Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Óvígð sambúð
  • Fjárslit


Föstudaginn 18. febrúar.

Nr. 53/2011.

K

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

M

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárslit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi milli M og K er risið hafði við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna loka óvígðrar sambúðar. Krafðist K þess að viðurkennt yrði að hún væri eigandi að þriðjungi fasteignar þeirra M og K, helmingi innbúsmuna, hlutabréfa, verðbréfa og bankareikninga sem skráð höfðu verið á nafn M við sambúðarslit þeirra og eigandi að bifreið. Í hinum kærða úrskurði var ekki fallist á með K að nánast öll eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma aðila eða fjárhagsleg samstaða hafi verið með þeim allan tímann. Þóttu hvorki laga- né sanngirnisök standa til þess að beita meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti eða ákveða K aðra og lægri hlutdeild í hlutabréfum, verðbréfum og bankareikningum á nafni M. Var kröfum K því hafnað en vísað frá kröfu hennar um viðurkenningu á eignarrétti hennar að helmingi innbúsmuna þar sem engin gögn eða upplýsingar lágu fyrir um innbú aðila, hvernig það væri tilkomið eða hvert verðmæti þess væri. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð  með vísan til forsendna hans en þar sem ekki hafði í héraði verið leyst úr kröfu K um viðurkenningu á eignarrétti hennar að helmingi innbúsmuna var K ekki talin geta haft uppi þá kröfu fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og  Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2011, þar sem leyst var úr ágreiningi, sem risið hafði við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að hún sé eigandi að þriðjungi fasteignarinnar að [...] í [...], helmingi innbúsmuna, sem þar sé að finna, helmingi allra hlutabréfa, verðbréfa og bankareikninga, sem skráð hafi verið á nafn varnaraðila við sambúðarslit 1. nóvember 2009, og bifreiðinni [...]. Til vara krefst sóknaraðili að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að þessum verðmætum í lægra hlutfalli en að framan greinir. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

 Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að sér „verði dæmd 50% hlutdeild í öllum eignum sóknaraðila“ ef fallist verður á framangreindar kröfur hennar „að einhverju marki“. Varnaraðili krefst einnig kærumálskostnaðar.

Með hinum kærða úrskurði var vísað frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila um að viðurkenndur yrði eignarréttur hennar að helmingi innbúsmuna að [...] í [...]. Efnislega hefur því ekki verið leyst úr þeirri kröfu í héraði og getur sóknaraðili af þeim sökum ekki haft hana uppi fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2011.

Mál þetta, sem þingfest var 9. júní 2010, var tekið til úrskurðar 9. desember 2010. Sóknaraðili er K, [...], [...]. Varnaraðili er M, [...], [...].

Dómkröfur sóknaraðila eru aðallega þær að viðurkennt verði að sóknaraðili sé eigandi að 33,3% eignarhluta fasteignarinnar að [...], [...], ásamt fylgifé, þ.m.t. lóðarréttindum. Enn fremur að viðurkennt verði að sóknaraðili sé eigandi að 50% innbús sem staðsett er að [...], [...], 50% allra hlutabréfa, verðbréfa og bankareikninga sem skráð voru á nafn varnaraðila við sambúðarslit 1. nóvember 2009 og að viðurkennt verði að sóknaraðili sé eigandi bifreiðarinnar [...]. Til vara gerir sóknaraðili kröfu um að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að öðrum og lægri hundraðshluta fasteignarinnar að [...], [...], ásamt fylgifé, þ.m.t. lóðarréttindum, innbúi og hlutabréfum, verðbréfum og banka­reikningum sem skráð voru á nafn varnaraðila við sambúðarslit 1. nóvember 2009 svo og bifreiðinni [...]. Þá gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, allt að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað en til  vara að allar kröfur sóknaraðila verði stórlega lækkaðar. Verði fallist á kröfur sóknaraðila að einhverju marki er þess krafist að varnaraðila verði dæmd 50% hlutdeild í öllum eignum sóknaraðila. Að lokum er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

I.

Málsaðilar kynntust á árinu 1993 og flutti varnaraðili í byrjun árs 1994 í íbúð sóknaraðila að [...] í Reykjavík, stuttu áður en fyrsta barn þeirra fæddist í [...]. Aðilar bjuggu þar þangað til þau fluttu í maí 1996 í hús sem sóknaraðili hafði hafið byggingu á á árinu 1991 að [...] í [...]. Yngri sonur aðila fæddist í [...]. Samvistaslit urðu með aðilum í október 2009 er sóknaraðili flutti út. Varnaraðili býr enn að [...], en sóknaraðili festi kaup á íbúð við [...], [...].

