Hæstiréttur íslands

Mál nr. 374/2005


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Hugverkaréttindi
  • Sérfræðiábyrgð
  • Skriflegur málflutningur


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. janúar 2006.

Nr. 374/2005.

EON arkitektar ehf.

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

gegn 

Erni Arnarsyni og

Hildi Ýri Arnarsdóttur

(enginn)

 

Verksamningur. Hugverkaréttindi. Sérfræðiábyrgð. Skriflegur málflutningur.

Ö og H gerðu verksamning við E um hönnun parhúss í Kópavogi gegn greiðslu 900.000 króna. Ö og H töldu sig hafa samið um þá fjárhæð sem heildargreiðslu fyrir allar teikningar en því var mótmælt af E sem gerði þeim reikninga er numu mun hærri fjárhæð. Neituðu Ö og H að greiða tvo þessara reikninga. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið að samningur aðila væri óskýr að þessu leyti og að E yrði að bera hallann af því. Fyrir lá yfirmatsgerð um hvað teldist sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu E við húsið og var hún lögð til grundvallar. Þar sem Ö og H höfðu þegar greitt E hærri fjárhæð en tiltekin var í matsgerðinni voru þau sýknuð af kröfum E.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2005. Hann krefst þess að stefndu verði dæmd óskipt til að greiða sér 933.489 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 479.686 krónum frá 25. maí 2001 til 19. desember 2002, en af 933.489 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1994, ber að líta svo á að þau krefjist staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður dæmist ekki fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2005.

             Mál þetta var þingfest 14. maí 2003 og tekið til dóms 26. apríl sl.  Stefnandi er EON arkitektar ehf., kt. 501299-2279, Brautarholti 1, Reykjavík en stefndu eru Örn Arnarson, kt. 180870-4319 og Hildur Ýr Arnardóttir, kt. 231072-6089, bæði til heimilis að Suðursölum 10, Kópavogi.

             Dómkröfur stefnanda eru í fyrsta lagi þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 479.686 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. maí 2001 til greiðsludags.  Í öðru lagi er þess krafist að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 453.803 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. desember 2002 til greiðsludags.  Í þriðja lagi er þess krafist að stefndu verið dæmd til að greiða stefnanda málskostnað in solidum.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum fjárkröfum stefnanda en til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar verulega.  Málskostnaðar er krafist.

 

I.

             Árið 1999 fengu stefndu hjá Kópavogsbæ úthlutað lóð fyrir parhús að Suðursölum 10-12, Kópavogi.  Stefndu leituðu til stefnanda um hönnun húsanna.  Forsvarsmenn stefnanda, arkitektarnir Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Bergmann Stefánsson, gerðu tímaáætlun fyrir verkið sem er svohljóðandi:

             „Áfangi 1

             -Vika 1-2

Fundur 08.01.2000 með verkkaupum. Grunnmyndir og skurðmyndir þróaðar í samræmi við þarfir verkkaupa. Upplýsingar um byggingartækni á vegum Loftorku sendar og yfirfarnar.

-Vika 3-6

Fundur 22.01.2000 með verkkaupa.  Fyrstu hugmyndir að grunnmyndum og skurðmyndum kynntar.  Tillögur að rýmismyndun og hugmyndafræði kynntar.  Upplýsingaöflun, þar á meðal hæðarblöð sótt.  Aðlögun plana og skurðmynda í samræmi við hæðablöð.

-Vika 7-8

Fundur 19.02.2000 með verkkaupum. Útlitshönnun, aðlögun grunnmynda og skurðmynda unnin áfram.  Vinna við gögn til grenndarkynningar hafin.  Fundur með verkfræðingi/tæknifræðingi.

-Vika 9-10

Fundur 04.03.2000 með verkkaupum.  Útlit, plön og skurðmyndir lögð fyrir verkkaupa.  Gögn til grenndarkynningar kláruð.  Fundur með eldvarnareftirliti.  Fundur með Loftorku og /eða öðrum verktökum hefjast.  Vinna við teikningar til samþykktar byggingafulltrúa hafin.

-Vika 11-12

Fundur 18.03.2000 með verkkaupum. Vinna við efnisval.  Vinna við byggingarnefndarsett haldið áfram.

-Vika 13-14

Fundur 01.04.2000 með verkkaupum. Sett lagt fyrir Byggingarnefnd.

Vinna vegna Byggingarnefndar lokið.

Áfangi 2

-Vika 13-14

Vinna við deiliteikningar.  Vinna vegna efnisvals.

-Vika 15

Fundur 15.04.2000 með verkkaupum.  Fjallað um framhald verks.

Teikningasett tekið fyrir hjá Byggingarnefnd.

