Hæstiréttur íslands
Mál nr. 741/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 11. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2016, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Braga Björnssonar héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 19. október 2016
I
Með kröfu, sem barst dóminum 14. október sl., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], [...] í [...], verði með vísan til a- og b-liða 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sviptur sjálfræði tímabundið til eins árs. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/1997.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá er og gerð krafa um að skipuðum verjanda verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Málið var þingfest 18. október 2016 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi sama dag.
II
Sóknaraðili kveður kröfu sína setta fram í kjölfar framlengdrar nauðungarvistunar til 12 vikna, með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, sem samþykkt var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 28. júlí 2016, en vistunin renni út 20. október nk.
Í kröfu sóknaraðila kemur meðal annars fram að varnaraðili sé 25 ára, einhleypur og barnlaus. Hann hafi misnotað kannabis og örvandi efni frá árinu 2012. Hann sé nú að greinast með geðrofssjúkdóm í fyrsta skipti og hafi komið til innlagnar á geðdeild í sumar en hann liggi nú á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild á Kleppi. Varnaraðili sé innsæislaus í geðrofssjúkdóm sinn og telji sig ekki vera veikan og dómgreind hans sé skert.
Sóknaraðili grundvallar kröfu sína um sviptingu sjálfræðis til eins árs á heimild í 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og byggist hún á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm og fíknivandamál að stríða og sé af þeim sökum ófær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð, sbr. a- og b-lið 4. gr. lögræðislaga.
Með beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð frá B, lækni á geðdeild 32C á Landspítalanum, dagsett 5. október 2016. Í kröfu sóknaraðila er einnig vísað til þess vottorðs.
Í læknisvottorðinu kemur fram að fjölskylda varnaraðila hafi tekið eftir miklum breytingum á honum frá sumrinu 2012. Varnaraðili hafi byrjað að vera vatnshræddur og nánast hætt alveg að drekka vatn og þvo sér. Einnig hafi fljótlega farið að bera á mikilli sérvisku í mataræði og hræðsla við rafmagn hafi farið vaxandi. Varnaraðili hafi á þessum tíma farið að draga sig í hlé frá námi og byrjað að einangra sig félagslega. Hann hafi verið í neyslu vímuefna, fyrst og fremst kannabis, sem hann hafi að mestu reykt einn. Þá hafi hann reynt að vera í vinnu en mætt illa og að lokum hætt vorið 2015. Frá sumrinu 2015 hafi ástand varnaraðila farið mjög versnandi en þá flutti hann til foreldra sinna vegna vanlíðunar í eigin íbúð, hann hafi hætt að ganga í skóm og eingöngu gengið í fötum úr lífrænum efnum. Hann hafi einnig að mestu hætt að baða sig og einangrað sig algjörlega í herbergi sínu. Vildi varnaraðili hvorki ræða við lækna né félagsráðgjafa. Loks hafi verið fengin aðstoð borgarlæknis og lögreglu og varnaraðili fluttur til mats á geðdeild, 6. júlí 2016. Við komu þangað hafi hann verið gríðarlega spenntur og var um sig og neitað öllum einkennum geðsjúkdóms. Hann hafi ekkert kannast við einkennilega hegðun undanfarin ár og verið metinn verulega hugsanatruflaður og lék sterkur grunur á um þróun geðrofssjúkdóms. Varnaraðili hafi alls ekki viljað þiggja innlögn eða lyfjameðferð og hafi hann því verið nauðungavistaður í 72 klukkustundir á bráðageðdeild 32C. Þar sem hann hafi ekki verið með sjúkdómsinnsæi og ekki þegið meðferð hafi hann verið nauðungarvistaður í 12 vikur 21. júlí 2016 og settur á forðasprautur, sem hann fái enn. Varnaraðili hafi lagst inn á sérhæfða endurhæfingargeðdeild á Kleppi 2. september 2016 og hafi legið þar síðan. Hann hafi sinnt virkni ágætlega á deildinni en sé þó mikið út af fyrir sig. Hann taki því ekki þátt í krefjandi félagslegum samskiptum. Í viðtölum svari hann spurningum en sé stuttorður. Þegar rædd séu meðferðarúrræði segist hann vilja gera sem mest sjálfur. Hann hafi lítinn áhuga á að komast í vinnu með stuðningi heldur vilji hann sjálfur sækja um vinnu. Varnaraðili hafi ekki áhuga á áframhaldandi meðferð eftir útskrift. Hann sýni einnig stundum einkennilega hegðun.
Í lok vottorðsins segir enn fremur að það sé mat læknisins að viss bati hafi átt sér stað frá því að varnaraðili lagðist inn á geðdeild í byrjun júlí 2016 og sé mikilvægt að hann sé áfram í meðferð svo sá bati viðhaldist og verði meiri. Fyrir innlögn hafi varnaraðili búið hjá foreldrum sínum en í dag sé ástand hans metið þannig að hann myndi ekki ráða við það að búa einn. Hann hafi ekki innsæi í sinn sjúkdóm og telji sig ekki vera veikan.