Með bréfi, dags. 14. janúar 2010, fór sóknaraðili þess á leit að fram færu opinber skipti til fjárslita á milli hennar og varnaraðila og hinn 27. janúar 2010 var úrskurðað að opinber skipti skyldu fara fram til fjárslita á milli aðila. Með bréfi skiptastjóra, dags. 17. maí 2010, var óskað úrlausnar dómsins vegna ágreinings aðila við skiptin, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

II.

Vegna ágreinings aðila um málsatvik, einkum um það hvort fjárhagsleg samstaða hafi verið með þeim og hvenær húsið að [...] hafi verið fullklárað, er rétt að rekja framburð aðila og vitna fyrir dómi.

Sóknaraðili kvaðst hafa kynnst varnaraðila í byrjun árs 1993. Hún hafi þá búið í eigin íbúð að [...] í Reykjavík. Varnaraðili hafi flutt inn til hennar í janúar 1994 og þeim fæðst sonur í [...] sama. Varnaraðili hafi fram að því búið hjá foreldrum sínum en verið að byggja hús að [...] í [...]. Sóknaraðili sagði að varnaraðili hefði fyrst sýnt henni húsið í lok apríl 1993 og þá hafi eignin verið mjög „hrá“, bráðabirgðastigi á milli hæða og engar innréttingar. Þau hefðu búið í [...] þar til í maí 1996 er þau fluttu í [...], en sóknaraðili hafi þá gengið með annað barn þeirra. Þá hafi húsið að mestu verið fullbúið, innréttingar og gólfefni verið komið, en ýmislegt smálegt verið eftir sem og aukarýmið. Fram kom að sóknaraðili hefði aðeins séð húsið í eitt skipti áður en hún flutti inn í það. Hún hefði því aldrei farið í húsið frá 1994-1996.

Sóknaraðili, sem er [...], kvaðst hafa verið í 80% eða 90% starfi er hún kynntist varnaraðila. Hún hafi hætt að vinna er hún gekk með eldri son aðila um jólin 1993 og svo farið að vinna aftur í 40% vinnu á kvöldin þegar drengurinn hafi verið sjö eða átta mánaða. Þegar drengurinn hafi byrjað á leikskóla, um ársgamall, hafi sóknaraðili farið í 80% starf. Sóknaraðili sagði að drengurinn hefði verið óvært barn, sofið illa og alltaf verið veikur. Hann hafi fengið tvisvar rör í eyrun og um tíma þurft að fá lyf í æð. Þá hafi læknar ráðlagt að taka drenginn af leikskóla til að byggja upp ónæmiskerfi hans og sóknaraðili því þurft að vera frá vinnu frá maí 1995 þar til í ágúst eða september sama ár. Yngri drengurinn hefði fæðst í [...] og sóknaraðili ekki byrjað að vinna aftur fyrr en í janúar 1998 þar sem ekki hafi verið hægt að fá vistun fyrir drenginn fyrr. Þá hafi sóknaraðili byrjað í 40% starfi en svo þurft að minnka við sig í 20% starf vegna veikinda konu sem gætti drengsins. Sóknaraðili hefði svo farið í 40% starf um vorið 1998 þegar yngri drengurinn byrjaði á leikskóla. Um tíma hefði sóknaraðili farið allt upp í 60% starf. Um ástæðu þess að sóknaraðili hefði aldrei unnið fullt starf sagði sóknaraðili að varnaraðili hefði alltaf unnið mikið, frá morgni til kvölds. Þá hafi eldri drengurinn, þegar hann var byrjaður í grunnskóla, verið greindur með sjúkdóminn [...], [...] og [...]. Drengurinn hafi verið [...] og hann verið hjá [...] og [...] og sóknaraðili mikið þurft að sinna honum. Þá hafi sóknaraðila fundist varnaraðili eiga við [...] að stríða og hún ekki getað treyst honum meðan hún væri í vinnu.

