Hæstiréttur íslands

Mál nr. 384/2002


Lykilorð

  • Stjórnsýsla
  • Skipulag
  • Byggingarleyfi
  • Kröfugerð


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003.

Nr. 384/2002.

Hafnarfjarðarbær

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

gegn

Jolla ehf.

(Þorsteinn Júlíusson hrl.)

 

Stjórnsýsla. Skipulag. Byggingarleyfi. Kröfugerð.

J ehf. krafðist þess að sveitarfélagið H yrði dæmt skaðabótaskylt gagnvart sér vegna tjóns sem félagið kynni að hafa orðið fyrir vegna þeirrar ákvörðunar að veita G ehf. heimild til að breyta nánar tilteknu húsi við götuna F og aðkomu að því þannig að unnt yrði að starfrækja þar söluturn með sölulúgu. Hafði H áður synjað beiðni  J ehf. um að félaginu yrði úthlutað lóð við umrædda götu til að reisa á henni söluturn með sölulúgu. Fór svo að J ehf. fékk úthlutað lóð á svipuðum slóðum þar sem félagið reisti söluturn. Í málinu var upplýst að afstaða H var byggð á deiliskipulagstillögu sem var síðar samþykkt sem deiliskipulag. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem var staðfest í Hæstarétti, kemur fram að eðli umræddrar starfsemi sé þeim hætti að gera þurfi sérstaklega ráð fyrir henni í deiliskipulagi, einkum vegna þeirra sértæku þarfa sem hún geri til umferðarflæðis og umferðartenginga. Hafi því ekki verið heimilt að fara með umsókn G ehf. eins og í gildi væri deiliskipulag sem heimilaði þær breytingar sem í henni fólust. Hafi því ekki verið unnt að fallast á umsóknina að þessu leyti nema að undangenginni breytingu á fyrirliggjandi deiliskipulagi. Var krafa J ehf. því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 18. júní 2002, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfesting þess 31. júlí sama árs. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjaði hann öðru sinni 20. ágúst 2002. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Svo sem fram kemur í héraðsdómi krefst stefndi þess í málinu að viðurkennt verði að áfrýjanda sé skylt að bæta sér tjón, sem hann hafi orðið fyrir vegna þess að áfrýjandi heimilaði nafngreindu félagi að gera nánar tilteknar breytingar á húsi að Flatahrauni 5a í Hafnarfirði. Þótt stefndi hafi aðeins lagt fram í málinu óveruleg gögn um ætlað tjón sitt af þessum sökum nýtur hann heimildar samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að sækja málið á þennan hátt, en dómur honum í hag felur þá aðeins í sér úrlausn um lögmæti gerða áfrýjanda gagnvart stefnda án þess að neinu sé slegið föstu um hvort þær hafi leitt til tjóns fyrir hann. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest með vísan til forsendna hans.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hafnarfjarðarbær, greiði stefnda, Jolla ehf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. mars 2002.

   Mál þetta, sem dómtekið var 5. f.m., er höfðað 22. ágúst 2001 af Jolla ehf., Helluhrauni 1, Hafnarfirði, á hendur Hafnarfjarðarbæ.

   Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að stefndi heimilaði G. Leifssyni ehf. að breyta húsinu nr. 5A við Flatahraun í Hafnarfirði og koma þar fyrir sölulúgu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

   Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Hann krefst ennfremur málskostnaðar.

I.