Áfangi 3

-Vika

Fundur með verkkaupum.  Fjallað um fastar innréttingar.

 

Tímaáætlun þessi miðast við skjóta afgreiðslu viðeigandi nefnda.  Tímaáætlunin er þröngt sniðin og er aðeins ætluð til viðmiðunar, þar sem sökum ófyrirséðra þátta gæti orðið breytinga þar á.

Deiliteikningar, vinna með verktökum og eftirlit með framkvæmdum eru verkþættir í áfanga 2, sem er ekki hluti af þessari tímaáætlun.

Hönnun fastra innréttinga og önnur ráðgjöf í innanhússhönnun eru verkþættir í áfanga 3, sem er ekki hluti af þessari tímaáætlun.

EON arkitektar geta gert tímaáætlun og verði í þessa verkþætti ef verkkaupi óskar.“

 

             Þann 12. febrúar 2000 gerðu aðilar með sér verksamning og segir meðal annars í honum:

 „Samningur þessi miðast við meðfylgjandi tímaáætlun sem EON arkitektar sendu Erni Arnarsyni, dagsett 02.02.2000

             Tilboð miðast við 220 tíma á 4.500.- kr./klst.

 

                                                                                         Verð:          990.000.-

                                                                                         Afsláttur:      90.000.-

                                                                                         Samtals:      900.000.-

 

             Verð er án VSK. og greiðist að fullu á verktíma í lok hvers mánaðar samkvæmt jafnri mánaðarlegri skiptingu.  Fyrsta greiðsla greiðist við undirskrift þessa samnings.”

             Í þessum samningi er tiltekið að deiliteikningar, vinna með verktökum og eftirlit með framkvæmdum séu verkþættir í áfanga 2 sem ekki sé hluti af tímaáætluninni og því ekki inn í samningsverði.  Þá er einnig tekið fram í tímaáætluninni að verktaki muni gera tilboð í verkþætti sem falli fyrir utan þennan samning.

             Stefnandi kveður vinnu við 1. áfanga hafa verið unna á tímabilinu janúar 2000 til janúar 2001. 

             Ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um frekari vinnu en stefndu hafi leitað til stefnanda og óskað munnlega eftir áframhaldandi vinnu stefnanda.  Ágreiningur aðila er um greiðslur fyrir þau verk sem þannig voru unnin frá og með marsmánuði 2001.

             Stefnandi segir að eftir að grenndarkynning hafi farið fram og byggingar­nefndarteikningar verið samþykktar í byggingarnefnd á árinu 2000 hafi stefndu ákveðið að breyta uppbyggingu hússins þannig að í stað þess að húsið væri einangrað að utan skyldi það einangrað innanfrá.  Hafi stefndu farið fram á við stefnanda að unnar yrðu breytingar vegna þessa.  Í nóvember og desember 2000 og febrúar 2001 hafi stefnandi unnið vinnu vegna útboðs á gluggum.  Þessi vinna hafi verið fyrir utan skriflegan samning aðila og hafi stefndu greitt reikninga vegna þessarar vinnu.

             Á tímabilinu mars til júlí 2001 hafi stefnandi unnið steypu- og verkteikningar að ósk stefndu. Hallur Arnarson, byggingarstjóri byggingarinnar, hafi óskað sérstaklega eftir að öll vegghorn í húsinu yrðu teiknuð og kótasett.  Unnar hafi verið sérteikningar af öllum steyptum flötum hússins, grunnmyndum og veggflögum.  Stefndu og byggingarstjóra hafi verið afhendar þessar teikningar.

             Í júlí 2001 hafi stefnandi unnið deiliteikningar vegna uppbyggingar veggja, þaks og þakglugga, vegna frágangs glugga, veggja, renna, þaks, þakkanta og þakglugga.  Á teikningunum komi einnig fram frágangur lofta og innbyggðrar lýsingar inni í húsinu.

Þá hafi stefnandi auk þess sinnt störfum sem aðalhönnuður byggingarinnar, fundað með verkkaupa, byggingarmeistara, byggingartæknifræðingi, lagnahönnuði, ráðgjafa vegna þróunar utanhússklæðningar og seljendum og framleiðendum byggingarefnis.  Þá hafi stefnandi áritað séruppdrætti lögum samkvæmt.

