Hæstiréttur íslands

Mál nr. 588/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Fimmtudaginn 3. nóvember 2011.

Nr. 588/2011.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. október 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. nóvember 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. október 2011.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], með lögheimili að [...],  [...], dvalarstað að [...], [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. nóvember nk., klukkan 16:00 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. 

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjóra með kröfunni kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi  handtekið kærða ásamt öðrum manni föstudagskvöldið 28. október 2011, í heimahúsi í [...], í tengslum við rannsókn lögreglu á innbroti í veitingahúsið [...] þar sem stolið var miklu magni af áfengi. Í nefndu íbúðarhúsi hafi fundist töluvert magn af áfengi. Lögregla hafi tekið skýrslur af ætluðum samverkamönnum kærða og hafi þar komið fram að  kærði hafi átt þátt í áðurnefndu innbroti. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað sök en borið að honum hafi verið boðið að kaupa áfengi, sem hann hafi þegið, en hann hafi grunað að um væri að ræða stolna vöru.

Fram kemur að kærði hafi margsinnis komið við sögu lögreglu og nú séu til rannsóknar tuttugu og fjögur mál þar sem hann sé grunaður um aðild að ýmiskonar þjófnaðarbrotum og eignaspjöllum. Fjögur þessara mála séu til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á Selfossi, en annars séu málin dreifð um landið m.a. séu til rannsóknar mál hjá lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, lögreglustjóranum á Suðurnesjum og lögreglustjóranum í Borgarnesi.

                Í greinargerð lögreglustjóra og framlögðum rannsóknargögnum kemur fram að eftirtalin mál séu til rannsóknar hjá embættunum:  

033-2010-2432

                Hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sé í ákærufarvegi mál vegna innbrots í sumarbústað við [...] þann 17. apríl 2010.

                014-2011-1638

                Kærði sé grunaður um aðild að innbroti að [...] í [...] þann 2. mars 2011,  þar sem fartölvu, myndavélum o.fl. var stolið, en kærði hafi haft afnot af bifreið sem tengd sé við innbrotið.

                007-2011-15488

                Kærði hafi verið handtekinn í tengslum við rannsókn á innbroti og þjófnaði að [...] í [...] þann 13. mars 2011. Kærði hafi viðurkennt brotið.

                033-2011-1743

                Í máli þessu hafi kærði verið handtekinn í tengslum við rannsókn annars máls og þá hafi fundist hjá honum þýfi úr innbroti í sumarhús að við [...] þar sem áfengi og far- og leikjatölvu var stolið.   

033-2011-1746

                Kærði sé grunaður um aðild að innbroti í sumarbústað þann 16. mars 2011 þar sem umtalsvert eignatjón hafi orðið en engu hafi verið stolið.

                007-2011-28836

                Fyrir liggi játning kærða á innbroti í söluturninn [...] í [...] þann 15. maí 2011.

                007-2011-34092

                Fyrir liggi játning kærða á þjófnaði og eignaspjöllum á bifreið þann 26. maí 2011.

                007-2011-42970

                Fyrir liggi játning kærða á innbroti að [...] í [...] þann 13. júlí 2011.

                031-2011-2590

                Þann 9. ágúst 2011 var varsla á fíkniefnum afgreidd  með vettvangsskýrslu.

                013-2011-1762

                Kærði sé grunaður um innbrot í sundlaug í Skorradal þar sem unnin voru eignarspjöll en kærði hafi ekki enn verið yfirheyrður hjá lögreglu. 

                007-2011-52610

                Fyrir liggi játning kærða á innbroti í hótelherbergi á [...] þann 29. ágúst 2011 þar sem fartölvu var stolið.

                007-2011-53175

                Fyrir liggi játning kærða á þjófnaði úr skápum starfsmanna í [...] þann 30. ágúst 2011.

                007-2011-53024

                Brotist hafi verið inn í verslunina [...] við [...] þann 30. ágúst 2011 og hafi kærði sést á upptöku, en hann neiti sök.

                008-2011-10302

                Fatnaði hafi verið stolið úr fataskápum í [...] þann 12. september 2011 og hafi kærði sést á upptökum eftirlitsmyndavéla, en kærði hafi ekki enn verið yfirheyrður hjá lögreglu.

                007-2011-57110

                Kærði neitar sök í rannsókn lögreglu á sölu og dreifingu á fíkniefnum þann 17. september 2011. 

                013-2011-2071

                Fyrir liggi játning kærða á aðild að innbroti í sumarbústað í [...] þann 13. október 2011.

                024-2011-5137

                Kærði  hafi verið handtekinn þann 13. október 2011 á vettvangi innbrots í sumarbústað með þýfi úr sumarbústaðnum í vörslum sínum.

                024-2011-5141

                Kærði hafi verið handtekinn þann 13. október 2011 vegna annars máls og var þá með þýfi úr innbroti í hjólhýsi í vörslum sínum og viðurkenndi brotið.  

                024-2011-5142

                Kærði hafi verið handtekinn þann 13. október 2011 vegna annars máls en viðurkenndi þá tilraun til innbrots í sumarbústað. 

