Hæstiréttur íslands
Mál nr. 550/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
- Málskostnaður
- Sératkvæði
|
|
Föstudaginn 16. október 2009. |
|
Nr. 550/2009. |
A (Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Reykjavíkurborg(Ebba Schram hdl.) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. Málskostnaður. Sératkvæði.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í tólf mánuði á grundvelli a. og b. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. október. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2009, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í málinu liggur fyrir vottorð Guðlaugar Þorsteinsdóttur geðlæknis 17. ágúst 2009 um heilsufar sóknaraðila, en það var ritað í tilefni af beiðni varnaraðila um að sóknaraðili yrði nauðungarvistuð til meðferðar á sjúkrahúsi samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga. Þá liggur fyrir vottorð Halldóru Jónsdóttur geðlæknis 2. september 2009, en efni þess er rakið í hinum kærða úrskurði. Kom Halldóra fyrir héraðsdóm og staðfesti læknisvottorðið. Kvaðst hún telja eina raunhæfa úrræðið til að sóknaraðili ætti möguleika á bata að svipta hana sjálfræði að lágmarki eitt ár. Kvað hún það þó ekki þurfa að hafa í för með sér að hún væri sjúklingur á geðdeild allan þennan tíma, hún gæti hugsanlega farið í eigið húsnæði eftir nokkra mánuði ef vel gengi, en unnt væri að fylgja henni eftir og grípa inn í ef illa færi að ganga. Þá hefur verið lagt fyrir Hæstarétt vottorð Nönnu Briem geðlæknis 7. október 2009, en hún hefur verið geðlæknir sóknaraðila frá því er núverandi meðferð hófst 28. maí 2009. Kemur þar fram að hún telji að eina raunhæfa úrræðið til að tryggja viðunandi meðferð fyrir sóknaraðila nú sé sjálfræðissvipting til eins árs, annað sé fullreynt. Með vísan til framangreinds og að öðru leyti forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Samkvæmt gögnum málsins var Ebba Schram héraðsdómslögmaður skipuð talsmaður varnaraðila í héraði. Það athugast að varnaraðili er sveitarfélag og var krafan fyrir héraðsdómi sett fram af lögmanni þess. Voru því ekki efni til að skipa varnaraðila talsmann samkvæmt 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga. Þar sem hún var þrátt fyrir það skipuð talsmaður varnaraðila ber samkvæmt 17. gr. laganna að ákveða henni þóknun úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin ásamt virðisaukaskatti í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Allur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 249.000 krónur og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Ebbu Schram héraðsdómslögmanns, samtals 124.000 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Samkvæmt gögnum málsins eru þeir þrír læknar sem skrifað hafa læknisvottorð um sóknaraðila og um getur í atkvæði meirihluta dómara allir starfandi á geðsviði Landspítala sem annast hefur læknismeðferð sóknaraðila. Kemur meðal annars fram að læknarnir Halldóra Jónsdóttir og Nanna Briem hafa unnið saman við meðferð sóknaraðila. Í vottorði Guðlaugar Þorsteinsdóttur kemur fram að upplýsingar um sóknaraðila séu að mestu fengnar úr sjúkraskrá hennar.
Halldóra Jónsdóttir geðlæknir var sá eini þessara lækna sem kom fyrir dóm í málinu. Gaf hún skýrslu 16. september 2009. Má leggja til grundvallar að svör hennar feli í sér afstöðu meðferðarlækna á geðsviði Landspítalans til sjúkdóms sóknaraðila og meðferðar á honum. Í skýrslu læknisins fyrir dómi kom fram að óvíst sé hvort reynast muni nauðsynlegt að halda sóknaraðila í meðferð á deild 12 á geðsviði Landspítala háskólasjúkrahúss á Kleppi næstu 12 mánuði. Geti vel verið að hún muni geta útskrifast eftir fjóra til sex mánuði.
Við úrlausn þessa máls er skylt að ganga ekki lengra við sviptingu á sjálfræði sóknaraðila en örugglega er nauðsynlegt í þágu þeirra hagsmuna sem sjálfræðissvipting á að tryggja. Með vísan til þessa tel ég að ekki séu efni til að svipta hana sjálfræði að svo stöddu um lengri tíma en sex mánuði frá uppkvaðningu héraðsdóms að telja. Er þá haft í huga að telji varnaraðili nauðsyn bera til að framlengja sviptinguna að þeim tíma liðnum er fullnægjandi að hann geri kröfu um framlengingu hennar fyrir dómi áður en sviptingartímanum lýkur, sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Athugasemd meirihluta dómara um skipun á talsmanni varnaraðila í héraði er hliðstæð athugasemd Hæstaréttar um sambærilegt efni í dómi Hæstaréttar 29. apríl 2004 í máli nr. 135/2004 sem birtur er á bls. 1949 í dómasafni réttarins það ár. Í 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga er dómara heimilað að skipa sóknaraðila lögræðissviptingarmáls talsmann. Þessi heimild gildir samkvæmt orðum sínum án tillits til þess hver þeirra sem taldir eru upp í 2. mgr. 7. gr. laganna sækir mál. Varnaraðili fyrir Hæstarétti sótti málið í héraði. Á dómþingi 14. september 2009 skipaði héraðsdómari honum talsmann. Studdist sú ákvörðun samkvæmt þessu við fullnægjandi lagaheimild og eru því að mínum dómi ekki efni til að gera athugasemd við hana. Ég er sammála meirihluta dómara um fjárhæð þóknunar talsmanna málsaðila.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2009.
Með beiðni, sem dagsett er 7. þ.m., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...],[...], verði svipt sjálfræði í tólf mánuði vegna geðveiki og fíkniefnaneyslu. Var málið þingfest 14. þ.m. og tekið til úrskurðar í gær. Um aðild sóknaraðila vísast til a- liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Varnaraðili mótmælir kröfunni.
Samkvæmt vottorði og vætti Halldóru Jónsdóttur geðlæknis er varnaraðili haldin geðklofa og vímuefnafíkn. Varnaraðili dvelst nú nauðungarvistuð á Kleppsspítala. Fyrir liggur að hún hefur komist yfir vímuefni á spítalanum og neytt þeirra þar nýlega. Að áliti læknisins hefur varnaraðili auk þess ekki innsæi í sjúkdóm sinn. Varnaraðili hafnar því að hún sé með geðklofa og kveðst hún einungis vera ofvirk. Á hinn bóginn kannast hún við að vera haldin vímuefnafíkn. Hún hefur lýst því yfir að hún samþykki að fá meðferð á sjúkrahúsi í þrjá mánuði. Læknirinn kveður það vera ófullnægjandi og þurfi varnaraðili, sem aldrei hafi fengið eiginlega meðferð við sjúkdómi sínum, að vera svipt sjálfræði í a.m.k. eitt ár til þess að hægt sé að koma við læknismeðferð.
Dómarinn álítur alveg vafalaust af því sem rakið er hér að framan að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og vímuefnafíkn og sé hún alls ófær um að ráða högum sínum. Þá álítur hann að skilyrði a- og b- liða 4. gr. lögræðislaga eigi við um varnaraðila og að þörf sé á því að svipta hann sjálfræði svo að hún fái læknismeðferð. Ber að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli svipt sjálfræði í tólf mánuði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þ.m.t. þóknun til talsmanns varnaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 100.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
A, kt. [...],[...], er svipt sjálfræði í tólf mánuði.
Úr ríkissjóði greiðist allur málskostnaður, þ.m.t. þóknun til talsmanns varnaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 100.000 krónur.