Hæstiréttur íslands
Mál nr. 152/2005
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 27. október 2005. |
|
Nr. 152/2005. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Andrési Má Heiðarssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl. Ingi Tryggvason hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.
AH var sakfelldur fyrir að hafa framið kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum með því að hafa viðhaft kynferðislegt og klámfengið tal í fjölmörgum smáskilaboðum, sem hann sendi í GSM síma þeirra. Varðaði þessi háttsemi við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki þótti hins vegar sannað að AH hefði gerst sekur um að hafa sært blygðunarsemi annarrar stúlkunnar með nánar tilgreindum hætti í sundlaug í desember 2003 og á heimili hans vorið 2004. Var hæfileg refsing fyrir ofangreind brot ákveðin fangelsi í 5 mánuði en fullnustu 3ja mánaða af refsitímanum var frestað skilorðsbundið. Þá var AH dæmdur til að greiða hvorri stúlknanna 400.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. apríl 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu en þyngingar á refsingu og að ákærða verði gert að greiða 500.000 krónur í miskabætur til brotaþola hvorrar um sig auk dráttarvaxta eins og í héraðsdómi greinir.
Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum ákæruliðum en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfum verði vísað frá dómi.
Ákærða er í málinu gefið að sök að hafa á árunum 2003 og 2004 framið kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum, eins og nánar er lýst í fjórum liðum ákæru. Er háttsemi hans þar talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var ákærði sakfelldur í héraðsdómi fyrir sakargiftir, sem greinir í 1., 2. og 4. lið ákærunnar, en sýknaður af 3. lið þar eð sök hafði ekki sannast. Er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Að því er varðar 2. lið ákæru byggðist niðurstaða héraðsdóms aðallega á framburði kæranda og því að hún greindi tveimur mönnum frá ætluðu atviki rúmlega hálfu ári síðar. Gegn eindreginni neitun ákærða er ekki fram komin næg sönnun og verður hann einnig sýknaður af sakargiftum samkvæmt þeim lið. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður á hinn bóginn staðfest niðurstaða hans um sök ákærða vegna háttsemi, sem greinir í 1. og 4. lið ákæru. Sú refsing, sem hann var dæmdur til að sæta í héraðsdómi, telst hæfileg. Verður einnig fallist á þá niðurstöðu að skilorðsbinda hana að hluta.
Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að miskabætur til beggja brotaþola í málinu verði hækkaðar. Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar nýjar skýrslur um svonefnd meðferðarviðtöl við stúlkurnar í Barnahúsi. Er leitt í ljós að ákærði hefur með háttsemi sinni valdið þeim verulegum miska og verður hann dæmdur til að greiða hvorri þeirra 400.000 krónur í bætur með dráttarvöxtum, eins og í héraðsdómi. Í áfrýjunarstefnu var þess ekki krafist að upphafstíma vaxta yrði breytt og kemst því ekki að í málinu sú krafa brotaþolanna að vextir verði miðaðir við fyrra tímamark en gert var í héraðsdómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt endanlegu yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, að frádregnum kostnaðarlið vegna ritvinnslu, og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanna, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Andrésar Más Heiðarssonar.
Ákærði greiði A og B hvorri fyrir sig 400.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. janúar 2005 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 1.360.697 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 522.900 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola í héraði, Hjördísar Harðardóttur héraðsdómslögmanns, 224.100 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 28. febrúar 2005.
Ár 2005, mánudaginn 28. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Vesturlands, sem háð er í dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík af Símoni Sigvaldasyni héraðsdómara sem dómsformanni, ásamt meðdómendunum Benedikt Bogasyni dómstjóra og Kristni Halldórssyni settum héraðsdómara, kveðinn upp svohljóðandi dómur í sakamálinu nr. 525/2004:
Ákæruvaldið
(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)
gegn
Andrési Má Heiðarssyni
(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 18. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 10. desember 2004 á hendur Andrési Má Heiðarssyni, [...], fyrir kynferðisbrot gegn eftirgreindum nemendum sínum í Grunnskólanum í X, á árunum 2003 og 2004:
I.
A, [...]:
1. Fyrir að hafa á tímabilinu september 2003 til júní 2004, sært blygðunarsemi hennar með því að viðhafa kynferðislegt og klámfengið tal í fjölmörgum af þeim 1276 smáskilaboðum sem hann sendi úr GSM síma sínum 693-8942 í GSM síma hennar [...] og [...].
2. Fyrir að hafa í desember 2003, á heimili sínu að [...], beðið hana um að sýna sér brjóstin, kyssa hana og spurt hvort hún vildi eiga við hann munnmök.
3. Fyrir að hafa vorið 2004 í heitum potti við sundlaugina í X strokið læri hennar og nára.
Er þessi háttsemi talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.
II.
B, [...]:
4. Fyrir að hafa á tímabilinu frá október 2003 til júní 2004, sært blygðunarsemi hennar, með því að viðhafa kynferðislegt og klámfengið tal í fjölmörgum af 2444 smáskilaboðum sem hann sendi úr GSM síma sínum 693-8942 í GSM síma hennar [...].
Er þessi háttsemi einnig talin varða við 209. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
C, [...] krefst þess fh. ólögráða dóttur sinnar, A, að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júlí 2004 til greiðsludags auk málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
D, [...] krefst þess fh. ólögráða dóttur sinnar, B, að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur. Við munnlegan flutning málsins var fjárhæð umkrafinna miskabóta færð úr 1.000.000 króna, í 500.000 krónur, og þeirrar fjárhæðar krafist með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júlí 2004 til greiðsludags, auk málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlauna að mati dómsins.
