Hæstiréttur íslands

Mál nr. 340/1998

A (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Miski
  • Almannatryggingar


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 18. mars 1999.

Nr. 340/1998.

A

(Jóhannes Albert Sævarsson hdl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Miski. Almannatryggingar.

A slasaðist í umferðarslysi á árinu 1992. Tveimur árum eftir slysið greiddi vátryggingafélagið V honum bætur á grundvelli örorkumats þar sem varanleg örorka A var metin 40%. Tæpum tveimur árum síðar var örorka A metin að nýju og var varanleg örorka þá talin 65%. Krafðist A frekari bóta frá V á grundvelli þessa. A hóf að fá greiddan örorkulífeyri og tekjutryggingu úr almannatryggingum á árinu 1995. Taldi V að skerða ætti bætur A vegna skattfrelsis þeirra og hagræðis af eingreiðslu og að til frádráttar ætti að koma slysdagsverðmæti örorkulífeyris og tekjutryggingar úr almannatryggingum. Talið var að samkvæmt dómvenju sættu bætur lækkun vegna skattfrelsis og hagræðis af eingreiðslu. Þá var talið að útreiknað slysdagsverðmæti örorkulífeyris A til 67 ára aldurs ætti að koma að fullu til frádráttar bótum og að hluti slysdagsverðmætis tekjutryggingar A úr almannatryggingum ætti einnig að koma til frádráttar. Var talið að A fengi fjárhagslegt tjón sitt vegna 25% viðbótarörorkunnar að fullu bætt með greiðslum úr almannatryggingum. Ekki var talið að þær greiðslur skertu rétt A til miskabóta og var V dæmt til að greiða A miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. ágúst 1998. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 9.225.300 krónur með 1% ársvöxtum frá 18. júlí 1992 til 11. ágúst 1993, 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11. nóvember sama árs, 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 1995 og 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 16. ágúst 1996, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst áfrýjandi þess að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins varð áfrýjandi fyrir slysi [ ... ] þegar hann ók bifreið sinni út af vegi skammt frá [ ... ]. Bifreiðin var í ábyrgðartryggingu hjá stefnda, sem jafnframt hafði tekið að sér slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Við fyrrnefnt slys hlaut áfrýjandi alvarlegan áverka á höfði, auk brota á vinstri handlegg og olnboga. Hinn 14. apríl 1994 mat læknir örorku áfrýjanda af þessum sökum. Var örorkan þar talin 100% fyrsta árið eftir slys, síðan 50% í þrjá mánuði, en varanleg örorka upp frá því 40%. Á þessum grunni aflaði áfrýjandi útreiknings tryggingarfræðings 20. júní 1994 á tjóni sínu. Samkvæmt útreikningnum var höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps á slysdegi vegna tímabundinnar örorku 726.000 krónur, en vegna varanlegrar örorku 8.502.100 krónur. Þá var verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda áætlað 510.100 krónur. Stefndi greiddi áfrýjanda bætur 20. júlí 1994, sem var krafist með stoð í þessum útreikningi. Samkvæmt tjónsuppgjöri varð samkomulag um að greiða bætur fyrir varanlega örorku og miska í einu lagi, alls 6.615.717 krónur, og 726.000 krónur í bætur vegna tímabundinnar örorku, eða samtals 7.341.717 krónur auk vaxta, útlagðs kostnaðar og innheimtulauna lögmanns. Frá þessu drógust hins vegar dagpeningar áfrýjanda frá Tryggingastofnun ríkisins, 207.698 krónur, og örorkubætur frá sama, 989.019 krónur.