Vegna alls þessa hafi stefnandi gert stefndu reikning 25. maí 2001 að fjárhæð 479.686 krónur með virðisaukaskatti vegna vinnu forsvarsmanna stefndu í mars og apríl það ár.  Stefndu hafi ekki greitt reikninginn og þegar komið hafi verið fram á haustið 2001 hafi þau tjáð stefnanda að þau óskuðu ekki eftir frekari teiknivinnu við bygginguna.  Stefnandi kveðst þá hafa stöðvað vinnu við deiliteikningar.  Stefndu hafi þá óskað eftir að fá teikningar sem langt hafi verið komnar í vinnslu til að leggja inn til byggingarfulltrúa.  Þau hafi hins vegar neitað að greiða ofangreindan reikning.  Stefnandi kveðst hafa afhent teikningarnar á vinnslustigi.  Vegna athugasemda byggingarfulltrúa hafi stefnandi útbúið skýringarmynd gegn greiðslu fyrir vinnu við gerð hennar.

Síðar hafi stefndu falið stefnda Inga Gunnari byggingarfræðingi að afrita deili- og frágangs­teikningar og breyta þeim, þar á meðal hönnun hússins. Stefndu hafi lagt teikningar byggingarfræðingsins fram til samþykkta í byggingarnefnd.  Samhliða þessu máli hafi forsvarsmenn stefnanda höfðað annað mál til greiðslu skaðabóta fyrir höfundaréttarbrot vegna þessa.

Reikningur vegna vinnu á tímabilinu maí til október 2001 sé að fjárhæð 453.803 krónur og hafi verið gefinn út 19. desember 2002.  Hann sé einnig ógreiddur.

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði annar forsvarsmaður stefnanda, Gunnar Bergmann Stefánsson, að stefndi Örn hafi komið að máli við sig í upphafi og óskað eftir hönnun á parhúsi.  Hafi stefndi Örn tjáð honum að hann ætlaði að selja annan hluta hússins og eiga hinn.  Sótt hafi verið um breytingu á skipulagsskilmálum fyrir lóðina.  Tildrög þess hafi verið þau að stefndi Örn hafi viljað fá meiri nýtingu á húsið en skilmálar hafi aðeins hljóðað upp á hús á einni hæð með palli.  Sótt hafi verið um deiliskipulagsbreytingu til þess að koma fyrir millipalli í húsinu.  Tilgangurinn hafi verið sá að fjölga herbergjum og auka rými en einnig til þess að fá meira útsýni.  Gunnar minntist þess ekki að rætt hafi verið sérstaklega um að lofthæð yrði undir 250 sentimetrum í eldhúsi á neðri hæð.  Hins vegar hafi lítillega verið rætt um ónóga lofthæð á efri hæð.  Ekki mundi Gunnar hvort það hafi verið rætt sérstaklega við verkkaupa að deiliteikningar væri nauðsynlegar til þess að fá húsið samþykkt hjá byggingarnefnd.

Stefndu hafi ekki sinnt ítrekuðum áskorunum um að greiða ógreidda skuld og því sé málsókn þessi nauðsynleg.  Fjárkrafa stefnanda byggist á þeirri meginreglu samningaréttar að samningar skulu halda.  Vinna stefnanda samkvæmt framan­greindum tveimur reikningum sé fyrir utan fyrsta áfanga verkáætlunar og því utan þess sem unnið hafi verið samkvæmt framangreindum samningi aðila

II.

Stefndu halda því fram að umsamið verð fyrir hönnun húsanna hafi átt að ná til allrar hönnunarvinnu arkitekta við húsin svo sem byggingarnefndarteikninga og þeirra deiliteikninga sem krafist yrði til þess að fá samþykki byggingaryfirvalda.  Stefndu hafi verið fullvissuð um það af hálfu forsvarsmanna stefnanda að enginn annar kostnaður kæmi til viðbótar samningsverði.  Á þessum grundvelli hafi vinna við hönnun húsanna hafist.

Stefnandi hafi krafist greiðslu reikninga þrátt fyrir að ekki væri búið að teikna þær teikningar sem byggingarfulltrúi hafi krafist.  Stefndu hafi ekki verið sátt við það og hafi samskipti aðila orðið erfið upp frá því.  Þegar verulegar háir reikningar hafi haldið áfram að berast til stefndu hafi þeim verið nóg boðið.  Þau hafi greitt tiltekna reikninga með fyrirvara til þess að framkvæmdir við byggingu hússins stöðvuðust ekki.  Þannig hafi þau greitt umsamda þóknun að fjárhæð 900.000 krónur en samtals hafi þau greitt 1.197.015 krónur auk virðisaukaskatts að fjárhæð 293.269 krónur eða samtals 1.490.284 krónur.