Forstöðumaður Félags- og skólaþjónustu Y beindi bréfi til lögreglu 5. júlí 2004 vegna gruns um ósæmilega hegðun ákærða gagnvart A og B. Í bréfinu er rakið að grunur leiki á um að ákærði hafi sært blygðunarkennd stúlknanna með ítrekuðum GSM smáskilaboðasendingum en í þeim hafi hann m.a. óskað eftir ,,sms kynlífi”. Einnig væru uppi grunsemdir um að ákærði hafi snert A á ósæmilega hátt, en hún hafi greint frá því að ákærði hafi strokið hendi upp eftir lærum hennar í heitum potti í sundlaug X veturinn 2003 til 2004. Í viðtölum við stúlkurnar hafi komið fram að þær telji ákærða hafa verið í smáskilaboðasambandi við fleiri stúlkur á þeirra aldri.
Að beiðni sýslumannsins í X fór fram yfirheyrsla yfir A og B í Barnahúsi þriðjudaginn 13. júlí 2004. Greindi A frá því að ákærði hafi stjórnað undirbúningi fyrir heimaleiki körfuknattleiksliðs Z í X. Hafi hún, ásamt fleiri ungmennum, tekið þátt í þeim undirbúningi. Í tengslum við hann hafi ákærði tekið til við að senda henni skilaboð um GSM síma sinn. Skilaboðin hafi í upphafi verið á almennum nótum og varðað heimaleikina, en síðar orðið tíðari og á persónulegri nótum. Hafi þau þróast í að verða sífellt grófari og varðað kynferðisleg atriði. Hafi ákærði óskað eftir því að A tæki þátt í ,,sms kynlífi” með sér. Skilaboðin hafi færst frá umræðu um klæðnað út í lýsingar á kynlífsathöfnum. Ákærði hafi jafnan krafist þess að A eyddi öllum skilaboðum jafnóðum úr símanum.
Þá greindi A frá því að hún hafi eitt sinn farið í sundlaugina í X. Hafi hún verið í heita pottinum ásamt ákærða og bróður hans. Hafi ákærði þá sett nudd í pottinum af stað, en það hafi orsakað mikið af loftbólum í vatninu. Hafi ákærði strokið læri hennar upp að nára og farið með fingur inn fyrir það svæði er sundbolur hennar hafi hulið. Kvaðst A hafa staðið á fætur og yfirgefið sundlaugina.
Loks greindi A frá því að ákærði hafi farið þess á leit við nokkra kvenkynsnemendur í Grunnskólanum í X þær myndu annast almenn þrif á heimili hans. Hafi ákærði boðið greiðslu fyrir þá vinnu. Einhverju sinni hafi A verið ein við þrif heima hjá ákærða [...]. Er hún hafi verið við það að yfirgefa íbúðina hafi ákærði komið heim. Hafi þau tekið tal saman og ákærði m.a nefnt klæðnað A. Hafi hann síðan beðið hana um að sýna sér brjóstin og í framhaldi af því kysst hana. Að auki hafi ákærði spurt hana að því hvort hún vildi hafa við hann munnmök. A kvaðst hafa orðið hrædd og að sér hafi liðið illa við þetta. Hafi hún yfirgefið íbúðina og haldið grátandi heim á leið.
A kvað sér hafa liðið illa í samskiptum sínum við ákærða. Hafi hún litið upp til hans sem kennara við grunnskólann, auk þess sem hann hafi verið í körfuknattleiksliði Y. Hafi E sagt A frá því að ákærði hafi einnig sent henni skilaboð um kynferðisleg atriði. Hafi E brotnað saman við að lýsa þessari reynslu sinni. Hafi það leitt til þess að A, ásamt E og B, hafi farið til fundar við skólastjóra Grunnskólans í X og sagt honum frá þessum skilaboðum.
B kvaðst hafa tekið þátt í að undirbúa heimaleiki körfuknattleiksliðs Z, en ákærði hafi stjórnað þeim undirbúningi. Í tengslum við það hafi ákærði farið að senda henni smáskilaboð um GSM farsíma. Í upphafi hafi skilaboðin verið á almennum nótum og tengst undirbúningi leikjanna. Síðar hafi þau þróast úti í að ákærði hafi farið að senda sífellt persónulegri skilaboð. Ákærði hafi spurt B hvort hún vildi ,,dirty talk” og hafi B ávallt svarað því neitandi. Hafi skilaboðin að lokum orðið kynferðisleg, en ákærði hafi m.a. spurt hana að því hvort hún vildi koma í heimsókn og að hann langaði að hafa við hana samfarir og hvort hún vildi hafa við sig munnmök. Í skilaboðunum hafi ákærði lýst því að hann væri að fróa sér heima hjá sér og að hann væri ,,ógeðslegur”. B kvað ákærða að auki hafa hringt í sig við slíkar aðstæður en hún hafi aldrei svarað símhringingum hans. B hafi fundist öll þessi skilaboð ógeðsleg, en hún hafi litið upp til ákærða sem kennara og íþróttamanns, en hann hafi verið í körfubolta. B kvaðst síðast hafa átt í samskiptum við ákærða í upphafi sumars 2004 en þá hafi hún verið hætt að svara skilaboðum frá honum. Borist hafi út að fleiri en B hafi fengið kynferðisleg skilaboð frá ákærða. Hafi B verið heima hjá E er E og A hafi fært í tal við hana hvort þær ættu ekki að tilkynna skólastjóra Grunnskólans í X um framferði ákærða. Hafi það orðið og þær þrjár hitt skólastjórann á fundi. Í kjölfarið hafi B upplýst foreldra sína um atburðina. Hafi það leitt til þess að hún hafi brotnað saman.
