Hæstiréttur íslands
Mál nr. 678/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Litis pendens áhrif
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 17. janúar 2012. |
|
Nr. 678/2011.
|
Landsbankinn hf. (Grímur Sigurðsson hrl.) gegn Jervistone Holdings Ltd. (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Litis pendens áhrif. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L hf. á hendur breska félaginu J var vísað frá dómi, með vísan til þess að kröfugerð L hf. uppfyllti ekki áskilnað d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Helstu málsatvik voru þau að sparisjóðurinn S, sem síðar var tekinn yfir af L hf., og J gerðu með sér lánssamning í apríl 2006 um fjárhæð er nam að hámarki tiltekinni fjárhæð, sem beitt var í framkvæmd milli aðila með svokallaðri lánalínu, sem J gat að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum gengið á fram til aprílmánaðar 2007. Til tryggingar láninu voru lánveitanda veðsett hlutabréf, auk þess sem JÓ tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldbindingum J við S. J endurgreiddi ekki lánið á gjalddaga þess í apríl 2007 og L hf. höfðaði mál þetta gegn J til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningnum. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að óumdeilt sé að L hf. hafi handveðsett hlutabréf til tryggingar greiðslu skuldarinnar sem málið sé rekið um. Yrði skuldin greidd án þess að L hf. leitaði fullnustu í hlutabréfum féllu veðréttindi hans niður og væri þá sjálfgefið að J ætti rétt á að fá þau afhent. L hf. hefði ekki borið skyldu til að bjóða fram í stefnu skil á hlutabréfunum gegn greiðslu skuldarinnar, svo sem J héldi fram. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Varnaraðili gerði 11. apríl 2006 samning við Sparisjóðinn í Keflavík þar sem sá síðarnefndi veitti honum lán að fjárhæð 2.250.000 bresk pund „til fjármögnunar á hlutafjárkaupum í almennum rekstri“ og skyldi það endurgreitt í einu lagi 22. apríl 2007 með nánar tilgreindum vöxtum. Til tryggingar láninu voru lánveitanda veðsett „seljanleg hlutabréf í ýmsum fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll að verðmæti sem mun aldrei vera lægra en 120% af heildarfjárhæð lánsins“. Í samningnum kom fram að gerður skyldi sérstakur veðsamningur og að öll hlutabréf sem veðsett yrðu samkvæmt samningnum yrðu skráð á nafn lánveitanda. Sama dag gaf Jón Ólafsson, búsettur í Bretlandi, út yfirlýsingu um að hann gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu á öllum skuldbindingum varnaraðila við Sparisjóðinn í Keflavík, þar með töldum þessum lánssamningi. Í febrúar 2007 var gerður viðauki við samninginn um hækkun lánsfjárhæðarinnar í 3.375.000 bresk pund. Með undirritun viðaukans gekkst áðurnefndur Jón í ábyrgð fyrir greiðslu á þessari hækkun á fjárhæð lánsins.
Samkvæmt gögnum málsins var þetta lán veitt með svokallaðri lánalínu, sem varnaraðili gat að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum gengið á að eigin vali fram til 2. apríl 2007. Óumdeilt er að stefndi endurgreiddi ekki lánið á gjalddaga 22. apríl 2007, svo og að hann hafi eftir þann tíma haldið áfram að ganga á lánalínuna og jafnframt að greiða inn á skuldina. Við síðustu innborgun varnaraðila 21. ágúst 2009 mun skuldin hafi numið 2.255.432,96 breskum pundum.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 var tilteknum eignum og skuldum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til Spkef sparisjóðs og heldur sóknaraðili því fram að meðal þeirra hafi verið krafa á hendur varnaraðila samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi. Þá tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 5. mars 2011 um að afturkalla starfsleyfi Spkef sparisjóðs frá og með 7. sama mánaðar, en þann dag tæki sóknaraðili, sem þá hét NBI hf., við rekstri, eignum og skuldum sparisjóðsins.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 21. apríl 2011 til heimtu þeirrar fjárhæðar, sem að framan var getið. Í hinum kærða úrskurði var orðið við kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi.
II
Í héraðsdómsstefnu var aðild sóknaraðila, sem þá hét NBI hf., að málinu skýrð meðal annars með vísan til þeirra ákvarðana Fjármálaeftirlitsins sem að framan var getið, en heiti hans var breytt í núverandi horf 28. apríl 2011. Ekki eru efni til að fallast á með varnaraðila að aðild sóknaraðila sé vanreifuð þannig að frávísun málsins varði, en við úrlausn um efni þess verður að taka afstöðu til málsástæðna varnaraðila, sem snúa að því hvort sóknaraðili eigi að réttu lagi kröfuna sem málið tekur til. Í stefnu kemur skýrt fram að krafa sóknaraðila sé reist á áðurnefndum lánssamningi og viðauka við hann og er málið að því leyti nægilega reifað af hendi hans til að efnisdómur verði felldur á það.
