Hæstiréttur íslands
Mál nr. 270/2015
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 5. nóvember 2015. |
|
Nr. 270/2015.
|
A (Oddgeir Einarsson hrl.) gegn Fjölskyldu- og velferðarnefnd B (Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.) |
Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.
Fjölskyldu- og velferðarnefnd B krafðist þess að A yrði svipt forsjá dóttur sinnar. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að fullnægt væri skilyrðum a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að A yrði svipt forsjá stúlkunnar enda hefðu önnur vægari úrræði verið reynd án árangurs, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp hefði A aflað yfirmatsgerðar tveggja sálfræðinga. Í henni hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að A væri ófær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi dóttur sinnar. Þá kæmi þar fram að A hefði ekki ráðið að neinu leyti úr fíkni- og hegðunarvanda sem hún hefði strítt við frá barnsaldri. Samkvæmt þessu var hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2015. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.
Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp aflaði áfrýjandi yfirmatsgerðar tveggja sálfræðinga. Í henni er komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi sé ófær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi dóttur sinnar. Áfrýjandi hafi strítt við fíkn og hegðunarvandkvæði frá barnsaldri og ekki verði séð að hún hafi ráðið að neinu leyti úr þeim vanda sínum. Einnig er komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi takmarkaðan skilning á þörfum telpunnar.
Að virtum niðurstöðum yfirmatsgerðar og öðrum gögnum málsins verður fallist á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að áfrýjandi verði svipt forsjá dóttur sinnar. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 700.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2015.
Mál þetta var þingfest 12. september 2014 og tekið til dóms 16. mars sl. Stefnandi er Fjölskyldu- og velferðarnefnd B, vegna Barnaverndarnefndar [...], [...], [...], [...], en stefnda er A, [...], [...].
Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, C, kt. [...], sem nú er vistuð á einkaheimili á vegum stefnanda samkvæmt 28. gr., sbr. b. lið 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I
Stefnandi höfðar mál þetta til þess að svipta stefndu forsjá dóttur sinnar. Í gögnum málsins kemur fram að stefnda á sögu um hegðunar- og vímuefnavanda frá barnsaldri. Meðferðarsaga hennar hófst þegar hún var í 8. bekk og fór í meðferð á Stuðlum, síðan á Laugalandi og Háholti en án þess að meðferð skilaði árangri. Hún eignaðist C 19 ára gömul og var í neyslu framan af meðgöngutímanum. Fór hún þá í vistun í Hamarskoti sem er meðferðarúrræði barnaverndarnefnda vegna þungaðra kvenna. Var hún vímuefnalaus þar í tæpa þrjá mánuði fram að fæðingu barnsins. Á þessum tíma var D sálfræðingur fenginn til þess að vinna sálfræðimat á stefndu og er skýrsla hans dagsett 20. apríl 2013. Niðurstaða hans var að talsverð áhætta felist í því að stefnda sjái um barn sitt. Í matsgerðinni leggur D fram ýmsar tillögur að stuðningsúrræðum fyrir stefndu.
Eftir fæðingu barnsins samþykkti stefnda að dvelja með barn sitt hjá tilsjónarfjölskyldu á vegum barnaverndarnefndar. Hún féll hins vegar í neyslu í [...] 2013 þegar barnið var tveggja mánaða gamalt. Fól hún þá móður sinni umsjá barnsins og var sú ráðstöfun samþykkt af barnaverndaryfirvöldum. Stefnda fór þrisvar sinnum inn á Vog á tímabilinu 5. júlí til 8. ágúst 2013. Með úrskurði var barnið vistað utan heimilis í tvo mánuði frá 3. október 2013, sbr. b. lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002 og síðan aftur í sex mánuði. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness [...] 2014 var vistun framlengd um fjóra mánuði. Frá þeim tíma hefur barnið dvalið hjá fósturforeldrum.