Ólöf Ásta Farestveit uppeldis- og afbrotafræðingur í Barnahúsi, hefur ritað greinargerðir, dagsettar 7. og 8. febrúar 2005, um viðtalsmeðferðir við A og B. Í greinargerð um A kemur fram að A hafi liðið mjög illa fyrir viðtalsmeðferðina og einnig meðan á henni hafi staðið, þó hún hafi reynt að bera sig vel. Hafi hún einangrað sig undanfarið hálft ár og haldið sig að mestu heima hjá sér og væri hún út af fyrir sig í skólanum. Hafi hún orðið fyrir miklu aðkasti frá ýmsum bæjarbúum vegna málsins og hafi það orsakað einangrun hennar. A hafi gert tilraun til sjálfsvígs vorið 2004 en hún hafi tekið inn of stóran skammt af svefnlyfjum. Hafi hún haft stöðugar sjálfsvígshugsanir. Í viðtali 27. október 2004 hafi hún svarað sjálfsmatskvarða um geðlægð. Þar hafi m.a. komið fram að hún væri oft leið, einmanna, að hana langaði til að gráta og að sjálfsvíg væru ofarlega í huga hennar. Sama niðurstaða hafi fengist er annar spurningalisti hafi verið lagður fyrir hana 14. janúar 2005 og hafi niðurstöður þeirrar könnunar verið þær að hún bæri merki alvarlegrar geðlægðar. Móðir A hafi fært sjálfsmatslista á atferli barna og unglinga. Þar hafi A mælst á mörkum klínísks kvarða hvað varði félagslega stöðu og áhugamál. Komi fram hjá móður að stúlkan hafi grátið mikið, væri einmanna, nokkuð óttaslegin og leið. Er það niðurstaða viðtalsmeðferðarinnar að A þjáist mikið af þunglyndi sem hún þarfnist meðhöndlunar við hið fyrsta. Vanlíðan hennar sé mikil og þurfi miklar breytingar að verða á hennar högum til að líðan hennar geti farið að taka breytingum til batnaðar.
Í greinargerð um B kemur fram að B hafi komið í 6 viðtöl, hið fyrsta 13. september 2004. Hafi henni í viðtalsmeðferðinni liðið mjög misjafnlega. Er tekið fram að nálægðin við ákærða, ásamt viðbrögðum bæjarbúa, hafi haft slæm áhrif á B og valdið henni mikilli vanlíðan. Lagður hafi verið fyrir B spurningalisti 13. september 2004 um þunglyndi og hafi það reynst innan eðlilegra marka. Sama dag hafi verið lagður fyrir hana spurningalisti um áfallastreitu. Hafi hún ekki uppfyllt greiningarviðmið, en engu að síður hafi hún borið ýmis einkenni barna sem greinist með áfallastreitu. Þar bæri helst að geta truflandi minninga um atburðina. Hafi hún lýst því að hún upplifði kvíða og hræðslu vegna ytri og innri áreita sem minni hana á atvikin. Lagður hafi verið fyrir hana spurningalisti 8. október 2004 um geðlægð. Niðurstöður þeirrar rannsóknar hafi verið þær að hún hafi borið merki vægrar geðlægðar, eins og algengt væri hjá börnum er orðið hafi fyrir áfalli. Þar hafi komið fram depurð, áhugaleysi, skortur á sjálfstrausti, sjálfsgagnrýni og aukinn grátur. Væru þau svör hennar í samræmi við svör á sjálfsmatslista um atferli unglinga. Þar hafi hún greinst á mörkum klínísks kvarða hvað varði þunglyndiseinkenni og angist. Er það niðurstaða Ólafar Ástu að B finni fyrir stöðugu óöryggi. Marki það líf hennar sem einkennist af stöðugri skimun eftir meintum geranda, óöryggi í daglegu lífi og miklum kvíða. Hafi hún þegar ákveðið að fara í annað bæjarfélag í áframhaldandi skólagöngu eftir að grunnskóla ljúki. Geti hún ekki hugsað sér að vera áfram í bænum vegna vitneskju bæjarbúa og þeirrar togstreitu sem myndast hafi eftir að málið hafi komist upp.
