Hæstiréttur íslands
Mál nr. 43/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Föstudaginn 24. janúar 2014. |
|
Nr. 43/2014. |
A (Þuríður Halldórsdóttir hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu B um að barn sem laut forsjá A yrði vistað utan heimilis hans í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. janúar 2014, sem barst héraðsdómi 10. janúar 2014 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. desember 2013 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að stúlkan A, sem lýtur forsjá sóknaraðila, verði vistuð utan heimilis hans í allt að sex mánuði frá 1. desember 2013. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um vistun barnsins utan heimilis sóknaraðila og varnaraðila gert að afhenda sóknaraðila stúlkuna. Þá krefst hann þess að „ríkissjóði“ verði gert að greiða gjafsóknarkostnað sinn fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. desember 2013.
I
Mál þetta var þingfest 2. desember sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. sama mánaðar. Sóknaraðili er Reykjavíkurborg, vegna Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Ráðhúsi Reykjavíkur, en varnaraðili er A [...], Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að dómurinn úrskurði að telpan, B, kt. [...], sem lýtur forsjá afa síns, A, kt. [...], varnaraðila í máli þessu, verði vistuð utan heimilis afa síns í allt að sex mánuði frá 1. desember 2013, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila og að sóknaraðila verði gert að afhenda stúlkuna til forsjáraðila þegar í stað. Að auki er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
II
Mál þetta varðar telpuna, B, sem varð sex ára [...]. [...] sl. Hún kom til landsins frá [...] ásamt móðurafa sínum, varnaraðila máls þessa, í septembermánuði 2012. Við komuna hingað til lands framvísaði varnaraðili gögnum um að hann færi með forsjá telpunnar. Kom þar fram að móðir hennar væri látin og að faðirinn hefði samþykkt að veita varnaraðila forsjá telpunnar, svo og heimild til að hún flytti með honum hingað til lands, ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum. Með þeim í för voru einnig C, dóttir varnaraðila, fædd árið 1995, annað barnabarn hans, D, fæddur árið 1997, og fyrrverandi eiginkona varnaraðila, sem er og amma B og D. Komu þau til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar vegna [...] í heimalandi þeirra, [...], í janúar 2010. Dóttir varnaraðila, E, mun hafa dvalið hérlendis síðan 2009 og bauð hún fjölskyldunni að búa á heimili sínu, í leiguíbúð á vegum [...] að [...], hér í borg. Fyrir bjuggu þar einnig tvær dætur hennar, fæddar 2005 og 2010.
Upphaf afskipta sóknaraðila af málefnum varnaraðila og telpunnar B má rekja til tilkynningar er barst Barnavernd Reykjavíkur 8. febrúar sl. Var þar lýst áhyggjum af aðstæðum stúlkunnar. Mikill barnsgrátur bærist frá íbúðinni á öllum tímum sólarhrings, í bland við háværa tónlist, og virtist tilkynnanda sem ekkert væri sinnt um börnin og þau alveg látin eftirlitslaus. Í kjölfar þessa var hafin könnun máls á grundvelli V. kafla barnaverndarlaga og var varnaraðili boðaður til viðtals á skrifstofu Barnaverndar 15. apríl. Boðunarbréf var sent honum á íslensku og frönsku, en fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili tali aðeins [...]. Varnaraðili mætti ekki í boðað viðtal. Þá barst tilkynning frá Þjónustumiðstöð Breiðholts, dagsett 29. apríl, vegna gruns um óviðunandi uppeldisaðstæður og að ekki hefði verið mætt með B í leikskóla. Höfðu starfsmenn þjónustumiðstöðvar aðstoðað varnaraðila við að sækja um leikskólapláss fyrir telpuna og hafi hún fengið pláss í aprílbyrjun. Lögðu starfsmenn til að Barnavernd kannaði aðstæður barnanna þriggja sem komið höfðu með varnaraðila hingað til lands. Í greinargerð varnaraðila segir að vegna tungumálaerfiðleika hafi hann ekki vitað að telpan hafi fengið leikskólapláss fyrr en í lok apríl, og hefði hún þá byrjað í leikskóla. Með bréfi frá Heilsugæslunni í [...], dagsettu 26. maí sl., var upplýst að telpan hefði ekki komið í boðaðan tíma í bólusetningu 22. febrúar og ekki komið þangað frá 18. janúar sl. Fyrir liggur einnig bréf Þjónustumiðstöðvar [...], dagsett 30. maí sl., þar sem fram kemur að varnaraðili hafi ekki sinnt viðtalsboðunum og ekki mætt í viðtal síðan í janúar. Að undangenginni boðun fóru starfsmenn Barnaverndar á heimili fjölskyldunnar að [...] hinn 21. maí og 6. júní sl. Í fyrra skiptið ræddu þeir við varnaraðila, E og barnsföður hennar, F að nafni, sem sagði að B hefði mikið dvalið hjá honum eftir komuna til landsins. Eftir að hún byrjaði í leikskóla hefði hún þó verið í umsjá forsjáraðila.
