Hæstiréttur íslands

Mál nr. 617/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Afhending sakaðs manns


Fimmtudaginn 19. september 2013.

Nr. 617/2013.

Ákæruvaldið

(Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Afhending sakaðs manns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem skilyrði til afhendingar X til danskra yfirvalda, á grundvelli laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), voru talin uppfyllt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er sá hluti úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2013, þar sem skilyrði fyrir afhendingu varnaraðila til danskra yfirvalda voru talin uppfyllt. Kæruheimild er í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun). Varnaraðili krefst þess að áðurnefndur hluti hins kærða úrskurðar verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar á þeim þætti hins kærða úrskurðar er lýtur að því að skilyrði fyrir afhendingu varnaraðila til danskra yfirvalda séu uppfyllt.

Varnaraðili er grunaður um að stórfellt fíkniefnalagabrot og tilraun til slíks brots  15. nóvember 2012 í Kaupmannahöfn. Að varnaraðila fjarstöddum var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna ætlaðra framangreindra brota með úrskurði Köbenhavns Byret 29. ágúst 2013.

 Lögreglan í Kaupmannahöfn gaf út norræna handtökuskipun á hendur varnaraðila 13. september 2013 vegna meðferðar sakamálsins þar í landi, sbr. 1. gr. laga nr. 12/2010, en þar segir meðal annars að norræn handtökuskipun sé ákvörðun sem tekin er í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð um að biðja eitthvert þessara ríkja að handtaka og afhenda eftirlýstan mann vegna meðferðar á sakamáli sem geti varðað fangelsisrefsingu eða annars konar frjálsræðissviptingu í ríkinu sem gefið hefur út handtökuskipunina. Ríkissaksóknari tók ákvörðun 17. september 2013 um að verða við beiðni danskra yfirvalda um afhendingu varnaraðila, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 12/2010. Varnaraðili andmælti því að verða afhentur til Danmerkur til meðferðar sakamálsins og var málið því lagt fyrir héraðsdóm í samræmi við 3. mgr. þeirrar lagagreinar. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði laga nr. 12/2010 væru uppfyllt til afhendingar varnaraðila til danskra yfirvalda. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um þann hluta málsins verður niðurstaða hans staðfest.

Dómsorð:

Staðfestur er sá hluti hins kærða úrskurðar að skilyrði til afhendingar varnaraðila, X, til danskra yfirvalda séu uppfyllt.  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2013.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan beiðni danskra yfirvalda um afhendingu hans til Danmerkur er til meðferðar hjá yfirvöldum og eftir atvikum uns afhending hans fer fram, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 1. október kl. 16.00.

Jafnframt gerir aðstoðarsaksóknari kröfu um að dómari úrskurði um að skilyrði séu til afhendingar varnaraðila til danskra yfirvalda.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 11. september sl. hafi ríkissaksóknara borist beiðni frá yfirvöldum í Danmörku um handtöku og afhendingu X (varnaraðili) vegna meðferðar sakamáls þar í landi, þ.e. norræn handtökuskipun. Frumrit handtökuskipunarinnar hafi borist ríkissaksóknara þann 16. september sl. Grundvöllur norrænu handtökuskipunarinnar sé úrskurður héraðsdóms í Kaupmannahöfn frá 29. ágúst 2013 [...], þar sem varnaraðili hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald að honum fjarstöddum skv. ákvæðum dönsku sakamálalaganna.

Fram komi í gögnum málsins að varnaraðili sé grunaður um brot gegn 2. mgr., sbr. 1. lið 1. mgr. 191. gr. dönsku hegningarlaganna, þ.e. stórfellt fíkniefnalagabrot, og að hluta til tilraun til brots gegn ákvæðinu, með því að hafa þann 15. nóvember 2012 á hótelinu [...] í Kaupmannahöfn ásamt tveimur öðrum mönnum haft 485 grömm af kókaíni undir höndum, og að hafa dagana þar á undan, á Kaupmannahafnar-svæðinu, ásamt öðrum gert tilraun til að kaupa hálft kíló af kókaíni. Þá komi fram að norræn handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur tveimur ætluðum samverkamönnum varnaraðila.

Ríkissaksóknari hafi sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu norrænu handtökuskipunina til meðferðar þann 12. september sl. í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlanda vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun). Varnaraðili hafi verið handtekinn í gær, þann 16. september, og hafi fyrr í dag verið kynnt handtökuskipunin í skýrslutöku hjá lögreglu. Hann hafi ekki samþykkt að verða afhentur dönskum lögregluyfirvöldum. Ríkissaksóknari hafi í dag tekið ákvörðun um að orðið skuli við beiðni danskra yfirvalda um afhendingu varnaraðila, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 12/2010 þar eð skilyrði afhendingar skv. II. kafla sömu laga teljast uppfyllt.