   Forsögu máls þessa má rekja til þess að stefnandi rak í nokkur ár söluskála við Flatahraun í Hafnarfirði. Tók hann húsnæði það sem hýsti þessa starfsemi hans á leigu með samningi 27. september 1994. Við gerð samningsins var fyrirsvarsmanni stefnanda það ljóst að fyrirhugað væri að breyta deiliskipulagi þessa svæðis. Þá hafði hann jafnframt um það vitneskju á þessum tíma að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hefðu eingöngu heimilað að húsið stæði á umræddri lóð við Flatahraun til ársloka 1999. Þegar leið að því að heimild fyrir húsinu á þessum stað rynni út leitaði stefnandi eftir því við bæjaryfirvöld hvort hann gæti fengið úthlutað nýrri lóð undir söluskála á Flatahrauni eða á horni Flatahrauns og Helluhrauns. Beindi stefnandi skriflegu erindi til bæjarstjóra stefnda vegna þessa 28. október 1997 og til bæjarráðs daginn eftir. Kemur fram í niðurlagi beggja þessara erinda að sótt sé um lóð „með það í huga að vera áfram með svipaðan rekstur og fyrir er, en með þeim breytingum þó, að meira rými skapist og hægt sé að koma fyrir tveimur bílalúgum (í stað einnar) á hvorri hlið auk afgreiðslurýmis innandyra”. Erindið var tekið fyrir á fundi í skipulagsnefnd stefnda 4. nóvember 1997. Var í fundargerð bókað um afgreiðslu þess á þann veg að ekki væri mælt með því að söluskálinn yrði staðsettur á hornlóðinni heldur ofan hennar við Helluhraun eins og drög að tillögu hafi gert ráð fyrir. Af hálfu stefnanda er því haldið fram til viðbótar þessu að í viðtölum við forsvarsmenn stefnda hafi fyrirsvarsmanni félagsins verið tjáð að ekki kæmi til greina að söluturn með sölulúgu yrði staðsettur í þeim húsum sem fyrirhugað væri að reisa við Flatahraun, enda væri það ekki í samræmi við nýtt deiliskipulag og væri auk þess útilokað með tilliti til umferðar um svæðið. Hafi svar stefnda við umsóknum stefnanda um lóð undir starfsemi sína verið fólgið í því að bjóða félaginu lóð við Helluhraun. Stefnandi hafi ákveðið að taka þessu boði þegar ljóst hafi verið orðið að ekki fengist leyfi til að starfrækja söluturn með sölulúgu við Flatahraun. Hafi haft mikið að segja í sambandi við þessa ákvörðun að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi litið svo á í ljósi þess sem á undan var gengið að hann mætti treysta því að stefnandi myndi einn starfrækja starfsemi af þessu tagi á deiliskipulagssvæðinu. Var lóðinni úthlutað til stefnanda 15. september 1998, byggingarleyfi til handa honum gefið út 28. júní 1999 og lóðarleigusamningur undirritaður 30. sama mánaðar. Hinn 3. nóvember 1999 var hins vegar tekin fyrir í bygginganefnd stefnda umsókn frá G. Leifssyni ehf. um heimild til að breyta gluggum og hurðum hússins nr. 5A við Flatahraun og setja á það þakglugga. Fól umsóknin það í sér að hlyti hún samþykki yrði unnt að starfrækja „lúgusölu” í húsinu. Umsókn þessari hafnaði bygginganefndin með þeim rökum að gatnakerfi gerði ekki ráð fyrir þeirri umferð sem fylgi „lúgusölu”. Sama erindi var að nýju lagt fyrir bygginganefnd 17. nóvember 1999. Hafði umsækjandi þá aflað sérstakrar umsagnar verkfræðistofu um umsókn sína og samþykkis fyrir umsókninni frá eigendum aðliggjandi lóða, en að auki var lagt fyrir bygginganefnd minnisblað frá starfsmanni bæjarverkfræðings og umsögn skipulagsstjóra stefnda. Í umsögn skipulagsstjórans segir svo: „Athygli er vakin á því að í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið er sérstaklega gert ráð fyrir skyndibitastað með sérhönnuðu húsnæði fyrir „aktu-taktu” verslun við Helluhraun. Gera þarf sérstaklega ráð fyrir „aktu-taktu” stöðum í skipulagi vegna þeirra sértæku þarfa sem slík starfsemi gerir til umferðarflæðis og umferðartenginga. Minnt er á ábendingar erlendra ráðgjafa um staðfestu í skipulagi og öryggi fjárfesta. Þrátt fyrir að menn geti leitt líkur að því að ekki verði um umferðarvandamál að ræða á lóðinni hefði lausn sú sem sýnd er í umsókn fyrir Flatahraun 5A þótt skipulagslega afleit ef hún hefði verið sett fram í deiliskipulagsvinnu. Frá skipulagslegu sjónarmiði er ekki hægt að mæla með tillögunni.” Þrátt fyrir þessa umsögn var fram komin umsókn samþykkt á fundi bygginganefndar 17. nóvember 1999. Á fundi í bæjarráði 2. desember 1999 var afgreiðslu málsins hins vegar frestað og lagt til að bygginganefnd endurskoðaði afgreiðslu sína á grundvelli skipulags og umferðar á svæðinu. Til samræmis við þetta tók bygginganefnd málið fyrir að nýju 15. desember 1999 og ákvað að vísa því til skipulagsnefndar. Að undangenginni gagnaöflun, sem síðar verður gerð nánari grein fyrir, og umfjöllun skipulagsnefndar 19. desember 1999 og 11. janúar 2000 samþykkti bygginganefnd erindið á fundi sínum 12. janúar 2000. Segir í fundargerð nefndarinnar að „[þar] sem m.a. fyrirliggjandi teikningar [séu] í samræmi við deiliskipulag” samþykki nefndin erindið, enda verði fylgt „fyrirmælum byggingarfulltrúa vegna frágangs við aðkeyrslur að lúgum”. Þessa fundargerð samþykkti bæjarstjórn stefnda síðan á fundi sínum 18. janúar 2000.

