Hæstiréttur íslands
Mál nr. 142/2013
Lykilorð
- Lífeyrissjóður
- Lífeyrisréttur
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2013. |
|
Nr. 142/2013.
|
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (Þórey S. Þórðardóttir hrl.) gegn Davíð Á. Gunnarssyni (Garðar Garðarsson hrl.) og gagnsök |
Lífeyrissjóður. Lífeyrisréttur.
D höfðaði mál gegn lífeyrissjóðnum L og krafðist þess í fyrsta lagi að felld yrði úr gildi ákvörðun stjórnar L um að lífeyrir D skyldi miðast við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákvörðuð af kjararáði 23. febrúar 2010. Í öðru lagi að viðurkennt yrði að lífeyrir D skyldi frá 1. febrúar 2010 miðast við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákvörðuð af kjararáði 4. júlí 2008. Í þriðja lagi að viðurkennt yrði að lífeyrisgreiðslur samkvæmt öðrum kröfulið ættu frá sama degi að taka breytingum í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. D hafði gegnt starfi forstjóra ríkisspítala fram til ársins 1995 og var ekki um það deilt að honum hefði verið heimilt að velja að lífeyrir hans yrði miðaður við laun forstjóra Landspítalans. D hóf töku lífeyris 1. febrúar 2010. Talið var að ákvörðun stjórnar L um að miða lífeyri D við ákvörðun kjararáðs um laun forstjóra Landspítalans 23. febrúar 2010 hefði ekki samræmst 2. og 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, enda hefði borið að miða upphaflegan lífeyri D við laun forstjóra Landspítalans eins og þau voru við starfslok hans. Aftur á móti var ekki fallist á kröfu D um að miðað yrði við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákveðin af kjararáði 4. júlí 2008 þar sem ráðið hafði í ákvörðun sinni ekki greint milli launa fyrir dagvinnu og yfirvinnu. Í dómi Hæstaréttar kom síðan fram að D hefði samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 haft val um það hvort lífeyrisgreiðslur til hans breyttust til samræmis við breytingar sem yrðu á launum er á hverjum tíma væru greidd forstjóra Landspítalans eða hvort þær skyldu breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna. Veldi D síðari kostinn yrði hann að hlíta því sem fram kæmi í 4. mgr. 28. gr. laganna um að miða bæri lífeyri hans við breytingar á launum fyrir það starf til ársloka 1996 en eftir það breyttist lífeyririnn í samræmi við meðalhækkanir á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu samkvæmt 3. mgr. 24. gr., sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna. Var L því sýknaður af þeirri kröfu D að viðurkennt yrði að lífeyrisgreiðslur til hans, sem miðast skyldu við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákveðin af kjararáði 4. júlí 2008, ættu frá og með 1. febrúar 2010 að taka breytingum í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2013. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 2. maí 2013. Hann krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði breytt á þann veg að fallist verði á kröfur hans í héraði. Þær voru í fyrsta lagi að ákvörðun stjórnar aðaláfrýjanda 19. maí 2010 um að lífeyrir gagnáfrýjanda skyldi miðast við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákvörðuð af kjararáði 23. febrúar sama ár yrði dæmd ógild, í öðru lagi að viðurkennt yrði að lífeyrir gagnáfrýjanda skyldi frá og með 1. febrúar 2010 miðast við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákvörðuð af kjararáði 4. júlí 2008 og í þriðja lagi að viðurkennt yrði að lífeyrisgreiðslur til gagnáfrýjanda samkvæmt öðrum kröfulið ættu frá og með 1. febrúar 2010 að taka breytingum í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá krefst gagnáfrýjandi staðfestingar á ákvörðun hins áfrýjaða dóms um málskostnað í héraði, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram hóf gagnáfrýjandi töku lífeyris hjá aðaláfrýjanda 1. febrúar 2010 eftir að hafa verið sjóðfélagi í liðlega 36 ár, þar af vel á annan áratug sem forstjóri ríkisspítala, en hann lét af því starfi árið 1995 þegar hann varð ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Greinir málsaðila ekki á um það að miða skuli lífeyri gagnáfrýjanda við laun forstjóra Landspítalans kjósi hann að sá háttur verði á hafður. Á hinn bóginn er ágreiningur þeirra á milli um hvort taka hafi átt mið af þeim launum, þegar gagnáfrýjandi hóf töku lífeyris, eins og þau voru ákveðin af kjararáði 4. júlí 2008 eða 23. febrúar 2010.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 47/2006 um kjararáð skal ráðið ákvarða föst laun fyrir venjulega dagvinnu og önnur laun sem starfi fylgja og kveða á um önnur starfskjör. Í héraðsdómi er gerð ítarleg grein fyrir fyrrgreindum tveimur ákvörðunum ráðsins um laun og starfskjör forstjóra Landspítalans. Í ákvörðuninni 4. júlí 2008 var ákvörðunarorðið svohljóðandi: „Mánaðarlaun forstjóra Landspítala skulu vera samkvæmt 161. flokki í launatöflu kjararáðs nr. 502, nú 1.618.565 krónur. Ekki er greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Laun eru við það miðuð að um fullt starf sé að ræða og þannig ákveðin að ekki komi til frekari greiðslna nema kjararáð úrskurði um það sérstaklega. Um almenn starfskjör forstjóra Landspítala gilda reglur kjararáðs frá 30. maí 2007.“ Í upphafi ákvörðunarinnar 23. febrúar 2010 var tekið fram að 8. gr. laga nr. 47/2006 hafi verið breytt á tiltekinn hátt með lögum nr. 87/2009, en síðan sagði: „Kjararáð hefur áður ákveðið forstjóra Landspítalans heildarlaun þar sem ekki var greint á milli dagvinnu og yfirvinnu. Með þessari ákvörðun eru laun forstjórans ákveðin þannig að skilyrði laganna um dagvinnulaun sé uppfyllt.“ Í samræmi við það sagði meðal annars í ákvörðunarorði: „Frá og með 1. mars 2010 skulu mánaðarlaun forstjóra Landspítalans vera samkvæmt launaflokki 502-141, nú 833.752 krónur. Að auki skal greiða honum 100 einingar á mánuði fyrir alla yfirvinnu og álag er starfinu fylgir.“
II
Frá því að lög nr. 101/1943 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins leystu af hólmi lög nr. 51/1921 um lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra og þar til lög nr. 141/1996 um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins tóku gildi 1. janúar 1997 var lagaumgjörð og starfsemi aðaláfrýjanda um margt frábrugðin því sem almennt gerist nú um lífeyrissjóði. Þannig áunnu sjóðfélagar sér ekki réttindi á grundvelli innborgaðra iðgjalda, heldur var mælt fyrir um þau í lögum, óháð iðgjöldum. Einnig var búið svo um hnúta að ríkissjóður og aðrir launagreiðendur stæðu undir skuldbindingum aðaláfrýjanda gagnvart sjóðfélögum, þar á meðal var ríkissjóður í bakábyrgð fyrir öllum lífeyrisgreiðslum hans. Með lögum nr. 141/1996 voru gerðar gagngerar breytingar á lagaumgjörð aðaláfrýjanda og þar með lífeyrisréttindum sjóðfélaga í honum. Komið var á nýju réttindakerfi, sem nýráðnir starfsmenn skyldu greiða iðgjald til, og var um það stofnuð sérstök deild í aðaláfrýjanda, A-deild. Eldra réttindakerfi var hins vegar lokað fyrir nýjum starfsmönnum og því skipað í sérstaka deild, B-deild. Meginreglan var sú að sjóðfélagar, sem áttu aðild að aðaláfrýjanda við gildistöku laga nr. 141/1996, yrðu í B-deildinni þar sem réttindareglur héldust með nokkrum undantekningum óbreyttar frá eldri lögum. Eitt af þeim nýmælum, sem upp var tekið, var að kveðið var á um í b. lið 15. gr. laga nr. 141/1996, nú 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, að eftir að taka lífeyris hæfist skyldu breytingar á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga í B-deildinni framvegis ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem yrðu á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Þó skyldi sjóðfélögum gefinn kostur á að velja um það við starfslok hvort ellilífeyrir þeirra yrði miðaður við laun fyrir störf sem þeir höfðu áður gegnt, eins og verið hafði, eða hvort lífeyririnn tæki þess í stað mið af meðalbreytingum á launum opinberra starfsmanna, eftir því sem nánar var kveðið á um í 35. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 141/1996, nú 35. gr., sbr. 3. og 4. mgr. 28. gr. laga nr. 1/1997.