Í læknisvottorðinu greinir læknirinn einnig frá helstu rökum fyrir áframhaldandi sjálfræðissviptingu en þau séu að hans mati eftirfarandi:
-
Varnaraðili sé að greinast með geðrofssjúkdóm og sé ekki laus við geðrofseinkenni þó bati hafi verið nokkur. Mikilvægt sé að halda meðferð áfram með geðrofslyfjum á forðasprautuformi svo núverandi bati haldist og verði meiri með tímanum. Öll einkenni, saga og gangur sjúkdómsferils, leiði sterkum líkum að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðrofssjúkdómi geðklofagerðar.
-
Varnaraðili álíti sig ekki veikan og hafi þannig ekki sjúkdómsinnsæi. Nær öruggt sé að hann muni hætta allri meðferð eftir að nauðungarvistun ljúki ef ekki verði farið út í sjálfræðissviptingu.
-
Varnaraðili hafi verið greindur með vímuefnavanda. Mikilvægt sé að geta gripið fljótt inn ef vímuefnaneysla verði aftur vandamál þar sem slíkt myndi hafa mjög slæm áhrif á batann.
-
Varnaraðili sé ófær um að ráða sínum persónulegu högum vegna alvarlegs geðrofssjúkdóms, sem hafi í för með sér innsæisleysi og dómgreindarleysi. Muni hann þurfa áframhaldandi nauðsynlega læknisaðstoð að minnsta kosti næstu 12 mánuðina.
Við aðalmeðferð málsins gaf áðurnefndur geðlæknir skýrslu um síma. Hann staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Hann vísaði meðal annars til þess að yfirgnæfandi líkur væru á því að sóknaraðili væri að greinast með geðklofasjúkdóm. Hann væri meðal annars haldinn ranghugmyndum, hreinlæti hans væri ábótavant og að hann einangraði sig. Kvað hann varnaraðila hafa neitað lyfjameðferð og ekki viljað dvelja á geðdeild. Ítrekaði hann að hann teldi nauðsynlegt að varnaraðili yrði sviptur sjálfræði til 12 mánaða til þess að unnt yrði að veita honum læknisaðstoð. Að mati læknisins væri sjálfræðissvipting eina úrræðið sem mögulegt væri í dag fyrir varnaraðila, en mikilvægast væri að varnaraðili undirgengist lyfjameðferð. Þá taldi læknirinn að varnaraðili myndi ekki þurfa að dvelja á deildinni allan sviptingartímann, yrði hann sviptur sjálfræði, en það hve lengi hann þyrfti að dvelja þar réðist innan fárra vikna af batahorfum hans.
Varnaraðili gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafna kröfu sóknaraðila og taldi hann sig ekki veikan. Þá væri það ósatt að hann væri hræddur við vatn eða rafmagn. Hann gengi um berfættur því það fyndist honum þægilegra vegna baks og sagðist hann baða sig daglega og borða hvað sem er. Hann hafi búið einn en flutt vegna fjárskorts til foreldra sinna. Aðspurður sagðist hann hafa notað vímuefni fyrir löngu síðan en notaði þau ekki í dag. Loks kvaðst hann aldrei hafa neitað læknismeðferð.
Skipaður verjandi varnaraðila hafnaði því að uppfyllt væru lagaskilyrði til að verða við kröfu sóknaraðila. Vísaði verjandinn til þess að ekkert lægi fyrir í gögnum málsins sem sýndi fram á að varnaraðili væri haldinn geðsjúkdómi og að mati varnaraðila væri greining geðlæknisins í fyrirliggjandi vottorði röng. Verjandi benti á að hegðun varnaraðila hefði verið til fyrirmyndar frá því að hann lagðist inn á deildina og ekkert hefði verið rætt við varnaraðila um hvort hann væri tilbúinn til þess að halda lyfjameðferð áfram við útskrift. Þá mótmælir varnaraðili því að hann eigi í dag við vímuefnavanda að stríða. Skipaður verjandi varnaraðila benti enn fremur á að engin sönnun lægi fyrir því að varnaraðili geti ekki búið einn, séð um sig sjálfur og þegið lyfjagjöf sjálfviljugur.
III
Með framangreindu vottorði geðlæknisins og vætti hans fyrir dómi þykir sýnt að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðrofssjúkdómi, geðklofagerðar. Þar sem ljóst er að varnaraðili hefur lítið sem ekkert innsæi í sjúkdóminn telur dómurinn nauðsynlegt að hann verði tímabundið sviptur sjálfræði svo unnt verði að veita honum viðeigandi læknismeðferð og aðstoð á sjúkrahúsi. Í því ljósi verður að fallast á að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum í skilningi a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Á hinn bóginn er það álit dómsins að vafi leiki á því hvort uppfyllt séu skilyrði b-liðar 4. gr. sömu laga, en í skýrslu sinni fyrir dómi tók áðurnefndur læknir fram að varnaraðili hafi haldið sig frá fíkniefnanotkun síðan hann lagðist inn á deildina. Er það í samræmi við vætti varnaraðila fyrir dómi. Það breytir þó ekki því mati dómsins að rétt sé með vísan til ofanritaðs að verða við kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár, sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga.
Tekið skal fram að samkvæmt 15. gr. lögræðislaga á varnaraðili þess kost að krefjast niðurfellingar sjálfræðissviptingarinnar að sex mánuðum liðnum frá uppkvaðningu úrskurðar þessa, telji hann að ástæður sviptingar séu ekki lengur fyrir hendi.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af rekstri málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Braga Björnssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 130.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár.
Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Braga Björnssonar hdl., 130.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.