   Í málinu heldur stefnandi því fram að með því að samþykkja framanagreinda umsókn G. Leifssonar ehf. um breytingu á neðri hæð fasteignarinnar nr. 5A við Flatahraun í Hafnarfirði hafi stefndi brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og þeim grundvallarreglum í íslenskri stjórnsýslu að sjónarmið að baki stjórnvaldsákvörðun verði jafnan að vera lögmæt og að stjórnvöld verði að gæta jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Telur stefnandi að stefndi sé á þessum grunni og í ljósi atvika sem lýst er hér að framan bótaskyldur gagnvart sér. Leitar stefnandi í málinu viðurkenningar dómsins á skaðabótaskyldu stefnda, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.     

II.

   Hér að framan eru rakin þau atvik sem leiða eiga til þess að mati stefnanda að fallist verði á viðurkenningarkröfu hans. Því er við að bæta að á framangreindum fundi skipulagsnefndar 19. desember 1999 var ákveðið að leita umsagnar bæjarlögmanns um það annars vegar hvort tiltekið ákvæði í greinargerð með hinu nýja deiliskipulagi stæði því í vegi að fallast mætti á umsókn um sölulúgu við Flatahraun. Hins vegar var leitað álits bæjarlögmanns á því  hver væri réttarstaða stefnda gagnvart stefnanda og þá í ljósi þess að stefndi hefði hafnað þeirri málaleitan félagsins að starfrækja „lúgusölu” við Flatahraun. Í svarbréfi bæjarlögmanns 10. janúar 2000 segir svo meðal annars: „Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi eftir breytingu sem gerð var 17. mars 1998 er gert ráð fyrir því að við Helluhraun 1 verði söluturn með aðstöðu til lúgusölu. Aðrar byggingar eru skilgreindar með almennari hætti, þ.e. fyrir iðnaðar- þjónustu- og verslunarsvæði. Fyrsta spurning er því sú hvort heimila megi aðstöðu til lúgusölu í öðru húsnæði á svæðinu fyrst gert er ráð fyrir þessu sérbyggða húsi við Helluhraun undir þessa starfsemi. Ég er þeirrar skoðunar að skipulagsnefnd geti heimilað lúgusölu annars staðar á þessu svæði þó svo að þessi sérhannaði söluturn sé við Helluhraun. Rétthafi lóðarinnar við Helluhraun hefur enga tryggingu fyrir því að svona sölulúgur verði ekki heimilaðar á þessu svæði þó svo að hann eigi rétt á skv. skipulaginu að reisa sérbyggt hús undir þessa starfsemi. Ekki eru reistar skorður við því í skipulaginu að svona starfsemi verði ekki annars staðar á svæðinu þó ekki sé gert ráð fyrir sérbyggðu húsi undir starfsemina nema á einum stað. [...]  Í [seinni spurningunni] felst m.a. að til þess að heimila umrædda lúgusölu við Flatahraun þurfi bærinn að falla frá fyrri afstöðu sinni. Ég get ekki heimfært þessa fullyrðingu til gagna málsins. Með bréfi dags. 28. okt. 1997 var óskað eftir söluskála á horni Flatahrauns og Helluhrauns eða við Flatahraun sem næst horninu. Samþykkt var í skipulagsnefnd 4. nóv. 1997 að mæla ekki með að söluskálinn verði staðsettur á hornlóðinni [...] heldur ofan hennar við Helluhraun. Þessi samþykkt gefur ekki tilefni til þess að mínu áliti að álykta svo víðtækt að í samþykktinni felist að bærinn sé þeirrar skoðunar að ekki sé æskilegt að hafa sölulúgu við Flatahraun af umferðarlegum ástæðum. Taka má afstöðu til þessarar umsóknar að mínu áliti óháð þessari afgreiðslu frá 1997.” Þessi umsögn var lögð fram á fundi skipulagsnefndar 11. janúar 2000. Varð það efnisleg niðurstaða nefndarinnar að fallast mætti á umsókn G. Leifssonar ehf. án undangenginnar breytingar á fyrirliggjandi deiliskipulagi, enda færi sú afgreiðsla ekki í bága við það.

