Hæstiréttur íslands
Mál nr. 670/2010
Lykilorð
- Líkamsárás
- Lögreglurannsókn
- Sakbending
|
|
Fimmtudaginn 27. október 2011. |
|
Nr. 670/2010.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X (Guðmundur Ágústsson hrl.) |
Líkamsárás. Lögreglurannsókn. Sakbending.
X var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa, í félagi við óþekktan aðila, slegið A ítrekuðum hnefahöggum í andlit, velt borði yfir hann þar sem hann lá og sparkað í höfuð hans. Héraðsdómur taldi ýmsa annmarka hafa verið á lögreglurannsókn málsins og að rannsóknaraðferðir sem beitt hafði verið hefðu ekki verið í samræmi við reglur sem gilda um sakbendingu. Þóttu þessi atriði þó ekki eiga að valda frávísun málsins heldur koma til skoðunar við mat á því hvort ákæruvaldinu hefði tekist að sýna fram á sekt ákærða. Taldi héraðsdómur að ekki yrði ráðið með vissu af myndbandsupptöku úr öryggismyndavélum, að ákærði hefði verið sá maður sem réðist að A í umrætt sinn og framburður vitna í málinu leiddi heldur ekki til þeirrar niðurstöðu. Var það niðurstaða héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, að ósannað væri að X hefði veist að A með þeim hætti sem greindi í ákæru og var hann því sýknaður auk þess sem bótakröfu A var vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. nóvember 2010. Krefst ákæruvaldið þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar. Til vara er þess krafist að héraðsdómur verði ómerktur og málinu heimvísað.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
A sem gerði bótakröfu í héraði hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu ákæruvaldsins tekið fram að ýmsir annmarkar hafi verið á rannsókn málsins eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi. Einnig liggur fyrir að kona, sem líklega hefur verið sjónarvottur að líkamsárásinni, var ekki leidd fyrir héraðsdóm sem vitni og heldur ekki maður sem kvaðst við skýrslutöku hjá lögreglu þekkja ákærða sem árásarmanninn á myndbandsupptöku af árásinni.
Eins og rannsókn málsins var úr garði gerð og málatilbúnaði ákæruvaldsins háttað fyrir héraðsdómi er ekki ástæða til þess að draga í efa mat héraðsdómara á sönnunargögnum sem fyrir hann voru færð og gerð er skilmerkilega grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Eru því ekki efni til þess að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað á grundvelli 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. nóvember 2010, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 20. september 2010, á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 22. nóvember 2009, á Hressingarskálanum, Austurstræti 20 í Reykjavík, í félagi við óþekktan aðila, slegið A ítrekuðum hnefahöggum í andlit, velt borði yfir hann þar sem hann lá og sparkað í höfuð hans, með þeim afleiðingum að A hlaut brot á hægra kinnbeini með innkýlingu á hægri kinnbeinsboga og ótilfærðum brotlínum í augntóft, bæði botni og hliðarvegg, brot í fram- og hliðarvegg hægri kinnholu, 3-4 sm langan skurð vinstra megin á höfði, skurð á hægra eyra, mar á andliti og höfði.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta að fjárhæð 1.777.999 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri upphæð frá 22. nóvember 2009, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. laganna frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu skaðabótakröfu til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Verði ekki fallist á frávísunarkröfu er þess krafist að ákærði verði sýknaður af ákæru, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að sýknað verði af bótakröfu. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá aðfaranótt sunnudagsins 22. nóvember 2009, barst beiðni um aðstoð klukkan 2:23 vegna meðvitundarlauss manns á skemmtistaðnum Hressingarskálanum í Austurstræti. Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir B dyravörð, sem tjáði þeim að um líkamsárás hefði verið að ræða. Hann sagðist skömmu áður hafa vísað árásarmanninum út af skemmtistaðnum, en hann hefði þá ekki gert sér grein fyrir því hvað málið var alvarlegt. B sagði manninn hafa verið krúnurakaðan, klæddan í svarta hettupeysu með rauðu merki á framhlið. Hann sagðist hafa séð á eftir manninum ganga vestur Austurstræti. Hinn slasaði, A, var illa áttaður og með skurð á höfði, sem blæddi verulega úr. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysa- og bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss.
