Hæstiréttur íslands
Mál nr. 204/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
- Lögmæt forföll
|
|
Þriðjudaginn 16. maí 2006. |
|
Nr. 204/2006. |
Ólafur Ólafsson(Jón Egilsson hdl.) gegn Sigurði Kristjáni Hjaltested (Valgeir Kristinsson hrl.) |
Kærumál. Endurupptaka. Lögmæt forföll.
S höfðaði mál á hendur Ó, sem mætti ekki við þingfestingu og var það því tekið til dóms sem útivistarmál. Ekki var fallist á að forföll Ó við þingfestingu málsins gætu talist lögmæt og var kröfu hans um endurupptöku því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að mál varnaraðila á hendur honum, sem dómtekið var 8. sama mánaðar, yrði endurupptekið samkvæmt 4. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 143. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að endurupptaka verði heimiluð og varnaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ólafur Ólafsson, greiði varnaraðila, Sigurði Kristjáni Hjaltested, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2006.
Mál þetta, sem var þingfest 1. mars og dómtekið 8. sama mánaðar, er höfðað 22. febrúar 2006 af Sigurði Kristjáni Hjaltested, Marargötu 4, Vogum, á hendur Ólafi Ólafssyni, Lækjarfit 1, Garðabæ.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til refsingar fyrir ritun bréfs til stefnanda dagsett 13. nóvember 2005 og fyrir að hafa sent það stefnanda. Bréfið sé að efni til ærumeiðandi með margvíslegum ávirðingum og sakargiftum í garð stefnanda sem séu bæði röng og ósönnuð.
Einnig sé gerð krafa um að eftirtalin ummæli og setningar sem fram komi í bréfi stefnda til stefnanda dagsettu 13. nóvember 2005 til stefnanda verði dæmd ómerk:
„þá rænið þið vinirnir í óþverraskap einnig flestum stjórntækjum og proppi vélarinnar TF TOD til að gera vélina verðlausa“
„Einnig hafið þið vinirnir rænt mig öllum kostnaði sem ég hef þurft að standa fyrir í sambandi við geymslu á flugvélinni“
„Það vita og sjá allir sem eitthvað haf vit á flugmálum að þið virnirnir standið á bakvið ránið á þessum hlutum, það þarf engan snilling til að sjá það“
„Þið vinirnir ættuð að hafa vit á því að skammast ykkar og sjá sóma ykkar í að skila aftur hlutunum sem þið rænduð úr vélinni“
„Finnst ykkur virkilega ekki vera komið fucking nóg af þessum helvítis óþverraskap ykkar gagnvart mér“
„Þeir þekkja greinilega hvorki þig né þitt mannorð vel þarna suðurfrá“
Þá er gerð krafa um bætur að fjárhæð kr. 150.000 auk dráttarvaxta frá útgáfudegi stefnu til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi gerir einnig kröfu um málskostnað úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts.
Við þingfestingu málsins varð útivist af hálfu stefnda og tók stefnandi þá frest í eina viku til framlagningar birtingarvottorðs, sbr. heimild í 2. mgr. 95. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Í þinghaldi þann 8. mars mætti stefndi hins vegar og krafðist þess að fá að halda uppi vörnum í málinu. Bar hann að honum hefði verið tjáð í móttöku dómstólsins að hann gæti mætt þennan dag og haldið uppi vörnum. Útivist stefnda þann 1. mars 2006 varnaði honum hins vegar innkomu í málið aftur, sbr. 1. mgr. 96. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 og var honum tjáð það í þinghaldi þann 8. mars 2006. Var stefnda enn fremur tjáð að hann ætti aðeins innkomu í málið samkvæmt reglum einkamálalaga um endurupptöku mála. Lagði stefnandi fram umrætt birtingarvottorð og krafðist dómtöku málsins í þinghaldinu 8. mars.
Þann 10. mars barst dómstólnum beiðni lögmanns stefnda um endurupptöku málsins á grundvelli 4. mgr. 97. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 (ranglega vísað til 4. mgr. 98. gr. laganna). Bárust dómstólnum frekari gögn til stuðnings kröfu um endurupptöku þann 16. mars 2006.
I.
Í beiðni um endurupptöku eru tilkynnt forföll stefnda Ólafs Ólafssonar þann 1. mars 2006 og gerð krafa um að dómari taki málið upp á ný til efnislegrar meðferðar. Byggir stefndi að því er virðist á 4. mgr. 97. gr., sbr. a-d liðum 1. mgr. 97. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Enn fremur byggir stefndi endurupptökubeiðni sína á ákvæðum XIII. kafla laganna um stefnubirtingu. Þá vísar stefndi einnig til ákvæða um leiðbeiningarskyldu dómara, sbr. m.a. 4. mgr. 101. gr. einkamálalaga.
