Hæstiréttur íslands

Mál nr. 519/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Svipting ökuréttar


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. apríl 2005.

Nr. 519/2004.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Stanley Páli Pálssyni

(Garðar Garðarsson hrl.)

 

Bifreiðir. Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar.

S var ákærður fyrir ölvunarakstur, en vínandamagn í blóði hans mældist 2,37‰. Var S gert að greiða 130.000 króna sekt í ríkissjóð og sviptur ökurétti í tvö ár á grundvelli 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 84/2004. Var því hafnað að ákvæðið áskildi hvort tveggja sönnun um vínandamagn í blóði stjórnanda ökutækis og í lofti, sem hann andaði frá sér, svo að sviptingartími yrði ákveðinn tvö ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. desember 2004 að fengnu áfrýjunarleyfi, í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess, að héraðsdómi verði breytt á þann veg, að ökuleyfissvipting, sem ákærði var með dóminum látinn sæta í tvö ár, verði stytt í eitt ár.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreið aðfaranótt 25. júlí 2004  undir áhrifum áfengis, en vínandamagn í blóði hans mældist 2,37‰. Ákærði viðurkenndi að hafa neytt áfengis og fundið til mikilla áfengisáhrifa við aksturinn. Lögreglustjórinn í Hafnarfirði gaf út ákæru á hendur ákærða 1. september 2004, þar sem talið var að hann hefði brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997. Þess var krafist, að ákærða yrði gerð refsing, svo og að hann yrði sviptur ökurétti samkvæmt 102. gr. umferðarlaga, eins og ákvæðinu hafði verið breytt með lögum nr. 23/1998 og 84/2004. Málið var þingfest 4. október 2004. Ákærði, sem ekki hafði áður sætt refsingu, sótti þing og gekkst við sakargiftum. Af hálfu ákæruvaldsins var ákærða boðið að ljúka málinu með því að greiða sekt að fjárhæð 130.000 krónur, sem nánar tiltekin vararefsing lægi við, sæta sviptingu ökuréttar í 2 ár og greiða sakarkostnað. Ákærði féllst ekki á þau málalok og var málið lagt í dóm eftir að hafa verið reifað af ákæranda og verjanda. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sviptur ökurétti í tvö ár og gert að greiða 130.000 króna sekt, að viðlagðri vararefsingu, ásamt tiltekinni fjárhæð í sakarkostnað. Ákærði áfrýjaði héraðsdómi, þar sem hann telur ekki vera lagaskilyrði fyrir því að svipta hann ökurétti í lengri tíma en eitt ár.

II.

Með 8. gr. laga nr. 84/2004 var bætt nýrri málsgrein, sem varð 3. mgr., í 102. gr. umferðarlaga eins og hún hljóðaði þá með áorðnum breytingum. Þar er mælt svo fyrir, að stjórnandi ökutækis skuli sviptur ökurétti eigi skemur en tvö ár, ef hann hefur brotið gegn 45. gr. umferðarlaga og „vínandamagn í blóði hans er yfir 2‰ og vínandamagn í lofti fer yfir 1,00 milligramm í lítra lofts“. Fyrir þessa breytingu var kveðið á um það í 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 23/1998, að stjórnandi ökutækis, sem bryti gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, skyldi sviptur ökurétti ekki skemur en eitt ár, ef vínandamagn í blóði næmi 1,20‰  eða meira eða vínandamagn í lofti, sem hann andaði frá sér, næmi 0,60 milligrömmum í lítra lofts eða meira. Var löng dómvenja fyrir því að svipta mann fyrir slíkt brot ökurétti í eitt ár, ef ekki var um ítrekað ölvunarakstursbrot að ræða og ekki höfðu um leið verið brotin önnur ákvæði laga eða aðstæður að öðru leyti verið sérstaklega alvarlegar.

Eins og að framan greinir er orðalag 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. a 8. gr. laga nr. 84/2004 á þann veg að ætla mætti að liggja þyrfti fyrir hvorttveggja að vínandamagn í blóði væri yfir 2‰ og vínandamagn í lofti yfir 1,00 milligramm í lítra lofts.  Ljóst er, að í máli því, sem hér er til meðferðar, fór einungis fram mæling á vínandamagni í blóði ákærða en engin mæling fór fram á vínandamagni í lofti. Af hálfu ákærða er því haldið fram, að skilyrði til að beita ákvæðinu séu ekki uppfyllt og svipting ökuréttar verði ekki á því byggð, því að sönnunarfærsla fyrir dómi hafi ekki verið með þeim hætti sem 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga kveði á um. Eigi því að beita 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga, en samkvæmt dómvenju skuli beita lágmarki ákvæðisins, eins árs ökuleyfissviptingu, þegar um fyrsta brot ökumanns sé að ræða.

