Hæstiréttur íslands

Mál nr. 308/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Faðerni
  • Mannerfðafræðileg rannsókn


Þriðjudaginn 13

 

Þriðjudaginn 13. júní 2006.

Nr. 308/2006.

A

(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

gegn

B

C

D

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

E og

F

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Kærumál. Börn. Faðerni. Mannerfðafræðileg rannsókn.

A leitaði dóms um að nafngreindur maður væri faðir hennar. Niðurstaða mannerfðafræðilegrar rannsóknar útilokaði að svo gæti verið og var kröfu A um að fram færu frekari mannerfðafræðilegar rannsóknir hafnað þar sem ekkert þótti fram komið er varpað gæti rýrð á niðurstöðu rannsóknarinnar.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um mannerfðafræðilega rannsókn á blóðsýnum úr henni, móður hennar og varnaraðilunum C, D, E og F til sönnunarfærslu í faðernismáli, sem sóknaraðili rekur á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hennar verði tekin til greina. Þá krefst hún aðallega kærumálskostnaðar, en til vara að þóknun lögmanns hennar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði. Í samræmi við 11. gr. barnalaga greiðist þóknun lögmanns sóknaraðila úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilum, B, C, D, E og F, hverju fyrir sig  30.000 krónur í kærumálskostnað.

Þóknun lögmanns varnaraðila, Magnúsar Björns Brynjólfssonar, héraðsdómslögmanns, vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2006.

                Málið er höfðað með stefnu birtri 8., 9. og 10. september 2005.

Stefnandi er A, [heimilisfang].

Stefndu eru B, [heimilisfang], C, [heimilisfang], D, [heimilisfang], og E, [heimilisfang], og E, [heimilisfang].

Stefnandi gerir þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að G, sem fæddist [...] 1919 og lést [...] 2004, sé faðir hennar. Þá er krafist málskostnaðar úr ríkissjóði.

Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar.

I.

Stefnandi er fædd [...] 1944. Móðir hennar, H, fæddist [...] 1926. Í málinu gerir stefnandi svo sem fram er komið þá kröfu, að viðurkennt verði að G, sem fæddist [...] 1919 og lést [...] 2004, sé faðir hennar og að stefndu, ekkju hans og fjórum börnum þeirra, verði gert að þola dóm í þá átt.

Með úrskurði 12. desember 2005 féllst dómurinn á þá kröfu stefnanda að mannerfðafræðileg rannsókn yrði gerð á lífsýnum úr henni sjálfri, móður hennar og G heitnum í því skyni að staðreyna faðerni hennar. Með bréfi 16. sama mánaðar fór dómurinn þess á leit við rannsóknastofu í réttarlæknisfræði að hún myndi annast þessa rannsókn. Í kjölfarið mun lögmaður stefnanda hafi farið þess á leit við stjórn Lífsýnasafns rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði að það léti lífsýni úr hinum látna í té í þágu þessarar rannsóknar. Stjórnin hafnað þeirri beiðni og var sú niðurstaða hennar kynnt lögmanni stefnanda með bréfi 3. febrúar sl. Í þinghaldi í málinu 28. sama mánaðar krafðist lögmaður stefnanda þess að þeim aðilum sem heimilað hefur verið að starfrækja lífsýnasafn, sbr. 4. gr. laga nr. 110/2000 um lífsýnasöfn, yrði með úrskurði dómsins gert skylt að upplýsa hvort þau hefðu yfir að ráða lífsýni úr G heitnum og eftir atvikum að láta það af hendi í þágu þeirrar mannerfðafræðilegu rannsóknar sem framkvæma skyldi samkvæmt framansögðu. Af hálfu stefndu var því andmælt að þessi krafa stefnanda næði fram að ganga. Með úrskurði dómsins 3. mars sl. var fallist á kröfu stefnanda. Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu reyndust vera til lífsýni úr G heitnum í vörslu framangreinds lífsýnasafns, sem í daglegu tali er nefnt Dungalsafn. Samkvæmt þessum sömu gögnum er um að ræða vefjasýni, sem tekin voru úr honum 8. ágúst og 14. september 1979. Þá var tekið blóð frá stefnanda og móður hennar á göngudeild Landspítala-háskólasjúkrahúss 18. janúar 2006. Í fyrirliggjandi álitsgerð Gunnlaugs Geirssonar prófessors, sem hafði yfirumsjón með þeirri mannerfðafræðilegu rannsókn sem mælt var fyrir um með úrskurði dómsins 12. desember 2005 að skyldi fara fram, segir að lífsýni samkvæmt framansögðu hafi verið notuð við rannsóknina. Hafi DNA erfðaefnið verið unnið úr kjörnum blóðfrumna stefnanda og móður hennar og DNA verið einangrað úr vefjasýnunum. Rannsókn á þessum sýnum hafi síðan leitt til þeirra niðurstöðu að G útilokist frá því að geta verið faðir stefnanda. Var álitsgerð prófessors Gunnlaugs lögð fram í þinghaldi 2. þ.m., en dómari hafði sent lögmönnum aðila hana um leið og hún barst honum í hendur. Í þessu sama þinghaldi var sú krafa gerð af hálfu stefnanda að ný mannerfðafræðileg rannsókn verði framkvæmd og nú þannig að rannsökuð verði blóðsýni úr stefnanda, móður hennar og börnum G heitins og stefndu B, það er stefndu C, D, E og F. Fyrir liggur að mannerfðafræðileg rannsókn af þessu tagi verður ekki framkvæmd hér á landi, en bent hefur verið á rannsóknarstofu í Noregi sem mun hafa slíkar rannsóknir með höndum. Stefndu mótmæltu því að þessi krafa stefnanda næði fram að ganga. Dómari lýsti þá því áliti sínu að rétt væri að tekin yrði skýrsla af Gunnlaugi Geirssyni í því skyni að upplýst yrði með hvaða hætti hefði verið staðið að þeirri rannsókn sem liggur til grundvallar álitsgerð hans og að ekki yrði tekin afstaða til kröfu stefnanda fyrr en að þeirri skýrslutöku lokinni. Sætti þetta ekki andmælum af hálfu lögmanna aðila. Fór skýrslutakan fram í þinghaldi 9. þ.m. Að henni lokinni reifuðu lögmenn aðila sjónarmið fyrir kröfugerð aðilanna í þessum þætti málsins. Málið var síðan tekið til úrskurðar um framangreindan ágreining.