Samkvæmt gögnum málsins lagði stefnandi til ýmis úrræði til að örva tengslamyndun móður og barns og til þess að styðja móður í að takast á við fíkniefnavanda sinn. Var henni m.a. fylgt eftir í meðferð á Vog í sex skipti, Hlaðgerðarkot og geðdeild en án árangurs. Hún var metin óhæf í eftirmeðferð á Vík í tvígang. Henni var veitt ýmis einstaklingsmiðuð ráðgjöf, fjárhagsaðstoð o.fl. Hún sinnti úrræðum takmarkað, erfitt reyndist að ná í hana og hún sýndi lítið frumkvæði. Óskaði þá stefnandi eftir því að gert yrði endurmat á hæfni móður til að sinna foreldrahlutverkinu.
D sálfræðingur var aftur fenginn af hálfu stefnanda til þess að vinna forsjárhæfnismat. Í skýrslu hans 30. júní 2014 kemst hann að þeirri niðurstöðu að stefnda hafi ekki náð nægilegum þroska til að annast dóttur sína og hafi ekki sýnt nægilega hæfni og skilning á þörfum barnsins til að geta tryggt öryggi þess á eigin heimili. Hún hafi ekki sinnt endurhæfingu, verið óáreiðanleg, ekki sýnt hreinskilni hvað varðar vímuefnaneyslu, átt stormasöm samskipti við kærasta, lögregla hafi haft afskipti af heimili hennar o.fl. Í skýrslunni kemur einnig fram að stefnda hafi haft reglulega umgengni við dóttur sína á heimili fósturforeldra barnsins frá febrúar til maí 2014 en þá hafi hún að sögn verið vímuefnalaus frá árslokum 2013. Hún hafi mælst án ávanabindandi efna, síðast 11. ágúst 2014. Frá og með júní 2014 hafi umgengni farið fram tvo daga í viku í tvær stundir í senn og þá verið fenginn utanaðkomandi aðili til stuðnings vegna erfiðleika sem urðu í samskiptum stefndu við fósturforeldrana. Í skýrslur D kemur fram að stefnda hafi sýnt ágætan styrkleika til að annast barn sitt í umgengni, hún sé góð við barnið, gæti þess og leiki við það og greinilega séu til staðar tengsl á milli móður og barns. Hins vegar hafi komið í ljós að stefnda sé óstundvís í umgengnina og efasemdir séu uppi um að hún hafi rétta forgangsröðun þar sem hún skipuleggi stundum að hitta vini þegar hún sé með barnið utan heimilis fósturforeldranna. Ekki hafi komið fram grunur um að stefnda neytti fíkniefna á meðan vinna D stóð yfir né heldur hjá þeim aðila sem fór með stefndu í umgengni á þessum tíma.
II
Í tengslum við þetta mál óskaði stefnda eftir nýju forsjárhæfismati. E sálfræðingur var dómkvödd 8. október 2014 og er matsgerð hennar dagsett 27. janúar 2015. Fram kemur m.a. í matsgerðinni að stefnda eigi sögu um alvarlegan hegðunarvanda í æsku og snemma á unglingsaldri hafi tekið við fíkniefnavandi og endurteknar meðferðir sem litlum árangri virtust skila. Ístöðuleysi, vímuefnavandi og stormasöm sambönd hafi einkennt líf stefndu síðastliðin ár. Reynd hafi verið margvísleg úrræði fyrir hana til að hjálpa henni til að takast á við fíkniefnavanda sinn og til að bæta hæfni hennar en hún hafi lítið sem ekkert sinnt þeim þrátt fyrir að fá endurtekin tækifæri til þess.
