Hæstiréttur íslands
Mál nr. 294/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Börn
- Matsgerð
- Miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2015. |
|
Nr. 294/2014.
|
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Arnar Þór Stefánsson hrl. Björgvin Þórðarson hdl.) (Magnús Hrafn Magnússon hrl. f.h. einkaréttarkröfuhafa) |
Líkamsárás. Börn. Matsgerð. Miskabætur. Sératkvæði.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 17. mars 2013 hrist fimm mánaða barn sitt svo harkalega að það lést fáeinum klukkustundum síðar af völdum áverka sem það hlaut. Í dómi Hæstaréttar var rakið að þrír sérfróðir læknar, sem gáfu skýrslu fyrir dómi í málinu, væru allir þeirrar skoðunar að barnið hefði látist sökum þess að það hefði verið hrist mjög harkalega og að fjölskipaður héraðsdómur, sem skipaður var barnalækni, hefði fallist á þá niðurstöðu. Þá hefðu réttarmeinafræðingur, sem krufði lík barnsins, og matsmaður, sem dómkvaddur var eftir áfrýjun málsins til Hæstaréttar og einnig var sérfræðingur á því sviði, vísað til þess að barnið hefði hlotið þrenns konar áverka 17. mars 2013, blæðingu innan heilahimnu, blæðingu í sjónhimnu og bráðaheilaáverka, sem allir væru einkennandi fyrir skakjóðsheilkenni (shaken baby syndrome), og þetta benti eindregið til þess að barnið hefði látist af áðurgreindri orsök. Að virtum þessum áverkum leit Hæstiréttur til fleiri atriða við mat á því hvort lögfull sönnun væri fengin um dánarorsök barnsins. Vísaði rétturinn til þess að ekkert væri fram komið í málinu sem benti til að barnið hefði látist af völdum sjúkdóma, né heldur falls eða annars konar slyss. Við krufningu hefði komið í ljós að lík barnsins bar merki um áverka á upphandleggjum, brjóstkassa, baki og báðum fótleggjum og væri ástæða til að ætla að um hefði verið að ræða gripför. Þá taldi Hæstiréttur sannað að barnið hefði verið beitt líkamlegu ofbeldi í lok árs 2012 og líklega á fyrstu mánuðum ársins 2013. Einnig taldi rétturinn sýnt af gögnum málsins að barnið hefði verið eðlilegt allt fram til klukkan 17 hinn 17. mars 2013. Þegar allt þetta var virt í heild var talið sannað svo fullnægjandi væri að dánarorsök barnsins umrætt sinn hefði verið sú að það hefði verið hrist harkalega af manna völdum eftir þann tíma. Loks taldi Hæstiréttur með skírskotun til álita heila- og taugaskurðlæknis, sem gerði skurðaðgerð á höfði barnsins að kvöldi 17. mars 2013, og hins dómkvadda matsmanns, svo og að teknu tilliti til annarra atriða sem nánar voru rakin í dómi réttarins, að sannað væri svo að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að X hefði hrist barnið svo harkalega 17. mars 2013 að það hefði látist aðfaranótt 18. sama mánaðar. Var refsing X ákveðin fangelsi í fimm ár, en til frádráttar kom gæsluvarðhald sem hann sætti undir rannsókn málsins. Þá var X gert að greiða móður barnsins miskabætur að fjárhæð 3.000.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum, en til vara refsimildunar og þess að gæsluvarðhald sem hann sætti frá 18. mars 2013 til 26. sama mánaðar komi til frádráttar refsingu, svo og farbann sem hann hefur þurft að sæta frá síðarnefndum degi. Einnig krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 10.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms um fjárhæð einkaréttarkröfu, vexti af henni og málskostnað. Þá gerir hún kröfu um málskostnað úr hendi ákærða fyrir Hæstarétti.
I
Í máli þessu er ákærða gefin að sök stórfelld líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 17. mars 2013, á heimili sínu, hrist dóttur sína, B, sem þá var fimm mánaða gömul, svo harkalega að hún hafi hlotið margvíslega innri áverka og mar víðs vegar á líkamanum, eftir því sem nánar greinir í ákæru, og látist nokkrum klukkustundum síðar af völdum áverkanna.
1
Málsatvikum 17. mars 2008 og aðfaranótt 18. sama mánaðar er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þótt sakargiftir á hendur ákærða séu samkvæmt framansögðu takmarkaðar við áverka, sem hann er sakaður um að hafa veitt dóttur sinni fyrri daginn, er óhjákvæmilegt við úrlausn þessa máls að gera grein fyrir áverkum sem hún hlaut áður en að þeim degi kom.
Í skýrslu A, móður stúlkunnar og fyrrverandi sambúðarkonu ákærða, fyrir dómi greindi hún frá því að á aðfangadag jóla árið 2012 hafi hún séð stóran og ljótan marblett á dóttur sinni þegar hún skipti á henni. A sagði að sér hafi brugðið mjög við að sjá þennan blett sem henni fannst ná yfir kynfæri stúlkunnar. Það fyrsta sem sér hafi dottið í hug hafi verið að ákærði „hefði gert eitthvað kynferðislegt við hana.“ A sagðist hafa sýnt móður sinni og bróður hvað fyrir hafi komið og hefur sú fyrrnefnda staðfest það fyrir dómi. Kvaðst A hafa ákveðið að spyrja ákærða út í þetta síðar um daginn. Hann hafi hins vegar sagst „ekkert hafa gert“. Síðar í skýrslunni lýsti A því að ákærði hafi verið einn með stúlkuna skamman tíma kvöldið áður, 23. desember 2012. Samsinnti hann því fyrir dómi, en kvaðst aðspurður ekki hafa hugmynd um hvernig stúlkan hafi fengið þennan marblett. Í vottorði heilsugæslulæknis 28. sama mánaðar kom fram að A hafi leitað þangað með dóttur sína þann dag „vegna óskýrðra marbletta“ og verið send þaðan með stúlkuna á bráðamóttöku. Við sama tækifæri voru teknar ljósmyndir af stúlkunni þar sem áðurnefnt mar á henni sést greinilega. Hinn 2. janúar 2013 tilkynnti læknirinn atvikið til barnaverndaryfirvalda á grundvelli 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem áverkanum var lýst og jafnframt tekið fram að móðirin hafi ekki skýringar á honum. Nokkrum dögum síðar hringdi starfsmaður barnaverndar til læknisins og í skýrslu um símtalið kom fram að hann hafi auk annars sagt að móðirin væri „með áhyggjur að sambýlismaður gæti hafa farið harkalega með barnið“. Í skýrslu um viðtal, sem tveir barnaverndarstarfsmenn áttu við ákærða og A á heimili þeirra 24. janúar 2013, sagði meðal annars að ákærði hafi ekki umgengist börn og yrði vandræðalegur með dóttur sína. Þar sagði einnig: „Hún fer að gráta í hvert skipti sem hann er með hana. Þá tekur A hana og er telpan sáttari hjá móður sinni.“
Við krufningu á líki stúlkunnar kom í ljós „gamalt brot“ á rifbeini vinstra megin „sem og gamalt beinbrot í vinstri kálfa“. Í skýrslu um krufninguna sagði að brotin væru vísbendingar um fyrri áverkatilvik, en ekki væri unnt að segja til um hvort þau hafi orðið til á sama tíma. Hafi beinbrotin greinst á stöðum sem væru dæmigerðir fyrir ofbeldisáverka. Þar sem bein barna væru enn mjög sveigjanleg þyrfti verulega harkalegur áverki að eiga sér stað til að valda slíku broti.
Samkvæmt vottorði heilsugæslu hringdi A þangað 11. febrúar 2013 og kvaðst hafa áhyggjur af vinstri fæti dóttur sinnar. Fannst henni stúlkan ekki hreyfa hann eins og hún hafi gert, en vissi ekki til þess að neitt hafi komið fyrir hana. Meðal gagna málsins eru upplýsingar um hvenær A var við vinnu og eru þær byggðar á því hvenær hún stimplaði sig inn og út á vinnustað. Þar kemur fram að hún hafi verið við vinnu 10. febrúar 2013 frá klukkan 14.23 til 17.58. Bar A að stúlkan hefði verið í umsjá ákærða meðan hún var fjarverandi umrætt sinn og kvaðst hann, spurður fyrir dómi, halda að það gæti verið rétt.
Í skýrslu A fyrir dómi kom fram að stúlkan hafi verið byrjuð að velta sér af baki yfir á maga og öfugt í febrúar 2013. Í byrjun mars sama ár hafi hún hins vegar tekið eftir að stúlkan hafi verið hætt þessu. Ákærði hafi verið einn með hana 5. mars þegar hún kvaðst hafa brugðið sér á kaffihús. Fyrir dómi staðfesti ákærði að svo hafi verið. Móðirin hafi verið fjarverandi að minnsta kosti tvær klukkustundir og hann ekki getað náð sambandi við hana. Á meðan hafi stúlkan grátið og hann verið við það að fara með hana út í göngutúr þegar móðirin kom heim. Aðspurður sagði ákærði að stúlkan hafi verið byrjuð að snúa sér í febrúar 2013, en síðan hætt því. Hann kvaðst þó ekki geta sagt til um hvenær það hafi verið. Spurður hvort hann gæti skýrt hvernig fyrrgreindir áverkar á stúlkunni hafi verið til komnir sagðist hann ekki vita það.
2
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir vottorði þess heila- og taugaskurðlæknis, sem gerði skurðaðgerð á höfði stúlkunnar að kvöldi 17. mars 2013, og einnig rakinn í megindráttum framburður hans fyrir dómi. Í vottorðinu sagði meðal annars að við aðgerðina hafi ekki verið annað að sjá en að tengibláæðar, sem liggja frá heila upp í bláæðastokk og flytja blóð frá heilanum, hafi verið í sundur. Í skýrslu sinni fyrir dómi lýsti læknirinn þessu nánar. Svo langt sem hann hafi séð hafi ekki virst nein samtenging þarna á milli þannig að það hafi blætt úr æðunum og einnig úr stokknum inn í heilann. Sagði hann að um hafi verið að ræða „miklar blæðingar fyrir þennan litla kropp“ og ekkert blóðflæði frá heilanum. Síðar komst læknirinn svo að orði um blæðinguna sem hann hafi orðið vitni að í aðgerðinni og líklega líðan stúlkunnar eftir að hún hafi hlotið áverkana að hann gæti „ekki með nokkru móti séð annað en ... að hennar líðan hafi versnað mjög fljótt ... og þá er ég að tala um nokkrar mínútur.“ Spurður hvort liðið hefði getað ein klukkustund eða liðlega það frá því að stúlkunni voru veittir áverkarnir og þar til einhver einkenni hafi komið í ljós hjá henni kvaðst læknirinn telja það mjög ólíklegt, en vildi þó ekki útiloka það.
Þá er í héraðsdómi rakið efni skýrslunnar um krufningu á líki stúlkunnar, sem áður hefur verið vitnað til, sem og vitnisburður réttarmeinafræðingsins er hana gerði. Eins og þar greinir bar réttarmeinafræðingurinn fyrir dómi að líkið hafi borið merki um áverka á upphandleggjum, brjóstkassa, baki og báðum fótleggjum. Í framburðinum kom ennfremur fram að marið, sem greinst hafi á líkama stúlkunnar, hafi verið að svipaðri stærð, á bilinu frá 0,3 til 0,7 cm í þvermál. Marið hafi verið á þeim stöðum að ástæða væri til að ætla að um hafi verið að ræða gripför. Áberandi hafi verið að marið á baki og brjóstkassa hafi náð dýpra, þar sem blæðingarnar hafi verið greinilegar í vöðvum milli rifbeina, sem gæfi „ástæðu til að álykta að þar hafi verið sérstaklega fast gripið“. Eins og tekið er fram í héraðsdómi kvað réttarmeinafræðingurinn blæðingu á hjartahimnu við hjartaoddinn vera ummerki um fast grip og tengjast ummerkjum á brjóstkassa.