Hér á landi er meira en hálfrar aldar reynsla af mælingu vínanda í blóði til sönnunar á ölvunarástandi ökumanns, en ákvæði um blóðmælingu kom fyrst í 25. gr. umferðarlaga nr. 26/1958. Hefur niðurstaða blóðrannsóknar verið talin lögfull sönnun um það, hvort ökumaður geti talist stjórna ökutæki örugglega. Með 1. gr. laga nr. 48/1997 var gerð sú breyting á 45. gr. umferðarlaga, að niðurstaða mælingar á vínandamagni í lofti, sem ökumaður andar frá sér, var lögð að jöfnu við mælingu á vínandamagni í blóði sem fullnægjandi sönnun um ölvunarástand. Í dómaframkvæmd hefur verið litið svo á, að aðferðir þessar séu jafngildar að því er sönnunarfærslu varðar.

Í frumvarpi að lögum nr. 84/2004 kemur hvergi fram, að ætlun löggjafans hafi verið sú að bæði þyrfti að mæla vínandamagn í blóði og lofti og herða þannig á sönnunarfærslu fyrir dómi, ef lengja skyldi sviptingartíma ökuréttar úr einu ári í tvö ár við fyrsta brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Eins og að framan greinir hefur blóðmæling verið metin fullgild sönnun um ölvunarástand ökumanns í áratugi hér á landi, en loftmæling er tiltölulega nýtilkomin sem sönnunargagn í slíkum málum. Engin haldbær ástæða er til að líta svo á, að ætlunin með orðalagi 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga hafi verið sú, að áskilja að mæling á vínanda í útöndun stjórnanda ökutækis yrði gerð til að styrkja þá sönnun, sem fengin hefur verið með venjuhelgaðri mælingu vínanda í blóði hans.

Samkvæmt framansögðu, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, er staðfest sú niðurstaða hans að til sönnunar um vínandamagn verði annað hvort að liggja fyrir mæling á því í blóði eða útöndun ökumanns, ef til greina eigi að koma að beita sviptingu ökuréttar samkvæmt 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga. Skal héraðsdómur því vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Stanley Páll Pálsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Garðars Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. október 2004.

Málið höfðaði lögreglustjórinn í Hafnarfirði með ákæru útgefinni 1. september 2004 á hendur ákærða Stanley Páli Pálssyni, [...], „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 25. júlí 2004, um kl. 04:22, ekið bifreið með skráningarnúmer SP og fast númer UR-481, undir áhrifum áfengis, með áfengismagn í blóði 2,37 o/oo eftir Hnoðraholtsbraut og inn á Vetrarbraut, þar sem bifreiðinni var ekið út af og valt við gatnamót Hnoðraholtsbrautar.  

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga sbr. lög nr. 44/1993, 23/1998 og 84/2004.“

Ákærði hefur skýlaust játað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Er með þeirri játningu, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæðis.

Lagaskilyrði eru til þess að ljúka máli þessu með viðurlagaákvörðun og var ákærða af hálfu ákæruvaldsins boðið að ljúka málinu með greiðslu sektar til ríkissjóðs að fjárhæð 130.000 krónur og sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár með vísan til 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga eins og henni var breytt með lögum nr. 84/2004, en þar er kveðið svo á að mælist áfengismagn í blóði ökumanns meira en 2 ‰ skuli hann sviptur ökurétti eigi skemur en tvö ár.

Ákærði hafnaði að ljúka málinu með viðurlagaákvörðun sem fæli í sér sviptingu ökuréttar í tvö ár, þar sem hann taldi að ekki væru lagaskilyrði til þess. Byggðist það á þeirri málsástæðu að í a-lið 8. gr. laga nr. 84/2002 er kveðið á um það að mælist vínandamagn í blóði ökumanns yfir 2 ‰ og vínandamagn í lofti fari yfir 1.00 milligramm í lítra lofts, þá skuli svipta ökumann ökurétti eigi skemur en tvö ár. Vínandamagn í lofti ákærða hafi ekki verið mælt, einungis vínandamagni í blóði og af þeirri ástæðu séu ekki skilyrði til þess svipta ákærða ökurétti í tvö ár þar sem sönnunarfærsla fyrir dómi hafi ekki farið fram með þeim hætti sem 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 84/2004 kveði á um.  Ákærði kvaðst hins vegar reiðubúinn til þess að ljúka málinu með greiðslu sektar að fjárhæð 130.000 krónur og sviptingu ökuréttar í eitt ár.

Samkvæmt orðanna hljóðan má færa að því rök að það hafi verið ætlun löggjafans með lögfestingu 8. gr. laga nr. 84/2004 að mæling fari fram bæði á vínandamagni í blóði og vínandamagni í lofti ef svipta á ökumann ökurétti tvö ár eða meir fyrir fyrsta ölvunarakstursbrot. Eins og kunnugt er hefur um áratugaskeið sönnun á ölvunarástandi ökumanns ráðist af rannsókn á vínandamagni í blóði og hefur niðurstaða blóðrannsóknar verið talin lögfull sönnun á því hvort ökumaður geti talist stjórna ökutæki örugglega. Samkvæmt 3. mgr. 47. gr. umferðarlaga skal læknir, hjúkrunarfræðingur eða meinatæknir annast töku blóðsýnis. Með 1. gr. laga nr. 48/1997 var 2. og 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga breytt á þann veg að byggja sönnun um ölvunarakstur á mælingu vínandamagns í lofti eða blóði. Í greinargerð með frumvarpinu segir að á síðari árum hafi komið fram nýjar aðferðir til að mæla ölvunarástand með ekki minni nákvæmni en við blóðrannsókn. Felist þær í því að mælt er vínandamagn í lofti sem ökumaður andi frá sér. Séu aðferðir þessar einfaldar í framkvæmd, búnaður sé þannig að lögreglumaður geti framkvæmt mælingu í stað þess að færa ökumann til læknis til rannsóknar, og mælingin gangi fljótar fyrir sig en rannsókn á blóðsýni. Niðurstaða um áfengisáhrif liggi strax fyrir sem feli í sér að meðferð mála taki styttri tíma. Þá sé létt af ökumanni þeirri kvöð að vera færður af lögreglu til læknis. Sparist með þessu verulegur tími hjá lögreglu og starfsfólki heilsugæslu og rannsóknastofur geti þar með sinnt öðrum verkefnum. Hafi lagareglur um sönnunargildi þessara mælinga verið lögfestar í ýmsum löndum. Með lögfestingu 1. gr. laga nr. 48/1997 var lagt til að mælingar á vínandamagni í lofti sem ökumaður andi frá sér verði að lögum metin sem fullnægjandi sönnun um ölvunarástand á sama hátt og þegar vínandamagn í blóði er mælt. Þá segir ennfremur í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins að rannsóknir sýni að fullt samræmi sé milli vínandamagns í blóði manns og vínandamagns í því lofti sem hann andi frá sér við mismunandi ölvunarástand.

Af þessum gögnum má sjá að þegar lögfest var sú regla að færa mætti sönnur á ölvunarástandi manns með mælingu vínandamagns í lofti, hafi tilgangurinn verið sá að einfalda sönnunarfærsluna. Gera hana ódýrari, fljótvirkari og léttbærari fyrir ökumann. Hér sé um valkvætt úrræði að ræða, annað hvort verði ölvunarástand ökumanns sannað með mælingu á vínandamagni í blóði eða lofti. Eftir lögfestingu þessa ákvæðis var um það tekist fyrir dómstólum hvort mæling á vínandamagni í lofti væri jafn áreiðanleg og mæling vínandamagns í blóði. Neiti ökumaður að leggja til grundvallar sönnunar mælingu vínandamagns í lofti færir lögregla ökumann til læknis til töku blóðsýnis til mælingar á vínandamagni í blóði.  Áreiðanleiki þeirrar sönnunar hefur ekki verið véfengdur. Hvergi er í greinargerðinni með frumvarpinu talið nauðsynlegt eða æskilegt að vínandamagn verði mælt samkvæmt báðum aðferðunum í því skyni að herða á sönnunarfærslu fyrir dómi. Þvert á móti er verið að færa rök að því að rannsóknir sýni að fullt samræmi sé milli vínandamagns í blóði manns og vínanda­magns í því lofti sem hann andi frá sér við mismundandi ölvunarástand.

Kemur þá næst til skoðunar forsendur breytingar á ákvæðum 102. gr. umferðarlaga með lögfestingu 8. gr. laga nr. 84/2004.

Um 8. gr. segir í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 84/2004 eftirfarandi:

“Ríkissaksóknari hefur sent ráðuneytinu erindi í framhaldi af dómum Hæstaréttar um beitingu lágmarkssviptingar vegna ölvunaraksturs, ef um fyrsta brot ökumanns er að ræða og ekkert annað í málinu horfi til þyngingar viðurlaga. Hæstiréttur hefur í tvígang á þessu ári staðfest þá dómvenju að við fyrsta ölvunarakstursbrot ökumanns sé beitt lágmarkssviptingu ökuréttar, án tillits til áfengismagns í blóði eða lofti umrættt sinn, nema eitthvað annað í málinu horfi til þyngingar viðurlaga. Ríkissaksóknari hefur lagt til að miðað verði við vínandamagn í blóði og lofti við sviptingar, í stað þess að lágmarkssviptingu verði ávallt beitt í þeim tilfellum. Af dómum þessum virðist sama hversu ölvaður ökumaður hefur verið, valdi hann ekki tjóni eða raunverulegri og sannanlegri hættu með akstrinum. Ekki virðist slæmur ökuferill ökumanns heldur skipta máli, ef brot hans felur ekki í sér ítrekun. Lagt er til að 102. gr. umferðarlaga verði breytt á þá leið að fari vínandamagn í blóði ökumanns yfir tvö prómill og vínandamagn í lofti yfir 1.000 milligrömm í lítra lofts skuli hann sviptur ökurétti eigi skemur en tvö ár.”

Hvergi er í athugasemdum með frumvarpinu minnst á það að herða þurfi á sönnunar­færslu fyrir dómi þar sem verið er að lengja sviptingartíma ökuréttar úr einu ári í tvö við fyrsta brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þegar athugasemdir við lagafrumvarpið eru virtar kemur í ljós að tilgangur löggjafans með breytingum á 45. gr. umferðarlaga er sá að líta meira til ölvunarástands ökumanns, þannig að refsikennd viðurlög verði meiri, það er, að sviptingartími ökuréttar lengist eftir því sem vínandamagn í blóði eða lofti verði meira. Er það gert á þeirri forsendu að það stafi meiri hætta af ökumanni eftir því sem ölvunarástand hans eykst. Um þetta hefur verið tekist fyrir dómstólum, þar sem ríkissaksóknari hefur gert kröfu til lengri sviptingartíma ökuréttar en eitt ár sem er lágmarkstími samkvæmt 102. gr. umferðarlaga, hafi vínandamagn mælst mjög hátt hjá ökumanni. Dómstólar hafa hins vegar ekki talið sig geta vikið frá langri dómvenju til þess þurfi beina lagaheimild. Við því er nú löggjafinn að bregðast með lögfestingu 8. gr. laga nr. 84/2004.

Að öllu því virtu sem hér að framan hefur verið rakið lítur dómurinn svo á að 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga eins og henni var breytt með a-lið 8. gr. laga nr. 84/2004 beri að skilja með þeim hætti að til sönnunar um vínandamagn verði annað hvort að liggja fyrir mæling á vínandamagni í blóði eða lofti eins og tíðkast hefur.

Eins og áður greinir ók ákærði með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru. Óumdeilt er að ákærði var með áfengisáhrifum, en samkvæmt niðurstöðu sérfræðirannsóknar reyndist magn vínanda í blóði hans vera 2,37 ‰ að teknu tilliti til vikmarka. Þykir ákærði þannig hafa gerst brotlegur við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

Ákærði hefur með greindri háttsemi unnið til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998. Ákærði hefur ekki sætt refsingum svo kunnugt sé. Með hliðsjón af því þykir refsing hæfilega ákveðin 130.000 króna sekt, sem renni í ríkissjóð. Greiði ákærði ekki sektina inna fjögurra vikna frá dómsbirtingu skal koma í hennar stað 24 daga fangelsi.

Þá ber að kröfu ákæruvalds og með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004 að svipta ákærða ökurétti í tvö ár frá dómsbirtingu að telja.

Loks ber samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Garðars Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Stanley Páll Pálsson, greiði 130.000 króna sekt sem renni í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu að telja, en ella sæta fangelsi í 24 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvo ár frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun til skipaðs verjanda síns, Garðars Garðarssonar hrl., 40.000 krónur.