Varnaraðili hefur í málatilbúnaði sínum vísað til þess að sóknaraðili hafi höfðað mál á hendur fyrrnefndum Jóni Ólafssyni til heimtu sömu skuldar og hér er deilt um. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um það mál, en þau munu bæði hafa verið þingfest sama dag. Sóknaraðila var í sjálfsvald sett hvort hann leitaði dóms um skuldina hjá varnaraðila sem aðalskuldara, hjá ábyrgðarmanninum eða þeim báðum í senn. Þessum tveimur málum er ekki beint að sama aðila, en að auki er krafa sóknaraðila í öðru þeirra reist á lánssamningi og í hinu á ábyrgðaryfirlýsingu. Krafan sem mál þetta er rekið um er því ekki sú sama og heimt er í máli sóknaraðila á hendur Jóni Ólafssyni í skilningi 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 og verður málinu því ekki vísað frá dómi af þeim sökum. Þá bar enga nauðsyn til að greina frá máli sóknaraðila á hendur ábyrgðarmanninum í stefnu í þessu máli.
Óumdeilt er að sóknaraðili hefur að handveði hlutabréf til tryggingar greiðslu skuldarinnar sem málið er rekið um. Verði skuldin greidd án þess að sóknaraðili leiti fullnustu í hlutabréfunum falla veðréttindi hans niður og er þá sjálfgefið að varnaraðili eigi rétt á að fá þau afhent. Sóknaraðili bar enga skyldu til að bjóða fram í stefnu í máli þessu skil á hlutabréfunum gegn greiðslu skuldarinnar, svo sem varnaraðili heldur fram.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið eru engir annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila, sem valdið geta frávísun málsins. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Jervistone Holdings Ltd., greiði sóknaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2011.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 21. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landsbanknum hf., Austurstræti 11, Reykjavík á hendur Jervistone Ltd., félagi sem skrásett er á Bresku Jómfrúreyjum með skráningarnúmer 541378, skráð til heimilis að Trident Trust Co. (BVI) Ltd., Trident Chambers, P.O. Box 146, Road Town Tortola, VG1110 Virgin Islands, með stefnu dagsettri 8. apríl 2011.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 2.255.432,96 sterlingspund, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara krefst hann þess að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá er þess krafist í öllum tilfellum, að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu og krefst þess að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms.
Ágreiningsefni
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á lánasamningi stefnda við Sparisjóðinn í Keflavík, dags. 11. apríl 2006, og viðauka við hann og telur skyldu til endurgreiðslu skilyrðislausa.
Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísun
Í fyrsta lagi bendir stefndi á, að stefnt sé til innheimtu skuldar sem handveð liggur til grundvallar. Handveðið sé í hlutabréfum sem skráð séu á nafn Sparisjóðsins í Keflavík, í vörslu bankans og stefndi geti því ekki ráðstafað þeim. Stefnandi geri í stefnu engan reka að því að bjóða skil á handveðinu eða að tekið verði tillit til virðis þess við uppgjör ætlaðrar skuldar. Þvert á móti gangi málatilbúnaður stefnanda út á að bankinn haldi handveðinu en innheimti að auki skuldina að fullu.
Þá hafi sjálfskuldarábyrgðaraðila í öðru máli einnig verið stefnt til greiðslu sömu skuldar, án nokkurs fyrirvara í máli þessu um að tekið skuli tillit til þess. Slíkur málatilbúnaður sé ekki dómtækur enda sé almennt talið að skuldari geti haldið að sér höndum ef handveði sé ekki skilað við efndir. Sé m.a. vísað til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum d., e., f. og g. liða. Sé málið því vanreifað og beri að vísað því frá dómi.
Þá krefst stefndi frávísunar vegna vanreifunar þar sem verulega skortir á að lýst sé nægilega í stefnu hvernig stefnandi teljist réttur eigandi kröfunnar. Stefndi gerði lánasamning við Sparisjóðinn í Keflavík en ekki stefnanda málsins. Til að mynda byggir stefnandi á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 7. mars 2011, en stefnda sé ekki kunnugt um að Fjármálaeftirlitið hafi tekið neina ákvörðun þann dag. Þá séu fullyrðingar stefnanda um að hann sé réttur stefnandi málsins ekki studdar neinum gögnum. Samhengi atvika, málsástæðna og aðildar stefnanda að málinu sé þannig afar óljóst og málið verulega vanreifað af þessum sökum, sbr. einkum e., f. og g. liður 80. gr. eml.
Til viðbótar krefst stefndi frávísunar, þar sem í stefnu sé í engu greint á hvaða gögnum sé byggt, sérstaklega hvað ofangreint varðar. Að auki skorti samhengi milli málsástæðna og framlagðra gagna. Slíkur málatilbúnaður sé á skjön við 80. gr. eml., einkum e. og g. lið.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun
Stefnandi hafnar öllum málsástæðum stefnda fyrir frávísun málsins. Hann telur stefnuna vera einfalda og skýra enda hafi það ekki vafist fyrir stefnda að taka til varnar í málinu.