Vitnin C, D og E gáfu sig fram við lögreglu á vettvangi. Í frumskýrslu lögreglu er höfð eftir þeim lýsing á árásarmanninum, sem kom heim og saman við lýsingu dyravarðarins. Þá gaf sig fram kona sem sagðist hafa heyrt tvo menn ræða sín á milli að árásarmaðurinn héti X og ætti bifreið með skráningarmerkinu [...]. Við eftirgrennslan reyndist ákærði skráður fyrir bifreið með slíku merki. Um klukkan 6 um morguninn barst tilkynning um átök í Austurstræti og að árásarmaðurinn ætti þar hlut að máli. Er lögreglumenn bar að reyndust dyraverðir skemmtistaðarins hafa ákærða í haldi og kom útlit hans heim og saman við lýsingu vitna á árásarmanninum. Var hann handtekinn.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu daginn eftir. Sagðist hann hafa verið á skemmtistaðnum ásamt manni sem hann kannaðist við og vissi að heitir F. Þeir hefðu verið að drekka bjór og ætlað að setjast við borð sem þarna var. Tveir menn hefðu setið þar fyrir og hefðu þeir spurt mennina hvort þeir mættu setjast við borðið. Annar mannanna hefði svarað þeirri umleitan með orðunum „fuck off“. Þeir hefðu sest allt að einu og hefði F spurt manninn hvers vegna hann hefði tekið þeim svona illa. F hefði ávarpað manninn á ensku og sagðist ákærði telja að maðurinn væri útlendingur. Hefðu F og útlendingurinn byrjað að togast eitthvað á og sá síðarnefndi verið kominn með hönd á loft. Ákærði sagðist hafa risið á fætur og ætlað að skilja þá að, en þá fengið högg í höfuðið. Sagðist ákærði þá hafa hrint manninum frá sér svo að hann féll á sófann. Við þetta hefði borðið farið á flug og hvolfst yfir manninn. Fleiri menn hefði drifið að og slagsmál hafist. Ákærði sagðist hafa náð að fikra sig í burtu og hefði hann farið út af veitingastaðnum. Á leiðinni út hefði hann hitt dyravörð sem hefði spurt hvort hann hefði átt þátt í slagsmálunum en hann hefði neitað því. Ákærði sagði þá F hafa sótt sömu íþróttaæfingar um tíma en sagðist ekki þekkja frekari deili á honum og ekki vita hvar hann væri að finna.
Í skýrslum lögreglu er lýst aðgerðum lögreglu til að hafa uppi á nefndum F, en þær báru ekki árangur.
Meðal gagna málsins er vottorð Ágústu Ólafsdóttur sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsett 10. desember 2009, þar sem kemur fram að A hefði komið með sjúkrabifreið á slysadeild umrædda nótt. Stór skurður, u.þ.b. 3 til 4 sm á lengd, hefði verið vinstra megin á höfði hans og mikið mar þar við. Þá hefði verið skurður á hægra eyra og merki um innkýlt brot á hægra kinnbeini. Tekin hefði verið sneiðmynd sem hefði sýnt brot í andlitsbeinum hægra megin, nánar tiltekið sprungu hliðlægt í framvegg hægri kinnholu, sem gekk upp í augntóftargólf. Brotið hefði verið nánast ótilfært að framan en aftarlega í augntóftinni hefði verið laus beinhluti, u.þ.b. 4 mm að stærð, sem skagaði niður í kinnholuna hægra megin. Þá hefðu verið tvö brot í hliðarvegg með innkýlingu og vökva í kinnholunni. Jafnframt hefði kinnbogi verið tvíbrotinn og fremra brotið innkýlt.
