Hæstiréttur íslands

Mál nr. 495/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Ákæra
  • Verjandi
  • Aðalmeðferð
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 27. febrúar 2014.

Nr. 495/2013.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Jóni Fannari Hafsteinssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Árni Pálsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Ákæra. Verjandi. Aðalmeðferð. Frávísunarkröfu hafnað. Ómerkingu héraðsdóms hafnað. Skaðabætur.

J var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því m.a. að hafa berað á sér kynfærin og fróað sér í návist A, sem þá var 15 ára, viðhaft við hana kynferðislegt og ósiðlegt tal, reynt að taka af henni sæng og káfað á henni og við það notfært sér yfirburðastöðu sína vegna aldurs- og aflsmunar og reynsluleysis A auk þess sem hún var ein með honum í herbergi og fjarri heimili sínu. Var háttsemi J talin varða við 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var refsing J ákveðin fangelsi í 12 mánuði auk þess sem honum var gert að greiða A 800.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru „fyrir brot sem vísað er til í aðalheimfærslu til laga en til vara ... fyrir brot sem vísað er til í varaheimfærslu til laga.“ Þá er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og  einkaréttarkrafa lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna kröfu ákærða um að vísa málinu frá héraðsdómi.

Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er á því reist að málsvörn hans hafi orðið „verulega áfátt og málsmeðferðin í andstöðu við lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 og grundvallarreglur í sakamálaréttarfari.“ Í fyrsta lagi hafi ákærði og skipaður verjandi hans í héraði átt rétt á að vera viðstaddir skýrslutöku af brotaþola og móður hennar fyrir dómi 18. júní 2013, en ekki hafi nægt að verjandinn hafi falið öðrum lögmanni að vera viðstaddur skýrslutökurnar. Í annan stað hafi það farið í bága við 5. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 að taka skýrslur af vitnunum þennan dag, enda hafi þess ekki verið getið í þingbók að þau hefðu lögmæt forföll og því eftir atvikum hægt að haga henni með þarfir þeirra í huga. Aðalmeðferð málsins átti að hefjast að morgni 18. júní 2013. Af tölvubréfum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt verður ráðið að sama morgun hafi verjandi ákærða tilkynnt dómsformanni forföll vegna veikinda sinna skömmu áður en aðalmeðferðin átti að hefjast. Jafnframt hafi verjandinn tilkynnt að ákærði myndi ekki gefa skýrslu nema að sér viðstöddum. Í þinghaldi 18. júní var fært til bókar að þar sem brotaþoli og móðir hennar væru komnar frá [...] myndi það hafa verulegt óhagræði í för með sér fyrir þær ef skýrslutökum af þeim yrði frestað, sbr. 5. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008. Fóru skýrslutökurnar því fram og var nafngreindur lögmaður mættur fyrir hönd verjandans að tilhlutan hans. Að þeim loknum var aðalmeðferð frestað og fór hún fram 24. sama mánaðar. Hvorki þá né síðar gerði þáverandi verjandi athugasemdir við þessa málsmeðferð.

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. laga nr. 88/2008 er verjanda heimilt að láta fulltrúa sinn eða annan lögmann vera viðstaddan skýrslutöku, svo og að sækja þinghöld fyrir sig meðan á meðferð máls stendur. Er því ekki fallist á með ákærða að vörn hans hafi orðið áfátt af þeim sökum að verjandinn hafi ekki verið viðstaddur umræddar skýrslutökur. Áðurgreind tvö vitni voru komin um langan veg til skýrslugjafar er í ljós kom að aðalmeðferð gæti ekki hafist í málinu vegna lögmætra forfalla verjanda ákærða. Skýrslur voru þá teknar af vitnunum með fullu samþykki verjanda og að viðstöddum fulltrúa hans, en fyrir liggur að ákærða gafst einnig kostur á að vera við þinghaldið, sem hann kaus að nýta sér ekki. Samkvæmt þessu er ekki fallist á með ákærða að vörn hans hafi verið áfátt vegna ofangreindra atriða.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og ferðakostnað réttargæslumannsins, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Jón Fannar Hafsteinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 643.418 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur, og útlagðan kostnað hans, 41.360 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2013.

I

Málið, sem dómtekið var 24. júní síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 8. mars 2013 á hendur „Jóni Fannari Hafsteinssyni, kennitala [...], [...], [...], aðallega fyrir nauðgun og brot gegn barnaverndarlögum, til vara fyrir kynferðislega áreitni, brot gegn blygðunarsemi, ólögmæta nauðung og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa að morgni sunnu­dagsins 30. september 2012, að [...], [...], [...], með ofbeldi og annarri ólögmætri nauðung neytt stúlkuna A, fædda [...], sem þá var 15 ára, til að þola önnur kynferðismök, kyn­ferðislega áreitni og lostafengna og ósiðlega háttsemi, sem var til þess fallin að særa blygðunarkennd stúlkunnar, með því að bera á sér kyn­færin og fróa sér ítrekað fyrir framan og upp við hana, þar af í eitt skipti með því að leggja kynfærin þétt upp að andliti hennar á meðan hann fróaði sér eftir að hafa nálgast hana og leitast við að káfa á líkama hennar á meðan hún lá sofandi í rúmi, þar af í eitt skipti með því að grípa fast um hárið á aftan­verðu höfði hennar og halda því föstu á meðan hann fróaði sér og otaði á sama tíma kyn­færunum að andliti hennar, þar af í eitt skipti með því að færa sig þétt upp að stúlkunni er hún hörfaði frá honum og halda utan um hana og taka sér síðan upprétta líkamsstöðu yfir stúlkunni á meðan hann fróaði sér af meiri ákafa og viðhafa auk þess um­mæli um að ætla að hafa sáðlát yfir hana, hunsa beiðnir hennar um að láta hana í friði og rífa jafnframt af henni ábreiðu sem hún hafði sett yfir sig til að skýla sér og tosa einnig í höndina á henni til að þvinga hana til að vera áfram fyrir neðan hann er hún leitaðist við að standa upp, og að hafa auk þess á meðan og milli þess er hann fróaði sér ítrekað leitast við að toga ábreiðu af stúlkunni, sem var á tímabili nakin að ofan, káfa á líkama hennar og leitast við að snerta klof hennar og rass innan klæða með annarri hend­inni, og að hafa enn fremur á meðan og milli þess að hann fróaði sér viðhaft kynferðis­legt, lostafullt og ósið­legt tal við stúlkuna, meðal annars um að hann vildi fá kyn­ferðis­lega fullnægingu með henni, að hún væri falleg, að hún ætti að snerta á honum kynfærin, að hún ætti að horfa á hann á meðan hann fróaði sér, að hún ætti að draga niður ábreiðu svo hann sæi hana nakta, að hún ætti að þóknast honum kynferðislega svo hann léti hana í friði og spyrja hana auk þess spurninga um eigin kynhegðun, þar á meðal hvort hún hafi verið með mörgum mönnum, hvort hún hafi kyngt sæði, hvort hún hafi haft endaþarmsmök, allt með því að notfæra sér yfir­burða stöðu sína gagnvart henni vegna aldurs- og afls­munar og reynslu­leysis hennar og það að hún var ein og óttaslegin með honum í herbergi, sem var um tímabil haft lokað, og fjarri heimili sínu.