Stefnandi hafnar því að það leiði til frávísunar málsins að hlutabréfin hafi ekki verið boðin fram gegn greiðslu lánsins. Þetta verði gert upp þegar greiðsla hafi átt sér stað. Stefnandi heldur því fram að heimilt sé að höfða mál þetta þótt annað mál hafi verið höfðað á hendur Jóni Ólafssyni vegna sjálfskuldarábyrgðar hans. Hér sé ekki um samaðild að ræða, samanber 18. gr. laga um meðferð einkamála, sem leiðir til frávísunar, heldur eigi 19. gr. sömu laga hér við.
Varðandi rétta aðild að málinu tekur stefnandi fram að aðildarskortur leiði til sýknu í málinu. Hann hafnar því að aðild hans sé vanreifuð. Hún byggist á ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins og gögn þar að lútandi sé hægt að leggja fram síðar.
Niðurstaða
Fyrir liggur að gerður var lánasamningur á milli stefnda sem lántaka og Sparisjóðsins í Keflavík sem lánveitanda hinn 11. apríl 2006. Samkvæmt 1. gr. hans samþykkir lánveitandi að veita lántaka lánafyrirgreiðslu upp að hámarkshöfuðstól 2.250.000 breskra punda, til fjármögnunar á hlutabréfkaupum í almennum rekstri. Samkvæmt 10. gr. setti lántaki að veði til handa lánveitanda seljanleg hlutabréf í ýmsum fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll. Síðan átti að gera sérstakan veðsamning áður en fyrsta úttekt yrði gerð. Þá voru öll veðsett hlutabréf skráð á nafn lánveitanda.
Varðandi aðild stefnanda að máli þessu þá vísar stefnandi í stefnu til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 um að tilteknum eignum og skuldum Sparisjóðs Keflavíkur hafi verið ráðstafað til Spkef sparisjóðs. Hluti af þeim eignum hafi verið krafan á hendur stefnda. Síðar, eða hinn 7. mars 2011, hafi Fjármálaeftirlitið afturkallað starfsleyfi Spkef sparisjóðs og hafi NBI hf., nú stefnandi, tekið við öllum réttindum og skyldum og sé því réttur aðili. Að vísu liggja ekki fyrir fullnægjandi gögn í málinu fyrir þessum staðhæfingum stefnanda, en gagnaöflun í málinu hefur ekki verið lýst lokið og hafa málsaðilar því enn tækifæri til að leggja fram gögn til stuðnings málsástæðum sínum.
Á meðan gagnaöflun hefur ekki verið lýst lokið verður máli þessu ekki vísað frá vegna ætlaðrar vanreifunar í stefnu. Stefnandi hefur enn tækifæri til að leggja fram gögn og leiða vitni, telji hann þörf til þess. Þá verður ekki séð að vafist hafi fyrir stefnda að taka til varnar í málinu. Eru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi vegna vanreifunar.
Í öðru lagi byggir stefndi frávísun málsins á því að stefnandi hafi höfðað mál á hendur Jóni Ólafssyni en sjálfskuldarábyrgð hans á láninu er frá 11. apríl 2006. Stefndi telur að ekki sé hægt að innheimta sama lánið í tveimur dómsmálum, en mál er nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Jóni Ólafssyni vegna sjálfskuldarábyrgðar hans. Þessu sjónarmiði stefnda er hafnað. Þótt grunnurinn að báðum málunum sé nefndur lánasamningur frá 11. apríl 2006 þá byggir mál þetta á því að stefnda beri að standa við gerða samninga og endurgreiða það er hann fékk að láni. Málið á hendur Jóni Ólafssyni er byggt á sjálfskuldarábyrgð hans. Hér á 19. gr. laga um meðferð einkamála við, það er heimilt að sækja málið á hendur stefnda og Jóni Ólafssyni í einu máli, en það er ekki skylda. Þá á tilvitnun stefnda til 94. gr. laga um meðferð einkamála, sem fyrst kom fram við málflutning um frávísunarkröfuna, ekki við í málið þessu. Er kröfu um frávísun málsins á þessum forsendum hafnað.
Í þriðja lagi byggir stefndi frávísun sína á því að stefnandi hafi ekki boðið fram afhendingu hlutabréfanna við greiðslu lánsins. Eins og að framan greinir var tilgangur stefnda með lántöku þessari að kaupa hlutabréf. Síðan samdist svo um að öll hlutabréfin voru veðsett stefnanda og áttu að vera á nafni lánveitanda, þ.e. væntanlega nú á nafni stefnanda. Þegar litið er til þess, hversu samofið lánið er kaupunum á hlutabréfunum telur dómurinn að stefnandi hefði þurft að hafa kröfugerð sína þannig úr garði gerða að hann byði hlutabréfin gegn greiðslu lánsins. Af kröfugerðinni verður ekki annað ráðið en að stefnandi geti haldið hlutabréfunum þrátt fyrir að stefndi greiði lánið. Því er dómkrafan ekki glögg og með vísan til d-liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála ber að vísa máli þessu frá dómi.
Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað eins og greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Landsbankinn hf., greiði stefnda, Jervistone Ltd., 250.000 kr. í málskostnað.