Stefndu segjast hafa greitt reikning frá 2. febrúar 2001 að fjárhæð 115.200 krónur fyrir aukaverk.  Þann reikning hafi þau greitt með fyrirvara.  Reikning að fjárhæð 385.290 krónur, dags. 25. maí 2001, vegna steyputeikninga hafi þau ekki greitt.  Reikning, dags. 20. maí 2001, að fjárhæð 17.725 krónur hafi þau greitt svo og reikning, dags. 25. maí 2001, að fjárhæð 126.090 krónur.  Reikningur að fjárhæð 38.000 krónur, dags. 20. nóvember 2001, hafi verið greiddur með fyrirvara.  Reikningur að fjárhæð 364.500 krónur, dags. 19. desember 2002, hafi stefndu neitað að greiða. 

Svo hafi farið í samskiptum aðila að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi neitað að verða við kröfum byggingarfulltrúa um að lagfæra deiliteikningar og hafi þau neitað að teikna meira fyrir stefndu nema að undangenginni greiðslu allra reikninga auk vaxta og lögmannskostnaðar.  Stefndu hafi þá boðið upp á þá lausn að ágreiningur aðila vegna túlkunar á samningi þeirra yrði leystur fyrir dómstólunum en haldið yrði áfram með þá vinnu sem á hafi vantað.  Stefndu hafi lýst sig tilbúin til að greiða fyrir þá vinnu með fyrirvara svo halda mætti áfram með byggingu húsanna.  Á þetta hafi forsvarsmenn stefnanda ekki fallist og neitað að vinna áfram fyrir stefndu nema gegn greiðslu á umdeildum reikningum. Vegna þessa hafi framkvæmdir stöðvast um haustið 2001.  Stefndu hafi ekki fengið úrlausn á deiliteikningum og byggingaryfirvöld þar af leiðandi ekki samþykkt áframhaldandi framkvæmdir.  Upp úr samskiptum aðila hafi endanlega slitnað í nóvember 2001. 

Þegar hér var komið kveða stefndu að þau hafi fengið Inga Gunnar Þórðarson byggingarfræðing til að teikna þrjár deiliteikningar og leggja þær inn til samþykkis hjá byggingarfulltrúa.  Byggingarfulltrúi samþykkti hins vegar ekki teikningarnar á þeirri forsendu að áritun samræmingarhönnuðar á teikningarnar skorti.  Taldi bygginga­fulltrúi að annað færi í bága við ákvæði 47. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Stefndu hafi því setið uppi með parhúsið í ,,gíslingu” og ekki getað haldið áfram framkvæmdum vegna áðurgreindrar afstöðu stefnanda við að ganga ekki frá lagfæringum á deiliteikningum að kröfu byggingarfulltrúa en athugasemdir hafi komið fram þar að lútandi.  Stefndu hafi því ekki átt önnur úrræði en þau að fá nýjan samræmingarhönnuð til að leggja inn teikningar með nýju byggingarleyfi þannig að unnt væri að leggja inn deiliteikningar.  Þetta hafi verið gert og byggingarleyfið og teikingarnar fengist samþykktar.  Með þessu móti hafi verið fundin lausn á stöðvun verksins og hafi framkvæmdir því getað hafist að nýju í júlí 2002.

Í máli stefnda Arnar kom meðal annars fram fyrir dómi að hann hafi óskað eftir tilboði stefnanda í teiknivinnuna og fengið það.  Það hafi hins vegar verið svo hátt að hann hafi óskað eftir öðru tilboði og hafi það tilboð leitt til samnings aðila.  Varðandi svokallaðar steyputeikningar sagði Örn að rangt sé að stefndu hafi óskað eftir þeim.  Hið rétta sé að Hallur Arnarson byggingarstjóri hafi talið sig vanta 3 til 4 hæðarpunkta og óskað eftir þeim hjá stefnendum.  Stefnendur hafi hins vegar teiknað umræddar steyputeikningar án samráðs við stefndu og að óþörfu.  Stefndu hafi selt annað húsið og tilkynnt kaupendum um þá annmarka sem eru á lofthæð í húsinu.  Stefndi Örn kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir ónógri lofthæð meðan húsið var á teikningarstigi.  Þegar stefndi Ingi Gunnar Þórðarson byggingarfræðingur hafi komið að málinu hafi verði búið að steypa upp alla veggi, koma fyrir burðarvirki þaksins og klæða þakið að mestu leyti.  Ingi Gunnar hafi teiknað húsið upp eins og það hafi þá verið.  Hann hafi rætt við Inga Gunnar um lofthæð í bílskúr og uppi á efri hæð en þá hafi verið búið að steypa milliloftið.  Hins vegar hafi forsvarsmenn stefnanda ekki gert honum grein fyrir því að lofthæð yrði takmörkuð á efri hæð.