II
Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp krafðist ákærði þess 6. maí 2014 að dómkvaddur yrði sérfróður matsmaður til að svara því meðal annars hver hafi verið líklegasta dánarorsök stúlkunnar. Einnig hvort áverkar á henni hafi verið með þeim hætti að fullyrða mætti að hún hafi misst meðvitund mjög skömmu eftir að hún hlaut þá. Ennfremur hvort hægt væri að fullyrða, að teknu tilliti til allra atvika, að stúlkan hafi hlotið þá áverka sem leiddu til dauða hennar eftir klukkan 17.45 hinn 17. mars 2013, svo og hvenær matsmaður teldi að hún hafi í fyrsta lagi fengið þá. Hinn 6. júní 2014 kvaddi héraðsdómur til dr. Arne Stray-Pedersen, réttarmeinafræðing og aðstoðarprófessor við Oslóarháskóla, til að framkvæma hið umbeðna mat. Ríkissaksóknari sendi matsmanninum þau skjöl, sem talið var að hann þyrfti á að halda til að svara matsspurningunum, með bréfi 23. sama mánaðar og var afrit af bréfinu sent verjanda ákærða. Af málflutningi aðila hér fyrir dómi verður ekki annað ráðið en að þetta hafi verið gert að höfðu samráði við verjandann.
Í upphafi matsgerðar hins dómkvadda manns 21. nóvember 2014 lét hann þess getið að hann hafi starfað á sviði réttarmeinafræði í ellefu ár og borið vitni í yfir 120 dómsmálum. Áður en matsmaðurinn svaraði einstökum spurningum, sem til hans hafði verið beint, tók hann fram að matið væri eingöngu byggt á lýsingu frumrannsakenda á gögnunum. Svar matsmannsins við því hver hafi verið dánarorsök stúlkunnar var „höfuðmeiðsli“. Vegna þess að engin merki hafi verið um mar á höfði hennar og ekki heldur höfuðkúpubrot væri „hristingur án höfuðhöggs líklegasta skýring á meiðslunum“. Þau væru „sennilega af manna völdum.“ Hafi réttarmeinafræðingurinn, sem krufði lík stúlkunnar, útilokað aðrar dánarorsakir með fullnægjandi hætti. Sem svar við því hvort unnt væri að fullyrða að stúlkan hafi misst meðvitund mjög fljótlega eftir að hún hlaut meiðslin taldi matsmaðurinn sennilegast „að meðvitund hafi fjarað fljótt út skömmu eftir þann atburð sem olli“ blæðingum innan heilahimnu „og kom heilameiðslunum af stað.“ Svo kynni að vera að algert meðvitundarleysi hafi ekki orðið, en líklegt væri „að ungbarnið hafi verið sofandalegt og af því dregið, og í verulega skertu meðvitundarástandi.“ Með hliðsjón af því hversu alvarleg meiðslin voru taldi matsmaðurinn ósennilegt að stúlkan hefði sofnað eftir að hafa verið hrist, vaknað aftur og grátið í næstum klukkustund áður en hún missti meðvitund. Matsmaðurinn lét þess getið að ljósmyndirnar, sem teknar voru af stúlkunni skömmu fyrir klukkan 17 hinn 17. mars 2013 og sýna „ungbarn í að því er ætla má augnsambandi við ljósmyndarann og með eðlilega vöðvaspennu“, gætu ekki samræmst alvarlegum höfuðmeiðslum og því hafi meiðslin komið til síðar. Afar ósennilegt væri að stúlkan „hafi nokkurn tíma eftir að hún varð fyrir hinum banvænu meiðslum verið með fullri meðvitund og þannig að ætla mætti hana heilbrigða. Miklu líklegra er að atburðurinn sem olli meiðslunum hafi leitt til þess að hratt dró úr meðvitund og því hafi fylgt áframhaldandi skert meðvitundarástand áður en að krampaflogum kom.“
Hinn 10. desember 2014 var tekin skýrsla af matsmanninum fyrir dómi þar sem hann staðfesti matsgerð sína og svaraði spurningum sem til hans var beint af hálfu ákærða og ákæruvaldsins. Í svörum matsmannsins kom fram að hann drægi þá ályktun, að stúlkan hefði beðið bana sökum þess að hún hafi verið hrist mjög harkalega, fyrst og fremst af þrenns konar áverkum sem hún hafi hlotið, en þeir væru blæðing innan heilahimnu, blæðing í sjónhimnu og bráðaheilaáverki. Spurður hvort það skipti ekki máli í þessu sambandi, í ljósi vísindalegra rannsókna, að ekki hafi fundist nein merki um ytri áverka á höfði stúlkunnar svaraði matsmaðurinn að í sínum huga væri ekki spurning að hristingur gæti valdið áverkum af sama toga og stúlkan hafi hlotið án þess að fram kæmu ytri áverkar á höfði eða hálsi. Kvaðst hann byggja þetta álit sitt á niðurstöðum rannsókna á ungum börnum sem sannanlega hafi slasast í bifreiðum þar sem þau hafi hreyfst harkalega fram og aftur. Það hafi vakið athygli að í þeim tilvikum hafi börnin ekki greinst með hálsáverka. Þegar jafn ungt barn hafi hlotið þá áverka, sem að framan greinir, geti þeir skýrst af slysi eða sjúkdómi, en þeir efnisþættir hafi báðir verið útilokaðir í því máli sem til umfjöllunar væri. Að gefnu tilefni, þar sem vísað var til varfærnislegs orðalags ályktana matsmannsins í matsgerð sinni, gaf hann þá skýringu að réttarmeinafræðingar í Noregi forðuðust að fullyrða að eitthvað hefði gerst og annað væri útilokað, til dæmis tækju þeir fram þegar maður hefði verið skotinn að „líkleg“ orsök andlátsins væri af völdum byssukúlu.
Í málflutningi hér fyrir dómi var fundið að því af hálfu ákærða að hinn dómkvaddi matsmaður hafi ekki boðað aðila málsins til matsfundar, svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 129. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af þeim sökum yrði ekki byggt á matsgerð hans við úrlausn málsins.
Þegar leyst er úr því hvort og þá hvaða áhrif sá galli á framkvæmd matsins sem hér um ræðir hafi á sönnunargildi matsgerðarinnar verður ekki framhjá því litið að matsmaðurinn hafði undir höndum öll þau gögn sem hann taldi sig þurfa til að leggja mat á það sem matsbeiðni ákærða laut að. Ekkert var því heldur til fyrirstöðu að ákærði léti matsmanninum í té frekari gögn teldi hann þess þörf. Þá skiptir ekki síður máli í þessu sambandi að samkvæmt 1. mgr. 132. gr. laga nr. 88/2008 kom matsmaðurinn fyrir dóm og gaf skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð sinni, auk þess sem hann svaraði spurningum beggja aðila um atriði sem tengdust henni. Með vísan til alls þessa verður ekki fallist á að áðurgreindur formgalli eigi að leiði til þess að sönnunargildi matsgerðarinnar verði minna en ella hefði verið, sbr. til hliðsjónar 4. mgr. 129. gr. sömu laga.
III
1
Þeir þrír sérfróðu læknar, sem gefið hafa skýrslu fyrir dómi í máli þessu, eru allir þeirrar skoðunar að stúlkan B hafi látist sökum þess að hún hafi verið hrist mjög harkalega. Féllst fjölskipaður héraðsdómur, sem skipaður var barnalækni, á þá niðurstöðu. Réttarmeinafræðingurinn sem krufði lík stúlkunnar og hinn dómkvaddi matsmaður, sem einnig er sérfræðingur á sviði réttarmeinafræði, hafa vísað til þess að hún hafi hlotið þrenns konar áverka 17. mars 2013, blæðingu innan heilahimnu, blæðingu í sjónhimnu og bráðaheilaáverka, en þeir séu allir einkennandi fyrir það sem nefnt hefur verið skakjóðsheilkenni (shaken baby syndrome). Þetta bendi eindregið til þess að stúlkan hafi látist af framangreindri orsök. Af hálfu ákærða hafa verið bornar brigður á þá ályktun, meðal annars vegna þess að ekki hafi greinst neinir álagsáverkar á hálsi eða höfði stúlkunnar. Eins og áður greinir lýsti hinn dómkvaddi matsmaður því áliti í skýrslugjöf sinni fyrir dómi og færði fyrir því rök að harkalegur hristingur gæti valdið áverkum af sama toga og stúlkan hafi hlotið án þess að fram kæmu ytri áverkar á höfði eða álagsáverkar á hálsi. Af þeim sökum verður ekki fallist á að slíkir áverkar á stúlkunni hafi verið forsenda fyrir því að dánarorsök hennar hafi verið sú að hún hafi verið hrist harkalega af manna völdum skömmu áður en hún lést.
Við mat á því hvort lögfull sönnun sé fengin um hver dánarorsök stúlkunnar hafi verið, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008, er rétt að horfa til fleiri atriða en þeirra þrenns konar áverka sem áður greinir.
Í fyrsta lagi er ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að stúlkan hafi látist af völdum sjúkdóma. Fram hafa verið lögð gögn um meðgöngu og fæðingu stúlkunnar, svo og sjúkraskrá hennar eftir fæðingu. Þessi gögn bera ekki annað með sér en að hún hafi verið heilbrigt barn og ekki þjáðst af skæðum sjúkdómum. Þá leiddi krufning það sama í ljós og hefur réttarmeinafræðingurinn, sem krufði lík stúlkunnar, borið fyrir dómi að útilokað sé að sjúkdómar hafi átt þátt í dauða hennar. Hefur hinn dómkvaddi matsmaður tekið undir þá niðurstöðu.
Í öðru lagi er ekkert sem gefur til kynna að stúlkan hafi látist af völdum falls eða annars konar slyss. Engir ytri áverkar voru sem fyrr segir á höfði hennar eða líkama sem bentu til að hún hefði orðið fyrir slysi. Á hinn bóginn voru merki um áverka á upphandleggjum, brjóstkassa og baki stúlkunnar. Eins og fram kom í vitnisburði réttarmeinafræðingsins, sem krufði lík hennar, gaf stærð marblettanna á þessum stöðum ástæðu til að ætla að um hafi verið að ræða gripför. Marið á baki og brjóstkassa hafi verið þess eðlis að ástæða væri til að ætla að þar hefði verið sérstaklega fast gripið um stúlkuna sem var aðeins liðlega fimm mánaða að aldri og vó rúm 6,5 kg. Þá kvað réttarmeinafræðingurinn blæðingu á hjartahimnu við hjartaoddinn vera ummerki um fast grip og tengjast ummerkjum á brjóstkassa.
Í þriðja lagi er eins og áður greinir sannað, meðal annars með ljósmyndum sem teknar voru af stúlkunni í lok desember 2012, að hún hafði hlotið stórt mar. Einnig kom fram við krufningu á líki hennar að hún var rifbeinsbrotin og brotin á fæti, en bæði brotin voru eldri en þeir áverkar sem hún virtist hafa hlotið skömmu áður en hún lést. Er með þessu hafið yfir allan vafa að stúlkan var beitt líkamlegu ofbeldi í lok árs 2012 og líklega á fyrstu mánuðum ársins 2013, svo sem nánar verður vikið að hér á eftir.
Í fjórða lagi báru báðar ömmur barnsins fyrir dómi að stúlkan hafi verið í alla staði eðlileg um klukkan 15 og 16 hinn 17. mars 2013, eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi. Einnig liggja fyrir í málinu ljósmyndir sem ákærði og móðir stúlkunnar tóku um klukkan 17 þann dag. Eins og tekið var fram í matsgerð hins dómkvadda manns sýna þær að stúlkan virtist vera í augnsambandi við ljósmyndarann og með eðlilega vöðvaspennu. Að hans áliti gat útlit hennar á myndunum ekki samrýmst því að hún hafi orðið fyrir alvarlegum höfuðmeiðslum fyrir þann tíma og því hafi meiðslin komið til síðar.
Þegar allt þetta er virt í heild sinni telst vera sannað svo að fullnægjandi sé að dánarorsök stúlkunnar umrætt sinn hafi verið sú að hún hafi verið hrist harkalega af manna völdum eftir klukkan 17 hinn 17. mars 2013.
2
Á þeim tíma sem leið frá fæðingu stúlkunnar og þar til hún lést dvaldi hún á heimili ákærða og móður sinnar, A, og bjuggu þar ekki aðrir en þau þrjú. Samkvæmt því sem ákærði og A hafa skýrt frá fyrir dómi annaðist hún stúlkuna fyrst og fremst, en ákærði gætti hennar einn í þau fáu skipti sem móðirin fór að heiman, hvort sem var til vinnu eða í öðrum erindagjörðum. Hafi stúlkan gjarnan grátið þegar móðirin var ekki til staðar og jafnvel einnig þótt svo væri ef ákærði hafi haldið á henni. Það kemur heim og saman við frásögn starfsmanna barnaverndar af heimsókn á heimilið 24. janúar 2013. Einnig bar vinkona móðurinnar fyrir dómi að stúlkan hefði virst vera hrædd við ákærða og hafi eitt sinn farið að gráta þegar hún sá hann. Þá veita ljósmyndirnar sem teknar voru 17. mars 2013 vísbendingar um að stúlkan hafi verið hænd að móður sinni, en ekki ákærða, þar sem ekkert virðist ama að henni þegar þær mæðgur eru saman á myndunum, en hins vegar er hún grátandi í fangi ákærða.
