Hæstiréttur íslands

Mál nr. 73/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning


Föstudaginn 26. febrúar 2010.

Nr. 73/2010.

Sérstakur saksóknari

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

X

(Arnar Þór Stefánsson hdl.)

Kærumál. Kyrrsetning.

X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns um að kyrrsetja innstæður á nánar tilgreindum bankareikningum hans að kröfu sérstaks saksóknara. Talið var að við mat á því hvort til staðar væru skilyrði sem 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 tilgreini beri einkum að líta til eðlis peningaeigna, þess að unnt er að færa peninga af bankareikningum á skömmum tíma, þess að um mjög háar fjárhæðir væri að ræða, þess að ekki væri bent á að til væru aðrar eignir sem verið gætu til tryggingar til fullnustu sektar, sakarkostnaðar eða ávinnings og refsiramma hins ætlaða brots. Þótti því fullnægt skilyrðum ákvæðisins fyrir lögmæti kyrrsetningargerðarinnar og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2010 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fella úr gildi þá ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. nóvember 2009 að kyrrsetja innstæður á nánar tilgreindum bankareikningum hans hjá Nýja-Kaupþingi hf. (nú Arion banka hf.). Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. nóvember 2009 að kyrrsetja innstæður á bankareikningum hans hjá Nýja-Kaupþingi hf. (nú Arion banka hf.) nr. [...] og [...]. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 8. febrúar 2010. Hann krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði vísað frá héraðsdómi, en til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I

Samkvæmt XII. kafla laga nr. 88/2008 telst kyrrsetning til tryggingar upptöku ætlaðs ávinnings af broti til rannsóknaraðgerða. Var varnaraðila heimilt að leggja ágreining um lögmæti kyrrsetningar á grundvelli 88. gr. laganna undir héraðsdóm samkvæmt 2. mgr. 102. gr. sömu laga, sbr. og 60. gr. og 1. mgr. 70 gr. stjórnarskrárinnar. Er frávísunarkröfu sóknaraðila því hafnað.

II

Hinn 11. nóvember 2009 krafðist sóknaraðili kyrrsetningar í eigum varnaraðila til tryggingar kröfu að fjárhæð 193.000.000 krónur vegna greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings. Krafan var gerð með vísan til 88. gr. laga nr. 88/2008 vegna ætlaðra brota varnaraðila gegn 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 138. gr., sbr. 141. gr. a. Forsenda beiðninnar var að talin væri hætta á að eignir myndu glatast eða rýrna að mun. Hinn 13. nóvember 2009 kyrrsetti sýslumaður nánar tilgreinda bankareikninga varnaraðila. Rannsókn vegna ætlaðra brota varnaraðila er ekki lokið.

Brot gegn 123. gr., sbr. 146. gr., laga nr. 108/2007 varða sektum eða fangelsi allt að sex árum hvort sem framin eru af ásetningi eða gáleysi, sbr. 147. gr. laganna, og má hækka refsingu allt að helmingi þyki 138. gr. almennra hegningarlaga eiga við. Hið ætlaða brotaandlag er talið nema tæpum tvö hundruð milljónum króna.

Kyrrsetning samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008 er þvingunaraðgerð í þágu meðferðar sakamáls og hefur það markmið að tryggja fjármuni til greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings, sem aflað hefur verið með broti. Skilyrði kyrrsetningar samkvæmt ákvæðinu er að „hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun.“ Eru skilyrði þessi eðlisólík skilyrðum fyrir kyrrsetningu samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og verða þau ekki lögð að jöfnu eins og varnaraðili heldur fram. Ekki liggja fyrir haldbærar upplýsingar um fjárhag og aðrar eignir varnaraðila utan að til séu einhverjar peningainnstæður umfram þær sem kyrrsettar voru. Við mat á því hvort til staðar séu þau skilyrði sem ákvæði 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 tilgreinir ber einkum að líta til eðlis peningaeigna, þess að unnt er að færa peninga af bankareikningum á skömmum tíma, þess að um mjög háar fjárhæðir er að ræða, þess að ekki er bent á að til séu aðrar eignir sem verið gætu til tryggingar til fullnustu sektar, sakarkostnaðar eða ávinnings og refsiramma hins ætlaða brots. Þykir því fullnægt skilyrðum ákvæðisins fyrir lögmæti kyrrsetningargerðar sýslumannsins í Reykjavík 13. nóvember 2009 og verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Málskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Málskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2010.

Með kröfu móttekinni 27. nóvember 2009 krefst sóknaraðili, X, þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. nóvember 2009, að kyrrsetja innistæður á bankareikningum hans hjá Nýja-Kaupþingi hf. nr. [...] og nr. [...], en þá ákvörðun hafi sýslumaður tekið að beiðni sérstaks saksóknara. Auk þess krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili, Embætti sérstaks saksóknara, krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað.

Málið var þingfest  8. desember 2009 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 12. janúar 2010.

I.