Stefndu byggja á því að reikningar stefnenda séu til mikilla muna of háir.  Stefndu hafi samið um fast verð fyrir alla vinnu stefnanda.  Í annan stað er byggt á því að tímaskriftir með reikningum stefnanda séu órökstuddar og óheyrilega miklar og reikningar því til muna of háir.  Á því er einnig byggt að vinna stefnanda við gerð steyputeikninga hafi ekki verið umsamin og þá hvorki stefndu né byggingarstjóri þeirra hafi beðið um þá teiknivinnu.  Einungis hafi verið beðið um þrjá hæðarkóta til að unnt væri að setja mannvirkið í rétta hæð í landið.  Þá byggja stefndu á því að vinna stefnanda hafi verið verulega gölluð og hafi stefndu orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna þess.  Þá hafi stefndu einnig orðið fyrir tjóni vegna þess að verkframkvæmdir hafi tafist.  Stefndu mótmæla því að þau hafi óskað munnlega eftir áframhaldandi vinnu stefnanda frá og með marsmánuði 2001. 

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu byggja þau varakröfu sína á því að lækka beri stefnukröfu verulega og styðja þau þá kröfu sömu rökum og aðalkröfu.

III.

Í þinghaldi 31. júlí 2003 óskuðu stefndu eftir dómkvaðningu matsmanns.  Í matsbeiðni er meðal annars óskað mats á lofthæð allra rýma í báðum húsum, lofthæð við uppkomu á stigapall, matsmaður skoði hönnun þakglugga, dyr út í garð úr stofu, glugga í barnaherbergi, matsmaður leggi mat á þá verðrýrnun sem á húsinu verður við það að það hafi verið byggt eftir gallaðri hönnun, metið verði tjón stefndu vegna tafa á byggingarframkvæmdum og að metið verði hver sé eðlilegur kostnaður við viðbótarhönnunarvinnu.  Þá er þess óskað að matsmaður skoði teikningar stefnanda af húsunum og meti sanngjarnan og eðlilegan kostnað við gerð þeirra.  Þá meti matsmaður einnig hvert sé sanngjarnt endurgjald fyrir gerð teikninga stefnanda að teknu tilliti til meintra galla í hönnun.

Í matsgerð Freys Jóhannessonar byggingartæknifræðings segir meðal annars:

Matsliður A1

Í byggingarreglugerð, sbr. Stjórnartíðindi B, nr. 441/1998, grein 78.1 segir: "Lofthæð í fullfrágengnum íbúðarherbergjum skal ekki vera minni en 2,50 m að innanmáli" og í grein 78.2 segir: "Í íbúðarhúsum skal hæð af gólfi á gólf vera a.m.k. 2,70-2,80 m, sbr. ÍST 21".

Samkvæmt teikningum arkitekta eru hæðir af gólfi á gólf aðeins 2,58 m undir pöllum efri hæðar og einnig er innanmál milli gólfs og lofts undir þeim aðeins
2,35 m til 2,40 m, eftir þykkt þeirra efna sem notuð verða á gólf og loft, en það er 10-15 cm lægra en tilskilið er í reglugerðinni.

Hæð undir palla í bílageymslu er 2,07-2,28 m skv. mælingu á staðnum.

Á palli efri hæðar húss nr. 12 er lofthæð víðast hvar minni en 2,5 m og allt niður í 1,45 m þar sem lægst er. Aðeins á móts við útskot við svalir er lofthæðin komin yfir 2,5 m.

Lofthæð íbúðarherbergis yfir bílskúr í húsi nr. 12 er frá 1,98 m til 2,37 m eða allsstaðar lægri en byggingarreglugerð kveður á um. Einnig er lofthæð í herbergi á 1. hæð í norðausturhorni húss nr. 12 að mestu leyti lægri en 2,50 m og allt niður í 2,25 m, sem þó er um 5 cm hærra en byggingarnefndarteikningar gefa ástæðu til að ætla. (Sjá dskj. 9-12).

Matsliður A2

Lofthæðir uppkomu á stigapalla samkvæmt mælingu á vettvangi eru aðeins 1,80-2,00 m í Suðursölum 10 en 2,06-2,10 m í Suðursölum 12 en það er í samræmi við byggingarnefndarteikningar.  (Sjá dskj. 12).

Í byggingarreglugerð grein 2.02.1 segir m.a.: "Ganghæð stiga má hvergi vera minni en 2,20 m".

Matsliður A3

Gluggar þeir sem áttu að vera á þaki yfir forstofum húsanna eru smíðaðir að forminu til samkvæmt teikningu arkitekta en passa ekki á milli þeirra stálbita sem settir voru í þök húsanna og eru einnig með öðrum hornastærðum en sýnt er á byggingarnefndarteikningum.