Óskað hafi verið eftir afhendingu varnaraðila til Danmerkur á grundvelli norrænnar handtökuskipunar, sbr. lög nr. 12/2010 um norræna handtökuskipun, sbr. einnig samning um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna sem samþykktur hafi verið í Kaupmannahöfn þann 15. desember 2005. Til þess að tryggja nærveru varnaraðila á meðan málið sé til meðferðar hjá yfirvöldum hér á landi uns afhending hans fer fram, verði af henni, þykir nauðsynlegt að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, enda megi ætla að hann muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsmeðferðinni.

Vísað sé til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og framangreindra lagaákvæða er þess beðist að krafan nái fram að ganga.

Kröfur máls þessa eru reistar á heimild í lögum nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða sem tóku gildi 16. október sl. Með lögunum er komið til framkvæmda samningi milli Norðurlandanna um afhendingu þeirra sem framið hafa eða eru grunaðir um að hafa framið refsisvert brot. Markmið laganna er að koma á einföldu og skilvirku fyrirkomulag varðandi afhendingu á sakamönnum á milli landa og byggir á gagnkvæmu trausti á réttarkerfum ríkjanna.

Dómari ákvað með hliðsjón af markmiði laganna um skilvirka meðferð mála af þessu tagi og með vísan til 3. mgr. 13. gr. laga nr. 12/2010 að fjalla um báðar framkomnar kröfur saksóknara í einu lagi þrátt fyrir mótmæli varnaraðila þar að lútandi.

Fyrir liggur handtökuskipun frá dönskum yfirvöldum sem uppfyllir skilyrði um form og innihald sem kveðið er á um í 1. mgr. 2. gr. laganna. Upplýsingar sem þar koma fram skal því leggja til grundvallar úrslausn dómsins sbr. 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 12/2010 enda ekkert fram komið um að þær séu augljóslega rangar.

Saksóknari krefst þess með vísan til 2. mgr. 10. gr. að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verjandi hans krefst þess að þeirri kröfu verði hafnað eða til vara að látið verði við það sitja að úrskurða hann til að hlíta farbanni og til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Tilgangur gæsluvarðhalds á þessu stigi máls er að tryggja að íslensk stjórnvöld geti staðið við samningsbundnar skyldur sínar samkvæmt samningi við hin Norðurlöndin um að afhenda eftirlýstan mann sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 12/2010 séu skilyrði afhendingar fyrir hendi. Gæsluvarðhaldinu er þannig ætlað að tryggja að það náist í varnaraðila ef og þegar endanleg ákvörðun um afhendingu liggur fyrir. Það er meginregla í íslensku sakamálaréttarfari að ekki megi beita harðari þvingunarúrræðum en þörf er á til að ná markmiðum þeirra. Eins og hér háttar til er það mat dómsins að farbann komi að sömu notum og gæsluvarðhald og tryggi með fullnægjandi hætti að varnaraðili komi sér ekki úr landi eða skjóti sér með öðrum hætti undan því að hlíta ákvörðun ríkissaksóknara. Kröfu saksóknara um gæsluvarðhald er því hafnað en þess í stað skal varnaraðili sæta farbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þá gerir saksóknari kröfu um að dómari ákveði með úrskurði hvort skilyrði séu til afhendingar varnaraðila til danskra yfirvalda en fyrir liggur að ríkissaksóknari hefur tekið ákvörðun þess efnis á grundvelli 1. mgr. 13. gr. Þar sem varnaraðili mótmælir þeirri ákvörðun ber að leggja málið til úrskurðar héraðsdómara sbr. 3. mgr. þeirrar greinar. Fram er komin handtökuskipun sem fullnægir skilyrðum lagnanna svo sem að framan er rakið. Eru skilyrði til að afhenda varnaraðila þá þegar uppfyllt nema einhverjar þær ástæður sem raktar eru í 5. eða 6. gr. laganna séu fyrir hendi. Í 5. gr. er kveðið á um ástæður sem leiða til þess að skylt er að hafna beiðni um afhendingu. Í 6. gr. er ástæður sem heimilt er að bera fyrir sig. Í báðum tilvikum er það skylda og mat ríkissaksóknara sem átt er við. Varnaraðili mótmælir því að skilyrði afhendingar séu fyrir hendi. Andmælin eru hins vegar hvorki studd gögnum né rökum og engar vísbendingar eru fram komnar um að einhverjar þær ástæður sem kveðið er á um í framangreindum ákvæðum eigi við í máli varnaraðila. Er því niðurstaða dómsins sú að skilyrði laga nr. 12/2010 til að verða við beiðni danskra yfirvalda um að afhenda varnaraðila séu fyrir hendi.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðili, X, kt. [...], skal sæta farbanni á meðan beiðni danskra yfirvalda um afhendingu hans til Danmerkur er til meðferðar hjá yfirvöldum og eftir atvikum uns afhending hans fer fram, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 1. október kl. 16.00.

Skilyrði fyrir afhendingu varnaraðila til danskra yfirvalda eru uppfyllt.