Ákærði var fyrst boðaður til lögreglu þriðjudaginn 6. júlí 2004. Um atvik bar hann að honum hafi verið greint frá því við komu til X að venja stæði til þess að ungir kvenkynsnemendur við Grunnskólann í X tækju að sér gegn gjaldi að þrífa á heimilum einstæðra karlkynsíþróttakennara. Ákærði hafi nýtt sér það, en nemendur hafi ekki komið á heimili hans til þrifa nema ákærði væri á keppnisferðalögum með körfuknattleiksliði Z. Í tengslum við þessi þrif hafi ákærði verið í GSM smáskilaboðasambandi við A, en þau samskipti hafi byrjað í september 2003. Skilaboðin hafi fljótlega þróast út í spjall um kynlíf. Tvö þessara skilaboða, sem sennilega hafi farið á milli þeirra í september 2003, hafi gengið of langt, en þau hafi falið í sér lýsingar á samræði. Við skýrslugjöf hjá lögreglu kvaðst ákærði ekki geta lýst þeim skilaboðum nánar, enda hafi þau ekki rist djúpt og hafi hann umsvifalaust eytt þeim úr símanum. Ákærði hafi verið í smáskilaboðasambandi við A af og til allan veturinn 2003 til 2004 og þá ýmist að hans frumkvæði eða hennar. Skilaboðin hafi verið á almennum nótum en ekki varðað kynlíf og samræði eins og þau tvö er farið hafi á milli í september 2003. Síðast hafi ákærði verið í smáskilaboðasambandi við A um miðjan maí 2004, en þá hafi A hringt í ákærða til Akureyrar til að segja honum frá því að B hafi farið inn á heimili ákærða [...] í X til að horfa á söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Ákærði kvaðst einnig hafa verið í smáskilaboðasambandi við B og hafi það einnig ýmist verið að hans frumkvæði eða hennar. Í þeim skilaboðum hafi kynlíf eitthvað borið á góma en ekkert í líkingu við þau tvö tilvik er hafi beinst að A í september 2003. Skilaboðin hafi verið á almennum nótum, en þó hafi B sagt ákærða frá því að hún hafi fyrst ,,sofið hjá stelpu” og hafi hún lýst þeim athöfnum nokkuð nákvæmlega. Þessi skilaboð hafi farið á milli þeirra á seinni hluta maí mánaðar 2004. Síðast hafi ákærði verið í smáskilaboðasambandi við B 25. til 27. maí 2004. Ákærði kvaðst hafa sent E örfá smáskilaboð í tengslum við dreng er E hafi verið hrifin af og ákærði hafi umgengist. Skilaboðin hafi snúist um það hve hrifin E hafi verið af drengnum og hafi ákærði verið nokkurs konar milliliður í því sambandi. Ákærði hafi ekki verið í smáskilaboðasambandi við aðrar stúlkur en þessar þrjár þar sem kynlíf hafi borið á góma. Væri það af og frá að hann hafi óskað eftir ,,sms kynlífi” með stúlkunum en í samskiptunum hafi oft verið fjallað ,,opinskátt um kynlíf”.
Ákærði var á ný boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu 14. september 2004. Við þá skýrslugjöf greindi hann frá því að hann hafi tekið að sér undirbúning fyrir heimaleiki körfuknattleiksliðs Zeftir að hafa gengið í stjórn félagsins. Hafi hann í upphafi verið einn við undirbúning leikja en síðar fengið þá hugmynd að kalla til nemendur sér til aðstoðar. Hafi hópur nemenda, bæði strákar og stúlkur, tekið þátt í að aðstoða ákærða og hafi A, B og E verið þeirra á meðal. Upp frá því hafi B tekið til við að þrífa á heimili ákærða. Hafi hún óskað eftir því að fá að hafa einhverjar stúlkur með sér við þrifin og hafi ákærði samþykkt það. Upp frá því hafi B tekið til við að senda ákærða smáskilaboð um GSM síma. Í upphafi hafi þau lotið að upplýsingum um leiki Z. Síðar hafi skilaboðin þróast í umræðu um önnur og mjög persónulegri málefni, m.a. út í almennar lýsingar á kynlífi, en það hafi tengst sambandi B við tiltekinn dreng. Samskiptin hafi verið eins og ,,verið væri að lýsa athöfnum í klámmynd”. Ákærði hafi verið á Akureyri er söngvakeppni sjónvarpsstöðva hafi verið haldin. B hafi ítrekað sent ákærða skilaboð og spurt að því hvort hún mætti horfa á keppnina heima hjá ákærða. Hafi hann neitað henni um það. Síðar sama kvöld hafi A sagt honum frá því að B hafi farið inn á heimili ákærða ásamt fleiri ungmennum. Er ákærði hafi komið til baka frá Akureyri hafi B forðast hann og ekkert viljað við hann ræða. Ekki hafi hann fengið skilboð frá henni í talsverðan tíma eftir það. Í byrjun júní 2004 hafi hann aftur fengið skilaboð frá henni þar sem hún hafi lýst því að hún hafi sofið hjá stúlku. Hafi hún lýst athöfnum sínum og því að henni hafi þótt ,,þetta spennandi”.
Ákærði kvaðst telja að símasamskipti sín við A hafi í upphafi tengst undirbúningi fyrir heimaleiki körfuknattleiksliðs Z og þrifum A á heimili ákærða. Samskipti ákærða við A hafi verið af allt öðrum toga en samskipti ákærða við B. A hafi verið í sambandi við dreng og hafi hún sent ákærða skilaboð sem hafi tengst áhuga drengsins á kynlífi með henni. Oft hafi liðið langur tími á milli samskipta. Á tilteknum tíma hafi komið skilaboð frá A um að hún væri búin að sofa hjá drengnum. Einhverju síðar hafi skilaboðin borist að tali um kynlíf. Dag einn er ákærði hafi rekist á A hafi hún borið því við að hún hefði ekkert að gera og að henni leiddist. Hafi ákærði þá í gamni stungið upp á því að hún kæmi heim til ákærða til að þrífa. Er ákærði hafi komið heim til sín hafi A sent skilaboð með fyrirspurn um hvort hún ætti ekki að koma heim til hans til að taka til. Hafi ákærði svarað henni játandi. Hafi þau hjálpast að við að taka til heima hjá ákærða. Ekki hafi þau rætt mikið saman á meðan á því hafi staðið. Er tiltektinni hafi lokið hafi A sótt yfirhöfn sína inn í herbergi. Er hún hafi komið út úr herberginu og fram á gang hafi ákærði ætlað að opna fyrir henni útidyrahurðina. Í því hafi A snúið sér að ákærða og kysst hann ,,mömmukoss” á munninn. Hafi ákærði þá ýtt A frá sér og vandræðalegt ástand myndast. A hafi þá yfirgefið íbúðina. Skömmu síðar hafi hún sent ákærða skilaboð með boðum um að henni liði illa yfir þessu og vissi ekki hvort hún gæti rætt við ákærða aftur. Þrem til fjórum vikum síðar hafi A sent ákærða skilaboð á ný og beðist afsökunar á því að hafa ekki verið í skilaboðasambandi við ákærða. Eftir það hafi ákærði og A tekið til við að senda hvort öðru skilaboð á nýjan leik. Er undir ákærða var borið að A hafi staðhæft að ákærði hafi strokið læri hennar í heitum potti í sundlauginni í X kvaðst ákærði alfarið synja fyrir það. Ákærði staðfesti að hann hafi jafnan farið þess á leit við A og B að þær myndu ekki segja öðrum frá þeim samskiptum er þær hefðu við ákærða. Bar ákærði því við að það ,,kæmi illa út fyrir ákærða” ef fólk kæmist að þeim samskiptum.