Með heimild í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 141/1996 var meginmál breytinga samkvæmt þeim fellt inn í lög nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og þau síðan gefin út sem lög nr. 1/1997 er tóku gildi 10. janúar 1997. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. síðastnefndra laga, sem gildir um B-deild aðaláfrýjanda, er upphæð ellilífeyris hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast. Í 3. mgr. sömu greinar er að finna svofellt ákvæði: „Eftir að taka lífeyris hefst skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 2. mgr., og skal Hagstofa Íslands reikna þær mánaðarlega.“ Þá er svo fyrir mælt í 6. mgr. að hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum skuli miða lífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því að minnsta kosti í tíu ár.
Í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 segir meðal annars að sjóðfélagar sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi geti, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna, valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr., eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. þeirrar greinar. Í 3. mgr. 28. gr. sömu laga er kveðið á um að þegar lífeyrisgreiðslur skuli miðast við hærra launað starf en lokastarf samkvæmt 6. mgr. 24. gr. skuli við ákvörðun um lífeyri miða við meðalhækkanir á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu samkvæmt 3. mgr. þeirrar greinar frá þeim tíma er starfsmaður lætur af sínu hærra launaða starfi og þar til taka lífeyris hefst. Í 4. mgr. 28. gr. er síðan svohljóðandi ákvæði: „Hafi starfsmaður látið af hinu hærra launaða starfi fyrir árslok 1996 skal þó miða breytingar á lífeyri við breytingar á þeim launum er starfinu fylgdu fram til ársloka 1996. Eftir það skal farið eftir reglu 3. mgr.“
III
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi tók aðaláfrýjandi þá ákvörðun 19. maí 2010 á grundvelli 78. gr. samþykkta fyrir hann að starf forstjóra ríkisspítala, sem gagnáfrýjandi hafði gegnt vel á annan áratug, hafi verið hliðstætt starfi forstjóra Landspítalans, sbr. 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Samkvæmt því skyldi lífeyrir gagnáfrýjanda taka mið af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót fyrir síðarnefnda starfið, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, kysi hann að sá háttur yrði á hafður. Skýra verður þessi tvö lagaákvæði á þann veg að í því tilviki hafi borið að miða upphaflegan lífeyri gagnáfrýjanda við laun forstjóra Landspítalans eins og þau voru við starfslok gagnáfrýjanda 1. febrúar 2010 þegar hann hóf töku lífeyris hjá aðaláfrýjanda. Laun forstjórans tóku þá mið af ákvörðun kjararáðs 4. júlí 2008 og breyttust fyrst samkvæmt ákvörðun ráðsins 23. febrúar 2010 hinn 1. apríl sama ár. Af þeim sökum var ólögmæt sú ákvörðun aðaláfrýjanda að lífeyrir gagnáfrýjanda skyldi miðast við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákveðin af kjararáði í síðara skiptið. Því verður fallist á þá kröfu gagnáfrýjanda að ákvörðunin skuli felld úr gildi.
Þegar kjararáð tók ákvörðun um laun forstjóra Landspítalans 4. júlí 2008 kom meðal annars fram í ákvörðunarorði að laun forstjórans, sem ákveðin voru í einu lagi, væru við það miðuð að um fullt starf væri að ræða og ekki væri sérstaklega greitt fyrir yfirvinnu. Í ákvörðun ráðsins 23. febrúar 2010 var síðan tekið fram að ekki hafi verið greint milli dagvinnu og yfirvinnu í fyrri ákvörðun ráðsins um laun forstjórans. Að þessu virtu er fallist á þá ályktun héraðsdóms að í ákvörðuninni 4. júlí 2008 hafi ekki verið greint milli launa fyrir dagvinnu og yfirvinnu og því sé ekki unnt að leggja hana til grundvallar lífeyri gagnáfrýjanda. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna aðaláfrýjanda af þeirri kröfu gagnáfrýjanda að viðurkennt verði að lífeyrir hans skuli frá og með 1. febrúar 2010 miðast við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákveðin af kjararáði 4. júlí 2008.
Með vísan til þess sem að framan greinir getur gagnáfrýjandi eftir 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 valið hvort lífeyrisgreiðslur til hans breytist til samræmis við breytingar, sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd forstjóra Landspítalans, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna. Eins og áður segir er fyrri kosturinn sá eini sem stóð gagnáfrýjanda til boða sem sjóðfélaga í aðaláfrýjanda til ársloka 1996 og með því að gefa honum færi á að velja þann kost eru virt áunnin lífeyrisréttindi hans sem njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Ákveði gagnáfrýjandi á hinn bóginn að taka síðari kostinn, sem fyrst var boðið upp á með lögum nr. 141/1996, verður hann að hlíta því sem kveðið er á um í 4. mgr. 28. gr. laga nr. 1/1997 sökum þess að hann lét af starfi sem forstjóri ríkisspítala árið 1995. Samkvæmt því ber að miða lífeyri hans við breytingar á launum fyrir það starf til ársloka 1996, en eftir það breytist lífeyririnn í samræmi við meðalhækkanir á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu samkvæmt 3. mgr. 24. gr., sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna. Að þessu virtu verður aðaláfrýjandi sýknaður af þeirri kröfu gagnáfrýjanda að viðurkennt verði að lífeyrisgreiðslur til hans, sem miðast skuli við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákveðin af kjararáði 4. júlí 2008, eigi frá og með 1. febrúar 2010 að taka breytingum í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, er sýkn af þeirri kröfu gagnáfrýjanda, Davíðs Á. Gunnarssonar, að viðurkennt verði að lífeyrisgreiðslur til hans, sem miðast skuli við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákveðin af kjararáði 4. júlí 2008, eigi frá og með 1. febrúar 2010 að taka breytingum í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Að öðru leyti skal hinn áfrýjaði dómur vera óraskaður nema um málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 7. janúar sl., er höfðað 6. mars sl. Stefnandi er Davíð Á. Gunnarsson, Selbraut 76, Seltjarnarnesi. Stefndi er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Bankastræti 7, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi, að ákvörðun stjórnar stefnda frá 19. maí 2010 um að lífeyrir hans skuli miðast við launakjör forstjóra Landspítalans, eins og þau voru ákvörðuð af kjararáði þann 23. febrúar 2010, verði dæmd ógild. Stefnandi krefst þess í öðru lagi, að viðurkennt verði með dómi að lífeyrir hans skuli frá og með 1. febrúar 2010 miðast við launakjör forstjóra Landspítalans, eins og þau voru ákvörðuð af kjararáði þann 4. júlí 2008. Í þriðja lagi krefst stefnandi viðurkenningar dómsins á að lífeyrisgreiðslur til hans samkvæmt kröfulið II eigi, frá og með 1. febrúar 2010, að taka breytingum í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.
Málsatvik
Atvik málsins eru ágreiningslaus.