   Í greinargerðarhluta þess deiliskipulags, sem vísað er til hér að framan og bæjarstjórn stefnda samþykkti 17. mars 1998, segir svo meðal annars: „Gerð er tillaga að iðnaðar-, þjónustu- og verslunarsvæði sem afmarkast af Flatahrauni í suðri, Helluhrauni í austri, lóðamörkum Hjallahr. 2 og Helluhr. 4 í norðri og Reykjavíkurvegi 54, 56, 58 og Flatahr. 1 í vestri. Deiliskipulagssvæðið er um það bil 2,7 ha að stærð. [...] Deiliskipulagið skiptist í tvö svæði: Svæði A eru lóðirnar Flatahraun 3, 5, 7. Á lóðunum nr. 3 og 5 er gert ráð fyrir að byggja 2 h hús fyrir verslun og þjónustu, á lóðinni nr. 7 2ja h. framhús og 1 h hliðarhús. Á lóðunum nr. 1 við Gjótuhraun og 5b við Flatahraun er gert ráð fyrir 1-2 h bakhúsum fyrir léttan iðnað og þjónustu. [...] Svæði B eru 6 lóðir við Gjótuhraun og lóð fyrir mastur allt að 30 m hátt ásamt lóð fyrir söluturn við Helluhraun. Á þessum 6 lóðum er gert ráð fyrir að byggja 1 h hús fyrir léttan iðnað og þjónustu. Við Helluhraun er gert ráð fyrir að staðsetja söluturn með aðstöðu fyrir lúgusölu.” 

III.

   Lögmaður stefnanda ritaði bæjarlögmanni stefnda bréf 15. mars 2000 þar sem fram kemur sú skoðun stefnanda að stefndi hafi brotið á félaginu með því að fallast á framangreinda umsókn G. Leifssonar ehf. um sölulúgu að Flatahrauni 5A, enda hafi stefnandi tekið við úthlutun á lóð undir söluturn við Helluhraun 1 sem eina mögulega kostinum samkvæmt deiliskipulagi til að halda áfram rekstri sínum á því svæði sem það tekur til. Hafi stefnandi mátt treysta því þá er umræddri lóð við Helluhraun var úthlutað til hans 15. september 1998 að starfsemi af því tagi sem stefnanda rekur yrði ekki leyfð annars staðar á deiliskipulagsreitnum. Var þeirri skoðun stefnanda lýst í bréfinu að félagið ætti bótakröfu á hendur stefnda yrði leyfi til sölu um lúgur að Flatahrauni 5A ekki afturkallað. Með bréfi bæjarlögmanns stefnda 4. apríl 2000 var vísað til þess álits skipulagsnefndar stefnda að það hefði „ekki í för með [sér] breytingu á deiliskipulagi að heimila sölulúgu í húsinu nr. 5A við Flatahraun”. Þá var vísað til bréfs bæjarlögmannsins til skipulagsnefndar 10. janúar 2000, sem að mestu er tekið upp orðrétt í kafla II hér að framan, og annarra gagna málsins. Í kjölfar þessa svarbréfs beindi lögmaður stefnanda skriflegu erindi til Skipulagsstofnunar, þar sem óskað var álits stofnunarinnar á því hvort afgreiðsla stefnda á umsókn G. Leifssonar ehf. væri í samræmi við fyrirliggjandi deiliskipulag. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar 17. apríl 2000 var lýst því áliti að svo væri ekki. Með bréfi 27. sama mánaðar sendi lögmaður stefnanda bæjarlögmanni stefnda þetta svarbréf Skipulagsstofnunar og spurðist fyrir um það hvort álit hennar breytti í einhverju afstöðu stefnda til málsins. Var þetta erindi stefnanda tekið fyrir í bæjarráði stefnda 25. maí 2000. Segir í bréfi bæjarlögmanns stefnda 2. júní 2000 að það hafi orðið niðurstaða bæjarráðs að fyrri afgreiðsla þess um að heimila „lúgusölu” að Flatahraun 5A skyldi standa óbreytt. Stefnandi höfðaði síðan mál þetta 22. ágúst 2001.