Sóknaraðili kvaðst hafa leigt út íbúðina í [...] þegar hún flutti í [...]. Leigutekjurnar hefði hún notað til reksturs og viðhalds á íbúðinni. Íbúðin hafi svo verið seld í nóvember 2004 og sóknaraðili lagt andvirði hennar, 8.500.000 krónur, inn á bankabók sína. Um innistæðu sína í dag, um 29 milljónir króna, sagði sóknaraðili að hún væri tilkomin vegna íbúðarinnar og hlutabréfa sem hefðu hækkað en sóknaraðili hefði selt bréf og passað upp á að það væri ekki „fiktað“ með þau. Nánar innt eftir því hvaða bréf þetta hefðu verið sagði sóknaraðili að varnaraðili hefði oft keypt hlutabréf, m.a. á nafni sóknaraðila, og þau hefðu hækkað mikið. Þegar sóknaraðili var spurð hvort hún hefði litið svo á að þessi hlutabréf væru eign hennar svaraði hún því til að þau hefðu verið á hennar nafni. Hún hefði ekki litið þannig á að hún ætti þau ein. Hins vegar hefði hún litið svo á að hún ætti íbúðina í [...] ein. Sóknaraðili kvaðst hafa flutt af heimili aðila að [...] hinn 17. október 2009 og ekki tekið neitt með sér nema annan bílinn og föt og flutt í leiguíbúð. Nánar um fjárhag aðila meðan á sambúð stóð sagði sóknaraðili að hann hefði að sumu leyti verið aðskilinn þar sem hún hefði selt íbúð sína og sett peninginn á reikning sinn. Þá hafi varnaraðili átt sína reikninga sem hún hefði engan aðgang haft að og ekki einu sinni vitað um. Að öðru leyti hafi allur rekstur verið sameiginlegur eins og innkaup og allt varðandi drengina. Aðspurð hvort hún hefði lagt eitthvað af mörkum til húsbyggingarinnar kvaðst hún ekki hafa lagt neitt fjárhagslega af mörkum. Þegar hún hafi flutt inn í húsið hafi hún hins vegar lagt mikið af mörkum en það hafi átt eftir að gera mikið og iðnaðarmenn verið að störfum og hún sinnt þeim. Þá hafi lóðin ekki verið frágengin og hún séð um garðinn. Sóknaraðili var enn fremur spurð hvort hún hefði lagt eitthvert fé af mörkum hvað varðar eignir sem skráðar eru á varnaraðila og sagði hún að svo væri ekki. Jafnframt sagði sóknaraðili að launatekjur hennar hefðu farið inn á hennar reikning og hún hefði tekið af þeim reikningi þegar á þurfti að halda. Þá hafi hún verið með kreditkort frá varnaraðila og notað það. Sóknaraðili kvaðst hafa séð um öll innkaup og þegar hún hafi t.d. verslað í matinn hafi hún borgað að hluta til í reiðufé og restina með kreditkorti.

Fram kom að málsaðilar hefðu nokkrum sinnum rætt um að gifta sig en varnaraðili alltaf hætt við þar sem sóknaraðili hafi ekki viljað gera kaupmála nema fram kæmi að við skilnað myndi lögheimili barnanna vera hjá henni en þau færu sameiginlega  með forræði þeirra.

Þá skýrði sóknaraðili frá því að gjaldárið 2010 hafi hún þurft að greiða um 800.000 krónur í „auðlegðarskatt“. Aðspurð af lögmanni varnaraðila hvort hún hefði farið fram á það við varnaraðila að hann endurgreiddi þetta svaraði hún því neitandi.

Varnaraðili sagði að hann hefði byrjað að búa með sóknaraðila í byrjun árs 1994. Þá hafi hann verið fjárhagslega vel staddur og átt miklar eignir á banka. Hann sé [...] og hann hefði verið einn af stofnendum [...]fyrirtækisins [...] og unnið hjá föður sínum sem var [...]. Hann hefði því haft frjálsan vinnutíma. Hann hafi byrjað árið 2001 annars staðar sem [...] og þá ekki verið eins laus við. Varnaraðili greindi frá því að hann hefði fengið lóð úthlutað 1990 að [...] og teikningar legið fyrir í júlí 1991. Byggingarleyfi hafi verið gefið út 14. ágúst 1991 og sökklar teknir út í september sama ár. Húsið hafi svo verið steypt upp og það fokhelt 9. mars 1992. Lokafrágangur á húsinu hafi verið í samræmi við  framlagðan verksamning um verklok í apríl 1994. Allar innréttingar hafi þá verið komnar, gólfefni, lýsing o.fl. Húsið hafi verið glæsilegt og fólk undrað sig á því að hann flytti ekki í húsið. Varnaraðili sagði að ástæða þess að málsaðilar hefðu ekki flutt í húsið fyrr en í maí 1996 væri sú að sóknaraðili hefði orðið ólétt fljótlega eftir að þau kynntust og hann hefði ekki verið tilbúinn til að binda sig. Þá sagði varnaraðili að sóknaraðili hefði ekki lagt fram krónu til byggingar, viðhalds eða reksturs hússins. Um peningaeign sína sagði varnaraðili að hún væri eingöngu til komin vegna fyrirfram­greidds arfs frá foreldrum hans á árinu 2002, hlutabréfa í [...] að fjárhæð 750.000 krónur að nafnverði. Fjárhagur aðila hefði verið aðskilinn. Sóknaraðili hefði haft kreditkort frá varnaraðila en hann hefði ekki haft prókúru á hennar reikning. Varnaraðili hefði greitt öll útgjöld, alveg sama hvað það var og launin ekki dugað til. Leigutekjur sem sóknaraðili hafði hafi farið beint inn á hennar reikning og einnig laun hennar. Jafnframt sagði varnaraðili að hann hefði tekið fullan þátt í að sinna drengjum þeirra. Þá greindi varnaraðili frá því að gifting hefði komið til tals. Hann hafi viljað gera kaupmála en hún ekki viljað það og því ekki orðið af giftingu.    

