Hæstiréttur íslands

Mál nr. 416/2015

Hvítsstaðir ehf., Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Magnús Guðmundsson, Sigurður Einarsson og Steingrímur Páll Kárason (Helgi Sigurðsson hrl.)
gegn
Hildu ehf. (Friðbjörn E. Garðarsson hrl.)

Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Sjálfskuldarábyrgð

Reifun

Í málinu krafðist H ehf. greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningi við HV ehf. frá árinu 2008. Fyrir lá að tilefni lánveitingarinnar var endurnýjun eldra láns í erlendri mynt sem hækkað hafði verulega frá árinu 2005. Þá hafði HV ehf. haft með höndum atvinnurekstur, en H, I, M, S og SP, sem hver um sig átti 1/5 hlut í félaginu, höfðu tekið á sig skipta sjálfskuldarábyrgð að 1/5 hluta til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Ágreiningur aðila laut að því hvort lækka bæri skuld HV ehf. samkvæmt lánssamningnum og hvort gætt hefði verið fyrirmæla laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki yrði séð af samningnum eða öðrum gögnum málsins að við gerð hans hefðu HV ehf. o.fl. gert fyrirvara við fjárhæð lánsins. Hefðu þeir hvorki sýnt fram á að lækka bæri kröfur H ehf. á hendur þeim vegna efnis samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina eða atvika sem síðar hefðu komið til, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, né sökum þess að forsendur, sem til staðar hefðu verið við töku lánsins, hefðu brostið. Loks var ekki talið að ákvæðum laga nr. 32/2009 yrði beitt um ábyrgð H, I, M, S og SP, enda hefðu þeir tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á efndum samningsins í þágu fjárhagslegs ávinnings þeirra sjálfra, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Voru því teknar til greina kröfur H ehf. um heimtu skuldarinnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 23. júní 2015. Áfrýjandinn Hvítsstaðir ehf. krefst þess að krafa stefnda á hendur sér verði lækkuð. Áfrýjendurnir Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Magnús Guðmundsson, Sigurður Einarsson og Steingrímur Páll Kárason gera aðallega þær kröfur að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnda, en til vara að kröfurnar verði lækkaðar. Þá krefjast áfrýjendur aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Langárfoss ehf. hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti.

Eins og tekið er fram í hinum áfrýjaða dómi var því lýst yfir af hálfu áfrýjenda við aðalmeðferð málsins í héraði að þeir féllu frá þeirri málsástæðu að lánið, sem áfrýjandanum Hvítsstöðum ehf. var veitt á grundvelli samnings 7. október 2005 þar sem lánsfjárhæðin var tiltekin 570.000.000 japönsk jen, hafi verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengisviðmiðun. Með samningi 18. desember 2008 var áfrýjandanum veitt nýtt lán að fjárhæð 729.242.000 krónur og tókust áfrýjendurnir Hreiðar Már, Ingólfur, Magnús, Sigurður og Steingrímur Páll á hendur skipta sjálfskuldarábyrgð á skuld samkvæmt samningnum að 1/5 hluta hver. Í 2. grein hans sagði að tilefni lánveitingarinnar hafi verið myntbreyting fyrrgreinda lánsins í íslenskar krónur og við myntbreytinguna yrði það lán greitt upp. Ekki verður séð af samningnum 18. desember 2008 eða öðrum gögnum málsins að við gerð hans hafi áfrýjendur gert fyrirvara við fjárhæð lánsins sem eins og áður segir var tilgreind í íslenskum krónum.  Að þessu gættu hafa þeir hvorki sýnt fram á að lækka beri kröfur stefnda á hendur þeim vegna efnis samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina eða atvika sem síðar komu til, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, né sökum þess að forsendur, sem til staðar hafi verið við töku lánsins, hafi brostið.

Niðurlag 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn felur í sér takmörkun á gildissviði laganna að því leyti að þau taka ekki til ábyrgðarmanns ef ábyrgðin er í þágu atvinnurekstrar hans eða fjárhagslegs ávinnings. Tilgangur lánsins, sem veitt var áfrýjandanum Hvítsstöðum ehf. á árinu 2005, var að fjármagna kaup á Langárfossi ehf., en það lán var eins og áður greinir greitt upp árið 2008 með láninu sem stefndi krefst nú greiðslu á. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi benda gögn málsins til þess að áfrýjandinn Hvítsstaðir ehf. hafi haft með höndum atvinnurekstur, auk þess sem fyrir liggur að áfrýjendurnir Hreiðar Már, Ingólfur, Magnús, Sigurður og Steingrímur Páll áttu hver um sig 1/5 hlut í félaginu. Þegar hver þeirra tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á efndum síðarnefnda lánsins að 1/5 hluta fer því ekki á milli mála að það gerði hann í þágu fjárhagslegs ávinnings síns sjálfs, sbr. dóm Hæstaréttar 7. nóvember 2013 í máli nr. 324/2013. Af þeim sökum er fallist á með héraðsdómi að ákvæðum laga nr. 32/2009 verði ekki beitt við úrlausn málsins.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.   

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Hvítsstaðir ehf., Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Magnús Guðmundsson, Sigurður Einarsson og Steingrímur Páll Kárason, greiði stefnda, Hildu ehf., óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 6. febrúar sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu með stefnu birtri 13. og 24. apríl 2012, af Dróma hf., Lágmúla 6, Reykjavík, gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, 101 b Rue de pommers, L-2343 Lúxemborg, Ingólfi Helgasyni, 8 rue Jean-Pierre Kemmer, L-5843 Fentange, Lúxemborg, Sigurði Einarssyni, 10 Astell Street, SW3 3RU London, Bretlandi, Steingrími P. Kárasyni, 23 Rue Auguste Liesch, L-8063 Bertrange, Lúxemborg, Magnúsi Guðmundssyni, 3 Val de´l Ernz, L-6137 Junglingster, Lúxemborg, Hvítsstöðum ehf., Skólavörðustíg 12, Reykjavík og Langárfossi ehf., Skólavörðustíg 12, Reykjavík.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Hvítsstaðir ehf., greiði stefnanda 923.659.377 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 20. desember 2010 til greiðsludags. Einnig er þess krafist að stefndu, Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson verði dæmdir hver um sig til að greiða óskipt með stefnda, Hvítsstöðum ehf., 184.731.875 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2010 til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess, að stefndi, Langárfoss ehf., verði dæmdur til þess að þola staðfestingu á 1. veðrétti stefnanda í fasteigninni að Langárfossi, Borgarbyggð, landnúmer 135938, samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu í Reykjavík 26. mars 2008, upphaflega að fjárhæð 50.000.000 króna, bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 282,3 stig og að stefndi, Langárfoss ehf., verði dæmdur til þess að þola staðfestingu á 2. veðrétti stefnanda í sömu fasteign samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu í Reykjavík 18. desember 2008, upphaflega að fjárhæð 350.000.000 króna, bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 322,3 stig, í báðum tilvikum fyrir framangreindri skuld og að staðfestur verði með dómi réttur stefnanda til að fá gert fjárnám í veðinu fyrir skuldinni auk dráttarvaxta og kostnaðar. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum málskostnað óskipt, að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

                Stefndi, Hvítsstaðir ehf., gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnandi, að mati dómsins.      

Stefndu, Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson gera þær dómkröfur að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda. Til vara krefjast þeir sýknu af kröfum stefnanda að svo stöddu. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda, samkvæmt mati dómsins.

                Stefndi, Langárfoss ehf., sótti ekki þing í málinu.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála áður en dómur var kveðinn upp.

II

                Tildrög máls þessa eru þau að stefndi, Hvítsstaðir ehf., og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. gerðu með sér lánssamning nr. 296, dagsettan 7. október 2005, sem bar heitið „Lánssamningur í erlendri mynt“. Tilefni lánveitingarinnar var fjármögnun vegna kaupa á félaginu Langárfossi ehf. eins og fram kemur í 2. gr. lánssamningsins. Þáverandi eigendur stefnda, Hvítsstaða ehf., gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar og nam ábyrgð hvers þeirra um sig 1/5 hluta skuldarinnar eins og hún var og yrði á hverjum tíma, þ.e. höfuðstóll, vextir, dráttarvextir og kostnaður. Samkvæmt 5. gr. lánssamningsins var lánsfjárhæðin 570.000.000 japanskra jena og skyldi lánið greitt út 12. október 2005. Þá greinir svo frá í samningnum að greiði lántaki afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum, skuli andvirði greiðslunnar umreiknað samkvæmt sölugengi bankans í þeim myntum sem lánið sé í, á þeim tíma sem greiðslan sé innt af hendi. Lánið bar breytilega LIBOR-vexti eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, tveimur virkum bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 1,7% vaxtaálagi. Var lánið greitt út í íslenskum krónum, 12. október 2005. Stefndi, Hvítsstaðir ehf., greiddi vexti af láninu á gjalddaga í október árin 2006, 2007 og 2008, í samræmi við 6. gr. lánssamningsins.

                Hinn 18. desember 2008 gerðu stefndi, Hvítsstaðir ehf., og SPRON með sér nýjan lánssamning. Samkvæmt 2. gr. lánssamningsins var áðurnefnt lán nr. 296 greitt upp að fullu með hinu nýja láni. Höfuðstóll lánsins var að fjárhæð 729.242.000 krónur. Samkvæmt 6. gr. lánssamningsins var lánið bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölunni 322,3 stig og bar lánið vexti sem voru 5,9% fastir ársvextir. Í 5. gr. lánssamningsins er því lýst að lánið skuli endurgreiðast á fjórum gjalddögum, þar af þremur vaxtagjalddögum. Fyrsti gjalddagi vaxta er tilgreindur 20. desember 2010, og síðan skuli greiða vexti á tólf mánaða fresti. Gjalddagi höfuðstóls afborgunar og vaxta er 20. desember 2013 og sé það lokagjalddagi lánsins. Til tryggingar greiðslu skuldarinnar tóku stefndu, Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson, á sig skipta (pro rata) sjálfskuldarábyrgð. Til tryggingar greiðslu skuldarinnar veitti stefndi, Langárfoss ehf., veðleyfi í fasteign félagsins Langárfossi með fastanúmerið 13-5938, á grundvelli tveggja tryggingarbréfa. Annars vegar tryggingarbréfi, dagsettu 26. mars 2008, að fjárhæð 50.000.000 króna, tryggt með veði á 1. veðrétti í fasteigninni Langárfossi, verðtryggt með vísitölu neysluverðs með grunnvísitölunni 282,3 stig og hins vegar tryggingarbréfi, dagsettu 18. desember 2008, að fjárhæð 350.000.000 króna, tryggt með veði á 2. veðrétti í fasteigninni Langárfossi, verðtryggt með vísitölu neysluverðs með grunnvísitölunni 322,3.

                Stefnandi kveður stefnda, Hvítsstaði ehf., ekki hafa greitt vaxtaafborgun á fyrsta vaxtagjalddaga, 20. desember 2010 og því hafi lánið verið gjaldfellt með heimild í a-lið 9. gr. lánssamningsins. Stefnanda beri nauðsyn til að fá veðrétt sinn samkvæmt tryggingarbréfunum staðfestan með dómi til þess að geta gengið að hinum veðsettu eignum fyrir upphæð kröfunnar svo langt sem þær hrökkvi og sé stefnda, Langárfossi ehf., því stefnt til að þola staðfestingu á veðréttindum stefnanda í fasteign félagsins.

                Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009, var stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., stefnandi málsins, í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., sem tók við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingarréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum um aðilaskipti að kröfuréttindum í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Hilda ehf. varð eigandi framangreindra krafna með framsali Dróma hf., dagsettu 10. febrúar 2014, og er því réttur aðili að máli þessu.

III

                Stefnandi kveður lánsfjárhæð samkvæmt lánssamningi frá 18. desember 2008 hafa verið að höfuðstól 729.242.000 krónur. Stefnufjárhæðin, með áföllnum verðbótum og vöxtum á gjaldfellingardegi lánsins, 20. október 2010, sundurliðist svo:

                Höfuðstóll, gjaldfelldur                                                     729.242.000 kr.

                Verðbætur – vísitala við gjaldfellingu 356,3                   97.292.607 kr.

                Samningsvextir frá 18.12.2008 til 20.12.2010   97.124.770 kr.

                Samtals:                                                                               923.659.377 kr.

                Stefnda, Hvítsstöðum ehf., sé stefnt til að þola dóm til greiðslu skuldarinnar. Stefndu Hreiðari, Ingólfi, Sigurði, Steingrími og Magnúsi sé stefnt til greiðslu skuldarinnar sameiginlega (in solidum) með stefnda Hvítsstöðum ehf. að fjárhæð 184.731.875 krónur hver eða 1/5 af stefnufjárhæðinni gagnvart stefnda, Hvítsstöðum ehf., auk dráttarvaxta eins og nánar greini í dómkröfum. Á hendur stefnda, Langárfossi ehf., sé þess krafist að félaginu verði gert að þola dóm til staðfestingar á veðréttindum stefnanda fyrir skuldinni.

                Kröfur á hendur stefnda, Langárfossi ehf., séu þær að félaginu verði gert að þola dóm til staðfestingar á veðréttindum stefnanda fyrir skuldinni.

                Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og um efndir fjárskuldbindinga. Stefnandi byggir rétt sinn á ákvæðum tryggingarbréfsins, lánssamningsins og meginreglum veðréttarins, auk laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.

Kröfur um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001. Varakröfur stefnanda séu reiknaðar í samræmi við 1. mgr. 18. gr. laganna, sbr. einnig 3. og 4. gr. þeirra.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 132. gr. laganna.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.

Um varnarþing vísar stefnandi til ákvæða lánssamnings og tryggingarbréfs, sbr. einnig 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Vísað er til 19. gr. laganna um aðild málsins til varnar.

IV

                Stefndi, Hvítsstaðir ehf., byggir á því að sýkna eigi hann af aðalkröfu stefnanda eða lækkar skuldina á grundvelli brostinna forsendna. Þegar lánssamningurinn var undirritaður hafi verið gengið út frá þeirri forsendu að verðmæti jarðarinnar stæði undir endurgreiðslu lánsins a.m.k. að öllu verulegu leyti. Til hafi staðið að hafa lánveitinguna í erlendri mynt þar sem það hafi verið talið hagfelldara fyrir lántakendur að endurgreiða slíkt lán, enda vextir af erlendum myntum umtalsvert lægri en vextir í íslenskum krónum á þessum tíma. Forsendur lánveitanda og lántaka hafi verið þær að gengissveiflur yfir lánstímann yrðu svipaðar og breytingar á vísitölu neysluverðs en vextirnir lægri. Við útgáfu lánssamningsins, 5. október 2005, hafi gengi japanska jensins miðað við eina íslenska krónu verið 0,539 en þegar lánið hafi verið framlengt, 18. desember 2008, hafi gengi japanska jensins verið 1,271. Upphaflegur höfuðstóll lánsins sem sjálfskuldarábyrgðin miðaðist við sé 305.634.00 krónur. Rúmum þremur árum seinna hafi þessi höfuðstóll ásamt tveggja mánaða vöxtum hækkað um 618.025.377 krónur. Höfuðstóllinn hafi þannig nánast þrefaldast frá því sem hann var þegar lánssamningurinn var undirritaður þrátt fyrir að lántaki hafi greitt vexti á sama tíma en samtals hafi lántaki greitt 31.534.441 kr. í vexti. Verðmæti jarðarinnar hafi rýrnað á þessum tíma, þrátt fyrir að félagið hafi lagt verulegt fjármagn í endurbætur á jörðinni.

                Samkvæmt 36 gr. samningalaga sé unnt að víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. 36 gr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar hafi komið til, við mat á því hvort víkja beri samningi til hliðar. Heimild til að víkja samningi til hliðar geti einnig byggst á almennum reglum um brostnar forsendur.

                Stefndi vísar til þess að við samningsgerðina hafi legið til grundvallar þær forsendur að bæði lánveitandi og lántaki hafi talið það hagstæðara fyrir lántaka að taka lán sem miðaði við gengi japanskra jena. Það mat byggðist á því að þegar til lengri tíma sé litið hafi gengi krónunnar farið lækkandi miðað við gengi algengustu erlendu gjaldmiðla. Lánveitanda hafi verið fullkunnugt um það að hann hafi verið að lána íslensku félagi, með tekjur í íslenskum krónum, enda væri frá upphafi gert ráð fyrir því að lánsfjárhæðin yrði greidd út og endurgreidd í íslenskum krónum. Gengi íslensku krónunnar hafi hins vegar gersamlega hrunið gagnvart japanska jeninu, með þeim afleiðingum að höfuðstóll lánsins þrefaldaðist á rétt rúmum þremur árum.

                Stefndi byggir á því að það sé sanngjarnt og í samræmi við góða viðskiptavenju að þegar slíkar grundvallarbreytingar verði á forsendum lánveitanda og lántaka sem þeir sameiginlega leggja til grundvallar í lánssamningi, þá verði tjón sem af því hlýst að skiptast niður á báða aðila. Þær gríðarlegu breytingar sem urðu á gengi íslensku krónunnar hafi verið algerlega ófyrirséðar á þessum tíma.

                Stefndi bendir einnig á að bæði löggjafarvaldið og fjármálafyrirtæki hafi komið til móts við lántakendur og sjálfskuldarábyrgðaraðila í þessari stöðu, m.a. með því að færa niður höfuðstól lánanna eða breyta skilmálum þess að öðru leyti. Hvað þetta varði vísar stefndi til samkomulags fjármálafyrirtækja frá 15. desember 2010, sem stefnandi sé aðili að en það byggi á því að í sameiginlegum reglum fjármálafyrirtækja um endurskipulagningu fyrirtækja sé gert ráð fyrir að heildarskuldir fyrirtækja að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu fari ekki fram úr endurmetnu eigna- eða rekstrarvirði þeirra.

                Stefndi byggir einnig á því að allar tilraunir hans til þess að ljúka uppgjöri málsins á þeim grundvelli sem samkomulag um úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja geri ráð fyrir hafi reynst árangurslausar. Stefndi byggir jafnframt á því að aðalkrafa stefnanda sé í algerri mótsögn við þessar reglur sem stefnandi sé sjálfur aðili að og afstaða hans til sáttaboða ekki í neinu samræmi við þau viðmið sem þar komi fram.

                Þá bendir stefndi á að ekki einungis hafi höfuðstóll lánsins margfaldast, heldur hafi verðmæti þeirrar fasteignar sem standi til tryggingar endurgreiðslu og lánið hafi verið veitt til að fjármagna, staðið í stað eða rýrnað á sama tíma. Forsenda lánveitingarinnar hafi byggst á því að verðmæti fasteignarinnar ásamt fyrirsjáanlegum endurbótum stæði undir endurgreiðslu lánsins og það ásamt vaxtagreiðslum, sem lántaki greiddi árlega, myndi haldast í hendur við lánsfjárhæðina. Frá þessu gætu síðan orðið einhver óveruleg frávik sem tryggð væru með sjálfskuldarábyrgð stefndu. Þessar forsendur hafi algerlega brugðist. Verðmæti fasteignarinnar sé sennilega nær því að vera svipað og þegar lánssamningurinn var gerður, á sama tíma og lánsfjárhæðin sjálf hafi margfaldast.