IV.

   Grundvöllur viðurkenningarkröfu stefnanda er þríþættur. Telur hann að bótaskylda stefnda verði í fyrsta lagi reist á því að með því að heimila þá breytingu á neðri hæð hússins nr. 5A við Flatahraun, sem hér hefur verið til umfjöllunar, hafi stefndi brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og með því bakað sér bótaábyrgð. Vísar stefnandi í þessu sambandi annars vegar til þess að með því að heimila þá breytingu sem hér um ræðir hafi stefndi brotið gegn 1. gr. laganna. Hins vegar heldur stefnandi því fram, einkum með vísan til 43. gr. laganna, að heimildin hafi falið það í sér að gildandi deiliskipulagi hafi verið breytt. Ekki hafi verið fylgt ákvæðum 26. gr. laganna við afgreiðslu málsins. Þannig hafi hvorki verið auglýst nýtt deiliskipulag fyrir svæðið né hafi grenndarkynning farið fram. Framangreind brot stefnanda á skipulags- og byggingarlögum leiði til bótaábyrgðar hans samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 26. gr. laganna og almennum reglum.

   Í öðru lagi er viðurkenningarkrafa stefnanda byggð á því að stefndi hafi brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um lögmæti stjórnvaldsákvarðana og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rökstyður stefnandi þetta svo að áður en stefndi féllst á að heimila umrædda breytingu á húsinu nr. 5A við Flatahraun hafi hann hafnað umsókn frá stefnanda um leyfi til að starfrækja söluskála með sölulúgu við þá götu og þá með þeim orðum að aldrei yrði veitt leyfi fyrir slíkri starfsemi þar.

   Í þriðja lagi er það sjálfstæð málsástæða fyrir viðurkenningarkröfu stefnanda að forsvarsmenn stefnda hafi beitt fyrirsvarsmann stefnanda blekkingum með því að fullyrða ítrekað að aldrei yrði leyfð verslun um sölulúgur við Flatahraun en að gert væri ráð fyrir að hús undir slíka starfsemi risi á lóðinni nr. 1 við Helluhraun. Hafi forsvarsmenn stefnda vísað í gildandi deiliskipulag máli sínu til stuðnings. Hafi þessi aðstaða leitt til þess að stefnandi reisti hús undir starfsemi sína við Helluhraun og í raun verið ákvörðunarástæða og meginforsenda fyrir því að hann ákvað að hefja starfsemi á þeim stað. Er því haldið fram í stefnu að stefnandi hefði ekki sóst eftir því að fá lóðina nr. 1 við Helluhraun leigða ef hann hefði mátt búast við því að leyfð yrði „lúgusala” að Flatahrauni 5A.

V.

