Hæstiréttur íslands
Mál nr. 120/2008
Lykilorð
- Skuldamál
- Víxill
- Endurkrafa
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 16. október 2008. |
|
Nr. 120/2008. |
Margrét Guðrún Bergsveinsdóttir og Kynning ehf. (Benedikt Ólafsson hrl.) gegn Ólafi Magnúsi Magnússyni (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Skuldamál. Víxill. Endurkrafa. Aðild.
M og K kröfðust endurgreiðslu fjárhæðar sem greidd var Ó á grundvelli víxils, sem Ó hafði gefið út og leyst til sín. K var samþykkjandi víxilsins en M ábekingur. Víxillinn var greiddur með fyrirvara þar sem M og K töldu sig hafa farið á mis við að koma að vörnum við innheimtu víxilsins vegna takmarkaðs mótbáruréttar samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991. M og K byggðu kröfu sína á því að samkomulag hefði tekist með aðilum um uppgjör sem hefði falist í því að K yrði skipt upp og Ó tæki til baka hluta af starfsemi þess en með því hefði M orðið skuldlaus við Ó og verið leyst undan greiðsluskyldu á umræddum víxli. Talið var að M hefði ekki getað átt aðild að kröfu á hendur Ó á þeim grunni sem málssóknin byggðist á þar sem hún var ábekingur en Ó útgefandi og kvittun við greiðslu skuldarinnar var gefin til K. Samkvæmt þessu var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu Ó af kröfu M. Í niðurstöðu héraðsdóms sem staðfest var í Hæstarétti var ekki talið sannað að bindandi samkomulag um uppgjör skuldarinnar, eins og M og K héldu fram, hefði komist á og var Ó því einnig sýknaður af kröfu K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 3. mars 2008. Þau krefjast þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu á 5.074.695 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2007 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu gera áfrýjendur kröfu um endurgreiðslu fjárhæðar sem greidd var stefnda 17. janúar 2007 á grundvelli víxils, sem stefndi hafði gefið út og leyst til sín eftir að greiðslufall hafði orðið. Var áfrýjandi Kynning ehf. samþykkjandi víxilsins en áfrýjandi Margrét Guðrún Bergsveinsdóttir ábekingur. Segir í stefnu að málið sé höfðað með vísan til 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þrátt fyrir að greiðslan 17. janúar 2006 hafi verið innt af hendi áður en til málssóknar kom á grundvelli víxilsins.
Áfrýjendur hafa ekki gert grein fyrir því á hvaða grundvelli þau höfða málið sameiginlega. Í héraði varðist stefndi kröfu áfrýjanda Margrétar meðal annars með vísan til þess að hún gæti ekki átt aðild að kröfunni, þar sem áfrýjandi Kynning ehf. hefði greitt víxilskuldina. Fyrir liggur að stefndi gat ekki beint kröfu samkvæmt víxlinum um endurgreiðslu víxilskuldarinnar að áfrýjanda Margréti þar sem hún var ábekingur en hann útgefandi. Hann gat eingöngu beint slíkri kröfu að stefnda Kynningu ehf. sem samþykkjanda víxilsins. Það gerði hann með bréfi 11. desember 2006 sem leiddi til þess að víxilinn var greiddur án málssóknar 17. janúar 2007. Við greiðsluna var kvittun gefin til stefnda Kynningar ehf. Að þessu athuguðu er ljóst að áfrýjandi Margrét getur ekki átt aðild að kröfu á hendur stefnda á þeim grunni sem málssóknin byggist á. Verður hinn áfrýjaði dómur því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 staðfestur um sýknu stefnda af kröfu hennar.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann einnig staðfestur um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda Kynningar ehf.
Þá verður hinn áfrýjaði dómur einnig staðfestur um málskostnað.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verða áfrýjendur dæmdir óskipt til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjendur, Kynning ehf. og Margrét Guðrún Bergsveinsdóttir, greiði óskipt stefnda, Ólafi Magnúsi Magnússyni, málskostnað fyrir Hæstarétti 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. febrúar 2008.