Stefndi byggir á því að hann hafi ekki fengið löglega birtingu í málinu en þó séð stefnu aðfararnótt þingfestingardags, en hann hafi verið við vinnu þá nótt og því lasburða vegna svefnleysis umræddan morgun. Stefndi hafi mætt um þrjátíu mínútum of seint í þingsal því bíllinn hafi bilað tvisvar sinnum og um langan veg að fara í dómhúsið. Stefndi hafi samt mætt og náð sambandi við dómara sem enn hafi verið á staðnum. Þá hafi stefndi skilið dómarann þannig að seinkun hans, þótt réttlætanleg væri, skipti ekki máli því stefnandi hafi verið búinn að fresta málinu sjálfur. Stefndi hafi mætt í þinghaldið 8. mars og verið sagt að viðvera hans skipti engu máli en ólögfróður stefndi hafi ekki skilið hvers vegna viðvera hans skipti engu máli eða það sem fram hafi farið. Í ljós hafi komið að sá aðili sem tók við stefnu, og sé nágranni stefnda, sem búi einn hafi ekki skilið skjalið sem stefnu og hent bréfinu sem hverjum öðrum pósti til stefnda og hafi það verið tilviljun ein að stefndi hafi lesið skjalið aðfaranótt þingfestingardags.
II.
Með endurupptökubeiðni sinni lagði stefndi fram yfirlýsingu stefnda Ólafs Ólafssonar, yfirlýsingu frá starfsmanni bílaverkstæðisins Friðriks Ólafssonar hf., yfirlýsingu frá Láru Heiðu Sigurbjörnsdóttur sem er skráður viðtakandi stefnu og ljósrit af umslagi sem geymdi stefnuna í málinu. Þann 16. mars 2006 lagði stefndi fram yfirlýsingu Sævars Hallgrímssonar, bifvélavirkjameistara, vegna þeirrar bifreiðar sem stefndi sagði hafa bilað á leið í þinghald að morgni 1. mars 2006 og kemur þar fram að stefndi hafi komið með bílinn til hans til viðgerðar þann sama dag.
Hvað varðar lögmæti birtingar stefnu fyrir stefnda er ljóst af birtingarvottorði að stefna var birt fyrir íbúa á lögheimili stefnda að Lækjarfit 1, Garðabæ, af stefnuvotti þann 22. febrúar 2006. Fullnægir birting stefnunnar því ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991, sbr. a-lið 3. mgr. 85. gr. laganna og þá kemur fram í yfirlýsingu þess aðila sem birting fór fram fyrir að hún hafi komið bréfinu í bréfalúgu stefnda, en hann hefur viðurkennt í yfirlýsingu sinni að hafa verið kunnugt um að honum hefði verið stefnt til að mæta í héraðsdómi Reykjaness umræddan morgun. Verður því ekki fallist á að annmarkar hafi verið á birtingu stefnu í máli þessu.
Fullyrðingar stefnda um að dómari hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni eru með öllu órökstuddar en hvorki kemur fram við hvern stefndi ræddi þegar hann mætti á þingstað eftir að reglulegu þinghaldi var slitið þann 1. mars 2006 eða hvenær. Að þessu virtu er ekki unnt að taka afstöðu til þessarar málsástæðu stefnda.
Stefndi mætti ekki við þingfestingu málsins þann 1. mars 2006 eins og honum var stefnt á lögmætan hátt til að gera. Hvað varðar forföll þau sem stefndi ber við að hafi varnað honum því að mæta til þingfestingarinnar ber að líta til a.-f. liða 1. mgr. 97. gr. einkamálalaga nr. 91/1991, en stefndi hefur hins vegar ekki byggt málatilbúnað sinn á ákveðnum staflið málsgreinarinnar eða rökstutt sérstaklega hvernig forföll hans geti talist lögmæt á grundvelli ákvæðisins. Verður því einkum að telja að b-liður 1. mgr. 97. gr. einkamálalaga gæti átt við í tilfelli stefnda en þar er kveðið á um að stafi forföll aðila af óviðráðanlegum atvikum geti þau talist lögmæt. Verður ekki á það fallist að gangtruflanir í bifreið þeirri sem stefndi hafði að láni falli undir b-lið 1. mgr. 97. gr. einkamálalaga enda verður að byggja á því að stefnda hafi verið unnt að leita annarra leiða til að komast til þinghaldsins. Ekki hefur komið fram að stefndi hafi átt um langan veg að fara til að sækja þinghaldið, sbr. d-lið 1. mgr. 97. gr. einkamálalaga en stefndi er búsettur í Garðabæ. Verður ekki talið að um langt ferðalag sé að ræða þó honum hafi verið stefnt til að mæta á þingstað í Hafnarfirði. Er þá jafnframt til þess að líta að í 4. mgr. 97. gr. einkamálalaga kemur fram það skilyrði endurupptöku að aðila hafi ekki verið unnt að tilkynna dómara um forföll sín en ljóst er að stefndi tilkynnti ekki um seinkun sína sem honum hefði þó verið unnt að gera. Þá verður ekki séð að aðrir stafliðir 1. mgr. 97. gr. einkamálalaga eigi við í máli þessu. Að þessu virtu verður ekki séð að skilyrðum 4. mgr. 97. gr. einkamálalaga sé fullnægt þannig að unnt sé að fallast á kröfu stefnda um endurupptöku málsins. Verður því kveðinn upp útvistardómur í málinu.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er beiðni stefnda, Ólafs Ólafssonar, um endurupptöku málsins skv. 4. mgr. 97. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.