Vitnið A, faðir sóknaraðila, kvaðst hafa komið að vinnu við [...] en vitnið væri múrari. Þetta hefðu verið smámunir, en nokkrir fletir og kantar hefðu orðið eftir hjá múrurum. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þetta hefði verið en líklega hafi það verið á árinu 1997.

Vitnið B, systir sóknaraðila, sagði að vitnið hefði sýnt sér húsið að [...] og þá hafi það verið hálfklárað. Vitnið kvaðst ekki muna hvaða ár þetta hefði verið. Þá sagði vitnið að sóknaraðili hafi átt erfitt með að vinna meira en hún gerði vegna eldri drengsins og óreglu á heimilinu.

Vitnið C staðfesti yfirlýsingu sem fyrir liggur í málinu, dags. 1. mars 2010, um að vitnið hefði séð um raflögn að [...] og verkinu verið lokið í október 1993. Vitnið sagði að innréttingar hafi þá verið komnar upp og húsið verið fullbúið.

Þá staðfesti vitnið D yfirlýsingu, dags. 3. mars 2010, um að vitnið hefði lokið múrverki á árinu 1992. 

Vitnin E, eiginmaður systur varnaraðila, og H, staðfestu yfirlýsingu, dags. 23. mars 2010, um að þeir hefðu unnið fyrir varnaraðila samkvæmt verksamningi, dags. 16. janúar 1994, um innréttingar og tréverk, en verklok hefðu verið 1. apríl 1994. Þá hafi húsið verið fullbúið, en það gæti verið að það hafi verið bráðabirgðainnrétting í þvottahúsi. Vitnið H kvaðst jafnframt hafa unnið síðar við viðhald á eigninni, s.s. þegar flætt hafi úr þvottavél og þvottahús verið fært til.  

Vitnið F, sem hefur séð um bókhald og skattframtöl fyrir varnaraðila frá árinu 1990, staðfesti framlagða yfirlýsingu, dags. 24. mars 2010. Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að varnaraðili hefði fengið fyrirframgreiddan arf á árinu 2002 og hann hefði ekki getað keypt eða selt hlutabréf og aukið verðmæti þeirra nema vegna þessa arfs. Þá segir í yfirlýsingunni að varnaraðili hefði keypt á árunum 1990-1993 ýmis hlutabréf sem hafi verið seld á árinu 2002 á 15.310.356 krónur. Fyrir dómi kvaðst vitnið þekkja vel til fjármála varnaraðila og að innistæða hans í banka væri aðallega vegna fyrirframgreiðslu á arfi á hlutabréfum í [...] og síðan jöfnunarhluta­bréfa sem hafi verið gefin út, en [...] hefði breyst í [...] og síðan í [...]. Hluti af þeim hlutabréfum hefði verið seldur og önnur hlutabréf keypt. Vitnið sagði að það væri af og frá að það hefði myndast einhver sparnaður. Hlutabréfin hafi ekki verið tilkomin af launatekjum varnaraðila.

Vitnið G, systir varnaraðila og arkitekt, skýrði frá því að hafa séð um teikningar hússins en þær hefðu verið tilbúnar á árinu 1991. Þá hafi vitnið teiknað innréttingar, sbr. verksamning, dags. 16. janúar 1994. Vitnið sagði að það hefði vakið furðu innan fjölskyldunnar að varnaraðili hefði ekki flutt inn í húsið þegar það var tilbúið vorið 1994, en vitnið kvaðst hafa getið sér þess til að varnaraðili og sóknaraðili hefðu viljað kynnast betur áður en þau flyttu inn í húsið. Þá sagði vitnið að varnaraðili hefði alla tíð sinnt sonum sínum vel og sér kæmi á óvart ummæli um annað. Enn fremur kvaðst vitnið aldrei hafa orðið vart við að varnaraðili ætti við [...] að stríða. 

III.

Kröfur sínar byggir sóknaraðili á því að nánast öll eignamyndun aðila hafi orðið á sambúðartíma þeirra. Fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum allan sambúðartíma þeirra, enda hafi þau verið skattlögð sameiginlega eins og skattframtöl sýni, allt aftur til ársins 1996. 

