Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-131

B (Guðbjarni Eggertsson lögmaður)
gegn
A (Stefán Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Börn
  • Innsetningargerð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 7. nóvember 2022 leitar B leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 25. október 2022 í máli nr. 584/2022: A gegn B á grundvelli 5. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að barn aðila verði tekið úr umráðum leyfisbeiðanda með beinni aðfarargerð og afhentur sér.

4. Með úrskurði héraðsdóms var kröfu gagnaðila hafnað en í Landsrétti var krafan tekin til greina þannig að umbeðin innsetningargerð færi fram að liðnum þremur mánuðum frá uppsögu úrskurðarins, hefði leyfisbeiðandi ekki áður farið með barn aðila til búseturíkis þeirra. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi héldi því með ólögmætum hætti hér á landi í skilningi 11. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Leyfisbeiðandi bar fyrir sig að 2. og 4. töluliður 12. gr. laga nr. 160/1995 stæðu afhendingu í vegi. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að hvorki yrði ráðið af gögnum málsins að fyrir hendi væri alvarleg hætta á að afhending myndi skaða barnið andlega eða líkamlega eða að því yrði komið á annan hátt í óbærilega stöðu, sbr. 2. tölulið 12. gr. laga nr. 160/1995, né að uppfyllt væru skilyrði 4. töluliðar ákvæðisins um að afhending þess væri í ósamræmi við grundvallarreglur hér á landi. Landsréttur taldi að ekki væru komnar fram svo brýnar ástæður í máli þessu að þær ættu að vega þyngra en það markmið Haag-samningsins að vernda börn í aðildarríkjunum gegn ólögmætu haldi barns og stuðla þar með að því að foreldrar leysi úr forsjármáli á þeim stað þar sem barn var búsett áður en farið var með það úr landi. Loks yrði að líta til þess að ekkert væri fram komið í málinu sem gæfi ástæðu til að efast um að velferð og öryggi barns aðila yrði tryggt eftir réttarreglum búseturíkis þar til leyst hefði verið á lögmætan hátt úr ágreiningi um forsjá.

5. Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að kæruefni málsins varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi verulegt fordæmisgildi og grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Hún byggir jafnframt á því að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni til. Vísar hún til þess að málið hafi fordæmisgildi að því leyti að í engu sé litið til réttinda eða hagsmuna barns aðila sem og þess skaða sem það muni verða fyrir verði barnið tekið frá leyfisbeiðanda. Þá hafi ekki verið litið til fjölskylduaðstæðna málsaðila. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar í málinu samrýmist ekki þeim grundvallarmannréttindum sem barnið á að njóta að lögum og vísar einkum til ákvæða 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og réttarins til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

6. Að virtum atvikum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um skilyrði þess að barn verði afhent á grundvelli laga nr. 160/1995. Beiðnin er því tekin til greina.