Stefnandi hóf störf hjá Ríkisspítölum sem aðstoðarframkvæmdastjóri árið 1973, en undir Ríkisspítala féllu m.a. Landspítalinn, Kleppsspítali, Vífilsstaðaspítali, Kristneshælið, Kópavogshælið, Gæsluvistarhælið í Gunnarsholti, Rannsóknarstofa Háskólans, Blóðbankinn, Ljósmæðraskóli Íslands, Tjaldanesheimilið, Þroskaþjálfaskólinn, Geislavarnir ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð ríkisins auk tiltekinna annarra smærri sjálfstæðra rekstrareininga. Stefnandi tók við starfi framkvæmdastjóra árið 1979 og var síðan skipaður forstjóri árið 1980. Í málinu nýtur ekki við gagna um laun stefnanda sem forstjóra Ríkisspítala, svo sem hvort þau voru ákveðin sem föst heildarlaun, eða hvernig hagað var útreikningi lífeyrissjóðsiðgjalda. Við málflutning var þó upplýst að ákvörðun um þetta efni hefði verið á hendi ráðherra og væri erfiðleikum bundið að afla gagna um þetta atriði.
Árið 1995 var stefnandi skipaður ráðuneytisstjóri heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og starfaði hann þar fram til 31. ágúst 2007 en tók þá við embætti sérstaks sendifulltrúa (Special Envoy for Global Health) á vegum heilbrigðisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins frá 1. september 2007. Hinn 1. febrúar 2009 var embættið lagt niður og naut stefnandi í kjölfarið biðlauna í 12 mánuði. Hóf stefnandi töku lífeyris að því tímabili liðnu eða 1. febrúar 2010. Áður en biðlaunatímanum lauk eða 17. desember 2009, hafði stefnandi sent stefnda umsókn um lífeyri.
Með bréfi stefnda 4. febrúar 2010 var stefnanda tjáð að til bráðabirgða myndu lífeyrisgreiðslur til hans miðast við laun ráðuneytisstjóra en til stæði að afla álits starfsnefndar skv. 7. gr. samþykkta stefnda um viðmiðunarlaun lífeyrisgreiðslna til stefnanda. Stefnandi krafðist þess hins vegar í greinargerð til stefnda 22. febrúar 2010 að lífeyrir hans væri miðaður við hæst launaða starfið sem hann gegndi í þágu ríkisins, þ.e. starf forstjóra Ríkisspítalanna, sem stefnandi taldi jafngilda störfum forstjóra Landspítalans, en um laun forstjórans vísaði stefnandi til ákvörðunar kjararáðs 4. júlí 2008. Hinn 2. mars 2010 var stefnanda tilkynnt að starfsnefnd stefnda hefði ákveðið að vísa máli hans til stjórnar stefnda og fóru í framhaldinu fram bréfaskipti og viðræður milli aðila sem ekki er ástæða til að rekja sérstaklega. Með bréfi stefnda 31. maí 2010 var stefnanda tilkynnt um ákvörðun stjórnar stefnda 19. maí 2010 um launaviðmið lífeyris hans.
Samkvæmt bréfinu 31. maí 2010 var ákvörðun stefnda 19. maí 2010 í fjórum liðum. Í lið 1 var lýst þeirri niðurstöðu stjórnarinnar að starf stefnanda sem forstjóra Ríkisspítala væri ekki það sama og starf forstjóra Landspítalans. Í lið 2 kom hins vegar fram að stjórnin teldi að réttur væri til viðmiðunar við laun forstjóra Landspítalans þar sem um „hliðstætt starf“ væri að ræða, sbr. 78. gr. samþykkta stefnda. Í lið 3 kom fram að stjórn stefnda hafnaði því að réttur væri til viðmiðunar við ákvörðun kjararáðs 4. júlí 2008, þar sem laun og starfskjör forstjóra Landspítalans voru ákveðin, „á grundvelli þess að þar sé um að ræða ákvörðun um heildarlaun og að þau séu ekki tæk til ákvörðunar launaviðmiðs“. Þá sagði eftirfarandi:
„Með þessu er stjórnin ekki að halda fram að ákvörðun kjararáðs sé ólögmæt heldur eingöngu að hún sé ekki tæk til ákvörðunar launaviðmiðs hjá LSR. Skýrt er í 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, að uphæð ellilífeyris sé hundraðhluti af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót. Í ákvörðun kjararáðs frá 4. júlí 2008 er hins vegar greinilega tekin ákvörðun um heildarlaun. Upphæð sú sem var ákvörðun sem mánaðarlaun, kr. 1.618.565, er svo úr takti við það sem hafði verið í gangi að hún gefur strax til kynna að um sé að ræða heildarlaun fyrir meira en venjulega dagvinnu. Tekið er fram í ákvörðunarorði að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu sem hlýtur að þýða að yfirvinna sé innifalin í mánaðarlaunum. Þá er í ákvörðuninni talað um að leitast sé við að tryggja eðlilegt samræmi milli launa forstjórans og heildarlauna annarra æðstu stjórnenda á spítalanum. Þessi ummæli benda einnig til að um sé að ræða heildarlaun. Ný ákvörðun kjaranefndar um laun og starfskjör forstjóra Landspítalans frá 23. feb. sl. gefur og tilefni til að ætla að um heildarlaun hafi verið að ræða í fyrri ákvörðun en í henni er laununum skipt upp og föst laun ákvörðuð fyrir dagvinnu ásamt einungum. Síðast en ekki síst þá kemur fram í bréfi [stefnanda] dags. 12. apríl sl. að það sé skilningur [stefnanda] að um sé að ræða heildarlaun, sbr. þessi ummæli [...]. að öllu þessu virtu komst stjórnin að fyrrgreindri niðurstöðu.“
Undir fjórða lið bréfsins sagði að stjórn stefnda hefði samþykkt að þar sem úrskurður kjararáðs 4. júlí 2008 væri ekki tækur til viðmiðs yrði að ákveða viðmiðunarlaun á grundvelli 6. mgr. 23. gr. laga nr. 1/1997. Þá sagði eftirfarandi:
„Samþykkt var að eðlilegast væri að miða við nýjasta úrskurð kjararáðs um laun forstjóra LSH frá 23. febrúar sl. en í honum eru dagvinnulaun sérstaklega tiltekin og eru samkvæmt launaflokki 502-141, nú kr. 833.752.“
Í málinu liggja fyrir þeir úrskurðir kjararáðs um laun forstjóra Landspítalans sem vísað er til framangreindri ákvörðun stjórnar stefnda. Í úrskurði ráðsins 4. júlí 2008 segir eftirfarandi í niðurstöðukafla:
„kjararáð hefur ekki áður úrskurðað um laun forstjóra Landspítalans, svo sem fyrr segir. Landspítalinn er langstærsta stofnun íslenska ríkisins hvort heldur litið er til fjárhagslegra umsvifa vegna starfseminnar eða til fjölda starfsfólks. Starfsemin er flókin og sérhæfð og starfsmenn eru með mikla menntun og há laun sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga, oft fyrir mikla vinnu. Við undirbúning þessarar ákvörðunar hefur ráðið kannað laun forstjóra ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja sem ekki eru ákveðin af kjararáði, en þar á meðal eru nokkur stór ríkisfyrirtæki. Hefur ráðið haft hliðsjón af þeim launum við ákvörðun launa forstjóra Landspítalans. Þá hefur verið leitast við að tryggja eðlilegt samræmi milli launa forstjórans og heildarlauna annarra æðstu stjórnenda á spítalanum.“
Með hliðsjón af þessu ákvað kjararáð að frá 1. september 2008 skyldu mánaðarlaun forstjóra Landspítala vera samkvæmt 161. flokki í launatöflu kjararáðs nr. 502, nú 1.618.565 krónur. Ekki væri greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Þá sagði orðrétt: „Laun eru við það miðuð að um fullt starf sé að ræða og þannig ákveðin að ekki komi til frekari greiðslna nema kjararáð úrskurði um það sérstaklega.“