Mál þetta var þingfest 14. mars 2007 og tekið til dóms 10. janúar sl. Stefnendur eru Margrét G. Bergsveinsdóttir, Grundartanga 46, Mosfellsbæ og Kynning ehf., Kleppsmýrarvegi 8, Reykjavík en stefndi er Ólafur M. Magnússon, Fífulind 2, Kópavogi.
Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 5.074.695 krónur með dráttarvöxtum sakvæmt 3. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2007 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og þeim gert að greiða stefnda ríflegan málskostnað.
I.
Málavextir eru þeir að stefndi átti á sínum tíma einkahlutafélagið Kynning ehf. sem starfaði að ýmiss konar kynningar- og almannatengslastarfsemi fyrir fyrirtæki, félög og stofnanir. Rekstur félagsins var þríþættur. Í fyrsta lagi var kynningarþjónusta á ýmsum vörum í verslunum og gjafapakkaþjónusta við fyrirtæki. Í öðru lagi var tónleika- og ráðstefnuhald undir firmaheitinu tenór.is og í þriðja lagi var fjölbreytt þjónusta við fyrirtæki og félagasamtök um jólahald undir firmaheitinu jólasveinn.is.
Kynning ehf. hafði m.a. gert verksamning við stefnanda Margréti og jafnframt Örlyg A. Guðmundsson um að taka að sér tiltekin störf í þágu félagsins. Þegar stefndi hóf ásamt öðrum starfrækslu Mjólku ehf. ákvað hann að selja Kynningu ehf. og rekstur félagsins. Úr varð að stefnandi Margrét og Örlygur keyptu félagið og rekstur þess. Var það gert með þeim hætti að stofnað var nýtt hlutafélag undir nafninu Kynning ehf. og nafni eldra félagas breytt í Forte ehf. Í framhaldi af því seldi stefndi stefnanda Margréti með kaupsamningi 4. febrúar 2006 55% í Kynningu ehf. á 6.875.000 krónur og skyldi hún greiða kaupverðið þannig að eigi síðar en 15. febrúar 2006 greiddi hún 2.000.000 krónur en eftirstöðvar með afhendingu skuldabréfs. Við undirritun gat stefnandi Margrét ekki greitt fyrrgreindar 2.000.000 krónur en afhenti stefnda skuldabréf að fjárhæð 4.875.000 krónur fyrir eftirtöðvar. Á sama tíma seldi stefndi 35% hlutafjár í félaginu til Örlygs A. Guðmundssonar á 4.375.000 krónur. Samkvæmt kaupsamningi við hann skyldi hann greiða 2.000.000 við undirritun og sömuleiðis afhenda skuldabréf fyrir eftirstöðvum. Örlygur afhenti stefnda eftirstöðvaskuldabréfið en greiddi ekki fremur en stefnandi Margrét téðar 2.000.000 krónur.
Stefnandi Margrét og Örlygur stóðu nú í skuld við stefnda samtals að fjárhæð 4.000.000 krónur og varð að ráði að þau gáfu út víxil 16.febrúar 2006 til handa stefnda til lúkingar viðskiptum þeirra með gjalddaga 16. maí 2006. Þennan víxil seldi stefndi í sínum banka, Sparisjóð Kópavogs. Með þessu töldust stefnandi Margrét og Örlygur hafa greitt kaupverð hlutabréfanna og fengu öll yfirráð yfir Kynningu ehf. sem eigendur 90% hlutafjár. Greiðslufall varð á víxlinum og að beiðni Kynningar ehf. samþykkti Sparisjóður Kópavogs að endurnýja víxilinn með gjalddaga 22. júní 2006. Við endurútgáfuna vildi bankinn að stefndi gæfi víxilinn út persónulega en að Margrét og Örlygur ábektu. Að sögn stefnda helgaðist það að lélegri fjárhagsstöðu stefnanda Margrétar og Örlygs. Greiðslufall varð einnig á endurnýjunarvíxlinum og varð stefndi að leysa hann til sín að kröfu bankans til þess að forðast lögfræðiinnheimtu. Innleysti stefndi víxilinn 8. september 2006 og fól lögmanni sínum að innheimta hann á hendur félaginu. Þann 17. janúar 2007 var víxillinn greiddur.