Einnig verður að telja að í þökum með jafnlitlum halla og hér um ræðir sé illmögulegt að hafa glugga af þeirri gerð sem hönnun gerir ráð fyrir, án þess að þeir leki.

Áætlaður kostnaður við smíði þakglugganna, gerð og uppsetningu stálbitanna og aukakostnaður við sperrur vegna þess að búið var að setja upp stálbitana þegar þakið var smíðað er kr. 254.000, þar af er efni 163.000 kr.

Matsliður A4

Matsmaður mældi hurðarop dyra úr stofu og út í garð á húsi nr. 10 þann 11. nóv. sl. og reyndist hæðin vera um 2,0 m, en búið var að breyta hurðinni frá því á matsfundi.

Í byggingarreglugerð nr. 441/1998 grein 79.9 stendur orðrétt: "Dyr á íbúðarherbergjum skulu vera gerðar fyrir a.m.k. 0,80 m breiðar og 2,00 m háar hurðir".

Á gluggateiknngu aritekta er hæð "hurðarpartís" á húsi nr. 10 málsett 2,70 m en á "steyputeikningu" þeirra er hæð frá stofugólfi og upp að svalagólfi 2,40 m, en það er í samræmi við byggingarnefndarteikningar.

Miðað við að hafa opnanlega glugga yfir hurðinni eins og teikning sýnir er ekki mögulegt að hafa hæð hurðarflekans eins og tilskilið er í byggingarreglugerð.

Matsliður A5

Gluggi í barnaherbergi í húsi nr. 10 er samkvæmt hönnun arkitekta 80´90 cm að utanmáli eða um 69´79 cm að innanmáli (ljósop). Mæling á vettvangi gaf stærð innanmáls glers í opnanlegu fagi 63´77 cm.

Í grein 79.1 í byggingarreglugerð segir m.a.: "Samanlagt ljósop glugga hvers herbergis skal ekki vera minna en sem svarar 1/10 af gólffleti þess. Þó skulu gluggar íbúðarherbergja ekki vera minni en 1 m²".

Gluggi framangreinds barnaherbergis skal samkvæmt ákvæðum byggingar­reglugerðar vera a.m.k. 1,11 m² en er aðeins 0,49 m².

Matsliður A6

Tölulegt mat á þeirri verðrýrnun sem framangreindir gallar myndu hafa á markaðsverð húsanna nr. 10-12 er háð því persónulega mati sem kaupendur þeirra hafa hverju sinni.

Matsmaður telur að líklegast sé að vel upplýstur kaupandi myndi telja 5% afslátt, miðað við ógallað hús, vera algjört lágmark. Miðað við líklegt markaðsverð er sú upphæð um 2,5 millj. kr. fyrir bæði húsin.

Matsliður A7

Gera má ráð fyrir að fokhelt hús sambærileg og Suðursalir 10-12 kosti um 30 millj. kr.  Miðað við 8 mánaða seinkun og 6% raunvexti er vaxtatapið 1.200.000 kr.

Matsliður A8

Hönnuðirnir Ingi Gunnar Þórðarson, Ragnar G. Gunnarsson og Bjarni Árnason munu vera höfundar af uppdráttum á dómsskjölum 48-64 eða 17 teikningum samtals, sem skiptast í 7 málteikningar og séruppdrætti, 3 burðarþolsteikningar og 7 lagnateikningar.

Áætlaður kostnaður við framangreindar teikningar telur matsmaður vera 1.428.000 kr. eða 204 klst á 7000 kr/klst meðVSK, þar af 560.000 kr. fyrir málteikningar og séruppdrætti.

Matsliður B1

Teikningar aðalhönnuða sem matsmanni hefur verið afhent af lögmanni matsbeiðanda eru 16 talsins. Þar af 9 "steypu"-, vinnu- og deiliteikningar. Aðal- eða byggingarnefndarteikningar eru 6 talsins og ein gluggateikning.

Miðað við að þetta séu fullnægjandi teikningar og teljist 85% hönnun miðað við viðmiðunarreglur arkitekta sem þeir styðjast við þegar þeir verðleggja þóknun sína við hönnun húsa, þá telur matsmaður hæfilega þóknun vera 1.550.400 kr.

Áætluð þóknun byggir á því að 100% þóknun reiknist 3,4% af áætluðum heildar­byggingarkostnaði sem matsmaður telur vera um 120.000 kr/m² þegar fjármagns­kostnaður, stjórnunarkostnaður, byggingarleyfisgjöld, skattar og lóðarverð hefur verið dreginn frá eins og gert er ráð fyrir í "viðmiðunargjaldskrá" arkitekta.

Skipting þóknunar skiptist á eftirfarandi hátt:

Undirbúningur                                       5% af 1.824.000                                       91.200 kr.