Í úrskurði kjararáðs 23. febrúar 2010 eru raktar þær breytingar sem gerðar voru á 8. gr. laga nr. 47/2006 um kjararáð með lögum nr. 87/2009, en samkvæmt 8. gr. skyldi ráðið við úrlausn mála gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveddi og að þau væru á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir gætu talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Þá sagði í greininni að sérstaklega skyldi gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana ráðsins hins vegar. Í 2. mgr. greinarinnar sagði að ráðið skyldi ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Í úrskurði kjararáðs er rakið að í áðurnefndum lögum nr. 87/2009 hafi falist að við 1. mgr. 8. gr. laganna hafi verið bætt svohljóðandi málslið: „Við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra skv. 3. gr.“ Þá sagði að föst laun forsætisráðherra væru nú 935.000 krónur á mánuði. kjararáð hefði áður ákveðið forstjóra Landspítalans heildarlaun þar sem ekki væri greint á milli dagvinnu og yfirvinnu. Með þessari ákvörðun ráðsins væru laun forstjórans ákveðin þannig að skilyrði laganna um dagvinnulaun væru uppfyllt. Í niðurstöðukafla úrskurðarins eru einnig raktar þær breytingar á lögum nr. 47/2006 sem gerðar voru með lögum nr. 148/2008 þar sem kjararáði var falið, án tillits til lögmæltra viðmiða, að kveða upp úrskurð fyrir árslok 2008 er fæli í sér 5-15% launalækkun alþingismanna og ráðherra er gilti frá 1. janúar 2009, en jafnframt skyldi ráðið endurskoða kjör annarra til samræmis. Þá sagði eftirfarandi:
„Með þeim breytingum, sem að ofan greinir, á skipulagi ákvarðana um launakjör þeirra sem heyra undir kjararáð hefur, eins og fram kemur í úrskurði nr. 2010.4.001 um almennar forsendur, verið raskað því fyrirkomulagi og viðmiðum sem tilgreind voru í 8. gr. laga um kjararáð nr. 47/2006 eins og þau upphaflega voru. kjararáð verður samkvæmt 8. gr. eins og hún nú er fyrst og fremst að miða við föst laun forsætisráðherra og þær ákvarðanir sem Alþingi tók um lækkun launa þeirra sem hafa heyrt undir ákvörðunarvald ráðsins. Af þessu leiðir einnig, að svo geti í auknum mæli farið að æðsti stjórnandi hlutafélags eða stofnunar í eigu ríkisins verði ekki með hæst laun starfsmanna, en við því hefur kjararáð engin úrræði. Fyrirvaralaus ákvæði laga nr. 148/2008 og 87/2009 hafa í reynd afnumið meginefni 8. gr. laga um kjararáð.“
Í umræddum úrskurði kjararáðs eru raktar meginforsendur úrskurðar ráðsins um laun forstjóra Landspítalans 4. júlí 2008. Þá segir eftirfarandi:
„Við ákvörðun mánaðarlauna forstjórans, þ.e. fastra launa fyrir dagvinnu, hefur kjararáð tekið mið af mánaðarlaunum ráðuneytisstjóra, sem eru í launaflokki 141. Þá hefur kjararáð við ákvörðun einingafjölda gætt meðalhófssjónarmiða til þess að komast hjá því að laun lækki óhóflega. Þetta leiðir til tímabundins ósamræmis við laun þeirra sem hafa heyrt undir kjararáð, en búast má við endurskoðun einingafjölda allra þeirra sem undir það heyra eftir 1. desember 2010 eins og nánar er gerð grein fyrir í úrskurði nr. 2010.4.001.“
Í úrskurðinum er fjallað um hlunnindi og lífeyrisréttindi forstjórans. Þá segir að samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins sé nauðsynlegt að sérhæfingar núverandi forstjóra njóti við tilteknar sérhæfðar skurðaðgerðir á sviði bæklunarlækninga. Kemur fram að ráðið hafi fjallað um þessi störf forstjórans og sé niðurstaða ráðsins sú að þau tilheyri ekki starfi hans sem forstjóra. Í ákvörðunarorðum úrskurðarins segir að frá og með 1. mars 2010 skuli mánaðarlaun forstjóra Landspítalans vera samkvæmt launaflokki 502-141, nú 833.752 krónur. Að auki skuli greiða honum 100 einingar á mánuði fyrir alla yfirvinnu og álag er starfinu fylgi. Eru þær greiðslur nánar skilgreindar í ákvörðunarorðunum. Þá segir að störf forstjórans við sérstakar aðgerðir á sviði bæklunarskurðlækninga tilheyri ekki starfi hans sem forstjóra. Laun séu miðuð við fullt starf þannig að ekki komi til frekari greiðslna nema kjararáð úrskurði um það sérstaklega.
Ekki var um að ræða skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að hann eigi rétt á lífeyri er miðist við launakjör forstjóra Landspítalans í samræmi við þær reglur sem að lögum gilda um útreikning á lífeyri og ávinnslu réttinda. Stefnda sé óheimilt að ákveða einhliða viðmiðunarlaun stefnanda í andstöðu við fyrirmæli laga og þannig að brotið sé gegn stjórnarskrárvörðum réttindum hans. Í stefnu kemur hins vegar fram að ekki sé ágreiningur um þann hundraðshluta af launum sem miða beri lífeyrisrétt stefnanda við.
Stefnandi telur þá ákvörðun stefnda með öllu ófullnægjandi og ólögmæta, að hafna því að réttur sé til viðmiðunar við ákvörðun kjararáðs 4. júlí 2008 á grundvelli þess að þar hafi forstjóra Landspítalans verið ákvörðuð heildarlaun, sem séu ekki tæk til launaviðmiðs. Stefnandi vísar til ákvæða laga nr. 47/2006 og telur að af þeim leiði að líta beri á ákvörðun um óskipt heildarlaun sem föst dagvinnulaun, ef ekki er annað tekið fram í úrskurði kjararáðs. Telur hann að þessi skýring fái stoð í forsögu laganna og athugasemdum við frumvörp til fyrri laga, sbr. einkum 2. og 6. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd, en með umræddri 6. gr. hafi Kjaradómi verið gert skylt að skipta heildarlaunum í laun fyrir venjulega dagvinnu og önnur laun. Stefnandi vísar til þess að í athugasemdum við 2. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 120/1992 sé að finna eftirfarandi skýringar á þessari reglu laganna:
„Töluverð ásókn hefur verið frá einstökum embættismönnum og starfshópum í að falla undir úrskurðarvald Kjaradóms. Stafar það ekki síst af því að lífeyrisréttindi þeirra hafa miðast við heildarlaun þau er dómurinn hefur úrskurðað en lífeyrisréttindi þeirra, sem hafa haft launakjör samkvæmt kjarasamningum eða ákvörðun fjármálaráðherra (undanskildir eru þeir embættismenn sem hlotið hafa röðun af hálfu ráðherra með hliðsjón af ákvörðunum Kjaradóms), hafa miðast við dagvinnulaun þeirra, auk persónuuppbótar og orlofsuppbótar, sbr. 10. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Gert er ráð fyrri að misræmi þetta verði nú leiðrétt, sbr. 6. gr. frumvarpsins, þannig að lífeyrisréttindi verði í öllum tilvikum miðuð við laun fyrir dagvinnu eins og þau eru tilgreind í lífeyrissjóðslögunum nema samningar eða lög mæli fyrir um annað.“
Af þessari forsögu telur stefnandi að megi vera ljóst að ef heildarlaunum er ekki skipt upp samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 47/2006 þá beri að líta svo á að um sé að ræða föst laun fyrir dagvinnu sem séu hæf til launaviðmiðs skv. 78. gr. samþykkta stefnda. Þótt tekið sé fram í úrskurði að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu breyti það engu um eðli kjaranna. Hefði einhver hluti þeirra átt að vera undanþeginn lífeyrisgreiðslum hefði kjararáði borið að tilgreina það sérstaklega.
