki hafa séð hann drekka úr henni. Hún kvaðst ekki hafa talað við ákærða eftir slysið og hann hafi farið af slysstað með manni sem ekið hafi skutbíl.

Vitnið Gunnar Þórisson kvaðst hafa verið heima við að Lyngási umræddan dag, þegar hann hafi skyndilega heyrt mikinn hávaða frá veginum. Hann hafi þá litið út og séð jeppa endastingast út af veginum. Jeppinn hafi farið nokkrar veltur áður en hann staðnæmdist. Vitnið hafi þá hringt á neyðarlínuna, en síðan farið á slysstað. Vitnið kvaðst ekkert hafa séð til bifreiðanna áður en slysið varð. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða eftir slysið og hafi hann dvalið inni í húsi hjá sér eftir slysið. Ákærði hafi fengið kaffi að drekka hjá sér, en ekkert áfengi. Vitnið kvað ákærða hafa verið ,,í sjokki”, en kvaðst ekki hafa orðið vart við að ákærði væri ölvaður.  

Örn Guðjónsson kom fyrir dóm. Hann kvaðst hafa komið á vettvang, nokkru eftir að slys hafi átt sér stað. Þar sem búið var að hringja á neyðarlínu, hafi hann verið að fara af vettvangi þegar ákærði hafi komið að máli við sig. Hann hafi greinilega verið í slæmu ástandi, ,,í sjokki” og lítilsháttar blóðugur. Hann hafi því tekið hann upp í bíl sinn og ætlað með hann til læknis á Hellu. Þeir hafi hins vegar mætt lækninum, sem verið hafi á leið á slysstað, þannig að hann hafi séð að það var tilgangslaust að fara á Hellu. Hann hafi því reynt að róa ákærða niður og farið með hann inn í húsið að Lyngási. Vitnið kvaðst ekki hafa séð nein merki ölvunar á ákærða og ekki fundið neina áfengislykt af honum. Þá kvaðst hann ekki hafa séð nein merki þess að ákærði hefði neytt áfengis á staðnum. Vitnið kvaðst hafa dvalið með ákærða í um tuttugu til þrjátíu mínútur.

                Ingólfur Waage, lögreglumaður kom fyrir dóm. Hann kvaðst hafa komið á vettvang eftir slysið. Hann kvað jeppabifreið hafa verið á hvolfi utan vegar og fólksbíl út í vegarkanti. Hann kvað jeppabifreiðina hafa kastast út af veginum og síðan oltið og endastungist. Höggið hafi verið feiknarlegt, því að bifreiðin sem lent hafi aftan á jeppanum hafi snúist heilan hring á veginum og hafi svo endað með sömu akstursstefnu og hann hafi verið í. Greinileg för á veginum hafi sýnt það. Aðallega hafi verið svokölluð ,,skrensför” á veginum, en ekki mikil bremsuför. Hann kvaðst hafa hitt ákærða að Lyngási. Ákærða hafi verið mjög brugðið og hafi hann verið utan við sig. Vitnið kvaðst hafa fundið áfengislykt af ákærða þegar hann hafi verið kominn inn í lögreglubíl. Hann hafi ekki borið önnur einkenni ölvunar. Vitnið kvað ákærða ekki hafa orðað það að hann hefði drukkið eftir slysið, en kvað hann hins vegar hafa tjáð sér að hann hefði drukkið áfengi nóttina áður. Vitnið hafi þá beðið ákærða að blása í öndunarmæli. Að því loknu hafi vitnið farið með ákærða til læknisins, sem tekið hafi blóðsýni úr ákærða til alkóhólrannsóknar. Vitnið kvað rúma klukkustund hafa liðið frá því að slys hafi orðið og þar til blóðsýni var tekið. Vitnið kvaðst hafa fundið kramda bjórdós ofan á vél bílsins og hafði verið stigið ofan á hana. Vitnið var beðið um að lýsa aðstöðuteikningu þeirri sem liggur frammi í málinu. Vitnið kvað að samkvæmt henni væru 72 metra ,,skrensför” eftir bifreið ákærða og að við áreksturinn hafi jeppabifreiðin flogið um 14 metra frá slysstað og þar til hún hafi komið niður á jörðina aftur, en þá hafi hún oltið marga metra. Vitnið kvað að um verulega harðan árekstur hefði verið að ræða.

                Næstur kom fyrir dóm Karl Reynir Einarsson. Hann kvaðst hafa verið kallaður út að umræddu slysi sem læknir. Hann hafi í fyrstu sinnt konu, sem verið hafi ökumaður jeppabifreiðarinnar, en hún hafi verið föst í bifreið sinni. Þá hafi hann farið að Lyngási og skoðað ákærða. Hann hafi ekki séð að neitt amaði að honum líkamlega. Þá hafi hann farið að sinna litlu barni sem einnig hafi verið í jeppabifreiðinni, en að því loknu hafi hann farið á heilsugæslustöðina. Þá hafi lögregla hringt í sig og sagst vera á leiðinni með ákærða í blóðtöku. Hann kvaðst fyrst hafa tekið blóðsýni úr öðrum handlegg mansins, en ekki meðhöndlað það sýni rétt. Hann hafi því hent því blóðsýni og tekið nýtt blóðsýni úr ákærða og þá úr hinum handlegg hans. Það sýni hafi verið afhent lögreglu. Vitnið kvaðst hafa fundið áfengislykt af ákærða og kvað hann hafa verið í annarlegu ástandi, en sagðist þó ekki hafa gert sér grein fyrir því hvort það væri vegna ölvunar eða mikillar geðshræringar.

                Kristín Magnúsdóttir kom fyrir dóm.  Hún var spurð um niðurstöðu alkóhólrannsóknar sem hún gerði á blóðsýni úr ákærða, en endanleg niðurstaða mælingar var 1.82 o/oo alkóhólmagn í blóði. Hún var spurð um hversu mikið alkóhólmagn gæti mælst í blóði eftir neyslu eins bjórs að styrkleika 5 - 6%. Kvað hún að ef miðað væri við 70 kg karlmann og áfengismagn skilaði sér strax út í blóðið gæti það gefið mælingu á 0.4 o/oo alkóhólmagns, en mun minna ef einhver tími liði frá því að áfengis var neytt og þar til mæling fór fram.

Niðurstaða

Í máli þessu er m.a. ákært fyrir brot gegn a - lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með því að ákærði hafi ekið of hratt um þéttbýlið við Hellu.

Í framburði vitnanna Gottliebs Gunnarssonar og Kolbrúnar Sigþórsdóttur kemur fram að þau hafi séð er ákærði ók inn fyrir bæjarmörkin á Hellu, en misst síðan sjónar á honum. Vitnið Kolbrún kvaðst þó hafa séð að ákærði steig mikið á bremsuna er hann ók gegnum þorpið. Í málinu liggur hvorki fyrir ratsjármæling af hraða bifreiðar ákærða né framburður annarra vitna sem borið geti um aksturslag og hraða bifreiðar ákærða er hann ók gegnum Hellu. Þótt framburður áður tilgreindra vitna gefi vísbendingu um að ákærði hafi ekið of hratt miðað við aðstæður verður ekki talið að í málinu liggi fyrir óyggjandi sönnun þess að ákærði hafi gerst brotlegur við a - lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er hann ók í gegnum Hellu.

Í málinu er ákærði einnig borinn þeim sökum að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður er hann ók að Lyngási, þ.e. eftir að þéttbýli sleppir. Andrea Jónsdóttir, ökumaður bifreiðar þeirrar sem ákærði ók á, kvaðst hafa ekið á um 70-80 km hraða, enda kæmist bifreið hennar ekki hraðar en á 90 km hraða. Fyrir liggur að ákærði ók aftan á bifreið hennar, sem hentist í loft upp og sveif marga metra áður en bifreiðin lenti og fór margar veltur. Bifreið ákærða snerist heilan hring á veginum. Þau vitni sem sáu skemmdir á bifreiðunum lýstu árekstrinum sem mjög hörðum. Fram er komið að mjög gott veður var er slys varð, vegur olíuborinn og yfirborð vegar slétt og þurrt. Ákærði bar fyrir dómi að bifreiðin á undan sér hefði hægt á sér og í sömu mund hefði hann séð að brotin veglína hafi breyst í heila línu. Hann lýsti því sjálfur fyrir dómi að hann hefði ekki verið nógu snöggur að hægja á sér og bifreið sín skollið með hægra hornið á hægra afturhorn bifreiðarinnar fyrir framan. Framangreind atburðarás bendir óyggjandi til þess að hraði á bifreið ákærða hafi verið svo mikill að hann hafi ekki haft fullt vald á bifreiðinni, enda gat hann hvorki hægt ferðina né stöðvað bifreið sína, sem lenti með ofurafli á afturhluta bifreiðarinnar IE-222. Samkvæmt vætti Ingólfs Waage, lögreglumanns voru ekki mikil bremsuför á veginum, aðallega ,,skrensför", og á sá framburður sér stoð í ljósmyndum sem teknar voru á vettvangi. Ákærði hefur átt bifreið þá sem hann ók í um ár og þekkir vel eiginleika hennar, en hann lýsti því fyrir dómi að hún væri mjög hraðskreið með öfluga vél.