Fyrir liggur vottorð Einars K. Hjaltested, sérfræðings á háls-, nef- og eyrnadeild, dagsett 6. apríl 2010, þar sem kemur fram að A hafi gengist undir aðgerð daginn eftir komu á sjúkrahús og hefði hægra kinnbeini og kinnbeinsboga verið lyft á réttan stað.
Þá eru í gögnum málsins myndbandsupptökur úr öryggismyndavél skemmtistaðarins Hressingarskálans frá kvöldinu sem um ræðir, sem m.a. hafa að geyma myndskeið þar sem atlagan sést.
Við aðalmeðferð málsins lýsti ákærði því að hann hefði hitt nefndan F utan við skemmtistaðinn þetta kvöld. F hefði verið í fylgd með vinum sínum, pilti og stúlku. Ákærði sagðist hafa farið inn á veitingastaðinn með þessu fólki. Þau hefðu keypt sér drykk og sest við borð en mjög drukkinn maður, sem hann vissi nú að var A, hefði setið þar fyrir. Vinur F hefði spurt A hvort þau mættu setjast, en hann öskrað eitthvað á ensku. Þeir F hefðu farið á barinn og þegar þeir komu til baka hefði F sest við hlið A, en vinur hans og stúlkan hefðu setið á móti þeim. Hann hefði sest við hlið þeirra. Fljótlega hefði upphafist rifrildi á milli F og A. Þeir hefðu risið á fætur og farið að ýta hvor við öðrum. Þá hefði vinur F risið á fætur, tekið í borðið og snúið því í hring. Ákærði sagðist hafa fengið borðið í fótinn og hefði hann orðið að standa uppi í sætinu til að forðast atganginn. F og vinur hans hefðu ráðist í sameiningu að A. Ákærði sagðist hafa komist á brott með því að stíga yfir borðið og hefði hann farið út af veitingastaðnum. Hann vísaði því alfarið á bug að hafa átt nokkurn þátt í átökunum. Ákærða var sýnt myndskeið úr öryggismyndavél þar sem hann taldi sig bara kennsl á sig og F þar sem þeir hefðu komið að borðinu, eftir að hafa verið á barnum, og sást hvar F settist við hlið A, en hann sjálfur á móti F við hlið hins ónefnda félaga F. Sagðist ákærði síðar hafa skipt um sæti við þennan mann. Síðan sagðist ákærði bera kennsl á sig sem þann mann sem stóð uppi á bekk eftir að árásin upphófst. Að öðru leyti sagðist ákærði ekki geta gert greinarmun á sér og hinum ónefnda manni á myndbandsupptökunum en þeir hefðu báðir verið snoðklipptir og í áþekkum fatnaði.
A sagðist lítið muna af því sem gerðist. Hann myndi eftir því að hafa setið við borð á veitingastaðnum þegar þrjá menn hefði borið að. Einn þeirra hefði verið með einhver leiðindi í hans garð, en hann hefði ekki tekið það alvarlega. Hann sagðist ekki muna eftir atlögunni.
D sagðist hafa setið við næsta borð þegar átökin urðu. Hún hefði séð að maður sat við borðið en síðan hefðu einhverjir menn komið að, sem hefðu ráðist á hann og hefði borðið farið yfir hann. Árásarmaðurinn hefði verið í svartri hettupeysu en hún hefði ekki séð andlit hans. Við skýrslutöku hjá lögreglu var vitninu sýnd myndbandsupptaka sem tekin hafði verið af ákærða þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Var bókað eftir henni að hún þekkti ákærða af því myndskeiði sem einn árásarmannanna í umrætt sinn. Hefði hún séð ákærða veita A mörg hnefahögg og leggja básborðið yfir hann þar sem hann lá varnarlaus í sæti sínu. Við aðalmeðferð málsins sagðist vitnið hins vegar ekki treysta sér til að staðhæfa að það hefði verið árásarmaðurinn sem hún sá á upptökunni sem lögregla sýndi henni.