Stefnandi telur ranga fullyrðingu stefnda í bréfi 31. maí 2010 á þá leið að sú upphæð sem ákvörðuð var sem mánaðarlaun af kjararáði í ákvörðuninni 4. júlí 2008 „væri svo úr takti við það sem hafði verið í gangi“ að hún gæfi strax til kynna að um hafi verið að ræða heildarlaun fyrir meira en venjulega dagvinnu. kjararáð hafi tekið mið af viðeigandi ákvæðum laga nr. 47/2006 við ákvörðun launa forstjóra Landspítalans án þess að þeirri ákvörðun hafi verið hnekkt. Stefnandi vísar einnig til þess að það eigi sér eðlilegar skýringar að laun forstjóra Landspítalans hafi verið ákveðin hærri en t.d. laun ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu. Vísar stefnandi til lýsingu kjararáðs á málsatvikum og ítarlegs rökstuðnings sem að meginstefnu hefur verið rakinn í lýsingu málsatvika hér að framan. Stefnandi bendir einnig á að laun forstjórans hafi alltaf verið miklu hærri en laun annarra forstjóra ríkisstofnana á meðan laun hans voru ákveðin af ráðherra, enda hafi hann stjórnað um 5.000 manna starfsliði og borið ábyrgð á 8 - 9% allra útgjalda ríkisins.
Til stuðnings kröfu sinni um ógildingu á ákvörðun stefnda byggir stefnandi á því að enga heimild sé að finna í 6. mgr. 23. gr. laga nr. 47/2006 til handa stjórn stefnda að ákveða stefnanda einhliða viðmiðunarlaun. Ákvæðið eigi einungis við ef sjóðsfélagi taki ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðist við kjarasamninga opinberra starfsmanna, ákvarðanir kjararáðs eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Stefnandi vísar til þess að ákvæðið hafi fyrst komið í lög með lögum nr. 1/1997, en talin hafi verið þörf á því að eyða út því misræmi sem hafði skapast vegna þess að sumir launagreiðendur, sem fengið hefðu heimild til að greiða iðgjald til sjóðsins, greiddu laun sem voru ekki í samræmi við laun ríkisstarfsmanna. Í undirbúningsgögnum komi einnig fram að fyrrgreindir launagreiðendur hafi nánast haft sjálfdæmi um það hvaða viðmiðunarlaun það væru sem iðgjald væri greitt af, aðeins ef þau væru kölluð dagvinnulaun. Með því hafi skapast ákveðið misræmi, með því að nokkrir einstaklingar gætu í krafti ráðningarsamninga öðlast lífeyrisrétt sem væri í miklu ósamræmi við það sem almennt gerðist hjá sjóðsfélögum. Af framansögðu sé ljóst að ákvæðið geti ekki átt við stefnanda. Viðurkenndur hafi verið réttur hans til viðmiðunar við laun forstjóra Landspítalans. Því hafi stefndi enga heimild til að miða við önnur laun en löglega ákveðin laun forstjóra Landspítalans sem voru í gildi þegar stefnandi hóf töku lífeyris.
Stefnandi telur að 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 taki af allan vafa um við hvaða tímamark útreikningur lífeyrisgreiðslna sjóðsfélaga skuli miðast. Í ákvæðinu komi fram að upphæð ellilífeyris sé hluti af nánar skilgreindum launum sem við starfslok fylgdu stöðu þeirri er sjóðsfélagi gegndi síðast (svokölluð eftirmannaregla). Þá segi einnig í inngangsorðum frumvarpsins að lífeyrisréttur við upphaf lífeyristöku verði reiknaður samkvæmt launum við starfslok. Af þessu sé ljóst að ekki sé heimilt að miða við annað tímamark en starfslok stefnda, þ.e. 1. febrúar 2010.
Stefnandi vekur athygli á þeim breytingum sem áttu sér stað með lögum nr. 87/2010 um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum og tilvísun kjararáðs til þessara laga í úrskurði sínum 23. febrúar 2010. Þessi tímabundna breyting sem gerð hafi verið á lögum nr. 47/2006 hafi tekið gildi eftir starfslok stefnanda eða 1. mars 2010. Óheimilt sé að miða lífeyrisrétt stefnanda við ákvörðun sem hafi tekið gildi eftir starfslok hans og taki mið af framangreindum breytingarlögum. Við þetta sé því að bæta að 21. desember 2011 hafi kjararáð ákveðið að allar breytingar gengju til baka eða eins og segir í ákvörðuninni: „Röðun í launaflokka verður eins og hún var fyrir lækkun launa samkvæmt ákvörðun kjararáðs nr. 2009.001, sbr. lög nr. 148/2008". Þessi ákvörðun gildir um laun frá og með 1. október 2011.“ Þar með hafi laun forstjóra Landspítalans aftur færst í launaflokk 161 í launatöflu nr. 502 og því sé tímabært að fá dómsúrskurð um kröfu stefnanda.
Stefnandi vísar til þess að sjóðsfélagar, sem hefji töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi geti valið um það hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf, eða hvort þær skuli breytast til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr. l. nr. 1/1997. Eins og fram komi í framlagðri umsókn stefnanda um lífeyri hafi hann ákveðið að fresta ákvörðun sinni í þrjá mánuði um það hvort kostinn hann veldi því hann hafi talið að úrvinnslu á umsókn hans yrði þá að fullu lokið. Á umsóknareyðublaðinu komi fram, að hafi umsækjandi ekki valið svokallaða „eftirmannareglu“ innan þriggja mánaða frá upphafi lífeyristöku þá fái hann greiddan lífeyri samkvæmt meðaltalsreglu, þ.e. skv. reglu 3. mgr. 24. gr. Þar sem ágreiningur hafi verið með aðilum telji stefnandi rétt að fá viðurkenningardóm fyrir því að lífeyrisgreiðslur til hans, svo sem krafist er hér að framan, taki breytingum skv. reglu 3. mgr. 24. gr. l. nr. 1/1997 frá og með 1. febrúar 2010, svo að það atriði verði ekki ágreiningsefni síðar meir.
Stefnandi telur almennt viðurkennt að lífeyrisréttindi teljist eign í stjórnskipulegri merkingu og njóti sem slík verndar eignarnámsákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem og annarra ákvæða er við kunna að eiga, svo sem jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Réttindi þau er um ræði séu bæði endurgjald fyrir vinnu og til komin fyrir fjárframlög sjóðsfélaga. Stjórnarskrárvernd réttindanna setji skorður við því að löggjafinn og þau stjórnvöld sem fara með ákvarðanir um lífeyrisgreiðslur á hverjum tíma geti raskað lögmæltri viðmiðun ellilífeyris svo sem stefndi hafi gert. Með því að ákveða einhliða viðmiðunarlaun stefnanda með framangreindum hætti hafi stjórn stefnda í raun svipt hann lögvörðum rétti hans. Stefndi hafi reynst ófáanlegur til að leiðrétta ákvarðanir sínar og sé stefnanda því nauðugur sá kostur að leita atbeina dómstóla til að hnekkja ólögmætu ákvörðunum stjórnar stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi vísar til þess að almenna reglan um töku lífeyris úr B-deild stefnda sé sú að lífeyrir reiknist af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast, sbr. nánar 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Samkvæmt þessari reglu eigi stefnandi rétt á lífeyri sem taki mið af launum ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands, sbr. framlagða starfslokatilkynningu launagreiðanda. Lífeyrisgreiðslur sem stefnandi hafi fengið greiddar frá stefnda hafi frá upphafi lífeyristöku miðast við laun ráðuneytisstjóra og tekið breytingum til samræmis við þau á hverjum tíma.