Fram hefur komið í málinu að fjárhagsvandi félagsins var orðinn mikill á miðju ári 2006 og fékk því stefndi Þórð Örn Ólafsson ráðgjafa til að hafa milligöngu um að reyna samninga við stefnanda Margréti og Örlyg annars vegar og stefnda hins vegar um breytingar á kaupsamningi. Stefndi var enn eigandi að 10% hlutafjár í félaginu. Var haldinn hluthafafundur þann 20. okktóber 2006 þar sem möguleg uppskipti á félaginu voru rædd. Í fundargerð 30. ágúst 2006 er bókað að farið hafi verið yfir rekstrarvanda félagsins og helstu ástæður hans. Stefndi Ólafur hafi bent á að nauðsynlegt væri að auka tekjur félagsins. Góðir tímar væru framundan. Hann hafi lýst yfir áhyggjum af því að víxlar hjá félaginu væru að fara í lögfræðing næstkomandi föstudag og þá myndi yfirdráttur félagsins í Sparisjóði Kópavogs að öllum líkindum falla niður. Þórður hafi lagt áherslu á að samkomulag aðila um uppskiptingu félagsins yrði kynnt fyrir viðskiptabanka félagsins til samþykktar eða synjunar. Stefndi Ólafur hafi bent á að nauðsynlegt væri að afsetja víxilskuld sem allra fyrst í tengslum við uppskiptingu félagsins. Síðan er bókað í fundargerð að nánar tiltekið byggi uppskipting félagsins á því að stefndi Ólafur og Örlygur taki til sín rekstrareiningu tenór.is og starfsemi hennar, jólasveinabúninga, bifreið og geisladiska ásamt lénum er tilheyri þeirri starfsemi.
Þá liggur fyrir í málinu fundargerð frá 20. október 2006. Er m.a. bókað í fundargerð þess fundar að samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra sé félagið rekið með tapi og ekki hafi verið hægt að greiða stjórnendum laun um nokkurt skeið. Þetta valdi nokkrum áhyggjum og ljóst að auka verði veltu félagsins. Til umræðu hafi komið skuldastaða félagsins og þá sérstaklega víxlamál. Uppskipti félagsins hafi verið rædd og að stefndi Ólafur og Örlygur hafi viljað leysa til sín hluta starfsemi félagsins til þess að gera upp skuldir félagsins við Forte ehf. Síðan er bókað að ákveðið hafi verið að Forte ehf. myndi leysa til sín hluta af starfsemi Kynningar ehf. þannig að stefnandi Margrét og Kynning ehf. væri skuldlaus gagnvart Forte ehf. og stefnda Ólafi. Að loknum uppskiptum væri stefnandi Margrét eigandi alls hlutafjár í Kynningu ehf.
Þá hefur verið lagt fram í málinu skjal sem ber yfirskriftina ,,Uppgjör vegna starfsemi Kynningar ehf.” dagsett 20. október 2006. Þetta skjal er undirritað af Örlygi A. Guðmundssyni og stefnanda Margréti en ekki stefnda Ólafi. Í skjalinu segir m.a. að í tengslum við sölu hlutabréfa í Kynningu ehf. hafi tekist samkomulag við stefnanda Margréti um að Forte ehf. innleysi hluta af eignum og starfsemi Kynningar ehf. sem til séu komnar vegna vanskila á kaupverði. Forte ehf. innleysi alla starfsemi deildarinnar tenór.is og lénið jólasveinn.is, þ.e. allt sem tengist tónleikahaldi, jólasveina- og jólagjafaþjónustu og öðru því tengdu. Við uppgjör þetta yfirtaki Forte ehf. viðskiptakröfu að fjárhæð 249.251 króna, bifreið að fjárhæð 450.000 krónur og jóladiska að fjárhæð 50.000 krónur. Þá fái Forte ehf. einnig í sinn hlut fartölvu, gsm-síma, skrifborð og skrifborðsstóla svo og alla jólasveinabúninga og ýmsa smámuni. Segir síðan í samkomulaginu að með yfirtöku á þessum eignum teljist eftirtaldar skuldbindingar Kynningar ehf. og stefndu Margrétar uppgerðar. Víxlar muni verða afhentir stefndu Margréti án tafar. Þessir víxlar séu víxill hjá Sparisjóði Kópavogs að fjárhæð 4.212.800 krónur og víxill hjá stefnda Ólafi með Kynningu ehf. sem greiðanda að fjárhæð 1.800.000 krónur. Þá taki stefnendur að sér uppgjör vegna víxils hjá KB banka hf. í Borgarnesi að fjárhæð 510.200 krónur.