                013-2011-2101

                Kærði sé grunaður um aðild að innbroti í sumarbústað við [...] í [...] þann 17. október 2011, þar sem verkfærum var stolið, en kærði hafi ekki enn verið yfirheyrður hjá lögreglu.

                033-2011-7110

                Kærði hafi verið handtekinn þann 17. október 2011 í tengslum við rannsókn á innbroti og þjófnaði á bifreið á verkstæði [...] í [...].

                013-2011-2158

                Kærði sé grunaður um aðild að innbroti í vinnuskúr við sementsverksmiðju við [...], en kærði hafi ekki enn verið yfirheyrður hjá lögreglu.

                Lögreglustjóri rekur í greinargerð sakarferil kærða sem sé nokkur þrátt fyrir ungan aldur kærða. Kærði hafi fimm sinnum hlotið dóm fyrir brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þann 18. febrúar 2011 hafi kærði dæmdur í tuttugu mánaða fangelsi, þar af sautján mánuði skilorðsbundna í tvö ár, í Héraðsdómi Reykjavíkur og sé ljóst að kærði hafi rofið skilorð dómsins. 

                Miðað við þann fjölda mála sem um ræðir hjá kærða, sem og rof hans á skilorði, þyki ljóst að verði kærði fundinn sekur fyrir ofangreind brot, sem talin eru varða við XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 259. gr. sömu laga, muni kærði fá óskilorðsbundna fangelsisrefsingu. Kærði hafi verið mjög virkur í brotastarfsemi að undanförnu. Að því sögðu og með vísan til samfellds brotaferlis kærða, sem hafi færst mjög í aukana á síðustu dögum og vikum, sé það mat lögreglustjóra að kærði muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Í máli þessu liggur fyrir að eitt þeirra mála sem kærði er grunaður um að hafa framið er í ákærumeðferð hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, en um er að ræða innbrot í sumarbústað við [...] þann 17. apríl 2010. Þá er kærði grunaður um fjölmörg brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 259. gr. sömu laga á tímabilinu 2. mars til 28. október 2011, eins og rakið hefur verið hér að framan og eru mörg þeirra framin á síðustu vikum og dögum. Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar fyrir dómi greindi kærði frá því að hann hafi verið yfirheyrður vegna máls nr. 008-2001-10302, og að hann hafi játað sök í því máli. Þá liggur fyrir að kærði hefur einnig játað sök í yfirheyrslum hjá lögreglu í níu af þeim rúmlega tuttugu málum sem rakin eru í greinargerð lögreglustjóra, en eftir sé að yfirheyra kærða í nokkrum málum. Kærði, sem er ungur að árum, á að baki nokkuð samfelldan sakarferil frá miðju ári 2008 þegar hann var sextán ára, en þá var ákæru á hendur honum fyrir þjófnað frestað skilorðsbundið í tvö ár. Kærði var í apríl 2009 dæmdur í 20.000 króna sekt fyrir þjófnað og í júní það sama ár var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi, fyrir þjófnað. Kærði rauf skilorð dómsins og var dæmdur í 20 mánaða fangelsi, þar af 17 mánuði skilorðsbundið í tvö ár, með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. febrúar 2011, en í því máli var hann meðal annars sakfelldur fyrir fyrir þjófnað og nytjastuld. Þá var kærða með dómi þann 2. maí 2011 dæmdur hegningarauki fyrir þjófnað en ekki gerð sérstök refsing.

Kærði er grunaður um rúmlega tuttugu brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 259. gr. sömu laga á tímabilinu 2. mars til 28. október 2011, og eru mörg þeirra framin á síðustu vikum og dögum. Kærði hefur játað sök í yfirheyrslum hjá lögreglu í níu af þessum málum en rannsókn nokkurra þeirra er skammt á veg komin. 

Þegar gæsluvarðhaldskrafan var tekin fyrir sagðist kærði aðspurður búa ásamt kærustu sinni á heimili vinar síns og móður hans í [...]. Kærði kvaðst vera atvinnulaus og hafa framfærslu af bótum frá sveitarfélaginu enda hafi honum haldist illa á vinnu. Hann kvaðst vera fullur iðrunar vegna gerða sinna og helst vilja geta breytt um lífstíl en hann ráði ekki við sig og fari alltaf aftur í sama farið.

Með vísan til þess sem að framan er rakið úr greinargerð lögreglustjóra og framlagðra rannsóknaragagna þykir liggja fyrir að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggi við. Þá þykir einnig með vísan til framanritaðs og þess sem fram kom hjá kærða sjálfum fyrir dómi mega fallast á það með lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið. Einnig þykir rökstuddur grunur leika á að kærði hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. febrúar 2011, en öll brotin sem kærði er grunaður um að hafa framið utan eitt eru framin eftir að áðurnefndur dómur féll. Þá hefur kærði játað sök í hluta þeirra mála.

Með vísan til framanritaðs og í ljósi brotaferils kærða undanfarnar vikur telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á Selfossi. Með hliðsjón af öllu framangreindu þykja vægari úrræði ekki koma til greina og verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. nóvember 2011, klukkan 16:00.