Eftir að áfrýjandi hafði fengið greiddar bætur samkvæmt framansögðu taldi hann vísbendingar hafa komið fram um að starfsorkumissir hans kynni að vera meiri en áður var ætlað, enda hafi honum orðið um megn að gegna hálfu starfi, sem hann hafi reynt á tveimur stöðum. Af þessum sökum leitaði áfrýjandi 23. febrúar 1995 eftir áliti sérfræðings í taugalækningum á því hvort starfsorkumissir hans væri meiri en 40% vegna áverkanna, sem hann hlaut á höfði í áðurnefndu slysi. Í álitsgerð læknisins 15. september sama árs var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi væri ekki fær um að halda starfi og afla þannig 60% af þeim tekjum, sem fullfrískur maður gæti aflað. Áfrýjandi leitaði því á ný eftir örorkumati læknis, sem var fengið 23. júní 1996. Þar var komist að sömu niðurstöðu og í fyrra örorkumati um tímabundna örorku áfrýjanda, en varanleg örorka hans var hins vegar talin 65%. Samkvæmt útreikningi tryggingarfræðings 12. júlí 1996, sem áfrýjandi aflaði sér, var höfuðstólsverðmæti tekjutaps af 25% viðbótarörorku hans á slysdegi talið nema 8.023.900 krónum, auk þess að tapast hafi lífeyrisréttindi vegna hennar að áætluðu verðmæti 481.400 krónur.

Áfrýjandi krafði stefnda 16. júlí 1996 um frekari bætur á grundvelli þessa útreiknings, auk miskabóta og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Með samkomulagi aðilanna var í kjölfarið leitað matsgerðar tveggja lækna um örorku áfrýjanda. Í matsgerðinni, sem er dagsett 7. janúar 1997, var komist að þeirri niðurstöðu að tímabundin örorka áfrýjanda hafi verið 100% í eitt ár frá slysdegi, en varanleg örorka frá þeim tíma 65%. Þess var getið í matsgerðinni að matsmenn hafi fengið þær upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins að áfrýjanda hafi þar 16. september 1996 verið „metin meira en 75% almenn örorka (örorkulífeyrir)“. Óumdeilt er í málinu að þessi ábending matsmanna hafi verið rétt og að áfrýjandi hafi notið örorkulífeyris og tekjutryggingar úr almannatryggingum frá 1. júlí 1995 að telja.

Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um bætur vegna þeirrar viðbótar, sem hefur verið metin á varanlegri örorku hans, og missis lífeyrisréttinda. Þessir kröfuliðir áfrýjanda nema samtals 8.505.300 krónum og eru studdir við síðastnefndan útreikning tryggingarfræðings. Þá krefst áfrýjandi jafnframt miskabóta að fjárhæð 750.000 krónur, en alls eru kröfur hans þannig 9.255.300 krónur, eins og áður er getið. Stefndi vefengir ekki niðurstöðu matsmanna um örorku áfrýjanda eða útreikning á tjóni hans og heldur ekki tilkall hans til bóta á grundvelli 92. gr. umferðarlaga. Á hinn bóginn reisir stefndi kröfur sínar einkum á því að skerða verði bætur handa áfrýjanda vegna skattfrelsis þeirra og hagræðis af eingreiðslu, svo og að til frádráttar verði að koma slysdagsverðmæti örorkulífeyris áfrýjanda og tekjutryggingar frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt útreikningi tryggingarfræðings 21. janúar 1997 og skýringum á þeim útreikningi frá 15. mars 1999 sé verðmæti þeirra greiðslna alls 9.070.100 krónur. Telur stefndi að með þessu fái áfrýjandi tjón sitt að fullu bætt.

II.

Við ákvörðun bóta handa áfrýjanda vegna þeirrar viðbótar á varanlegri örorku hans, sem fram hefur komið og er óumdeild í málinu, verður tekið mið af útreikningi tryggingarfræðings á slysdagsverðmæti tekjutaps af þessum sökum. Samkvæmt rótgróinni dómvenju sæta bætur eftir slíkum útreikningi lækkun vegna skattfrelsis og hagræðis tjónþola af eingreiðslu. Áfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir því að efni séu til að víkja frá þeirri reglu. Að teknu tilliti til þessa eru bætur handa áfrýjanda vegna varanlegu örorkunnar, sem um ræðir í málinu, hæfilega ákveðnar 6.000.000 krónur. Við þá fjárhæð bætist andvirði tapaðra lífeyrisréttinda, 481.400 krónur, þannig að fjárhagslegt tjón áfrýjanda telst samtals 6.481.400 krónur.