Fyrir dómi kvaðst ákærði kannast við að hafa sent A 1276 GSM smáskilaboð á tímabilinu september 2003 til júní 2004. Kvaðst hann viðurkenna að í 1 eða 2 tilvikum hafi klámfengið tal verið viðhaft og hafi það tengst dreng er A hafi verið með á þeim tíma. Að öðru leyti hafi klámfengið tal ekki verið viðhaft í þeim skilaboðum er hafi gengið á milli þeirra. Ákærði kvaðst kannast við að skilaboð hafi gengið á milli þeirra um persónuleg málefni og hafi þau gjarnan tengst því hversu óánægð A hafi verið með útlit sitt, klæðaburð eða önnur atriði er ungt fólk væri gjarnan með hugann við. Skilaboðin hafi gengið á milli á ýmsum tímum dags, m.a. á síðkvöldum. Umræðuefnið hafi verið allt milli himins og jarðar og væri það mat ákærða að fjöldi skilaboða hafi ekki verið óeðlilega mikill. Ákærði kvaðst neita því að hafa beðið A um að sýna á sér brjóstin, að hafa kysst hana eða spurt hvort hún vildi eiga við hann munnmök, svo sem 2. tl. ákæru byggði á. Um atvik er A og ákærði voru saman á heimili ákærða bar hann að öðru leyti með sama hætti og hjá lögreglu. Kvað hann umrætt tilvik vera það eina þar sem hann hafi verið einn á heimili sínu ásamt A. Að öðrum kosti hafi þrif á heimilinu farið fram er ákærði hafi verið á keppnisferðalögum. Þá kvaðst ákærði neita því að hafa strokið læri A í potti við sundlaugina í X, svo sem 3. tl. ákæru gerði ráð fyrir. Kvað hann bróður sinn hafa komið til X í desember 2003. Hafi A þá sent ákærða skilaboð og spurt ákærða að því hvort hann væri ekki til í að fara í sund með bróður sínum. Ákærði hafi oft farið í sundlaugina þann vetur. Hafi ákærði ákveðið að sýna A bróður sinn og þeir því farið í sundlaugina. Í heita pottinum hafi A setið gegnt ákærða og bróður hans. Þá hafi F frá Tálknafirði einnig verið í pottinum og hafi ákærði rætt við hana um stund. Kvað hann rétt hjá A að ákærði hafi sett nuddið í heita pottinum af stað. Hins vegar hafi engin líkamleg snerting átt sér stað á milli ákærða og A. Hafi A ekki farið úr pottinum fyrr en eftir að ákærði og bróðir hans hafi farið upp úr honum.
Ákærði kvaðst kannast við að hafa sent B 2444 GSM smáskilaboð frá í október 2003 til í júní 2004. Í einhverju skilaboðum hafi umræða spunnist um kynlíf, en ákærði kvaðst synja fyrir að hafa viðhaft kynferðislegt og klámfengið tal sem hafi sært blygðunarsemi B. Hafi hann ekki beðið hana um að sofa hjá sér, eða beðið hana um að hafa við sig munnmök eða lýst því að hann langaði að kyssa hana, svo sem hún hafi haldið fram að hann hefði sent skilaboð um. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa sent B skilaboð um að ákærði væri að fróa sér. Ákærði kvaðst hafa farið til Tálknafjarðar í jólafrí 18. desember 2003. Hafi nokkur fjöldi skilaboða farið á milli hans og B um það leyti. Ekki kvaðst hann muna efni skilaboðanna. Ekki kvaðst ákærði eiga skýringar á því af hvaða ástæðu A eða B eða aðrar stúlkur í X væru að bera upp á hann sakir um kynferðisleg og klámfengin skilaboð. Kvaðst hann þó þekkja til þess að B bæri vísvitandi rangar sakir upp á fólk.
M skólastjóri Grunnskólans í X kvað A, B og E hafa haft samband við sig og óskað eftir fundi með sér mánudaginn 28. júní 2004. Hafi stúlkurnar sagt málið alvarlegt og hann ákveðið að hitta þær þrjár það sama kvöld. Á þeim fundi hafi þær skýrt frá því að ákærði hafi í einhverja mánuði sent þeim misjafnlega gróf GSM smáskilaboð á öllum tímum sólarhrings. Hafi þær leitað til M með að fá hjálp í stöðunni. Sama kvöld hafi M boðað ákærða til fundar við sig. Á þeim fundi hafi ákærði viðurkennt að hafa ,,farið yfir strikið” í skilaboðum sínum gagnvart stúlkunum, án þess að útskýra það nánar. Næsta dag hafi M tilkynnt fulltrúa í Félags- og skólaþjónustu Y um atvikið og daginn þar á eftir hafi hann haft samband við forstöðumann Félags- og skólaþjónustunnar og gert henni grein fyrir málinu. Ekki kvaðst M sjálfur hafa séð skilaboð er ákærði hafi sent stúlkunum. Með bréfi 30. júlí 2004 hafi ákærði tilkynnt um uppsögn sína sem íþróttafræðingur og kennari við grunnskólann.
