Hæstiréttur íslands

Mál nr. 608/2012

A (Jónas Þór Jónasson hrl.)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Sjómaður
  • Líkamstjón
  • Þjáningarbætur
  • Örorkumat


Sjómenn. Líkamstjón. Þjáningabætur. Örorkumat.

A krafði V hf. um bætur vegna líkamstjóns sem hann hlaut í sjóvinnuslysi. Deildu aðilar um það hvort A ætti rétt á þjáningabótum samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga og hvernig bæta skyldi varanlegan miska og varanlega örorku vegna tjónsins. Snérist ágreiningurinn um það hvort leggja ætti til grundvallar niðurstöður í álitsgerð örorkunefndar eða niðurstöður dómkvaddra matsmanna. Hæstiréttur taldi að A hefði ekki sýnt fram á að hann fullnægði skilyrðum 3. gr. skaðabótalaga til þess að eiga rétt til þjáningabóta, en hann hefði ekki verið óvinnufær vegna afleiðinga líkamstjónsins. Þá var talið að leggja bæri til grundvallar niðurstöðu örorkunefndar um varanlegan miska A þar sem dómkvaddir matsmenn hefðu m.a. byggt mat sitt á bandarískri miskatöflu. Loks var fallist á að leggja bæri niðurstöðu dómkvaddra matsmanna til grundvallar bótum fyrir varanlega örorku þar sem lýsing í matsgerðinni á aðferð við matið og rökstuðningur fyrir niðurstöðu þess hefði verið vandaðri og ítarlegri en í álitsgerð örorkunefndar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. september 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 6.064.411 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 21. júní 2007 til 8. ágúst 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags allt, að frádregnum 1.972.912 krónum, sem greiddar voru 19. júní 2012 að gengnum héraðsdómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Í málinu voru dómkvaddir til að meta tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyssins fyrir áfrýjanda þeir B og C, en báðir eru þeir sérfræðingar í bæklunarskurðlækningum. B hafði á tólf ára tímabili þegið ýmsar greiðslur frá stefnda, sem nema rúmlega 4.500.000 krónum. Greiðslur þessar hafði hann ýmist þegið vegna starfa sinna sem dómkvaddur matsmaður, matsmaður án dómkvaðningar eða fyrir ritun læknisvottorða vegna þeirra sem gert höfðu kröfur um vátryggingabætur á hendur stefnda. B hefur hvorki verið trúnaðarlæknir stefnda né í föstu starfsambandi við hann. Þau verkefni sem hann hefur unnið fyrir stefnda, önnur en sem dómkvaddur matsmaður, hefur hann tekið að sér samkvæmt beiðni hverju sinni gegn endurgjaldi. Að teknu tilliti til þess að B er sjálfstætt starfandi læknir og umfangs þeirra verkefna, sem um ræðir, verður ekki litið svo á að slík starfstengsl séu milli hans og stefnda að B verði ekki talinn hafa uppfyllt kröfu 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að vera dómkvaddur matsmaður, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 5. febrúar 2009 í máli nr. 223/2008 og 7. október 2010 í máli nr. 524/2009. Verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að hafna beri því að ekki verði byggt á matsgerð dómkvaddra manna í málinu vegna starfstengsla B við stefnda.

II

Fyrir Hæstarétti er deilt um hvort áfrýjandi eigi rétt á þjáningabótum samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og hvernig bæta skuli varanlegan miska og varanlega örorku vegna líkamstjóns, sem hann hlaut í sjóvinnuslysi 27. ágúst 2006. Snýst ágreiningur aðila um hvort leggja beri til grundvallar niðurstöður í álitsgerð örorkunefndar 30. júní 2009, sbr. 10. gr. skaðabótalaga, eða niðurstöður dómkvaddra manna í matsgerð þeirra frá desember 2010.

Við mat á þýðingu sönnunargagna, sem lögð eru fram í málinu um afleiðingar vinnuslyssins fyrir áfrýjanda, gildir meginregla 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Verður að meta sjálfstætt vegna hvers hinna þriggja kröfuliða, sem áfrýjandi hefur uppi, hvað sannað sé með framlögðum gögnum og skýrslum fyrir dómi um afleiðingar slyssins.

Krafa áfrýjanda um þjáningabætur, eins og henni hefur verið breytt fyrir Hæstarétti, er á þann veg að hann eigi rétt til slíkra bóta í 17 í stað 97 daga, eins og hann gerði kröfu um í héraði. Áfrýjandi kveðst hafa verið frá vinnu í 17 daga eftir að í land var komið 4. september 2006 þar til hann fór til sjós á ný 21. sama mánaðar. Telur hann sig hafa verið veikan, án þess að vera rúmliggjandi, á þessu tímabili. Í álitsgerð örorkunefndar er áfrýjandi talinn hafa verið veikur vegna afleiðinga slyssins frá slysdegi 27. ágúst til 1. desember 2006. Í matsgerð dómkvaddra manna er hann ekki talinn uppfylla skilyrði 3. gr. skaðabótalaga um rétt til þjáningabóta eftir slysið. Í tilkynningu um slysið til Tryggingastofnunar ríkisins og útgerðar skipsins, […], sem áfrýjandi undirritaði 21. september 2006, kom fram að hann hafi fyrst leitað læknis 11. september sama ár. Í vottorði heilsugæslulæknis á […] 24. ágúst 2007 kom fram að áfrýjandi hafi ekki verið óvinnufær vegna slyssins. Af 3. gr. skaðabótalaga verður ráðið að það sé skilyrði réttar til þjáningabóta að tjónþoli hafi verið veikur. Hefur það almennt verði skýrt svo að það jafngildi því að vera óvinnufær vegna afleiðinga líkamstjónsins. Áfrýjandi hefur ekki sannað með læknisvottorðum eða öðrum hætti að hann fullnægi framangreindum skilyrðum til þess að eiga rétt til þjáningabóta. Ekki eru heldur forsendur til þess að dæma honum þjáningabætur á meðan hann var vinnufær samkvæmt undantekningarreglu í 2. málslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga. Verður þessum kröfulið hans því hafnað.