Telst þetta aðallega varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en til vara við 199., 209. og 225. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992 og 8. gr. laga nr. 61/2007, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndar­laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Þess er krafist að ákærði greiði B, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar A, kt. [...], [...], [...], kr. 1.000.000 í miska­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 30. september 2012 og þar til mánuður er liðinn frá birtingar­degi bótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðslu­dags. Þá er krafist þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati réttarins eða sam­kvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðis­auka­skatts.“

Ákærði játar sök að hluta til eins og rakið verður hér á eftir. Hann krefst vægustu refsingar. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakrafan verði lækkuð.

II

Upphaf málsins er það að móðir brotaþola tilkynnti félagsmálastjóra í heimabyggð þeirra 1. október 2012 að brotaþoli hefði orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða á þeim stað og þeirri stund sem í ákæru getur. Félagsmálastjórinn hafði tal af brotaþola og ritaði greinargerð um samtalið. Tekið skal fram að við aðalmeðferð kom fram að móðir brotaþola var viðstödd viðtalið. Í greinargerðinni hefur félagsmálastjórinn eftir brotaþola að hún hafi vaknað um klukkan 7 nefndan morgun við það að ákærði hafi verið að fá sér að borða í eldhúsinu. Brotaþoli var í heimsókn hjá föður sínum, sem leigði þriggja herbergja íbúð með ákærða og öðrum manni. Höfðu þeir sameiginlega stofu og eldhús og þar svaf brotaþoli, en faðir hennar og bróðir í einu herbergjanna. Haft er eftir brotaþola að hún hafi, eftir að hafa vaknað við komu ákærða, snúið sér á hina hliðina og haldið áfram að sofa. Síðan segir: „Hún vaknar aftur við það að hann er að taka af henni sængina, hún snýr sér við og sér þá að hann er runka sér yfir henni. Hún segir við hann „gaur, láttu mig í friði“ –hann spyr þá hvort hann megi fá það hjá henni, hún verður eitthvað vandræðaleg og svarar honum ekki, hann fer þá fram og læsir hurðinni, hann heldur áfram að runka sér fyrir framan hana og segir henni að horfa á, rífur í hárið á henni svo hún horfi. Hann biður hana að snert á sér punginn á meðan hann runki sér, allavega að hún horfi, það sé „turn on“ fyrir hann.“ Þá kom fram hjá brotaþola að hún hafi vafið sænginni utan um sig og auk þess tekið teppi og sett yfir sig en ákærði hafi rifið það af henni. Hún hafi verið ber að ofan en í náttfötum að öðru leyti. Ákærði hafi nokkrum sinnum reynt að snerta brjóst hennar með því að ýta sænginni niður og í eitt skipti hafi hún slegið hann utan undir. Á þessu gekk um stund og er haft eftir brotaþola að ákærði hafi sagst vilja að hún gerði eitthvað fyrir hann og hann „vildi fá það við hlið hennar“. Ákærði hefði nú farið inn í herbergi sitt og hefði brotaþoli þá klætt sig. Hann hefði komið aftur og þá spurt hana hvort hún hefði stundað kynlíf og eins hvort hún drykki sæði. Aftur hefði ákærði farið, en þegar hann hefði komið í þriðja sinn hefði brotaþoli sagt honum að drulla sér í burtu.“

