Hæstiréttur íslands

Mál nr. 184/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Víxill
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. apríl 2002.

Nr. 184/2002.

Innheimtuþjónustan ehf.

(Jón Gunnar Zoëga hrl.)

gegn

Þórði Guðmundssyni

Hafþór Smára Guðmundssyni og

Íslandi allt ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Víxilmál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

I ehf. höfðaði mál á hendur Þ, H og Í ehf. til heimtu skuldar samkvæmt víxli. Héraðsdómari vísaði málinu frá á þeirri forsendu að samþykkjandi og greiðandi víxilsins væri ekki sami aðili og samþykkið þannig ógilt að víxilrétti, en af þeim sökum yrði málið ekki rekið sem víxilmál. Hæstiréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi með vísan til þess að I ehf. hefði lagt fram gögn sem sönnuðu að samþykkjandi víxilsins væri sami lögaðili og sá, sem tilgreindur væri þar sem greiðandi. Var lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðilum 11. september 2001 til heimtu skuldar samkvæmt víxli að fjárhæð 1.470.000 krónur. Í héraðsdómsstefnu var greint þannig frá víxlinum að hann hafi verið gefinn út af varnaraðilanum Þórði Guðmundssyni 20. september 1999 og ábektur af honum ásamt varnaraðilanum Hafþóri Smára Guðmundssyni, en samþykktur til greiðslu 20. september 2000 af varnaraðilanum Íslandi allt ehf. Víxillinn hafi ekki greiðst, en málið væri rekið samkvæmt reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991. Varnaraðilar tóku til varna í málinu, en þingsókn þeirra féll niður í þinghaldi 20. mars 2002. Lagði þá sóknaraðili málið í dóm, en héraðsdómari vísaði því sjálfkrafa frá með hinum kærða úrskurði. Var það gert á þeirri forsendu að á framlögðum víxli kæmi fram að greiðandi hans væri Ísland allt ehf., með nánar tilteknu heimilisfangi og kennitölu. Á þeim stað, þar sem víxillinn skyldi áritaður um samþykki, væri stimpill, þar sem greina mætti orðið „Iceland“ og undir því bókstafina „co“, svo og kennitölu, sem væri sú sama og Ísland allt ehf. hefði, en texti í stimplinum væri að öðru leyti ólæsilegur og jafnframt nafnritun, sem þar kæmi fram. Væri því samþykkjandi og greiðandi ekki sami aðili og samþykkið þannig ógilt að víxilrétti, sbr. 1. mgr. 25. gr. víxillaga nr. 93/1933, en af þeim sökum yrði málið ekki rekið sem víxilmál.

Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar greinir meðal annars að Ísland allt ehf. hafi skrásett hjáheitið Iceland complete ehf., en um það hefur hann nú lagt fram útskrift úr hlutafélagaskrá. Kveður sóknaraðili ljóst af áðurnefndum víxli að hjáheitið hafi verið notað þegar hann var áritaður um samþykki, enda kennitala samþykkjanda og greiðanda sú sama. Telur sóknaraðili að málinu hafi þannig verið vísað frá dómi að ástæðulausu.

Í víxilmáli, sem rekið er samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991, verða aðeins sóttar kröfur, sem víxill ber sjálfur með sér. Af því, sem áður segir, er að vísu ljóst að víxillinn, sem sóknaraðili reisir málsókn sína á, ber ekki með sér að samþykkjandi víxilsins hafi verið greiðandi hans á annan hátt en með því að sama kennitala kemur fram í tengslum við nöfn beggja. Þótt sóknaraðili reki mál þetta sem víxilmál verður honum ekki meinað að leggja fram gögn til að sanna að samþykkjandi víxilsins hafi verið sami lögaðili og sá, sem tilgreindur var þar sem greiðandi. Þær sönnur hefur sóknaraðili fært fram á áðurgreindan hátt. Eru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2002.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 20. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Innheimtuþjónustunni hf., kt. 510292-2279, Laugavegi 7, Reykjavík, með stefnu birtri 11. september 2001 á hendur Þórði Guðmundssyni, kt. 150863-3419, Hlíðarhjalla 66, Kópavogi, Hafþóri Smára Guðmundssyni, kt. 160468-4679, Álfaborgum 15, Reykjavík, og Íslandi allt ehf., kt. 600598-2799, Álfaborgum 15, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda kr. 1.470.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20.09. 2000 til greiðsludags, auk málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

 

Af hálfu stefnda var lögð fram greinargerð þann 8. nóvember 2001 og gerð krafa um sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar úr hendi hans að mati dómsins.

Undir rekstri málsins féll niður þingsókn af hálfu stefndu, og var málið dómtekið að kröfu lögmanns stefnanda.

II.

Málavextir:

Um er að ræða víxilkröfu stefnanda á hendur stefndu, en málið er rekið samkvæmt XVII. kafla l. nr. 91/1991.

Fyrir liggur í málinu beiðni stefndu um opinbera rannsókn á því, hvort framið hafi verið refsivert brot  með útfyllingu víxilsins og innheimtu hans.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfur sínar á víxli, útgefnum 20. september 1999, með gjalddaga 20. september 2000, að fjárhæð kr. 1.470.000.  Víxillinn sé samþykktur til greiðslu af Íslandi Allt ehf., kt. 600598-2799, ábektur af Hafþóri Guðmundssyni, kt. 160468-4679, og útgefinn og framseldur af Þóri Guðmundssyni, kt. 150863-3419.  Skuldin hafi ekki fengizt greidd, þrátt fyrir innheimtutilraunir, og sé málshöfðun þessi því nauðsynleg.

Stefnandi vísar til víxillaga nr. 93/1933, einkum 7. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls.  Málið sé rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.  Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Varðandi varnarþing er vísað til 36. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnanda er málsástæðum stefndu, sem fram kom í greinargerð, mótmælt og ítrekað, að málið sé rekið samkvæmt 17. kafla eml., en engar varnir hafi komið fram af hálfu stefnda, sem heimilaðar séu samkvæmt þeim kafla.  Þá hafi engin gögn komið fram, sem styðji málstað stefndu.

Málsástæður stefndu:

Stefndu kveða víxilinn vera greiddan.  Hann hafi verið fylltur út með útgáfudegi og gjalddaga án heimildar.  Þá sé hann óstimplaður.

Hið stefnda félag hafi, á fyrri hluta ársins 2000, átt viðskipti um framleiðslu, pökkun og dreifingu á margmiðlunardiski við Vagnson MultiMedia, Þýskalandi, en forsvarsmaður þess sé Haukur Vagnsson.  Eins og lesa megi í framlagðri greinargerð Þórðar Guðmundssonar, sé löngu búið að greiða víxilinn, sem kyrfilega sé merktur "tryggingarvíxill" og hafi verið til tryggingar efndum hluta þeirra viðskipta.

Stefndu telji augljóst, að verið sé að misbeita víxilrétti til að knýja fram greiðslu skuldaskjals, sem löngu sé greitt.

Stefndu vilji sanna með gögnum sínum og rannsókn lögreglu, að víxillinn sé greiddur og ranglega útfylltur.  Byggi þeir sýknukröfu sína á því, að svo sé.

Stefndu vísa til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir loforða og samninga.  Varðandi málskostnað vísa stefnendur til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Eins og fyrr greinir, féll niður þingsókn af hálfu stefndu undir rekstri málsins.  Verður það því dæmt á grundvelli framkominna gagna.

Stefnandi hefur lagt fram víxil, sem lýst er í stefnu, svo sem að framan er rakið.  Greiðandi víxilsins er skráður  “Ísland Allt ehf.”.  Undir yfirskriftinni “samþykkjandi” á framhlið víxilsins er hins vegar stimpill með orðinu “Iceland” og undir því má greina stafina “co...”, en eftirstöðvar orðsins eru ólæsilegar, þar sem skrifað hefur verið ofan í með ólæsilegri rithönd f.h. samþykkjanda.  Kennitala þar undir er hins vegar sama kennitala og tilgreind er í stefnu sem kennitala greiðanda.  Stefnandi hefur engar skýringar gefið á þessu misræmi.  Samkvæmt þessu eru samþykkjandi og greiðandi víxilsins ekki sami aðilinn, og er samþykktin því ógild að víxilrétti, sbr. 1. mgr. 25. gr. l. nr. 93/1933.  Málið verður því eigi rekið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla l. nr. 91/1991.  Ber því þegar af þeim sökum að vísa málinu frá dómi ex officio.

Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Málinu er vísað frá dómi ex officio.

Málskostnaður fellur niður.