Frumdrög                                                5% af 1.824.000                                       91.200 kr.

Forteikningar                                      10% af 1.824.000                                     182.400 kr.

Aðalteikningar                                    15% af 1.824.000                                     273.600 kr.

Verkteikningar                                    50% af 1.824.000                                     912.000 kr.

                                                                                                                 Samtals: 1.550.400 kr.

                             Allar framangreindar upphæðir eru með VSK.

             Telja verður að teikningarnar séu ekki nothæfar fyrr en búið er að leiðrétta villur og ósamræmi milli teikninga og þær fullnægi kröfum byggingarreglugerðar og byggingarfulltrúa.

Matsliður 2B

Matsmaður telur að þegar tekið hefur verið tillit til allra þeirra atriða sem rakin eru hér að framan, þar með talið það tjón sem matsbeiðandi hefur orðið fyrir og á væntanlega eftir að vera fyrir, sé ekki hægt að tala um neina upphæð sem "sanngjarna" þóknun fyrir gerð umræddra teikninga.“

Stefnendur öfluðu yfirmats og er það dagsett í nóvember 2004.  Yfirmats­mennirnir Hjalti Sigmundsson byggingartæknifræðingur og húsasmíða­meistari og Sigríður Sigurðardóttir arkitekt staðfesta að mestu undirmatið.  Í yfirmati segir nánar að yfirmatsmenn séu að mestu sammála því sem fram kemur í undirmati um lofthæðir og staðfesta niðurstöðu þess.  Um lofthæð við uppkomu á stigapall telja yfirmatsmenn hæð lægri en kveðið sé á um í byggingarreglugerð.  Yfirmatsmenn eru einnig sammála undirmatsmanni varðandi þakglugga.  Í yfirmati var ekki óskað eftir mati á matsliðum A4 og A5.  Varðandi verðrýrnun á húsunum staðfesta yfirmatsmenn mat undir­matsmanns.  Yfirmatsmenn staðfesta einnig mat undirmatsmanns um hvert hafi verið tjón stefndu vegna tafa á byggingarframkvæmdum.  Yfirmatsmenn telja hæfilegan kostnað við gerð teikninga þeirra sem stefnendur gerðu sé 1.548.500 krónur með virðisaukaskatti og sé þá tekið mið af því að teikningarnar voru ekki að öllu leyti fullkláraðar.  Kostnaður er á verðlagi í nóvember 2003.  Þegar tekið sé tillit til þeirra galla í hönnun sem staðreyndir hafi verið í matsgerðum telja yfirmatsmenn sanngjarnt endurgjald fyrir teikningarnar sé 1.083.950 krónur með virðisaukaskatti á verðlagi í nóvember 2003.

IV.

Ágreiningur aðila snýst um reikningsgerð stefnanda, hvort reikningar hans teljist sanngjarnir og eðlilegir miðað við þá vinnu sem forsvarsmenn stefnanda leystu af hendi fyrir stefndu og miðað við þann samning sem komst á milli aðila. 

Hér að framan er það rakið að stefndu fengu úthlutað lóð fyrir parhús 1999 hjá Kópavogsbæ.  Hugðust þau reisa bæði húsin, selja annað en búa í hinu og gekk það eftir.  Þann 12. febrúar 2000 gerðu þau samning við stefnanda um hönnun húsanna og hófst vinna arkitektanna þegar.  Stefndu greiddu umsamda fjárhæð 900.000 krónur eftir því sem verkinu miðaði.  Töldu þau sig hafa samið um þá fjárhæð sem heildargreiðslu fyrir allar teikningar en því er mótmælt af hálfu stefnanda.  Frá stefnanda bárust reikningar alls að fjárhæð 2.423.772 krónur með virðisaukaskatti.  Stefndu hafa alls greitt 1.490.284 krónur með virðisaukaskatti. 

Með tölvupósti 26. október 2001 höfnuðu stefndu greiðslu á reikningi að fjárhæð 385.290 krónur vegna verkteikninga, svokallaðra steyputeikninga, á þeirri forsendu að ekki hafi verið beðið um þá vinnu og  hún hafi verið óþörf.   