Eins og áður greinir leikur enginn vafi á því að stúlkan var beitt líkamlegu ofbeldi áður en að hinum örlagaríka degi kom. Kvaðst A hafa séð marblett á dóttur sinni á aðfangadag jóla 2012 og fór fjórum dögum síðar með hana á heilsugæslustöð til skoðunar þar sem teknar voru ljósmyndir af marinu. Hinn 11. febrúar 2013 hringdi A á heilsugæslustöðina og kvaðst hafa áhyggjur af vinstri fæti dóttur sinnar sem þá hefur sennilega verið brotinn. Í bæði skiptin hafði ákærði, að eigin sögn, verið einn með stúlkunni daginn áður en áverkarnir komu í ljós, í það síðara í rúmar þrjár klukkustundir. Ekki er ljóst hvenær stúlkan rifbeinsbrotnaði, en leiða má getum að því að við það hafi hún hætt að velta sér, þá líkast til í byrjun mars 2013. Samkvæmt því sem áður segir er ekki unnt að útiloka að ákærði hafi valdið þeim áverka meðan hann gætti hennar einn.
Þau ákærði og A eru ein til frásagnar um það sem gerðist eftir klukkan 17 hinn 17. mars 2013. Þeim bar saman um það fyrir dómi að hún hafi fljótlega eftir þann tíma farið með stúlkuna niður á neðri hæð íbúðarinnar þar sem þau bjuggu og verið þar ein með henni uns hún hélt til vinnu um klukkan 17.45. A sagðist hafa lagst fyrir með dóttur sinni, gefið henni brjóst og síðan hafi hún sofnað. Ákærði sagði að stúlkan hafi verið grátandi þegar A fór með hana niður, en kvaðst ekki geta áttað sig á því hvort hún hafi haldið áfram að gráta er þangað var komið. Ekkert í framburði ákærða leiðir líkum að því að A hafi unnið stúlkunni mein þann tíma sem þær voru einar saman. Þótt ekki verði dregin óyggjandi ályktun af því að ákærði hafi ekki orðið neins slíks var mælir það gegn því að hún hafi beitt dóttur sína ofbeldi umrætt sinn. Þá sló fjölskipaður héraðsdómur, sem skipaður var barnalækni, því föstu að útilokað væri að móðirin hafi hrist barnið áður en hún fór til vinnu og það síðan sofnað.
Eftir að A hélt til vinnu var stúlkan óumdeilanlega í umsjá ákærða eins þar til hann hringdi dyrabjöllu hjá nágrönnum sínum um það bil klukkustund síðar. Eins og greinir í héraðsdómi skýrði ákærði svo frá að stúlkan hafi vaknað grátandi stuttu eftir að móðirin fór. Samkvæmt gögnum málsins hringdi hún til ákærða af vinnustað sínum klukkan 18.03 og kvaðst þá hafa heyrt stúlkuna gráta sárum kröftugum gráti. Hún sagðist þá hafa boðist til að koma heim, en úr hafi orðið að ákærði fór með stúlkuna í gönguferð. Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði ákærði að stúlkan hefði verið grátandi meðan á gönguferðinni stóð, sem hefði varað í tíu til fimmtán mínútur, og lagði héraðsdómur þann framburð hans til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi. Þegar heim var komið lýsti ákærði því svo að grátur stúlkunnar hefði ekki verið eins hávær og áður og hún orðið hreyfingarlítil. Hann hafi þá farið með hana til nágranna sinna og skömmu síðar hringt til A. Samkvæmt gögnum málsins var klukkan þá 18.53 og fjórum mínútum síðar var hringt í Neyðarlínuna vegna ástands stúlkunnar.
Eins og að framan er rakið bar sá heila- og taugaskurðlæknir, sem gerði skurðaðgerð á höfði stúlkunnar að kvöldi 17. mars 2013, fyrir dómi að hann liti svo á, miðað við þá miklu blæðingu í heila sem hann hafi orðið vitni að í aðgerðinni, að líðan hennar hlyti að hafa versnað mjög fljótt eftir að hún hlaut áverkana, líklega aðeins nokkrum mínútum síðar. Spurður hvort liðið hefði getað ein klukkustund eða liðlega það uns einhver einkenni hefðu komið í ljós kvaðst hann telja það mjög ólíklegt. Þá kvað hinn dómkvaddi matsmaður að sennilegast væri að meðvitund stúlkunnar hefði fjarað fljótt út eftir að henni voru veittir áverkarnir. Þótt stúlkan hefði ekki orðið algjörlega meðvitundarlaus í kjölfar áverkanna væri líklegt að hún hefði orðið sofandaleg og af henni dregið þar sem meðvitund hennar hefði verið verulega skert.
Með skírskotun til álits þessara tveggja læknisfróðu manna og að teknu tilliti til annarra þeirra atriða, sem gerð hefur grein fyrir að framan, er sannað svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi hrist stúlkuna svo harkalega 17. mars 2013 að hún hafi látist aðfaranótt 18. sama mánaðar. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um heimfærslu brotsins til refsiákvæðis og refsingu ákærða. Samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga kemur gæsluvarðhald ákærða til frádráttar refsingunni eins og kveðið er á um í hinum áfrýjaða dómi, en lagaheimild skortir til að verða við kröfu hans um að farbann sem hann hefur sætt dragist jafnframt frá henni.
3
Ákærði krefst þess að kröfu A um miskabætur verði vísað frá héraðsdómi þar sem greinargerð um hana hafi ekki fylgt ákæru ásamt fyrirkalli þegar hún var birt né heldur hafi greinargerðin verið lögð fram við þingfestingu málsins, svo sem áskilið sé í 1. og 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008. Fyrir liggur að bótakröfunni var komið á framfæri við ríkissaksóknara áður en ákæra í málinu var gefin út, svo sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 173. gr. sömu laga, og var krafan greind í ákærunni samkvæmt f. lið 1. mgr. 152. gr. þeirra. Af gögnum málsins, þar á meðal af því sem fært var í þingbók við þingfestingu þess 16. desember 2013, verður ráðið að greinargerð um kröfuna hafi verið lögð fram í því þinghaldi. Ákærði hafði því þá þegar tækifæri til að taka til varna í þessum þætti málsins, enda gerði hann það í greinargerð sinni sem lögð var fram í þinghaldi 20. janúar 2014. Að því virtu eru ekki efni til að taka til greina kröfu hans um frávísun bótakröfunnar. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður ákvörðun hans um einkaréttarkröfu staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Einnig verður ákærði dæmdur til að greiða bótakrefjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 2.653.457 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 2.480.000 krónur. Ákærði greiði A 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara
I
Ég fellst á með meirihluta dómenda að sannað sé að barnið hafi látist af mannavöldum.
Læknisfræðileg gögn eru ítarlega rakin í hinum áfrýjaða dómi og atkvæði meirihlutans. Verður af þeim og ljósmyndum sem teknar voru af barninu skömmu fyrir klukkan 17 umræddan dag dregin sú ályktun að barnið hafi hlotið þá áverka er drógu það til dauða á tímabilinu frá um klukkan 17 til um 19 þá um daginn. Eins og rakið er í atkvæði meirihlutans verður að telja upplýst að móðir barnsins var ein með það á neðri hæð íbúðar hennar og ákærða frá um klukkan 17 og allt til um klukkan 17.45, er hún hélt til vinnu. Mun ákærði þá hafa verið á efri hæð íbúðarinnar. Eftir það var barnið eitt í umsjá ákærða allt þar til hann leitaði til nágranna um aðstoð vegna ástands barnsins, laust fyrir klukkan 19. Eins og rakið er í atkvæði meirihlutans er líklegast að barnið hafi hlotið áverkana eftir klukkan 17.45 umræddan dag en mun ólíklegra að barnið hafi hlotið áverkana á þeim tíma er móðir þess var ein með það. Samkvæmt þessu eru sterkar líkur fyrir því að sá sem síðast var einn með barninu sé sá sem veitti því þá áverka sem drógu það til dauða.
II
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi féll grunur strax á ákærða og var hann handtekinn á heimili sínu skömmu eftir að hann og móðir barnsins voru lögst til svefns eftir komu heim frá spítalanum þar sem barnið hafði verið úrskurðað látið. Var ákærði í framhaldi af því úrskurðaður í gæsluvarðhald og sættu bæði hann og móðir barnsins yfirheyrslum hjá lögreglu. Þá var ákærði látinn gangast undir geðrannsókn með þeirri niðurstöðu að ekkert væri fram komið er sýndi að hann væri í afneitun, haldinn geðsjúkdómi eða væri ofbeldisfullur.
Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber við rannsókn sakamáls að gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þar sem læknisfræðileg gögn útiloka ekki að barnið hafi getað orðið fyrir skaða á þeim tíma er móðir þess var ein með það, verður ekki hjá því komist að rekja neðangreind atriði sem varða hana.
Þrátt fyrir að móðir barnsins hafi við upphaf rannsóknar haft stöðu sakbornings sætti hún ekki geðrannsókn. Liggja því ekki fyrir sambærilegar upplýsingar um hana og ákærða. Þó er fram komið að hún hafi sem barn verið haldin átröskun og lagst í þrjá mánuði inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, hún hafi átt í miklum erfiðleikum innan fjölskyldu sinnar, þurft að hætta námi vegna vægs taugaáfalls um tvítugsaldur og greinst með þunglyndi en einnig fæðingarþunglyndi. Einungis tíu dögum fyrir andlát barnsins, er farið var með það í svokallaða fimm mánaða skoðun, gekkst móðirin jafnframt undir sérstakt próf vegna fæðingarþunglyndis. Þá lýstu bæði ákærði og vitni að hún hefði átt erfitt með skap og ætti til að rjúka upp.
Við skýrslugjöf hjá lögreglu voru borin undir móður barnsins orð ákærða um að hún hafi sagst vilja hrista barnið. Svaraði hún því til að hún hefði fengið þessa tilfinningu eða löngun vegna álags, en ekki hafi verið gott að standa ein undir öllu álaginu sem fylgdi barninu. Hafi þessi tilfinning komið upp í tvö eða þrjú skipti, að líkindum í nóvember og desember 2012. Nefndi hún jafnframt að vinkona sín hafi einu sinni eða tvisvar komið til sín um nótt vegna þess hve henni hafi liðið illa þar sem barnið hafi ekki viljað sofna, en ekki hafi verið félagsskapur í ákærða. Fyrir dómi staðfesti hún þessa skýrslu sína og einnig það að hún hefði haft efasemdir um hvort hún kynni að hafa verið völd að dauða barnsins þótt hún hafi innst inni vitað að svo væri ekki, eins og hún komst að orði. Þvertók hún jafnframt fyrir að hafa gert það.
Samkvæmt gögnum málsins sýndi móðir barnsins því ástúð. Á hinn bóginn þurfti hún að sæta því að vera nánast öllum stundum, bæði daga og nætur, ein við umsjá þess en ákærði kom afar lítið að málum, þótt vitni lýsi því að hann hefði verið stoltur af dóttur sinni og sent ættingjum sínum erlendis nánast daglega myndir af henni gegnum tölvu. Þá er fram komið að barnið hafi oftar en ekki grátið er það var í fangi ákærða og raunar einnig annarra vandamanna en móður.
