Hæstiréttur íslands

Mál nr. 447/1998


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Skilorðsrof


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 18. mars 1999.

Nr. 447/1998.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Ingólfi Erni Ingvasyni

(Guðmundur Kristjánsson hrl.)

Þjófnaður. Skilorðsrof.

I var ákærður fyrir þjófnað. Með brotinu rauf hann skilorð eldri dóms og var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans og I dæmdur til fangelsisrefsingar, sem var að hluta skilorðsbundin.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Arnljótur Björnsson og Sigurður Líndal prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. október 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi, og öll bundin skilorði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ingólfur Örn Ingvason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 30.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.

Héraðsdómur Reykjaness 9. október 1998.

Ár 1998, föstudaginn 9. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem er háð að Brekkugötu 2 Hafnarfirði af Guðmundi L. Jóhannessyni héraðsdómara kveðinn upp dómur í málinu nr. S-249/1998: Ákæruvaldið gegn E og Ingólfi Erni Ingvasyni, sem dómtekið var 1. september sl. að loknum málflutningi.

                Mál þetta er með ákæru útgefinni 16. júlí sl. höfðað gegn E, og Ingólfi Erni Ingvasyni, kt. 040576-3209, Norðurbraut 29, Hafnarfirði.

                „Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 12. apríl 1998, að Brattholti 5, Hafnarfirði, í félagi, stolið ferðatölvu af gerðinni Sharp ásamt fylgihlutum, prentara af gerðinni Cannon GJS, tösku af gerðinni Targa og tveimur GSM-símum af gerðunum Panasonic og Nokia, samtals að verðmæti kr. 275.000,-.

                Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“

                Ákærður E viðurkenndi að hafa framið það brot sem hann er sakaður um í ákæru og lagði málið í dóm til að dæmast skv. 1.mgr. 125. gr. oml.

                Ákærður Ingólfur Örn viðurkenndi og að hafa framið framangreint þjófnaðarbrot ásamt meðákærða E og tekið þá hluti sem greindir voru í ákæru, nema hann kannaðist ekki við að hafa tekið þargreinda GSM-síma. Hann kvaðst ekki hafa séð þá á brotastað og ekki vitað eftir á að þeir hafi verið með þýfinu, sem tekið var.

                Í málinu fór því fram aðalmeðferð og voru teknar skýrslur af ákærðu, en auk þess báru vitni F og Þ.

                Samkvæmt þessum framburðum og því sem fram kom við lögreglurannsókn málsins eru atvik þess þessi.

                Vitnin F og Þ höfðu verið að skemmta sér á veitingastaðnum A. Hansen í Hafnarfirði laugardagskvöldið 11. apríl sl. og aðfaranótt sunnudagsins og höfðu kynnst þar lítillega og taldi F að hann hefði verið að reyna við sig. Hún kvað hann hafa verið töluvert ölvaðan og um það leyti sem verið var að loka veitingastaðnum hafi hann boðið henni heim til sín í partí og gefið upp nafn og heimilisfang. Þ hafði svo farið heim til sín um kl. 0300 um nóttina og sofnað þar fljótlega eftir það. F hafði hringt í ákærðu til að fá þá til að koma með sér í partíið og hafði Þ vaknað við það um 0330 að F og ákærðu bönkuðu upp á hjá honum og hafði hann hleypt þeim inn en þau hafi viljað koma í partí og hann ekki verið því mótfallinn. Þeim hafi verið boðið til stofu, þar sem sest var við víndrykkju og eftir um tveggja tíma drykkju hafði Þ sofnað víndauða, en er hann vaknaði um morguninn voru gestirnir farnir og tekin hafði verið fistölva og prentari, sem voru í tösku, sem hann geymdi undir fiskabúri í stofunni og einnig saknaði hann tveggja GSM-síma, sem höfðu verið á símaborði í forstofunni, en hleðslutækið fyrir þá hafði verið í eldhúsinu. Honum þótti einsýnt að næturgestirnir ættu sök á hvarfi þessara muna. Ljóst er af framburði ákærðu að þeir standa saman að töku töskunnar þó að þá greini á um frumkvæðið. En fram er komið að þeir voru að ræða um eða bralla um að taka töskuna án þess að F vissi af því, en hún hafði verið komin fram á stigagang er þau voru að yfirgefa íbúðina og þá séð ákærða Ingólf með töskuna og orðið mjög reið og viljað að hann skilaði töskunni. Það hafði ekki verið gert, heldur höfðu þau haldið saman heim til ákærða E þar sem ákærður E kom henni fyrir í geymslu. Ákærður E kvaðst síðar hafa selt tölvuna og prentarann einhverjum ónafngreindum aðila á Hafnarkránni í Reykjavík og fengið amfetamín fyrir að andvirði kr. 25.000,- sem meðákærði Ingólfur hafi fengið en hann hafi ekkert fengið. Ákærður Ingólfur hefur neitað því að hafa fengið neitt í sinn hlut. Ákærður Ingólfur kannast ekki við það og kveðst ekkert vita hvað varð um töskuna og tölvuna eftir að ákærður E kom henni fyrir í geymslu heima hjá sér.

