Hæstiréttur íslands
Mál nr. 579/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2017 þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um sviptingu sjálfræðis. Þá krefst hún þóknunar til handa verjanda sínum fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september
I.
Með kröfu, sem barst dóminum 7. september sl., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...] Reykjavík, verði, með vísan til a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, svipt sjálfræði tímabundið í 12 mánuði. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá er og gerð krafa um að skipuðum verjanda verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
II.
Sóknaraðili byggir kröfur um sviptingu sjálfræðis til 12 mánaða á a-lið 4. gr., sbr. 5. gr., lögræðislaga, nr. 71/1997. Er krafan reist á því að brýn þörf standi til þess að svipta varnaraðila sjálfræði sökum geðsjúkdóms varnaraðila sem birtist nú í formi geðrofseinkenna.
Sóknaraðili bendir á að velferðarsvið Reykjavíkurborgar sé sóknaraðili í málinu, sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Aðstæður allar þyki vera með þeim hætti að rétt þykir að velferðarsvið Reykjavíkurborgar standi að beiðni um sjálfræðissviptingu varnaraðila. Samkvæmt upplýsingum frá læknum hafi fjölskylda varnaraðila verið upplýst um kröfu þessa.
Með beiðni sóknaraðila fylgdi m.a. læknisvottorð B, dags. 1. september sl. og læknisvottorð C geðlæknis, dags. 18. ágúst 2017 sl., greinargerð starfsmanns Þjónustumiðstöðvar [...], dags. 31. ágúst 2017 og beiðni um fyrirsvar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur varðandi kröfu um sjálfræðissviptingu varnaraðila, dags. 4. september 2017. Hvað varðar forsögu málsins og málsatvik er vísað til gagna málsins, sér í lagi til framangreinda vottorða og gagna.
Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé [...] ára gömul kona sem hafi langa sögu um geðræn veikindi í formi [...] og [...], á köflum með geðrofseinkennum. Mál vegna veikinda hennar hafa áður komið til kasta dómstóla. Hún hafi t.a.m. verið svipt sjálfræði á árunum 2010, 2012, 2015 og 2016 vegna andlegra veikinda. Þann 17. ágúst sl. hafi borgarlæknir og lögregla verið kölluð að heimili varnaraðila þar sem hún hafi ógnað nágrönnum sínum með hnífi. Varnaraðili hafi verið í mjög óstöðugu ástandi, ógnað borgarlækni og lögreglu með hnífnum, og varð lögregla að beita piparúða til að yfirbuga varnaraðila. Í kjölfarið hafi varnaraðili verið flutt á geðdeild þar sem hún hafi verið metin í geðrofi og nauðungarvistuð í 72 klst. á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Í framhaldinu hafi varnaraðili verið nauðungarvistuð í 21 dag með samþykki sýslumanns, dags. 19. ágúst sl., sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga.
Fyrstu dagana eftir komu á geðdeild hafi komið fram veruleg einkenni aðsóknarkenndar hjá varnaraðila. Þar sem hún hafi ekki haft innsæi í veikindi sín og ekki viljað lyfjameðferð í töfluformi hafi læknar ákveðið að hefja forðalyfjameðferð með sprautu. Enn sem komið sé telji varnaraðili sig ekki eiga við alvarleg veikindi að stríða. Hún sjái ekkert athugavert við hátterni sitt og telji sig ekki í þörf fyrir lyfjameðferð. Hún sé nú metin með alvarleg geðrofseinkenni í formi [...] og [...] og læknar telji að hún sé mögulega hættuleg sjálfri sér og öðrum í því ástandi. Það sé jafnframt mat lækna að varnaraðili þurfi stöðugt eftirlit og meðferð vegna undirliggjandi sjúkdóms síns en hún hafi átt ítrekuð veikindatímabil með alvarlegum einkennum. Varnaraðili hafi jafnframt ekki talið sig þurfa á að halda lyfjameðferð við veikindum sínum og hafi stundað meðferð illa þegar hún dvelji ekki á sjúkrahúsi.
Sóknaraðili standi að beiðni þessari en samkvæmt upplýsingum frá læknum hafi fjölskylda varnaraðila verið upplýst um kröfu þessa.