Í bréfi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 10. desember 2001 til forsvarsmanna stefnanda eru gerðar athugasemdir við sérteikningar þeirra og þær sagðar ófullnægjandi.  Í bréfi stefnanda til byggingafulltrúa 26. nóvember 2001 segir að þær deiliteikningar sem skilað hafi verið inn séu ófullgerðar og stafi það af því að slitnað hafi upp úr samstarfi aðila.  Í tölvupósti stefnanda til stefndu 13. nóvember 2001 kemur meðal annars fram að stefndu hafi gert stefnanda ljóst að ekki sé óskað eftir frekari vinnu stefnanda.  Í póstinum benda forsvarsmenn stefnanda stefndu jafnframt á að samkvæmt höfundarlögum geti enginn annar tekið við vinnu þeirra en þau muni ekki teikna meira nema samið sé sérstaklega um greiðslur.  Þessi sjónarmið eru ítrekuð í skeyti þáverandi lögmanns stefnanda 27. mars 2002 þar sem segir meðal annars að stefnandi hafi beitt verkstöðvun og arkitektarnir hafi einkarétt á fullnaðarútfærslu og breytingum á eigninni.  Með bréfi 13. febrúar 2002 sögðu stefndu samningi aðila upp og áskildu sér rétt til þess að láta vinna þær deililausnir sem þörf væri á.  Þegar hér var komið fengu stefndu byggingarfræðing til þess að halda verkinu áfram og gátu framkvæmdir við húsið loks hafist á ný í júlí 2002. 

Samhliða þessu máli reka stefnandi og arkitektarnir Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Bergmann Stefánsson annað mál, höfundarréttarmál og skaðabótamál, gegn stefndu og Kópavogsbæ. 

Undir rekstri málsins óskuðu stefndu matsgerðar þar sem lagt er mat á vinnu forsvarsmanna stefnanda og hvað teljist eðlilegt endurgjald fyrir hana.  Stefnandi óskaði eftir yfirmati og er efni þessara matsgerða rakið hér að framan.  Yfirmatsgerðin staðfesti undirmatið í öllum meginatriðum.  Töldu yfirmatsmenn vinnu forsvarsmanna stefnanda annmörkum háða og töldu eðlilegt að stefndu fengju afslátt af þeim sökum.  Þannig töldu yfirmatsmenn sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu forsvarsmanna stefnanda vera 1.083.950 krónur með virðisaukaskatti á verðlagi í nóvember 2003.

Aðilar deila um túlkun á samningi aðila.  Stefndu halda því fram að forsvarsmenn stefnanda hafi lýst því yfir við undirritun samnings aðila að heildarverkið, það er öll vinna við nauðsynlega uppdrætti til þess að byggja húsið, ætti að kosta 900.000 krónur.  Gegn neitun forsvarsmanna stefnanda telst þessi staðhæfing stefndu ósönnuð.

Samningurinn er þó óskýr að þessu leyti. Segir í honum að deiliteikningar standi fyrir utan samningsfjárhæð en undir lið 13-14 vika segir aftur á móti: „Sett lagt fyrir byggingar­nefnd.  Vinna vegna byggingarnefndar lokið.“ Þetta ákvæði samningsins má skilja þannig að deiliteikningar falli undir samningsfjárhæð því hluti svokallaðra deiliteikninga, nánar tiltekið byggingaruppdrættir, sbr. byggingarreglugerð nr. 441/1998, gr. 19.4.a, eru nauðsynlegar til þess að fá hús samþykkt hjá byggingarfulltrúa og byggingarnefnd, sbr. 46. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Að þessu leyti stangast ákvæði samningsins á.       Forsvarsmenn stefnanda eru sérfræðingar á þessu sviði og bar þeim að upplýsa stefndu um þetta atriði og búa svo um hnútana að samningur aðila væri skýr að þessu leyti.  Þykir stefnandi eiga að bera hallann af því. 

Í þessu sambandi er einnig til þess að líta að forsvarsmenn stefnanda gerðu stefndu ekki grein fyrir að útfærsla á húsinu var óvenju flókin og krafðist meiri og dýrari hönnunarvinnu en við venjulegt hús en ætla má að tilboð stefnanda í hönnunarvinnu hafi miðast við venjulegt hús.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að byggja beri á yfirmatsgerð um hvað teljist sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu forsvarsmanna stefnanda, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. 

Það er niðurstaða yfirmatsins, sem dómurinn er sammála, að hæfilegt verð fyrir vinnuframlag forsvarsmanna stefnanda sé 1.083.950 krónur með virðisaukaskatti að teknu tilliti til þeirra annmarka á teikningum sem getið er um í matsgerð. 

Það sem stefndu hafa þegar greitt stefnanda hærri fjárhæð en þessu nemur ber að sýkna þau af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 760.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun og kostnað stefndu að fjárhæð 261.450 krónur við öflun matsgerðar. 

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Pétri H. Ármannssyni arkitekt og Stefáni Veturliðasyni verkfræðingi.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Örn Arnarson og Hildur Ýr Arnarsdóttir, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, EON arkitekta ehf., í þessu máli.

Stefnandi greiði stefndu 760.000 krónur í málskostnað.