                Ákærður Ingólfur hefur neitað því eindregið að hafa tekið GSM-símana að Brattholti 5 og kveðst aldrei hafa séð þá og hafi hann tekið þá, hljóti þeir að hafa verið í töskunni með tölvunni.

                Vitnið F hafði heldur ekki séð ákærða Ingólf taka símana né séð þá í íbúðinni. Ákærður E var þess fullviss að símarnir hafi ekki verið í töskunni og hefur haldið því fram að þeir hafi verið í vasa meðákærða Ingólfs, en hefur viðurkennt að hafa hringt úr öðrum og svo hent honum í sjóinn, en selt hinn á veitingastaðnum Amsterdam. Hann kannaðist við að hafa séð bæði símana og hleðslutækin inni í íbúð Þ.

                Með framburði ákærðu, vitna og öðrum sönnunargögnum er sannað að ákærðu eiga báðir þátt í framangreindu þjófnaðarbroti að því er varðar ferðatölvuna og prentarann og einnig á ákærður E sök á þjófnaði á GSM-símunum, en hins vegar verður gegn neitun ákærða Ingólfs ekki talin komin nægileg sönnun um að hann hafi og átt þátt í töku GSM-símanna og ber að sýkna hann af því.

                Ákærðu hafa með þessum verknaði gerst sekir um brot á 244. gr. almennra hegningarlaga.

                Sakarferill ákærðu er með þeim hætti; [...]

                Við ákærða Ingólf Örn var gerð lögreglustjórasátt 20. febrúar 1997 og honum gert að greiða kr. 30.000 í sekt til ríkissjóðs fyrir brot gegn lögum nr. 65,1974 um ávana-og fíkniefni og rlg. nr. 16,1986 og 30. júní 1997, var hann í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í 8 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundið í 2 ár fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. alm. hegningarlaga.

                Ákærður Ingólfur Örn hefur með broti því sem hann er fundinn sekur um í þessu máli rofið skilorðdóms Héraðsdóms Reykjaness frá 30. júní 1996 og ber því nú að dæma í einu lagi bæði málin sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga og hafa hliðsjón við refsiákvörðun af 77. gr. sömu laga.

                Refsing ákærðu þykir hæfilega ákveðin þannig, að [...] ákærður Ingólfur Örn sæti fangelsi í 8 mánuði.

                Rétt þykir þegar litið er til ungs aldurs ákærðu, að þeir hafi eigi hlotið áður dóm fyrir samskonar brot og með vísan til 57. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 101/1976 að því er ákærða Ingólf Örn varðar, að frestað verði fullnustu refsingarinnar á hendur ákærða E og 5 mánuðum af refsingunni á hendur ákærða Ingólfi og falli refsing þessi niður hjá hvorum um sig að liðnum 3 árum haldi hann almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr.19,1940 sbr. lög nr. 22,1955.

                Dæma ber ákærða Ingólf Örn til að greiða helming saksóknarlauna í ríkissjóð, sem ákveðast kr. 50.000 og helming málsvarnarlauna til skipaðs verjanda hrl. Guðmundar Kristjánssonar, sem ákveðast og krónur 50.000, en hinn helmingur launanna greiðist úr ríkissjóði. Allan annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt saman.

Dómsorð:

                [...]

                Ákærður Ingólfur Örn Ingvason, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu 5 mánaða af refsingunni og niður skal hún falla að liðnum 3 árum haldi ákærður almennt skilorð 57. gr. almenna hegningarlaga sbr. lög nr. 22,1955.

                Ákærður Ingólfur Örn greiði helming saksóknarlauna í ríkissjóð, kr. 50.000 og helming málsvarnarlauna til skipaðs verjanda hrl. Guðmundar Kristjánssonar, krónur 50.000, en hinn helmingur launanna greiðist úr ríkissjóði.

                Ákærðu greiði allan annan sakarkostnað óskipt saman.