Ekki verða dregnar sérstakar ályktanir af því sem rakið er í atkvæði meirihlutans um að barnið hafi áður sætt illri meðferð, en fram er komið að það var að tilstuðlan móður sem farið var með barnið í læknisskoðanir þó hún hafi ekki þekkst boð um að teknar yrðu röntgenmyndir af barninu. Bæði ákærði og móðir barnsins lýstu því að hún hefði talað við ákærða um að það að hrista ungbarn gæti haft alvarlegar afleiðingar. Kvað hún sig hafa talað um þetta við ákærða að minnsta kosti í tvígang eftir fæðingu barnsins og eitthvað fyrir fæðingu þess. Ástæða þessa hafi verið hræðsla sín við fæðingarþunglyndi og að ákærði myndi ekki þekkja einkenni þess. Þekkt væri að fólk með slíkt þunglyndi vildi hrista barn. Hafi hún óttast að skaða barnið óafvitandi og viljað útskýra fyrir ákærða að fylgjast þyrfti með sér vegna þessa. Fyrir dómi kvaðst hún síðast hafa rætt við ákærða um málefnið í janúar 2013. Við skýrslugjöf hjá lögreglu kvaðst hún hafa gert það í febrúar það ár, en á þeim tíma hafi hún „skorað hærra á þunglyndisskalanum.“ Jafnframt hefði þá verið komið fram marblettur á nára barnsins og hún ekki getað útilokað ákærða sem orsakavaldinn. Hafi henni fyrst dottið í hug að ákærði hefði brotið kynferðislega á barninu þar sem hann hafi haft „skrítna nálgun“ gagnvart því og nefndi að hún hefði ekki talið víst að hún myndi treysta ákærða í þeim efnum er barnið yrði aðeins eldra.
Ákærði verður ekki sakfelldur með þeim rökum að langlíklegast sé að hann hafi framið brotið. Ekki voru vitni að atvikum. Þegar framanritað leggst við þann möguleika, samkvæmt læknisfræðilegum gögnum, að barnið hefði getað fengið áverka áður en móðir þess yfirgaf heimilið, verður gegn eindreginni neitun ákærða því ekki slegið föstu að ákæruvaldið hafi við meðferð málsins axlað þá sönnunarbyrði fyrir sekt ákærða sem á því hvílir samkvæmt 108. gr., sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Tel ég því að sýkna beri ákærða af refsikröfu, vísa einkaréttarkröfu frá héraðsdómi og fella á ríkissjóð kostnað vegna reksturs málsins á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2014
I
Mál þetta, sem dómtekið var 14. mars síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 3. desember 2013, á hendur X, kt. [...], [...], [...], „fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 17. mars 2013, á heimili sínu að [...], [...], hrist dóttur sína, A, sem þá var 5 mánaða gömul, svo harkalega að stúlkan hlaut mikla innanbastblæðingu í hægra heilahveli, mikinn heilabjúg með útflöttum heilafellingum, bráða taugasímaáverka í heila, innanbastblæðingu í kringum sjóntaug í hægra auga, miklar blæðingar í sjónhimnu hægra auga og að nokkru leyti í vinstra auga, blæðingu inn á hjartahimnu við hjartaoddinn, mar í handarkrikum, á upphandleggjum, baki, vinstri vanga, vinstra eyra, hnakka, vinstra læri og hægri kálfa, en stúlkan lést nokkrum klukkustundum síðar af völdum áverkanna.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
A, kennitala [...], krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 10.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 18. mars 2013 þar til mánuður er liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafa þessi, en dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga. Þá er krafist greiðslu þóknunar réttargæslumanns auk virðisaukaskatts á þá þóknun.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að bótakröfunni verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda.
II
Málavextir eru þeir að aðfaranótt mánudagsins 18. mars 2013 var lögreglan kvödd að gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi. Kvöldið áður hafði verið komið þangað með framangreint barn sem hafi verið meðvitundarlaust. Það hafði síðar verið úrskurðað látið. Á vettvangi voru foreldrar barnsins, ákærði og framangreindur bótakrefjandi. Í skýrslu lögreglu kemur fram að um klukkan 19 að kvöldi sunnudagsins 17. mars hafi verið óskað eftir sjúkrabíl að framangreindu heimilisfangi. Nágrannar ákærða hefðu hringt eftir bílnum að beiðni hans. Þá kemur fram í skýrslunni að barnið hafi verið meðvitundarlaust en andað. Í sjúkrabílnum hefði það farið í krampa og púlsinn lækkað og barnið hefði fengið súrefni. Engir áverkar hafi verið sjáanlegir utan á höfðinu en þegar höfuðkúpan var opnuð hefði komið í ljós blóðpollur í heila, sprungnar æðar og rifnar bláæðar. Blóðþrýstingur barnsins hafi fallið og það dáið.
Í skýrslunni er haft eftir móðurinni að hún hafi haldið til vinnu klukkan 17.40 og hafi barnið þá verið sofandi. Hún kvað barnið hafa verið mjög háð sér og hafi bara viljað vera hjá sér en ekki ákærða. Það hafi grátið ef hann hefði reynt að vera með það og hefði hann því lítið getað sinnt því. Móðirin kvaðst því hafa verið áhyggjufull og hringt heim er hún var komin til vinnu. Þá kvaðst hún hafa heyrt öskur og grát í barninu. Hún hefði síðan frétt að barnið hefði veikst og væri á leið á sjúkrahús. Eftir ákærða er haft að barnið hafi vaknað skömmu eftir að móðirin hefði farið til vinnu. „Barnið grét og var óvært, hann reyndi að ganga um með það í íbúðinni en barnið grét áfram. Hann reyndi að gefa barninu banana en barnið grét samt. Hann bjó því um barnið í barnavagni og fór með það út í vagninum og gekk um hverfið. Barnið hélt áfram að gráta og því fór hann aftur inn með barnið. Þegar hann tók barnið úr vagninum byrjaði að korra í því og það varð máttlaust. Hann fór því upp til nágranna sinna og bað þá um að hringja á sjúkrabíl.“
Ákærði var handtekinn að morgni mánudagsins 18. mars og úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag. Hann sat í varðhaldinu til 26. mars er hann var úrskurðaður í farbann sem hann hefur verið í síðan.
Í skýrslu sjúkraflutningamanna kemur fram að barnið hafi verið í barnabílstól í aftursæti bíls fyrir utan heimili sitt er þeir komu á vettvang. Ákærði hafi verið að stumra yfir því. Í skýrslunni kemur og fram að barnið hafi ekki svarað sársaukaáreiti, það hafi verið fölt og virtist anda grunnt og hægt. Barninu var strax veitt öndunaraðstoð. Í ljós hafi komið að það var í miklum krampa, hendur og fætur stífir og sveigðir inn á við. Barnið var flutt með sjúkrabílnum á bráðamóttöku og fylgdi ákærði með. Eftir honum er haft í skýrslunni að hann hafi neitað því að barnið hefði verið veikt og þetta hefði komið skyndilega upp á eins og þar segir. Ákærði hafi enn fremur neitað því að barnið hefði orðið fyrir áverkum eða fallið. Þá segir að hann hafi verið áhyggjufullur og spurt í sífellu um gang mála og hvort barnið myndi ná sér.
Í vottorði sérfræðings í heila- og taugaskurðlækningum á Landspítalanum segir að komið hafi verið með barnið á bráðamóttöku barna á Barnaspítalanum við Hringbraut að kvöldi 17. mars. Erfitt hafi verið að fá fram hver aðdragandinn að veikindum barnsins hafi verið, en eftir ákærða er haft að um morguninn hafi barnið verið eðlilegt, hitalaust og það hafi drukkið og borðað. Um daginn hafi barnið verið órólegt og grátið mikið. Síðan hefði það orðið óvenju slappt og lítið samband náðst við það. Þá er greint frá því að komið hafi verið með barnið á bráðamóttöku 28. desember 2012 vegna óútskýrðra marbletta á læri. Teknar hafi verið blæðingarblóðprufur sem hafi verið eðlilegar. Málið hafi verið tilkynnt til Barnaverndar.
Við komu á bráðamóttökuna hafi lífsmörk verið sem hér segir: hiti 36,5°C, öndunartíðni 40-56/mín, súrefnismettun 100% með 10 L af súrefni í öndunargrímu, blóðþrýstingur 113/52mmHg. Fljótlega eftir komu var tekið eftir því að annað sjáaldrið var víðara en hitt og þá var farið með barnið í tölvusneiðmyndatöku. Þá var klukkan 20.00. Síðan segir í vottorðinu: „Tölvusneiðmyndin sýndi útbreidda blæðingu hægra megin undir höfuðkúpubeini sem kallast innanbastsblæðing, sem liggur yfir nær öllu hægra heilahvelinu og inn á milli heilahvelanna einnig. Allt er þetta hægra megin. Þetta veldur talsverðum þrýstingi á heila og miðlínutilfærslu á heila yfir til vinstri hliðarinnar upp á 8 mm. Einnig sjást lágþéttnibreytingar með óskörpum skilum á milli hvíta og gráa heilavefs á gagnaugasvæði heilans hæ. megin og neðan til á hnakkasvæði heilans sömu megin. Einnig eru vökvasvæði við efsta hluta heilastofns minnkuð. Þetta getur samrýmst bjúg. Útlit blæðinganna á tölvusneiðmyndinni geta samrýmst, annað hvort mjög ferskri blæðingu þar sem blæðing er enn þá í gangi og einnig að um hafi verið að ræða bæði ferska blæðingu og eldri blæðingu af sama toga. Engin höfuðkúpubrot sáust á tölvusneiðmyndinni.“
Barnið var flutt á gjörgæsludeild, það svæft og sett í öndunarvél. Það var síðan flutt á heila- og taugaskurðdeild. „Fyrir þann flutning hefur hún víkkað bæði sjáöldur augnanna, þá merki um verulega aukinn þrýsting í heila og verulega hækkaðan blóðþrýsting sem bendir til þess sama.“ Þá segir að við líkamsskoðun hafi engin ytri áverkamerki sést, hvorki á höfði, bol né fótum, en ofarlega á báðum upphandleggjum, sérstaklega hægra megin hafi sést litlir marblettir, alveg upp við holhönd. Enn fremur segir að barnið hafi ekki verið beitt hjartahnoði eða þrýstingi á brjóstkassann eftir að það kom á Landspítalann.