Frá almennu reglunni um að lífeyrir skuli taka mið af lokalaunum, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, séu nokkrar undantekningar, svo sem ef sjóðfélagi hafi gegnt hærra launuðu starfi en lokastarfi í að minnsta kosti tíu ár á sjóðfélagatíma sínum. Í slíkum tilvikum skapist réttur til viðmiðs við það starf, sbr. 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Stefnandi hafi gegnt starfi forstjóra Ríkisspítala á annan áratug og hafi greitt í því starfi iðgjöld til stefnda. Í málinu sé óumdeilt að starf stefnanda sem forstjóri Ríkisspítala þyki hliðstætt starfi forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss, sbr. 78. gr. samþykkta stefnda. Samkvæmt því kunni stefnandi að eiga rétt til launaviðmiðs við það starf, að því gefnu að það sé hærra launað en lokastarf, sbr. 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997.
Ágreiningur aðila snúi fyrst og fremst að því að stefndi hafni því að réttur sé til viðmiðunar við ákvörðun kjararáðs um laun og starfskjör forstjóra Landspítala frá 4. júlí 2008. Byggist sú afstaða stefnda á því að ákvörðun kjararáðs kveði á um heildarlaun og þau séu því ekki tæk til ákvörðunar launaviðmiðs til greiðslu lífeyris. Iðgjalda- og lífeyrisgreiðslur miðist við föst laun fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, sbr. 1. mgr. 23. gr. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Þegar stefnandi hafi áunnið sér réttindi hafi hann aðeins greitt iðgjöld af dagvinnulaunum en ekki heildarlaunum.
Í ákvörðun kjararáðs 4. júlí 2008 hafi verið tekin ákvörðun um heildarlaun og því geti sú ákvörðun ekki verið til viðmiðunar á greiðslu lífeyris úr eftirlaunakerfi ríkisstarfsmanna. Ákvörðun kjararáðs kveði á um samtals 1.618.565 króna mánaðarlaun sem heildarlaun og sé beinlínis tekið fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Ekki sé unnt að túlka það á annan veg en að yfirvinna sé þar með innifalin í mánaðarlaunum. Þá sé einnig tekið fram í ákvörðuninni að leitast sé við að tryggja eðlilegt samræmi milli launa forstjórans og heildarlauna annarra æðstu stjórnenda á spítalanum. Stefndi mótmælir sjónarmiðum stefnanda á þá leið að líta beri svo á að óskipt laun teljist föst dagvinnulaun sem miða beri lífeyrisrétt við. Sú fullyrðing sé í andstöðu við uppbyggingu stefnda. Ákvörðun kjararáðs 4. júlí 2008 sé því ekki tækur grundvöllur viðmiðs lífeyrisréttar stefnanda.
Stefndi vísar til þess að hann hafi talið að sú ákvörðun kjararáðs að greina ekki á milli dagvinnulauna og annarrar þóknunar vekti upp spurningar og sent ráðinu skriflega fyrirspurn vegna þessa atriðis 2. september 2008. Þeirri fyrirspurn hafi hins vegar ekki verið svarað.
Stefndi vísar til þess að þar sem framangreind ákvörðun hafi ekki verið tækur grundvöllur viðmiðunar lífeyrisréttar stefnanda hafi stjórn stefnda ákveðið viðmiðunarlaun með hliðsjón af ákvæði sem er í 6. mgr. 23. gr. laga nr. 1/1997. Stefnda hafi bæði verið rétt og skylt að taka afstöðu til þess hvað væru eðlileg viðmiðunarlaun og í þessu sambandi hafi verið litið til undirstöðuraka að baki umræddu ákvæði. Því sé mótmælt að stefndi sé bundinn af þeirri ákvörðun Kjarráðs að raða forstjóra Landspítala í 161. flokk í launatöflu kjararáðs nr. 502, enda liggi fyrir að ákvörðun kjararáðs tilgreini heildarlaun án sundurgreiningar.
Stefndi byggir á því að honum sé rétt og skylt að ákvarða viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris ef ekki eru til staðar viðmið sem tæk eru til viðmiðunar á greiðslum iðgjalda né til greiðslu lífeyris. Í þessu sambandi beri að líta til réttindauppbyggingar B-deildar stefnda auk þess að skýrt komi fram víða í lögskýringargögnum að vilji löggjafans hafi staðið til þess að tryggja að lífeyrisgreiðslur tækju mið af dagvinnulaunum en ekki öðrum launakjörum eða yfirvinnu. Þetta megi lesa í athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 141/1996, endurútgefin sem lög nr. 1/1997. Einnig sé þetta skýrt ef forsaga 9. gr. laga nr. 47/2006 um kjararáð sé skoðuð. Í þessu sambandi er bent á að fjárveitingarvaldið sé hjá Alþingi. Ákvarðanir um að greiða lífeyri af heildarlaunum kæmu til með að auka á lífeyrisskuldbindingar ríkisins umfram það sem lögum var nokkurn tímann ætlað að gera.
Þegar stjórn stefnda tók ákvörðun um viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris hafi hún talið nærtækast og eðlilegast að miða við nýjustu ákvörðun kjararáðs um laun og starfskjör forstjóra Landspítalans frá 23. febrúar 2010. Samkvæmt þeirri ákvörðun hafi laun forstjóra Landspítalans frá og með 1. mars 2010 verið 833.752 krónur, launaflokkur 502-141. Í apríl 2012 hafi verið óskað eftir upplýsingum frá kjararáði um laun forstjóra Landspítala og þá fengist þær upplýsingar að mánaðarlaun forstjóra Landspítans væru skv. launaflokki 141 sem þá voru orðin 905.217 krónur auk 133 eininga á mánuði.
Umfjöllun stefnanda um að launatöflur, sem birtast á heimasíðu kjararáðs feli aðeins í sér grunnlaun og því beri að miða við þær til greiðslu lífeyris úr stefnda, er mótmælt af hálfu stefnda enda geti launatöflur sem innihaldi annað og meira en dagvinnulaun og orlofs- og persónuuppbót ekki verið grundvöllur að iðgjaldagreiðslum né lífeyri úr B-deild stefnda, sbr. 1. mgr. 23. gr., 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Tilvísanir stefnanda til þess að hinar ýmsu launaákvarðanir kjararáðs myndi rétt til lífeyris og vísun til 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. l. nr. 1/1997 og l. nr. 141/2003 eigi ekkert skylt við B-deild stefnda. Umræddar lagatilvísanir eigi við um A-deild stefnda en þar reiknist iðgjöld og réttindi af heildarlaunum.
Samkvæmt framangreindu séu lokalaun stefnanda, sem taki mið af launum ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands, og laun forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss skv. ákvörðun kjararáðs frá 23. febrúar 2010, hin sömu. Að svo stöddu geti ekki reynt á rétt stefnanda til launaviðmiðs við hærra launað starf en lokastarf skv. fyrrgreindu ákvæði í 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Stefndi tekur þó fram að ekki sé útilokað að á síðari stigum kunni sú staða að vera uppi að stefnandi eigi rétt til hærra viðmiðs en hann fær nú greiddan lífeyri eftir en það sé háð launaþróun starfanna í framtíð og jafnframt því að stefnandi velji að lífeyrir hans taki breytingum skv. hinni svokölluðu eftirmannsreglu sbr. 35. gr. laga nr. 1/1997.
