Hæstiréttur íslands
Mál nr. 108/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2015 |
|
Nr. 108/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (enginn) gegn X (Orri Sigurðsson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. febrúar 2015, þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 4. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Að virtum gögnum málsins, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, verður fallist á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni, enda verður ekki talið að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Orra Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. febrúar 2015.
Með kröfu, dagsettri 6. febrúar 2015, sem barst dóminum sama dag, hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjóra, dags. 4. febrúar 2015, þess efnis að varnaraðila, X, kt. [...], sé gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis heimili þeirra, mælt frá miðju hússins. Einnig að lagt sé bann við því að X veiti A, B og C eftirför, nálgist þau á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma þeirra eða setji sig á annan hátt beint í samband við þau.
Við fyrirtöku málsins í gær tók aðstoðarsaksóknari lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fram að krafan um nálgunarbann tæki til heimilis brotaþola að [...] í [...], en láðst hefði að tilgreina heimilisfangið í kröfu lögreglustjóra.
Varnaraðili mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess aðallega að henni verði synjað staðfestingar, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími en gert sé ráð fyrir í kröfu lögreglustjóra.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hinn 3. febrúar sl. hafi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu borist beiðni frá barnavernd [...] um að varnaraðila X yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni, A, syni þeirra, B, og dóttur, C, með vísan til a- og b- liðar 1. mgr. 4 gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Í greinargerðinni segir að X og A hafi skilið árið 2006, en eigi saman framangreind tvö börn.
Með beiðni barnaverndar [...] hafi fylgt greinargerð ásamt 22 fylgiskjölum. Hafi þar skilmerkilega verið greint frá afskiptum af fjölskyldunni og tilkynningum sem barnavernd hafi borist vegna hennar. Um sé að ræða nokkuð langa sögu þar sem margsinnis hafi verið tilkynnt um ofbeldi af hálfu varnaraðila í garð brotaþola, A og barna þeirra B og C.
Fyrsta tilkynning hafi borist barnavernd frá lögreglu í janúar 2005, en lögregla hafi verið kölluð að heimili fjölskyldunnar 7. janúar sama ár (lögreglumál 37-2005-[...]). Hafi A hlotið áverka greint sinn.
Hinn 2. desember 2009 hafi borist tilkynning frá Barna- og unglingageðdeild þess efnis að D, sonur varnaraðila hefði greint frá því að hálfsystkini hans, C og C, verði fyrir ofbeldi af hálfu varnaraðila.
Í nóvember og desember 2010 hafi starfsmaður barnaverndar rætt við A vegna upplýsinga um ofbeldi. Í viðtali í desember það ár hafi A greint frá kúgun, sem varnaraðili beiti, en jafnframt frá langvarandi ofbeldi sem átt hafi sér stað er hún hafi verið ófrísk. Þá hafi hún greint frá ofbeldi varnaraðila gagnvart börnum sínum, B og C og að B hafi komið blóðugur og marinn úr umgengni hjá varnaraðila. Þá hafi hún borið um að varnaraðili hafi hótað börnunum og sagt þeim að ef þau segðu frá yrði móðir þeirra sett í fangelsi. Rætt hafi verið við B í janúar 2011, en hann hafi neitað öllu ofbeldi af hálfu föður síns.
Hinn 1. október 2012 hafi E, hálfbróðir B og C samfeðra og móðir D, sonar varnaraðila, komið á lögreglustöð í því skyni að tilkynna um ofbeldi varnaraðila í garð B (lögreglumál nr. 007-2012-[...]). Í framhaldi af þeirri tilkynningu hafi starfsmaður barnaverndaryfirvalda rætt við B, en hann hafi neitað því að faðir hans beitti hann ofbeldi.
Rætt hafi verið við A í mars 2013 og þá hafi hún borið um andlegt ofbeldi og hótanir varnaraðila í hennar garð.
Hinn 3. maí 2013 hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu vegna heimilisofbeldis á heimili A og barnanna B og C en þangað hafði varnaraðili komið í því skyni að sækja hluti í sinni eigu. Hafi varnaraðili tekið A kverkataki og kýlt hana í andlitið. Í viðtali sem starfsmaður barnaverndar hafi átt við A 7. maí hafi hún borið um að í greint sinn hefði varnaraðili gengið í skrokk á henni og hótað því að drepa hana, en einnig hefði hann hótað B lífláti. Hafi hún borið um að bæði börnin væru mjög hrædd við föður sinn og að þau vildu ekki hitta hann. Þá liggi fyrir í gögnum málsins skýrsla vegna heimilisofbeldis, dags. 29. júní 2013, þar sem fram komi sama atvikalýsing og A hafði lýst fyrir lögreglu og barnavernd, en jafnframt að varnaraðili beitti B líkamlegu ofbeldi. Jafnframt komi þar fram að bæði börnin hefðu margoft séð föður beita móður ofbeldi.
Í gögnum málsins liggi fyrir nafnlaus tilkynning, dags. 30. maí 2014, um ætlað heimilisofbeldi og líkamlegt ofbeldi í íbúð A, en um væri að ræða rifrildi milli konu og manns, dynki og mikinn umgang. Hafi tilkynnandi sagst telja að maðurinn á heimilinu væri líklega faðir barnanna sem þar byggju og að hann væri nýlega farinn að venja komu sína á heimilið og byggi líklega á heimilinu.
Starfsmenn barnaverndar hafi rætt við A, B og C í janúar 2015. Í viðtölunum hafi þau greint frá líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu varnaraðila gagnvart þeim öllum, en jafnframt kynferðisofbeldi gagnvart A. Þau hafi einnig greint frá miklum ótta gagnvart honum.
Í framburðarskýrslu A hjá lögreglu 4. febrúar sl. hafi hún borið í meginatriðum á sama veg og fram komi í greinargerð barnaverndar [...], dags. 3. febrúar 2015. Hafi hún staðfest að hún sætti andlegu-, líkamlegu- og kynferðislegu ofbeldi af hálfu varnaraðila og að hann beitti börn þeirra B og C andlegu ofbeldi og B jafnframt líkamlegu ofbeldi. A hafi sagst vera barnshafandi eftir varnaraðila og óttist mjög að verða fyrir ofbeldi af hans hálfu og að bæði hún og ófædda barnið hlytu skaða af.
Í framburðarskýrslu varnaraðila hjá lögreglu 4. febrúar sl. hafi hann neitað að öllum ásökunum um ofbeldi gagnvart A og sagt að kynlíf þeirra hefði farið fram með samþykki beggja. Hafi hann einnig alfarið neitað því að hafa beitt börnin B og C ofbeldi.
Varðandi beiðni um nálgunarbann hafi hann samþykkt nálgunarbann gagnvart A, en hafnað því að þurfa að sæta nálgunarbanni gagnvart börnunum sínum, þeim B og C.
Af gögnum málsins sé ljóst að bæði lögregla og barnaverndaryfirvöl hafi margítrað síðastliðin ár haft afskipti af málefnum fjölskyldunnar. Þá beri gögnin það með sér að gripið hafi verið til margskonar aðgerða af hálfu barnaverndaryfirvalda, en þrátt fyrir það hafi brotaþolar, A, B og C, borið um að lifa í stöðugum ótta við varnaraðila og að hafa orðið fyrir miklu ofbeldi af hans hálfu. Framburður varnaraðila hjá lögreglu sé ekki í samræmi við gögn málsins.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu telji ljóst af gögnum málsins að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að varnaraðili hafi beitt brotaþola, A, B og C, ofbeldi, hótunum og kúgun og að miklar líkur séu á því að varnaraðili muni fremja refsivert brot á ný gagnvart brotaþolum. Með vísan til gagna málsins sé það mat lögreglustjóra að skilyrði a- og b-liða 4. gr. laganna séu uppfyllt í máli þessu, en jafnframt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Þá telji lögreglustjóri að hagsmunir brotaþola, A, B og C, verði ekki verndaðir með öðrum og vægari hætti en nálgunarbanni, enda hafi margskonar vægari aðgerðir verið reyndar af hálfu barnaverndaryfirvalda. Að virtum atvikum málsins og fjölda ætlaðra brota telji lögreglustjóri að hætta sé á því að varnaraðili muni á ný brjóta gegn brotaþolum á sambærilegan hátt eða á annan hátt er raski friði þeirra, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun á heimili.
Í ljósi framangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt og að verndarhagsmunir standi til þess að tryggja brotaþolum þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og verið óhult gagnvart yfirvofandi ófriði af hálfu varnaraðila. Þá sé ítrekað að lögreglustjóra þyki með vísan til 1. mgr. 6. gr. nefndra laga að ekki sé unnt að vernda friðhelgi aðila með öðrum og vægari hætti en með nálgunarbanni.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og laga nr. 85/2011, einkum 4. og 12. gr. þeirra, sé þess krafist að fallist verði á hina umbeðnu kröfu.
Niðurstaða.
Miðvikudaginn 4. febrúar sl. ákvað lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu að varnaraðila skyldi gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþolum samkvæmt a- og b-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 eins og nánar er kveðið á um í ákvörðunarorðum lögreglustjóra. Var sú ákvörðun birt varnaraðila síðar þann sama dag. Krafa lögreglustjóra um staðfestingu á þeirri ákvörðun barst dóminum föstudaginn 6. febrúar sl. ásamt gögnum málsins. Boðað var til þinghalds mánudaginn 9. febrúar sl., en að ósk verjanda varnaraðila var málinu frestað til dagsins í dag svo að verjanda gæfist kostur á að kynna sér rannsóknargögn málsins.
Með vísan til framangreinds og gagna málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi raskað friði brotaþola í skilningi 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola, A, B og C, verði vernduð með öðrum og vægari hætti en með nálgunarbanni. Þykja því vera fyrir hendi skilyrði samkvæmt II. kafla laga nr. 85/2011 til að beita nálgunarbanni eins og kveðið er á um í ákvörðun lögreglunnar frá 4. febrúar sl., þess efnis að varnaraðila skuli gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, B og C, að [...], [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis heimili þeirra, mælt frá miðju hússins. Einnig að lagt sé bann við því að varnaraðili veiti A, B og C eftirför, nálgist þau á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma þeirra eða setji sig á annan hátt beint í samband við þau
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Orra Sigurðssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 161.200 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kára Valtýssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 124.000 krónur, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar, sbr. 3. mgr. 48. gr. og 216. gr. laga nr. 88/2008.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 4. febrúar sl. þess efnis að varnaraðila, X, kt. [...], sé gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...], að [...], [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis heimili þeirra, mælt frá miðju hússins.
Einnig að lagt sé bann við því að X veiti A, B og C eftirför, nálgist þau á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma þeirra eða setji sig á annan hátt beint í samband við þau.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Orra Sigurðssonar hdl., 161.200 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kára Valtýssonar hdl., 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.