Nú var farið með barnið á skurðstofu og það skorið í því skyni að fjarlægja blóð yfir hægra heilahveli og létta þrýstingi á heila. „Sú aðgerð gengur upphaflega eins og til var ætlast, komist að blóðinu og var gríðarlega hár þrýstingur. Sá hluti blóðsins sem var vökvakenndur sprautaðist út með háum þrýstingi í gegnum það op sem var gert á heilahimnu. Þegar inn var komið var nokkuð þykkt, storknað blóðlag yfir heilanum hægra megin ofan til sem var fjarlægt. Þegar þrýstingnum innan höfuðkúpunnar var létt, féll hún (barnið) mjög hastarlega í blóðþrýstingi og hófst þá meðferð til þess að hækka blóðþrýstinginn. Á þeim tíma bólgnaði heilinn verulega og blæðingar á víð og dreif hófust innan höfuðkúpunnar, þá sérstaklega upp við miðlínuna, þar sem tengibláæðar tengjast frá heila og upp í bláæðastokka. Var ekki annað að sjá en að þær hefðu verið í sundur, þ.e.a.s. bláæðatengingarnar á milli heilans og bláæðastokksins sem flytur blóð frá heilanum. Ástandið versnaði verulega á næstu mínútum, með miklum heilabjúg, miklum vandamálum með blæðingar frá bláæðum og blóðþrýstingsfalli og var ekki við neitt ráðið. Það var ljóst að stúlkan myndi ekki lifa þetta af og var því aðgerð lokið og húð saumuð yfir.“
Barnið var flutt á gjörgæsludeild með lágan blóðþrýsting og þar lést það klukkan 02:23 aðfaranótt mánudagsins 18. mars. Í lok vottorðsins segir: „Útlit blæðingarinnar er nokkuð dæmigert fyrir blæðingu af völdum áverka, höggs eða heili kastast til innan höfuðkúpu. Þeir marblettir sem sáust á upphandleggjum benda einnig sterklega til kynna að áverki hafi átt sér stað. Ekki er ólíklegt að blæðingin sé af misjöfnum aldri miðað við útlit tölvusneiðmyndar en þó getur hér verið einvörðungu um ferska blæðingu að ræða.“
Lík barnsins var krufið og leiddi krufningin í ljós veruleg áverkaeinkenni: „Þannig fundust í andliti, vinstra eyra, báðum handarkrikum, hægri handlegg, vinstra læri, hægri kálfa, baki og við neðri brún hnakka blæðingar sem af litnum að dæma ber að flokka sem mar og var nýlegt og nokkurn veginn frá sama tíma. Við krufningu á lögum húðarinnar, undirliggjandi fituvef og vöðvum greindust við fellingar handarkrika báðum megin blæðingar í fituvef undir húðinni, sem svara til blæðinganna sem lýst hefur verið frá ytra sjónarhorni. Á baki greindust, auk blæðinganna sem voru sýnilegar utanfrá, frekari blæðingar í dýpri vöðvalögum vinstra og hægra megin, og í vinstri og hægri handlegg greindust blæðingar í húð og undirliggjandi fituvef sem svara til blæðinganna sem lýst hefur verið frá ytra sjónarhorni. Í neðri útlimum fundust engar blæðingar undir húð, fyrir utan staðina þar sem voru nálagöt. Enn fremur greindist blæðing í ytri hjartahimnu við hjartaoddinn. Fyrir liggur ástand þar sem hluti höfuðkúpunnar hefur verið numinn brott og hluti innanbastsblæðingarinnar fjarlægður. Mar á handleggjum og baki var álíka stórt og eftir litnum að dæma varð marið til á sama tíma. Marið ber að meta sem för eftir grip og er það á þeim hlutum líkamans sem eru dæmigerðir þegar einstaklingi er haldið föstum. Ekki er nóg að snerta/lyfta upp barni með venjulegu afli til að framkalla slíkt mar. Til þess þurfa miklir kraftar að vera að verki. Blæðingarnar sem greindust á samsvarandi stöðum í húð, undirliggjandi fituvef, vöðvum og bandvefsreifum undirstrika þá ályktun að beitt hafi verið miklu afli við að halda barninu föstu. Blæðingarnar við hjartaoddinn má einnig rekja til áhrifa mikilla krafta (þrýstings).“ Síðar í krufningarskýrslunni segir: „Aldursgreining áverka skilaði aðeins takmörkuðum niðurstöðum þar sem örugg vitneskja um að barnið hafi lifað í nokkrar klukkustundir gerir aðeins kleift að afmarka tímapunkt atburðarins við að hann hafi átt sér stað fáeinum klukkustundum fyrir andlátið. Afgerandi fyrir þessa niðurstöðu var vöntun á átfrumum í hinum ólíku blæðingarstöðum, sem koma fram nokkrum klukkustundum (þó innan við 24 klst.) eftir að áverkinn á sér stað. Áverkarnir gáfu allir sömu vefjafræðilegu niðurstöðuna. Því ber að ganga út frá að þeir hafi allir orðið til fáeinum klukkustundum fyrir andlátið. Á grundvelli rannsóknarinnar er ekki hægt að dæma um það hvort um fleiri en eitt áverkatilvik hafi verið að ræða innan þessara tímamarka. Röntgenrannsóknin sýndi gamalt brot 6. rifbeins vinstra megin sem og gamalt beinbrot í vinstri kálfa. Þessar niðurstöður, hvort heldur báðar til samans eða hvor um sig, eru vísbendingar um fyrri áverkatilvik. Ekki er unnt að segja til um það hvort þessi beinbrot hafi orðið til á sama tíma. Alltént urðu þau til á öðrum tíma en þau tilvik sem hér hefur verið lýst og sannar það að um er að ræða áverkatilvik frá ólíkum tímum sem jafnframt er eitt helsta auðkenni líkamlegs ofbeldis gegn börnum. Beinbrot með vægum eða engum einkennum eru ekki óalgeng, sérstaklega þegar ungbörn eiga í hlut. Varðandi staðsetninguna greindust beinbrotin á stöðum sem eru dæmigerðir fyrir ofbeldisáverka. Þar sem bein barna eru mjög sveigjanleg þarf verulega harkalegur áverki að eiga sér stað til að valda beinbroti.
Í tölvusneiðmyndaskoðun greindist bæði gamalt og nýtt mar sem einnig bendir til þess að áverkar hafi átt sér stað á mismunandi tímum. Innanbastsblæðingar verða til annaðhvort þegar höfuð og harður flötur skella saman (vanalega með sjáanlegum ytri áverkum) eða við snúningsáverka (Rotationstraumata) (án sjáanlegra ytri áverka).
Augnskoðun eftir andlát sýndi innanbastsblæðingu umhverfis sjóntaug (nervus opticus) hægra auga og mjög greinilegar blæðingar í sjónhimnu í hægra auga, en ekki eins greinilegar í vinstra auga. Blæðingarnar greindust bæði í miðju og á jaðrinum. Þessar greiningar benda til ungbarnahristings. Ekki er ástæða til að gera ráð fyrir að þessir áverkar hafi orðið til við endurlífgunartilraunir eða hækkaðan þrýsting undir höfuðkúpunni.
Taugasjúkdómafræðileg rannsókn leiddi í ljós bráða taugasímaáverka (axonal) í hvelatengslum á milli heilahvelanna tveggja (corpus callosum), í caudal miðheila, í brúnni á framanverðu (vorderseitiger Brückenabschnitt) sem og einkenni bráðs súrefnisskorts í heila (anoxic encephalopathy). Þessar niðurstöður, líkt og aðrar rannsóknaniðurstöður, og ef unnt er útiloka slysaatvik á borð við fall úr mikilli hæð eða bílslys, benda til mikils hristings. Þá er ekki til neinn náttúrulegur sjúkdómur sem gæti útskýrt þessar niðurstöður í samhengi sínu. Einnig frá sjónarhóli taugasjúkdómafræðinnar lést stúlkan af völdum áverka.“
Um dánarorsök segir í skýrslunni að á grundvelli niðurstöðu allra rannsókna megi gera ráð fyrir að dánarorsökin hafi verið miðlæg bilun (failure of regulatory functions) í kjölfar svonefnds ungbarnahristings.
Ákærði gekkst undir geðrannsókn. Í niðurstöðum hennar segir að hann sé örugglega sakhæfur, verði hann fundinn sekur. Ákærði hafi engin merki sýnt um geðrof eða sturlun á skoðunartíma. Grunnpersónuleiki hans sé kvíðinn, fælinn og einrænn. Þá virðist hann vera háður öðrum. Hann virðist, að öllu jöfnu, ekki sýna skap og gæti bælt tilfinningar sínar of mikið. Þá segir að ekki hafi komið fram merki um svo alvarlega persónuleikaröskun, heilaskaða eða greindarskort að það firri hann ábyrgð gerða sinna. Loks segir að framangreind geðræn einkenni ákærða leiði ekki til ósakhæfis samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga og þau útiloki ekki að refsing komi að gagni.
Ákærði, barnið og móðir þess, bjuggu í íbúð í húsi því sem í ákæru getur. Ekki voru fleiri á heimilinu. Samkvæmt gögnum málsins var móðirin nýlega farin að vinna aftur eftir fæðingu barnsins, en ákærði hafði misst vinnu sína nokkru áður og var atvinnulaus. Umræddan dag fór móðirin til vinnu klukkan 17.40 og var barnið þá sofandi. Ákærði skýrði svo frá hjá lögreglu að skömmu eftir að móðirin var farin hefði barnið vaknað og farið að gráta. Það kemur fram í gögnunum að barnið var mjög hænt að móður sinni og vildi helst bara vera hjá henni. Ákærði kvaðst hafa reynt að hugga barnið, látið það hafa leikföng og eins gefið því að borða, en allt kom fyrir ekki og það hélt áfram að gráta. Móðirin hringdi rétt rúmlega klukkan 18.00 og var barnið þá grátandi. Varð að ráði með henni og ákærða að hann færi út að ganga með barnið í vagni. Hann kvaðst hafa gengið með barnið í vagninum í um 10 til 15 mínútur og hafi það grátið allan tímann. Þegar heim var komið hélt barnið áfram að gráta og kvaðst ákærði þá hafa tekið það í fangið til að róa það. Það tókst ekki og skyndilega kvað hann hljóðin í barninu hafa farið að breytast og það hafi virkað eins og máttlaust. Í framhaldinu hefði það misst meðvitund og hefði hann þá leitað til nágranna sinna eins og rakið var. Ákærði hefur staðfastlega neitað að hafa hrist dóttur sína eða á annan hátt veitt henni áverka.
III
Við aðalmeðferð bar ákærði að þáverandi sambýliskona sín og móðir barnsins hefði farið til vinnu um klukkan 17.45 þennan dag. Hann kvaðst hafa verið eftir heima, á neðri hæðinni, og litið eftir barninu. Um fimm til tíu mínútum eftir að móðirin var farin hefði barnið vaknað svona hægt og rólega eins og hann orðaði það. Hann kvaðst ekki hafa farið strax að rúminu heldur beðið til að sjá hvort það myndi ekki sofna aftur. Skömmu síðar hefði barnið farið að gráta og hefði hann þá farið til þess og reynt að hugga það. Hann kvaðst hafa tekið barnið í fangið og um það leyti hefði móðirin hringt og hefði hún heyrt grátinn í barninu. Ákærði kvaðst hafa sagt henni að hann myndi fara út með barnið í gönguferð. Hann kvaðst þó fyrst hafa reynt að róa barnið með plastflösku og eins hefði hann gefið því banana. Á þessum tíma hefði barnið verið enn á brjósti og hvorki tekið pela né snuð. Barnið hefði ekki haft áhuga á þessu og ekki hætt að gráta. Hann kvaðst því hafa klætt barnið og sig í útiföt og farið út í tíu til fimmtán mínútna göngu. Barnið hefði grátið allan tímann sem þau voru í gönguferðinni og hefði hann því haldið aftur heim. Í gönguferðinni kvaðst hann hafa rekist á nágranna sinn en þeir hefðu ekki ræðst við, enda verið hvor sínum megin á götunni. Er heim var komið hefði hann haldið áfram að reyna að hugga barnið og róa. Síðan kvaðst hann hafa tekið eftir því að gráturinn var ekki eins hávær og áður og barnið hefði orðið hreyfingarlítið. Þegar þetta var hefði barnið legið á öxl hans. Einnig kvaðst hann hafa tekið eftir því að hljóðin sem barnið hefði gefið frá sér hefðu verið óvenjuleg. Þessi hljóð hefðu verið á milli þess að vera korr og kjökur. Hann kvaðst hafa reynt að ná sambandi við barnið en það hefði ekki gengið og kvaðst ákærði því hafa farið til nágranna sinna og beðið þá að hringja eftir aðstoð. Þá hefðu verið liðnar fimm til tíu mínútur, kannski meira, frá því hann hefði komið úr gönguferðinni með barnið.
Nánar spurður um samskipti móðurinnar við barnið áður en hún fór til vinnu kvaðst hann hafa verið á efri hæð íbúðarinnar en hún með barninu á þeirri neðri. Hann kvaðst hafa vitað til þess að hún hafi sinnt barninu og svæft það. Það hefði getað tekið um hálftíma til klukkutíma. Áður en hún hefði farið með barnið niður hafi það grátið en hann kvaðst ekki átta sig á hvort það hafi haldið áfram að gráta eftir að niður var komið. Þegar móðir barnsins fór til vinnu hefði barnið verið sofandi. Ákærði kvaðst þá hafa tekið við að líta eftir því en áður hefði hann verið í tölvunni og meðal annars spjallað við móður sína. Það hafi verið um klukkan þrjú sem hann hefði spjallað við móður sína og hann hefði svo verið í tölvunni þar til móðirin fór til vinnu. Hann hefði bæði verið í tölvuleik og á fésbók, auk þess að vera í sambandi við móður sína. Hann kvaðst hafa tekið tölvuna með sér niður þegar móðirin fór til vinnu og verið á fésbók þegar barnið hafi vaknað. Þá kvað ákærði barnið yfirleitt hafa grátið hjá öllum öðrum en móðurinni. Það hefði þó verið rólegra ef það gat séð móðurina.
Ákærði kvað barnið hafa hegðað sér eðlilega sólarhringinn áður en það lést en hann kvaðst ekki geta borið um hvort eða hvernig það hafi nærst. Hann kannaðist við að sama dag og barnið lést hefðu verið teknar af því myndir sem eru meðal gagna málsins. Þá kannaðist hann ekki við að hafa séð marbletti á því þennan dag, enda myndi hann ekki til þess að hafa skipt á henni þennan dag. Fyrir þennan dag kvaðst hann hafa nokkrum sinnum verið einn með barnið. Þá hefði móðirin ýmist verið í vinnu eða farið á kaffihús. Þegar svo stóð á hefði barnið yfirleitt verið sofandi. Ef það vaknaði hefði hann farið með það í gönguferð. Ákærði kannaðist við að hafa séð marblett á barninu um jólaleytið en ekki kvaðst hann vita hvernig það hefði fengið hann. Borið var undir ákærða það sem segir um áverka á barninu, það er brot á sköflungi og rifbeini, og kvaðst hann engar skýringar hafa á þeim. Ákærði kvaðst ekki hafa séð móður barnsins hrista eða meiða barnið. Hann kvað þau hafa rætt hvaða afleiðingar það gæti haft ef ungabarn væri hrist. Ákærði var spurður að því hvað hann héldi að komið hefði fyrir barnið umræddan dag. Hann kvað greinilegt að barnið hefði fengið áverka en gat ekki sagt til um af hverju þeir hefðu stafað. Ákærði neitaði að hafa hrist barnið. Hann kvaðst ekki geta sagt hver hefði getað hrist barnið þennan dag. Þá kom fram hjá ákærða að móðir barnsins hefði átt það til að fá skapofsaköst sem hefðu beinst að sér.