Hinn 11. júní hafði E samband við starfmenn Barnaverndar og upplýsti að varnaraðili væri að fara til [...] og yrði þar í sex vikur. Sagðist hún fara með honum áleiðis, eða til [...], og verða þar í eina viku. Á meðan myndi móðir hennar, amma B, G að nafni, sjá um börnin. Veitti hún og varnaraðili samþykki fyrir því að starfsmenn ræddu við börnin á heimilinu 20. júní. Fjarvera beggja varð þó lengri en áætlað var. Þannig kom E aftur til baka í byrjun júlí en varnaraðili mun hafa komið til landsins 10. október sl. Gaf varnaraðili þá skýringu á fjarveru sinni að hann hefði farið til [...] til að [...], en í kjölfarið hafi hann veikst.
Starfsmenn Barnaverndar fóru á heimili E 20. júní sl. B var þá ekki þar, en var sögð í pössun hjá ömmu sinni. Daginn eftir var haft samband við áðurnefndan F, barnsföður E, og sagði hann að telpan væri hjá ömmu sinni, G, sem byggi í [...] í [...]. Hefði telpan dvalið þar síðustu tvo daga, en færi með ömmu sinni í dag í íbúðina að [...]. Yrði G þar þangað til E sneri heim.
Íbúi í [...] að [...] tilkynnti lögreglu 26. júní um að fimm börn væru án eftirlits í íbúð E í sama húsi. Móðirin dveldi erlendis en af og til væri þar öldruð amma, sem ekki gengi heil til skógar. Mikill hávaði bærist frá íbúðinni allt til kl. tvö eftir miðnætti og öskur, grátur og köll heyrðust frá börnunum. Þá taldi tilkynnandi að eldri börnin stunduðu áfengisneyslu eða aðra neyslu í íbúðinni. Lögreglan fór á heimilið ásamt starfsmanni Barnaverndar, en allt reyndist þar með kyrrum kjörum. Virtist tilkynningin ekki eiga við rök að styðjast.
Í greinargerð frá leikskólanum [...] 3. júlí sl. kemur fram að B sé mjög kát og hress stúlka og ánægð í leikskólanum. Hún sé ákveðin og sýni öllu umhverfinu mikinn áhuga. Umhirða hennar og aðbúnaður hafi verið með ágætum, hún komi alltaf hrein og í hreinum fötum. Mætingar hennar hafi í byrjun verið mjög góðar, en mættu nú vera betri. Stúlkan hafi verið fljót að aðlagast börnum á deildinni, hún væri umhyggjusöm, góð við alla og láti kennara vita ef einhver geri henni eitthvað. Tekið er fram að samskipti við forsjáraðila hafi ekki verið mikil vegna tungumálaerfiðleika, en samskipti hafi mest verið við E og frændsystkini stúlkunnar sem mest hafi sótt hana í leikskólann.
Tilkynning barst Barnavernd 9. júlí um að varnaraðili hefði beitt telpuna og aðra á heimilinu ofbeldi. Hefði hann þannig barið B með belti. Tilkynnandi var fyrrnefndur F, barnsfaðir E. Í kjölfarið var óskað lögreglurannsóknar á málinu og að könnunarviðtal yrði tekið við telpuna í Barnahúsi. Samþykkti E að könnunarviðtal færi fram og að óboðað eftirlit yrði haft með heimilinu til 20. nóvember. Jafnframt samþykkti hún að leitað yrði upplýsinga um barnið, m.a. um þjóðerni foreldra og barnsins og móðurmál þess. Í könnunarviðtali við telpuna sem fram fór í Barnahúsi kom ekkert fram sem benti til [...], en tilgreint var að telpan hefði strax í upphafi viðtalsins sagt: „Þau eru ekki að berja mig.“ Hins vegar sagði hún að afi lokaði hana inni á baðherbergi ef hún gerði eitthvað sem hún mætti ekki. Hann lemdi hana þó ekki. Þá sagði telpan að hún byggi hjá H, frænku sinni, en að móðir hennar væri á [...]. Hún hefði þó verið á Íslandi. Í gögnum málsins kemur fram að E sé einnig kölluð H.