Eftir fyrrnefndum útreikningi tryggingarfræðings á verðmæti greiðslna, sem áfrýjandi hefur notið frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. júlí 1995, telst slysdagsverðmæti örorkulífeyris hans til 67 ára aldurs 3.193.700 krónur. Sú fjárhæð verður að koma að fullu til frádráttar bótum handa áfrýjanda vegna fjárhagslegs tjóns hans, svo sem venja stendur til. Að því gættu standa eftir af reiknuðu tjóni áfrýjanda 3.287.700 krónur. Í tilvitnuðum útreikningi komst tryggingarfræðingur að þeirri niðurstöðu að slysdagsverðmæti tekjutryggingar áfrýjanda úr almannatryggingum væri 5.876.400 krónur. Þótt leitt verði af dómafordæmum Hæstaréttar að sú fjárhæð eigi ekki að koma að fullu til skerðingar á bótum handa áfrýjanda, er sýnt að það hlutfall hennar, sem taka verður tillit til, leiðir að minnsta kosti til frádráttar sem svarar 3.287.700 krónum. Samkvæmt því verður að fallast á það með stefnda að áfrýjandi fái fjárhagslegt tjón sitt, sem þetta mál er risið af, að fullu bætt með greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Umræddar greiðslur til áfrýjanda úr almannatryggingum geta ekki skert rétt hans til miskabóta. Stefndi hefur ekki fært fram önnur haldbær rök gegn þeim rétti áfrýjanda. Þegar litið er til þeirra afleiðinga af slysi áfrýjanda, sem málið varðar, eru miskabætur handa honum hæfilega ákveðnar 750.000 krónur. Verður stefndi dæmdur til að greiða þá fjárhæð ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 18. júlí 1992 til 16. ágúst 1996, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda skulu vera óröskuð. Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, A, 750.000 krónur ásamt ársvöxtum sem hér segir: 1% frá 18. júlí 1992 til 1. ágúst sama árs, 0,9% frá þeim degi til 1. janúar 1993, 1,3% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 1,2% frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 1,1% frá þeim degi til 11. febrúar sama árs, 1% frá þeim degi til 21. mars sama árs, 0,9% frá þeim degi til 1. apríl sama árs, 0,8% frá þeim degi til 11. ágúst sama árs, 0,9% frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, 0,8% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 0,5% frá þeim degi til 11. maí 1995, 0,6% frá þeim degi til 1. febrúar 1996, 0,9% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 1% frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 0,9% frá þeim degi til 21. apríl sama árs, 0,8% frá þeim degi til 11. maí sama árs, en 0,7% frá þeim degi til 16. ágúst 1996. Frá þeim degi greiði stefndi dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda skulu vera óröskuð.

Stefndi greiði áfrýjanda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Héraðsdómur Reykjavíkur 27. maí 1998.

Árið 1998, miðvikudaginn 27. maí, er í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. E-4124/1997 A gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. kveðinn upp svofelldur dómur:

                Mál þetta, sem dómtekið var 29. apríl sl., var höfðað með stefnu, áritaðri ódagsett um birtingu, þingfestri 18. september 1997.

                Stefnandi er A kt. [ ... ], [ ... ].

                Stefndi er Vátryggingafélag Íslands, kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda.

                Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 13.882.950 krónur ásamt 1% ársvöxtum af 9.225.300 krónum frá 18. júlí 1992 til 11. ágúst 1993, en með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11. nóv. 1993, en með 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 1995, en með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 16. ágúst 1996, en með dráttarvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 með síðari breytingum af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

                Auk þess er krafist greiðslu á útlögðum kostnaði að fjárhæð 87.165 krónur.

                Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins dags. 5. maí 1997. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við málskostnaðinn á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 15 dögum eftir dómsuppsögu.

Dómkröfur stefnda.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.

                Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verið stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málavextir.