Móðir barnsins bar að umræddan dag hefði hún verið með barninu eins og oftast. Upp úr hádeginu hefði hún farið að baka og haft barnið hjá sér í burðarstól. Eins kvaðst hún hafa rætt við móður ákærða á Skype um eftirmiðdaginn. Um klukkan fjögur hefði móðir hennar, bróðir og stjúpi komið með páskaskraut. Þau hefðu stoppað mjög stutt í dyragættinni eins og hún orðaði það. Þá kvað hún myndir hafa verið teknar þennan dag enda sólskin og dagurinn bæði fallegur og skemmtilegur. Hún kvaðst hafa átt að byrja vinnu klukkan sex síðdegis og því farið með barnið niður á neðri hæð íbúðarinnar um tuttugu mínútur yfir fimm til að gefa því. Síðan hefði hún lagst með barnið upp í rúm og svæft það. Klukkan á að giska fimmtán mínútum fyrir sex hefði hún tekið strætisvagn. Klukkan rétt rúmlega sex kvaðst hún hafa hringt í ákærða en hann hefði verið í tölvunni á efri hæð íbúðarinnar þegar hún hefði farið til vinnu. Áður en hún fór hefði hún beðið hann um að færa sig niður og vera í tölvunni þar til að geta fylgst með barninu. Þegar hún hringdi hafi barnið verið grátandi og hefði hún boðist til að koma heim, en ákærði kvaðst ætla að fara með barnið út í gönguferð í vagni til að athuga hvort það myndi ekki sofna. Hún kvaðst þá ætla að hringja til baka eftir hálftíma en þegar klukkuna hafi vantað fimmtán eða tuttugu mínútur í sjö hefði nágranni þeirra hringt í sig til að segja sér að verið væri að fara með barnið á spítala. Hún kvaðst einnig hafa rætt við ákærða og síðan tekið leigubíl á sjúkrahúsið.
Móðirin kvaðst hafa ætlað að vinna í þrjá tíma þennan dag. Hún kvaðst hafa hringt heim svona fljótt til að vita hvort ekki væri allt í lagi en hún kvaðst hafa getað farið úr vinnunni með litlum fyrirvara. Þá tók hún fram að barnið hefði alltaf grátið hjá ákærða og eins þegar hún sá hann. Þegar aðrir héldu á barninu hefði það einnig byrjað að gráta eftir smástund nema hún hefði verið í augsýn. Móðirin kvaðst ekki hafa viljað að barnið gréti lengi og þess vegna viljað frekar koma heim og hugga það. Almennt hefði barnið sofið um þrjá tíma og stundum lengur eftir að það hafði sofnað. Móðirin kvað grátinn, sem hún hefði heyrt í símanum, hafa verið mjög sáran eins og barnið hefði grátið í nokkurn tíma og væri farið að öskra. Þá kvaðst hún hafa heyrt svona grát áður þegar barnið var hjá ákærða og eins þegar það hafi verið með kveisu. Þennan dag hefði barnið ekki grátið, enda hefði það ekki gert það væri það sátt. Móðirin staðfesti að teknar hefðu verið myndir af barninu og heimilinu þennan dag og að þær væru meðal gagna málsins. Hún kvað ekkert óvenjulegt hafa gerst hjá barninu síðasta sólarhringinn sem það lifði og hún kvaðst ekki hafa tekið eftir marblettum á því þá. Hún kvaðst hafa tekið eftir stórum marbletti í nára barnsins um jólin og spurt ákærða um hann. Hann hefði engar skýringar haft á honum og hefði hún þá leitað til læknis, en ekkert hafi komið út úr því. Barnavernd hefði verið tilkynnt um óútskýrðan áverka á barninu. Síðan kvaðst hún ekki hafa séð marbletti á því. Ákærði hefði neitað að hafa verið valdur að þessum marbletti.
Móðirin kvað ákærða hafa eytt miklum tíma í tölvunni og hann hefði ekki haft mikinn áhuga á fjölskyldulífinu. Þá hefði hann ekki reynt að tengjast barninu. Væri ákærði í tölvunni þá væri eins og hann yrði pirraður ef hún reyndi að ræða við hann. Eins varð ákærði pirraður ef hún bað hann um að aðstoða sig við barnið eða heimilisstörf. Hann hefði hins vegar ekki orðið reiður og ekki skipt skapi. Hins vegar hefði það vakið athygli hennar að ákærði talaði aldrei við barnið, talaði til dæmis ekki við það þegar hann gekk með það um gólf. Það kom fram hjá móðurinni að eingöngu hún og ákærði hefðu umgengist barnið á þessum tíma, enginn annar hefði gætt þess. Þá hefði barnið verið mjög hraust, aðeins einu sinni fengið kveisu. Móðirin kvaðst hafa rætt við ákærða um að ekki mætti hrista ungabörn og hefði hún gert það oftar en einu sinni. Tilefnið hafi verið að hún hefði verið að undirbúa hann undir hlutverkið þar eð hann hefði aldrei umgengist ungabörn. Þá kvaðst hún hafa vitað að hún væri í hættu á að fá fæðingarþunglyndi og hafa heyrt sögur um það. Móðirin kvaðst aldrei hafa séð ákærða hrista eða meiða barnið. Hún kvaðst fyrst hafa heyrt af því að barnið hefði verið beinbrotið eftir andlát þess.
Nágranni ákærða bar að hringt hefði verið dyrabjöllu á heimili sín um sjöleytið að kvöldi 17. mars og hefði það verið ákærði sem hafi verið með barnið í fanginu. Ákærði hefði verið áhyggjufullur, beðið um hjálp og spurt nokkrum sinnum „whats wrong with her?“. Hann kvað sér hafa virst barnið meðvitundarlaust. Ákærði hefði síðan komið með barnið upp í íbúðina en svo hefði verið ákveðið að fara með það út í bíl nágrannans og flytja það á sjúkrahús. Ákærði hefði svo farið með barnið aftur inn í sína íbúð til að klæða það í kuldagalla. Þar hefði ákærði rétt sér barnið og kvaðst hann þá hafa fundið hvað það var máttlaust. Nágranninn kvaðst þá hafa gert sér grein fyrir að eitthvað mikið hafi verið að. Nú hafi verið ákveðið að færa barnið út í bíl en jafnframt að hringja í 112 og hefði sér verið sagt að sendur yrði sjúkrabíll. Hann kvaðst ekkert hafa rætt við ákærða um hvað hefði gerst. Þá kvaðst hann ekki hafa heyrt barnsgrát úr íbúð ákærða þennan dag en hann hefði áður heyrt grát og ekki fundist það óeðlilegt að lítið barn væri að gráta.
Nágrannakona ákærða bar að hann hefði komið til þeirra um kvöldið með barnið. Hún kvað mann sinn hafa farið til dyra og kallað á sig fram í dyr og þar hefði ákærði verið með barnið í fanginu. Hann hafi verið í uppnámi og spurt sig framangreindrar spurningar. Hún kvaðst hafa lagt hönd á enni barnsins og spurt hvort það væri veikt. Ennið hafi ekki verið heitt heldur frekar þvalt. Þau hjónin hefðu ákveðið að barnið þyrfti strax að fara á barnaspítala og einnig að maðurinn myndi fara með ákærða og barninu inn í íbúð þeirra. Barnið hafi verið í innifötum og ákærði hafi verið berfættur. Hún kvaðst ekki hafa tekið barnið í fangið en áttað sig á því að það hafi verið mjög veikt. Ákærði hefði kallað nafn barnsins og hefði það eins og umlað eins og það væri að kveinka sér. Barnið hefði ekki opnað augun. Hún kvaðst ekki hafa haft frekari afskipti af ákærða eða barninu. Þá kvaðst hún ekki hafa heyrt barnið gráta þennan dag, en oft heyrt það gráta á nóttunni áður. Hún kvaðst hafa rætt við móðurina eins og nágrannar gera og hefði hún sagt að ákærði hjálpaði sér ekki mikið á heimilinu.
Nágranni, sem hitti ákærða er hann var í gönguferðinni með barnið, bar að hafa verið úti að ganga með hundinn sinn þetta kvöld. Hann kvaðst hafa mætt ákærða, er hafi verið með barnavagn. Hann kvaðst hafa gengið á gangstéttinni en ákærði á götunni. Á milli þeirra hafi verið átta til tíu metrar. Þeir hafi ekkert ræðst við. Nágranninn kvaðst ekki hafa heyrt barnsgrát, en hann kvaðst myndu hafa heyrt grát ef um hann hefði verið ræða. Veðrið hafi verið frekar stillt og hann hefði ekki verið með heyrnartól en kvaðst reikna með að hann hafi verið með húfu. Hann kvaðst hafa hitt ákærða klukkan um tíu til tuttugu mínútur yfir sex.
Móðuramma barnsins bar að hafa komið á heimili dóttur sinnar og ákærða klukkan rúmlega fjögur þennan dag ásamt manni sínum og syni. Ákærði hefði komið til dyra en hann hefði ekki heilsað heldur gengið í burtu. Þetta hafi ekki verið óvenjuleg hegðun ákærða sem hafi yfirleitt ekki rætt við sig eða fjölskyldu sína. Móðirin hafi legið á gólfinu ásamt barninu og hafi hún verið að skipta á því. Hún kvað barnið hafa verið að hjala og sprikla. Amman kvað þau hafa stansað í um fimm mínútur og rætt lítillega við móðurina sem hafi sagst vera að fara til vinnu um klukkan sex. Ákærði hafi gengið um, „tiplaði á tánum“, eins og hún orðaði það. Hún kvað hann hafa virst spenntur og taugaveiklaður og hafi hann ekki sagt orð við gestina. Þau hafi svo kvatt og farið og hafi hún ekki heyrt meira fyrr en um kvöldið er dóttir hennar hefði hringt af spítalanum og sagt að trúlegast hefði barnið fengið heilablæðingu. Hún kvaðst síðan hafa farið á Landspítalann í Fossvogi og hitt þar dóttur sína sem hafi verið í miklu áfalli og óhuggandi. Ákærði hafi hins vegar setið og haldið utan um hana en engin merki sýnt, hann hafi verið gjörsamlega flatur eins og hún orðaði það.
Amman bar að barnið hafi verið mjög hænt að móður sinni en farið að gráta þegar ákærði hafi verið með það. Þá kvað hún samband barnsins og ákærða ekki hafa verið í lagi eins og hún orðaði það. Samband dóttur sinnar og ákærða hafi virst gott í upphafi, en hún kvað hana hafa sagt sér skömmu fyrir fæðingu barnsins að hún vildi að ákærði færi af heimilinu en hann hefði neitað. Þá kom fram að dóttir hennar hefði sagt sér að ákærði gerði ekkert á heimilinu, ansaði henni jafnvel ekki heldur væri bara í tölvuleikjum.
Móðir ákærða bar að hafa rætt við hann í gegnum tölvu þennan dag og hefði samtalinu lokið klukkan 14:54. Þau hafi rætt fjölskyldumál og kvaðst hún einnig hafa rætt við móður barnsins. Móðir ákærða kvaðst hafa séð barnið í tölvunni og hefði það verið eðlilegt í alla staði. Meðal annars hefði hún séð móður barnsins skipta á því. Þá hefðu foreldrarnir einnig verið eðlilegir. Barnið hefði farið að gráta og þá hefði samtalinu við móður þess lokið. Móðirin kvað ákærða ekki hafa átt við andlega erfiðleika að stríða um ævina. Hann væri ekki skapmikill og hún hefði aldrei séð hann reiðan. Yrði hann reiður færi hann í burtu. Hún kvaðst einu sinni hafa komið til Íslands og hitt barnið tvisvar til þrisvar sinnum í þeirri heimsókn. Hún kvaðst ekki hafa séð annað en að samskipti barnsins við foreldrana hefðu verið góð. Þá hefði barnið verið heilsuhraust. Í febrúar hefði móðir barnsins sagt sér að henni liði ekki vel með ákærða og væri að hugsa um að slíta sambandinu við hann. Þá kvað móðirin móður barnsins stundum hafa verið pirraða en hún hefði ekki séð hana beita ofbeldi. Móðirin kvaðst hafa spurt ákærða, eftir að hann hafði verið látinn laus úr gæsluvarðhaldinu, hvort hann hefði gert barninu þetta og hefði hann neitað því.
Tvíburasystir ákærða bar að hann væri rólegur og skapgóður að eðlisfari. Hann væri ekki ofbeldishneigður og forðaðist ágreining. Þá kvað hún þetta mál hafa haft mikil áhrif á hann enda hafi hann í raun misst fjölskyldu sína. Systirin kvaðst einu sinni hafa hitt barnið og þá hafi sér virst barnið mest vera með móður sinni en ákærði hafi þó einnig verið með það. Hún kvaðst aldrei hafa orðið vör við að ákærði væri pirraður vegna barnsins. Systirin kvað móður barnsins hins vegar hafa stundum verið öra en ekki pirraða. Þá kvað hún ákærða hafa mikla ánægju af tölvuleikjum en hún vildi ekki segja að hann væri tölvufíkill. Hún kvað samband þeirra ákærða og móðurinnar hafa verið gott og virst hamingjusamt en móðirin hefði þó sagt sér í tölvusambandi eftir að barnið var fætt að hún vildi slíta sambandinu við ákærða. Hún kvaðst hafa spurt ákærða um dánarorsök barnsins en hann hefði svarað að hann vissi ekki hver hún hefði verið.
Vinkona móður barnsins bar að hún hefði hringt í sig þetta kvöld og sagt að barnið væri með blæðingu inn á heila og hefði hún beðið sig að aka ákærða á Landspítalann í Fossvogi frá Landspítalanum við Hringbraut. Vinkonan kvaðst hafa verið um stund á sjúkrahúsinu með ákærða og móðurinni meðan barnið var í aðgerð. Ekkert hafi verið rætt hvað hefði komið fyrir barnið. Hún kvaðst hafa reynt að ræða við ákærða en hann hafi ekki svarað.
Vinkonan kvað ákærða og móðurina hafa búið hjá sér um tíma. Kvað hún móðurina oft hafa verið reiða út í ákærða vegna þess að hann gerði aldrei neitt eins og vinkonan orðaði það. Eins hefði verið erfitt að tala við ákærða og væri eins og hann hefði ekki tilfinningar. Þá kvað hún ákærða alltaf hafa verið í tölvuleikjum og það litla sem hann hefði unnið af heimilisstörfum hefði verið illa unnið. Móðirin ætti það til að taka skapofsaköst og léti hún fólk þá heyra það en hún hefði aldrei beitt ofbeldi. Þá kvað hún barnið hafa farið að gráta ef það sá ákærða og kvaðst vinkonan hafa séð þetta einu sinni er barnið hafi verið þriggja eða fjögurra mánaða. Hún kvaðst einu sinni hafa fengið að halda á barninu og þá hafi móðirin þurft að vera í sjónmáli.
Svæfingalæknir, sem tók á móti barninu á Landspítalanum í Fossvogi, bar að það hafi verið meðvitundarlaust og með víð ljósop sem hafi ekki svarað ljósáreiti. Engar hreyfingar hafi verið í útlimum og engin hljóð hafi heyrst frá því. Barnið hafi því verið djúpt meðvitundarlaust. Blóðþrýstingur hafi verið hár sem og púls og eins hafi það verið með góða súrefnismettun. Barnið hafi verið flutt á skurðstofu þar sem því hafi verið gefin svæfingar- og deyfilyf og gerð aðgerð á höfði þess. Það hafi hins vegar komið í ljós að lífi barnsins yrði ekki bjargað og hafi því aðgerðinni lokið og barnið verið flutt á gjörgæsludeild þar sem það hafi verið í öndunarvél. Smám saman hafi verið dregið úr stuðningi öndunarvélarinnar. Allan tímann hafi blóðþrýstingur verið mjög lágur. Að lokum hefði barnið verið tekið úr öndunarvélinni og hefði það andast í framhaldinu. Læknirinn kvaðst hafa sagt foreldrunum að þegar svona nokkuð kæmi fyrir svona ungt barn yrði að rannsaka það enda hefði barnið ekki getað fært sig sjálft úr stað og því ekki sjálft getað farið sér að voða. Læknirinn kvað ákærða hafa verið mjög þöglan og ekki spurt um neitt.
Þegar barnið hafði verið fært úr fötunum kvaðst læknirinn hafa séð marbletti í holhöndum og á hægri upphandlegg. Síðar hafi einnig sést marblettir framan á bringu. Læknirinn kvaðst ekki muna eftir áverkum á höfði. Læknirinn kvað barnið hafa fengið diazepam í sjúkrabílnum enda hefði verið grunur um að það væri með krampa. Í upphafi aðgerðar hafi barninu verið gefið verkjastillandi og svæfandi lyf.
Heila- og taugaskurðlæknir, sem gerði aðgerð á barninu, staðfesti framangreint vottorð sitt. Hann kvað tölvusneiðmynd af höfði barnsins hafa sýnt blæðingu utanvert á heilanum hægra megin, milli heilans og höfuðkúpunnar. Þetta sé nefnt innanbastsblæðing sem hafi dreift sér yfir megnið af heilahvelinu og aftur á milli heilahvelanna. Þá hafi verið merki um verulegan þrýsting frá hægri hlið yfir til þeirrar vinstri sem hafi þýtt verulega innanbastsblæðingu hægra megin. Læknirinn kvað litla marbletti hafa sést innanvert á öðrum handlegg barnsins en engin áverkamerki hafi sést á höfði þess. Við skurðaðgerð á höfði barnsins hafi þurft að gera stórt op til að komast að blóði, sem sést hafði á sneiðmyndinni. Hvirfilplötu höfuðkúpunnar hafi verið lyft og þar undir hafi heilahimnan verið mjög spennt og blárauðleit. Þegar hún hafði verið opnuð létti þrýstingnum og þunnfljótandi blóðvökvi hafi sprautast út. Þar undir hafi verið storknuð blóðkaka yfir heilanum. Þetta hefði ekki verið gamalt blóð, nokkurra klukkustunda gamalt. Læknirinn kvaðst hafa hreinsað blóðið, sem hefði legið ofan á heilanum. Við þetta hefði blóðþrýstingur barnsins fallið mikið og hafi verið reynt að hækka hann til að tryggja nægilegt blóðflæði til heilans. Er blóðþrýstingurinn hækkaði hafi heilinn byrjað að bólgna. Við þetta hafi ferskar blæðingar byrjað frá bláæðastokknum og þá hafi heilinn bólgnað mjög mikið. Læknirinn kvaðst nú hafa leitað eftir blæðingarstað til að átta sig á hvað hafi verið að gerast og er hann hafi skoðað tengiæðarnar við heilann, svonefndar brúæðar, hafi hann ekki séð samtengingu þar á milli. Það hafi blætt úr brúæðunum og eins til baka úr bláæðastokknum. Þegar hér var komið sögu kvaðst hann hafa séð að ekki yrði við neitt ráðið, um væri að ræða lífshættulega blæðingu og var aðgerðinni þar með lokið. Læknirinn kvað mikinn utanaðkomandi áverka hafa þurft til að valda þessum meiðslum, mikið högg og hristing. Hann kvað þetta einnig geta gerst við alvarlegan áverka, alvarlegt högg, fall úr mikilli hæð, umferðarslys eða önnur samgönguslys. Læknirinn kvað líðan barnsins hafa versnað nokkrum mínútum eftir að það varð fyrir áverkanum og þá hefði hverjum sem er átt að vera ljóst að ástand þess væri ekki eðlilegt. Hann kvaðst enga aðra orsök hafa fundið fyrir áverkunum á barninu en að það hafi verið hrist. Það hefði orðið mjög illa haldið stuttum tíma eftir að það hlaut áverkann.
Réttarmeinafræðingur, sem krufði lík barnsins, bar að dánarorsök þess hafi verið miðlæg líffærabilun vegna alvarlegs höfuðáverka. Við krufninguna hafi komið í ljós að aðgerð hafði verið gerð á höfði barnsins og höfuðkúpubein og blóð verið fjarlægt. Þar hafi verið að finna leifar af innanbastsblæðingu. Heilinn hafi verið bólginn og þyngri og heilafellingarnar hafi verið útflattar. Þar hafi verið greinileg ummerki um blæðingar. Blæðingarnar séu venjulega ekki hin eiginlega dánarorsök heldur fléttast saman nokkrir þættir. Miðlína heilans hafði færst til vinstri þar eð blæðingin var hægra megin og hún hafi þrýst heilamiðlínunni yfir til vinstri og jafnframt þrýst heilanum niður og hefur þá haft áhrif á öndunarstöðvar líkamans. Það sé fyrst og fremst heilabólgan sjálf og sá þrýstingur og útþensla, sem hún veldur, sem er dánarorsökin. Í krufningarskýrslunni kemur fram að um hafi verið að ræða eldri og yngri blæðingar og kvaðst réttarmeinafræðingurinn byggja það á því er aðrir læknar höfðu greint af myndum. Komið hafi fram hjá þeim að um hefði getað verið að ræða blæðingar frá mismunandi tímum, eldri og yngri. Réttarmeinfræðingurinn gat þó staðfest að hluti blæðingarinnar hafi verið nýr. Áverkarnir, sem ollu dauða barnsins, hafi verið yngri en 24 tíma og líklega yngri en 12 tíma og væri sú ályktun byggð á frumurannsóknum. Aðrir áverkar væru eldri en þá ályktun byggði réttarmeinafræðingurinn á gögnum frá öðrum rannsakendum.
Þá hafi lík barnsins borið merki um áverka á andliti, upphandleggjum, brjóstkassa, baki og báðum fótleggjum. Þetta voru merki um blæðingar og var mismunandi hvort þær voru á yfirborðinu niður að fitulagi húðar eða hvort þær náðu niður í dýpri vefjalög. Þá hafi verið rispur á húð á fótleggjum. Þá hafi verið mar á eyrum sem gætu verið ummerki um að barnið hafi verið slegið. Allar þessar blæðingar hafi myndast meðan barnið var á lífi og þær hafi verið nýjar. Þá kvað réttarmeinfræðingurinn blæðingu á hjartahimnu við hjartaoddinn vera ummerki um fast grip og tengjast ummerkjum á brjóstkassa. Blæðingar í augum séu að öllum líkindum afleiðingar hristings þegar heili og höfuðkúpa hreyfist mishratt. Við það geta skaddast æðar sem valda þessum blæðingum. Á sama hátt eru áverkar á heila afleiðingar hristings. Þetta séu dæmigerð einkenni fyrir það sem kallað er „shaken baby syndrome“, allir áverkar barnsins koma heim og saman við að barnið hafi verið hrist. Það útiloki þó ekki að einstaka áverkar geti átt aðrar skýringar en áverkarnir í heild passi algerlega við dæmigerð einkenni ungbarnahristings. Ef ekki eru fyrir hendi aðrar skýringar, svo sem umferðarslys, má rekja áverkana til þess að barnið hafi verið hrist. Þá hafi engin merki fundist um sjúkdóm í barninu. Auk þess hafi taugasérfræðingur greint áverka í framlengdri mænu og er það talið vera mjög skýrt auðkenni um höfuðáverka vegna hristings.