Tilkynning barst Barnavernd frá skóla telpunnar hinn 12. september þar sem meðal annars kemur fram að hún hafi mætt mjög döpur í skólann og grátið. Nesti hennar hafi oft verið af skornum skammti. Var áhyggjum lýst af því að telpunni liði ekki vel og að grunnþarfir um mat og aðbúnað hennar væru ekki fullnægjandi. Ítrekað hefði verið reynt að ná sambandi við heimilið, en án árangurs.
Í fundargerð meðferðarfundar starfsmanna Barnaverndar 18. september sl. kemur fram að stuðningsúrræði hafi verið reynd á heimilinu, líkt og „Greining og ráðgjöf heim“, en án árangurs. Þá segir þar að dóttir varnaraðila, C, hafi greint frá því í viðtali að notast væri við þá refsingu gagnvart börnunum á heimilinu, þar á meðal oft gagnvart B, að læsa þau inni á baðherbergi í fleiri klukkustundir í einu. Einnig hafi C greint frá því að B ætti móður á [...], að nafni I, og að sú kona væri systir E. Telpan ætti þar einnig föður sem hún hefði búið með ásamt móður sinni áður en hún fór hingað til lands. Starfsmenn Barnaverndar töldu óljóst hver æli önn fyrir telpunni í fjarveru varnaraðila. Varnaraðili hefði skilið hana eftir í óviðunandi aðstæðum þar sem móðursystir hennar virtist vanrækja hana. Á fundinum var ákveðið að leita eftir samþykki forsjáraðila fyrir vistun utan heimilis, en að öðrum kosti að beita heimild til neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga. Var telpunni og skipaður talsmaður.
Í fyrirliggjandi skýrslum talsmanns telpunnar, dagsettum 1. október og 12. nóvember sl., kemur fram það álit hans að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum virtist stúlkan hafa búið við nokkra vanrækslu eftir að hún kom hingað til lands og að aðstæður á heimilinu hafi ekki verið viðunandi. Telji talsmaðurinn því stúlkunni fyrir bestu að hún verði vistuð utan heimilis. Er í fyrri skýrslunni lagt til að telpan verði vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði, en í þeirri síðari að hún verði vistuð í allt að sex mánuði, á meðan hagir hennar séu rannsakaðir ítarlega og áætlun gerð um framtíð hennar hér á landi.
Í greinargerð Barnaverndar til sóknaraðila, sem lögð var fyrir fund nefndarinnar 1. október sl., segir að ekki hafi náðst í forsjárhafa telpunnar til fá fram afstöðu hans til þess að hún yrði vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði á meðan málefni hennar yrðu könnuð frekar. Hafi því verið beitt neyðarráðstöfun á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga hinn 19. september sl., og málið í kjölfarið lagt fyrir sóknaraðila. Með úrskurði sóknaraðila 1. október var ákveðið að telpan skyldi vistuð á vegum sóknaraðila í allt að tvo mánuði frá og með úrskurðardegi samkvæmt heimild í b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Varnaraðili kærði þann úrskurð til Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október. Með úrskurði dómsins 22. nóvember sl. í málinu nr. U-7/2013 var úrskurður sóknaraðila staðfestur.
Af gögnum málsins má ráða að Barnavernd Reykjavíkur hefur frá 1. október sl. tíðum haft mál B og varnaraðila til meðferðar. Á meðferðarfundi starfsmanna 9. október er bókað að aðlögun að fósturheimili telpunnar hafi gengið vel, en í fyrstu hafi hún verið á varðbergi gagnvart fósturföður. Þá töldu starfsmenn nauðsynlegt að hún skipti um skóla vegna daglegra heimsókna E í skólann, auk þess sem vitað væri að frænka hennar, þremur árum eldri, sækti mikið í að ræða við hana og leiðbeina henni um að koma aftur heim. Tekið var fram að B hafi aldrei rætt við fósturforeldra um að hún saknaði skyldmenna sinna eða að hún vildi fara heim til þeirra aftur. Bókað var einnig að rætt yrði við forsjáraðila um óskir um umgengni við stúlkuna, sem yrði þá undir eftirliti og með túlki. Í upplýsingablaði Barnaverndar 15. október kemur fram að ítrekað hafi verið reynt að fá varnaraðila til viðtals með lögmanni sínum, en fundir hafi síðar verið afboðaðir. Jafnframt er greint frá því að varnaraðili hafi fengið nýjan lögmann sér til aðstoðar.