                Stefndi byggir á því að staða hans sé ekki sambærileg við stöðu stefnanda, sem hafi allt aðra möguleika en stefndi, á að dreifa og meta áhættu sína. Stefndi byggir á því að stefnandi verði að bera að einhverju leyti ábyrgð á þeirri ákvörðun að veita lán með viðmiðun í erlendri mynt félagi sem fyrirsjáanlega hafi engar tekjur í erlendri mynt. Sú ákvörðun hafi valdið miklu tjóni sem eðlilegt sé að stefnandi beri að einhverju leyti ábyrgð á.

                Þá vísar stefndi til þess að hann hafi nú þegar greitt verulega fjármuni í vexti, endurbætur og viðhald á eigninni sem eðlilegt sé að horfa til við mat á því hvernig skipta eigi skuldbindingunni á milli stefnanda og stefnda. Stefndi byggir á því að niðurstaða af slíku heildstæðu mati eigi að vera sambærileg við þá útreikninga sem hann leggi fram um fjárhæð kröfunnar.

                Þá vísar stefndi til þess að samkvæmt 36. gr. sé heimilt að víkja samningi frá vegna atvika sem síðar hafi komið til. Eftir að lánssamningurinn hafi verið undirritaður breyttust forsendur í efnahagslífinu svo rækilega að stefnandi fór í slitameðferð og eignir stefndu rýrnuðu stórkostlega. Ein af ástæðum þess hafi verið hrun íslenska gjaldmiðilsins sem meira en tvöfaldaði höfuðstól lána sem tóku mið af erlendum myntum, á meðan eignaverð stóð í stað eða rýrnaði. Af hálfu stefnda sé vísað til þess að þegar forsendur breytast með svo afdráttarlausum hætti geri 36. gr. laga nr. 7/1936 ráð fyrir því að lánveitendur og lántakar skipti með sér skaðanum með þeim hætti sem rakið hafi verið hér að framan.

                Stefndu Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson byggja sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið gætt þeirra fyrirmæla sem fram komi í lögum um ábyrgðarmenn svo sem varðandi tilkynningar. Hvorki hafi verið send skrifleg tilkynning til ábyrgðarmanna vegna vanefnda lántaka, eins og kveðið sé á um í 7. gr. laga nr. 32/2009, né hafi yfirlit yfir stöðu láns sem ábyrgð standi fyrir verið sent út eftir hver áramót. Í 2. mgr. sé kveðið á um að ábyrgðarmaður sé skaðlaus af vanrækslu og sé vanræksla veruleg skuli ábyrgð falla niður. Fyrir liggi að stefnandi hafi ekki aðeins vanrækt eitt heldur tvö þeirra lagaskilyrða sem ákvæðið kveði á um. Slík vanræksla sé veruleg og leiði til þess samkvæmt ákvæðinu að ábyrgðin falli niður. Stefndu vísa til þess að sú lagaskylda sem hvíli á lánveitanda og fram komi í 7. gr. laga nr. 32/2009 sé hlutlæg og ófrávíkjanleg. Í því felist að tilkynningar verði að eiga sér stað með þeim hætti sem þar sé lýst. Fyrir liggi að stefnandi hafi aldrei uppfyllt þessa lagaskyldu á lánstímanum. Vanræksla hans sé því veruleg. Afleiðingar þess séu samkvæmt fyrirmælum í lögunum sjálfum að ábyrgðin falli niður. Stefndu vísa til þess að ábyrgðin sé hvorki í þágu atvinnurekstrar hans né fjárhagslegs ávinnings. Enginn atvinnurekstur eigi sér stað í umræddu félagi, heldur sé einungis um að ræða félag upphaflega í eigu sex aðila til að halda utan um eignarhald á jörð. Enginn þeirra stefndu sem gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu hafi verið starfsmenn þessa félags, enda fari enginn eiginlegur atvinnurekstur fram í félaginu. Þá hafi hvorki stefndu frekar en aðrir sjálfskuldarábyrgðaraðilar þegið neina greiðslu fyrir að gangast í ábyrgð. Stefndu byggja sýknukröfu sýna á því að lögin séu beinlínis sett til að koma í veg fyrir ofnotkun ábyrgða þar sem slíkar ábyrgðar séu hvorki í takt við hugmyndir sem búi að baki hlutafélagaforminu um takmarkaða ábyrgð hluthafa né heldur sjónarmið um að lánveitandi beri eðlilega áhættu af viðsemjanda sínum. Loks byggja stefndu á því að ástæða þess að stefnandi hafi ekki sent umræddar tilkynningar hafi í raun verið sú að hann hafi talið þessa ábyrgð fallna niður. Með umtalsverðum endurbótum á veðandlaginu og greiðslu vaxta hafi verðmæti veðsins og eign stefnda Hvítsstaða styrkst verulega frá því að lánið var veitt. Jafnframt hafi almennar verðhækkanir fljótlega eftir að lánssamningurinn hafi verið undirritaður dregið úr vægi sjálfskuldarábyrgðar stefnda. Stefnandi hafi þannig í raun hætt að reikna með ábyrgðinni og ekki hirt um að halda henni til haga með því að uppfylla þær lagaskyldur sem fram komi í lögum nr. 32/2009. Það sé ekki fyrr en við gjaldmiðla- og bankahrun þegar forsendur breytast með svo afgerandi hætti að stefnandi fari í greiðsluþrot, verðmæti jarðarinnar hríðfalli og sjálfskuldarábyrgðaraðilar tapi öllum sínum eignum og sitji uppi með skuldir, sem slitastjórn stefnanda fari að gefa gaum að ábyrgðarskuldbindingunni, án þess þó að uppfylla lagaskilyrði 7. gr. laga nr. 32/2009.