Réttarmeinafræðingurinn kvað útilokað að hægt væri að valda áverkum, eins og barnið var með, af gáleysi. Þetta hefðu verið svo miklir áverkar að útilokað væri að þeim hefði verið valdið af gáleysi eins og til dæmis í leik. Til að valda þessum áverkum þyrfti að beita miklu ákveðnari kröftum. Ekki væri hægt að fullyrða hversu langur tími líði frá því að áverkinn er veittur og þar til barn byrji að missa meðvitund. Þegar um sé að ræða hristingsáverka hjá ungum börnum þá sjáist það strax á háttalagi þeirra. Atferli þeirra breytist og það sé augljóst öllum. Barnið geti verið slappt eða máttleysislegt. Eins geti það grátið áberandi mikið. Þá geti verið um að ræða einkennalaust tímabil frá því áverka er valdið og þar til afleiðingar komi fram, en þetta eigi þó einkum við um eldri börn sem lendi í hefðbundnum slysum. Því yngri sem börn eru, það er eins árs og yngri, þeim mun ólíklegra er að um einkennalaust tímabil sé að ræða. Ekki væri ómögulegt að barnið, sem hér um ræðir, hefði haldið meðvitund í um klukkustund en örugglega hefði samt mátt greina á því breytingar. Spurt var hvort barnið, sem hér um ræðir, hefði getað sofnað eftir að hafa fengið áverkann og síðan vaknað og farið að gráta í um klukkustund án þess að sá, sem annaðist barnið, tæki eftir einhverju misjöfnu. Þetta taldi réttarmeinafræðingurinn mjög ólíklegt. Líklegra væri að barnið hefði fyrst grátið en síðan sofnað. Þá væri almennt ólíklegt að barn, sem hefði fengið þessa áverka, gæti grátið í þennan tíma. Þá leiddi svona áverki fyrr til meðvitundarleysis hjá ungu barni heldur en eldra barni.
Læknir, sem rannsakaði geðheilsu ákærða, staðfesti framangreinda rannsókn. Hann kvað vel hafa gengið að ræða við ákærða þótt hann væri einrænn og þögull. Í fyrstu hefði hann verið í áfalli en síðar hefðu komið fram sorgarviðbrögð. Niðurstaða læknisins var sú að um væri að ræða eðlilega gefinn mann sem væri hlédrægur, kvíðinn og bældur. Hann bæri engin merki um alvarlegan geðsjúkdóm og hefði innsæi í gerðir sínar. Hann væri ekki ofbeldisfullur og vildi ekki lenda í deilum, en ekki væri ljóst við hverju væri að búast ef hann missti stjórn á sér. Ákærði væri frekar stefnulaus í lífinu og ætti það til að vera í sínum hugarheimi og þar með tölvuleikjum. Þetta hafi hann viðurkennt fyrir sér. Ákærði hafi aldrei viðurkennt fyrir sér að hafa gert barninu mein og í lok rannsóknar hafi hann ýjað að því að móðir barnsins gæti hafa gert þetta. Þá hafi komið fram hjá ákærða að móðir barnsins hafi verið driffjöðrin í sambúðinni og hugsað mest um barnið. Ákærði hafi nánast aldrei verið með barnið en hann hefði sagt að hann hefði elskað barnið og saknaði þess og eins saknaði hann móður þess.
Rannsóknarlögreglumaður, sem vann frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Einnig skýrði lögreglumaðurinn upphaf rannsóknarinnar og fyrstu aðgerðir ásamt því hvernig ákæruvaldinu hafi verið gerð grein fyrir framgangi rannsóknarinnar.
IV
Í II. kafla var rakið vottorð heila- og taugaskurðlæknis, sem gerði aðgerð á barninu, og skýrsla réttarmeinafræðings, er krufði lík barnsins. Þá var og rakinn framburður þeirra fyrir dómi. Hjá þessum sérfræðingum báðum kemur fram, eins og rakið var, að barnið hafi orðið fyrir miklum áverka sem hafi verið orsök þess að það lést. Heila- og taugaskurðlæknirinn bar að mikinn utanaðkomandi áverka hafi þurft til að valda þeim meiðslum er á barninu voru, mikið högg eða að það hafi verið hrist eins og rakið var. Hann bar að hann hefði enga aðra orsök fundið fyrir áverkanum en að barnið hefði verið hrist og það hefði orðið illa haldið stuttum tíma eftir að það hlaut áverkann. Réttarmeinafræðingurinn bar á sama hátt og kvað alla áverka á líkinu hafa bent til þess að barnið hefði verið hrist. Hann bar að um hefði verið að ræða dæmigerð einkenni svonefnds „shaken baby syndrome“.
Hinn sérfróði meðdómsmaður er sammála framangreindu og bendir á að höfuðáverkar á líki barnsins hafi verið dæmigerðir fyrir einkenni svonefnds „shaken baby syndrome“. Þar sé um eftirtalin atriði að ræða: Augnbotnablæðingar, innanbastsblæðingar og taugasímaáverka, sem komu í ljós við taugameinafræðilega skoðun á heila barnsins. Síðastnefndu áverkarnir fundust á dæmigerðum stöðum, það er á mótum miðheila og brúar. Aðrir áverkar á líkinu styðja þessa ályktun, svo sem dreifing marbletta og blæðing við hjartaodd. Marblettir á upphandleggjum benda til þess að þar hafi verið tekið um barnið og það hrist. Engin merki voru um blæðingasjúkdóma eða aðra sjúkdóma er gætu hafa valdið þessum einkennum eða átt þátt í dauða barnsins.
Á þeim tíma, sem um ræðir, bjuggu ekki aðrir á heimilinu en ákærði, barnið og móðir þess. Hér að framan var það rakið að móðir ákærða, sem búsett er erlendis, hafi verið í tölvusamskiptum við ákærða og móður barnsins þennan dag. Hún bar að hafa séð til barnsins í tölvunni og hefði það verið eðlilegt í alla staði. Samskiptunum hefði lokið laust fyrir klukkan þrjú. Móðuramma barnsins kom í heimsókn um klukkan fjögur þennan sama dag og hefði þá einnig allt verið eðlilegt eins og rakið var. Þá eru meðal gagna málsins myndir er teknar voru af barninu þennan dag. Á þessum myndum sést barnið, ýmis eitt, með móður sinni og einnig með ákærða. Barnið er í alla staði eðlilegt á myndunum, þær sýna glaðlegt barn sem greinilega líður vel. Eftir að móðuramman fór eru ákærði og móðirin ein með barnið þar til móðirin heldur til vinnu. Þeim ber saman um að það hafi verið klukkan um 17.45. Áður en hún fór hafði hún svæft barnið, en ákærði ber að það hafi vaknað um fimm til tíu mínútum eftir að móðirin fór. Samkvæmt símagögnum hringdi móðirin heim klukkan 18:03 og heyrði barnið gráta sárum kröftugum gráti. Hún bauðst til að koma heim, en úr varð að ákærði fór með barnið í gönguferð. Hann bar að það hafi verið grátandi allan tímann frá því að það vaknaði, grátið meðan á gönguferðinni stóð og eins eftir að heim var komið. Nágranni ákærða, er mætti honum, bar að vísu að hann hefði ekki heyrt barnsgrát úr barnavagninum. Á það er hins vegar að líta að barnið var í vagni og nágranninn taldi sig hafa verið með húfu á höfðinu. Þá bar hann að átta til tíu metrar hafi verið milli sín og ákærða þegar þeir mættust, en þeir ræddust ekki við. Að þessu athuguðu þarf nágranninn ekki að hafa heyrt grát barnsins og telur því dómurinn rétt að leggja frásögn ákærða til grundvallar því að barnið hafi grátið meðan á gönguferðinni stóð. Hér að framan var rakinn framburður ákærða um að eftir gönguferðina, og þegar inn var komið, hafi grátur barnsins ekki verið eins hávær og áður og það hafi orðið hreyfingarlítið. Hann fór þá með barnið til nágranna sinna og hefur gert það í miklum flýti því að hann var berfættur eins og nágrannakona hans bar. Áður hafði hann fært barnið úr útifötum. Skömmu eftir að hann kemur með barnið til nágrannanna hafði hann hringt í móðurina og var klukkan þá 18:53. Klukkan 18:57 er svo hringt í Neyðarlínuna 112. Ákærði neitaði að hafa hrist barnið og gat ekki sagt til um af hverju áverkarnir á því stöfuðu.
Eins og nú hefur verið rakið er það samdóma álit heila- og taugaskurðlæknisins og réttarmeinafræðingsins að barnið hafi látist af völdum áverka eins og rakið var. Þennan áverka hafi barnið ekki getað fengið nema það hafi verið hrist harkalega eða það fallið eða orðið fyrir öðru alvarlegu slysi, eins og umferðarslysi eða því um líku. Frumurannsókn bendir þess til að áverkanum hafi verið valdið innan 24 tíma fyrir andlátið og líklega innan tólf tíma. Hinn sérfróði meðdómsmaður er sammála þessu áliti sérfræðinganna. Ákærði og móðir barnsins kannast ekki við að það hafi fallið eða orðið fyrir öðru slysi síðustu klukkustundirnar sem það lifði. Ömmur barnsins bera að það hafi verið eðlilegt í alla staði klukkan þrjú og fjögur þennan dag. Eftir það eru ákærði og móðir barnsins ein til frásagnar. Þau bera bæði að barnið hafi verið eðlilegt í alla staði á þessum tíma. Eftir að móðirin fór til vinnu er ákærði einn með barnið í um það bil eina klukkustund áður en hann kemur til nágranna sinna. Hvorki ákærði né móðirin bera um óeðlilega hegðun barnsins á þeim tíma sem líður frá því móðuramman fer og þar til það vaknar og fer að gráta eftir að móðirin er farin til vinnu. Þess ber að geta að myndirnar eru teknar á þessu tímabili.
Þegar allt framanritað er virt er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi, eftir að hann kom úr gönguferðinni með barnið, hrist það svo harkalega að það hlaut þá áverka, sem í ákæru greinir, og leiddu það til dauða eins og rakið var. Engum öðrum en honum er til að dreifa, enda útilokað að móðirin hafi hrist barnið áður en hún fór til vinnu og það síðan sofnað. Áverkarnir eru það miklir að barnið missir meðvitund mjög skömmu eftir að það hlýtur þá. Útilokað er að það hafi vaknað eftir að hafa orðið fyrir áverka og grátið í nærfellt eina klukkustund og svo misst meðvitund.
Þegar litið er til þess hversu mikla áverka barnið bar er útilokað annað en að ákærði hafi hrist það allharkalega. Honum átti ekki að geta dulist að með því gat hann valdið barninu verulegum áverkum. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis. Ákærða hefur ekki áður verið refsað. Með hliðsjón af atvikum öllum er refsing hans hæfilega ákveðin 5 ára fangelsi. Til frádráttar refsingunni skal koma gæsluvarðhaldsvist ákærða eins og í dómsorði greinir.
Ákærði byggir kröfu sína um frávísun bótakröfu móðurinnar meðal annars á því að kröfunni hafi ekki verið komið á framfæri við lögreglu. Greinargerð með kröfunni hafi ekki verið látin fylgja með fyrirkalli þegar ákæran var birt og hún hafi ekki verið lögð fram við þingfestingu. Bótakrafa móðurinnar var móttekin af ríkissaksóknara 2. desember 2013 og ákæra var gefin út 3. desember. Greinargerð með kröfunni fylgdi gögnum málsins til dómsins og var hún lögð fram við þingfestingu, 16. desember, sem hluti af dómskjali nr. 4. Fyrirkall í málinu var birt lögmanni ákærða, sbr. 1. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008, og honum afhent afrit af ákærunni þar sem bótakrafan er gerð. Fyrir mistök dómsins fylgdi ekki eintak af greinargerðinni með fyrirkallinu og merkti því lögmaðurinn ekki í þar til gerðan reit á fyrirkallinu eins og gert er þegar tekið er við greinargerð. Verður ekki betur séð en lögmaðurinn hafi samþykkt að veita ákærunni viðtöku án þess að greinargerðin hafi fylgt með. Samkvæmt þessu var bótakrafan réttilega send ríkissaksóknara, sbr. 1. mgr. 173. gr. nefndra laga, og hún send dóminum ásamt öðrum gögnum málsins. Engin efni eru því til að vísa bótakröfunni frá vegna þess að hún hafi ekki verið réttilega lögð fyrir dóminn.
Með vísun til þess að ákærði hefur verið fundinn sekur um að vera valdur að dauða barnsins þykir móðirin eiga rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og eru þær hæfilega ákveðnar 3.000.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan við þingfestingu og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þingfestingu.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns móðurinnar eins og í dómsorði greinir. Launin og þóknunin eru ákveðin með virðisaukaskatti.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, og Barbara Björnsdóttir og Pétur Lúðvígsson barnalæknir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 ár, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 18. til 26. mars 2013.
Ákærði greiði A 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. mars 2013 til 16. janúar 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 607.394 krónur í sakarkostnað, málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Víðis Smára Petersen hdl., 2.510.000 krónur og þóknun réttargæslumanns A, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 456.425 krónur.