II.
Stefnandi Margrét sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að á fundinum 20. október 2006 hafi Þórður og stefndi Ólafur handsalað samkomulagið að því tilskyldu að víxill vistaður í KB banka í Borgarnesi yrði greiddur fyrst af stefnanda. Þessi hluthafafundur hafi verið á föstudegi og á mánudag hafi hún greitt umræddan víxil. Strax á mánudagskvöld hafi stefnda Ólafi verið skilað allir þeir munir, tól og tæki, sem taldir hafi verið upp í samkomulagi. Margrét kvað hinar svokölluðu jólakörfur hafa verið stóran hluta af starfsemi fyrirtækisins og líklegast um það bil 60% af veltu fyrirtækisins komið frá þeirri starfsemi. Hún kveðst hafa tekið þessa starfsemi yfir og taldi að henni hafi verið það heimilt samkvæmt samkomulagi aðila. Aðspurð um hvernig hún túlkaði ákvæði samningsins frá 20. október 2006 þar sem segi að jólagjafaþjónusta eigi að koma í hlut Forte ehf. svaraði Margrét því til að hún hafi litið svo á að þar væri einungis átt við jólapakka til barna sem væru gefnir á jólaböllum. Hún kvað Örlyg A. Guðmundsson hafa gengið út úr fyrirtækinu í maí eða júní 2006. Hann hafi séð einsamall um starfsemi tenór.is og hafi hún staðið í þeirri trú að hann hafi haldið áfram með þá starfsemi eftir að hann hætti hjá fyrirtækinu. Taldi hún reyndar líka að stefndi Ólafur hafi haldið þeirri starfsemi áfram með Örlygi.
Í skýrslu sinni fyrir dómi kvað stefndi hafa komið í ljós eftir að stefnandi Margrét og Örlygur höfðu keypt sig inn í fyrirtækið að þau höfðu ekki haft aðgang að fjármagni. Hafi Margrét verið á vanskilaskrá og hafi hann veitt henni persónulegt lán til að gera þau mál upp. Fyrirtækið hafi verið í viðskiptum hjá Sparisjóði Kópavogs. Komið hafi í ljós að sparisjóðurinn hafi ekki viljað lána stefnanda Margréti og Örlygi nema hann væri í ábyrgð. Síðar hafi kaupgreiðslur farið í vanskil og orðið ljóst að þau ættu erfitt með að fjármagna kaupin á fyrirtækinu. Þess vegna hafi verið ákveðið að gefa út umræddan víxil sem hafi í raun verið útborgun í fyrirtækinu og átt að greiðast við undirskrift kaupsamnings. Síðan hafi það gerst að slitnað hafi upp úr samstarfi Margrétar og Örlygs um sumarið og síðsumars hafi mál fyrirtækisins þokast á verri veg. Öllum hafi verið ljóst að stefndi í gjaldþrot. Þess vegna hafi Þórir Örn komið að málinu og hafi hann stungið upp á þeirri lausn að Ólafur leysti hluta af starfseminni til sín og leysti stefnendur undan víxilskuldbyndingunni að einhverju eða öllu leyti. Sparisjóður Kópavogs hafi þá verið búinn að hóta að loka á bankaviðskipti við fyrirtækið. Þreifingar hafi verið um lausn á málinu um haustið. Ólafur kvaðst hafa viljað leysa alla starfsemina til sín en það hafi ekki hlotið hljómgrunn. Að hans mati hafi vandamálið verið að Margrét hafi viljað halda öllu bitastæðu eftir en hann hafi átt að yfirtaka skuldir. Því hafi sátt ekki náðst í málinu. Þórir hafi komið með sendiferðabifreið á starfstöð hans að Vagnhöfða í Reykjavík og í sendiferðabifreiðinni hafi verið ýmiss tól og tæki og jólasveinabúningar sem hann hafi átt að fá samkvæmt samkomulaginu. Hann hafi ekki verið viðstaddur þegar Þórir hafi komið en Þórir hafi skilið eftir lykla að bifreiðinni. Ólafur kvaðst hafa sent bifreiðina og farm aftur til stefnanda og skilað lyklunum. Ólafur kvað það ekki rétt hjá stefnendum að hann hafi haldið áfram starfsemi tenórs.is og jólasveinn.is. Hins vegar hafi Örlygur haldið þeirri starfsemi áfram og hafi hann aðstoðað Örlyg eins og kostur var, m.a. með því að lána honum skrifstofuaðstöðu um skeið en þá hafi hann verið að vinna að því að fá gospel kór til landsins.