Sóknaraðili byggir einnig málatilbúnað sinn á dómaframkvæmd, m.a. dómum Hæstaréttar í máli nr. 22/1989, 504/1998, 487/2005, 565/2007, 302/2008 og 636/2008. Í þeim dómum hafi verið byggt á því að löng sambúð leiddi til sameiginlegrar eignamyndunar aðila ásamt fjárhagslegri samstöðu auk þess sem horft hafi verið til þess hvort um sameiginleg börn hafi verið að ræða hjá sambúðaraðilum. Sóknaraðili telur að í tilviki málsaðila hafi öll framangreind skilyrði verið til staðar og því hafi eignamyndun orðið hjá sóknaraðila af eignum sem eru á nafni varnaraðila. 

Sóknaraðili segir að krafa sín um 33,3% eignarhlut í húseigninni [...] byggist á því að þegar sambúð hófst hafi húseignin verið fokheld, en fasteign teljist fokheld þegar 1/3 hluta hennar sé lokið. Því sé miðað við að 2/3 hlutum hafi verið ólokið. Gerð sé krafa um að eignamyndun hafi orðið með aðilum vegna fasteignarinnar og að helmingur þess sem hafi verið ólokið við upphaf sambúðar teljist eign sóknaraðila.

Krafa um bifreiðina [...] er byggð á því að aðilar hafi keypt hana til notkunar fyrir sóknaraðila. Aðilar hafi svo keypt aðra bifreið til notkunar fyrir varnaraðila, en sóknaraðili geri enga kröfu vegna bifreiðar varnaraðila þrátt fyrir að hún sé mun verðmætari en bifreið sóknaraðila.

Vegna annarra eigna sé gerð krafa um að viðurkenndur verði 50% eignarhlutur sóknaraðila. Hluti þeirra eigna sé tilkominn vegna fyrirframgreidds arfs varnaraðila  en sá arfur hafi ekki verið kvaðabundinn samkvæmt 77. gr. hjúskaparlaga. Engin leið sé að greina á milli þess hluta eignanna sem sé tilkominn af sparnaði aðila á sambúðartíma þeirra og fyrirframgreidds arfs varnaraðila þar sem um fullkomna fjárhagslega samstöðu aðila hafi verið að ræða á þessum tíma, enda beri gögn málsins ekki annað með sér. Auk þess eigi sóknaraðili réttmætt tilkall til helmingshlutdeildar í arfi sem og öðrum eignum sem hafi orðið til á sambúðartíma, sbr. rit Ármanns Snævarrs, Hjúskapar- og sambúðarréttur, bls. 946.

Að lokum segir sóknaraðili að framangreindar kröfur sínar byggi á því að beita eigi meginreglum hjúskapar- og skiptalaga við fjárskipti sambúðarfólks þegar sambúð hafi varað lengi og fjárhagsleg samstaða alger, eins og í tilviki aðila. Um þetta vísar sóknaraðili til ákvæða 14. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 14. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Kröfu sína um málskostnað byggir sóknaraðili á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er reist á lögum nr. 50/1988. Þar sem sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur beri honum því nauðsyn á að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.

IV.

Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sem fram kemur í málatilbúnaði sóknaraðila um að nánast öll eignamyndun aðila hafi orðið til á sambúðartíma þeirra. Varnaraðili bendir á að báðir aðilar hafi átt fasteignir þegar þau kynntust og það hafi ekki breyst á sambúðartímanum. Jafnframt hafi varnaraðili átt hlutabréf áður en hann kynntist varnaraðila og áður en þau hófu að telja saman fram til skatts. Þannig hafi varnaraðili talið fram sem sína eign fasteignina [...] í [...], áður en sambúð hófst og sóknaraðili fasteignina [...], Reykjavík. Samkvæmt framlögðum skattframtölum hafi fasteignamat þeirrar eignar verið mun lægra en fasteignar varnaraðila. Skráning eignanna hafi aldrei breyst á sambúðartímanum.

Varnaraðili segir að við samvistaslit stofnist enginn sjálfkrafa réttur til hlutdeildar í eignum hins aðilans. Þvert á móti sé það meginregla við fjárskipti vegna sambúðarslita að hvor aðili um sig eigi þær eignir sem hann hafi keypt fyrir sína fjármuni og fengið í sinn hlut, t.d. sem gjöf eða arf. Sá sem heldur öðru fram beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.

Kröfum sóknaraðila, um að viðurkennt verði að hún sé eigandi að 33,3% fasteignarinnar við [...] og 50% allra annarra eigna varnaraðila, sé hafnað í samræmi við ofangreint, enda séu kröfurnar hvorki í samræmi við þinglýstar eignarheimildir, skráningu eigna né raunveruleg framlög aðila til eignamyndunar.