   Stefnandi mótmælir því að fyrir hendi séu skilyrði til að taka viðurkenningarkröfu stefnanda til greina. Er á því byggt af hans hálfu að með veitingu leyfis til þriðja aðila til að reka starfsemi að Flatahrauni 5A, hliðstæða starfsemi stefnanda, hafi ekki verið um breytingu á samþykktu deiliskipulagi að ræða eða í öllu falli svo lítilvæga að ekki hafi þurft að taka skipulag á viðkomandi svæði upp og breyta því. Algengt sé að heimilaðar séu minni háttar breytingar eða viðbætur á áður samþykktri starfsemi á tilteknu skipulagssvæði án þess að deiliskipulagi sé breytt af því tilefni. Sá aðili sem hér eigi hlut að máli hafi auk þessa sjálfur lagt í kostnað við að láta vinna tillögu sem sneri að umferðarþætti skipulagsins og sem falið hafi í sér ákveðna hagræðingu að því er hann varðar. Þá hafi hann ennfremur aflað samþykkis annarra eigenda að eignarhlutum í viðkomandi fasteign og með því uppfyllt sjónarmið um grenndarkynningu, að minnsta kosti hvað varðaði þá aðila sem þegar höfðu ákveðið á þessum tíma að hefja starfsemi á svæðinu. Þá vísar stefndi í annan stað til stuðnings sýknukröfu sinni til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar 4. nóvember 1997 um umsókn stefnanda frá 28. október sama árs um lóð undir söluskála á horni Flatahrauns og Helluhrauns eða við Flatahraun. Í fundargerð sé bókað svo um þetta að ekki sé mælt með því að söluskálinn verði staðsettur á hornlóðinni heldur ofan hennar við Helluhraun. Mótmælir stefndi því að með þessari afgreiðslu hafi verið girt fyrir það að stefnandi hefði getað keypt eða fengið úthlutað aðstöðu fyrir starfsemi sína annars staða við Flatahraun. Þar við bætist að með bréfi 20. maí 1998 hafi athygli fyrirsvarsmanns stefnanda verið vakin á því að lóðir við Gjótuhraun hefðu verið auglýstar til leigu og jafnframt bent á að endurnýja þyrfti eldri umsóknir. Framangreinda umsókn sína um lóð hafi stefnandi ítrekað með bréfi 4. júní 1998. Þeirri umsókn hafi stefndi svarað með því að bjóða stefnanda lóð undir starfsemi sína við Helluhraun. Það boð hafi stefnandi þáð. Á það hafi þannig ekki reynt hvort stefnanda gæfist þrátt fyrir framangreint kostur á að vera með starfsemi sína í húsnæði við Flatahraun. Þá heldur stefndi því fram að stefnanda sé ekki stætt á að ganga út frá því að ekki yrði leyfð starfsemi, hliðstæð starfsemi hans, í nærliggjandi húsum innan deiliskipulagsreitsins, enda hafi enginn áskilnaður í þá átt verið orðaður af hans hálfu í umsókn hans eða leigusamningi þeim sem aðilar gerður síðar um lóðina nr. 1 við Helluhraun. Loks mótmælir stefndi fullyrðingum stefnanda þess efnis að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi verið beittur blekkingum. Sé hér um marklausar aðdróttanir að ræða.

VI.

Svo sem fram er komið leitaði stefnandi eftir því með bréfi til stefnda 28. október 1997 að félaginu yrði úthlutað lóð undir söluskála við Flatahraun eða á horni Flatahrauns og Helluhrauns í Hafnarfirði. Í lóðarumsókninni var sérstaklega tekið fram að félagið hygðist stunda svipaðan rekstur og það hafði haft með höndum í bráðabirgðahúsnæði við Flatahraun „en með þeim breytingum þó að meira rými [myndi skapast] og hægt [yrði] að koma fyrir tveimur bílalúgum (í stað einnar) á hvorri hlið auk afgreiðslurýmis innandyra”. Þessari umsókn var hafnað á fundi í skipulagsnefnd stefnda 4. nóvember 1997. Er ekki annað komið fram í málinu en að afgreiðsla nefndarinnar hafi síðar komið til umfjöllunar í bæjarstjórn, svo sem samþykktir stefnda kveða á um, og verið staðfest af henni.

Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn sem vitni þeir Ingvar Viktorsson, sem var bæjarstjóri stefnda frá 1. júlí 1995 til 1. júlí 1998, og Jóhannes Sveinsson Kjarval, en hann var skipulagsstjóri stefnda frá árinu 1986 og fram til hausts 1998. Í vitnisburði þeirra beggja kom fram að þeir hafi tjáð fyrirsvarsmanni stefnanda að ekki yrði veitt heimild fyrir starfrækslu söluturns með aðstöðu til lúgusölu við Flatahraun. Vegna þessa kvaðst Ingvar hafa hvatt til þess að stefnandi sækti um tiltekna lóð við Helluhraun undir starfsemi sína. Það gerði stefnandi að endingu. Var byggingarleyfi gefið út 28. júní 1999 og hús af því tagi sem stefnandi hafði haft í hyggju að byggja við Flatahraun reist í kjölfarið.