Í málinu liggja fyrir tölvuskeyti sem send voru til Barnaverndar 17., 18. og 19. október sl. Netfang sendanda er ýmist skráð á nafn E eða A, varnaraðila í máli þessu. Texti þeirra er á bjagaðri ensku þar sem greint er frá ýmsu misjöfnu um B og skyldmenni hennar hér á landi, m.a. að telpan hafi komið hingað á [...], [...], E [...] hér [...] og að einhver innan fjölskyldunnar ætli að [...] eða jafnvel [...] í [...] í Evrópu. Um leið er hvatt til þess að Barnavernd taki börnin í sína umsjá. Í síðustu tölvuskeytunum, frá 18. og 19. október, segir sendandi að hann hafi stolið áðurnefndum netföngum og biðst afsökunar á sendingunum. Í kjölfar þessa átti Barnavernd viðtal við varnaraðila og E, sem bæði þvertóku fyrir að hafa sent þessi tölvuskeyti. Töldu þau að einhver hefði notað netföng þeirra í heimildarleysi. Barnavernd taldi brýnt að uppruni tölvuskeytanna og upplýsingar sem þar komu fram yrðu rannsakaðar. Var því óskað eftir rannsókn lögreglu og Útlendingastofnunar. Lögreglan vísað síðar kærunni frá á grundvelli 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga.
Ákveðið var að B fengi að hitta varnaraðila og dóttur hans, E, 30. október sl., en telpan hafði sjálf óskað eftir því að hitta E. Ekkert varð þó af umgengni þann dag þar sem öll fjölskylda telpunnar mætti, þrátt fyrir að starfsmenn Barnaverndar hefðu áður tekið fram að aðeins varnaraðili og dóttir hans fengju að hitta stúlkuna. Komið var á umgengni telpunnar við varnaraðila og E 7. nóvember. Hún stóð þó skemur en áformað var. Virtist starfsmönnum sem stúlkan væri á varðbergi gagnvart varnaraðila og forðaðist augnsamband við hann og snertingu. Eftir umgengni greindi viðstaddur túlkur starfsmönnum frá því að varnaraðili og dóttir hans hefðu óskað eftir því að hann túlkaði ekki allt sem sagt var þeirra í milli.
Á meðferðarfundi Barnaverndar 31. október var bókað að rætt hefði verið við lögmann fjölskyldunnar og hann beðinn um að koma þeim skilaboðum til fjölskyldunnar að hætta að þrýsta á C, frænku B, um að hún segði frá því hvar B væri vistuð, enda vissi hún það ekki. Jafnframt var þess óskað að fjölskyldumeðlimir létu af ýmiss konar söguburði um líðan stúlkunnar hjá fósturforeldrum og fyrirætlunum Barnaverndar með hana. Við sama tækifæri var bókað að túlkur hefði orðið fyrir áreiti af hálfu fjölskyldunnar og var hann óviss um hvort hann gæti sinnt þeirri þjónustu áfram. Fór svo að hann lét af störfum. Í fundargerð sama fundar er jafnframt bókað að hringt hafi verið til [...] 29. október og rætt við móður C með aðstoð túlks. Var hún spurð um B og kvaðst konan þekkja til hennar og vissi að hún væri stödd á Íslandi með afa sínum og ömmu. Sagði hún að móðir B væri á lífi og byggi í bænum [...]. Héti hún I. Hún sagðist ekki geta náð símasambandi við móður telpunnar, eina leiðin væri að fara til [...], sem væri talsvert löng leið. Hins vegar kvaðst hún vita hvar hún ætti heima.
Málefni stúlkunnar var lagt fyrir fund sóknaraðila 12. nóvember sl. Samhliða var lögð fram greinargerð Barnaverndar þar sem rakin voru afskipti af telpunni frá komu hennar hingað til lands, svo og þau úrræði sem Barnavernd hefði gripið til. Í fundargerð var bókað svohljóðandi: „Það er mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að áfram þurfi að koma til vistunar B utan heimilis, meðal annars vegna fyrri upplýsinga í málinu er snúa að vanrækslu stúlkunnar í umsjá E frænku sinnar, þegar forsjáraðili fór af landi brott í lengri tíma. Þá þurfi að koma til lengri vistunar svo áfram megi stuðla að öryggi og velferð B. Á tímabili núverandi vistunar hefur ekki tekist að fá það á hreint hvernig tengslum B er háttað við fjölskyldumeðlimi, þvert á móti hafa borist upplýsingar varðandi að ekki sé allt með felldu varðandi það hvort móðir B er á lífi eða ekki. Hegðun B og frásagnir benda einnig til þess að skoða þurfi tengsl hennar við forsjáraðila nánar og með einhverjum hætti reyna að meta forsjárhæfni hans, en fyrirséð er að það gæti reynst erfitt sökum tungumála erfiðleika. Þá er ljóst að ýmislegt í hegðun B þykir benda til þess að hún hafi mögulega verið [...] og því brýnt að það verði kannað frekar. Veita þarf B tækifæri til að aðlagast betur á fósturheimilinu og í skóla, veita henni áfram sálfræðiviðtöl og leggja mat á það hvernig stuðning og aðstoð hún er í þörf fyrir.
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tekur undir framangreint mat starfsmanna og telur nauðsynlegt að vistun telpunnar utan heimilis verði í allt að 6 mánuði til viðbótar þeim tveimur mánuðum sem þegar hefur verið úrskurðað um, sbr. úrskurður nefndarinnar frá 1. október 2013. Þar sem fram hefur komið á fundi nefndarinnar í dag að forsjáraðili telpunnar er ekki reiðubúinn að samþykkja vistun telpunnar utan heimilis er borgarlögmanni falið að gera þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að telpan verði vistuð í allt að sex mánuði frá 1. desember 2013 utan heimilis, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“ Á sama fundi sóknaraðila var kveðinn upp úrskurður þess efnis að dvalarstað telpunnar skyldi haldið leyndum gagnvart forsjárhafa í allt að sex mánuði, sbr. 7. mgr. 74. gr. sömu laga.
Við aðalmeðferð málsins gaf varnaraðili skýrslu fyrir dóminum, svo og vitnin E, dóttir varnaraðila, og J, starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur.
III
Sóknaraðili leggur á það áherslu að við meðferð barnaverndarmála beri að gæta meðalhófs, en í því felist m.a. að ávallt skuli beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Í málinu liggi fyrir upplýsingar um slæman aðbúnað telpunnar og að varnaraðili beiti hana ofbeldi. Þá hafi varnaraðili, sem fari með forsjá telpunnar, farið af landi brott í fjóra mánuði í byrjun júnímánaðar. Á meðan hafi telpan eftir atvikum verið í umsjá móðursystur sinnar og/eða móðurömmu. Sú fyrrnefnda hafi vanrækt hana, auk þess sem hún [...] [...], en amman sé hins vegar ófær um að annast telpuna. Skilyrði þess að beitt sé úrræði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga sé að úrræði skv. 24. og 25. gr. laganna hafi ekki skilað tilætluðum árangri, eða að þau séu eftir atvikum ófullnægjandi. Með vísan til fyrri úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. U-7/2013, svo og málavaxta í heild, telur sóknaraðili að ekki séu fyrir hendi vægari úrræði en vistun telpunnar utan heimilis í sex mánuði, eins og krafist sé í málinu. Krafan sé nauðsynleg til að forða telpunni frá vanrækslu og til að meta aðstæður hennar til framtíðar.