Varnaraðili hafi staðið einn að byggingu fasteignarinnar við [...], öllum framkvæmdum vegna eignarinnar og kostnaði vegna þeirra. Hann hafi byggt húsið áður en aðilar hófu sambúð. Engin sönnun liggi fyrir um að sóknaraðili hafi átt hlut að kaupunum eða staðið að greiðslum eða samningum við verktaka vegna eignarinnar. Að mati varnaraðila liggur skýrt fyrir í gögnum málsins að hann hafi átt fasteignina áður en aðilar hófu sambúð. Því sé ljóst að sóknaraðili geti ekki gert tilkall til fasteignarinnar, enda engan veginn ljóst á hvaða grundvelli slík eignarhlutdeild gæti byggst. Krafa sóknaraðila um 33,3% hlut fasteignarinnar sé algerlega órökstudd og ekki liggi fyrir nein gögn henni til stuðnings, hvorki staðfesting á greiðslum, færslur á bankareikningum, lántaka eða önnur gögn. Þar sem eignin sé þinglýst eign varnaraðila hvíli sönnunarbyrði um eignarhlutdeild á sóknaraðila. Rökstuðningur um 33,3% hlut sóknaraðila þar sem eignin hafi verið fokheld við upphaf sambúðar standist ekki. Þá bendir varnaraðili á að aðilar hafi ekki talið saman fram til skatts fyrr en árið 1996 og ekki skráð sambúð sína fyrr en árið 1995, en þá hafi eignin þegar verið fullbúin.

Verði þannig að byggja á þeirri meginreglu að hvor aðili eigi rétt á að fá það til baka sem hann lagði til eignamyndunar. Það sé óumdeilt að varnaraðili hafi staðið einn að byggingu fasteignarinnar og greitt fyrir framkvæmdir til að koma eigninni í íbúðarhæft ástand. Hann hafi jafnframt greitt einn af fasteigninni öll gjöld og áhvílandi lán. Sönnun um annað sé ekki fyrir hendi. Verði fallist á að sóknaraðili eigi hlutdeild í fasteign varnaraðila sé ljóst að varnaraðili eigi jafnframt helmings hlutdeild í fasteign sóknaraðila sem hún hafi fest kaup á.

Varnaraðili mótmælir kröfum sóknaraðila um 50% hlut af öllum bankainnstæðum, hlutabréfum og verðbréfum sem skráð voru á nafn varnaraðila við samvistaslit 1. nóvember 2009, enda um að ræða eignir sem varnaraðili hafi hlotið í arf frá foreldrum sínum og hlutafé sem hann hafi talið fram fyrir sambúð aðila. Engin sönnun liggi fyrir um að sóknaraðili eigi hlutdeild í þessum eignum sem séu á nafni varnaraðila og hafi verið frá upphafi. Sönnunarbyrði um að sóknaraðili hafi öðlast hlutdeild í þessum eignum hvíli á henni og engin gögn hafi verið lögð fram þeirri staðhæfingu til stuðnings. Þvert á móti liggi fyrir að sú peningaeign sem varnaraðili eigi í dag sé tilkomin vegna arfs frá foreldrum hans. Varnaraðili hafi lagt fram gögn sem sýni fram á að allir bankareikningar, hlutabréf og verðbréf séu á hans nafni og allar eignatilfærslur og færslur á þessum eignum hafi farið fram á hans nafni. Unnt sé að rekja peningaeignina til arfsins sem hann fékk frá foreldrum sínum, sbr. framlögð bankayfirlit. Varnaraðili hafi enn fremur átt hlutabréf áður en hann kynntist sóknaraðila. Það sama gildi um þær eignir, en þær hafi frá upphafi verið skráðar á hans nafn. 

Sóknaraðili hafi ekki stutt þá fullyrðingu sína að peningaeign á nafni varnaraðila sé sameiginlegur sparnaður og eignaaukning aðila. Skattframtöl og önnur framlögð gögn sýni fram á að um sé að ræða hlutafjáreign varnaraðila og fyrirframgreiddan arf. Engin sjálfkrafa hlutdeild myndist sóknaraðila til handa í umræddum eignum fremur en öðrum eignum sem skráðar séu á nafn varnaraðila.  Verði að gera þá kröfu að sóknaraðili leggi fram gögn því til stuðnings að peninga-, verðbréfa- og hlutafjáreign sé að einhverju leyti í hennar eigu og vegna hennar framlags. Það hafi hún ekki gert og jafnframt hefur hún ekki lagt fram yfirlit yfir eigin bankainnstæður o.s.frv. Þrátt fyrir að aðilar hafi kosið að telja fram sameiginlega til skatts leiði það ekki til þess að sóknaraðili öðlist hlutdeild í öllum skráðum eignum varnaraðila og öfugt.