G kvað dóttur sína, H, hafa sagt henni frá því, eftir að kæra hafi verið komin fram á hendur ákærða, að veturinn 2002 til 2003 hafi dóttirin fengið GSM smáskilaboð frá ákærða sem dótturinni hafi líkað illa. Ekki kvaðst G vita um fjölda skilaboðanna og ekki annað um efni þeirra en að dóttirin hafi orðið reið vegna þeirra og sagt skilaboðin vera ,,pervert skilaboð”.
I kvaðst hafa verið kærasti A frá því í ágúst 2003, allt þar til í júlí 2004. A hafi sagt honum frá því í upphafi árs 2004 að ákærði hafi sent henni skilaboð um GSM síma. Hafi ákærði verið að bjóða henni í heimsókn að [...] í X. A hafi sagt honum frá því að hún hafi svarað ákærða með því að biðja hann um að láta sig í friði. Í endaðan júní 2004 hafi A sagt honum frá því að ákærði hafi kysst hana á heimili sínu [...]. Að sögn A hafi aðdragandinn verið sá að hún hafi verið að þrífa á heimili hans og verið við að klára uppvask, er ákærði hafi komið heim. Í framhaldi af því hafi ákærði kysst hana. Auk þess hafi hún greint honum frá því að ákærði hafi káfað á henni í heitum potti í sundlauginni í X. Hafi hún strax rokið upp úr pottinum. Frásögn A hafi komið í kjölfar þess að I hafi merkt hjá henni breytingar á líðan og hafi hann gengið á hana hverju það sætti. A hafi ekki liðið vel á þeim tíma. Hafi hún t.a.m ekki viljað fara í sund með sér lengur. I kvaðst sjálfur ekki hafa séð þau skilaboð er ákærði hafi sent A, en kvað A hafa sagt honum innihald þeirra jafnframt því sem hann hafi einhverju sinni verið með A er henni hafi borist slík skilaboð og hún þá lesið efni þeirra af símanum. Hafi A ekki sagt I frá alvarleika þessara skilaboða fyrr en I hafi gengið á hana og hafi hún sagt honum að hún hafi ekki haft kjark til að segja honum frá þeim fyrr. Ákærði hafi sagt A að eyða öllum skilaboðum þar sem ákærði væri íþróttakennari og að hann gæti misst starfsréttindi sín ef skilaboðin kæmust upp á yfirborðið.
J kvaðst hafa kynnst B tveim vikum fyrir skólaslit Grunnskólans í X vorið 2004 og hafi þær orðið góðar vinkonur upp frá því. Þá strax hafi B sagt J frá skilaboðum er B væri að fá frá ákærða. Hafi J séð nokkur þeirra skilaboða hjá B, sem jafnan hafi eytt þeim eftir að þau hafi borist henni. Að kvöldi 16. júní 2004 hafi J og B verið á gangi á leið að heimili J. Hafi ákærði þá sent B skilaboð og spurt að því á hvaða leið þær væru. Hafi B sent ákærða skilaboð um að þær væru á leið heim til J þar sem þær ætluðu að sofa þá nóttina. Eftir það hafi ákærði ítrekað sent B skilaboð og beðið þær um að koma í heimsókn til sín [...] Það hafi þær ekki viljað, en skilaboð frá ákærða hafi borist fram yfir miðnættið. Í skilaboðum sínum hafi ákærði vikið að kynferðislegum athöfnum er hann hafi gefið í skyn að þær myndu viðhafa eftir að heim væri komið. B hafi liðið illa eftir að hafa móttekið þessi skilaboð. Hafi hún rætt efni þeirra og lýst því hvaða áhrif þau hefðu á sig. Kvaðst J hafa greint mun á B eftir þessi ítrekuðu skilaboð frá ákærða.
K kvaðst hafa verið vinkona B um margra ára skeið. Í desember 2003 hafi B fyrst greint K frá símaskilaboðum er hún væri að fá frá ákærða. Ekki hafi K séð þessi skilaboð en B hafi lesið sum þeirra upp fyrir K og borið um að önnur hafi að hluta verið kynferðisleg og hafi hann t.a.m. spurt B hversu langt hún væri til í að ganga með honum í kynlífsathöfnum.
L, bróðir ákærða, kvaðst hafa heimsótt bróður sinn til X rétt undir jól 2003. Hafi þeir bræður farið í sundlaugina í X. Í heita pottinum hafi þeir rekist á A. Hafi þau rætt saman en engar líkamlegar snertingar hafi átt sér stað á milli ákærða og A. Kvaðst L hafa setið við hlið ákærða í pottinum og geta fullyrt að ákærði hafi ekki snert A, sem setið hafi á móti þeim. Hafi F frá Tálknafirði verið í pottinum. L og ákærði hafi rætt talsvert við hana, en F síðan yfirgefið pottinn og A skömmu síðar. Eftir það hafi L og ákærði farið upp úr pottinn.
Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur í Barnahúsi, staðfesti greinargerðir um viðtalsmeðferðir við A og B. Tók hún fram að þær hefðu báðar komið í viðtal einu sinni eftir að hún hafi ritað greinargerðirnar en þau viðtöl hefðu ekki áhrif á fyrri niðurstöður. Kvaðst hún hafa starfað sem sérfræðingur með börn og ungmenni allt frá árinu 1994. Ólöf kvað það skoðun sína að A hafi greinilega upplifað neikvæða atburði tengda símaskilaboðum er hún hafi fengið frá ákærða, þó sleppt væri þeirri neikvæðu umræðu er átt hafi sér stað í X eftir kæru stúlknanna á hendur ákærða.
Niðurstaða:
Ákærði hefur viðurkennt að hafa sent A 1276 GSM smáskilaboð á tímabilinu september 2003 til júní 2004 og að hafa sent B 2444 GSM smáskilaboð á tímabilinu október 2003 til júní 2004. Þá hefur hann viðurkennt að kynferðislegt tal hafi verið viðhaft í einu eða mesta lagi tveim skilaboðum er hann hafi sent A. Að öðru leyti hefur hann hér fyrir dómi synjað fyrir að kynferðislegt eða klámfengið tal hafi verið viðhaft í þessum skilaboðum sem hafi sært blygðunarsemi stúlknanna. Við lögreglurannsókn málsins 6. júlí 2004, daginn eftir að A og B sögðu skólastjóra Grunnskólans í X frá skilaboðum ákærða, viðurkenndi hann að skilaboð til A hafi fljótlega eftir september 2003 ,,þróast út í spjall um kynlíf” og að tvö af skilaboðunum ,,hafi gengið of langt þau hafi þróast út í lýsingar á samförum”. Þá hafi ,,kynlíf eitthvað borið á góma” í símasamskiptum sínum við B. Síðar í sömu yfirheyrslu bar ákærði að ,,þau sms samskipti sem hann hafi átt við fyrrgreindar stúlkur hafi oft fjallað opinskátt um kynlíf”. Með hliðsjón af þessu verður ekki við annað miðað en að ákærði sé nú að fegra hlut sinn með því að gera minna úr honum en áður.
A og B hafa lýst efni þeirra skilaboða er ákærði hefur sent þeim um síma sinn. Ber þeim saman um að hluti þeirra hafi bæði varðað kynferðisleg og klámfengin efni. Þá hafa þær borið að þeim hafi liðið ákaflega illa í þessum samskiptum við ákærða, en hann hafi verið kennari við Grunnskólann í X og tengst körfuknattleiksliði Z sem hafi átt velgengni að fagna á þeim tíma. Vinkonur A og B hafa borið um að ákærði hafi verið að senda stúlkunum skilaboð, en J og K sögðust hafa orðið vitni að slíkum kynferðislegum skilaboðum. Þá hefur I greint frá því að hann hafi orðið vitni að því er slík skilaboð hafi borist A og að A hafi sagt honum frá því að henni hafi borist fjöldi slíkra skilaboða frá ákærða.
Samkvæmt niðurstöðum viðtalsmeðferða Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings í Barnahúsi, býr A við mikla vanlíðan í kjölfar þeirra atburða er átt hafi sér stað í samskiptum hennar og ákærða. Muni miklar breytingar þurfa að verða á hennar högum til að líðan hennar geti farið að taka breytingum til batnaðar. Þá finni B fyrir stöðugt óöryggi, sem marki líf hennar sem einkennist af miklum kvíða og stöðugri skimun eftir ákærða.
Ekkert hefur komið fram í málinu er dregur úr trúverðugleika framburða A og B. Þá bera viðtalsmeðferðir glöggt vitni um að stúlkurnar hafi orðið fyrir óþægilegri lífsreynslu sem eigi upptök sín í samskiptum við ákærða. Ákærði var rétt innan við þrítugur að aldri þegar hann sendi stúlkunum þessi skilaboð, kennari við Grunnskólann í X og fyrirmynd ungmenna í íþróttastarfi. Var með öllu ósæmilegt af hans hálfu að senda þessum stúlkum, sem þá voru einungis á fimmtánda aldursári og á viðkvæmu þroskaskeiði, skilaboð um kynferðisleg efni og athafnir. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að ákærði átti margsinnis frumkvæði að tjáskiptum og sendi stúlkunum skilaboð seint á kvöldin og fram eftir nóttum. Með vísan til framburða A og B, framburðar vitnanna J, K og I, niðurstöðu úr viðtalsmeðferðum og þess misræmis er gætir í framburði ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu verður slegið föstu, að ákærði hafi í þeim skilaboðum er hann sendi stúlkunum á síðari hluta árs 2003 og fram á mitt ár 2004, sært blygðunarsemi þeirra með kynferðislegu og klámfengnu tali. Fellur sú háttsemi undir 209. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.
Í 2. tl. er ákærða gefið að sök að hafa beðið A um að sýna sér brjóstin, að hafa kysst hana og spurt hana hvort hún vildi hafa við sig munnmök. Um þessi sakarefni nýtur að mestu frásagnar A og ákærða. Við mat á þessum sakargiftum er til þess að líta að ákærði hafði á þeirri stundu ítrekað sent A ósæmileg skilaboð um kynlífsathafnir og áhuga sinn á henni í því sambandi. Einnig liggur fyrir að ákærði átti frumkvæði að því að A kom á heimili hans, ein síns liðs og að kvöldi til. Þá er fram komið að ákærði og A kysstust, þó svo þau beri með misjöfnum hætti um hver hafi átt frumkvæðið að þeim kossi. Engum vafa er undirorpið að ákærði hefur reynt að gera minna úr sínum þætti tengdum heimsókninni en efni standa til. A greindi I frá þessu atviki í lok júní 2004, um svipað leyti og hún sagði skólastjóra grunnskólans frá því, en viðtalið við skólastjórann leiddi til opinberrar rannsóknar á hendur ákærða. Þá hefur hún skýrt frá þessu atviki við meðferð málsins á greinargóðan og mótsagnalausan hátt. Loks er til þess að líta að A á við alvarlega sálræna erfiðleika að stríða í kjölfar samskipta við ákærða, sem virðast rista dýpra en þeir erfiðleikar er B á við að stríða eftir samskipti við ákærða. Að öllu þessu virtu verður trúverðug frásögn A lögð til grundvallar niðurstöðu og miðað við að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi er tilgreind er í 2. tl. ákæru og fellur þar með undir 209. gr. laga nr. 19/1940.
