Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-54
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Skaðabótaskylda
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 14. apríl 2023 leitar Dalvíkurbyggð leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. mars 2023 í máli nr. 744/2021: Aurora Leisure ehf. gegn Dalvíkurbyggð og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til þess að tjón varð á fasteign gagnaðila sem hann taldi hafa orðið vegna leka frá heimæð sem gagnaðili beri ábyrgð á með vísan til sakarreglu skaðabótaréttarins á sviði sérfræðiábyrgðar. Aðilar deila um eignarhald á heimæðinni og þar með hver hafi borið ábyrgð á viðhaldi hennar.
4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila en með dómi Landsréttar var fallist á kröfu gagnaðila og hann dæmdur til að greiða skaðabætur. Landsréttur féllst á með gagnaðila að leyfisbeiðandi færi, að undangenginni endurnýjun á kaldavatnslögn sem líklega hafi farið fram á árinu 2006, með eignarhald á heimæðinni. Í dómi Landsréttar kom fram að heimæðin hefði greinst í tvennt og legið annars vegar að norðurálmu fasteignarinnar en hins vegar suðurálmu hennar. Umrædd endurnýjun hafi farið fram á þeirri grein sem lá í norðurálmu fasteignarinnar en lekinn komið fram í suðurálmu hennar. Leyfisbeiðandi var látinn bera hallann af þeirri óvissu sem leiddi af því að upprunalegar teikningar af fasteigninni voru ekki lagðar fram í málinu. Vatnalög nr. 15/1923 og reglugerð nr. 16/1963 um vatnsveitu Dalvíkur, sem í gildi voru á byggingartíma fasteignarinnar, hafi gert ráð fyrir að heimæðar gætu verið fleiri en ein. Var því fallist á með gagnaðila að sú lögn sem lekinn stafaði frá teldist hluti af heimæðinni og væri þannig í eigu leyfisbeiðanda. Um orsakir lekans á heimæðinni lá ekkert fyrir en Landsréttur vísaði til þess að staðið hefði leyfisbeiðanda nær en gagnaðila að upplýsa um málsatvik að þessu leyti. Leyfisbeiðandi hefði annast viðgerðina og tekið ákvörðun um að grafa ekki upp lögnina heldur tengja nýja lögn við inntak í húsið. Yrði hann í því ljósi að bera hallann af þeirri óvissu sem væri uppi um ástæður þess að lögnin lak. Leyfisbeiðanda var því gert að greiða gagnaðila umkrafðar skaðabætur.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann til þess að það hafi fordæmisgildi hvað felist í orðinu „endurnýjun“ en ekki hafi áður reynt á það fyrir dómi. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að úrlausn um að sönnunarbyrði væri snúið við, þvert á meginreglur skaðabótaréttar um að það sé tjónþola að sanna tjón sitt, hafi verulegt almennt gildi. Að auki hafi það verulegt almennt gildi hvað teljist heimæð í skilningi laga og á hverju sveitarfélag, sem eignist heimæð vegna mjög takmarkaðrar framkvæmdar, beri ábyrgð. Þá sé leyfisbeiðandi látinn bera hallann af því að upprunalegar byggingarnefndarteikningar hafi ekki verið lagðar fram þrátt fyrir að gagnaðili hafi aldrei skorað á leyfisbeiðanda að leggja þær fram. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til þess að ljóst sé af gögnum málsins að umrædd lögn hafi verið byrjuð að leka þegar gagnaðili festi kaup á fasteigninni. Gagnaðili hafi mátt gera sér grein fyrir því og borið að beina kröfu að seljanda. Samkvæmt meginreglum fasteignakaupalaga standist ekki að gagnaðili geti sótt bætur úr hendi leyfisbeiðanda og hafi úrlausn um þetta atriði verulegt almennt gildi. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks telur hann að dómur Landsréttar sé bersýnilegar rangur að efni til.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.