Stefndi bendir á að tvær reglur gildi um það með hvaða hætti lífeyrir taki breytingum eftir að lífeyristaka er hafin. Meginreglan sé að lífeyrir hækki samkvæmt meðalbreytingum sem verði á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 (meðaltalsregla). Hins vegar sé regla í 35. gr. laganna sem veiti þeim sjóðfélögum sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi val um að lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem er til viðmiðunar á lífeyri (eftirmannsregla). Þegar stefnandi hafi sótt um greiðslu lífeyris hafi hann merkt við reit þar sem segi: „Ég mun láta lífeyrissjóðinn vita innan þriggja mánaða um ákvörðun mína, vitandi að geri ég það ekki, verður lífeyrir minn eftirleiðs greiddur samkvæmt meðaltalsreglu.“ Vegna ágreinings milli aðila hafi lífeyrir verið afgreiddur skv. eftirmannsreglu þrátt fyrir ofangreint val um meðaltalsreglu að þremur mánuðum liðnum. Slík afgreiðsla hafi hins vegar verið í samráði við stefnanda en eðlilegt og sanngjarnt þyki í ljósi aðstæðna að heimila stefnanda, þegar lyktir þessa máls liggja fyrir, að velja milli eftirmanns- eða meðaltalsreglu.
Samkvæmt þessu sé það afstaða stefnda að úrskurður kjararáðs um laun forstjóra Landspítalans 4. júlí 2008 sé ekki tækur til viðmiðunar og því hafi stefnda verið rétt og skylt með hliðsjón af réttindaávinnslu og 6. mgr. 23. gr. laga nr. 1/1997 að ákveða viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris til stefnanda miðað við starf hans sem forstjóra Ríkisspítala. Sú ákvörðun hafi leitt í ljós að lokalaun skv. 2. mgr. 24. gr. og tíu ára viðmiði skv. 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 hafi gefið stefnanda sömu lífeyrisgreiðslur. Samkvæmt framangreindu ber að hafna öllum kröfum stefnanda.
Vilji svo ólíklega til að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun kjararáðs frá 4. júlí 2008 sé tæk til viðmiðunar á greiðslu lífeyris, liggi fyrir að önnur ákvörðun kjararáðs frá 23. febrúar 2010 um laun forstjóra Landspítala taki gildi frá og með 1. mars 2010. Að því gefnu að stefnandi velji eftirmannsreglu bæri að líta til þess úrskurðar við mat á því hvort reynt gæti á rétt stefnanda vegna hinnar fyrrgreindu tíu ára reglu. Samkvæmt þeirri ákvörðun kjararáðs séu lokalaun stefnanda hin sömu og því reyni ekki á rétt til greiðslu út frá þeirri ákvörðun. Samkvæmt þessu gæti stefnandi því að hámarki fengið greitt miðað við ákvörðun kjararáðs 4. júlí 2008 í einn mánuð, það er fyrir febrúar 2010.
Að því er varðar kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að lífeyrisgreiðslur til hans eigi að taka breytingum í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, þá byggir stefndi á því að ekki sé lagastoð fyrir því að verða við þeirri kröfu. Ef stefnandi velur meðaltalsreglu frá upphafi lífeyristöku þann 1. febrúar 2010 reyni á ákvæði 3. og 4. mgr. 28. gr. laga nr. 1/1997 samhliða rétti um viðmið við laun forstjóra Landspítala. Samkvæmt þessum ákvæðum sé ljóst að ekki er fyrir að fara heimild í lögum um stefnda nr. 1/1997 til þess að verða við kröfu stefnanda um að lífeyrisgreiðslur skv. hinni svokölluðu tíu ára reglu í 6. mgr. 24. gr. taki viðmið við ákvörðun kjararáðs sem í gildi var við upphaf lífeyristöku og að láta þá fjárhæð taka meðalbreytingum frá sama tíma. Í 3. og 4. mgr. 28. gr. laganna sé skýrt ákvæði sem taki beint á meðhöndlun þess þegar reynir á tíu ára reglu og hvernig haga skuli hækkunum á því viðmiði. Þau ákvæði leiða til lægri lífeyris til handa stefnanda en sé miðað við lokalaun.
Stefndi vísar til þess að Vigdís Magnúsdóttir hafi tekið við starfi stefnanda sem forstjóri Ríkisspítala. Dagvinnulaun hennar í í desember árslok 1996 hafi verið 241.899 krónur. Sé miðað við hækkun þeirra launa skv. vísitölu sem Hagstofa Íslands reikni skv. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 hefðu viðmiðunarlaun stefnanda miðað við val um hækkun samkvæmt meðaltalsreglu verið kr. 749.645 við upphaf lífeyristöku þann 1. febrúar 2010. Sú fjárhæð sé lægri en lokalaun stefnanda og því liggi ljóst fyrir að viðmiðun við laun forstjóra Ríkisspítala og val um meðaltalshækkun veiti stefnanda ekki betri rétt en almenna reglan um lokalaun, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Samkvæmt framangreindu sé ekki fyrir að fara lagaheimild til að verða við kröfu stefnanda um viðmið við 1. febrúar 2010 og því beri að hafna henni.
Að því gefnu að stefnandi velji við upphaf lífeyristöku að lífeyrir taki breytingum skv. eftirmannsreglu sbr. 35. gr. laga nr. 1/1997, liggi fyrir að ákvörðun kjararáðs frá 23. febrúar 2010 um laun og starfskjör forstjóra Landsspítala. Sú ákvörðun leiði til sömu lífeyrisgreiðslna og lokalaun stefnanda samkvæmt eftirmannsreglu, eins og áður segir. Ef stefnandi velur eftirmannsreglu við upphaf lífeyristöku eigi hann þó síðar rétt á að velja meðaltalsreglu en hún tæki ekki gildi fyrr en þremur mánuðum síðar sbr. 77. gr. samþykkta stefnda. Því sé ekki fyrir að fara heimild til að verða við þeirri kröfu stefnanda að greiðslur til hans taki breytingum skv. meðaltalsreglu frá og með 1. febrúar 2010. Með vísan í allt framangreint beri að hafna öllum kröfum stefnanda.
Því er mótmælt sem röngu sem fram komi í stefnu að með ákvörðun kjararáðs 21. desember 2011 hafi allar breytingar skv. ákvörðun ráðsins 2010 gengið til baka. Einnig er mótmælt fullyrðingum að stefnandi hafi verið sviptur lögvörðum rétti. Áréttar stefndi að úrskurðir kjararáðs byggi á öðrum grundvelli en ávinnsla lífeyrisréttinda í B-deild stefnda.
Stefndi vísar til ákvæða laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sérstaklega 23., 24., 26. og 35. gr. laganna. Jafnframt er vísað til samþykkta stefnda, sérstaklega 74. og 77. gr. Þá er vísað til laga um kjararáð nr. 47/2006, einkum 9. gr.
Niðurstaða
Í máli þessu er ekki deilt um þá ákvörðun stjórnar stefnda 19. maí 2010, sem greint er frá í bréfi stefnda 31. sama mánaðar, að miða beri ellilífeyri stefnanda við laun forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH), þar sem það starf sé hliðstætt því starfi sem stefnandi gegndi sem forstjóri Ríkisspítala 1980-1995, sbr. 78. gr. samþykkta stefnda. Eins og sakarefni málsins liggur fyrir í ljósi þessarar ákvörðunar verður því að leggja til grundvallar að miða beri ellilífeyri stefnanda við launakjör forstjóra LSH. Eru þar af leiðandi haldlausar málsástæður stefnda þess efnis að stefnda kunni að hafa verið rétt að miða ellilífeyri stefnanda við laun forstjóra Ríkisspítalanna, eins og þau voru í árslok 1996, að viðbættri leiðréttingu vegna meðalhækkana á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu til 1. febrúar 2010, samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 28. gr. laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og 72. gr. samþykkta stefnda.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 varð réttur stefnanda til greiðslu lífeyris virkur frá næstu mánaðamótum eftir að hann lét af störfum eða 1. febrúar 2010. Í samræmi við þau rök sem búa að baki 24. gr. laga nr. 1/1997 átti stefnandi á þessu tímamarki kröfu til ellilífeyris úr B-deild stefnda sem skyldi miðast við föst dagvinnulaun forstjóra LSH, eins og áður greinir. Samkvæmt fortakslausu orðalagi 3. mgr. 24. gr. laganna skyldu breytingar á lífeyrisgreiðslum til stefnanda upp frá þessu tímamarki ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem yrðu á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, enda veldi stefnandi ekki að lífeyrir hækkaði til samræmis við viðmiðunarlaun lífeyris hans samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laganna. Var það ósamrýmanlegt umræddri reglu 3. mgr. 24. gr. laganna að miða lífeyri við laun forstjóra LSH eins og þau voru á öðru og síðara tímamarki. Samkvæmt þessu var sú ákvörðun stefnda að miða lífeyri stefnanda við úrskurð kjararáðs 23. febrúar 2010 andstæð þeim reglum um ákvörðun launaviðmiðs ellilífeyris sem ályktað verður um á grundvelli 24. gr. laga nr. 1/997 svo og eðli málsins.