                Laugardaginn [ ... ] valt bifreið stefnanda, [ ... ], út af þjóðveginum skammt norðan við afleggjarann að [ ... ]. Stefnandi, sem var ökumaður bifreiðarinnar, kastaðist út úr bifreiðinni. Hann hlaut alvarlegan heilaáverka í slysinu auk mars á lunga, handarbrots og olnbogabrots. Stefnandi var [ .. ] ára að aldri er slysið varð. Afleiðingar heilaskaðans sem stefnandi varð fyrir voru varanlegar.

                Hinn 14. apríl 1994 mat Júlíus Valsson læknir varanlega örorku stefnanda af völdum slyssins 40% auk 100% tímabundinnar örorku í 12 mánuði og 50% í 3 mánuði. Við matið studdist Júlíus Valsson m.a. við taugasálfræðilega athugun Jónasar G. Halldórssonar sálfræðings og skýrslur endurhæfinga- og taugadeildar Borgarspítalans. Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur áætlaði örorkutjón stefnanda út frá örorkumati Júlíusar og meðaltekjum iðnaðarmanna miðað við 6% framtíðarvexti.

                Bifreið stefnanda var skylduvátryggð hjá stefnda, þ. á m. slysatryggingu ökumanns. Þáverandi lögmaður stefnanda samdi á grundvelli þessara gagna við stefnda um fullar og endanlegar bætur fyrir slysið með fyrirvara um frekari örorku. Slysauppgjör fór fram 20. júlí 1994. Örorkubætur Tryggingastofnunar ríkisins til stefnanda vegna slyssins voru dregnar frá að fullu, en um var að ræða eingreiðslu vegna 40% varanlegrar örorku.

                Stefnandi taldi er frá leið að afleiðingar slyssins væru meiri en örorkumat Júlíusar Valssonar sagði til um. Óskaði hann eftir örorkumati hjá Jónasi Hallgrímssyni lækni að undangenginni rannsókn hjá Grétari Guðmundssyni taugalækni. Jónas Hallgrímsson skilaði matsgerð 23. júní 1996. Mat hann tímabundna örorku stefnanda óbreytta en varanlega örorku hans 65%. Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur reiknaði út viðbótarörorkutjón stefnanda miðað við 25% viðbótarörorku samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar. Var þá miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna og 4,5% framtíðarvexti. Niðurstaða hans var að höfuðstólsverðmæti tekjutaps af viðbótarörorkunni væri 8.023.900 kr. og verðmæti tapaðara lífeyrisréttinda vegna viðbótarörorkunnar 481.400 kr. Stefndi var krafinn um viðbótarbætur með bréfi, dags. 16. júlí 1996. Í framhaldi af því sammæltust aðilar um að fá læknana Sigurð Thorlacius og Ragnar Jónsson til þess að meta örorku stefnanda af völdum slyssins. Þeir skiluðu mati, dags. 7. janúar 1997. Mat þeirra var að varanleg læknisfræðileg og fjárhagsleg örorka stefnanda væri 65% en tímabundin örorka 100% í eitt ár.

                Í matsgerð þeirra Sigurðar og Ragnars segir að hinn 16. september 1996 hafi stefnanda verið metin meira en 75% almenn örorka hjá Tryggingastofnun ríkisins og grundvöllur mats Tryggingastofnunar verið þau einkenni stefnanda sem rakin eru til slyssins. Úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins um 75% örorku stefnanda gilti frá 1. júlí 1995. Fékk stefndi Jón Erling Þorláksson til að endurreikna tjónið af viðbótarörorkunni og reikna í því sambandi út slysadagsverðmæti þess lífeyris og tekjutryggingar sem stefnandi naut frá Tryggingastofnun ríkisins vegna slyssins frá 1. júlí 1995. Útreikningur Jóns Erlings er dags. 21. janúar 1997. Samkvæmt honum nemur slysadagsverðmæti þessara greiðslna frá Tryggingastofnun 9.070.100 kr. en höfuðstólverðmæti tekjutaps af viðbótarörokunni 8.193.700 kr. og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna viðbótarörorkunnar 491.600 kr. Taldi stefndi ekki grundvöll til frekari bóta af sinni hálfu þar sem stefndi telur að tjónið bætist meira en að fullu með greiðslunum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda.