B sagðist hafa verið við dyravörslu á veitingastaðnum, þegar hann var kallaður til vegna líkamsárásar, en atlagan hefði verið um garð gengin þegar þá dyraverðina bar að. C hefði bent honum á árásarmanninn og hefði hann vísað þeim manni út af veitingastaðnum. Brotaþolinn hefði legið í blóði sínu eftir atlöguna. Síðar um nóttina hefðu þeir dyraverðirnir séð til ferða hins meinta árásarmanns í Austurstræti og hefðu þeir stöðvað för hans og kallað til lögreglu. Vitnið sagðist hafa þekkt manninn aftur af fatnaði hans, en taldi að hann hefði verið íklæddur rauðum stuttermabol með hvítu mynstri. Borið var undir vitnið það sem haft var eftir honum í skýrslu lögreglu að maðurinn hefði verið í svartri hettupeysu með rauðu merki framan á. Vitnið sagðist telja það rétt, en tók fram að langt væri liðið frá atvikinu og hann myndi þetta ekki nú.
G sagðist hafa staðið utan við veitingastaðinn við glugga þegar hann hefði séð ákærða, sem hann kannaðist við, þar fyrir innan. Hann hefði séð að átök upphófust og hefði ákærði staðið þar hjá, án þess að taka nokkurn þátt. Hann hefði séð að tveir menn hefðu farið að ýta hvor við öðrum. Þá hefði þriðji maðurinn, sem setið hefði við borðsendann, blandað sér í átökin og hefðu þeir tveir kýlt í átt til brotaþolans þar sem hann lá. Hann hefði fylgst með ákærða og tekið eftir því að hann aðhafðist ekkert þarna. Vitnið sagði ákærða hafa verið í svartri hettupeysu með hvítu merki. Maðurinn sem sat við hlið hans og átti þátt í átökunum hefði einnig verið í svartri hettupeysu.
C sagðist hafa setið við borð við enda salarins þegar hann hefði orðið þess var að slagsmál upphófust við annað borð. Hann hefði séð einhvern strák hlaupa í burtu og hefði félagi sinn sagt að þetta væri árásarmaðurinn. Hann hefði hins vegar ekki séð árásina sjálfa. Vitnið taldi tvo menn hafa veist að hinum þriðja en sagðist ekki hafa séð andlit þeirra. Við skýrslutöku hjá lögreglu hefði honum verið sýnd myndbandsupptaka úr öryggismyndavél og hefði lögreglumaður sem tók af honum skýrslu bent honum á árásarmanninn. Hann sagðist ekki treysta sér til að staðfesta þetta sjálfur. Vitnið kannaðist ekki við að hafa gefið sig fram við dyravörð á vettvangi og bent honum á árásarmanninn. Hann sagði lýsingu á klæðnaði sem höfð var eftir honum í skýrslu lögreglu vera komna frá félaga sínum, sem var með honum þetta kvöld.
Þá komu fyrir dóminn sem vitni lögreglumennirnir Jóhann Bjarki Ólafsson, Baldur Ólafsson og Daníel Örn Davíðsson, sem komu á vettvang í umrætt sinn, auk Þórðar Kormákssonar rannsóknarlögreglumanns sem annaðist skýrslutökur af vitnum í málinu. Jafnframt Einar K. Hjaltested sérfræðingur, sem staðfesti læknisvottorð sitt. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnanna.