Í álitsgerð örorkunefndar var varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins metinn sjö stig. Var það ekki rökstutt á annan hátt en með tilvísun til allra gagna málsins. Einn nefndarmanna í örorkunefnd skýrði matið nánar í skýrslu fyrir dómi. Hann gat þess að hefðbundið væri að meta liðþófaröskun í hné til fimm miskastiga en áfrýjandi hefði bæði fengið rifu á liðpokann, auk þess sem ekki hafi verið gert við liðþófann og því hafi verið talin meiri hætta á slitbreytingum síðar á ævinni. Hafi það verið ástæða þess að niðurstaðan hafi orðið að meta varanlegan miska til sjö stiga. Í matsgerð dómkvaddra manna var varanlegur miski metinn fimm stig. Er það rökstutt í matsgerðinni með því að um læknisfræðilegt mat sé að ræða og við það hafi fyrst og fremst verið höfð til hliðsjónar miskatafla örorkunefndar frá 21. febrúar 2006 ,,en einnig bandaríska miskataflan (Guides to the evaluation of permanent impairment, 5. útgáfa útgefin af bandarísku læknasamtökunum árið 2000) og danska miskataflan Méntabel arbejdsskader útgefin 1. janúar 2004. ... Með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar telst varanlegur miski hæfilega metinn 5 stig.“ Í 3. mgr. 10. gr. skaðabótalaga er kveðið á um að eitt hinna lögbundnu hlutverka örorkunefndar sé að semja töflur um miskastig. Reglur skaðabótalaga um varanlegan miska vegna líkamstjóns eiga sér fyrirmynd í dönskum lagareglum um sama efni. Miskatafla örorkunefndar hefur í stórum dráttum svarað til danskrar töflu um mat á varanlegum miska, sem þó hefur í ýmsum efnum verið ítarlegri. Í framkvæmd hefur verið litið til mats á varanlegum miska samkvæmt dönsku miskatöflunni þegar hinni íslensku sleppir. Þessi framkvæmd hefur stoð í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til skaðabótalaga þegar það var lagt fram á Alþingi. Á hinn bóginn liggur ekki fyrir að unnt sé að styðjast við þá bandarísku töflu um mat á varanlegri örorku (permanent impairment), sem dómkvaddir menn vísa til í matsgerð sinni, enda ekkert upplýst um hvort sömu forsendur liggi henni til grundvallar og miskatöflu örorkunefndar. Tilvísun til hinnar bandarísku örorkutöflu í matsgerðinni verður, þrátt fyrir vísan matsmanna til þess að niðurstaða þeirra sé fengin með hliðsjón af miskatöflu örorkunefndar, ekki skilin á annan veg en þann að fyrrnefnda taflan hafi haft áhrif á matið. Þegar af þessari ástæðu er ekki unnt að byggja á matsgerð dómkvaddra manna við mat á sönnun um varanlegan miska áfrýjanda vegna líkamstjónsins. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt annar matsmanna hafi í skýrslu fyrir dómi dregið úr því að bandaríska örorkutaflan hafi skipt máli við matið. Er því ekki við annað að styðjast en álit örorkunefndar um sjö stiga varanlegan miska áfrýjanda vegna líkamstjónsins.

Fallist er á forsendur hins áfrýjaða dóms um að leggja beri niðurstöðu dómkvaddra manna til grundvallar bótum fyrir varanlega örorku, enda er lýsing í matsgerðinni á aðferð matsmanna við matið og rökstuðningur fyrir niðurstöðu þar vandaðri og ítarlegri en í álitsgerð örorkunefndar. 

Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda skaðabætur vegna varanlegs miska sem svara til sjö stiga, 572.371 króna og 2% varanlegrar örorku 1.093.567 krónur, auk 4.5% vaxta samkvæmt fyrirmælum 16. gr. skaðabótalaga, frá þeim tíma sem áfrýjandi gerir kröfu um, og dráttarvaxta allt eins og greinir í dómsorði. Við mat á upphafstíma dráttarvaxta verður með stoð í 9. gr. laga nr. 38/2001 tekið tillit til þess að greiðslutilboði stefnda, sem miðaðist við matsgerð dómkvaddra manna, var hafnað af hálfu áfrýjanda, sem ekki tók við hlutagreiðslu fyrr en að gengnum héraðsdómi í málinu.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða hluta málskostnaðar áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, A, 1.665.938 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 21. júní 2007 til 22. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.972.912 krónum miðað við 19. júlí 2012.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 800.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 29. maí sl., var höfðað 21. júní 2011.

Stefnandi er A, […].

Stefndi er Vátryggingafélag Íslands, Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 6.178.885 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 21. júní 2007 til 8. ágúst 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda í málinu gegn greiðslu á 1.826.537 krónum, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 9. desember 2010. Til vara er þess krafist að tildæmd bótafjárhæð verði lækkuð. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

I

Stefnandi, sem er menntaður skipstjórnarmaður, slasaðist við vinnu sína um borð í frystitogaranum […] þann 27. ágúst 2006. Hann var á leið frá dekki upp í brú skipsins er hann féll í stiga og fékk við það snúningsáverka á hægra hné. Hnéð bólgnaði og vökvi myndaðist í hnésbót. Stefnandi leitaði til heilsugæslulæknis á […], þegar skipið kom í land nokkrum dögum síðar, sem vísaði honum til D, bæklunarlæknis á […]. Í framhaldinu var gerð segulómskoðun þar sem sást aukinn vökvi í hnéliðnum, auk þess sem væri að sjá „Baker´s cystu“ í hnésbótinni sem virtist hafa sprungið. Einnig var að sjá skemmd í afturhorni miðlæga liðþófans. Læknirinn taldi líklegt að meiðslin yllu vandræðum í framtíðinni og að komið gæti til speglunaraðgerðar. Við læknisskoðun hjá E á heilsugæslustöðinni á […] 2. október 2008 var stefnanda ráðlagt að leita sjúkraþjálfunar og nota spelku með hliðarstyrkingarjárni, en hnéspeglun var frestað þar sem óvíst var talið um árangur af henni.