                Stefnandi byggir á fyrirvara við bótauppgjörið sem fram fór 20. júlí 1992 á grundvelli 40% örorkumats Júlíusar Valssonar. 25% varanleg læknisfræðileg viðbótarörorka sé sönnuð með læknisvottorðum og örorkumatsgerðum Jónasar Hallgrímssonar læknis og tveggja lækna mati Ragnars Jónssonar og Sigurðar Thorlacius.

                Sannað líkamstjón sé til þess fallið að valda minnkun á starfsorku. Skerðingin sé að sjálfsögðu persónubundin og því mismikil. Þá geti skerðingin komið öll fram strax en líklegra sé að hlutar hennar komi ekki fram fyrr en síðar á lífsleiðinni. Í tilviki stefnanda sé ljóst að mikil skerðing á starfsorku sé þegar komin fram. Ekki sé hins vegar útilokað að frekari skerðing eigi eftir að koma fram síðar. Stefnandi hafi fljótlega horfið frá námi sínu við [ ... ] skóla [ ... ]. Hann hafi fyrir slysið m.a. náð góðum árangri í stærðfræði og eðlisfræði við skólann. Eftir slysið virðist allur skilningur á stærðfræði og eðlisfræðilegum lögmálum gersamlega horfinn. Stefnandi hafi reynt að vinna eftir slysið en alltaf gefist upp vegna úthaldsleysis, líkamlegs og andlegs. Einbeitingin hafi bilað þannig að hann hafi átt mjög erfitt með að halda sig að nokkru verki. Eðlilegt sé að tekið verði tillit til þessa við ákvörðun bótanna.

                Stefnandi telur að bæta eigi tjón hans að fullu úr ökumannstryggingunni hjá stefnda. Ekki skuli tekið tillit til lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins með þeim hætti sem gert sé í svarbréfi stefnda, dags. 24. jan. 1997, við kröfugerð stefnanda frá 16. júlí 1996, en þar vilji stefndi draga frá bótum til stefnanda slysadagsverðmæti lífeyrisgreiðslu frá Tryggingastofnun 9.070.100 kr. og fái þannig út að tjón stefnanda sé ofbætt um 2.720.000 kr. Stefnandi telur tjón sitt síst ofbætt með þeirri bótagreiðslu sem hann hafi tekið við með fyrirvara vegna 40% örorkumatsins. Þannig telji stefnandi fráleitt að hann skuldi nú stefnanda 2.720.000 kr.

                Þær forsendur sem lagðar séu til grundvallar almennu örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins séu allt aðrar en þær sem liggja til grundvallar 65% slysaörorkumati fyrrnefndra lækna. Leiði almennt örorkumat Tryggingastofnunar a.m.k. til 75% örorku skuli viðkomandi greiddur örorkulífeyrir skv. 12. gr. laga nr. 117/1993 auk tekjutryggingar skv. 17. gr. sömu laga. Samkvæmt almannatryggingalögum sé 75% örorku jafnað til 100% örorku þegar kemur að greiðslu örorkulífeyris og tekjutryggingar. Starfsorkuskerðing stefnanda sé í slysaörorkumötum læknanna metin 65%, þannig að talið sé að hann haldi a.m.k. 35% starfsorkunnar eftir slysið. Einstaklingur með slíka starfsorkuskerðingu sé að mati Tryggingastofnunar ekki talinn geta aflað sér a.m.k. 1/4 hluta þess sem andlega og líkamlega heilir menn geta, það er að segja, ekki sé talið að hann geti framfleytt sér af eigin rammleik.