Niðurstaða
Af hálfu verjanda ákærða er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi, enda sé rannsókn þess svo stórlega ábótavant að ekki verði lagður á það dómur. Vísar verjandi einkum til þess að við skýrslutökur voru vitnum sýndar myndbandsupptökur úr öryggismyndavél og af ákærða þar sem hann var við skýrslutöku og þau spurð hvort þau gætu borið kennsl á hann sem árásarmanninn. Á upptöku úr öryggismyndavél sjáist hins vegar að tveir menn hafi veist að A og komi jafnframt tveir mjög áþekkir menn til greina sem annar árásarmannanna. Hafi ekki verið reynt til þrautar að hafa uppi á öðrum hugsanlegum sakborningum í málinu. Þá beri skýrslur af vitnum þess merki að þau hafi verið spurð leiðandi spurninga, m.a. hafi ákærði verið nefndur í skýrslunum en vitnin hafi borið fyrir dómi að þau hafi ekki þekkt nafn hans. Af skýrslunum verði jafnframt ráðið að ekki hafi verið haft orðrétt eftir vitnum. Er af hálfu verjanda vísað til 53. gr., 54. gr. og 2. mgr. 66. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Dómurinn fellst á það með verjanda að ýmsir annmarkar eru á lögreglurannsókn málsins og að rannsóknaraðferðir sem beitt var voru ekki í samræmi við reglur sem gilda um sakbendingu. Eins og málinu er háttað verður ekki bætt úr þessum annmörkum. Hins vegar verður að meta skýrslur vitna með hliðsjón af því hvernig þær eru til orðnar. Þá liggur fyrir að ekki hefur tekist að upplýsa hverjir voru í för með ákærða á veitingastaðnum í umrætt sinn. Þykja þessi atriði ekki eiga að valda frávísun málsins, heldur koma til skoðunar við mat á því hvort ákæruvaldinu hefur tekist að sýna fram á sekt ákærða. Er því hafnað kröfu um frávísun málsins.
Ákæruvaldið reisir sönnunarfærslu sína einkum á myndbandsupptökum úr öryggismyndavélum skemmtistaðarins og skýrslum vitna hjá lögreglu, sem ýmist lýstu meintum árásarmanni eða báru kennsl á ákærða sem þann mann eftir að hafa skoðað myndbandsupptökur á lögreglustöð, svo sem að framan er rakið. Við aðalmeðferð málsins var spilað myndskeið úr upptöku úr öryggismyndavél sem sýndi atlöguna. Á myndskeiðinu sést hópur fólks sitja við borð, m.a. tveir menn sem sitja hlið við hlið og virðast þeir mjög áþekkir í útliti og klæðaburði. Verður ekki betur séð en að sá mannanna tveggja sem sat við borðsendann, gegnt nefndum F, hafi ráðist að A með þeim hætti sem í ákæru greinir. Við skoðun myndskeiðsins sagðist ákærði í fyrstu telja sig vera þann mann sem sést sitja við borðsendann en síðan að hann væri þess fullviss að hann væri sessunauturinn, sem sést á myndskeiðinu stökkva upp á bekk þegar atlagan upphófst og halda sig þar á meðan á henni stóð. Loks sagðist ákærði ekki geta gert greinarmun á sér og hinum óþekkta manni á upptökunum úr öryggismyndavélunum. Sem fyrr segir virðast árásarmaðurinn og sessunautur hans mjög áþekkir í útliti og klæðaburði á myndbandsupptökunum sem um ræðir. Að mati dómsins verður ekki með vissu ráðið af upptökunum að ákærði hafi verið sá maður sem réðst að A í umrætt sinn. Vitnið D sagðist fyrir dómi ekki treysta sér til þess að staðhæfa að það hefði verið árásarmaðurinn sem hún sá á myndbandsupptöku sem lögregla sýndi henni, en upptakan var af skýrslutöku ákærða. Þá sögðust vitnin B og C ekki hafa orðið vitni að árásinni og því ekki geta borið kennsl á árásarmanninn. Loks kom G fyrir dóminn og sagðist hafa orðið vitni að atlögunni þar sem hann stóð úti fyrir glugga veitingastaðarins. Vitnið sagðist þekkja ákærða og hefði hann fylgst með honum, en ákærði hefði ekki tekið þátt í atlögunni. Að framansögðu virtu, með vísan til 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, telst ósannað að ákærði hafi veist að A eins og honum er gefið að sök í ákæru. Verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Eftir úrslitum málsins er skaðabótakröfu A vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 205.100 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Tómasar Hrafns Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 129.565 krónur. Þóknun lögmanna er tiltekin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dröfn Kærnested aðstoðarsaksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Skaðabótakröfu A er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 205.100 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Tómasar Hrafns Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 129.565 krónur.