Líkamstjón stefnanda vegna slyssins reyndist varanlegt. Áhöfn […] var á slysdegi slysatryggð samkvæmt kjarasamningi hjá stefnda. Bótaskylda stefnda er óumdeild, en bætur ákvarðast samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, með áorðnum breytingum.

Málsaðilar óskuðu í sameiningu eftir áliti örorkunefndar á afleiðingum vinnuslyss stefnanda. Í álitsgerð nefndarinnar, dags. 30. júní 2009, segir að stefnandi hafi í vinnuslysinu hlotið áverka á hægra hné. Hafi segulómskoðun sýnt miðlæga liðþófaröskun í hægra hné, svo og að því er virðist sprungna Baker´s cystu og vökvaaukningu í liðnum. Hafi hann verið meðhöndlaður með bólgueyðandi lyfjum og síðar einnig með spelku til stuðnings. Eftir að skip hans […] hafi verið selt í mars 2007 hafi hann starfað sem 2. stýrimaður á nótaveiðiskipum. Í því starfi þurfi hann að vinna mikið á dekki og hafi einkenni hans frá hægra hné aukist verulega eftir það. Leiði skoðun í ljós stöðugan hægri hnélið, óbólginn, en eymsli yfir miðlægri liðglufu í hægra hné svo og jákvæð próf fyrir liðþófaröskun miðlægt í hægra hné. Taldi örorkunefnd að eftir 1. desember 2006 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins. Hann hafi verið veikur frá slysdegi, 27. ágúst 2006, til 1. desember 2006. Ekki væri um tímabundið atvinnutjón að ræða. Varanlegur miski vegna slyssins var metinn 7 stig og varanleg örorka 10%.

Stefndi sætti sig ekki við niðurstöðu örorkunefndar og óskaði 8. september 2009 eftir dómkvaðningu matsmanna, til að meta afleiðingar slyss stefnanda. Voru bæklunarlæknarnir B og C dómkvaddir til verksins 11. desember 2009. Í matsgerð þeirra frá því í desember 2010, segir að stefnandi hafi í slysinu 27. ágúst 2006 fengið snúningsáverka á hægra hné. Hafi segulómskoðun sýnt liðþófaröskun í hægra hné. Matsmennirnir töldu að þar sem stefnandi hafi ekki verið óvinnufær eftir slysið væru ekki forsendur til að meta honum þjáningabætur. Við mat á varanlegum miska miðuðu matsmenn við miskatöflu örorkunefndar og bandaríska og danska miskatöflu. Litu matsmenn til þess að stefnandi hefði enga fyrri sögu frá stoðkerfi og að afleiðingar slyssins væru tognunaráverki og liðþófaröskun. Með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar væri varanlegur miski hæfilega ákveðinn 5 stig. Matsmenn töldu að ætla mætti að slysið gæti í framtíðinni eitthvað takmarkað vinnugetu stefnanda. Töldu þeir hann hafa orðið fyrir nokkurri skerðingu vegna slyssins og mátu varanlega örorku 2%.

Stefndi bauð fram greiðslu bóta til stefnanda í samræmi við matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna. Stefndi hafnaði því þar sem hann teldi álitsgerð örorkunefndar mun betur rökstudda og gefa réttari mynd af varanlegum afleiðingum slyss hans. Snýst ágreiningur aðila um við hvora niðurstöðuna skuli miðað.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu ásamt F, formanni örorkunefndar, G, lækni hjá örorkunefnd, og matsmönnunum C og B.

II

Stefnandi byggir kröfu sína á álitsgerð örorkunefndar. Telur hann að leggja verði hana til grundvallar þar sem hún gefi réttari og sanngjarnari mynd af afleiðingum slyss hans en matsgerð dómkvaddra matsmanna, sérstaklega af skertu tekjuöflunarhæfi hans. Álitsgerðin sé faglega unnin og vel rökstudd. Eðlilegt samhengi og samræmi sé á milli þeirra áverka sem stefnandi hafi hlotið í slysinu og niðurstöðu nefndarinnar um varanlegar afleiðingar slyss hans. Hið sama verði ekki sagt um matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna.

Krafa stefnanda um þjáningabætur, án rúmlegu í 97 daga, og miskabætur sé byggð á álitsgerð örorkunefndar og 3. og 4. gr. skaðabótalaga.

Um varanlega örorku stefnanda segi í álitsgerð örorkunefndar, að eftir slysið gegni stefnandi öðruvísi störfum en áður og vinni töluvert á dekki. Nefndin hafi talið að afleiðingar slyssins muni draga úr möguleikum stefnanda til að afla sér atvinnutekna og megi einkum reikna með því þegar lengra komi fram á starfsævi hans. Í ljósi þessa hafi nefndin talið varanlega örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins vera 10%. Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna segi um varanlega örorku stefnanda, að sjómannsstörf reyni töluvert líkamlega á fólk og ætla megi að umrætt slys geti í framtíðinni takmarkað vinnugetu stefnanda. Að öllum gögnum virtum hafi matsmenn talið að stefnandi „hafi orðið fyrir nokkurri skerðingu vegna slyssins þann 27. ágúst 2006“. Hafi þeir talið varanlega örorku hæfilega metna 2%.

Að mati stefnanda skorti algjörlega samræmi og rökrétt samhengi milli forsendna hinna dómkvöddu matsmanna, um takmörkun á vinnugetu og nokkra skerðingu vegna slyssins og svo niðurstöðu þeirra um varanlega örorku hans, sem einungis hafi verið metin 2%. Skerðing á tekjuöflunarhæfi um einvörðungu tvö prósentustig af hundraði, samkvæmt almennum málskilningi, samræmist ekki lýsingu matsmannanna á takmarkaðri vinnugetu stefnanda til sjómannsstarfa og nokkurri skerðingu vegna slyssins. Varanleg 2% örorka endurspegli hvorki þá áverka sem stefnandi hafi sannanlega hlotið í slysinu, tognunaráverka á hné og liðþófaröskun, né áhrif þeirra á vinnugetu stefnanda. Þá falli 2% varanleg örorka heldur ekki saman við rökstuðning og niðurstöður örorkunefndar um varanlega örorku stefnanda.

Dómkvaddir matsmenn hafi tekið undir þá niðurstöðu örorkunefndar að afleiðingar slyssins muni einkum draga úr tekjuöflunarhæfi stefnanda þegar lengra komi fram á starfsævina. Alkunna sé að sjómennska sé erfiðisvinna og mikið líkamlegt álag fylgi starfinu, einkum og sér í lagi á fætur, við að standa ölduna og þola velting og langar stöður við þröngar og erfiðar aðstæður. Stefnandi hafi starfað á dekki skipa sinna frá hausti 2007. Það sé ljóst að hljóti sjómaður varanlegan miska vegna slyss sé miskinn mun líklegri en hjá almennum launþega sem ekki vinni erfiðisvinnu til þess að há honum í vinnu og valda honum vandkvæðum í framtíðinni. Mat dómkvaddra matsmanna á 2% varanlegri örorku sé í ljósi þessa allt of lágt metin, þar sem hún endurspegli ekki þau óþægindi og erfiðleika sem afleiðingar vinnuslyssins valdi stefnanda við vinnu hans á sjónum og komi í auknum mæli til með að valda honum út starfsævi hans.

Að mati stefnanda hljóti framangreint ósamræmi og takmarkaður rökstuðningur á varanlegri örorku stefnanda að draga verulega úr gildi matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna. Eiginlegur rökstuðningur sé einungis örfáar línur og ekki verði með góðu móti séð í ljósi framangreindra forsendna matsgerðarinnar hvers vegna varanleg örorka sé metin 2% en ekki til dæmis 1%. Rökstuðningur álitsgerðar örorkunefndar sé hins vegar mun betri og skýrari og þar sé rökrétt samhengi milli forsendna og niðurstöðu.

Eftir að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna hafi legið fyrir hafi stefnandi fengið spurnir af því að B bæklunarlæknir hafi til margra ára unnið umtalsvert fyrir stefnda í matsmálum og við aðra læknisfræðilega ráðgjöf. Að mati stefnanda séu þessi tengsl matsmannsins við félagið til þess fallin að draga úr trúverðugleika matsvinnu hans og um leið gildi matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna. Vísist hér til 59. gr. og 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Það sé mat stefnanda að í ljósi tengsla matsmannsins við félagið og þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem þar séu í húfi, verði ekki byggt á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna við úrlausn máls þessa. Vísi stefnandi þessari málsástæðu til stuðnings til dóma Hæstaréttar nr. 223/2008 og nr. 679/2008.

Við mat á gildi matsgerðanna tveggja verði að horfa til þess að örorkunefnd starfi samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og sé skipuð þremur óvilhöllum matsmönnum, sem ekki hafi starfað fyrir stefnda við matsstörf eða aðra læknisfræðilega ráðgjöf. Með vísan til þessa, sem og annars framangreinds, telji stefnandi að vægi álitsgerðar örorkunefndar sé mun meira en matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna, þannig að engar forsendur séu til annars en að leggja álitsgerð nefndarinnar til grundvallar við uppgjör á slysabótum stefnanda.

Samkvæmt álitsgerð örorkunefndar sé stöðugleikatímapunktur 1. desember 2006. Þjáningatímabil sé frá slysdegi í 97 daga, án rúmlegu. Varanlegur miski hafi verið metinn 7 stig og varanleg örorka 10%. Árslaun séu hámarkslaun á stöðugleikatímapunkti 7.204.000 krónur. Með vísan til þessa og ákvæða skaðabótalaga með áorðnum breytingum sundurliðist krafa stefnanda á eftirfarandi hátt:

-Þjáningabætur (97 dagar * 700 kr. * 6.709/3.282)

kr.    138.800.-

-Varanlegur miski (280.000 * 6.709/3.282)

kr.    572.371.-

-Varanleg örorka (10% * 7,59 * 7.204.000 kr.)

kr. 5.467.714.-

Samtals

kr. 6.178.885.-

Krafan beri almenna vexti til samræmis við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Miði upphafstími þeirra við fjögur ár fyrir höfðun þessa máls, enda séu eldri vextir fyrndir. Krafan beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá og með 8. ágúst 2009, en þá hafi verið liðinn mánuður frá þeim tíma er stefndi hafi verið krafinn um greiðslu bótanna á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar.

Kröfur stefnanda séu reistar á álitsgerð örorkunefndar og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, með áorðnum breytingum, sbr. vátryggingarsamning þann sem hafi verið í gildi hjá stefnda á slysdegi. Einnig vísist hér til laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Jafnframt vísist til VIII. og IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um vexti og dráttarvexti vísist til laga nr. 50/1993 og III. kafla laga nr. 38/2001. Um málskostnað vísist til laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. Varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað vísist til laga nr. 50/1988.

III

Stefndi reisir kröfur sínar á því að rétt sé að miða bótagreiðslu við mat hinna dómkvöddu matsmanna og bæta stefnanda tjón hans miðað við forsendur þess, þ.e. mat á 5 stiga miska og 2% varanlegri örorku. Hann hafni jafnframt greiðslu þjáningabóta, samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem tímabil þjáninga samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga sé ekkert, samkvæmt mati hinna dómkvöddu matsmanna.

Stefnandi virðist reisa kröfu sína, um að álit örorkunefndar verði lagt til grundvallar útreikningi bóta, annars vegar á því að álit örorkunefndar sé betur rökstutt og unnið með faglegri hætti en matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna og hins vegar á því að matsmaðurinn B, sem dómkvaddur hafi verið í málinu, hafi einhver sérstök tengsl við hið stefnda félag, sem séu fallin til þess að draga trúverðugleika matsstarfa hans í efa.

Stefnandi hafi í stefnu með vísan til 2. mgr. 67. gr., sbr. 70. gr. laga nr. 91/1991, skorað á stefnda að upplýsa um „hversu lengi matsmaðurinn [B] hefur starfað fyrir félagið, í verktöku eða á annan máta, í hversu mörgum málum hann hefur starfað fyrir félagið við læknisfræðilega ráðgjöf, svo sem við mat á líkamstjónum, o.s.frv. og hversu háa þóknun hann hefur fengið frá stefnda vegna þessarar vinnu“.

Fyrst sé því til að svara að B hafi aldrei starfað sérstaklega fyrir stefnda í verktöku eða á annan máta, né starfað við læknisfræðilega ráðgjöf við mat á líkamstjónum fyrir félagið. Annar læknir, Ragnar Jónsson, sé í slíku starfi fyrir félagið. B hafi hins vegar, líkt og margir aðrir, verið dómkvaddur matsmaður vegna mats á afleiðingum líkamstjóna, sem og verið fenginn til að meta afleiðingar líkamstjóna utan réttar. Oftast sé um að ræða samkomulag með félaginu og lögmanni tjónþola um að fá hann til starfans og oft ásamt öðrum matsmanni. B hafi verið fenginn til slíkra starfa jafnt að frumkvæði tjónþola sem og stefnda, líkt og um aðra matsmenn. Ljóst sé að hann hafi ekki verið fenginn oftar til þessara verkefna en aðrir sem stundi matsstörf, en í þeim hópi manna sem oftast taki að sér slík verkefni séu að minnsta kosti 40 læknar og lögmenn, auk fleiri sem sjaldnar séu fengnir til þess starfs. Þá hafi B gefið út læknisvottorð vegna sjúklinga sem hafi tilkynnt tjón til félagsins líkt og fjölmargir aðrir læknar, enda sé það eðlilegur hluti af starfi þeirra og vart til sá læknir í landinu sem ekki hafi gefið út læknisvottorð vegna sjúklings sem hafi lagt fram bótakröfu á hendur félaginu.

Stefndi hafi kallað fram úr tölvukerfi sínu upplýsingar um það fyrir hvaða verkefni B hafi fengið greitt á árunum 2000-2009. Þar sé um að ræða 22 möt utan réttar þar sem aðilar hafi komið sér saman um matsmenn, fjögur möt þar sem hann hafi verið dómkvaddur matsmaður, fjögur möt utan réttar þar sem hann hafi einn verið matsmaður (slysamál þar sem eingöngu sé metin læknisfræðileg örorka) og útgáfu 17 læknisvottorða sem hafi verið aflað eða legið fyrir frá honum vegna meðferðar slysamála. Á þessu árabili hafi B fengið greiddar 3.717.450 krónur frá félaginu vegna allra þessara verkefna, að jafnaði 413.050 krónur á ári, eða 34.420 krónur á mánuði. Greiðslur frá ársbyrjun 2010 séu skráðar í öðru tölvukerfi og hafi sérstaklega verið kallað eftir upplýsingum um greiðslur til B vegna áðurnefndra starfa frá þeim tíma. Komi fram ein greiðsla upp á 35.000 krónur sem hafi verið vegna læknisvottorðs. Til samanburðar sé nauðsynlegt að geta þess að stefndi greiði að jafnaði árlega fyrir um 700-800 matsgerðir vegna meðferðar slysamála. Á sama árabili og getið sé um hér að framan, árin 2000-2009, sé því um að ræða um það bil 7500 matsgerðir. Þar af hafi B átt þátt í samtals 30 matsgerðum, sem sé um 0,4% af öllum matsgerðum sem félagið hafi greitt fyrir á þessu árabili. Megi ljóst vera af þessum upplýsingum að B sé ekki vanhæfur til að gegna matsstörfum fyrir félagið, nema síður sé. Ef talið yrði að hann væri ekki hæfur til að gegna starfi sem matsmaður í þessu máli myndi það sama gilda í öðrum málum um alla aðra matsmenn sem að jafnaði stundi matsstörf. Augljóst sé að sú niðurstaða gangi ekki upp, auk þess sem slík niðurstaða eigi ekki við nein rök að styðjast. Með vísan til alls framangreinds hafni stefndi því alfarið að B hafi verið vanhæfur á nokkurn hátt til að vera dómkvaddur matsmaður með vísan til 59. gr. og 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Hitt atriðið sem byggt sé á í stefnu sé að taka beri álitsgerð örorkunefndar fram yfir matsgerð dómkvaddra matsmanna og leggja hana til grundvallar við ákvörðun bóta. Stefndi mótmæli því og telji rétt að leggja matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra B og C, sem báðir séu bæklunarlæknar og vanir og vandaðir matsmenn, til grundvallar.

Álitsgerðir örorkunefndar, sem fengnar séu í samræmi við 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, geti legið til grundvallar ákvörðun bóta í samræmi við sömu lög, en séu langt því frá eina sönnunargagnið sem notast sé við í því sambandi. Benda megi á í því samhengi að álit örorkunefndar liggi sjaldnast fyrir í þeim slysamálum sem gerð séu upp af stefnda á ári hverju, eða aðeins í um það bil 5% tilfella. Langoftast sé byggt á mati sérfræðinga utan réttar, lækna og í sumum tilvikum einnig lögmanna, en aðeins í tiltölulega fáum málum liggi álit örorkunefndar fyrir. Engin heimild sé í lögum til að líta svo á að álitsgerð örorkunefndar sé bindandi við mat á örorku og enn síður til að líta svo á að hún skuli ganga framar mati dómkvaddra matsmanna. Ekkert sé því til fyrirstöðu að afla annarra sönnunargagna, meðal annars um mat á miska og varanlegri örorku, sem oft sé þá mat dómkvaddra matsmanna, sem svo komi til skoðunar hjá dómstólum, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Mjög nærtækt sé að líta svo á að mat dómkvaddra matsmanna skuli vega þyngra en álit örorkunefndar af nokkrum ástæðum. Álit örorkunefndar sé fyrst og fremst gagn sem notast megi við þegar samið sé um bótauppgjör utan réttar, enda sé nánast óþekkt að tjónþoli höfði dómsmál, þar sem deilt sé um miska og varanlega örorku, og leggi eingöngu fram álit örorkunefndar máli sínu til stuðnings. Í öllum eða að minnst kosti langflestum tilvikum yrði sá sem ósáttur sé við álit örorkunefndar að afla mats dómkvaddra matsmanna til að hnekkja því áliti. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi stefndi óskað eftir mati dómkvaddra matsmanna þar sem álit örorkunefndar hafi að hans mati verið óásættanlegt. Niðurstaða þeirra hafi verið verulega frábrugðin áliti örorkunefndar, líkt og áður greini. Stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt hnekkt mati dómkvaddra matsmanna sem verði að teljast mikilvægara sönnunargagn fyrir dómi en álit örorkunefndar, sbr. IX. kafla laga nr. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Því sé alfarið mótmælt að álit örorkunefndar sé betur rökstutt og unnið með faglegri hætti en matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna og sé þess vegna betra sönnunargagn í málinu. Þessi fullyrðing stefnanda byggist á huglægu mati hans á því sem fram komi í matsgerðinni. Benda megi á að matsgerðin byggist alfarið á sérþekkingu hinna dómkvöddu matsmanna og varði ekki lögfræðileg atriði, svo sem orsakatengsl eða sennilega afleiðingu. Ef vafi væri í þessu máli um orsakatengsl á milli slyssins og hinnar metnu örorku væri ef til vill meira svigrúm fyrir lögmenn og dómstóla að meta og eftir atvikum vefengja niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, en svo sé ekki í þessu máli. Röksemdum stefnanda, um að rökrétt samhengi skorti á milli umfjöllunar matsmanna og niðurstöðu þeirra, sé mótmælt þar sem aðallega sé um að ræða bollaleggingar stefnanda um máltilfinningu og orðalag, svo sem hvað það merki þegar talað sé um „nokkra skerðingu“ á vinnugetu eða „takmarkaða vinnugetu“ til sjómannsstarfa. Niðurstaða matsmanna tali sínu máli þar sem mikilvægasta niðurstaðan sé sú að miski sé metinn 5 stig og varanleg örorka sé talin vera afar lítil, eða 2%. Þegar gögn málsins séu skoðuð verði þessi niðurstaða að teljast rétt, enda séu ekki vísbendingar um að stefnandi muni tapa tekjum í framtíðinni vegna þess áverka sem hann hafi hlotið, nema þá ef til vill að mjög takmörkuðu leyti, þrátt fyrir að hann sé sjómaður. Almennt sé talið að miski sem nái aðeins 5 stigum valdi ekki varanlegri örorku, nema við sérstakar aðstæður. Þó að menn vinni á sjó sé ekki þar með sagt að allir áverkar, stórir sem smáir, valdi varanlegri tekjuskerðingu hjá viðkomandi. Slíkt verði að meta í hverju tilviki. Stefnandi hafi til dæmis í engu tapað tekjum síðan slysið hafi átt sér stað, heldur hafi tekjur hans þvert á móti aukist, líkt og komi fram í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna. Í því ljósi sé rökstuðningur örorkunefndar fyrir mati á 10% varanlegri örorku ekki fyrirferðamikill, en einungis sé nefnt að nefndin telji að „afleiðingar slyssins muni draga úr möguleikum tjónþola til að afla sér atvinnutekna og megi einkum reikna með því þegar lengra kemur fram á starfsævi hans“. Þessi almenna fullyrðing sé að mati stefnda sett fram án nægilegs samhengis við hagi þess einstaklings sem hafi verið að meta, sem hafi haldið áfram til sjós og aukið tekjur sínar.

Stefndi mótmæli kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta og geri almennan fyrirvara við hana. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu beri félaginu að greiða dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn sé mánuður frá því að kröfuhafi hafi sannanlega krafið félagið með réttu um greiðslu. Félagið hafi boðið fram greiðslu að fjárhæð 1.826.537 krónur (höfuðstóll auk vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993) með tölvupósti 12. desember 2010 til stefnanda í samræmi við niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna, en greiðslan hafi ekki verið þegin þar sem stefnandi sé ósáttur við mat þeirra. Upphafstíma dráttarvaxtakröfu sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, sbr. niðurlag 4. mgr. 5. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefndi krefjist aðallega greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins á grundvelli ákvæðis 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Til vara geri stefndi þá kröfu að málskostnaður verði látinn niður falla samkvæmt heimild í ákvæði 3. mgr. sömu greinar. Um lagarök almennt vísist til meginreglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, skaðabótalaga nr. 50/1993, laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, IX. kafla laga nr. 91/1991 og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

IV

Í máli þessu er ekki uppi ágreiningur um málsatvik eða bótaskyldu stefnda. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort leggja skuli álitsgerð örorkunefndar eða matsgerð dómkvaddra matsmanna til grundvallar útreikningi slysabóta stefnanda, vegna afleiðinga vinnuslyss hans 27. ágúst 2006.

Stefnandi byggir kröfu sína um að álitsgerð örorkunefndar verði lögð til grundvallar í málinu á því annars vegar að álit örorkunefndar sé betur unnið og rökstutt en matsgerð dómkvaddra matsmanna og hins vegar á því að annar matsmanna hafi verið vanhæfur, sbr. 59. gr. og 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Rétt þykir að fjalla fyrst um þá staðhæfingu stefnanda að tengsl annars dómkvaddra matsmanna, B bæklunarlæknis, við stefnda séu þess eðlis að þau séu til þess fallin að draga úr trúverðugleika matsvinnu hans og matsgerðarinnar og því verði ekki byggt á matsgerðinni í málinu. Stefnandi kveðst hafa fengið upplýsingar um þetta eftir að matsgerð hafi verið lokið. Í 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur meðal annars fram að þann einn megi kveðja til að framkvæma mat sem er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta. Samkvæmt 59. gr. laganna er afstaða vitnis til aðila máls á meðal þeirra atriða sem geta skipt máli þegar dómari metur sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls. Stefndi hefur alfarið hafnað því að B hafi starfað fyrir félagið í verktöku, við læknisfræðilega ráðgjöf eða á annan hátt, en annar læknir starfi við slíkt fyrir félagið. B hafi hins vegar verið dómkvaddur matsmaður í málum sem félagið hafi átt í, verið fenginn til að meta afleiðingar líkamstjóna utan réttar og gefið út læknisvottorð vegna sjúklinga sem hafi lagt fram bótakröfu á hendur félaginu. Stefndi hefur lagt fyrir dóminn útprentanir úr tölvukerfum sínum um þau mál félagsins sem B hefur komið að. Fyrir dóminum bar B að hann hafi ekki unnið sérstaklega fyrir stefnda, ef eitthvað væri hefði hann unnið minna fyrir hann en fyrir önnur tryggingafélög. Af framlögðum gögnum og framburði fyrir dómi þykir ekki verða ráðið að B bæklunarlæknir hafi unnið við læknisfræðilega ráðgjöf eða nokkur nokkur önnur störf fyrir stefnda sem valdið geti vanhæfi hans, sbr. 3. mgr. 61. gr., sbr. 59. gr., laga nr. 91/1991. Verður þeirri málsástæðu stefnanda því hafnað að ekki verði byggt á matsgerð dómkvaddra matsmanna sökum tengsla annars matsmannsins við stefnda.

Málsaðilar sammæltust um að leita álits örorkunefndar í málinu. Samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 geta tjónþoli og sá sem krafinn er bóta sameiginlega óskað álits örorkunefndar um ákvörðun örorku- og/eða miskastigs. Í nefndinni eiga sæti þrír menn, tveir læknar og einn lögfræðingur, sem skipaðir eru af ráðherra til sex ára í senn. Stefndi sætti sig ekki við niðurstöðu örorkunefndar og óskaði dómkvaðningar tveggja matsmanna. Voru bæklunarlæknarnir B og C dómkvaddir, en ekki er girt fyrir það með lögum að leita megi annarra sönnunargagna um örorku og miska þó leitað sé álits örorkunefndar. Stefnandi telur álitsgerð örorkunefndar gefa réttari og sanngjarnari mynd af tjóni hans, enda sé hún faglega unnin og vel rökstudd og þar sé eðlilegt samhengi og samræmi á milli áverka og niðurstaðna. Aftur á móti skorti á samræmi og rökrétt samhengi í matsgerð dómkvaddra matsmanna og rökstuðningur þeirra sé takmarkaður. Þá telur hann orðalagið „nokkur skerðing“ í matsgerðinni ekki samræmast niðurstöðu um 2% varanlega örorku.

Þar sem í málinu liggja fyrir bæði álitsgerð örorkunefndar og matsgerð dómkvaddra matsmanna verður að skera úr um sönnunargildi þeirra eftir almennum reglum. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur dómari frjálst sönnunarmat á þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. sömu laga leggur dómari mat á sönnunargildi matsgerðar þegar leyst er að öðru leyti úr máli. Ljóst er að bæði álitsgerðin og matsgerðin teljast verulega sterk sönnunargögn um þau atriði sem þær ná til, ef réttra aðferða hefur verið gætt við framkvæmd mats og þær eru ekki sýnilega byggðar á röngum forsendum. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til annars en að faglega hafi verið staðið að bæði álitsgerðinni og matsgerðinni.

Samkvæmt álitsgerð örorkunefndar var þjáningatímabil frá slysdegi í 97 daga, án rúmlegu, og er krafa stefnanda vegna þessa liðar 138.800 krónur. Matsmenn töldu ekki forsendur til að meta þjáningabætur þar sem stefnandi hafi ekki verið óvinnufær eftir slysið. Með hliðsjón af framburði F, hæstaréttarlögmanns og formanns örorkunefndar, fyrir dóminum um breytta framkvæmd að þessu leyti þykir ekki unnt að fallast á þennan lið kröfu stefnanda og verður stefndi því sýknaður af honum.

Niðurstaða örorkunefndar varðandi varanlegan miska stefnanda var sú, að öllum gögnum virtum, að hann væri hæfilega metinn 7 stig. Í niðurstöðu dómkvaddra matsmanna varðandi þennan lið kemur fram að litið sé til þess stefnandi hafi enga fyrri sögu frá stoðkerfi og afleiðingar slyssins séu tognunaráverki og liðþófaröskun á hægra hné. Höfð sé hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar, en einnig bandarískri og danskri miskatöflu. Með hliðsjón af þessu teljist varanlegur miski metinn 5 stig. G, læknir í örorkunefnd, greindi frá því fyrir dóminum að hefðbundið mat á liðþófaröskun væri um 5 stig, en stefnandi hafi fengið rifu á liðpokanum, auk þess sem ekki hafi verið gert við liðþófann og því hafi verið talin ífið meiri hætta á slitbreytingum síðar á ævinni, en ella hefði orðið. Því hafi hann verið metinn 7%. Dómkvaddir matsmenn vísuðu báðir til liðar í miskatöflu örorkumatsnefndar þar sem segi að liðþófarifa með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu sé metin 5%. Matið hafi alfarið byggst á töflunni og skoðun á matsþola. B sagði reynsluna sýna að þegar fullorðið fólk rifi liðþófa væri það yfirleitt komið með slit í hné. Þá sé í töflunni einnig gert ráð fyrir að um hreyfiskerðingu geti verið að ræða, en svo hafi ekki verið hjá stefnanda. Í máli C kom fram að matsmönnum hafi þótt eðlilegt að halda sig við 5 miskastig, þrátt fyrir að stefnandi hafi ekki haft vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu, sérstaklega í ljósi þess að um lækkun frá áliti örorkunefndar hafi verið að ræða. Eitthvað verulegt þyrfti að koma til viðbótar til þess að auka við miskastigin. Ekki hafi verið um slíkt að ræða í tilfelli stefnanda. Þá taldi hann ekki hægt að fullyrða að meiri hætta væri á sliti í tilvikum þar sem ekki væri gerð aðgerð vegna liðþófarifu.