Um lagarök, kröfunni til stuðnings, kveðst sóknaraðili m.a. vísa til barnaverndarlaga nr. 80/2002, laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013, laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Varnaraðili bendir á að Barnavernd Reykjavíkur hafi hvorki boðið honum aðstoð né óskað eftir samvinnu við hann um uppeldi og aðbúnað telpunnar. Aldrei hafi heldur verið leitað eftir því að hann undirritaði meðferðaráætlanir. Önnur úrræði hafi því ekki verið reynd áður en gripið hafi verið til vistunar telpunnar utan heimilis. Varnaraðili hafi hins vegar bæði lýst sig reiðubúinn til samvinnu við Barnavernd, svo og að þiggja þá aðstoð og hjálp sem unnt væri að veita til að telpunni liði sem best heima hjá fjölskyldu sinni. Þá hafi hann samþykkt að telpan færi í læknisskoðun og sálfræðiviðtöl. Enn fremur hafi hann sjálfur fallist á að undirgangast forsjárhæfnismat og hverja þá könnun sem óskað væri eftir. Hann mótmælir því hins vegar harðlega að hafa beitt stúlkuna ofbeldi af nokkru tagi, enda liggi ekki fyrir nein gögn er sýni slíkt. Jafnframt mótmælir hann því að umrædd tölvuskeyti stafi frá honum eða dóttur hans, E, og telur líklegt að einhver óprúttinn aðili hafi notast við netföng þeirra. Þá segir hann að rangt sé að starfsmenn Barnaverndar hafi ekki getað náð sambandi við hann eða E vegna könnunar á högum stúlkunnar. Í því sambandi bendir hann á að E hafi 20. ágúst sl. bæði samþykkt óboðað eftirlit á heimilinu og rannsóknarviðtal við stúlkuna í Barnahúsi.
Um lagarök vísar varnaraðili til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, þar sem segi að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd, áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Regla þessi komi einnig fram í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 26. gr. laga 80/2002, en í síðarnefnda ákvæðinu sé áréttuð sú meginregla barnaverndarlaga að íþyngjandi ráðstafanir skuli eigi standa lengur en þörf krefur hverju sinni. Í ljósi ofanritaðs mótmælir varnaraðili því að skilyrði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga séu fyrir hendi í máli þessu.
Auk ofanritaðs byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila fari í bága við 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem segi að stuðla skuli að því að sameina fjölskyldur en ekki sundra þeim, og að opinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til.
Til stuðnings þeirri kröfu að sóknaraðili afhendi varnaraðila nú þegar telpuna vísar varnaraðili til þeirrar meginreglu barnalaga og barnaverndarlaga að barn skuli vera þar sem því er fyrir bestu, sbr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Málskostnaðarkrafan er reist á 1. mgr. 60 gr. laga nr. 80/2002 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988.
V
Í 21. gr. barnaverndarlaga er að finna reglur um málsmeðferð vegna tilkynninga og upplýsinga, sem leitt geta til þess að barnaverndarnefnd hefji könnun máls. Í 5. mgr. greinarinnar er tekið fram að ákvörðun um að hefja könnun skuli ekki tekin nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til. Í VI. kafla laganna eru síðan fyrirmæli um ráðstafanir barnaverndarnefnda í kjölfar könnunar máls. Er þar kveðið á um ýmis úrræði, með eða án samþykkis foreldra. Einnig er þar gert ráð fyrir því að til þess geti komið að barnaverndarnefnd úrskurði um vistun barns utan heimilis í allt að tvo mánuði, án samþykkis foreldra, enda séu uppfyllt þau skilyrði sem þar er kveðið á um og „ef brýnir hagsmunir barns mæla með því“, sbr. 26. og 27. gr. laganna. Í b-lið 1. mgr. 27. gr. er tekið fram að slík ráðstöfun barns sé heimil „til að tryggja öryggi þess eða til þess að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu“. Á grundvelli síðastnefnds ákvæðis kvað sóknaraðili upp úrskurð 1. október sl. um að að telpan skyldi vistuð á vegum sóknaraðila í allt að tvo mánuði frá og með úrskurðardegi. Varnaraðili kærði þann úrskurð til Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október, en með úrskurði dómsins 22. nóvember sl. var úrskurður sóknaraðila staðfestur. Með bréfi, mótteknu 27. nóvember sl., krafðist sóknaraðili þess að dómurinn úrskurðaði að telpan yrði áfram vistuð utan heimilis afa síns, í allt að sex mánuði frá 1. desember 2013. Samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd, telji hún nauðsynlegt að ráðstöfun skv. a- og b-lið 27. gr. standi lengur en þar er kveðið á um, gera kröfu um slíkt fyrir héraðsdómi.