Sóknaraðili máls þessa sætir rannsókn hjá embætti sérstaks saksóknara vegna sölu á hlutum hans í Landsbanka Íslands hf. í september 2008. Þann 11. nóvember s.l. krafðist embættið kyrrsetningar á eignum sóknaraðila á grundvelli 88. gr. laga nr. 88/2008 fyrir kröfum að fjárhæð 193 milljónir króna. Gegn mótmælum sóknaraðila féllst sýslumaður á að krafan næði fram að ganga og voru innistæður á framangreindum reikningum sóknaraðila kyrrsettar.

Mál aðila, þar sem sóknaraðili krafðist þess að framangreind rannsókn yrði lýst ólögmæt og hún felld niður, var til meðferðar við dóminn og var kveðinn upp úrskurður í því máli 6. janúar s.l. þar sem kröfum sóknaraðila var hafnað. Með dómi sinum 3. febrúar s.l. í máli nr. 15/2010 staðfesti Hæstiréttur Íslands þá niðurstöðu.

II.

Sóknaraðili byggir á  2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem segi m.a. að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Ljóst sé að kyrrsetningin verði borin undir dómstóla á grundvelli þessa ákvæðis, og vísar sóknaraðili sérstaklega til k-liðar 1. mgr. 192. gr. laganna í því sambandi.

Sóknaraðili telur ljóst að skilyrði 88. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til kyrrsetningar séu ekki uppfyllt í málinu. Þegar af þeirri ástæðu verði að fella úr gildi þá ákvörðun sýslumanns að fallast á og framkvæma kyrrsetninguna.

1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 hljóði svo:

Til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings, sem aflað hefur verið með broti, getur lögregla krafist kyrrsetningar hjá sakborningi ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun.

Samkvæmt ákvæðinu verði einhverju ofangreindra skilyrða að vera fullnægt og fyrir liggi að sérstakur saksóknari og sýslumaður beri alla sönnunarbyrðina fyrir því að þeim hafi verið fullnægt. Ætla verði að skilyrði til kyrrsetningar samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008 séu strangari en skilyrði til kyrrsetningar samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Að mati sóknaraðila fari því fjarri að skilyrðum í 88. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt. Þannig verði ekki séð að nein hætta sé á að eignum verði „skotið undan“. Til að því skilyrði sé fullnægt verði að sýna fram á að sóknaraðili hafi gert sig með einhverjum hætti líklegan til að skjóta eignum undan eða rýra þær. Engu slíku sé til að dreifa í málinu og hafi sóknaraðili enga tilburði sýnt í þá veru. Hann sé íslenskur ríkisborgari sem unnið hafi alla sína starfsævi hér á landi, ávaxtað fé sitt hér og hafi engin áform um annað. Hann eigi enga bankareikninga í útlöndum og hafi ekki staðið í fjármagns­flutningum til útlanda. Engar sérstakar breytingar hafi orðið á eignum sóknaraðila síðastliðið ár og engar ráðstafanir átt sér stað sem gefi tilefni til að ætla að það gerist sem kyrrsetningu sé ætlað að koma í veg fyrir.

Enn síður sé fullnægt skilyrðunum um að hætta sé á að eignir „glatist“ eða „rýrni að mun“. Sóknaraðili sé vel efnum búinn og geymi stærstan hluta sparnaðar síns á hefðbundnum bankareikningum í formi innistæðna, og ennfremur í íbúðabréfum. Ekki fáist séð að hætta sé á að innistæður hans á bankareikningum glatist eða rýrni.

Af hálfu sérstaks saksóknara hafi verið vísað til gjaldeyrisreikninga sóknaraðila. Rétt sé að hann geymi eitthvert fé á gjaldeyrisreikningum, líkt og fjöldamargir aðrir einstaklingar, og ekkert sé óeðlilegt við það. Fé á gjaldeyrisreikningum sé óverulegur hluti eigna sóknaraðila sem myndast hafi á löngum tíma. Minnt er á að í gildi séu víðtæk gjaldeyrishöft og þegar af þeirri ástæðu verði fé ekki flutt út fyrir landsteina af slíkum reikningum, auk þess sem sóknaraðili hafi aldrei haft neitt slíkt í hyggju. Þá mun kyrrsetning sýslumanns heldur engu breyta þar um enda hafi kyrrsetningar­gerðin ekki beinst að gjaldeyrisreikningunum.

Áréttar er að sönnunarbyrði um að skilyrðum 88. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt hvíli á sérstökum saksóknara og sýslumanni og hafi þessir aðilar engan veginn axlað hana. Hafa verði í huga að kyrrsetningin sé mjög óvenjuleg og óvægin aðgerð, sem skýrar lagaheimildir verði að standa til, sem fari fjarri að séu uppfylltar í máli þessu. 

III.