Varnaraðili bendir á að bifreiðin [...] sé skráð eign varnaraðila og  sóknaraðili hafi ekki lagt fram gögn því til stuðnings að hún eigi hlutdeild í bifreiðinni. Bifreiðin [...] sé einnig skráð eign varnaraðila. Báðar bifreiðarnar hafi verið greiddar af varnaraðila og hann greitt öll gjöld vegna þeirra, en þær hafi báðar verið keyptar erlendis frá og fluttar til landsins. Varnaraðili hafi einn séð um greiðslu á tryggingum og bifreiðagjöldum vegna beggja bifreiðanna. Í samræmi við það geri varnaraðili þá kröfu að staðfest verði að hann eigi báðar bifreiðarnar í samræmi við skráningu þeirra.

Hvað varðar innbú telur varnaraðili að það eigi að skiptast til jafns milli aðila að öðru leyti en því að hvort um sig haldi þeim munum sem það hafi komið með í sambúðina og hafi fengið að gjöf.

Varnaraðili mótmælir því að hann hafi ekki sýnt neinn sáttavilja í garð sóknaraðila. Ekki hafi náðst samkomulag þar sem varnaraðili telur kröfur sóknaraðila óraunhæfar og í andstöðu við reglur um fjárskipti milli sambúðarfólks. Varnaraðili hafi litið svo á að milli aðila hafi ríkt séreignarfyrirkomulag varðandi fasteignir og bankareikninga. Aðilar hafi kosið umrætt sambúðarform og skipan á fjármálum sínum og ljóst að reglur um fjárskipti milli hjóna eigi ekki við í máli þessu. Varnaraðili mótmælir alfarið þeirri fullyrðingu sóknaraðila að í dómaframkvæmd leiði löng sambúð til sameiginlegrar eignamyndunar. Þvert á móti telur varnaraðili að ekki hafi  stofnast sjálfkrafa til slíkrar hlutdeildar sem sóknaraðili heldur fram. Til að unnt sé að líta þannig á þurfi meira til að koma, en slíkur réttur stofnist ekki sjálfkrafa.

Með vísan til framangreindra röksemda telur varnaraðili sýnt fram á að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila.

Til vara krefst varnaraðili þess að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega.  Þá er þess einnig krafist, verði sóknaraðila dæmd hlutdeild í eignum varnaraðila, að honum verði sömuleiðis dæmt 50% hlutfall í hennar eignum, þ.e. fasteigninni við [...] í [...] og 50% allra bankainnistæðna og annarra eigna á nafni sóknaraðila.

Um lagarök vísar varnaraðili til meginreglna um fjárskipti við sambúðarslit og þess að þær eignir sem hvor aðili hafi átt við upphaf sambúðarinnar og kaupi fyrir sína fjármuni og hafi enn verið fyrir hendi er henni lauk, séu hans eign.

Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en varnaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til þess að fá sóknaraðila dæmdan til greiðslu skattsins.

V.

Eins og rakið hefur verið kynntust aðilar á árinu 1993 og flutti varnaraðili í janúar 1994 til sóknaraðila í íbúð sem hún átti í [...]. Þeim fæddist sonur í [...] og í maí 1996 fluttu þau í hús sem varnaraðili byggði að [...] í [...], en bygging hússins hófst á árinu 1991. Aðilar eignuðust annan dreng í [...]. Sambúð aðila stóð til loka október 2009 en þá flutti sóknaraðili af heimilinu. Sóknaraðili lýsti því fyrir dómi að hún hafi verið í 80% eða 90% starfi sem [...] þegar hún kynntist varnaraðila. Varnaraðili er [...] og hann hefur verið í fullu starfi allan sambúðartímann. Meðan á sambúð aðila stóð minnkaði sóknaraðili við sig vinnu og var í 20-80% starfshlutfalli, nema þegar hún var heima með eldri drenginn þar til hann var sjö eða átta mánaða og hún var frá vinnu í þrjá eða fjóra mánuði á árinu 1995 vegna veikinda hans. Þá var varnaraðili heima með yngri drenginn frá fæðingu hans og til janúar 1998. Samkvæmt skattframtölum sem fyrir liggja í málinu voru tekjur varnaraðila á sambúðartímanum mun hærri en tekjur sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar einkum á því að nánast öll eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma þeirra og allan tímann hafi fjárhagsleg samstaða verið með þeim. Á þetta er ekki unnt að fallast. Varnaraðili hófst handa við byggingu hússins að [...] áður en aðilar kynntust og samkvæmt gögnum um byggingarsögu hússins var það fokhelt á árinu 1992. Sóknaraðili lýsti því að varnaraðili hefði sýnt henni húsið fljótlega eftir að þau kynntust, nánar tiltekið í apríl 1993, en hún hefði svo ekki komið í það fyrr en þau fluttu þangað í maí 1996. Samkvæmt framlögðum gögnum og vitnisburði manna sem unnu við húsið verður að telja að húsið hafi verið fullbúið í byrjun apríl 1994. Eitthvað smálegt kann að hafa verið óklárað en það þykir ekki hafa þýðingu hér. Sóknaraðili viðurkennir að hún hafi ekki lagt neitt fé til eignarinnar og ósannað er gegn mótmælum varnaraðila að hún hafi með vinnu eða á annan hátt skapað grundvöll fyrir hlutdeild hennar í eignarrétti að fasteigninni. Með vísan til framangreinds ber að hafna kröfu hennar um hlutdeild í fasteigninni að [...]. 