Krafa um sviptingu sjálfræðis varnaraðila til tólf mánaða grundvallast á heimild í 4. gr., sbr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og byggist á því að brýn þörf standi til þess sökum geðsjúkdóms varnaraðila sem birtist nú í formi geðrofseinkenna. Eins og fram komi í læknisvottorði B geðlæknis, dags. 1. september sl., muni ekki verða unnt að ná fram bata til framtíðar hjá varnaraðila án þess að stöðug lyfjameðferð sé tryggð. Með hliðsjón af innsæisleysi varnaraðila og andstöðu hennar við töku lyfja telji læknar óhjákvæmilegt að fara fram á sjálfræðissviptingu varnaraðila svo unnt sé að tryggja henni viðeigandi meðferð. Læknar telji ljóst að verði lyfjameðferð ekki tryggð með sjálfræðissviptingu varnaraðila muni hún hætta töku þeirra og þá séu batahorfur hennar slæmar og ljóst að lífsgæði varnaraðila muni skerðast verulega. Eins og fram komi í læknisvottorðinu telji læknar engan vafa á að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og að áframhaldandi meðferð sé henni nauðsynleg. Án hennar stefni hún heilsu sinni í voða og spilli möguleikum sínum á bata.
Sóknaraðili telur með hliðsjón af framangreindu að önnur og vægari úrræði séu fullreynd í tilviki varnaraðila og að skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 séu uppfyllt.
Í framanlýstu vottorði, sérfræðings er m.a. fyrri heilsufarssaga varnaraðila rakin ásamt því að greint er frá aðdraganda innlagnar varnaraðila. Samkvæmt vottorðinu er varnaraðili greind með [...].
Við aðalmeðferð málsins gaf geðlæknirinn, B, skýrslu fyrir dóminum um síma. Hún staðfesti efni og niðurstöðu vottorðs síns. B gerði grein fyrir alvarlegum geðrofsveikindum og [...] varnaraðila. Greindi hún frá því að varnaraðili væri haldinn geðsjúkdómi sem fæli í sér mikil vandamál fyrir varnaraðila. Læknirinn staðhæfði jafnframt að varnaraðili væri ennþá veik og að sjálfræðissvipting væri óhjákvæmileg. Taldi læknirinn að varnaraðili þyrfti á langvarandi meðferð að halda. Þá kvað hún sjálfræðissviptingu vera nauðsynlega til þess að unnt væri að veita varnaraðila þá meðferð sem hún þyrfti. Ástæðan væri m.a. sú að varnaraðili hefði ekki innsýn í sjúkdóm sinn og gæti ekki séð um sig sjálf. Ef varnaraðili yrði ekki svipt sjálfræði færi hún aftur í sitt fyrra horf. Ekki komi til greina að marka sjálfræðissviptingu skemmri tíma, hún hefði lagt til sviptingu í 2 ár. Vitnið staðfesti að lyfjameðferð væri algjörlega nauðsynleg og vægari úrræði kæmu ekki til greina.
Talsmaður varnaraðila mótmælti kröfu sóknaraðila. Verjandi lýsti því að varnaraðili væri sjálf reiðubúðin til þess að taka inn nauðsynleg lyf og í ljósi þess væri svipting til eins árs ekki nauðsynleg. Framanlýst atriði ættu að hníga í átt að því að sjálfræðissviptingunni yrði markaður skemmri tími.
III.
Með vísan til vættis, B, geðlæknis, fyrir dómi, en einnig með hliðsjón af öðrum fyrirliggjandi gögnum málsins, þykir sýnt að varnaraðili glími við margþættan vanda sem felst eins og áður segir í alvarlegum sjúkdómi.
Fyrir liggur mat læknis um að varnaraðili þurfi læknisaðstoð til að takast á við sjúkdómsástand sitt. Fái hún ekki viðeigandi meðferð stofni hún heilsu sinni í voða. Virkt og stöðugt aðhald mun vera forsenda þess að árangur geti náðst við meðhöndlum varnaraðila, en ljóst þykir að varnaraðila skortir innsæi í þarfir sínar og er ekki fús til samvinnu og hætti lyfjatöku um leið og færi gefst. Telur dómurinn því brýna þörf á því að hún verði tímabundið svipt sjálfræði og eru hennar eigin hagsmunir þar hafðir í huga. Skilyrði a-liðar 4. gr., sbr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, eru uppfyllt til að verða við kröfu sóknaraðila um tímabundna sjálfræðissviptingu varnaraðila í eitt ár. Með vísan til framburðar vitnisins B geðlæknis sem taldi að sjálfræðissvipting í tvö ár væri nærri lagi. Ekki þykja efni standa til þess að marka sviptingunni skemmri tíma.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af rekstri málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 180.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt sjálfræði í 12 mánuði. Allur kostnaður af málinu, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.