   Fyrir liggur að framangreind afstaða til umsóknar stefnanda um lóð við Flatahraun í Hafnarfirði og annars konar viðleitni hans til að halda áfram rekstri þar með óbreyttu sniði grundvallaðist á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið, sem samþykkt var í bæjarstjórn stefnda 17. mars 1998. Í ljósi þess sem að framan er rakið þykir með réttu mega álykta á þann veg að það hafi verið eindreginn skilningur stefnda á þessum tíma að starfsemi af því tagi sem stefnanda hugðist starfrækja við Flatahraun og gerð er grein fyrir í framangreindri umsókn hans rúmaðist ekki innan þeirrar deiliskipulagstillögu sem síðar og að því marki sem hér skiptir máli öðlaðist gildi sem deiliskipulag. Fær þessi skilningur vel samrýmst greinargerð deiliskipulags, en efni hennar er rakið í kafla II hér að framan, og deiliskipulagsuppdrætti. Sé annar skilningur lagður til grundvallar að þessu leyti er fyrir það fyrsta vandséð hvaða tilgangi það hafi þjónað að geta þess sérstaklega í greinargerð að gert væri ráð fyrir því að söluturn með sölulúgu yrði staðsettur við Helluhraun, en víkja þar að öðru leyti ekki að starfsemi af þessu tagi. Þá er það svo að sterk rök hníga að því að eðli þessarar starfsemi sé með þeim hætti að gera þurfi sérstaklega ráð fyrir henni í deiliskipulagi, einkum vegna þeirra sértæku þarfa sem hún gerir til umferðarflæðis og umferðartenginga. Að þessu virtu er það álit dómsins að ekki hafi verið unnt að fara með hina umdeildu umsókn G. Leifssonar ehf. frá 1. nóvember 1999 eins og í gildi væri deiliskipulag sem heimilaði þær breytingar sem í henni fólust og dómsmál þetta snýst um. Var þannig ekki unnt að fallast á umsóknina að þessu leyti nema að undangenginni breytingu á fyrirliggjandi deiliskipulagi. Sé litið svo á að sú breyting, sem nauðsynlegt var samkvæmt þessu að gera á deiliskipulaginu, teljist óveruleg í skilningi 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, bar stefnda samkvæmt ákvæðinu skylda til að láta ítarlega grenndarkynningu fara fram og gefa þeim sem teldu sig eiga hagsmuna að gæta kost á að tjá sig, sbr. ennfremur 7. mgr. 43. gr. laganna. Það var ekki gert né heldur var málsmeðferð hagað með þeim hætti sem lögboðin er þegar um verulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða. Sú heimild til handa til handa G. Leifssyni ehf., sem fólst í umdeildri ákvörðun stefnda og hrundið hefur verið í framkvæmd, fór þannig í bága við ákvæði 2. mgr. 43. gr. tilvitnaðra laga. Stefnandi hafði augljósa hagsmuni af því að hér yrði réttilega að málum staðið og í öllu falli til samræmis við ákvæði 2. mgr. 26. gr. laganna.

   Í greinargerð stefnda er því meðal annars borið við til stuðnings sýknukröfu að stefnandi hafi ekki lagt synjun stefnda á lóðarumsókn hans frá 28. október 1997 og leyfi til handa G. Leifssyni ehf. til að starfrækja söluturn með sölulúgu við Flatahraun fyrir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sbr. 8. gr. laga nr. 73/1997. Ekki er á það fallist að stefnandi hafi af þessum sökum glatað þeim rétti sem hann sækir sér til handa með málssókn þessari. Málsástæða þessi er því haldlaus. Þykir í ljósi málatilbúnaðar stefnda að þessu leyti rétt að taka það sérstaklega fram að ekki er áskilið í lögunum að sakarefni sem undir nefndina heyra verði að sæta úrlausn hennar áður en þau verða lögð fyrir dómstóla.

   Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið er fallist á það með stefnanda að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna tjóns sem stefnandi kann að hafa orðið vegna þeirrar ákvörðunar stefnda að heimila G. Leifssyni ehf. að breyta húsinu nr. 5A við Flatahraun í Hafnarfirði og aðkomu að því þannig að unnt yrði að starfrækja þar söluturn með sölulúgu. Viðurkenningarkrafa stefnanda er þannig tekin til greina.

   Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Tæpar sex vikur eru nú liðnar frá því að munnlegur flutningur málsins fór fram. Stafar dráttur á dómsuppsögu af embættisönnum dómarans. Með því að lögmenn aðila hafa lýst því yfir að þeir telji endurflutning málsins óþarfan og dómarinn er sammála þeirri afstöðu þeirra er dómur lagður á málið án undangengins málflutnings að nýju, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

   Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

   Stefndi, Hafnarfjarðarbær, er skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda, Jolla ehf., vegna tjóns sem stefnandi kann að hafa orðið fyrir vegna þeirrar ákvörðunar stefnda að heimila G. Leifssyni ehf. að breyta húsinu nr. 5A við Flatahraun í Hafnarfirði og aðkomu að því þannig að unnt yrði að starfrækja þar söluturn með sölulúgu.

   Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.