Hvað varðar kröfu sóknaraðila um hlutdeild í hlutabréfum, verðbréfum og bankareikningum skráðum á nafn varnaraðila ber að horfa til þess að ekki verður séð að mikil fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum á sambúðartímanum þótt þau hafi verið samsköttuð frá gjaldárinu 1997. Eins og fram kom hjá sóknaraðila við aðalmeðferð málsins leit hún svo á að hún ætti ein íbúðina að [...] og hún hélt leigutekjum vegna hennar aðskildum og út af fyrir sig. Sóknaraðili upplýsti að núverandi bankainnistæða hennar, um 29 milljónir króna, væri tilkomin vegna sölu á íbúðinni í nóvember 2004 og hlutabréfa sem varnaraðili keypti á nafni sóknaraðila. Þá liggur fyrir í málinu að aðilar áttu hvor sína bankareikninga sem hinn hafði ekki aðgang að. Báðir aðilar lögðu hins vegar fram fé til heimilishalds. Aðilar lýstu því fyrir dómi að þau hefðu haft áform um að gifta sig en það strandað á gerð kaupmála. Sóknaraðili hafi viljað hafa í honum ákvæði um forsjá barnanna en varnaraðili ekki viljað samþykkja það. Þykir þetta eindregið styðja það að ekki hafi verið sú fjárhagslega samstaða með aðilum sem sóknaraðili heldur fram.  

Við málflutning lögmanns sóknaraðila var lagt fram til hliðsjónar yfirlit yfir eignir 1994-2009, m.a. um hlutafjáreign. Ekki er unnt að leggja yfirlit þetta til grundvallar í málinu, enda er það ýmsum annmörkum háð, s.s. því að aðeins er gert grein fyrir kaupum á hlutabréfum en ekki sölu bréfa. Óumdeilt er að sóknaraðili lagði ekkert fé af mörkum til kaupa á hlutabréfum þeim sem hún krefst nú hlutdeildar í. Varnaraðili hefur lagt fram gögn um hlutabréf á hans nafni og samkvæmt þeim er hlutafjáreign hans og innistæður í banka að mestum hluta til komin vegna fyrirframgreidds arfs frá foreldrum hans á árinu 2002, en einnig vegna hlutabréfa sem hann átti áður en sambúð aðila hófst. Kom þetta skýrt fram í vitnisburði Vals Tryggvasonar, sem hefur annast bókhald og skattframtöl varnaraðila, en hann sagði m.a. að hlutabréfaeign varnaraðila væri ekki tilkomin af launatekjum hans. Að öllu þessu virtu þykir sóknaraðila ekki hafa tekist að sýna fram á hlutdeild í hlutabréfum, verðbréfum og bankareikningum sem eru á nafni varnaraðila. Þótt sóknaraðili hafi verið í hlutastarfi á sambúðartímanum og um tíma ekki unnið utan heimilis til að sinna börnum aðila getur það eitt og sér, eins og atvikum er háttað í máli þessu, ekki leitt til hlutdeildar í eignamyndun. Að mati dómsins standa hvorki laga- né sanngirnisrök til þess að beita meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti eða úrskurða sóknaraðila aðra og lægri hlutdeild í hlutabréfum, verðbréfum og banka­reikningum á nafni varnaraðila. Verður þessum kröfum sóknaraðila því hafnað.

Með sömu rökum og að framan greinir verður að hafna kröfu sóknaraðila um að hún sé eigandi bifreiðarinnar [...].

Engin gögn eða upplýsingar liggja fyrir um innbú aðila, hvernig það er tilkomið eða hvert verðmæti þess er. Dómurinn telur því ekki unnt að leggja mat á það með hvaða hætti skuli skipta innbúi milli aðila. Verður þessari kröfu sóknaraðila því vísað frá dómi.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfum sóknaraðila, K, um hlutdeild í fasteigninni að [...] í [...], hlutabréfum, verðbréfum og bankareikningum skráðum á nafn varnaraðila, M, og kröfu um eignarrétt eða hlutdeild í bifreiðinni [...], er hafnað.

Kröfu sóknaraðila um innbú að [...] í [...] er sjálfkrafa vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.