Aðalkröfu sína um frávísun málsins byggir varnaraðili á því að krafa um að fella niður kyrrsetningu á grundvelli 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verði ekki reist á þeim grunni sem sóknaraðili gerir í málinu, 2. mgr. 102. gr. laganna. Sú aðgerð lögreglu sem um ræði hafi verið krafa um kyrrsetningu eigna, sem sé í eðli sínu tryggingarráðstöfun en ekki rannsóknaraðgerð. Krafan hafi verið tekin fyrir af þar til bæru yfirvaldi sem tekið hafi til athugunar mótmæli sóknaraðila við gerðinni. Ekki hafi því verið um að ræða rannsóknarathöfn eða tiltekna rannsóknaraðgerð, eins og áskilið sé í ákvæðinu, heldur gerð sem sýslumaðurinn í Reykjavík hafi framkvæmt að kröfu lögreglu. Um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjár­muna almennt sbr. 2. mgr. 88. gr. laga 88/2008 sem þýði að ágreiningur um ákvörðun sýslumanns í tengslum við kyrrsetningarmálið fari eftir lögum um kyrrsetningu og lögbann o. fl. en ekki XV. kafla laga nr. 88/2008. Kyrrsetningargerð sýslumanns geti ekki talist rannsóknaraðgerð lögreglu þótt lögreglan sé gerðarbeiðandi. Beri, þegar á þessum grunni, að vísa kröfu sóknaraðila frá dómi.

Til stuðnings þessari kröfu bendir varnaraðili einnig á 2. og 3. mgr. 88. gr. Þar sé mælt nánar fyrir um framkvæmd og gildi kyrrsetningarinnar og við hvaða aðstæður hún falli niður. Séu þau ákvæði skýr og ítarleg, en geri ekki ráð fyrir að unnt sé að bera lögmæti kyrrsetningarinnar undir dóm með þeim hætti sem hér sé gert.

Varakröfu um að kröfu sóknaraðila verði hafnað byggir varnaraðili á því að á grundvelli 88. gr. laga nr. 88/2008 geti lögregla krafist kyrrsetningar, m.a. til að tryggja upptöku ávinnings, ef hætta þyki á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Í máli því sem hér um ræði hafi orðið mikill ágóði af meintu broti, rúmar 192 milljónir króna, og sé ljóst að ef ákæra verður gefin út, verði gerð sú krafa að kærði sæti upptöku á þeirri fjárhæð samkvæmt 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Það sé mat varnaraðila að raunveruleg hætta sé á því, þegar fyrir liggi að slík krafa verði hugsanlega sett fram í dómsmáli, að kærði reyni að koma eignum sínum undan upptöku. Eigi í raun það sama við um slíka ráðstöfun og það brot sem mál þetta snýst um, að kærði reyndi að koma sér undan fjártjóni með ólögmætum hætti. Er varnaraðili ósammála þeirri túlkun sóknaraðila á ákvæðinu að sýna þurfi fram á, áður en ákvæðinu er beitt að hann hafi gert sig líklegan til að skjóta eignum undan eða rýra þær. Þvert á móti telur embættið að nóg sé að sýna fram á að hætta á slíku undanskoti sé fyrir hendi, eins og segi í ákvæðinu.

Tekið er fram af hálfu varnaraðila að kyrrsetning er sú vægasta aðgerð sem unnt sé að grípa til, til að tryggja að eignir verði til staðar sem unnt verði að gera upptækar, komi til þess máli þessu.

IV.

Aðalkrafa varnaraðila er um frávísun málsins frá dómi. Þó að fallast megi á að ekki sé alveg augljóst af orðanna hljóðan í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að kyrrsetning á grundvelli 88. gr. laganna sé eitt af þeim atriðum sem þar er heimilað að bera undir héraðsdóm, verður að fallast á það með sóknaraðila að tvímæli séu tekin af varðandi það með skoðun á 192. gr. laganna, sbr. einkum k-lið greinarinnar, þar sem gert er ráð fyrir að úrskurður héraðsdóms varðandi kyrrsetningu sé eitt þeirra atriða sem varða kæru til Hæstaréttar. Verður því að hafna aðalkröfu varnaraðila um frávísun málsins.

Skilyrði þess að lögregla geti krafist kyrrsetningar hjá sakborningi eru talin í 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008. Þar segir að krefjast megi kyrrsetningar til greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings og er ekki deilt um að til slíks geti komið í máli sóknaraðila, enda liggur fyrir að hann sætir rannsókn vegna meintra brota á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Þá er sett það skilyrði fyrir kyrrsetningu í 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008, að hætta þyki á að þeim verði annars skotið undan, eða glatist eða rýrni að mun. Fallast verður á það með varnaraðila í máli þessu að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt í máli þessu til að kyrrsetning mætti fara fram hjá sóknaraðila. Við þá niðurstöðu er haft í huga að þótt segja megi að almennt séð sé það nokkuð inngrip í persónuleg fjármál aðila að kyrrsetja eignir hans, má fallast á það með varnaraðila að sú aðferð að kyrrsetja innistæður á bankareikningum sé eins væg aðferð og kostur er, eins og háttar til í þessu máli.

Í ljósi alls framangreinds og atvika málsins verður það því niðurstaða þess að hafnað verður kröfum sóknaraðila um niðurfellingu kyrrsetningar frá 13. nóvember 2009, sem fram fór að kröfu embættis sérstaks saksóknara.

Málskostnaður verður ekki dæmdur.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Embættis sérstaks saksóknara, um frávísun málsins.

Hafnað er kröfum sóknaraðila, X, í málinu.