Fram komi í persónuleikaprófi svarmynstur sem bendi til þess að stefnda afneiti vímuefnavanda og hafi litla innsýn í afleiðingar slíks vanda. Fram komi á prófinu að hún glími við fjölþættan og alvarlegan geðrænan vanda, m.a. þunglyndi, lágt sjálfsmat, sjálfsvígshugsanir og óstöðugt tilfinningaástand. Komi fram að hún hafi tilhneigingu til að kenna öðrum um vandamál sín. Hún forðist erfiðar aðstæður og hafi notað vímuefni til að takast á við streitu. Svarmynstur hennar sýni að hún búi yfir hæfni til að geta sett sig í spor annarra. Þá komi einnig fram í prófum að viðhorf stefndu til foreldrahlutverksins sé að það sé eitt það mikilvægasta í lífi hennar og hún vilji eyða tíma með barni sínu. Komi fram hjá henni að hún virðist gera sér ljósa þá hæfni sem þurfi til til þess að vera foreldri og til þess að geta tengst barni sínu. Hins vegar sé ljóst að aðeins hafi reynt á foreldrahæfni hennar að mjög takmörkuðu leyti þar sem hún hafi lítið sinnt umgengni við barn sitt frá því síðastliðið haust.
Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns segir ennfremur að reynt hafi verið að setja upp ýmsar áætlanir varðandi endurhæfingu stefndu en hún hafi lítið sinnt þeim. Hún mæti ekki í viðtöl til félagsráðgjafa en hafi mætt tvisvar til sálfræðings. Hún hafi hvorki mætt í Grettistak né til áfengisráðgjafa eða á fundi til að takast á við fíkniefnavanda sinn. Hún hafi sagt matsmanni að hún hafi byrjað í ágúst sl. á göngudeild hjá SÁÁ en þegar matsmaður óskaði eftir upplýsingum um mætingar hennar þar hafi hún ekki orðið við því. Þá hafi stefnda átt í stormasömum samböndum við tvo sambýlismenn sem báðir séu fíkniefnaneytendur.
Stefnda hafi haldið því fram að hún hafi ekki verið í neyslu frá því í árslok 2013. Hún hafi átt reglulega umgengni við barnið á heimili fósturforeldra frá því í febrúar fram í maí 2014. Erfiðleikar hafi þá komið upp í samskiptum hennar við fósturforeldrana og umgengni því legið niðri þar til í júní 2014 er félagsráðgjafi hafi verið fenginn til þess að fara með henni í umgengni. Umgengnin hafi þá gengið vel framan af sumri og hafi stefnda sýnt að hún vildi vera góð við barnið og jafnframt sýnt að hún búi yfir hæfni til að geta tengst því. Hins vegar hafi komið í ljós síðastliðið haust, þegar tíminn í umgengni hafi verið lengdur í þrjá tíma í senn, að hún sýndi lítið úthald og ekki rétta forgangsröðun. Hafi hún upp frá því farið að mæta stopult, hvorki afboðað né látið ná í sig. Stefnda hafi því aðeins hitt dóttur sína fimm sinnum frá því í haust af rúmlega þrjátíu mögulegum skiptum sem hún hefði getað hitt barnið í umgengni. Frá áramótum og fram að dagsetningu matsgerðar 27. janúar 2015 hafi stefnda ekki hitt barnið.
Í dagbók lögreglu frá 7. nóvember 2014 komi fram að fíkniefni hafi fundist á stefndu þar sem hún var í félagsskap sambýlismanns síns og var hún þá handtekin. Fram kemur í matsgerð að illa hafi gengið að fá stefndu til að mæta í lyfjaprófanir og séu því engar slíkar niðurstöður í málsgögnum frá því er hún mældist án vímuefna þann 11. ágúst 2014.
Í matsgerð segir að stefnda hafi sent matsmanni tölvupóst 17. desember sl. og komi þar fram mikið vonleysi og uppgjöf hjá stefndu. Hún virðist samt ekki gera sér grein fyrir samhengi sinnar eigin breytni og þess í hvaða farveg mál hennar hafa þróast og afneiti ennþá fíkniefnavanda sínum. Matsmaður segir að stefnda hafi sýnt fyrirhyggjuleysi og ístöðuleysi í gegnum allt matsferlið, þrátt fyrir að vera matsbeiðandi og að mikið væri í húfi fyrir framtíð hennar og barns hennar þar sem höfðað hefði verið forsjársviptingarmál gegn henni. Sé þessi hegðun hennar í samræmi við það sem komið hafi fram hjá öðrum aðilum málsins í gegnum vinnslu málsins sem hafi verið í gangi frá upphafi meðgöngu barnsins en þá hafi farið að berast tilkynningar til barnaverndar vegna neysluhegðunar stefndu.