                Verði ekki fallist á að sjálfskuldarábyrgðin sé fallin niður á grundvelli þess að stefnandi hafi ekki uppfyllt ákvæði laga nr. 32/2009 krefjast stefndu Hreiðar Már, Ingólfur, Sigurður, Steingrímur og Magnús sýknu á grundvelli brostinna forsendna. Vísast til umfjöllunar stefnda Hvítsstaða ehf. um þessa málsástæðu. Þá megi þar við bæta að stefndu Hreiðar Már, Ingólfur, Sigurður, Steingrímur og Magnús hafi verið starfsmenn og hluthafar í stærsta banka landsins og hafi því haft forsendur til þess að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir hæfilegum sveiflum sem kynnu að vera á gengi gjaldmiðla. Höfuðstóll lánsins hafi nánast þrefaldast frá því sem hann var þegar lánssamningurinn var undirritaður en verðmæti jarðarinnar hafi að sama skapi rýrnað á þessum tíma. Sjálfskuldarábyrgðaraðilar hafi allir misst atvinnu sína og eignarhlutar og hlutafé þeirra hafi orðið verðlaust en eftir standi umtalsverðar skuldir vegna fjármögnunar þeirra hlutafjárkaupa. Þá benda stefndu á að í samkomulagi fjármálafyrirtækja frá 15. desember 2010, sem stefnandi sé aðili að og byggi á sameiginlegum reglum fjármálafyrirtækja um endurskipulagningu fyrirtækja, verði fjárhæð sjálfskuldarábyrgðar endurmetin á grundvelli greiðslugetu og eignastöðu ábyrgðaraðila.

                Stefndu byggja jafnframt á því að forsendur fyrir því að lánveitandi hafi óskað eftir sjálfskuldarábyrgð stefndu og fallist hafi verið á þá beiðni, hafi verið sú að stefndu áttu verulegar eignir í hlutabréfum þegar lánssamningurinn var undirritaður. Þessar eignir hafi þó verið bundnar miklum kvöðum. Stefndu hafi þannig ekki getað selt þessar eignir fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2010, enda hafi gjalddagi upphaflegs lánssamnings verið miðaður við þann dag. Auk þess hafi þessar eignir verið skuldsettar, enda þótt umtalsverð eign væri til staðar. Við bankahrunið 2008 hafi þessi eign orðið að engu, en skuldirnar hafi staðið eftir. Jafnframt hafi stefndu misst atvinnu sína og ekki fengið greidd laun í uppsagnarfresti. Þær forsendur sem lánveitandi og stefndu byggðu sjálfskuldarábyrgðina á hafi þannig horfið í einu vetfangi á árinu 2008.

                Þrátt fyrir að stefndu hafi átt umtalsverðar eignir á sínum tíma og haft þekkingu á bankaviðskiptum breyti það því ekki að staða þeirra sé ekki sambærileg stöðu lánveitanda, sem hafi allt aðra möguleika en stefndu, á að dreifa áhættu sinni og meta hana. Stefndu byggja á því að stefnandi verði að bera að einhverju leyti ábyrgð á þeirri ákvörðun að veita lán með viðmiðun í erlenda mynt félagi sem fyrirsjáanlega hafi engar tekjur í erlendri mynt. Við mat á því hver skuli vera ábyrgð stefnanda að þessu leyti verði að horfa til þeirra röksemda sem hér hafi verið raktar, m.a. þeirri afstöðu löggjafans sem fram komi í greinargerð með lögum nr. 32/2009 að ofnotkun sjálfskuldarábyrgðar sé hvorki í takt við þær hugmyndir sem búi að baki hlutafélagaforminu né sjónarmiðs um að aðili samnings beri eðlilega áhættu af viðskiptavini sínum.

                Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu Hreiðars, Ingólfs, Sigurðar, Steingríms og Magnúsar samkvæmt ofansögðu sé þess krafist að þeir verði sýknaðir að svo stöddu af kröfum stefnanda. Stefndu vísa til þess að stefnandi eigi samkvæmt lögum nr. 32/2009, sbr. 7. gr. að senda tilkynningu skriflega um vanefndir aðalskuldara. Þetta hafi stefnandi ekki gert fyrr en með stefnu í máli þessu útgefinni, 1. febrúar 2012. Stefndu byggja á því að stefnandi uppfylli ekki lagaskilyrði þessa ákvæðis með því að birta og þingfesta stefnu á hendur stefndu fyrir dómi heldur eigi stefnandi að senda sérstaka tilkynningu áður en ábyrgðin sé gjaldfelld og stefna gefin út. Stefndu vísa einnig til 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 þessari kröfu til stuðnings.

                Stefndu krefjast þess að gjaldfelling lánsins og dráttarvextir falli niður a.m.k. fram að þeim tíma þegar mál þetta hafi verið þingfest. Sú krafa byggi á því að samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 verði ábyrgðarmaður ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum sem falli til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að honum hafi verið sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun. Í 4. mgr. komi fram að lánveitandi geti ekki, þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni, gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Eins og áður hafi verið rakið hafi engin tilkynning borist ábyrgðarmönnum, fyrr en með þessari stefnu. Af hálfu stefndu sé byggt á því að tilkynningu í skilningi 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 verði að senda áður en stefna sé birt. Slíkur skilningur styðjist einnig við 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 þar sem kveðið sé á um að senda eigi skuldara eina skriflega viðvörun áður en komi til málshöfðunar eða annarra innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga.

                Stefndu byggja á því að ekki sé unnt að reikna dráttarvexti fyrr en búið sé að uppfylla þá lagaskyldu sem fram komi í 7. gr. innheimtulaga um að senda viðvörun áður en komi til málshöfðunar. Verði ekki fallist á þær röksemdir sé þess krafist að dráttarvaxtakrafa verði ekki reiknuð fyrr en frá þingfestingu málsins.

                Um lagarök vísa stefndu Hvítsstaðir ehf., Hreiðar Már, Ingólfur, Sigurður, Steingrímur og Magnús til laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, einkum 7. gr., sbr. einnig ákvæði innheimtulaga nr. 95/2008, einkum 6. og 7. gr. Þá er vísað til almennra reglna um brostnar forsendur og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Kröfu um málskostnað byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Við aðalmeðferð málsins 6. febrúar sl. féll stefnandi bæði frá vara- og þrautavarakröfum sínum sem settar voru fram í stefnu. Eins féll stefndi frá þeirri málsástæðu að lánið væri íslenskt lán með ólögmætri gengisviðmiðun. Er því óumdeilt í málinu að lán aðila hafi verið erlent lán. Þá er ekki tölulegur ágreiningur í málinu. Í máli þessu er einungis til úrlausnar hvort stefndu Hvítsstöðum ehf., Hreiðari Má Sigurðssyni, Ingólfi Helgasyni, Sigurði Einarssyni, Steingrími P. Kárasyni og Magnúsi Guðmundssyni beri að greiða þá fjárhæð sem lýst er í aðalkröfu stefnanda og hvort staðfestur verði veðréttur stefnanda í fasteigninni að Langárfossi í Borgarbyggð.

                Stefndi Hvítsstaðir ehf., krefst lækkunar skuldarinnar á grundvelli brostinna forsendna og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta honum, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat samkvæmt ákvæðinu ber að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Ljóst er að stefndu Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson áttu hver um sig 20% hlut í stefnda Hvítsstöðum ehf. Störfuðu þeir allir innan bankageirans og bjuggu yfir víðtækri fjármálaþekkingu. Er því ekki um aðstöðumun á aðilum að ræða. Þá verður hvorki séð að efni lánssamningsins né atvik eftir samningsgerðina gefi tilefni til að víkja samningnum til hliðar. Verður að ganga út frá því að stefndu hafi haft fullan skilning á þeirri áhættu sem lántaka í erlendum myntum hefur í för með sér. Hér skal áréttað að því hefur verið hafnað af Hæstarétti, m.a. í dómi réttarins frá 5. júní 2014 í máli nr. 25/2014, að þróun efnahagsmála hér á landi skuli virt sem brostin forsenda. Verður því ekki fallist á það með stefndu að verðrýrnun íslensku krónunnar verði virt sem brostin forsenda sem geti haft áhrif á greiðsluskyldu stefndu eða vikið lánssamningnum til hliðar samkvæmt 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 eða meginreglum kröfuréttar um brostnar forsendur.

                Stefndu Hvítsstaðir ehf., Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson vísa til samkomulags fjármálafyrirtækja frá 15. desember 2010 en þar sé gert ráð fyrir að heildarskuldir fyrirtækja að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu fari ekki fram úr endurmetnu eigna- eða rekstrarvirði þeirra. Þessi málsástæða stefndu er ekki svo skýr sem skyldi en stefndu hafa ekki lagt fram nein haldbær gögn því til stuðnings að fyrrgreint samkomulag fjármálafyrirtækja leysi stefndu undan skuldbindingum sínum. Verður henni því hafnað.

                Þá er ekki unnt að fallast á það með ofangreindum stefndu, gegn neitun stefnanda, að það hafi legið fyrir við lántökuna að verðmæti fasteignarinnar Langárfoss skyldi standa undir endurgreiðslu lánsins og að það ásamt árlegum vaxtagreiðslum myndi haldast í hendur við lánsfjárhæðina.

                Stefndu Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson byggja á því að ekki hafi verið gætt fyrirmæla laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þar sem stefnandi hafi hvorki sent skriflega tilkynningu vegna vanefnda lántaka, eins og kveðið sé á um í 7. gr. laganna, né yfirlit yfir stöðu lánsins. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 er með „ábyrgðarmanni“ átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að þegar lántakinn er félag sem ábyrgðarmaður er viðriðinn geti komið til skoðunar atriði sem varða áhrif ábyrgðarmannsins innan þess. Eins og fyrr greinir áttu stefndu Hreiðar Már, Ingólfur, Sigurður, Steingrímur og Magnús, hver um sig 20% hlut í hinu stefnda félagi Hvítsstöðum ehf. Ljóst er að tilgangur lántökunnar hafi verið kaup Hvítsstaða ehf. á félaginu Langárfossi ehf. Þá liggja fyrir í málinu gögn því til stuðnings að stefndi Hvítsstaðir ehf. hafi haft með höndum atvinnurekstur. Hafa stefndu ekki hnekkt þeim gögnum eða sýnt að öðru leyti fram á að ábyrgðin hafi ekki verið í þágu atvinnurekstrar Hvítsstaða ehf. en sönnun um það atriði hvílir á hinum stefndu ábyrgðarmönnum. Að því virtu verður að telja, með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, að lögin komi ekki til skoðunar við úrlausn málsins. Af öllu framangreindu virtu verður því hafnað að sjálfskuldarábyrgð stefndu Hreiðars Más Sigurðssonar, Ingólfs Helgasonar, Sigurðar Einarssonar, Steingríms P. Kárasonar og Magnúsar Guðmundssonar sé niður fallin á þeim grundvelli að stefnanda hafi láðst að senda hinum stefndu ábyrgðarmönnum yfirlit yfir stöðu lánsins eða tilkynningu vegna vanefnda lántaka.

                Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfum stefnda Hvítsstaða ehf. og aðal- og varakröfum stefndu Hreiðars Más Sigurðssonar, Ingólfs Helgasonar, Sigurðar Einarssonar, Steingríms P. Kárasonar og Magnúsar Guðmundssonar hafnað og fallist á aðalkröfu stefnanda eins og hún er fram sett.

Af hálfu stefnda Langárfoss ehf. hefur hvorki verið sótt né látið sækja þing og er honum þó löglega stefnt. Ber því samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið, að því er stefnda Langárfoss ehf. varðar, eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt fram komnum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu. Þar sem framlögð gögn eru í samræmi við dómkröfur stefnanda á hendur stefnda Langárfossi ehf. verða kröfur hans teknar til greina að öllu leyti.

                Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að stefndu Hvítsstaðir ehf., Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason, Magnús Guðmundsson og Langárfoss ehf., greiði óskipt stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Hvítsstaðir ehf., greiði stefnanda Hildu ehf. 923.659.377 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. desember 2010 til greiðsludags.

                Stefndu, Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson, greiði stefnanda Hildu ehf., hver um sig óskipt með stefnda, Hvítsstöðum ehf., 184.731.875 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2010 til greiðsludags.

                Staðfestur er 1. veðréttur stefnanda í fasteigninni að Langárfossi, Borgarbyggð, með fastanúmerið 13-5938, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu í Reykjavík 26. mars 2008, upphaflega að fjárhæð 50.000.000 kr., bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 282,3 stig, fyrir tildæmdri fjárhæð, dráttarvöxtum og kostnaði og réttur til að fá gert fjárnám í veðinu fyrir skuldinni.

                Staðfestur er 2. veðréttur stefnanda í fasteigninni að Langárfossi, Borgarbyggð, með fastanúmerið 13-5938, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu í Reykjavík 18. desember 2008, upphaflega að fjárhæð 350.000.000 kr., bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 322,3 stig, fyrir tildæmdri fjárhæð, dráttarvöxtum og kostnaði og réttur til að fá gert fjárnám

                Stefndu Hvítsstaðir ehf., Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Sigurður Einarsson, Steingrímur P. Kárason, Magnús Guðmundsson og Langárfoss ehf., greiði óskipt stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt.