Hæstiréttur íslands

Mál nr. 321/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Jón Egilsson hrl.)

Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. apríl 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. maí 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. apríl 2016.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dómnum í dag að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. maí nk. kl. 16:00.  Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra.

I

Í greinargerð lögreglustjóra segir meðal annars að lögreglustjórinn á höfuðborgar­svæðinu hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot er varði innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands. Í gær hafi erlendur aðili að nafni A verið handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli en hann hafi verið að koma með flugi frá Cancun í Mexíkó með viðkomu í Brussel og Kaupmannahöfn. Nefndur aðili hafi haft meðferðis golfsett sem í hafi verið 17 golfkylfur. Lögreglu hafi grunað að í kylfunum væru falin fíkniefni og því hafi ein kylfa verið tekin til nánari skoðunar. Í ljós hafi komið að í henni var falið kókaín. A hafi þá verið handtekinn, grunaður um innflutning fíkniefna.

                Í kjölfarið hafi lögreglan farið í húsleit á dvalarstað kærða og B að [...] í [...] vegna gruns um að þeir hefðu staðið að skipulagningu og fjármögnun á kaupum á ofangreindum fíkniefnum. Við leit á dvalarstað þeirra hafi fundist mikið magn af sterkum fíkniefnum. Þá hafi einnig fundist tölvur, símar, skjöl og aðrir munir sem lögregla telji að tengist rannsókn málsins.

Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi A játað að hafa staðið að innflutningi fíkniefnanna frá Mexíkó. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað sök að því er varði aðild að innflutningi fyrrnefndra fíkniefna. Hann hafi hins vegar játað að hafa átt þau fíkniefni sem lögregla fann og haldlagði í íbúðinni við [...]. Kærði kannist hvorki við að hafa sent peninga erlendis né að hafa fengið aðra aðila til að senda fyrir sig peninga. Þá kannist hann ekki við að hafa tengsl við Mexíkó. Um tengsl sín við B hafi kærði borið að hann leyfði B að sofa annars lagið heima hjá sér. Kærði kannist ekki við nafnið A og hafi ekki getað gefið skýringar á því af hverju það nafn hafi verið að finna á handskrifuðum miða sem fundist hafi á dvalarstað hans.

                Sakborningar í málinu hafi allir verið handteknir síðdegis í gær og fyrstu skýrslutökur af þeim farið fram í morgun. Við húsleit hafi fundist tölvur, símar og skjöl sem lögregla telji að tengist rannsókn málsins. Unnið sé að því að taka fingraför af hinum haldlögðu golfkylfum, opna kylfurnar og ná efnunum úr þeim til efnagreiningar.

II

Lögreglustjóri vísar til þess að í ljósi framangreinds og þeirra gagna sem lögregla hafi aflað verði að telja að kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á sterkum fíkniefnum hingað til lands. Fleiri aðilar tengist málinu. Lögregla vinni áfram að rannsókn þess. Unnið sé að því að skoða mögulegar tengingar þessa máls við önnur mál er varði innflutning á fíkniefnum hingað til lands frá Mexíkó. Brýn nauðsyn sé á þessu stigi málsins að kærði sæti gæsluvarðhaldi, í einangrun, þar sem ljóst sé að ef hann gangi laus geti hann sett sig í samband við meinta samverkamenn sem gangi lausir eða þeir sett sig í samband við hann. Kærði gæti þá komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögregla hafi ekki lagt hald á nú þegar. Þá sé nauðsynlegt að bera undir kærða sjálfstætt haldlögð gögn á meðan hann sæti einangrun. Brýnt sé að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins. Meint brot kærða varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga hvað kröfu um einangrun varði, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé fram sett.

                                                                                              III

Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.

Rannsókn málsins er hvergi nærri lokið. Ætla verður lögreglu nokkuð ráðrúm til að rannsaka frekar aðdragandann að ferð meints samverkamanns kærða, A, hingað til lands og eftir atvikum möguleg tengsl kærða við aðra vitorðsmenn, bæði hér á landi og erlendis. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er krafa lögreglustjóra því tekin til greina með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Með vísan til framangreinds er jafnframt fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. maí  nk. kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.