Í niðurstöðukafla hins dómkvadda matsmanns segir m.a. að það sé álit hans að stefnda teljist ófær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi dóttur sinnar miðað við langvarandi alvarlegt ástand hennar og óviðunandi aðstæður. Ljóst sé að stefnda hafi lengi verið haldin alvarlegum og viðvarandi fíknisjúkdómi. Hún hafi takmarkaða innsýn í vanda sinn og hafi sýnt litla viðleitni og getu til að takast á við hann. Stefnda hafi sýnt að hún búi yfir hæfni til að tengjast barni sínu og aðilum beri saman um að hún hafi náð að tengjast því. Hún hafi jákvætt viðhorf til foreldrahlutverksins og ágæta innsýn í ýmsa þá hæfni sem þurfi að vera til staðar hjá foreldri. Hegðun hennar, sem tengist fíknisjúkdómi og alvarlegri andlegri vanheilsu, geri það að verkum að hún sé ófær um að annast barn sitt og því væri barninu hætta búin væri það eftirlitslaust við núverandi aðstæður í hennar umsjón. Ekki sé líklegt að önnur úrræði en forsjársvipting geti komið að gagni til að tryggja velferð barnsins.
III
Stefnandi byggir mál sitt á því að ákvæði a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Það þjóni best hagsmunum barnsins að svipta stefndu forsjá þess og koma því í varanlegt fóstur. Stefnanda beri skylda til að tryggja grundvallarréttindi barnsins samkvæmt barnaverndarlögum sem séu þau að það megi búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Að mati stefnanda séu önnur og vægari úrræði barnaverndarlaga fullreynd en ítrekaðar áætlanir um meðferð máls hafi ekki borið árangur. Stefnda hafi ekki verið tilbúin til samvinnu eða samstarfs með stefnanda með það að markmiði að sinna úrræðum eins og sálfræðiþjónustu eða stuðningi varðandi fíkniefnaneyslu og tilfinningalegan óstöðugleika.
Stefnda hafi byggt á því að þar sem hún sé hætt vímuefnaneyslu teljist hún hæf til að tryggja barninu viðunandi uppeldisskilyrði í sinni umsjá. Að mati stefnanda hafi stefnda skert innsæi í eigin getu og hæfni sem uppalandi. Hún telji sig ekki þurfa á aðstoð eða stuðningi að halda og sinni því ekki að mæta á fundi hjá sálfræðingi og félagsráðgjafa. Þrátt fyrir að umgengni stefndu við barnið hafi gengið vel þegar stefnandi hefur mætt í umgengni, telur stefnandi ástæðu til að hafa áhyggjur af almennu úthaldi hennar sem foreldri þegar tillit er tekið til hvernig stefnda hafi ráðstafað tíma sínum og barnsins í umgengninni. Jafnframt sé vísbending um að stefnda treysti á móður sína eða aðra utanaðkomandi til að aðstoða sig við uppeldi barnsins.
Að mati stefnanda sé niðurstaða forsjárhæfnismats og matsgerðar dómkvadds matsmanns afgerandi um að hæfni stefndu sem forsjáraðila sé ekki nægjanleg og hún teljist ekki hafa skilning á þörfum barnsins til að geta tryggt öryggi þess á eigin heimili. Telji matsmaður stefndu ekki hafa náð þeim þroska sem verði að teljast nægjanlegur til að sjá um barnið.
Barn stefndu hafi varið stærstum hluta ævi sinnar í umsjá fósturforeldra. Umönnun svo ungs barns verði að teljast krefjandi og reyni m.a. á persónulega þætti eins og tilfinningalegan stöðugleika, þolinmæði og umburðarlyndi sem stefnda búi ekki yfir að mati stefnanda. Með hliðsjón af því og fyrirliggjandi forsjárhæfnismati telji stefnandi öryggi barnsins ekki tryggt með öðru móti en að krefjast varanlegrar ráðstöfunar þess í fóstur hjá fósturforeldrum til átján ára aldurs.
Um lagarök er að öðru leyti vísað til barnaverndarlaga nr. 80/2002, samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992 og lög um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Stefnda viðurkennir að hafa átt í erfiðleikum með neyslu fíkniefna um tíma. Hún hafi hins vegar verið laus við slík efni núna um margra mánaða skeið eins og sjá megi af umfjöllun í nýrri matsgerð og auk þess hafi verið tekin af henni fíkniefnapróf á undanförnum mánuðum sem öll hafi verið neikvæð. Hún hafi því ekki átt við slík vandamál að etja í langan tíma. Rétt sé, sem fram komi í málavaxtalýsingu í stefnu, að stefnda hafi fallið í vímuefnabindindi sínu þegar barnið var tveggja mánaða. Vert sé þó að taka fram að barnið sjálft hafi ekki verið á heimili stefndu þegar þetta gerðist heldur hafi það verið hjá móður stefndu. Það hafi raunar aldrei komið til þess að barnið hafi verið í umsjá stefndu á meðan hún stundaði fíkniefnaneyslu. Barninu hafi liðið vel á heimili móður stefndu sem ávallt hafi stutt hana þegar hún hafi þurft á því að halda. Þrátt fyrir þetta hafi barninu verið ráðstafað í fóstur til ókunnugra. Telur stefnda það benda til þess að allt frá upphafi hafi átt að taka barnið af henni og veita henni ekki nokkurn möguleika til þess að sýna fram á hæfni sína til þess að fara með forsjá barnsins. Stefnandi telur þá ákvörðun að vista barnið utan heimilis hjá ókunnugum gagnstætt ákvæðum reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 en í 18. gr. reglugerðarinnar komi fram að barnaverndarnefnd skuli meta hvort það þjóni hagsmunum barns að vera ráðstafað í fóstur til ættingja.
Umgengni stefndu við barnið á meðan á vistun þess utan heimilis hefur staðið hafi almennt gengið vel og sé það í samræmi við niðurstöðu matsmanns. Veruleg tengsl séu milli barnsins og stefndu sem megi ekki slíta. Telur stefnda augljóst að það sé ekki í samræmi við hagsmuni barnsins að slíta þessi tengsl. Telur stefnda augljóst að umgengni hennar við barnið muni minnka verulega verði hún svipt forsjá. Allir þeir sem koma að málefnum barnsins virðist sammála um að stefnda sinni dóttur sinni vel í umgengni og hafi góð tök á foreldrahlutverkinu. Hún hafi þó aldrei fengið tækifæri til þess að sýna fram á að geta séð um hana til lengri tíma þrátt fyrir að hafa ítrekað óskað eftir því við starfsmenn stefnanda.
Í umfjöllun stefnanda í stefnu komi fram að til staðar séu vísbendingar um að stefnda treysti um of á móður sína eða aðra utanaðkomandi við uppeldi barnsins. Því sé stefnda verulega ósammála og telur hún engin gögn í málinu benda að nokkru leyti til þess. Móðir hennar sé henni vissulega mikill stuðningur. Stefnda sé ung og því ekkert óvenjulegt að móðir hennar hafi hjálpað henni í tengslum við foreldrahlutverkið eða muni hjálpa henni þegar barnið dvelur hjá henni verði hún sýknuð af kröfu stefnanda.
Rétt sé það sem fram komi í stefnu að stefnda hafi ekki ávallt sinnt öllum þeim stuðningi sem hún hafi átt kost á. Hún telur það þó ofsögum sagt að hún sinni aldrei þeim stuðningsúrræðum sem hún hefur átt völ á. Hún hafi þegið stuðning frá félagsþjónustu [...] og sé í dag á námskeiði til þess að byggja sig upp sem kallist [...] og sé á vegum [...], [...]. Markmið námskeiðsins sé að þjálfa atvinnutengda hegðun einstaklinga og aðstoða þá við að komast aftur í nám eða atvinnu. Þá muni stefnda hefja námskeið í hugrænni atferlismeðferð í kjölfar þess námskeiðs.
Í stefnu sé vísað til atvika þar sem lögregla hafi verið kölluð til á heimili stefndu. Stefnda telur það fyrst og fremst vera vegna erfiðs sambands sem hún hafi átt við þann einstakling sem nafngreindur sé í gögnunum. Því sambandi sé lokið.
Stefnda krefst sýknu af kröfu stefnanda um að hún verði svipt forsjá og telur það andstætt hagsmunum dóttur sinnar. Skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga séu ekki uppfyllt svo hægt sé að svipta stefndu forsjá. Styðja eigi stefndu til þess að fá barnið aftur inn á heimili hennar, barni og foreldri til hagsbóta.
Stefnandi geri kröfu um að stefnda verði svipt forsjá samkvæmt a. lið og d. lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Í a. lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga felist að barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldri sé svipt forsjá ef daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Stefnda telur engin gögn í málinu benda til þess að stefnda hafi ekki þá hæfileika sem þarf til þess að sjá um barn. Frá því að stefnda hætti neyslu vímuefna hafi hún aldrei fengið tækifæri til þess að sýna fram á að hún geti séð um barnið í lengri tíma í einu. Stefnda hafi ekki fengið að vera með barnið yfir nótt eða í raun lengur en örfáar klukkustundir í senn. Það sé á ábyrgð stefnanda og því alls ósannað að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum stefndu og barnsins sé ábótavant. Öll gögn málsins bendi til þess að samskipti stefndu og barnsins séu með ágætum.
Í d. lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga felist að barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldri sé svipt forsjá ef fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Stefnda telur ofangreint ákvæði ekki uppfyllt gagnvart henni. Líkamleg eða andleg heilsa barnsins í umsjá stefndu hafi aldrei verið í nokkurri hættu eftir að barnið fæddist. Þegar stefnda féll á fíkniefnabindindi sínu hafi hún verið búin að koma barninu fyrir hjá móður sinni. Barnið hafi því aldrei verið í umsjá stefndu þegar hún hafi verið að neyta fíkniefna. Stefnda telur sig ekki augljóslega vanhæfa til þess að fara með forsjána vegna vímuefnaneyslu, enda hafi hún ekki neytt fíkniefna um langt skeið. Stefnda telur sig ekki vera með geðrænar truflanir af nokkru tagi þó að hún hafi þjáðst af kvíða og þunglyndi einhvern tímann á lífsleiðinni. Það sé jafnframt í samræmi við niðurstöður matsmanns stefnanda um forsjárhæfni stefndu. Þá telur stefnda engin gögn benda til þess að breytni stefndu sé líkleg til þess að valda barninu alvarlegum skaða. Það að stefnda hefði getað sinnt endurhæfingu sinni betur geti ekki eitt leitt til þess að hún sé þar með vanhæf til þess að fara með forsjá barns. Stefnda hafi með góðum stuðningi vina og vandamanna haldið sér vímuefnalausri í langan tíma. Hún sé komin með eigin íbúð og hætt í sambandi við aðila sem hafi verulega slæm áhrif á hana. Ekkert bendi til þess að hún geti ekki séð um barnið. Hún eigi að minnsta kosti að fá tækifæri til þess að sýna fram á að hún geti séð um barnið til lengri tíma.
Á stefnanda hvíli sú skylda samkvæmt 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, 1. mgr. 56. gr. sömu laga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin sé ákvörðun í því. Stefnda telur stjórnvaldið ekki hafa sinnt skyldu sinni áður en starfsmenn stefnanda ákváðu að leggja til forsjársviptingu samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga. Fjölmörg atriði hafi ekki verið könnuð til hlítar.
Á stefnanda hvíli sú skylda samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að gera ekki kröfu um sviptingu forsjár fyrir dómstólum nema ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Stefnda telur að vegna málsmeðferðar stefnanda í máli þessu sé verulegur vafi á því hvort skilyrði meðalhófsreglu barnaverndarlaga séu uppfyllt.
Stefnda telur veikleika sína hvað varðar forsjárhæfni ekki vera mikla þegar miðað sé við þau mál þar sem forsjársviptingu hafi verið beitt á undanförnum árum. Hún sé ung og hafi sýnt að hún geti haldið sig frá vímuefnum í langan tíma. Hún tengist barninu og barnið tengist henni á eðlilegan hátt. Þau mál þar sem forsjársviptingu sé beitt hafi undantekningarlítið verið hjá einstaklingum sem hafi verið forfallnir fíkniefnaneytendur og átt í verulegum erfiðleikum í einkalífi sínu til margra ára vegna neyslu eða annarra geðrænna kvilla. Stefnda telur verulegan fjölda ungra mæðra hafa staðið í þeim sporum sem hún hefur staðið í án þess að forsjársviptingu hafi verið beitt. Telur stefnda óskiljanlegt hvers vegna henni séu ekki veitt sömu tækifæri og öðrum til þess að sýna fram á forsjárhæfni sýna.
Stefnda byggir kröfu um sýknu á barnaverndarlögum nr. 80/2002, m.a. 29., 41. og 56. gr. laganna. Stefnda byggir einnig á 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krafa um málskostnað styðjist aðallega við 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu F, fósturmóðir C, G, starfsmaður barnaverndarnefndar, og matsmaðurinn E.
IV
Í málinu gerir stefnandi kröfu um að stefnda verði varanlega svipt forsjá dóttur sinnar, C. Byggir krafan á a. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 þar sem kveðið er á um að heimilt sé að gera slíka kröfu telji barnaverndarnefnd að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri barnsins og þroska, fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Segir jafnframt í 2. mgr. 29. gr. laganna að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.
Eins og að framan er rakið hafa málefni stefndu verið til skoðunar hjá barnaverndaryfirvöldum alveg frá því að stefnda var í 8. bekk í grunnskóla og þá byrjuð að neyta fíkniefna. Var hún þá send í meðferð en án árangurs. Þegar hún var þunguð af barni sínu C var hún í neyslu vímuefna á meðgöngutímanum alveg þar til þrír mánuðir voru eftir af meðgöngu en þá var hún vistuð á meðferðarstofnun. Eftir fæðingu barnsins [...] 2013 samþykkti stefnda að dvelja hjá tilsjónarfjölskyldu á vegum barnaverndaryfirvalda en hún féll hins vegar í neyslu í [...] 2013 þegar barnið var tveggja mánaða gamalt. Fór barnið þá til móður stefndu. Með úrskurði barnaverndaryfirvalda var barnið vistað utan heimilis frá 3. október 2013, sbr. b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Frá þeim tíma hefur barnið dvalið hjá fósturforeldrum.
D sálfræðingur hefur í tvígang unnið sálfræðiskýrslu fyrir stefnanda til þess að kanna hagi stefndu. Sú fyrri var unnin á meðgöngutíma barnsins en sú síðari er dagsett 30. júní 2014 og var gerð til þess að kanna forsjárhæfni stefndu. Niðurstaða D í seinna matinu var afdráttarlaus um að stefnda hefði ekki náð nægilegum þroska til þess að vera hæf til þess að sjá um dóttur sína. Hún hafi ekki nægilega hæfni eða skilning á þörfum dóttur sinnar til þess að geta tryggt öryggi hennar á eigin heimili. Niðurstaða hins dómkvadda matsmanns, E sálfræðings, var á sömu lund. Ekki sé líklegt að önnur úrræði en forsjársvipting sé líkleg til þess að tryggja velferð barnsins vegna vanhæfni stefndu til þess að sinna daglegri umönnun barnsins. Hún hafi alvarlegan og viðvarandi fíknisjúkdóm og hafi lítið innsæi í sjúkdóm sinn og þess vegna sýnt litla viðleitni til þess að takast á við hann. Hegðun, sem tengist fíknisjúkdómi hennar, og alvarleg andleg vanheilsa geri það að verkum að hún sé ófær um að annast barn sitt.
Af gögnum málsins verður ráðið að úrræði samkvæmt 23. gr. laga nr. 80/2002 hafa verið reynd frá því að barnaverndaryfirvöld hófu afskipti af málefnum stefndu án þess að hafa skilað tilætluðum árangri. Lögð voru til ýmis úrræði til að örva tengslamyndun móður og barns og til þess að styðja móður í að takast á við fíkniefnavanda sinn. Var henni m.a. fylgt eftir í meðferð á Vog í sex skipti, Hlaðgerðarkot og geðdeild en árangurs. Henni var veitt ýmis einstaklingsmiðuð ráðgjöf, fjárhagsaðstoð o.fl. Hún sinnti úrræðum takmarkað, erfitt reyndist að ná í hana og hún sýndi lítið frumkvæði. Frá því um síðustu áramót hafa barnaverndaryfirvöld ekki náð tali af stefndu og er því ekkert vitað um hagi hennar frá þeim tíma, t.d. hvar hún býr núna og við hvaða aðstæður. Stefnda mætti ekki fyrir dóm til þess að gefa skýrslu. Fullreynt er því í málinu að úrræði stefnanda hafa ekki komið að gagni til þess að snúa málefnum stefndu til betri vegar til hagsbóta fyrir hana.
Þá verður ekki fallist á þau sjónarmið stefndu, sem fram koma í greinargerð hennar, að stefnandi hafi ekki gætt að reglum barnaverndar- og stjórnsýslulaga um meðalhóf og að upplýsa málið áður en ákvörðun var tekin í því.
Eins og fram kemur hér að ofan vitna gögn málsins um að öll úrræði hafi verið reynd og stefndu gefin ótal tækifæri til að bæta sig án sýnilegs árangurs. Óljóst er um búsetu stefndu, með hverjum hún býr, hverja hún umgengst og ekki er vitað um hvaða aðbúnað hún getur boðið barninu. Fram kom að stefnda þiggur fjárhagsaðstoð frá [...] þar sem hún er nú skráð til heimilis. Hún hefur ekki sinnt þeim meðferðarúrræðum sem henni hafa staðið til boða og erfiðleikar hins dómkvadda matsmanns við að ná til stefndu meðan á matsferlinu stóð benda ekki til raunverulegs vilja hennar, getu eða metnaðar til að annast um barnið. Dómurinn tekur því undir það með matsmönnum að allt bendi til þess að stefnda eigi við viðvarandi fíknivanda að stríða, auk fjölþætts og alvarlegs geðræns vanda. Þroska stefndu virðist ábótavant og að hana skorti innsæi til að geta sinnt viðeigandi meðferð. Auk þess vantar hana samstarfshæfni sem er nauðsynleg til að geta alið upp barnið.
Í gögnum málsins kemur fram að stefnda hefur mjög lítið umgengist barnið frá fæðingu þess og sýnt lítinn áhuga á að rækta þau tengsl með umgengni. Frá því í haust hefur hún sinnt umgengni fimm sinnum en samkvæmt samningi hefðu þau skipti getað verið yfir þrjátíu. Þegar tillit er tekið til ungs aldurs barnsins, hve lítil og stopul tengsl hafa verið á milli móður og barns, þarfa barnsins fyrir öryggi, stöðugleika og heilbrigðra uppeldisskilyrða, er það mat dómsins að ekki sé annað fært en að verða við kröfu stefnanda í málinu.
Samkvæmt því sem að framan er rakið og með hagsmuni telpunnar að leiðarljósi verður að fallast á það með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/9002 til að svipta stefndu forsjá telpunnar.
Stefnandi hefur ekki krafist málskostnaðar. Málskostnaður fellur niður milli aðila. Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., 700.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Helga Viborg og Guðfinnu I. Eydal sálfræðingum.
D Ó M S O R Ð
Stefnda, A, kt. [...], er svipt forsjá yfir barninu, C, kt. [...].
Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., 700.000 krónur.