Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-340

Íslenska ríkið (Soffía Jónsdóttir lögmaður)
gegn
International Seafood Holdings S.A.R.L. (Birgir Már Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjármagnstekjuskattur
  • Reikningsskil
  • Einkahlutafélag
  • Arður
  • Hagnaðarhlutdeild
  • Endurgreiðslukrafa
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 3. desember 2019 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. nóvember sama ár í máli nr. 847/2018: International Seafood Holdings S.A.R.L. gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. International Seafood Holdings S.A.R.L. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að felldur verði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra 14. júní 2017 þar sem hafnað var beiðni gagnaðila um endurgreiðslu á 5% fjármagnstekjuskatti sem hann hafði greitt í staðgreiðslu af arði sem félagið fékk frá dótturfélagi sínu Iceland Seafood International ehf. á árinu 2013. Krefst gagnaðili jafnframt endurgreiðslu fjárhæðarinnar með nánar tilgreindum vöxtum. Snýr ágreiningur aðila að því hvort arðgreiðslan hafi fullnægt því skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög að henni hafi verið úthlutað úr frjálsum sjóðum Iceland Seafood International ehf. og hvort fjármunum félagsins hafi þar með verið úthlutað til hluthafa með lögmætum hætti, sbr. 73. gr. laganna. Voru reikningsskil Iceland Seafood International ehf. byggð á hlutdeildaraðferð samkvæmt 40. og 41. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að arðgreiðslan uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994 og sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila. Landsréttur tók kröfur gagnaðila á hinn bóginn til greina og taldi að hin reiknaða staða óráðstafaðs eigin fjár Iceland Seafood International ehf. samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2011 hefði í heild sinni verið frjáls sjóður í skilningi ákvæðisins og þar með fjármunir sem félaginu hefði verið heimilt að úthluta gagnaðila arði af. Þar sem ekki hefðu verið formlegir annmarkar á arðsúthlutuninni hefði gagnaðila því verið heimilt eftir 9. tölulið 31. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að draga arðinn frá tekjum á skattframtali fyrir árið 2013.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann til þess að dómur Landsréttar sé í andstöðu við skatt- og úrskurðarframkvæmd síðastliðinna ára þar sem lagt hafi verið til grundvallar að hlutdeild móðurfélags í hagnaði dótturfélags á grundvelli hlutdeildarreikningsskila samkvæmt 40. gr. laga nr. 3/2006 geti ekki verið grundvöllur arðsúthlutunar samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994. Sé um að ræða dómsúrlausn sem falli undir 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 og geti leitt til endurupptöku fjölda annarra mála þar sem reynt hafi á sambærileg atriði. Þá telur leyfisbeiðandi að skýring Landsréttar á hugtakinu frjáls sjóður samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994 sé ekki í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar og skrif fræðimanna. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að ranglega hafi verið lagt til grundvallar í dómi Landsréttar að samkvæmt 5. mgr. 41. gr. laga nr. 3/2006, sbr. lög nr. 73/2016 um breytingu á lögum nr. 3/2006, sé móðurfélagi nú óheimilt að úthluta arði byggðum á hlutdeildarhagnaði og hafi reikningsskilareglum því verið breytt til samræmis við málatilbúnað leyfisbeiðanda. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins geti það aðeins átt við um þann mismun sem þar er getið og móðurfélagi ber að færa á bundinn hlutdeildarreikning meðal eigin fjár. Eftir sem áður geti því komið til úthlutunar úr móðurfélagi vegna hlutdeildar í afkomu dótturfélags áður en ákvörðun sé tekin um úthlutun arðs úr dótturfélagi eða jafnvel án þess að nokkur slík ákvörðun sé tekin innan vébanda dótturfélags.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu geti haft fordæmisgildi um framangreind atriði. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.