Lögreglan tók skýrslu af brotaþola 4. október. Eftir að brotaþoli hafði gert grein fyrir dvöl sinni hjá föður sínum kvaðst hún hafa rumskað á sunnudagsmorgninum við það að ákærði var að fá sér að borða í eldhúsinu og kvaðst ekkert hafa athugað það frekar. Síðan segir: „Og svo vakna ég við að einhver er að reyna að taka svona sængina af mér, þú veist einhvern veginn þannig, snerta á mér bakið og eitthvað. Og ég er ekkert vöknuð og ég þú veist sný mér við og reyni að tékka hvað þetta er og þá er þessi maður að runka sér í andlitið á mér. Þá er ég bara með tippið á honum í andlitinu á mér, sko bara í kinninni, og mér bregður ógeðslega mikið og fer bara alveg að segja honum að láta mig í friði. Þá sest hann hjá mér og stoppar ekkert það sem hann er að gera og hann segir bara, ekki segja pabba þínum þetta, og þú veist byrjar bara að svona hvað ég er falleg og eitthvað. Og svo segi ég bara þú veist við hann, af hverju ferðu ekki með einhverjum jafnöldrum þínum og hefurðu einhverja hugmynd um hvað ég er gömul. Hann segir bara já ég veit það alveg og bara ég vil fá þig þegar ég, í þessu partíi voru þrjár konur sem báðu mig um að koma með sér heim, en ég fór bara einn heim og sá þig sofa hérna og ég ákvað bara að vilja fá það hjá þér.“ Síðan lýsti brotaþoli hvernig hún hefði ítrekað beðið ákærða um að fara og láta sig í friði, en hann hafi stöðugt verið að biðja hana um að fá það hjá henni. Eins hefði hann reynt að færa sængina niður um hana, en hún hefði haldið henni utan um sig, enda verið nakin að ofan. Þessu næst hefði ákærði farið og læst hurðinni út úr íbúðinni en sest síðan hjá sér og sagt að brotaþoli þyrfti ekki að gera neitt en hún yrði að horfa á hann. Brotaþoli kvaðst ekki hafa vitað hvað hún ætti að segja en samt sagt að hún skyldi horfa á hann. Síðan segir hún orðrétt: „Og hann gerir eitthvað og svo er hann alltaf að segja mér, snertu á mér punginn eða snertu mig hér eða þarna eða alls staðar eða eitthvað og settu sængina niður og eitthvað. Ég segi honum bara að láta mig í friði, ég vilji þetta ekkert. Þetta er það eina sem ég skal gera fyrir hann ef ég þarf að gera eitthvað fyrir hann. Og þá tekur hann svona aftan í hárið á mér, ég er ekki með teygju, bara rífur í hárið á mér meðan hann er að þessu, og þú veist, þetta er ógeðslega vont sko. Og hann segir að þetta sé svona „turn on“ og þetta sé svona „kinky“ eitthvað, ég læri ekkert um kynlíf ef ég þú veist hérna fatta þetta ekki. Og svo byrjar hann bara að spyrja mig fullt af spurningum bara um mitt kynlíf og hvað ég er búin að gera kynferðislegt og svona ógeðslegar spurningar sko. Og ég er alltaf, af því ég er bara í fríi svo ég veit ekkert hvað ég á að segja og ég þori ekkert að segja bara nei við hann af því ég var svo hrædd um að hann myndi nauðga mér á þessu tímabili sko. Og hann var alltaf að segja að hann myndi ekkert gera það og eitthvað svona. Hann væri svo góður maður, og þá spurði ég hann bara, af hverju ertu þá að runka þér yfir dóttur besta vinar þíns, af því að hann og pabbi voru bestu vinir. Og hann segir bara sko, ég er fullur og mig langar bara að fá það hjá þér, þú veist. Og ég segi bara við hann, ég er 15 ára stelpa og þú vilt fá það hjá mér, af hverju ferðu ekki til jafnaldra þinna? Hann er ekkert að hlusta á það og reynir bara að halda áfram og þú veist ég fer svona í einhverja smávörn og fer bara alveg út í horn þú veist, við skáp bara alveg í hornið.“

Eftir að brotaþoli var komin út í horn í rúminu kvað hún ákærða hafa sest á það og tekið utan um sig, en hún hafi sagt honum að láta sig í friði. Hann hefði þá staðið upp í rúminu og byrjað að runka „sér hraðar og þá er hann að hóta að hann ætlaði að koma yfir mig, þú veist eða fá það yfir mig. Og ég bið hann bara að fara og set svona teppi líka svona yfir mig. Þá rífur hann það burtu og heldur áfram og þá stend ég svona upp svona hér og þá tosar hann í hendina mína og þá sest ég niður aftur. Og ég byrja þú veist að tárast af því þetta var svo ógeðslegt og þá segir hann bara, leyfðu mér að fá það yfir brjóstin á þér, leyfðu mér að sjá brjóstin á þér og ég segi bara nei. Og fer bara eins og ég ætli að fara aftur að sofa, þú veist sný mér að veggnum eins og ég ætli að fara aftur að sofa. Þá reynir hann að fara með hendina á rassinn á mér og reynir að fara með hana fyrir framan og þú veist segir eitthvað, ég man ekki alveg hvað hann sagði. Og svo sagði ég við hann bara, ég er að fara að kæra þig gaur, og þá segir hann þú veist, ef þú ætlar að kæra mig þá verð ég náttúrulega að fá eitthvað út úr þessu. Og þú veist svo er hann bara eitthvað, ég man ekki alveg hvernig það var, við vorum alla vega eitthvað að tala um þetta að láta mig í friði. Og þá fór hann inn í herbergið sitt og hérna ég bara notaði tækifærið og þú veist fór í bolinn minn og bara fór í öll fötin mín sko, af því það var ekki nótt því það voru alla vega tveir tímar þangað til ég átti að mæta í rútu sko svo ég ætlaði að vera bara tilbúin. Svo kemur hann aftur og þú veist, gerir svona, og segir plís má ég fá það, þú veist, með mér. Og ég segi bara nei, farðu, þá er hann eitthvað meira að tuða um það, segir bara eitthvað, mér finnst þú bara svo ógeðslega falleg stelpa og bara að hann vilji fá það hjá mér og þetta var ógeðslegt sko.“

Brotaþoli kvaðst nú hafa sagt ákærða að fara og hefði hann gert það en komið aftur og þá farið að spyrja sig kynferðislegra spurninga eins og hversu mörgum hún væri búin að sofa hjá og hvort hún gleypti sæði. Einnig hvort hún hefði verið tekin í rass og hvort hún hefði verið bundin. Brotaþoli kvaðst hafa sagt ákærða að fara og á endanum hefði hann farið. Hún hefði hins vegar ekki þorað að segja föður sínum frá þessu af ótta við að hann myndi skjóta ákærða.

Það kom og fram hjá brotaþola að ákærði hefði stöðugt verið að reyna að draga sængina niður um hana og í eitt skipti þegar hún hafi verið að færa sig hafi honum tekist að fara með hendina niður á brjóstasvæðið. Hann hefði líka reynt að snerta á henni rassinn og klofsvæðið en ekki tekist að fara alveg niður. Hann hefði farið inn fyrir buxurnar hennar en hún hefði tekið í höndina á honum. Þá kvað hún ákærða hafa verið að runka sér allan tímann meðan á þessu stóð. Hún kvað lim hans hafa verið linan og þegar hún benti honum á það hefði hann sagt að ef hún snerti hann myndi hann „bomba“ upp. Þá kvað hún ákærða ekki hafa fengið sáðlát meðan á þessu stóð.