Þórir Örn Ólafsson kvað Ólaf hafa beðið sig um að koma og aðstoða við samningsgerð. Hann kvaðst hafa talið eftir fundinn 30. ágúst að kominn væri á samningur. Hafi hann því útbúið samning sem ber yfirskriftina ,,Uppgjör vegna starfsemi Kynningar ehf.” og hafi Margrét og Örlygur skrifað undir samninginn en stefndi neitað því.
Örlygur A. Guðmundsson kvaðst hafa vitað af því að til stæði að skipta upp félaginu en samningaviðræður hafi strandað á einhverju sem hann þekkti ekki. Hann kvaðst hafa tekið yfir starfsemi jólasveinsins.is og tenórs.is. og haldið henni áfram. Stefndi Ólafur hafi ekki komið að þeirri starfsemi að öðru leyti en því að hann hafi lánað honum skrifstofuaðstöðu og verið honum innan handar. Hann kvaðst ekki vita hver staðan væri núna í málefnum félagsins en hann væri enn skráður fyrir 35% hlut eftir því sem hann best vissi.
III.
Stefnandi byggir á því að samkomulag hafi tekist með aðilum um uppgjör sem byggst hafi á því að stefndi Ólafur eða einkahlutafélag hans, Forte ehf., fengi tiltekinn hluta af starfsemi stefnanda Kynningar ehf. til eignar en stefnandi Margrét héldi eftir öllum hlutum í Kynningu ehf. Með því yrði Margrét skuldlaus við stefnda Ólaf og Forte ehf. og leyst undan greiðsluskyldu á umræddum víxli sem stefndi hafi knúið hana til að greiða með lögsókn. Þetta samkomulag hafi verið staðfest með samþykki allra á hluthafafundi 20. október 2006. Ólafur hafi tekið í sína vörslur og tileinkað sér þær eignir og þann hluta af starfsemi Kynningar ehf. sem samkomulagið hafi tekið til. Hann hafi hins vegar ekki afhent umræddan víxil heldur sent hann í innheimtu hjá lögmanni sínum. Stefnendur hafi borið því við að um ólögmæta kröfu væri að ræða og að skuldin væri að fullu greidd með samkomulagi aðila. Það hafi ekki borið árangur og stefnendur því ekki átt annan kost en að greiða kröfuna vegna takmarkaðs mótbáruréttar, sbr. 17. kafli laga um meðferð einkamála nr. 19/1991. Víxilkrafan hafi því verið greidd með áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði, samtals að fjárhæð 5.074.695 krónur til lögmanns stefnda 17. janúar 2007 með fyrirvara um að um óréttmæta kröfu væri að ræða og að kröfuhafi yrði endurkrafinn um greiðslu hennar. Stefnendur telja að stefndi hafi valdið þeim skaðabótaskyldu tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi sinni. Máli sínu til stuðnings vísa stefnendur til 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um skaðabótaskyldu er vísað til almennra reglna íslensks skaðabótaréttar.