                Stefnanda sé greiddur lífeyrir að fjárhæð 13.640 krónur auk tekjutryggingar að fjárhæð 25.800 krónur, samtals 39.440 krónur á mánuði frá Tryggingastofnun ríkisins. Örorkulífeyrir og tekjutrygging stefnanda nemi á ári 473.280 krónum ef miðað sé við núverandi mánaðargreiðslu. Áætlaðar meðaltekjur iðnaðarmanna til framtíðar nemi 1.737.600 krónum samkvæmt útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar eða 144.800 krónum á mánuði. Þannig nemi örorkulífeyrir og tekjutrygging stefnanda frá Tryggingastofnun ríkisins um 27% af meðaltekjum iðnaðarmanna. Stefnda sé ætlað að bæta 65% örorku stefnanda. Þannig vanti ennþá 8% (27% frá Tryggingastofnun + 65% (JV40% + JH,ST og RJ 25%) frá stefnda = 92%) upp á að stefnandi fái bættar fullar tekjur iðnaðarmanna vegna slyssins.

                Stefnandi byggir á því að hvorki skuli tekið tillit til skatt- eða eingreiðsluhagræðis við uppgjör bóta, sbr. 28. gr. laga nr. 75/1981 varðandi skatthagræði.

                Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo:

1. Örorkutjón:

1.1. Varanlegt örorkutjón

8.023.900 kr.

2. Töpuð lífeyrisréttindi

481.400 kr.

Samtals

8.505.300 kr.

3. Miskabætur

750.000 kr.

Samtals

9.255.300 kr.

4. Álag 50%

4.627.650 kr.

Alls tjón til greiðslu

13.882.950 kr.

                Stefnufjárhæðin byggist á niðurstöðu mats Jónasar Hallgrímssonar læknis, dags. 23. júní 1996, og læknanna Sigurðar Thorlacius og Ragnars Jónssonar frá 7. janúar 1997 um 25% varanlega viðbótarörorku stefnanda og örorkutjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings frá 12. júlí 1996 sem byggi á meðaltekjum iðnaðarmanna samkvæmt skýrslum kjararannsóknarnefndar.

                Það 50% álag, sem gerð er krafa um í máli þessu, sé tilkomið vegna þess að gera megi ráð fyrir að máli þessu verði skotið til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar frá 1977, bls. 516, komi fram að ekki sé hægt að hækka kröfur frá því fyrir héraðsdómi á grundvelli nýs útreiknings tryggingastærðfræðings. Með þessi réttarfarssjónarmið í huga sé gerð krafa um tilgreint 50% álag þar sem gera megi ráð fyrir að vegna launahækkana í landinu verði sannanlegt tjón stefnanda orðið meira þegar málið komi fyrir í Hæstarétti.

                Krafist er endurgreiðslu á útlögðum kostnaði stefnanda vegna málsins samkvæmt framlögðum reikningum og sundurliðist hann þannig:

Greinargerð Grétars Guðmundssonar

29.500 kr.

Matsgerð Jónasar Hallgrímssonar

38.000 kr.

Örorkutjónútreikingur Jóns Erlings Þorlákssonar

18.675 kr.

Skattframtöl

790 kr.

Samtals.

87.165 kr

                Miskabótakröfu stefnanda að fjárhæð 750.000 sé stillt í hóf. Þeirri fjárhæð sé ætlað að bæta öll óþægindi stefnanda af völdum áverkanna, allar þjáningar auk röskunar á stöðu og högum. Það þurfi ekki að fjölyrða um óþægindi og þjáningar stefnanda. Við matsgerðir og læknisvottorð sé litlu að bæta. Helst því að varanleg örorka taki eingöngu á skerðingu til starfa, ekki á áhrifum áverkanna á tómstundir stefnanda og ótalmargt annað.

                Krafist er almennra sparisjóðsvaxta Landsbanka Íslands frá slysdegi 18. júlí 1992 til 16. ágúst 1996, sbr. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Gerð er krafa um dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 15. gr. vaxtalaga.

                Kröfur stefnanda eru reistar á 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Varðandi miskabætur er vísað til 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varðandi vexti, dráttarvexti og vaxtavexti er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987, einkum 7. og 15. gr. Stefnandi styður kröfu um málskostnað við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á lögum nr. 50/1988, sbr. og reglugerð nr. 562/1989. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda.

                Sýknukrafa stefnda er á því byggð að með örorkulífeyrisgreiðslum og tekjutryggingu, sem stefnandi njóti vegna afleiðinga slyssins frá Tryggingastofnun ríkisins frá og með 1. júlí 1995, sé allt hið umstefnda tjón meira en fullbætt og eigi stefnandi því engan rétt til bóta úr hendi stefnda.

                Föst dómvenja sé fyrir því að slysadagsverðmæti slíkra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins beri að draga frá bótakröfum á hendur þeim sem skaðabótaábyrgð beri á slysi. Nemi slysadagsverðmæti bótanna frá Tryggingastofnun í tilviki stefnanda meiru en svarar brúttótjóni hans samkvæmt tjónsútreikningum. Þá beri samkvæmt fastri dómvenju að virða til lækkunar skattfrelsi skaðabóta fyrir líkamstjón og hagræði af eingreiðslu og eftir að það hafi verið gert sé ljóst að verðmæti bótanna frá Tryggingastofnun ríkisins nemi 2,7 milljónum króna umfram eðlilegar skaðabætur til stefnanda vegna viðbótaröroku og miska. Eigi stefnandi því engan rétt til bóta úr hendi stefnda. Fengi stefnandi tjón sitt tvíbætt og miklu meira en það ef orðið væri við kröfum hans.

                Stefnandi haldi því fram að ekki eigi að taka tillit til greiðslnanna frá Tryggingastofnun þar sem forsendur til grundvallar örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins séu aðrar en þær sem liggi til grundvallar örorkumötum áðurnefndra lækna. Það sé ekki rétt því hinar heilsufarslegu afleiðingar slyssins og einkenni stefnanda af völdum þess séu í öllum tilvikum þær forsendur sem liggi til grundvallar örorkumötunum bæði hjá Tryggingastofnun og hinum. Byggist bætur Tryggingastofnunar á 29. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, sbr. 3. mgr. 12. gr. sömu laga. Séu engar reglur settar um mat á örorkunni í lögum um almannatryggingar og gildi einu hvort örorkumat Tryggingastofnunar sé hærra eða lægra en örorkumöt annarra vegna sama slyss. Bætur Tryggingastofnunar ríkisins skuli koma til frádráttar skaðabótakröfu slasaða vegna slyssins. Sé og meginregla í skaðabótarétti að tjónþoli eigi ekki að hagnast á slysinu í bótaréttarlegu tilliti sem stefndi myndi vissulega gera í þessu tilfelli ef horft yrði framhjá bótunum til hans frá Tryggingastofnun.

                Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi með samningsuppgjörinu 20. júlí 1994 viðurkennt að örorkubætur Tryggingastofnunar vegna slyssins skuli koma að fullu til frádráttar skaðabótakröfum hans og hafi hann engan fyrirvara gert í því efni heldur aðeins um frekari örorku. Sé hann því bundinn við að bætur Tryggingastofnunar skuli koma til frádráttar stefnukröfum.

                Verði ekki á sýknukröfu fallist er varakrafa stefnda á því byggð að stefnukröfur beri í öllu falli að stórlækka. Komist stefnandi aldrei fram hjá því að samkvæmt dómvenju beri að lækka kröfur hans verulega með tilliti til þeirra bóta sem hann eigi rétt til frá Tryggingastofnun ríkisins vegna hækkunar á varanlegu örorkunni af völdum slyssins og að einnig beri að virða til lækkunar kröfum hans skattfrelsi bótanna og hagræði af eingreiðslu þeirra. Þá sé miskabótakrafa stefnanda, 750.000 krónur, vegna 25% viðbótarörorku alltof há og í ósamræmi við dómvenju. Séu 250-300 þúsund krónur nær lagi.

