Hæstiréttur íslands
Mál nr. 192/2017
Lykilorð
- Kærumál
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2017, þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðilum var frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í héraðsdómsmálinu E-8/2017. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili höfðaði mál þetta 29. mars 2016 og krafðist þess að sér yrði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt, sem hann ætti í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni að Miðbæ 3 á Akranesi samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 17. ágúst 2007, upphaflega að fjárhæð 120.000.000 krónur, til tryggingar á skuld Byggingarhússins ehf. við varnaraðila samkvæmt tilgreindum myntveltureikningi, sem numið hafi 168.426.155 krónum hinn 10. febrúar 2011.
Sóknaraðilar tóku til varna í málinu og skoruðu í greinargerð 29. júní 2016 á varnaraðila að leggja fram frumrit framangreinds tryggingarbréfs „svo að stefndu geti sannreynt frumrit tryggingarbréfsins og athugað hvað hefur verið ritað á það frá því að það var gefið út.“ Með réttarstefnu 28. október 2016 höfðaði varnaraðili með heimild í 120. og 121. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands, nr. E-8/2017, til ógildingar á tryggingarbréfinu. Af hálfu sóknaraðila var tekið til varna í málinu og þess meðal annars krafist að synjað yrði kröfu varnaraðila um ógildingardóm vegna tryggingarbréfsins á grundvelli aðildarskorts varnaraðila.
Í þinghaldi 2. desember 2016 var bókað í þingbók að lögmaður varnaraðila áskildi sér rétt til að leggja fram frumrit „skuldabréfs“ eða ógildingardóm, en ef gögnin yrðu ekki tilbúin „7. mars“ myndi „stefndi“ falla frá áskorun um framlagningu þeirra. Við svo búið var aðalmeðferð málsins ákveðin 7. mars 2017.
Svo sem áður greinir skoruðu sóknaraðilar á varnaraðila að leggja fram frumrit umrædds tryggingarbréfs og þar sem það hefur ekki fundist brást varnaraðili við áskoruninni með því að höfða mál til ógildingar þess. Hvað sem líður áskorun sóknaraðila um framlagningu frumrits tryggingarbréfsins liggur fyrir að þeir hafa tekið til varna í máli til ógildingar þess. Samkvæmt þessum málatilbúnaði sóknaraðila verður að telja að mál til ógildingar tryggingarbréfsins hafi verið höfðað út af efni sem varðar úrslit máls þessa verulega, sbr. seinni málslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Máli þessu er frestað þar til fyrir liggur dómur Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-8/2017.
Sóknaraðilar, Arnarfell sf. og Skagaver ehf., greiði óskipt varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2017.
Mál þetta, sem þingfest var 14. apríl 2016, var tekið til úrskurðar í þinghaldi 7. mars sl., um þá ákvörðun dómara, sama dags, um að fresta bæri máli þessu ótiltekið samkvæmt 3. tölulið 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eða þar til að niðurstaða í máli nr. E-8/2017, sem þingfest hefur verið í Héraðsdómi Vesturlands, liggur fyrir. Stefndu hafna fresti og krefjast úrskurðar um ofangreinda ákvörðun dómara, en stefnandi tekur undir nauðsyn á frekari fresti. Var ágreiningur þessi því tekinn til úrskurðar eftir að gefinn hafði verið kostur á munnlegum athugasemdum.
Niðurstaða
Ákvörðun dómara um að veita beri ofangreindan frest byggir á því, að við fyrirtöku í málinu 4. nóvember sl., hafði dómari sá sem áður fór með málið, verið upplýstur um það deginum áður, með tölvupósti frá stefnanda, að í málið vantaði af einhverjum ástæðum tryggingabréf það sem stefnandi grundvallar málsókn í málinu á. Lagði lögmaður stefnanda því í þinghaldi 4. nóvember sl. fram annars vegar ljósrit af umræddu tryggingabréfi sem og af ógildingarstefnu varðandi það í máli sem þingfest hefur verið í Héraðsdómi Vesturlands og hefur fengið þar málsnúmer E-8/2017. Hefur stefnandi upplýst að þetta hafi verið gert til að koma til móts við áskoranir stefndu í greinargerð um að leggja fram frumrit tryggingabréfs svo sannreyna mætti efni þess.
Eftir að núverandi dómari þessa máls tók við því, 23. janúar sl., var haldin ein fyrirtaka, þann 7. febrúar sl., í því augnamiði að skipuleggja fyrirhugaða aðalmeðferð í málinu, sem hafði þá verið ákveðin 7. mars, í þinghaldi sem haldið var 2. desember sl.
En eins og kemur fram í bókun úr þinghaldi 7. febrúar sl., þá ítrekaði lögmaður stefnanda þar, að hann sæi ekki fram á að geta lagt fram frumrit tryggingabréfsins, né heldur að ógildingardómur myndi liggja í tæka tíð fyrir þegar boðaða aðalmeðferð og lýstu lögmenn þá gagnaöflun lokið. Af hálfu stefndu hefur verið vísað til þess, að skortur á framlagningu umrædds tryggingabréfs í tæka tíð eða tafir við öflun dóms um réttindi yfir því, verði að teljast á ábyrgð stefnanda en ekki stefndu.
Eftir að hafa metið frekar gögn málsins og stöðu þess í ljósi alls framangreinds, þá er það mat dómara, að mál þetta geti við svo búið ekki talist vera nægilega tilbúið til fyrirhugaðrar aðalmeðferðar, eins og til stóð. Er það mat dómara að rétt sé að fresta málinu í ljósi þess að nú liggur fyrir að annað einkamál hefur verið höfðað út af efni sem kann að varða úrslit þess verulega, sbr. heimild til frestunar af þeim ástæðum í 3. tölulið 102. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt framangreindu verður málinu því frestað þar til fyrir liggur niðurstaða í máli nr. E-8/2017, sem þingfest hefur verið í Héraðsdómi Vesturlands.
Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Málinu er frestað þar til fyrir liggur niðurstaða í máli nr. E-8/2017 sem þingfest hefur verið í Héraðsdómi Vesturlands.