Stefndi heldur því fram að allar mögulegar breytingar á kaupsamningi hafi verið háðar samþykki viðskiptabanka félagsins og þess vegna hafi stefndi tekið að sér að leita eftir því við Sparisjóð Kópavogs að hann samþykkti svonefnda uppskiptingu félagsins. Vegna vanskila félagsins við bankann hafi hann ekki fallist á frekari fyrirgreiðslu til félagsins nema gegn ábyrgð stefnda. Bankinn hafi áður verið búinn að hafna ábyrgð Margrétar og Örlygs sem fullnægjandi. Umræður um sölu á rekstri Kynningar ehf. hafi snúist um möguleg kaup Forte ehf. á hluta af rekstri Kynningar ehf. en ekki um að stefndi Ólafur taki persónulega á sig skuldbindingar eins og málatilbúnaður stefnanda geri ráð fyrir.
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að stefnandi Margréti eigi ekki aðild að endurkröfumáli samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð einkamála. Sá einn geti gert slíka kröfu sem hafi tekið á sig víxilskuldbindingu og greitt víxilandvirði tvisvar. Fyrir liggi samkvæmt gögnum málsins að Kynning ehf. hafi greitt víxilinn til lögmanns stefnda þann 17. janúar 2007. Margrét hafi þar hvergi komið nærri. Hún eigi því engan víxilrétt hér samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991. Þar af leiðandi geti hún ekki átt aðild að skaðabótamáli þessu.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að hann hafi fengið víxilinn frá Margréti og Örlygi A. Guðmundssyni, stjórnarmönnum í Kynningu ehf., til lúkningar á eftirstöðvum kaupverðs þeirra á 90% hlutabréfa í Kynningu ehf. Víxlinum hafi verið ætlað að vera fullnaðargreiðsla en ekki tryggingarvíxill fyrir efndum þeirra gagnvart stefnda. Hafi Margrét og Örlygur fengið full eignaráð yfir Kynningu ehf. í kjölfar afhendingar á víxlinum.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því að engin gögn styðji þá fullyrðingu stefnanda að stefndi hafi fengið víxilinn greiddan með samningi við Margréti heldur þvert á móti sé hið gagnstæða upplýst. Þá hafi stefnda ekki verið afhent verðmæti á grundvelli hins meinta samnings.
IV.
Stefndi rak Kynningu ehf. og var starfsemi félagsins þríþætt. Í fyrsta lagi kynningarþjónusta af ýmsum toga í verslunum og gjafapakkaþjónusta við fyrirtæki. Í öðru lagi tónleikahald undir firmaheitinu tenor.is og í þriðja lagi þjónusta við fyrirtæki og félagasamtök um jólahald undir firmaheitinu jólasveinn.is.
Stefnandi Margrét og Örlygur A. Guðmundsson keyptu hlut í Kynningu ehf. af stefnda með kaupsamningi 4. febrúar 2006. Eftir kaupin átti Margrét 55% hlut í Kynningu ehf., Örlygur 35% og stefndi hélt eftir 10% hlut. Heildarhlutafé var 12.500.000 krónur að nafnverði og keypti stefnda Margrét því fyrir 6.875.000 krónur en Örlygur fyrir 4.375.000 krónur. Skyldi stefnda Margrét greiða 2.000.000 krónur eigi síðar en 15. febrúar 2006 en gefa út skuldabréf fyrir eftirstöðvum kaupverðs að fjárhæð 4.875.000 krónur. Skuldabréfið var gefið út og hefur stefnda Margrét greitt það. Vanskil urðu hins vegar hjá stefndu Margréti á útborgunargreiðslunni að fjárhæð 2.000.000 króna og einnig urðu vanskil hjá Örlygi á útborgunargreiðslu að sömu fjárhæð. Var það að samkomulagi milli stefnanda Margrétar, Örlygs og stefnda að stefnandi Margrét og Örlygur gæfu út víxil fyrir 4.000.000 króna auk vaxta og kostnaðar og teldist kaupverð þá greitt. Víxillinn var með gjalddaga 16. maí 2006. Greiðslufall varð á víxlinum og var hann endurnýjaður með öðrum víxli með gjalddaga 22. júní 2006. Greiðslufall varð einnig á þeim víxli og varð stefndi loks að leysa hann til sín að kröfu bankans 8. september 2006. Stefndi fól lögmanni sínum að innheimta víxilinn á hendur stefnanda Kynningu ehf. og var víxillinn loks greiddur 17. janúar 2007.
