Hæstiréttur íslands

Mál nr. 853/2016

Ákæruvaldið (Ólafur Þ. Hauksson héraðssaksóknari)
gegn
X (Þórður Már Jónsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. janúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum „verði gert að halda sig á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis.“

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2016.

Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 19. janúar 2017, kl. 16:00.

Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að embættinu hafi þann 7. október sl. borist rannsóknargögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í máli nr. 007-2016-[...]. Hafi héraðssaksóknari höfðað sakamál á hendur ákærða með ákæru dagsettri, 28. október, á hendur ákærða X þar sem honum sé gefið að sök tilraun til manndráps, hættubrot og vopnalagabrot með því að hafa að kvöldi 5. ágúst sl. á bifreiðastæði við [...] í Reykjavík, beint haglabyssu að A sem sat í hægra framsæti bifreiðarinnar [...] og hleypt af skoti úr haglabyssunni af um 10 metra færi sem hæfði hurð og hliðarrúðu bifreiðarinnar að framan hægra megin með þeim afleiðingum að skemmdir urðu á hurðinni, hliðarrúðan brotnaði og A  fékk glerbrot yfir sig og hlaut af því minniháttar skurði en ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn var B. Með þessari háttsemi hafi X stefnt lífi og heilsu þeirra beggja í stórfelldan háska á ófyrirleitin hátt. Í gögnum málsins sé að finna skýrslu C prófessors í vélaverkfræði við Háskóla Íslands þar sem hann hafi verið beðinn um að meta hættueiginleika afsagaðrar haglabyssu sem notuð hafi verið af ákærða umrætt sinn. Í skýrslunni komi m.a. fram að hagldrífan eða kjarni hennar sem hafi að megninu til lent á hurð bifreiðarinnar hægra megin hafi verið um 0,5 metra frá höfði konunnar sem var í bifreiðinni og dreifing haglanna verið það lítil að hefðu höglin hafnað 0,5 metra ofar hefðu þau öll hæft höfuð konunnar sem var í bifreiðinni. Að mati ákæruvaldsins varði þessi háttsemi ákærða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við mat á háttsemi ákærða telji héraðssaksóknari að það verði að horfa til þess að þegar ákærði hafi skotið af haglabyssunni hafi hann verið staddur í miðri íbúðabyggð þar sem fjöldi fólks hafi verið á ferli og þar á meðal börn og ungmenni og þá hafi vopnið verið breytt með þeim hætti að eiginleikar vopnsins séu hættulegri en ella. Tilraun til manndráps geti varðað allt að ævilöngu fangelsi, hættubrot geti varðað allt að 4 ára fangelsi en stórfelld eða margítrekuð vopnalagabrot geta varðað allt að 6 ára fangelsi. Við mat á stórfelldu vopnalagabroti er m.a. litið til þess hversu mikil hætta hlaust af brotinu og hversu hættulegu vopni var beitt, sbr. seinni málsliður 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Ákærði X hafi fram til þessa hjá lögreglu kannast við að hafa skotið úr haglabyssunni á fyrrgreinda bifreið en það hafi ekki staðið til að drepa þá sem í bifreiðinni voru.

Að auki hafi héraðssaksóknari nú gefið út aðra ákæru á hendur ákærða X, dagsett 24. nóvember 2016, í þremur ákæruliðum á hendur honum þar sem honum sé gefið að sök í fyrsta ákærulið sérstaklega hættulega líkamsárás, í félagi við meðákærða Y, í öðrum ákærulið fyrir ólögmæta nauðung einnig í félagi við meðákærða Y og að lokum fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna og án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Ákærði X hafi neitað sök hvað varðar líkamsárás og ólögmæta nauðung en var stöðvaður í akstri er umferðarlagabrotið átti sér stað. Ákærði eigi að baki nokkurn sakarferill og hefur sjö sinnum hlotið dóma í héraðsdómi sem eru aðallega dómar vegna auðgunarbrota, umferðarlagabrota og fíkniefnalagabrota.

Að mati ákæruvaldsins sé ákærði undir sterkum grun um að hafa framið þau brot sem í ákærum héraðssaksóknara greinir en brotin geti varðað allt að ævilöngu fangelsi. Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 6. ágúst sl. fyrst á grundvelli a.- liðar 1. mgr. 95. gr. almennra hegningarlaga sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar um í máli nr. R-243/2016. Frá 12 ágúst sl. hafi ákærði hins vegar sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. almennra hegningarlaga, sbr. Hæstaréttardóma nr. 582/2016 og 627/2016 og úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-341/2016, 365/2016 og 409/2016. Í öll skiptin hafi bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur talið að skilyrði 2. mgr. 95. gr. væru uppfyllt og hafi það verið mat dómstólanna að sterkur grunur væri til staðar um að ákærði X hafi framið það afbrot sem honum sé gefið að sök í ákæru dagsettri 28. október sl. Ekkert hafi fram komið að mati ákæruvaldsins sem gefi tilefni til þess að breyta þessu mati Hæstaréttar að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála í þessu máli sé fullnægt. Með vísan til alvarleika brotanna og þá sérstaklega því broti sem ákærða X sé gefið að sök í ákæru dagsettri 28. október, sé að mati ákæruvaldsins almannahagsmunir fyrir því að ákærða X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Niðurstaða

          Ákærði hefur viðurkennt að hafa hleypt af skoti úr haglabyssu þann 5. ágúst sl., þar sem fólk var saman komið við svokallaða [...] við [...] í Reykjavík. Ákæra hefur verið gefin út, en brot hans eru þar m.a. talin varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Aðalmeðferð málsins er fyrirhuguð 5. janúar 2017. Samkvæmt því er ákærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi.  Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna þessa frá 6. ágúst sl., og á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, frá 12. ágúst sl., en Hæstiréttur hefur í dómi sínum frá 12. september 2016 talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sé fullnægt til að ákærði sæti gæsluvarðhaldi.  Ekkert er fram komið sem gefur tilefni til þess að breyta því mati Hæstaréttar að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt, þar á meðal að varðhald sé í ljósi eðli brotsins nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Því ber að fallast á kröfu héraðssaksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

          Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 19. janúar 2017, kl. 16:00.