II.

Í álitsgerð Gunnlaugs Geirssonar prófessors, sem er dagsett 3. apríl 2006, segir svo meðal annars: „Til hinna mannerfðafræðilegu rannsókna var DNA erfðaefnið unnið úr kjörnum blóðfrumna þeirra H og A. DNA var einangrað úr vefjasýnum nr. 9144/79 og 10462/79, skráðum frá G. Voru rannsökuð sjö microsatellite erfðamörk hjá hverju þeirra um sig (D4S2946, D5S2029, D6S292, D9S157, INT-2, D12S78 og D13S153). DNA-sniðið, sem fékkst úr vefjasýnum G var borið saman við DNA-snið það, sem fékkst úr blóðfrumum þeirra H og A. Við rannsóknina komu fram erfðasamsætur fólksins í ofannefndum sjö erfðakerfum en þær samanstanda af tveimur erfðaeigindum þar sem önnur erfist frá föður en hin frá móður. Við samanburð kom í ljós að þau erfðamörk, sem rannsökuð voru og A hafði tekið að erfðum frá föður reyndust ekki öll eiga samsvörun í DNA frá vefjum G. […] Samkvæmt framansögðu útilokast G frá því að geta verið faðir A.“

Fyrir dómi staðfesti prófessor Gunnlaugur álitsgerð sína. Þá gerði hann grein fyrir því hvernig staðið var að þeirri rannsókn sem liggur til grundvallar álitsgerðinni. Kom fram hjá honum að þau tvö vefjasýni sem rannsökuð voru hafi verið í vörslu Dungalsafnsins. Aflað hafi verið gagna um töku þeirra, en gögn þessi hafa svo sem áður greinir verið lögð fram í málinu. Samkvæmt þeim hafi hvoru þessara sýna verið gefið sérstakt númer þá er þau voru tekin, þau auðkennd með þeim og þannig varðveitt í safninu. Við rannsókn á sýnunum hafi þau reynst fullnægjandi til notkunar við þá mannerfðafræðilegu rannsókn sem framkvæmd var. Þá hefðu sýnin samrýmst þeirri lýsingu sem gefin var á þeim í gögnum um töku þeirra og rannsókn á þeim á sínum tíma. Loks hafi komið í ljós við skoðun sýnanna að þau væru úr sama einstaklingnum.     

III.

Í málinu neytir stefnandi heimildar samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 til að höfða dómsmál um faðerni sitt. Gerir hún svo sem að framan greinir þá dómkröfu að viðurkennt verði að G, sem fæddist [...] 1919 og lést [...] 2004, sé faðir hennar. Hugðist stefnandi renna stoðum undir þessa kröfugerð sína með þeirri mannerfðafræðilegu rannsókn sem þegar hefur farið fram og dómurinn mælti fyrir um að kröfu hennar. Svo sem að framan er rakið er niðurstaða rannsóknarinnar sú að G heitinn útilokast frá því að geta verið faðir stefnanda. Að þessari niðurstöðu fenginni leitar stefnandi nú eftir því að ný mannerfðafræðileg rannsókn verði framkvæmd og nú með því að rannsökuð verði blóðsýni úr henni sjálfri, móður hennar og stefndu C, D, E og F, sem eru börn G og stefndu B. 

                Fyrirliggjandi niðurstaða mannerfðafræðilegrar rannsóknar er ótvíræð um það að G geti ekki verið faðir stefnanda. Í málinu er ekkert fram komið varðandi undirbúning og framkvæmd þessarar rannsóknar sem gefur ástæðu til að ætla að óvarlegt sé að treysta þeirri niðurstöðu sem hún skilaði. Er hvað þetta varðar sérstaklega vísað til vitnisburðar Gunnlaugs Geirssonar prófessors fyrir dómi. Í vætti hans kom og fram að þau tvö vefjasýni sem rannsökuð voru hafi í einu og öllu samrýmst lýsingu á tveimur vefjasýnum sem tekin voru úr G árið 1979, en hún er rituð á eyðublöð sem hafa verið fyllt út við töku sýnanna og rannsókn á þeim á sínum tíma. Hafa þessi gögn verið lögð fram í málinu. Eru þar meðal annars tilgreind númer sem sýnunum hafa verið gefin þá er þau voru tekin. Þau vefjasýni sem voru rannsökuð voru auðkennd með þessum sömu númerum. Þegar framangreint er virt og litið til vitnisburðar prófessors Gunnlaugs að öðru leyti er það mat dómsins að ekki séu fyrir hendi í málinu atvik sem fái réttlætt að mælt verði fyrir um það að frekari mannerfðafræðileg rannsókn fari fram. Verður því að hafna framangreindri kröfu stefnanda.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Kröfu stefnanda um mannerfðafræðilega rannsókn samkvæmt framangreindu er hafnað.