Í 3. tl. ákæru er ákærða gefið að sök að hafa strokið læri og nára A í heitum potti í sundlaug X vorið 2004. Ákærði hefur bæði við lögreglurannsókn málsins og fyrir dómi viðurkennt að hafa farið í sundlaugina í X með bróður sínum L og að þeir bræður hafi verið í heita pottinum ásamt A. Ákærði hefur hins vegar ávallt synjað fyrir að hafa snert A í pottinum. L kom fyrir dóminn og bar að ákærði hafi ekki komið við A. Að öðru leyti var frásögn A tengd þessari sundferð ekki til samræmis við framburð ákærða og veikir það trúverðugleika framburðar hans. Til þess er að líta að L var ekki yfirheyrður af lögreglu, þrátt fyrir að tilefni hafi verið til þess. Bera hann og ákærði fyrir dómi að í pottinum hafi einnig verið F frá Tálknafirði, sem þeir bræður hafi tekið tali. Verður að telja einsýnt að unnt hafi verið að rannsaka betur þennan þátt málsins, t.a.m. með hliðsjón af því hvort aðrir sundlaugargestir hafi verið í pottinum á sama tíma er veitt hafi athygli samskiptum ákærða og A eða upplýsinga um hvort starfsfólk við sundlaugina hafi orðið einhvers áskynja. Sakargiftir samkvæmt þessum tölulið byggja því á ófullburða rannsókn, þótt A hafi frá upphafi verið einlæg og sjálfri sér samkvæm í frásögn sinni af sundferðinni. Með hliðsjón af 45. gr. laga nr. 19/1991, verður ekki við annað komið en að sýkna ákærða af þessari háttsemi.
Samkvæmt sakavottorði er ríkissaksóknari hefur lagt fyrir dóminn hefur ákærði verið dæmdur í sekt 8. febrúar 2002 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að brot ákærða eru alvarleg trúnaðarbrot, en hann hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveim nemendum við Grunnskólann í X á sama tíma og ákærði var kennari við skólann. Samkvæmt því og með vísan til 1. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, sbr. og 77. gr. sömu laga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Rétt þykir að skilorðsbinda 3 mánuði af refsivistinni, svo sem í dómsorði er kveðið á um.
C hefur krafist miskabóta fyrir hönd dóttur sinnar, A, að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta. Þá hefur D krafist miskabóta fyrir hönd dóttur sinnar, B, að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta Um rökstuðning fyrir báðum þessum kröfum er vísað til þess að atvik þau sem um er dæmt hafi fengið mjög á A og B. Ákærði hafi verið umsjónarkennari þeirra og hafi þær litið upp til hans og átt að geta treyst honum sem leiðbeinanda og kennara. Að auki hafi hann verið tæplega þrítugur þegar atvik hafi átt sér stað og aldursmunur því mikill á honum og A og B. Hafi stúlkunum stafað mikil ógn af ákærða, en hann hafi m.a. hótað þeim ef málið kæmist upp. Hafi þær báðar upplifað félagslega útskúfun og tortryggni af hálfu bæjarbúa. Brot ákærða hafi verið alvarleg, en hann hafi gróflega brotið allar skyldur sínar gegn stúlkunum. Hafi þær báðar orðið fyrir miskatjóni sem ákærði beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Áður hefur verið gerð grein fyrir viðtalsmeðferðum er A og B hafa verið í. Af þeim verður ályktað að þær hafa báðar orðið fyrir miska af völdum háttsemi er ákærði ber ábyrgð á. Sálrænar afleiðingar háttseminnar rista dýpra hjá A, enda hefur ákærði verið sakfelldur fyrir alvarlegra brot gagnvart henni en B. Á hún rétt á skaðabótum sem þykja hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Verður fjárhæðin bundin vöxtum, svo sem í dómsorði greinir, en ákærða var fyrst birt skaðabótakrafan við þingfestingu málsins fyrir dómi. B á einnig rétt á skaðabótum og þykja þær hæfilega ákveðnar 200.000 krónur, auk vaxta svo sem í dómsorði er kveðið á um.
Ákærði hefur verið sýknaður af óverulegum hluta háttsemi samkvæmt ákæru. Þykir rétt að hann greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, sem og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Hjördísar Harðardóttur héraðsdómslögmanns, sem ákveðin verður í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Jósefsdóttir saksóknari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Andrés Már Heiðarsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en frestað skal fullnustu 3ja mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði C, [...], fh. ólögráða dóttur sinnar A 250.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. janúar 2005 til greiðsludags.
Ákærði greiði D [...], fh. ólögráða dóttur sinnar B 200.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. janúar 2005 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 220.000 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Hjördísar Harðardóttur héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur.
Símon Sigvaldason
Benedikt Bogason Kristinn Halldórsson