Með vísan til framangreinds þykir fram vera komin lögfull sönnun þess að ákærði ók of hratt miðað við aðstæður er hann ók að Lyngási og gat því ekki stöðvað bifreið sína áður en hann kom að bifreið þeirri sem á undan var, heldur ók aftan á hana. Með þessari háttsemi hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Afleiðingar árekstursins voru þær að Andrea Jónsdóttir, ökumaður bifreiðarinnar IE-222, slasaðist mjög alvarlega. Hún hlaut m.a. mar á lungum, rifbeinsbrot, brot á hryggjarlið og mikla áverka á hægri ökkla. Hún lýsti því fyrir dómi að hún muni aldrei ná sér að fullu af þeim áverkum sem hún hlaut. Samkvæmt ofangreindu er ótvírætt að þeir áverkar sem hún hlaut í slysinu falla undir 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hefur ákærði því gerst brotlegur við það ákvæði hegningarlaga með framangreindri háttsemi sinni.

Háttsemi ákærða er í ákæru einnig talin varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Endanleg niðurstaða mælingar alkóhólmagns í blóði ákærða var 1.82 o/oo. Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði neytt áfengis í ótæpilegu magni nóttina fyrir slysið, farið seint að sofa og sofið lítið. Hann hafi hafið akstur eftir hádegisbil, en þá hafi hann ekki fundið til áfengisáhrifa. Ákærði kvaðst hafa drukkið bjór eftir slysið, en kvaðst ekki muna hversu mikið magn. Fram er komið að enginn hafði afskipti af ákærða í dágóða stund eftir slysið og lögregla hóf ekki afskipti af honum fyrr en um klukkustund eftir slysið. Á vettvangi fannst samanþjöppuð bjórdós, sem ákærði kvaðst hafa drukkið úr á slysstað. Um ein og hálf klukkustund leið frá því að slysið varð og þar til ákærða var tekið blóð til alkóhólrannsóknar. Þau vitni sem afskipti höfðu af ákærða á slysstað, þeir Gunnar Þórisson og Örn Guðjónsson, kváðust ekki hafa merkt á ákærða ölvunareinkenni og ekki hafa fundið áfengislykt af honum, en læknir og lögreglumaður kváðust hins vegar hafa fundið af honum áfengislykt. Sá lögreglumaður sem tal hafði af honum á vettvangi kvað hann ekki hafa borið önnur merki ölvunar. Í lögregluskýrslu er ástandi hans lýst svo að sjáaldur hafi verið eðlilegt, jafnvægi stöðugt, framburður ruglingslegur og málfar skýrt. Þvagsýni var ekki tekið frá ákærða.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið liggja hvorki fyrir í málinu ótvíræð gögn né framburður vitna, sem taka af allan vafa um það að ákærði hafi ekki neytt áfengis eftir að akstri lauk. Þykir með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, varhugavert að telja nægilega sannað að ákærði hafi í greint sinni verið undir áhrifum áfengis við akstur í skilningi 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Verður því að sýkna ákærða af broti gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga.

Frá árinu 1992 hefur ákærði tvívegis gengist undir sektir og einu sinni hlotið dóm vegna umferðarlagabrota. Þá hefur hann tvisvar verið sviptur ökurétti vegna brota gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Ákærði gekkst síðast á árinu 1998 undir sekt vegna brots gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þegar litið er til brots ákærða nú, sakarferils hans og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verður refsing ákærða ákveðin eins mánaðar fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla, að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegingarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá greiði ákærði 80.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 18 daga. Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, skal ákærði sviptur ökurétti í 8 mánuði frá birtingu dóms að telja. 

         Samkvæmt þessum úrslitum og 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1940 um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 90.000 krónur.

         Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Ákærði, Daníel Helgason sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 80.000 króna sekt í ríkissjóð, en sæti ella fangelsi í 18 daga, greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði er sviptur ökurétti í 8 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., 90.000 krónur.