Varanleg örorka stefnanda var metin 10% af örorkunefnd, en 2% af dómkvöddum matsmönnum. Örorkunefnd taldi afleiðingar slyssins myndu draga úr möguleikum stefnanda til að afla sér tekna og megi einkum reikna með því þegar lengra komi fram á starfsævi hans. Þá kom fram að stefnandi hafi haldið áfram vinnu til sjós, en sinni nú öðruvísi störfum en áður, en fram hefur komið í málinu að sú breyting tengist ekki afleiðingum slyss stefnanda. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna kemur fram að sjómannsstörf reyni töluvert líkamlega á fólk og ætla megi að slys stefnanda geti í framtíðinni eitthvað takmarkað vinnugetu hans. Telji þeir að stefnandi hafi orðið fyrir nokkurri skerðingu vegna slyssins. F skýrði frá því fyrir dóminum að örorkunefnd hafi talið, þrátt fyrir að laun stefnanda hafi ekki lækkað, að til lengri tíma litið væru yfirgnæfandi líkur á að hann þyrfti að draga úr störfum sínum og því hafi niðurstaða þeirra orðið sú að varanleg örorka teldist 10%. G greindi frá því að nefndin hafi talið áverkana þess eðlis að reikna megi með að afleiðinga þeirra gæti síðar á lífsleiðinni. Þegar stefnandi hafi unnið sem skipstjóri hafi hann verið tiltölulega einkennalaus, en þegar hann hafi farið að vinna sem 2. stýrimaður hafi hann þurft að fara á dekk og einkenni frá hnénu þá aukist. B gerði grein fyrir því að litið hefði verið til þess að stefnandi hefði ekki verið óvinnufær. Samkvæmt upplýsingum um tekjur hans árin 2007 til 2009 hafi þær aukist verulega. Hann benti á að sjómenn væru oft ekki mikið í vinnu eftir sextugsaldur. Stefnandi hafi ekki haft mikil einkenni, hann hafi ekki þurft að vera frá vinnu og hann hafi ekki orðið fyrir tekjuskerðingu. Með tilliti til starfa stefnanda hafi því verið ákveðið að miða við 2%. C skýrði frá því að fyrst hafi verið litið til miskatölu, sem matsmenn hafi talið í efri kantinum. Þá hafi verið litið til þess hvort tjónið truflaði stefnanda í starfi, en því hafi ekki verið til að dreifa í þessu tilviki. Því næst hafi tekjuþróun verið skoðuð. Í ljós hafi komið að tekjur stefnanda hafi farið verulega hækkandi, jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að fiskverð hafi áhrif á laun sjómanna. Það hafi því verið erfitt að sjá að miskinn dragi úr getu til að afla tekna. Erfitt hafi verið að sjá að skaðinn væri líklegur til að hafa áhrif á getu til að afla tekna þegar fram í sæki, en þó hafi matsmönnum fundist rétt, í ljósi starfa stefnanda, að það væri eitthvað, en þó lægra en fimm, sérstaklega í ljósi varanlegs miska. Orðalagið nokkur skerðing sé almenns eðlis og matsmenn hafi talið það leyfa að setja einhverja tölu á örorkuna.

Í ljósi framangreindra framburða fyrir dómi og rökstuðnings í matsgerð og álitsgerð örorkunefndar verður ekki fallist á að skorti á rökstuðning eða samræmi í matsgerð dómkvaddra matsmanna, þannig að hún verði ekki lögð til grundvallar í málinu, eins og stefnandi reisir kröfur sínar á. Orðalag í matsgerð um „nokkra skerðingu“ er almennt og verður að skoða í ljósi þess sem fyrr greinir um að ætla megi að slysið geti í framtíðinni eitthvað takmarkað vinnugetu stefnanda. Verður því ekki fullyrt að það sé í ósamræmi við niðurstöðu matsmanna um 2% varanlega örorku. Við aðalmeðferð málsins hélt lögmaður stefnanda því fram að stefnandi hefði orðið fyrir tekjutapi vegna fækkunar daga á sjó, svo sem sjá megi á yfirliti um lögskráða daga hans á sjó. Stefnandi upplýsti hins vegar fyrir dóminum að dregið hefði úr sjósókn vegna stuttrar loðnuvertíðar árin 2010 og 2011. Þykir því ekki ljóst að dögum stefnanda á sjó hafi fækkað vegna slyssins og leiðir það því heldur ekki til þess að ekki verði á matsgerðinni byggt. Þykir ekkert hafa komið fram sem rýrt geti sönnunargildi matsgerðarinnar. Þá hefur henni ekki verið hnekkt með yfirmati eða á annan hátt. Í ljósi alls þess sem að framan er rakið verður matsgerðin lögð til grundvallar niðurstöðu um afleiðingar slyss stefnanda og bótaskyldu stefnda. Verður krafa stefnda um að honum verði gert að greiða stefnanda 1.826.537 krónur, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 9. desember 2010, því tekin til greina, en rétt þykir að fjárhæðin beri dráttarvexti frá dómsuppsögu.

Rétt þykir, eins og atvikum málsins er háttað, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, 1.826.537 krónur, ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 9. desember 2010 til 22. júní 2012, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.