Stefnendur halda því fram að þau hafi farið á mis við að koma að vörnum í víxilmálinu vegna takmarkaðs mótbáruréttar samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði. Þetta mál sé því höfðað sem skaðabótamál á grundvelli 2. mgr. 119. gr. laganna. Málsástæða stefnenda er sú að samkomulag hafi tekist með aðilum um að skipta upp félaginu og hafi stefndi tekið til sín starfsemi tenors.is og jólasveinsins.is og gefið eftir skuldina samkvæmt víxlinum. Þessu til sönnunar leggja stefnendur fram endurrit fundargerðar frá 20. október 2006 og 30. ágúst 2006 svo og samkomulag dagsett 20. október 2006. Efni þessara skjala er rakið hér að framan. Samkomulagið frá 20. október 2006 er óundirritað af stefnda og hefur komið fram í málinu að hann hafnaði því og vildi ekki undirrita samkomulagið vegna þess að hann taldi það óaðgengilegt og ekki í samræmi við það sem rætt hefði verið um. Fundargerðin frá 20. október 2006 er einnig óundirrituð og kom fram hjá Þóri Erni Ólafssyni, en hann hafði milligöngu um samningsumleitanir milli aðila, að fundargerðin væri rituð af honum eftir fyrirsögn aðstoðarmanns hans, sem hafði verið viðstaddur fundinn, en Þórir sjálfur hafi hins vegar fjarverandi.
Af fundargerðum má ráða, og er það í samræmi við framburð aðila og vitna hér fyrir dómi, að vegna fjárhagserfiðleika fyrirtækisins og vanskila kaupenda á kaupverði, stóð til að stefndi tæki til baka starfsemi jólasveinsins.is og tenors.is og gæfi eftir skuld kaupenda við sig að einhverju eða öllu leyti. Jafnframt átti stefndi að fá afhentar þær eignir sem tilheyrðu þessari starfsemi. Ekkert af þessu gekk eftir og fyrir dómi kom í ljós að aðilar höfðu ólíkan skilning á því hvort til hafi staðið að hinar svokölluðu jólakörfur, gjafakörfur með matvælum og víni, hefðu átt að fylgja starfsemi jólasveinsins.is eða ekki. Upplýst var við aðalmeðferð að stefnendur héldu þeirri starfsemi áfram, þrátt fyrir ákvæði í samkomulagsdrögum frá 20. október 2006 að ,,jólagjafaþjónusta” skyldi ganga til félags stefnda, Forte ehf. en þessi starfsemi mun hafa verið um 50-60% af starfsemi stefnanda Kynningar ehf. Þegar framangreind gögn eru virt svo og framburður aðila og vitna þykir sannað að stefndi hafi ljáð máls á að fyrirtækinu yrði skipt upp og hann tæki til baka hluta af starfsemi þess til þess að leysa þann vanda sem við blasti og rakinn er hér að framan. Bindandi samkomulag komst hins vegar aldrei á. Það fóru aðeins fram viðræður sem leiddu ekki til samkomulags sem best sést á því að stefndi neitaði að rita undir samkomulagsdrög og endursendi þá muni er honum voru ætlaðir samkvæmt drögunum. Sannað er einnig í málinu að stefndi tók ekki yfir eða rak áfram hluta af starfsemi stefnanda Kynningar ehf. eins og haldið er fram í málinu.
Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á kröfur stefnenda í málinu og stefndi sýknaður. Eftir þessari niðurstöðu verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Ólafur M. Magnússon, er sýkn af kröfum stefnenda, Margrétar G. Bergsveinsdóttur og Kynningar ehf., í máli þessu.
Stefnendur greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað.