Hæstiréttur íslands

Mál nr. 289/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 23

Föstudaginn 23. júlí 1999.

Nr. 289/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                                             

Kærumál. Gæsluvarðhald. a. og b. liður 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en gæsluvarðhaldstími styttur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júlí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. desember 1999 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar úrskurðar verður fallist á að skilyrðum a. og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Að virtum gögnum málsins þykja skilyrði 2. mgr. 103. gr. laganna einnig vera fyrir hendi. Verður varnaraðili látinn sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans í héraði, þó eigi lengur en til 1. desember 1999 kl. 16.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans í héraði, þó eigi lengur en til 1. desember 1999 kl. 16.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 1999.

Ár 1999, þriðjudaginn 20. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Kristjönu Jónsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

Í greinargerð lögreglu kemur fram [...].

[...]

Verið sé að rannsaka ætlað brot kærða á 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing fyrir manndráp geti samkvæmt þeirri lagagrein varðað allt að ævilöngu fangelsi. Telja verði nauðsynlegt með tilliti til rannsóknarhagsmuna og almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist sé.

Fyrir liggur, samkvæmt kröfu og rannsóknargögnum, að rannsókn málsins er ekki nærri lokið. Ætlað brot kærða telst varða við 211. gr. almennra hegningarlaga ef sannað yrði. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja verður að telja að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið umræddan verknað. Með hliðsjón af atvikum í máli þessu þykir ekki unnt að útiloka að kærði muni reyna að koma sér úr landi eða með öðrum hætti að koma sér undan málssókn eða fullnustu refsingar. Telst ákvæðum a- og b-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 því fullnægt.

Brot það sem kærða er gefið að sök er mjög alvarlegt. Í ljósi þess telst jafnframt fullnægt því ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að nauðsynlegt sé, með tilliti til almannahagsmuna, að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Í ljósi þessa þykir mega taka kröfu lögreglustjórans í Reykjavík til greina eins og greinir í úrskurðarorði.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð :

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. desember 1999. kl. 16:00.