Hæstiréttur íslands

Mál nr. 166/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. mars 2006.

Nr. 166/2006.

A

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Félagsþjónustunni í Hafnarfirði

(enginn)

 

Kærumál. Lögræði.

A var sviptur sjálfræði ótímabundið á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. mars 2006 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði ótímabundið að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissvipting takmarkist við sex mánuði. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til a. liðar 4. gr. lögræðislaga en að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­ness 16. mars 2006.

I.

Sóknaraðili, Félagsmálastofnun Hafnarfjarðar, [kt.], Strandgötu 33, Hafnarfirði, hefur með bréfi dagsettu 9. mars 2006, sem dóminum barst 10. s.m., krafist þess að varnaraðili, A, [kt. og heimilisfang], en nú vistaður á deild 32a á Landspítala í Reykjavík, verði með vísan til a. liðar. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. d-lið  2. mgr. 7. gr. sömu laga, sviptur sjálfræði ótímabundið vegna alvarlegs geðsjúkdóms. Telur sérfræðingur í geðlækningum á geðdeild Landspítala réttmætt að hafa uppi kröfu um að  varnaraðili verði sviptur sjálfræði og hefur mælst til þess að svo verði gert.

Í vottorði Kjartans J. Kjartanssonar sérfræðings í geðlækningum á Landspítalanum, dagsettu 9. mars sl. segir m.a. að varnaraðili eigi við alvarleg  geðrofseinkenni að stríða. Lýsir hann því í vottorði sem hann hefur staðfest fyrir dómara að ástand hans sé þannig vegna alvarlegs geðsjúkdóms að hann skorti allt sjúkdómsinnsæi, sé með ranghugmyndir, áberandi illa þrifinn og neiti að klæðast fötum. Þá kemur fram að hann hafi hvað eftir annað neitað lyfjagjöf og einangrað sig. Telur Kjartan að áframhaldandi vistun á sjúkrahúsi sé óhjákvæmileg til þess að unnt sé að veita honum meðferð og gæta öryggis vegna þess að hann sé hættulegur bæði sjálfum sér og öðrum. Í vætti sínu hér fyrir dóminum taldi Kjartan að ástand varnaraðila væri nú með þeim hætti að útilokað væri að hann gæti séð fótum sínum forráð sjálfur og því væri sjálfræðissvipting og nauðungarvistun nauðsynleg, en miklir samskiptaörðugleikar væru milli hans og þeirra sem önnuðust hann og hefði hann ítrekað viljað stjórna því sjálfur hvaða lyf hann tæki. Skipaður verjandi varnaraðila mótmælti því fyrir hönd hans að krafan um sviptingu nái fram að ganga.

Niðurstaða.

Með framangreindu vottorði og framburði Kjartans J. Kjartanssonar geðlæknis fyrir dóminum, þykir í ljós leitt að varnaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi.

Lagður hefur verið fram í málinu úrskurður héraðsdóms Suðurlands frá [...] 1995 þar sem varnaraðili er leystur úr öryggisgæslu með skilyrðum um að hann hlíti læknisfræðilegum meðferðarúrræðum yfirlæknis á Meðferðarheimilinu Sogni þar með talinni lyfjameðferð. Af læknisvottorði og eins viðtali dómara við varnaraðila á LSH má ráða að enginn vafi sé á því að varnaraðili vilji stjórna því hvaða lyf hann taki og eins hvaða læknir annist meðferð hans.

Dómari telur að öllu athuguðu einsýnt af því sem fram er komið í málinu, þrátt fyrir andmæli varnaraðila, að fallast á þau rök sóknaraðila að nauðsyn beri til þess að svipta varnaraðila sjálfræði til þess gæta öryggis hans og auka möguleika á því að hann fái notið nauðsynlegrar læknis- og lyfjameðferðar. Skal varnaraðili því sviptur sjálfræði ótímabundið eins og krafist er frá upp­kvaðningu úrskurðarins að telja.

Allur málskostnaður, þar með talin þóknun Einars Gauts Steingrímssonar  hrl., skipaðs verjanda varnaraðila, 75.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Varnaraðili, A, [kt.] er sviptur sjálfræði ótímabundið frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.

                                Allur kostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., 75.000 krónur.