Við munnlegan flutning málsins var upplýst af hálfu lögmanns sóknaraðila að við eftirgrennslan hjá yfirvöldum á [...] hefði komið í ljós að móðir stúlkunnar hafi látist í [...] þar í janúar 2010. Faðir stúlkunnar er hins vegar lífi og býr á [...]. Ræddi stúlkan við hann símleiðis í lok umgengni við varnaraðila og frænku sína, E, 17. desember sl.
Eins og áður hefur verið rakið hafa sóknaraðila allt frá febrúarbyrjun sl. borist tilkynningar, bæði frá einstaklingum og opinberum aðilum, þar sem lýst er áhyggjum af uppeldisaðstæðum stúlkunnar, vanrækslu, skorti á eftirliti og meintu ofbeldi og/eða harðræði gagnvart henni. Í könnunarviðtali í Barnahúsi 13. september neitaði stúlkan því að varnaraðili eða aðrir fjölskyldumeðlimir hafi verið að „berja“ hana, og liggja heldur engar upplýsingar fyrir um sjáanlega áverka á henni. Þá kom þar ekkert fram sem benti til þess að hún [...]. Fyrir liggja hins vegar torkennileg tölvuskeyti sem send voru Barnavernd 17.-19. október og innihalda þau alvarlegar ásakanir á hendur varnaraðila og E. Netfang sendanda er þar skráð á nafn þeirra sjálfra. Er þar m.a. gefið í skyn að stúlkan sé [...]. Bæði hafa þau þvertekið fyrir að hafa sent tölvuskeytin, en telja að einhver óprúttinn aðili hafi notast við netföng þeirra.
B hefur dvalist á fósturheimili á vegum sóknaraðila frá 25. september sl., en ákveðið var að halda dvalarstað hennar leyndum gagnvart varnaraðila með úrskurði sóknaraðila 12. nóvember. Samkvæmt gögnum málsins, þ. á m. skýrslum talsmanns stúlkunnar, hefur aðlögun hennar að fósturheimilinu gengið vel og nýtur hún þar umhyggju og góðs aðbúnaðar. Fram kemur þar einnig að telpan hafi tekið miklum framförum, bæði í almennri hegðun og íslensku. Talsmaður vekur hins vegar athygli á því að stúlkan sé varfærin í samskiptum við karlmenn, hvort sem í hlut eigi starfsmenn Barnaverndar eða fósturfaðir, og telur nauðsynlegt að Barnavernd rannsaki ástæður þessa. Í skýrslum starfsmanna Barnaverndar, sem ritaðar hafa verið eftir umgengni telpunnar við varnaraðila og frænku hennar, E, kemur einnig fram að telpan sýni afa sínum fálæti, vilji vart horfa né yrða á hann. Á hinn bóginn sýni hún E áhuga og hlýju.
Þegar gögn málsins eru virt heildstætt er það mat dómsins að ákvörðun sóknaraðila um áframhaldandi vistun telpunnar, E, utan heimils varnaraðila í allt að sex mánuði, samrýmist markmiðum barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 1. og 2. gr. þeirra laga, og að sú ráðstöfun rúmist innan ákvæðis 7. mgr. 4. gr. sömu laga. Fellst dómurinn á að ákvörðun sóknaraðila sé til þess fallin að veita telpunni öryggi og nauðsynlega aðhlynningu, svo og að stuðla að velferð hennar. Jafnframt hafnar dómurinn þeim sjónarmiðum varnaraðila að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn reglum um meðalhóf eða 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þykja því uppfyllt skilyrði b-liðar 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, til þess að verða við kröfu sóknaraðila. Á hinn bóginn telur dómurinn að brýnt sé að hið allra fyrsta verði skoðuð tengsl telpunnar við varnaraðila og forsjárhæfni hans metin. Þá þykir dóminum ekki síður nauðsynlegt að Barnavernd kanni til hlítar hvort efni þeirra töluskeyta sem áður eru nefnd eigi við einhver rök að styðjast.
Sóknaraðili hefur ekki krafist málskostnaðar í máli þessu, en varnaraðili nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi innanríkisráðherra 12. desember 2013. Greiðist allur kostnaður við rekstur málsins úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns varnaraðila, Þuríðar Halldórsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 500.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
B, kt. [...], sem lýtur forsjá varnaraðila, A, skal vistuð utan heimilis varnaraðila í allt að sex mánuði, frá 1. desember 2013.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þuríðar Halldórsdóttur hdl., að fjárhæð 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.