Þennan sama morgun hélt brotaþoli heim á leið með áætlunarbíl. Móðir hennar sótti hana og kvaðst hún hafa sagt henni frá þessu. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög stressuð yfir þessu, hún hafi byrjað að ofanda og henni hefði verið kalt. Þá kvaðst hún hafa verið mjög hrædd um að ákærði myndi nauðga henni meðan á þessu stóð. Hún hefði verið stjörf og þess vegna ekki kallað á föður sinn.

Lögreglan yfirheyrði móður brotaþola þennan sama dag. Hún kvað hana hafa sagt sér skömmu eftir að hún hafði sótt hana að um morguninn hefði hún vaknað við það að ákærði hefði verið með typpið á sér við andlitið á henni og hafi verið að runka sér. „Þegar hún áttaði sig á hvað var að gerast hafi hún sest upp í rúminu og haldið sænginni upp að sér og hann hafi haldið áfram og hafi verið með perraskap, að hann yrði að fá það, hún væri falleg og hvort það sé ekki í lagi að hann fái það. Hún hafi frosið og sagt honum að fara en hann hafi ekki gert það. Hann hafi spurt hana út í hennar kynlíf, hvort hún hafi kyngt sæði og alls konar þess háttar spurningar.“ Ákærði hefði síðan farið, en komið aftur og haldið áfram að runka sér. Hann hefði svo farið aftur og þá hefði brotaþoli getað klætt sig. Hann hefði síðan komið enn á ný og haldið áfram uppteknum hætti að runka sér og tala við hana á kynferðislegum nótum. Þá hefði hann reynt að taka utan um hana og taka af henni sængina meðan á þessu stóð. Móðirin hafði það og eftir brotaþola að ákærði hefði ekki fengið sáðlát.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 3. október. Hann kvaðst hafa komið heim umræddan morgun og verið drukkinn. Hann hefði fengið sér að borða og þá tekið eftir brotaþola. Hann kvaðst hafa tekið í sængina hennar og við það hafi hún vaknað og orðið reið. Við það hefði hann séð að sér og beðist afsökunar. Þau hefðu síðan ræðst við og hún sagt sér ýmislegt frá sínu lífi. Hann hefði síðan farið inn til sín að sofa en komið tvisvar fram til að biðjast afsökunar. Hann kannaðist við að hafa fróað sér fyrir ofan brotaþola en hann hefði hætt því þegar hún hefði vaknað og sagt sér hvað hún væri gömul. Þá hefði hann séð að sér og hætt en þau farið að ræða saman. Hann neitaði að hafa verið að fróa sér í öll skiptin sem hann kom fram til stúlkunnar. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi sagst ætla að fá sáðlát yfir brotaþola. Hann kannaðist við að hafa reynt að taka sængina af brotaþola einu sinni og við það hefði hann káfað á brjóstum hennar. Hann tók þó fram að hann hefði ekki náð af henni sænginni og káfið verið tengt því að ná henni. Ákærði neitaði alfarið að hafa beðið brotaþola um að snerta sig. Nú var rakið fyrir ákærða það sem félagsmálastjórinn ritaði eftir brotaþola í greinargerð. Ákærði neitaði að hafa rifið í hár brotaþola og kvaðst ekki hafa reynt að taka sængina aftur af henni. Þá kvaðst hann heldur ekki muna eftir að hafa sagt henni að horfa á eitthvað. Hann kvað ýmislegt af því sem brotaþoli hafði skýrt frá samrýmast því er hún hafði sagt honum um kynferðisbrot er hún hafði orðið fyrir. Ákærði var spurður hví hann hefði gert þetta og svaraði: „Ég held ég hafi bara komið heim og verið graður og ekki áttað mig á alvarleika málsins. Ég var nýkominn úr partýi þar sem var töluverð ölvun í gangi og verið í ákveðnum leik þar. Síðan fór ég heim og það hefur bara setið í mér.“

Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 14. desember og var þá borinn undir hann framburður brotaþola hjá lögreglu sem rakinn var hér að framan. Fyrst var borinn undir ákærða framburður brotaþola um að hún hefði vaknað við að hann hefði verið að runka sér í andlitið á henni og verið með typpið í kinninni. Þegar hún vaknaði hefði hann sest hjá henni, haldið áfram því sem hann var að gera og sagt við hana að hún ætti ekki að segja föður sínum frá þessu. Ákærði kvaðst muna eftir fyrri hlutanum en hann hefði ekki sagt þetta við brotaþola. Þá kvaðst hann heldur ekki hafa farið svona nálægt henni. Þá kvaðst hann muna eftir að hafa sagt við hana að hann vildi fá það, en ekki á þann hátt sem brotaþoli lýsti, það er að fá það yfir hana. Ákærði neitaði að hafa rifið í hár brotaþola og að hafa káfað á henni innanklæða eða utan. Hann kvaðst hins vegar hafa reynt að draga af henni sængina, en það hefði ekki tekist. Þá kannaðist hann við að hafa rætt við brotaþola á kynferðislegum nótum en ekki á þann hátt er brotaþoli hafði lýst. Hún hefði lýst fyrir sér hlutum er hún og kærasti hennar hefðu gert en hann hefði ekki spurt hana þeirra spurninga sem hún heldur fram að hann hafi gert. Þá kvað hann þau hafa spjallað lengi saman og hún verið alveg róleg, en samt kvaðst hann ekki geta ímyndað sér annað en að stúlkunni hefði liðið illa.

Skömmu eftir að brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu leitaði hún aðstoðar sálfræðings Barnahúss. Í vottorði hans segir að brotaþoli beri ýmis einkenni þess að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og viðbrögð hennar séu dæmigerð fyrir viðbrögð fólks sem hefur orðið fyrir slíku ofbeldi. Brotaþoli hafi hins vegar nýtt sér vel þá aðstoð sem í boði væri auk þess sem hún sé viljasterk og dugleg við að takast á við afleiðingarnar. Í vottorðinu kemur fram að sálfræðingurinn hafi fulla trú á að henni takist að vinna úr afleiðingum meints brots, en hafa beri í huga að alþekkt sé að síðar á lífsleiðinni geti komið bakslag hjá þolendum kynferðisbrota.

Þá hafa verið lögð fram gögn um að ákærði hafi sótt áfengismeðferð eftir að mál þetta kom upp. Eins gekk hann til sálfræðings og hafi markmiðið verið að vinna með kynferðislega, persónulega og félagslega þætti sem tengjast ætluðu broti í því skyni að koma í veg fyrir að eitthvað slíkt endurtaki sig. Þá hafi markmiðið og verið að ákærði byggði upp lífsvenjur sem styðji hann í heilbrigðu lífi og hann átti sig á áhættuþáttum í lífi sínu. Í vottorði sálfræðingsins segir að of snemmt sé að segja til um árangur en ákærði sé viljugur til að taka á vanda sínum.

III

Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði komið heim umræddan morgun og verið mjög drukkinn eftir langa drykkju. Hann hefði farið inn í eldhús og fengið sér að borða. Þá kvaðst hann hafa séð brotaþola þar sem hún lá og í einhverju stundarbrjálæði hafi hann tekið niður um sig og farið að fitla við sjálfan sig. Hann kvaðst einu sinni hafa tekið í sængina hjá brotaþola sem hafi vaknað við það og hvesst sig og sagt hver hún væri og hversu gömul. Þá hefði hún einnig sagt sér að að hún hefði alls 7 sinnum áður orðið fyrir kynferðisofbeldi. Við þetta hefði kviknað ljós hjá sér, eins og hann orðaði það, og hefðu þau í framhaldinu farið að ræða saman. Hann kvaðst hafa farið út en komið aftur og beðist afsökunar. Enn á ný kvaðst hann hafa farið út og komið aftur og beðist afsökunar og farið svo að sofa í framhaldinu.

Nánar spurður um ákæruefnið kvaðst ákærði hafa berað á sér kynfærin fyrir framan brotaþola og fróað sér fyrir framan hana. Hann kvað það hafa staðið yfir í nokkrar mínútur þar til hann hafi áttað sig á hvað hann hafi verið að gera. Hann kvaðst hafa staðið við sófann, er brotaþoli svaf á, og verið að borða. Hann hefði lagt frá sér matinn og tekið niður um sig buxurnar en hann hefði ekki farið alveg að henni. Brotaþoli hefði snúið út í horn með andlitið frá sér og verið sofandi. Þegar hún vaknaði hefði hann staðið við hliðina á sófanum og verið að fróa sér en hann hefði ekki snert hana með kynfærunum og ekki verið alveg ofan í henni með þau. Fjarlægðin frá brotaþola hafi verið um 50-60 sentimetrar. Hann kvaðst aldrei hafa káfað á brotaþola eða reynt að koma við hana, eina snertingin hefði verið þegar hann reyndi einu sinni að taka af henni sængina og hefði það verið í upphafi. Þá hefði hann ekki tekið um hár brotaþola og ekki staðið yfir henni meðan hann hafi verið að fróa sér. Hann kvaðst fyrst hafa staðið með buxurnar niður um sig en þegar hann hafði áttað sig hefði hann hysjað þær upp um sig og farið fram en komið svo inn aftur og þá hefði brotaþoli setið uppi með teppi vafið utan um sig. Hann hefði þá sest á sófann og þau farið að ræða saman eins og áður var lýst þegar rakinn var framburður ákærða hjá lögreglu.

Framburður brotaþola varðandi upphafið var borinn undir ákærða og þar með framangreindur framburður hans hjá lögreglu. Hann kvaðst ekki hafa játað þarna að limur hans hefði snert brotaþola heldur hefði hann átt við að hún hefði vaknað eins og hún hefði lýst. Þá kvað hann að upphaf samskipta þeirra hafi staðið í nokkrar mínútur en eftir að hann hefði komið inn aftur hefðu þau ræðst við í 15 til 20 mínútur. Þá viðurkenndi ákærði að hafa sagt við brotaþola að hann langaði til að fá það þar sem hann var, en ekki átt við að hann vildi hafa kynmök við hana. Ákærði viðurkenndi einnig að hún hefði beðið hann um að láta sig í friði og hefði hann orðið við því þegar hún hafði sagt honum frá kynferðisofbeldinu sem hún hefði orðið fyrir og áður getur. Meðan á þessu stóð hafði brotaþoli vafið teppi utan um sig og hefði hann reynt að toga í það en hann hefði ekki togað í hönd brotaþola. Ákærði ítrekaði að hann hefði ekki káfað á brotaþola. Einnig að lýsingar brotaþola á kynferðislegu tali þeirra ættu ekki við rök að styðjast þótt þau hefðu rætt slík mál. Í viðræðum þeirra hefði brotaþoli sagt að hún ætti kærasta sem hún stundaði kynlíf með og gerði ýmsa hluti eins og að hún kyngdi sæði, en endaþarmsmök hefðu ekki borist í tal. Ákærði kvað brotaþola alveg eins og hann hafa átt frumkvæði að kynferðislegu tali og að nefna þar ýmsa hluti sem hann kvaðst ekki muna nákvæmlega að greina frá. Hann kvaðst ekki hafa beðið hana um að snerta sig en taldi sig hafa beðið hana um að horfa á sig meðan hann fróaði sér. Ákærði kvaðst hafa vitað að brotaþoli hefði verið 15-16 ára. Þá bar hann að limur sinn hefði verið linur allan tímann.

Brotaþoli bar að hafa verið í heimsókn hjá föður sínum og gist hjá honum í íbúð sem hann hafði með ákærða og öðrum manni til. Hún kvaðst hafa sofið í sameiginlegu rými við eldhúsið. Brotaþoli kvaðst hafa rumskað við það á sunnudagsmorgninum að einhver var í eldhúsinu en skömmu síðar hefði hún vaknað við að einhver var að toga af henni sængina. Þegar hún leit við hefði hún séð ákærða vera að runka sér í andlitið á henni. Hún kvaðst hafa spurt hann hvern andskotann hann væri að gera og hefði hann þá sest hjá henni og haldið áfram því sem hann hafi verið að gera og sagt að hann vildi fá það hjá henni. Hún kvaðst hafa sagt honum að láta sig í friði og sagt honum að þetta ætti hann alls ekki að gera. Eins hefði hún spurt hann hvort hann vissi hvað hún væri gömul. Hann hefði svarað því til að hann vissi hvað hún væri gömul og hvað hann væri að gera. Eins hefði hann sagt að hann hefði verið í partíi þar sem þrjár konur hefðu viljað vera með honum en hann hefði ekki viljað þær heldur viljað fá það hjá henni. Síðan hefði hann farið að spyrja hana kynferðislegra spurninga eins og hvort hún hefði sofið hjá og hvort hún hefði haft endaþarmsmök, hvort hún gleypi sæði og í hvernig stellingum hana langi að vera í í kynlífi. Brotaþoli kvað sér hafa fundist þetta ógeðslegt og reynt að svara honum ekki en tekið teppi og vafið um sig. Ákærði hefði þá reynt að káfa á brjóstum hennar og hún þá aftur spurt hann hvað hann væri að gera. Í því hefði ákærði staðið upp og lokað hurð. Hann hefði síðan sest aftur hjá henni og haldið áfram að runka sig. Brotaþoli kvaðst hafa sest upp í rúminu og reynt að vera sem lengst frá ákærða enda hafi hún frosið og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Ákærði hefði alltaf reynt að fara inn á hana en hún hefði snúið sér við og þá hefði ákærði reynt að rífa af henni sængina og reynt að fara inn á rassinn á henni. Við þetta kvaðst hún hafa ýtt í öxlina á ákærða og sagt honum að hún myndi kæra hann. Hann hefði þá svarað að ef hann ætlaði að kæra hana þá ætlaði hann alla vega að fá eitthvað út úr þessu. Ákærði hefði einnig beðið hana að horfa á sig og hefði hún svarað að ef það væri það minnsta sem hún gæti gert þá skyldi hún gera það en samt sett sængina upp fyrir haus enda hefði sig ekki langað sjá hvað hann væri að gera. Hann hefði reynt að taka af henni sængina og þá hefði hún lokað augunum en hann sagt henni að opna þau enda hefðu þau gert með sér samning, en ekki kvaðst hún hafa skilið hvað hann hefði átt við með því. Nú kvaðst brotaþoli hafa sagt honum að hún hefði lent í þessu áður og þá hefði hann hætt og spurt hana hvað það væri, en þegar hún vildi ekki svara því hefði ákærði eins og skammast sín og hysjað upp um sig buxurnar. Ákærði hefði svo farið inn í herbergi sitt og þá kvaðst hún hafa notað tækifærið og klætt sig og tekið tölvuna sína í fangið. Hann hefði nú komið og beðið hana að segja sér hvað komið hefði fyrir hana og þá hefði hún sagt honum frá atviki sem hefði hent hana þegar hún var lítil. Við þetta hefði hann farið inn í herbergi sitt, en komið svo aftur og þá beðist afsökunar og beðið hana að segja ekki föður sínum frá þessu. Hún kvaðst hafa jánkað þessu enda verið hrædd um að hann myndi nauðga sér. Ákærði hefði nú farið aftur inn í herbergi sitt en hún hefði farið í tölvuna sína.

Nánar spurð um atvik kvað brotaþoli ákærða hafa verið dauðadrukkinn og ekkert vitað hvað hann var að gera. Hann hefði verið þvoglumæltur en þó viðræðuhæfur. Þegar hún vaknaði hefði ákærði verið að taka af henni sængina og limur hans verið við kinn hennar. Þá kvað hún ákærða hafa haldið sér niðri og viljað fá það yfir brjóst hennar og líkama og eins hefði hann rifið í hár hennar að aftan og haldið henni í smátíma. Hún kvað hann hafa haldið áfram að fróa sér allan tímann, en hún kvað þetta hafa staðið yfir í um hálftíma, allt þar til hún sagði honum frá því að hún hefði áður orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þá kvað hún hann hafa viljað að hún sæi hann fróa sér enda taldi hann sig vera „rosasexí“. Brotaþoli kvaðst oft hafa reynt að ýta ákærða frá sér og eins að fara í hornið á rúminu og þá hefði ákærði sagt að hann vildi fá það hjá henni og hún ætti að vera róleg. Eins hefði hann reynt að láta hana runka sér og þá tekið um hönd hennar en hún hefði ekki viljað það og þá hefði hún þurft að vera hjá pungnum á honum með höndina. Þetta hefði ekki staðið lengi yfir og hefði henni tekist að hrifsa höndina að sér. Hún kvað ákærða hafa verið hvað ákafastan þegar hann hefði ætlað að fá það yfir brjóstin á sér og þá fróað sér hraðast. Þá hefði hann staðið með hönd á vegg og verið yfir henni, en hún verið inni í horni rúmsins og haldið sænginni upp að hökunni.

Meðan á þessu stóð hefði hún oft beðið ákærða um að hætta en hann ekki sinnt því. Þá kvað hún ákærða hafa reynt að fara inn á hana undir nærbuxurnar að framan og tekist það. Hún kvaðst hafa brjálast og ýtt í öxlina á honum. Hann hefði bakkað við þetta en svo komið aftur og haldið áfram. Brotaþoli ítrekaði að hún hefði ekki samþykkt neitt af því sem ákærði gerði og ekki gefið neitt slíkt í skyn. Hún ítrekaði að ákærði hefði allan tímann reynt að káfa á sér með annarri hendinni en hina hafi hann notað til að runka sig. Þá kvað hún tal ákærða allan tímann hafa verið kynferðislegt og hann verið að spyrja hana um hluti eins og hvort „gaur hefði fengið það upp í hana“, ertu fyrir endaþarmsmök, hvernig stelling finnst þér best, hefur einhver fengið það yfir rassinn á þér eða brjóstin og allt í þessum dúr. Þá hefði hann oft sagt að hún væri falleg. Allt þetta hefði henni fundist viðbjóðslegt. Hún hefði verið mjög hrædd og getað kallað á föður sinn en ekki þorað það vegna hræðslu. Hún hafi verið hrædd um að ákærði myndi nauðga sér. Eins hefði hann viljað að hún tæki sængina niður því þá gæti hann fengið það fyrr og farið. Brotaþoli kvað ákærða ekki hafa orðið sáðlát og limur hans hefði ekki verið reistur heldum linur allan tímann. Þá kvaðst hún hafa sagt ákærða að fara og horfa á klám í tölvu sinni. Brotaþoli kvaðst ekki hafa þorað að segja föður sínum frá þessu enda hefði hann aldrei reynst henni vel og þau væru ekki náin. Hún kvaðst hafa átt kærasta á þessum tíma og hringt í hann þegar rútan var farin og sagt honum frá þessu. Hún kvaðst ekki hafa munað eftir að segja lögreglu frá þessu símtali. Þá kvaðst hún hafa sagt móður sinni frá þessu skömmu eftir að hún var komin á áfangastað með áætlunarbifreiðinni. Móðirin hefði brugðist illa við og haft samband við félagsmálastjórann. Brotaþoli kvað sér hafa liðið mjög illa eftir þetta og orðið veik, fengið háan hita. Hún kvaðst hafa haft ýmis líkamleg einkenni vegna þessa, eins og höfuðverk, og eins hefði þetta bitnað á skólagöngu hennar.

Móðir brotaþola bar að hafa sótt hana og bróður hennar þegar þau hefðu komið með áætlunarbifreiðinni. Brotaþoli hefði verið mjög þögul og þegar þau höfðu ekið um stund hefði brotaþoli sagt að hún þyrfti að segja henni frá atviki sem hefði gerst. Hún hefði svo sagt sér að hún hefði vaknað um morguninn við það að ákærði hefði verið að runka sér í andlitið á henni. Móðirin kvaðst hafa stöðvað bifreiðina og spurt brotaþola hvort hún vissi hvað þetta væri alvarlegt, en hún hefði verið alveg frosin og hafi greinilega ekki áttað sig á alvarleika málsins. Brotaþoli hefði síðan lýst því fyrir sér að ákærði hefði viljað taka sængina af sér. Hann hefði síðan staðið upp og lokað og læst hurð en komið svo aftur til hennar og verið að spyrja hana hvort hún hefði fengið það í rassinn, hvort henni fyndist sæði gott og hvernig stellingum hún vildi vera í. Þá hefði hann viljað að hún horfði á sig. Brotaþoli hefði reynt að segja að hún vildi þetta ekki og hann ætti að fara og hún myndi kæra hann. Þá hefði ákærði sagt að ef hún ætlaði að kæra hann þá yrði hann að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Svo hefði hann farið inn í sitt herbergi en komið aftur. Í millitíðinni hefði brotaþoli náð að klæða sig en samt verið með sængina utan um sig. Ákærði hefði haldið áfram að spyrja hana óþægilegra spurninga og hefði henni liðið illa yfir þessu. Móðirin kvað brotaþola hafa frosið og þess vegna ekki kallað á hjálp, enda taldi móðirin föðurinn ekki alltaf sýna rétta dómgreind, eins og hún orðaði það. Þá hefði ákærði farið og komið í þriðja sinn til baka og haldið áfram. Móðirin kvað brotaþola hafa sagt ákærða að fara og horfa á klám í tölvunni sinni. Móðirin kvaðst svo hafa haft samband við félagsmálastjórann á mánudeginum, en þá hefði brotaþoli verið orðin veik og komin með hita. Móðirin tók fram að þegar brotaþoli var 5 ára hefði 16 ára piltur misnotað hana kynferðislega og sæti það í henni. Pilturinn hefði sett lim sinn upp í hana og sagt henni að hann væri sleikipinni. Eftir að þetta atvik kom upp hefði brotaþoli verið bæði uppstökk og eins þurft mikla athygli. Þá ætti hún erfitt með einbeitingu og væri úthaldslítil.

Fyrrum kærasti brotaþola bar að hún hefði hringt í sig og verið hrædd. Hún hefði sagt sér að maður hefði áreitt sig en ekki hefði hún viljað lýsa því nánar. Hann mundi ekki hvenær brotaþoli hefði hringt í sig.

Faðir brotaþola kvaðst ekkert hafa vitað um málsatvik fyrr en nokkrum dögum síðar. Brotaþoli hefði verið í heimsókn hjá sér með bróður sínum. Kvöldið fyrir atvikið hefði ákærði, sem bjó í sömu íbúð og faðirinn, verið að neyta áfengis og kvaðst faðirinn hafa sagt honum að það gengi ekki og hefði hann þá farið. Hann kvað þau hafa farið að sofa upp úr miðnætti og ekkert orðið vör við ákærða um nóttina. Þá taldi hann ekki öruggt að hann hefði á þessum tíma séð eitthvað athugavert í fari brotaþola um morguninn. Hann var spurður um það hvort það væri trúverðug skýring er brotaþoli hefði gefið á því hví hún hefði ekki sagt honum frá þessu og taldi hann hana trúverðuga. Hann kvað þau feðginin hafa verið náin alla tíð. Eftir að þetta gerðist hefði hún ekki komið í heimsókn til hans og treysti sér ekki til þess. Hann kvað þetta hafa reynst henni mjög erfitt. Hann kvaðst ekki vita til þess að hún hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi sem barn.

Framangreindur félagsmálastjóri staðfesti að hafa rætt við brotaþola að viðstaddri móður hennar og ritað framangreinda greinargerð sem hún staðfesti. Þá kvað hún brotaþola hafa verið grátandi og í uppnámi meðan á viðtalinu stóð.

Sálfræðingur Barnahúss staðfesti framangreint vottorð sitt. Hún kvað brotaþola enn vera í meðferð hjá sér og myndi hún hitta hana í nokkur skipti næsta haust. Brotaþoli nýtti sér meðferðina vel en þetta hefði verið henni mikið áfall. Lýsingar hennar væru í samræmi við lýsingar sem brotaþolar, er lent hefðu í svipuðum aðstæðum, gæfu. Þá kæmi það og til að hún hefði talið sig hafa verið í öruggu skjóli hjá föður sínum sem hún reyndar hefði ekki verið í miklum samskiptum við. Brotaþoli hefði átt erfiða æsku þar sem bæði hefði verið mikil drykkja og ofbeldi á heimilinu. Börn sem hefðu þennan grunn væru berskjaldaðri þegar þau lentu í svona aðstæðum og kvaðst sálfræðingurinn hafa tekið eftir því í fari brotaþola. Eins hefði hún orðið vör við þunglyndis- og kvíðaeinkenni hjá henni. Hins vegar væri brotaþoli dugleg og taldi sálfræðingurinn hana myndu ná sér eftir þetta. Á fullorðinsárum gæti þessi atburður hins vegar haft áhrif þegar hún yrði hugsanlega fyrir áföllum. Sálfræðingurinn kvað brotaþola hafa skýrt sér frá því að hún hefði einu sinni, þegar hún var 6 ára, orðið fyrir kynferðisbroti. 

IV

Í greinargerð verjanda ákærða er vakin athygli á því að ákæran sé svo óskýr að vísa ætti henni frá dómi. Í ákærunni er ætlað atferli ákærða gagnvart brotaþola rakið lið fyrir lið í alllöngu máli og hefði að ósekju mátt hafa lýsinguna styttri og gagnorðaðri. Engu að síður verður að telja að ákæran uppfylli skilyrði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærunni ekki vísað frá dómi.

Í ákærunni er atferli því, sem ákærða er gefið að sök, lýst nákvæmlega og tiltekið hvað hann á að hafa gert hverju sinni. Lýsing þessi er byggð á framburði brotaþola í skýrslutöku hjá lögreglu. Þá hafði félagsmálastjórinn einnig rætt við brotaþola og ritað greinargerð um samtalið sem rakin var hér að framan. Framburður brotaþola fyrir dómi var í öllum meginatriðum í samræmi við það er hún hafði skýrt félagsmálastjóranum frá og eins í samræmi við skýrslu hennar hjá lögreglu. Þá skýrði brotaþoli móður sinni frá því sem gerst hafði nánast um leið og þær hittust aftur eins og rakið var. Loks kom fram fyrir dómi að brotaþoli hafði hringt í þáverandi kærasta sinn og sagt honum frá því að hún hefði verið áreitt. Staðfesti hann þetta eins og rakið var.

Ákærða og brotaþola ber nokkuð saman um upphafið nema hvað ákærði hefur alfarið neitað að hafa snert hana með limnum. Um framhaldið greinir þau hins vegar verulega á. Ákærði ber að hafa áttað sig tiltölulega fljótt á aldri brotaþola og þá hætt atferli sínu. Í framhaldinu hefðu þau ræðst við og brotaþoli þá sagt sér ýmislegt frá sínu lífi, meðal annars kynlífsreynslu sinni og eins frá kynferðisofbeldi sem hún hefði orðið fyrir í æsku. Framburður brotaþola er með allt öðrum hætti og greindi hún frá því að ákærði hefði nánast allan tímann verið að fróa sér, tala við sig um kynferðismál og margreynt að taka af henni sængina og káfa á henni, allt eins og rakið var. Þá er rétt að geta þess að ákærða og brotaþola ber saman um að hann hafi verið verulega drukkinn. Ákærði tók þó fram að hann myndi atburði vel.

Það er mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dóminum. Framburður hennar var fyllilega í samræmi við það er hún hafði áður borið hjá lögreglu og eins það er hún hafði sagt móður sinni, félagsmálastjóranum og kærasta sínum. Þótt ákærði hafi á sama hátt borið að mestu eins hjá lögreglu og fyrir dómi metur dómurinn framburð hans ekki trúverðugan á sama hátt. Að mati dómsins er það afar ótrúverðugt að kornung stúlka skuli, eftir að ákærði hafði berað á sér kynfærin og viðhaft kynferðislega tilburði við hana, sest upp í rúmi sínu nývöknuð og farið að ræða við hann, nánast bláókunnugan manninn, ýmis persónuleg og viðkvæm mál. Dómurinn telur hins vegar sannað með trúverðugum framburði brotaþola, er fær stuðning í framangreindum gögnum, að ákærði, sem var verulega drukkinn, hafi fróað sér í návist brotaþola eins og hann er ákærður fyrir, talað til hennar á kynferðislegum nótum, reynt að taka af henni sængina, káfað á henni og haft í frammi aðrar þær athafnir sem hann er ákærður fyrir.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í ákærunni. Brot hans er í ákæru aðallega talið vera nauðgun og varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og auk þess við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Í nefndu ákvæði hegningarlaganna segir að hver sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita hann ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun. Ákærði hafði hvorki samræði né önnur kynferðismök við brotaþola og verður brot hans því ekki talið nauðgun. Hann braut hins vegar gegn nefndu ákvæði barnaverndarlaga. Brot ákærða var kynferðisleg áreitni í skilningi 199. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem hann særði blygðunarsemi brotaþola, sbr. 209. gr. sömu laga. Varðar brot hans við þessi ákvæði almennra hegningarlaga. Í ákæru er ekki lýst broti gegn 225. gr. almennra hegningarlaga og þegar af þeirri ástæðu verður brot hans ekki heimfært undir það ákvæði laganna.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum ekki verið refsað áður. Hann braut mjög gróflega gegn brotaþola sem var aðeins 15 ára. Hún var í heimsókn hjá föður sínum og taldi sig í öruggum höndum á heimili hans. Ákærði á sér engar málsbætur og er refsing hans hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi.

Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eru miskabætur brotaþola til handa hæfilega ákveðnar 800.000 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 14. desember 2012 og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Það athugast að þóknun réttargæslumanns brotaþola er fyrir vinnu hennar frá upphafi málsins hjá lögreglu auk þess sem tekið er tillit til ferðakostnaðar. Laun verjanda eru eingöngu fyrir vinnu hans eftir þingfestingu málsins.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Hervör Þorvaldsdóttir og Ingimundur Einarsson.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Jón Fannar Hafsteinsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. september 2012 til 14. janúar 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 190.170 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hrl., 502.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Júlí Óskar Antonsdóttur hdl., 638.813 krónur.