Hæstiréttur íslands

Mál nr. 207/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Útivist
  • Endurupptaka


Miðvikudaginn 12. maí 2010.

Nr. 207/2010.

Topp verktakar ehf.

(Oddgeir Einarsson hdl.)

gegn

Gildi-lífeyrissjóði

(enginn)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist. Endurupptaka.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var endurupptöku á máli þar sem  T ehf. var úrskurðað gjaldþrota. Talið var að beiðni T ehf. hafi borist héraðsdómi innan tímamarka 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar hafi ekki verið greint frá því í beiðninni á hverjum málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum krafa um breytingu á fyrri málsúrslitum væri reist svo sem tilskilið væri í 1. mgr. 138. gr. laganna. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2010, þar sem hafnað var endurupptöku á máli þar sem bú sóknaraðila var með úrskurði sama dóms 3. febrúar 2010 tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að „mál nr. G-1242/2009 verði endurupptekið og að þær breytingar verði gerðar á fyrri málaúrslitum að kröfu um gjaldþrotaskipti verði hafnað. Þá er þess krafist að rekstri málsins verði fram haldið frá því stigi sem útivist varð af hálfu stefnda, þ.e. 27. janúar 2010. Þess er ennfremur krafist að réttaráhrif úrskurðarins um gjaldþrotaskipti í máli G-1242 falli niður að öllu leyti þar til máli lýkur á ný í héraði.“

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti

Beiðni sóknaraðila um endurupptöku barst Héraðsdómi Reykjavíkur 15. febrúar 2010 og því innan þess tímamarks sem kveðið er á um í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Koma skilyrði 2. mgr. þeirrar greinar fyrir endurupptöku, ef beiðni berst eftir nefnt tímamark, því ekki til álita í máli þessu. Í fyrrgreindri beiðni sóknaraðila um endurupptöku er á hinn bóginn ekki greint frá því á hverjum málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum krafa um breytingu á fyrri málsúrslitum er reist svo sem áskilið er í 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2010.

Að kröfu Gildis-lífeyrissjóðs, kt. 561195-2779, Sætúni 1, Reykjavík, var bú Topp-verktaka ehf., kt. 440407-2770, Skútuvogi 1g, Reykjavík, tekið til gjaldþrota­skipta með úrskurði uppkveðnum 3. febrúar 2010.  Varnaraðili hefur nú krafist þess með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 15. febrúar 2010, að málið verði endurupptekið. 

Varnaraðili gerir þessar kröfur:  Að mál þetta, nr. G-1242/2009 verði endurupptekið samkvæmt XXIII kafla laga nr. 91/1991 og fyrri niðurstöðu breytt á þann veg að kröfu um gjaldþrotaskipti verði hafnað.  Hann krefst þess að rekstri málsins verði haldið áfram frá þeim tíma er útivist varð, þ.e. 27. janúar 2010.  Enn er þess krafist að réttaráhrif úrskurðar um gjaldþrotaskipti falli niður að öllu leyti þar til málinu lýkur að nýju.  Loks krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, til vara að málskostnaður falli niður. 

Sóknaraðili gerir ekki sérstakar kröfur í þessum þætti málsins. 

Í fyrri úrskurði kom fram að skiptabeiðandi telji sig eiga fjárkröfu á hendur varnaraðila, sem sögð var nema 5.576.508 krónum, auk áfallandi dráttarvaxta og kostnaðar.  Árangurlaust fjárnám var gert hjá varnaraðila 8. desember 2009. 

Í greinargerð varnaraðila er einkum byggt á því að fyrirkall hafi ekki verið birt réttilega.  Bendir hann á tvennt í því sambandi.  Annars vegar hafi fyrirkallið verið birt laugardaginn 16. janúar kl. 19:02.  Samkvæmt 1. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 skuli birta stefnur á virkum dögum.  Hins vegar hafi ekki verið birt fyrir heimilismanni forsvarsmanns varnaraðila.  Birt hafi verið fyrir nafngreindri konu og hún sögð vera á 1. hæð til vinstri í húsinu.  Hefur varnaraðili lagt fram afrit af tölvupóstskeyti frá þjóðskrá, þar sem segir að kona með þessu nafni finnist ekki í þjóðskránni. 

Varnaraðili segir að þar sem birtingu var ábótavant hafi honum ekki verið kunnugt um úrskurð um gjaldþrotaskipti fyrr en 8. febrúar, en þá hafi verið búið að loka fyrir aðgang hans að heimabanka.  Segir hann ætlun sína að óska eftir fjögurra vikna fresti og nýta hann til að komast hjá gjaldþroti félagsins.  Sé það raunhæft í þessu tilviki, en nauðsynlegt sé að úrskurður um gjaldþrotaskipti falli niður.  Telur hann sig hafa verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta af því að réttaráhrif úrskurðarins falli niður, sbr. 1. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991. 

Varnaraðili vísar til XXIII kafla laga nr. 91/1991, sem hann segir að skuli beita í þessu tilviki í samræmi við fordæmi í dómum Hæstaréttar. 

Forsendur og niðurstaða

Um birtingu fyrirkalls fyrir varnaraðila til fyrirtöku á kröfu um gjaldþrotaskipti gilda í meginatriðum sömu reglur og um birtingu stefnu í einkamálum, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 21/1991.  Sú regla sem varnaraðili vísar réttilega til í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 segir að stefnur skuli birta á virkum dögum.  Viðtekin skoðun er í framkvæmd og meðal fræðimanna að laugardagar séu virkir dagar í þessum skilningi.  Því var birting heimil umræddan dag. 

Áratugum saman hefur verið talið heimilt að birta fyrir íbúa í annarri íbúð í fjöleignarhúsi, þegar viðtakandi stefnu eða fyrirkalls er ekki til staðar.  Var svo gert í þessu tilviki.  Af þeirri staðreynd að kona með því nafni sem skráð er á birtingar­vottorð finnst ekki í þjóðskrá, verður ekki dregin önnur ályktun en sú að stefnuvottur hafi misritað nafn þess er hann átti samtal við umrætt sinn.  Leiðir þetta ekki til þess að birting verði talin ófullnægjandi. 

Endurupptaka máls er heimil þó fyrirkall hafi verið birt réttilega.  Sú krafa hefur hins vegar gerð í dómaframkvæmd um endurupptöku gjaldþrotaúrskurða, að varnaraðili beri fram þær varnir sem hann hyggst hafa uppi, þegar í endurupptökubeiðni.  Varnaraðili hefur ekki fært fram neinar varnir sem leitt gætu til þess að sú krafa er hann boðar um að gjaldþrotabeiðni verði hafnað, verði tekin til greina.  Þvert á móti kveðst hann einungis ætla sér að nýta sér frest til að afla aftur­köllunar á kröfu sóknaraðila.  Að þessu virtu er ekki hægt að taka til greina kröfu um endurupptöku málsins. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

ÚRSKURÐARORÐ:

Beiðni varnaraðila, Topp-verktaka ehf., um endurupptöku máls nr. G-1242/2009, er hafnað.