Með ákvörðun kjararáðs 23. febrúar 2010 um launakjör forstjóra LSH var heildarlaunum forstjórans skipt upp í fasta dagvinnu og 100 fasta yfirvinnutíma á mánuði auk þess sem gert var ráð fyrir því að forstjórinn fengi sérstakar greiðslur fyrir sérhæfðar skurðaðgerðir. Í forsendum úrskurðarins kemur fram að við ákvörðun um fasta yfirvinnutíma hafi verið „gætt meðalhófssjónarmiða til þess að komast hjá því að laun lækki óhóflega“. Er þannig ljóst að með úrskurðinum er leitast við að skipta áður ákveðnum heildarlaunum upp þannig að föst dagvinnulaun forstjórans séu undir því hámarki sem kveðið var á um með lögum nr. 87/2009, án þess að heildarlaun séu lækkuð óhóflega. Ljóst er að sú afstaða stefnda að miða lífeyri stefnanda við ákvörðun sem byggði á svo sérstæðum forsendum var til þess fallin að skerða verulega lífeyrisréttindi stefnanda sem nutu verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.
Samkvæmt framangreindu voru annmarkar á ákvörðun stefnanda 19. maí 2010 verulegir og þess eðlis að varða ógildi hennar. Verður því fallist á kröfu stefnanda þess efnis að ákvörðun stefnda um að lífeyrir stefnanda skuli miðast við launakjör forstjóra LSH, eins og þau voru ákveðin af kjararáði 23. febrúar 2010, verði felld úr gildi, sbr. 2. lið í bréfi stefnda 31. maí 2010.
A
Af ákvörðun kjararáðs 4. júlí 2008, svo og samanburði við ákvörðun ráðsins 23. febrúar 2010, verður ráðið að í fyrrgreindu ákvörðuninni er ekki gerður greinarmunur á launum fyrir fasta dagvinnu og yfirvinnu. Í málinu nýtur ekki við gagna um það atriði hvort slíkur greinarmunur var gerður við ákvörðun launa stefnanda þegar hann gegndi starfi forstjóra Ríkisspítala eða hvernig iðgjaldagreiðslum hans til stefnda var þá háttað. Liggur þannig ekkert fyrir um hvort iðgjaldagreiðslur stefnanda miðuðust við óskipt heildarlaun stefnanda eða hvort iðgjöld miðuðust eingöngu við fasta dagvinnu, líkt og haldið er fram af hálfu stefnda. Það athugast þó að slík gögn gætu ekki haggað ótvíræðri reglu laga nr. 1/1997 þess efnis að lífeyrir miðist einungis við föst laun fyrir dagvinnu þannig að stefnanda væri veittur rýmri réttur að þessu leyti.
Samkvæmt gögnum málsins hefur stefndi hvorki fyrr né síðar gert reka að því að slá því föstu hver hluti af heildarlaunum forstjóra LSH, eins og þau voru 1. febrúar 2010, hafi með sanngirni mátt telja að væri vegna yfirvinnu, en eins og áður greinir verður ekki miðað við þá óvenjulegu skiptingu sem fram kemur í úrskurði kjararáðs 23. febrúar 2010 um þetta atriði. Stefnandi hefur ekki heldur leitast við að sýna fram á hvaða hlutfall af launum forstjóra LSH samkvæmt úrskurði kjararáðs 4. júlí 2008 beri að líta á sem greiðslu fyrir yfirvinnu eða lagt fram gögn þar að lútandi. Er aðilum þó fær sönnunarfærsla um atriði sem þetta, sbr. einkum IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þótt á það verði fallist með stefnanda að grundvöllur viðmiðs fyrir lífeyri hans eigi að vera umrædd ákvörðun kjararáðs 4. júlí 2008 verður ekki talið að stefnandi eigi rétt á því að miðað sé við þau heildarlaun sem þar er kveðið á um án breytinga vegna þess hlutfalls yfirvinnutíma sem ætla má að felist í þeim heildarlaunum sem þar greinir. Eins og málið liggur fyrir er því óhjákvæmilegt að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um að lífeyrir hans skuli miðast við ákvörðun kjararáðs 4. júlí 2008.
B
Skilja verður málatilbúnað stefnda á þá leið að ekki sé dregið í efa að 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 eigi við um lífeyri stefnanda þótt starf hans hafi verið lagt niður og ákveðið hafi verið að miða lífeyri hans við „hliðstætt starf“. Verður þannig á það fallist að stefnanda sé heimilt að velja milli þess hvort lífeyrir hans hækkar til samræmis við breytingar á föstum dagvinnulaunum forstjóra LSH eða hvort miðað er við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laganna. Á umsókn stefnanda um lífeyri, sem árituð var um móttöku hjá stefnda 17. desember 2009, gafst stefnanda kostur á að velja milli þessara tveggja leiða sem á eyðublaðinu er vísað til „eftirmannsreglunnar“ annars vegar og „meðaltalsreglunnar“ hins vegar. Stefndi merkti hins vegar við reit þar sem efnislega sagði að síðargreindu reglunni („meðaltalsreglu“) yrði beitt ef önnur ákvörðun stefnanda væri ekki tilkynnt stefnda innan þriggja mánaða.
Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefndu og áréttað var við munnlegan málflutning hefur stefndi fallist á að stefnandi geti endurskoðað ákvörðun sína um hækkun lífeyris í ljósi niðurstöðu dómsins í máli þessu. Með hliðsjón af þessu samkomulagi aðila verður að skilja kröfugerð stefnanda á þá leið að viðurkennd sé heimild hans til að krefjast þess að um hækkun lífeyris hans gildi regla 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Að virtu orðalagi 1. mgr. 35. gr. laganna, sem kveður á um val sjóðsfélaga í þessu efni, þykir ekki varhugavert, eins og málið liggur fyrir, að viðurkenna umræddan rétt stefnanda.
Eftir úrslitum málsins og atvikum þess að öðru leyti verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst, að teknu tilliti til umfangs málsins hæfilegur 1.500.000 króna og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Garðar Garðarsson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Þórey S. Þórðardóttir hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Ákvörðun stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, 19. maí 2010 á þá leið að lífeyrir stefnanda, Davíðs Á. Gunnarssonar, skuli miðast við launakjör forstjóra Landspítalans eins og þau voru ákvörðuð af kjararáði þann 23. febrúar 2010, er felld úr gildi.
Viðurkennd er heimild stefnanda til að velja að lífeyrisgreiðslur hans, frá og með 1. febrúar 2010, taki breytingum í samræmi við 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
Stefndi skal vera sýkn af kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að lífeyrir hans skuli miðast við launakjör forstjóra Landspítalans, eins og þau voru ákvörðuð af kjararáði þann 4. júlí 2008.
Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.