                Kröfuliðurinn 50% álag sé ekki tjón eða miski af völdum slyssins og sé bersýnilega haldlaus og án réttlætingar. Skuli tekið tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar, sbr. 131. gr. eml.

Niðurstaða.

                Bótaskylda stefnda gagnvart stefnanda á tjóni því sem stefnandi varð fyrir við slysið [ ... ] er óumdeild. Það er jafnframt óumdeilt að stefnandi hafi hlotið 65% varanlega örorku af völdum slyssins.

                Ágreiningur aðila stendur um það, að stefnandi telur tjón sitt vanbætt, en stefndi telur að hann hafi fengið tjón sitt að fullu bætt og meira en það með þegar greiddum bótum frá stefnda og örorkulífeyri og tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins. Stefnandi var metinn til 75% örorku af Tryggingastofnun ríkisins 16. september 1996 og gilti úrskurðurinn frá 1. júlí 1995 til 30. júní 1999.

                Í ágreiningi aðilia felst jafnframt ágreiningur um það hvort slysadagsverðmæti örorkulífeyris og tekjutryggingar frá Tryggingastofnun skuli koma til frádráttar bótum frá stefnda eða ekki. Ennfremur hvort lækka skuli bætur til stefnanda vegna skattfrelsis bótanna og hagræðis af eingreiðslu.

                Slys stefnanda varð [ ... ]. Um uppgjör bóta vegna líkamstjóna, sem urðu fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993, er löng dómvenja. Samkvæmt henni fer um uppgjör bóta vegna slíkra tjóna á þann veg að höfð er hliðsjón af örorkutjónsútreikningi sem byggður er á örorkumati og viðmiðunartekjum miðað við tiltekna framtíðar ávöxtun. Frá þeirri fjárhæð sem þessi viðmið gefa eru dregnar bætur sem tjónþoli fær frá Tryggingastofnun ríkisins og síðan er bótafjárhæð lækkuð vegna skattfrelsis bótanna og meints eingreiðsluhagræðis.

                Kröfu sína um viðbótarbætur vegna varanlegs örorkutjóns 8.023.900 styður stefnandi við örorkutjónsúrtreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 12. júli 1992, sem byggður er á meðaltekjum iðnaðarmanna og miðaður við 4,5% framtíðarávöxtun. Þegar þau sjónarmið eru höfð í huga sem samkvæmt dómvenju ber að hafa í huga við ákvörðun bóta sem þessar þ.e. skattfrelsi og meint eingreiðslu hagræði þykja bætur til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku hæfilega ákveðnar 6.000.000 kr.

                Stefnandi á rétt á bótum vegna tapaðra lífeyrisréttinda 481.400 kr., sem studd er með vísan til sama útreiknings og að ofan getur.               

                Þegar litið er til hinna alvarlegu afleiðinga sem slys stefnanda hefur haft á heilsu hans og hagi alla þá þykja miskabætur vegna viðbótarörorkunnar hæfilega ákveðnar 500.000 kr.

                Samtals nema fjárhæðir þessar 6.981.400 kr. Samkvæmt dómvenju ber að draga frá ofangreindum fjárhæðum slysadagsverðmæti lífeyris og tekjutryggingar, sem stefnandi nýtur frá Tryggingastofnun ríkisins, en samkvæmt útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 21. janúar 1997 nemur það 9.070.100 kr. Enda þykja ekki hafa verið færð nægjanlega rök fyrir því að við niðurstöðu máls þessa skuli víkja frá langri dómvenju við uppgjör á tjónum sem tjóni stefnanda.

                Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er sýknukrafa stefnda tekin til greina.

                Eftir atvikum þykir rétt að fella málskostnað niður.

                Málskostnaður stefnanda, sem hefur gjafsókn í máli þessu, ákveðst 387.165 kr. og hefur þá verið litið til útlagðs kostnaðar stefnanda samtals 87.165 kr. og þóknunar lögmanns stefnanda sem telst hæfilega ákveðin 300.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

                Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.

                Málskostnaður stefnanda 387.165 kr. greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hdl., 300.000 krónur.