Hæstiréttur íslands

Mál nr. 641/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 14. desember 2010.

Nr. 641/2010.

MP banki hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Tomas Tolpezninkas

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M hf. á hendur T var vísað frá dómi af sjálfsdáðum þar sem málatilbúnaður hans þótti svo vanreifaður og óljós að dómur yrði ekki lagður á kröfu hans. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að engin grein sé gerð fyrir því hvers konar viðskipti M hafi átt fyrir T eða hvers vegna krafa M sé gerð í evrum og hvar sé að finna heimild til þess. Séu ágallar á stefnu slíkir að í bága fari við d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Frekari gögn bárust Hæstarétti 23. nóvember 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum tildæmdur kærumálskostnaður.

Við þingfestingu málsins í héraði lagði sóknaraðili fram fjögur skjöl, auk stefnu, birtingarvottorðs og skrár um framlögð skjöl. Um var að ræða yfirlit um hreyfingar á reikningi varnaraðila það tímabil, sem viðskipti aðila stóðu frá 24. janúar 2007 til 10. desember 2008, almenna markaðsskilmála fyrir viðskiptamenn sóknaraðila, yfirlit um skiptasamninga og afrit eins undirritaðs skiptasamnings.

Í stefnu er í kafla um ,,Málsatvik og helstu málsástæður“ gerð grein fyrir því að varnaraðili hafi óskað eftir viðskiptum við sóknaraðila og þau hafist 24. janúar 2007. Varnaraðili hafi ritað undir almenna markaðsskilmála fyrir viðskiptamenn sóknaraðila 5. desember sama ár og gildi þeir skilmálar um réttarsamband aðila. Viðskiptin hafi staðið tilgreint tímabil og varnaraðili staðið í skuld við lok þeirra sem nemi 275.584,32 evrum. Allir samningar varnaraðila hafi verið gerðir upp með vísan til 15. og 16. kafla áðurnefndra markaðsskilmála. Þar sem varnaraðili hafi ekki greitt skuldina sé málshöfðun sóknaraðila nauðsynleg. Loks er í stuttu máli fjallað um varnarþing og hvar í markaðsskilmálum megi finna grundvöll kröfu um dráttarvexti.

Ekki er gerð grein fyrir því hvers konar viðskipti sóknaraðili hafi átt fyrir varnaraðila. Ekki er að finna lýsingu á því hvar í framlögðum markaðsskilmálum sé að finna umboð fyrir sóknaraðila til að gera ráðstafanir sem skuldbindi varnaraðila og engin viðleitni er til þess í stefnu að tengja heimildarákvæði í markaðsskilmálum og ráðstafanir sem sóknaraðili gerði og skuldbinda eiga varnaraðila. Þá er engin grein gerð fyrir því hvers vegna krafa sóknaraðila er gerð í evrum og hvar sé að finna heimild til þess.

Ágallar á stefnu eru slíkir að í bága fer við d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Fallist er á með héraðsdómi að úr þessum annmörkum hafi ekki verið bætt við meðferð málsins. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins samkvæmt því staðfest. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, MP banki hf., greiði varnaraðila, Tomas Tolpezninkas, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2010.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 13. október 2010, var höfðað 15. maí 2009.  Stefnandi er MP banki hf., Skipholti 50d, Reykjavík, en stefndi er Tomas Tolpezninkas, Vilnius, Litháen. 

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda EUR 275.584,32 með dráttarvöxtum samkvæmt eins mánaðar EURIBOR millibanka­vöxtum, eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma og birtir kl. 11 að morgni að staðartíma í Brussel á Reuterskjá EURIBOR01, auk 7,5% vaxtaálags frá 10. desember 2008 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega.  Þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu skuldar sem hann kveður standa eftir á reikningi hans hjá stefnanda eftir að allir samningar við hann hafi verið gerðir upp.  Ber aðilum ekki allskostar saman um málavexti.

Stefnandi kveður forsögu máls þessa vera þá að stefndi hafi leitað til stefnanda og óskað eftir því að stofna til viðskipta.  Hafi fyrstu viðskipti stefnanda verið 24. janúar 2007.  Hinn 5. desember 2007 hafi stefndi skrifað undir Almenna markaðsskilmála fyrir viðskiptamenn stefnanda.  Kveður stefnandi að viðskipti stefnda hafi staðið yfir allt frá 24. janúar 2007 til 10. desember 2008 en þá hafi stefndi verið í skuld við stefnanda sem nemi 275.584,32 evrum, sem sé stefnufjárhæð málsins.  Með vísan til 15. kafla markaðsskilmála um skuldajöfnuð og 16. kafla um gjaldfellingu hafi allir samningar við stefnda verið gerðir upp.

Stefndi kveðst hafa lagt inn peninga í útibúi stefnanda í Litháen og hjá stefnanda á Íslandi í byrjun árs 2007.  Hann kveðst ekki hafa undirritað samkomulag við stefnanda þegar hann hafi lagt fjármagn inn á reikninga bankans og ekki hafa fengið yfirlit yfir þá þjónustu sem bankinn hafi veitt honum.  Þá hafi stefndi ekki veitt stefnanda umboð til þeirra fjármálagerninga sem stefnandi lýsi að hann hafi gert fyrir hönd stefnda.  Hafi stefnda heldur ekki verið veittar upplýsingar um þjónustu stefnanda, fjárfestinga­kosti eða þá áhættu sem fjárfestingum fylgi og ekkert mat hafi farið fram af hálfu stefn­anda á stefnda með tilliti til þess hvort umrædd þjónusta væri viðeigandi fyrir hann.  Hafi stefndi talið að engin viðskipti myndu eiga sér stað með þá fjármuni sem hann hafi lagt inn á reikning hjá stefnanda nema að hans beiðni.  Hafi stefndi ekki óskað eftir neinum af þeim viðskiptum sem yfirlit stefnanda beri með sér, en þau hafi að mestu falist í kaupum og sölum á ýmsum verðbréfum í fyrirtækjum, einkum lithá­ensk­um fyrirtækjum.

Þá hafi stefndi ekki undirritað samþykkisform sem gert sé ráð fyrir í grein 1.5 í markaðsskilmálum stefnanda en það sé forsenda fyrir skuldbindingargildi skilmál­anna.  Þá kveðst stefndi ekki hafa fengið tilkynningu um uppgjör samninganna sem stefndi kveði að hafi farið fram 10. desember 2008 og hafi hann fyrst frétt af þessum viðskipt­um og meintri skuld í kjölfar málshöfðunar þessarar.

Í upphafi krafðist stefndi frávísunar málsins en með úrskurði, uppkveðnum 14. desember 2009, var þeirri kröfu hafnað.

III

Stefnandi byggir á því að umræddir samningsskilmálar sem stefndi hafi undirritað 5. desember 2007 gildi um réttarsamband aðila.  Hafi viðskipti stefnda staðið yfir frá 24. janúar 2007 til 10. desember 2008 og hafi stefndi þá verið í skuld við stefnanda sem nemi stefnufjárhæð málsins.  Á grundvelli markaðsskilmálanna, 15. og 16. kafla, hafi allir samningar við stefnda verið gerðir upp hinn 10. desember 2008.

Þar sem stefndi hafi ekki greitt fyrrgreinda skuld sé stefnanda nauðsyn að leita atbeina dómstóla við innheimtu skuldarinnar.  Umsamið varnarþing samkvæmt 24.1. grein fyrrgreindra markaðsskilmála sé við Héraðsdóm Reykjavíkur og sé því málinu stefnt þar, sbr. einnig 3. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Ekki séu til staðar neinar sérreglur um varnarþing sem raski gildi V. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991.

Krafa um dráttarvexti sé byggð á grein 16.9 (b) í framangreindum markaðsskilmálum.

Stefnandi kveðst reisa kröfu sína á almennum reglum fjármunaréttarins um ábyrgð á fjár­­skuldbind­ingum og skuldbindingargildi samninga, auk almennra reglna um við­skipti viðskiptamanna við banka og fjárfestingarbanka.  Að auki vísar stefnandi til laga nr. 33/2003 og laga nr. 108/2001 um verðbréfaviðskipti og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Um dráttarvexti vísar stefnandi til 2. ml. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu en aðilar hafi samið um fastan hundraðshluta dráttarvaxta i grein 11.8 (b) í markaðsskilmálum stefnanda.  Um málskostnað vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt varðandi virðisaukaskatt á málflutningsþóknun en stefnandi sé ekki virðis­auka­skatt­skyld­ur.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þau viðskipti sem stefnandi hafi átt með fjármagn á reikningi hans hafi farið fram án samþykkis stefnda og sé hann því ekki skuldbundinn til að greiða þá skuld sem rekja megi til viðskiptanna.  Þar sem um algjöran heimildar- og umboðsskort stefnanda hafi verið að ræða sé nánar tiltekið byggt á því að umræddar færslur séu ekki skuldbindandi fyrir stefnda í samræmi við megin­reglur samningaréttar.  Þessar færslur hafi hafist samkvæmt fullyrðingum stefn­anda hinn 24. janúar 2007 en þá hafi ekki verið stofnað til nokkurs samkomulags milli málsaðila um heimild stefnanda til að nýta fjármagn á umræddum reikningi stefnda til verð­bréfaviðskipta. 

Stefndi byggir á því að hinir svokölluðu markaðs­skilmálar, sem stefnandi kveði hann hafa undirritað 5. desember 2007, breyti engu hér um enda séu þeir ekki afturvirkir og auk þess hafi stefnandi ekki samþykkt þá með bind­andi hætti.  Fram komi í grein 1.5 í skil­málun­um að viðskiptavinur samþykki skilmálana með því að skrifa undir svokall­að samþykkisform (e. approval form).  Stefndi kannist ekki við að hafa undirritað slíkt form og liggi það ekki fyrir í gögnum málsins.  Þá telur stefndi að það umboð sem fylgi dómskjali 4 hafi enga þýðingu enda hafi það ekki verið fyllt út með fullnægjandi hætti og vanti þar mikilvægar upplýsingar.  Tilgangur umboðsins virðist vera að veita tiltekn­um starfsmanni stefnanda heimild til viðskipta fyrir hönd stefnanda.  Hins vegar hafi láðst að tilgreina hvaða starfsmanni sé veitt umboðið en umboð þar sem umboðs­maður sé ekki skýrlega tilgreindur geti sýnilega ekki verið gilt.  Samkvæmt þessu telji stefndi að stefnandi hafi ekki haft heimild til að framkvæma færslur fyrir hans hönd.  Verði talið að stefndi hafi með einhverjum hætti samþykkt umrædda skilmála sé byggt á því að hann hafi hvorki óskað eftir né samþykkt færslur stefnanda svo sem gert sé ráð fyrir í 6. kafla skilmálanna, sbr. nánar grein 6.1.  Geti stefndi því ekki verið bund­inn af færslunum.

Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið sýnt fram á að skuldin sé til staðar og að hún nemi þeirri fjárhæð sem greini í kröfugerð stefnanda.  Eingöngu liggi fyrir einhliða yfirlit stefnanda sem enga þýðingu geti haft og vefengi stefndi að umræddar færslur hafi í raun átt sér stað en sönnunarbyrðin fyrir því hvíli á stefnanda.

Verði ekki fallist á framangreint sé í þriðja lagi byggt á því að víkja beri meintu samkomulagi til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr.7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Stefndi telur að það sé verulega ósanngjarnt fyrir stefnanda að bera samkomulagið fyrir sig með hliðsjón af stöðu samningsaðila og því að stefnandi hafi þverbrotið þær skuldbindingar sem hvílt hafi á honum samkvæmt II. kafla þágildandi laga nr. 33/2002 um verðbréfaviðskipti, sbr. nú II. kafla laga nr. 108/2007.  Stefndi sé almennur fjárfestir í skilningi 11. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 og hvíli því sérstaklega ríkar skyldur á stefnanda gagnvart honum til að tryggja að hagsmunir hans séu hafðir að leiðarljósi.  Hafa verði í huga að staða samningsaðila sé verulega ójöfn þar sem annars vegar sé um að ræða einstakling sem hafi ekki sérþekkingu á viðskiptum og hins vegar umsvifamikið fjármálafyrirtæki sem hafi atvinnu af verð­bréfa­viðskiptum. 

Ekki verði séð að stefndi hafi sinnt þeirri skyldu sinni að gera skriflegan samning við stefnda áður en félagið tók að sér þjónustu fyrir hann á sviði verðbréfaviðskipta svo sem félaginu hafi verið skylt sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2003, sbr. nú 1. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007.  Jafnframt virðist stefnandi ekki hafa sinnt skyldu sinni til upp­lýsinga­öflunar og mats á því hvort sú þjónusta sem félagið veitti stefnda væri við­eig­andi fyrir hann, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 33/2003, sbr. nú 15. og 16. gr. laga nr. 108/2007 svo og 4. kafla þeirra skilmála sem stefnandi byggi á að eigi við í málinu.  Þá hafi stefnandi ekki veitt stefnda greinargóðar upplýsingar um þá fjárfestingakosti sem staðið hafi honum til boða, en sérstaklega sé tekið fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 33/2003 að slíkar upplýsingar skuli vera skýrar, nægjanlegar og ekki villandi til að við­skiptavinir geti tekið upplýsta fjárfestingaákvörðun.  Þessi ákvæði séu sett til verndar viðskiptavinum fjármálafyrirtækja og sé ætlunin að tryggja að metið sé fyrir fram hvort tiltekin tegund viðskipa sé viðeigandi fyrir viðskiptavininn og að viðkom­andi geti tekið upplýsta ákvörðun.  Því fari fjarri að þessu hafi verið fylgt í viðskiptum aðila.

Að þessu virtu telur stefndi ljóst að stefnandi hafi brotið með margvíslegum hætti gegn skyldum sínum sem fjármálafyrirtæki sem veiti verðbréfaþjónustu og að afleið­ing þess sé sú að hagsmunir stefnda hafi ekki verið virtir en það sé í skýrri andstöðu við II. kafla laga nr. 33/2001, sbr. nú II. kafla laga nr. 108/2007.  Jafnframt hafi stefnandi brotið gegn ýmsum þeirra skilmála sem hann telji að gildi um viðskipti aðila.  Til dæmis virðist færslur hafa verið framkvæmdar án þess að beiðni um slíkt hafi verið gerð sem sé í andstöðu við 6. kafla.  Þá hafi stefnda ekki verið sendar til­kynn­ingar um færslur svo sem mælt sé fyrir um í grein 18.1 í skilmálunum, en auk þess virðist ekkert mat á þekkingu og reynslu stefnda hafa farið fram í samræmi við 2. kafla skilmálanna.  Telur stefndi því að það sé verulega ósanngjarnt af hálfu stefnanda að halda því fram að stefndi sé bundinn af umræddum viðskiptum.  Séu því uppfyllt skil­yrði til að beita ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936. 

Stefndi telur jafnframt að stefnandi geti ekki borið fyrir sig viðskiptin þar sem það sé óheiðarlegt í skilningi 33. gr. laga nr. 7/1936 og vísist um það til framangreindra röksemda.

Í fjórða lagi sé krafa stefnda byggð á því að hvorki hafi verið uppfyllt skilyrði til að beita skuldajöfnuði samkvæmt 15. kafla markaðsskilmálanna né til gjaldfellingar samkvæmt 16. kafla skilmálanna.  Stefnandi hafi ekki að neinu leyti útskýrt með hvaða hætti skilyrði ákvæða kaflanna séu uppfyllt eða hvernig þeim hafi verið beitt.  Með vísan til þessa telur stefndi að það sé ekki komin fram sönnun þess að hann sé í skuld við stefnanda en það falli að sjálfsögðu í hlut stefnanda að sýna fram á réttmæti kröfu sinnar.  Sérstaklega skuli tekið fram að það sé skilyrði gjaldfellingar samkvæmt 16. kafla skilmálanna að viðskiptavinur hafi vanefnt skuld­bind­ing­ar sínar með venju­leg­um hætti (e. substantial default) og séu þeir atburðir sem teljist til verulegra van­efnda taldir upp með tæmandi hætti í grein 16.3.  Ekki verði séð að neinn þessara atburða hafi átt sér stað en þegar af þeirri ástæðu hafi stefnanda verið óheimilt að beita ákvæð­um kaflans um gjaldfellingu.  Þá sé vísað til þess að sam­kvæmt grein 16.4 beri stefnanda að tilkynna viðskiptavini um það ef samningnum sé lokað vegna verulegrar vanefndar og verði slík tilkynning að fullnægja þeim form­kröf­um sem raktar séu í grein 14.8.  Hafi þetta skilyrði heldur ekki verið uppfyllt í því tilviki sem hér sé til skoðunar og verði því að sýkna stefnda. 

Þá sé í fimmta lagi á því byggt að stefnandi hafi ekki gætt hagsmuna stefnda sem skyldi.  Fyrir liggi að umtalsvert tap hafi orðið af viðskiptunum og sé byggt á því að stefnandi hafi ekki lokað samningnum svo fljótt sem rétt hefði verið en með því hafi hann brotið gegn þeirri skyldu sinni að takmarka tjón stefnanda eins og framast hafi verið unnt.

Hvað snertir varakröfu stefnda um lækkun þá mótmælir hann dráttarvaxtakröfu stefnanda.  Sé hún byggð á grein 16.9 (b) í markaðsskilmálum.  Stefndi sé ekki bundinn af þeim skilmálum enda hafi hann ekki samþykkt þá með bindandi hætti.  Í öllu falli telur stefndi að ekki sé unnt að dæma dráttarvexti vegna færslna sem átt hafi sér stað áður en stefnandi telji stefnda hafa samþykkt skilmálana.  Þá byggir stefndi á því að stefnanda hafi verið óheimilt að gera kröfu á stefnda í evrum þar sem færslurnar séu að meginstefnu til í öðrum gjaldmiðlum.  Með hliðsjón af þessu geti grein 16.9 (b) ekki átt við um dráttarvaxtakröfuna og sé hún því sett fram á röngum grunni.  Þá telur stefndi að ekki sé unnt að dæma dráttarvexti frá 10. desember 2008 svo sem byggt sé á í stefnu heldur geti það í fyrsta lagi komið til greina frá dómsupp­sögu enda hafi stefnda fyrst orðið kunnugt um kröfuna þegar stefna var birt í málinu, sbr. til hliðsjónar 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Að öðru leyti en að framan greinir vísar stefndi um lagarök til almennra reglna samningaréttar.  Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga um meðferð einka­mála. 

V

Við aðalmeðferð málsins komu upp álitaefni sem rétt þykir að leysa úr fyrst áður en kemur að því að leysa úr þeim meginágreiningi sem er til meðferðar í máli þessu.  Í fyrsta lagi gerði lögmaður stefnda athugasemdir við þá ákvörðun dómara að heimila lögmanni stefnanda síðbúna gagnaframlagningu auk þess sem athugasemd var gerð við að umrædd gögn væru ekki á íslensku. 

Samkvæmt 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er aðilum jafnan óheimilt að leggja fram sýnileg sönnunargögn eftir að ákveðin hefur verið aðalmeð­ferð og gagnaöflun lýst lokið.  Frá þessu getur dómari vikið meðal annars ef ekki hefur áður verið unnt að afla gagnsins og byggði dómari afstöðu sína á þeim rökum þar sem lögmaður stefnanda hafði ekki fengið það í hendur fyrr en skömmu fyrir aðalmeðferð.  Þá var lögmanni stefnda gefinn kostur á að fá frest til að kynna sínum umbjóðanda gagnið, sem hann taldi óþarft, og varð því engin töf á málinu af þessum sökum.  Varðandi athugasemdir um að skjalið sé ekki á íslensku þá var það mat dómara að hann teldi sér fært að þýða þann hluta skjalsins sem stefnandi hugðist byggja á,  sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála, en texti þess hluta skjalsins er stuttur og á ensku. 

Við aðalmeðferð málsins mótmælti lögmaður stefnda sem of seint framkominni þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi hefði með athafnaleysi sínu samþykkt viðskipti þau sem krafa stefnanda byggi á, en ekki hefði verið á henni byggt í stefnu.  Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til en að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina gegn mótmælum gagnaðila.  Ekki verður séð að stefnandi hafi haft tilefni til að koma fram með málsástæðu þessa fyrr en eftir að greinargerð stefnda lá fyrir og þá við munnlegan málflutning í málinu og verður því ekki fallist á að sú málsástæða sé of seint fram komin.

Stefnandi gerði athugasemdir við það í munnlegum málflutningi að sú málsástæða stefnda að stefnanda væri óheimilt að gera kröfu sína í evrum væri of seint fram kom­in þar sem hennar væri ekki getið í greinargerð.  Af greinargerð stefnda þykir ljóst að sú málsástæða er höfð þar uppi og er hún því ekki of seint fram komin.

Eins og fram er komið krafðist stefndi þess í upphafi að málinu væri vísað frá dómi.  Byggði hann frávísunarkröfu sína fyrst og fremst á því að íslenskir dómstólar hefðu ekki lögsögu í málinu, íslensk lög giltu ekki um ágreining aðila og að málið væri vanreifað.  Með úrskurði uppkveðnum 14. desember 2009, var frávísunarkröfu stefn­anda hafnað meðal annars með þeim rökum að dómkrafa stefnanda væri skýr og að sakarefninu og grundvelli málsins væri nægilega lýst í stefnu, þótt lýsing þar um viðskipti aðila væri rýr.  Þannig þóttu ekki næg rök til að vísa málinu frá dómi þrátt fyrir fátæklegan málatilbúnað en með því var stefnanda gefinn kostur á því að bæta úr þeim annmarka undir rekstri málsins.

Stefnandi reisir kröfu sína á reikningsyfirliti sem samanstendur af 201 færslu.  Af færslum þessum er ljóst að um er að ræða margháttuð fjármálaviðskipti sem hófust 24. janúar 2007 og lauk 10. desember 2008.  Yfirlitið ber með sér að ýmist er lagt inn á reikning stefnda eða tekið út af honum og fjárhæðir eru þar ýmist færðar í litháenskum gjaldmiðli, norskum krónum eða evrum.  Þá er niðurstaða reikningsins á hverjum tíma ávallt færð í evrum. 

Þrátt fyrir það að áður hafi verið komist að því að málatilbúnaður stefnanda væri nægilega skýr til að stefndi gæti gert sér grein fyrir kröfunni og tekið til varna, verður ekki fram hjá því litið að umrætt reikningsyfirlit ber með sér að krafan er samsett úr fjöldamörgum færslum sem virðast vera um allflókin viðskipti sem stefnandi hefur gert, með réttu eða röngu, í umboði stefnda.  Bera gögn málsins með sér að um var að ræða flókna viðskiptasamninga þar sem fjármunir eru teknir út af reikningi stefnda til að kaupa hluti í fyrirtækjum og fjármunir lagðir inn á reikninginn vegna sölu á hlutum í fyrirtækjum.  Þá eru millifærðar háar peningafjárhæðir inn og út af reikningnum og þóknun greidd. 

Þá er þess að geta að í málinu liggja frammi þrjár mismunandi útgáfur af yfirlitum yfir færslur á reikningi stefnda vegna ársins 2007.  Hér er um að ræða yfirlit það sem stefnandi byggir kröfur sínar á og svo tvö önnur, annars vegar skjal nr. 29 sem stefndi lagði fram og ber með sér að stafa frá stefnanda og hins vegar skjal sem virðist hafa verið sent stefnda með tölvupósti 10. apríl 2008, sbr. dómskjal nr. 17.  Í yfirliti því sem stefnandi byggir á eru ekki færslur sem eru í báðum hinum frá 15. febrúar 2007 annars vegar að fjárhæð -379.885 LTL og hins vegar að fjárhæð -27.202 LTL.  Þá eru hinn 9. mars 2007 færðar -690.952,23 LTL af reikningi stefnda samkvæmt yfirlitinu sem stefnandi byggir á og er þá færslu að finna á yfirlitinu á dómskjali 17 en ekki á dómskjali 29.  Auk fyrirliggjandi yfirlits sem stefnandi byggir kröfur sínar á liggur fyrir yfirlit vegna bankareiknings stefnda hjá stefnanda sem ráðið verður að stafi frá stefnanda vegna tímabilsins 1. janúar 2008 til 27. október 2008.  Ekki verður með vissu ráðið af skjalinu hvort það varði einungis ákveðnar færslur á reikning stefnda en ljóst er að það er ekki nema að hluta til í samræmi við yfirlit það sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á.  Þykir ekki hafa skýrst með fullnægjandi hætti við meðferð máls­ins hvers vegna umrædd yfirlit eru misvísandi að þessu leyti.

Verður að telja að málatilbúnaður stefnda hafi gefið stefnanda fullt tilefni til að undirbyggja kröfur sínar nánar en gert er í stefnu og rökstyðja fjárhæðir frekar enda verður að gera þær lágmarkskröfur til stefnanda sem fjármálafyrirtækis að hann geri skýrari grein fyrir viðskiptum að baki kröfu hans en fram kemur í málatilbúnaði hans.  Í upphafi lagði stefnandi fram yfirlit yfir þá skiptasamninga sem aðilar höfðu gert sín á milli, en einungis einn slíkan samning.  Þau gögn sem hann hefur lagt fram á síðari stigum, s.s. tölvupóstsamskipti stefnda við starfsmenn stefnanda og skjal með nánari útlistun á 17 millifærslum á reikningi stefnda, eru ekki til þess fallin að skýra þessi viðskipti neitt frekar.  Þá hefur stefnandi ekki gert skýra grein fyrir því með hvaða heimild hann geti sett kröfu sína fram í evrum heldur eingöngu vísað til yfirlits yfir reikning stefnda hjá stefnanda þar sem öllum fjárhæðum er breytt yfir í evrur.

Þegar allt framangreint er virt þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á það hvernig þær fjárhæðir sem greinir í yfirliti því sem hann byggir kröfur sínar á eru fengnar og á hvaða viðskipum þær byggjast.  Þykir hann því ekki hafa sýnt fram á grundvöll kröfu sinnar með fullnægjandi hætti og þar með hefur hann ekki lagt þann grundvöll að málinu sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður.  Er mála­tilbún­að­ur hans að því leyti svo vanreifaður og óljós að dómur verður ekki lagður á kröfu hans, sbr. d- og e- liðir 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.  Er því óhjá­kvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi af sjálfsdáðum.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Eiríksson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Ásgerður Ragnarsdóttir hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi af sjálfsdáðum.

Stefnandi, MP banki hf., greiði stefnda, Tomasi Tolpezninkas, 300.000 krónur í málskostnað.