Hæstiréttur íslands
Mál nr. 286/1999
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 28. október 1999. |
|
Nr. 286/1999. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn X (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Sératkvæði.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni D. Ekki var talið að ákæruvaldinu hefði tekist, gegn eindreginni neitun X, að færa fram vafalausa sönnun um sekt hans samkvæmt verknaðarlýsingu í ákæru. Þá var ekki talið unnt að koma við öðrum refsiákvæðum en þeim, er greindi í ákæru, um þá framkomu X gegn D, sem hann hafði viðurkennt. Var X sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.
Málinu var áfrýjað 8. júlí 1999 að ósk ákærða með vísun til a. - d. liða 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákæruvaldið krefst þess, að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins.
I.
Ákæra í máli þessu var gefin út 12. ágúst 1997. Með dómi sínum 17. september 1998 ómerkti Hæstiréttur dóm héraðsdóms frá 1. apríl 1998. Var það gert á þeirri forsendu, að nauðsyn bæri til að freista þess að afla gagna um sálfræðilega athugun á kæranda og ákærða í því skyni að varpa skýrara ljósi á aðstæður þeirra með tilliti til þeirra sakargifta, er ákæra málsins lyti að. Jafnframt þótti sýnt, að nýjar upplýsingar um þessi efni gætu verið til þess fallnar að veita tilefni til frekari gagnaöflunar og skýrslugjafar fyrir dómi og hafa áhrif á mat dómenda í héraði á sönnunargildi munnlegs framburðar, sem þar væri gefinn. Var því málsmeðferðin í héraði jafnframt ómerkt frá upphafi aðalmeðferðar, sbr. 2. málslið 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991.
Við nýja meðferð málsins fyrir héraðsdómi var aflað sérfræðilegra álitsgerða geðlæknanna Ásgeirs Karlssonar og Valgerðar Baldursdóttur, dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings og Maríu K. Jónsdóttur taugasálfræðings. Er skilmerkilega gerð grein fyrir þessum gögnum og öllum málavöxtum í héraðsdómi, sem kveðinn var upp 2. júlí 1999.
Við fyrri og síðari aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi var ákærði látinn víkja úr þinghöldum, á meðan kærandi gaf skýrslur sínar fyrir dómi, sbr. 6. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991. Fyrri ákvörðun dómsins var kærð til Hæstaréttar, sem staðfesti hana 12. nóvember 1997. Í dómi Hæstaréttar var bent á, að af hálfu ákæruvaldsins hefði fyrir réttinum verið tekið undir ósk kæranda um að ákærði yrði látinn víkja af dómþingi. Með því væri látið í ljós, að ákæruvaldið væri reiðubúið að axla byrðina af því, að sönnunargildi skýrslu kæranda kynni að verða annað en væri hún gefin að ákærða viðstöddum.
II.
Verjandi ákærða hefur lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt. Þar á meðal eru þrjár álitsgerðir, þar sem fram koma svör þriggja sérfræðinga við spurningum verjandans í tilefni af áðurnefndum sérfræðigögnum og umfjöllun héraðsdóms um þau. Hin nýju gögn bárust Hæstarétti í samræmi við fyrsta málslið 3. mgr. 155. gr. laga nr. 19/1991. Verður verjandanum talið heimilt að leggja slík gögn fram við málsvörnina. Þess er þó að gæta við mat á sönnunargildi þessara gagna, að höfundar þeirra hafa ekki komið fyrir dóm til að staðfesta og skýra þau.
Í álitsgerð dr. Þuríðar J. Jónsdóttur taugasálfræðings 24. ágúst 1999 kemur fram, að ekki sé unnt að útiloka, að kærandi hafi hlotið vægan heilaskaða í umferðarslysi 2. maí 1996. Þá sé heldur ekki loku fyrir það skotið, að hún hafi beðið slíkt taugasálfræðilegt tjón á síðari hluta árs 1996 og fyrri hluta árs 1997, að það hafi getað valdið henni bæði líkamlegri og andlegri vanlíðan. Einnig segir í álitsgerðinni, að hugsanlegt sé, að slíkt tjón hafi átt þátt í, að gægjufíkn föður hennar hafi orðið að því kynferðislega ofbeldi í huga hennar, sem hún sakar hann um, eða að minnsta kosti átt þátt í að auðvelda henni að bera föður sinn röngum sökum til stuðnings við móður sína í deilum foreldra hennar.
Í áliti Grétars Guðmundssonar sérfræðings í taugalækningum 29. ágúst 1999 kemur fram, að hann telji ekki unnt að útliloka með þeim upplýsingum, sem fyrir liggi í heimildum, að kærandi hafi hlotið vægan heilaskaða í umræddu umferðarslysi.
Í álitsgerð Högna Óskarssonar geðlæknis frá 7. október 1999 kemur meðal annars fram sú skoðun, að kærandi sé ekki haldin heilkenninu áfallastreitu, eins og fram hafi komið í fyrri sérfræðigögnum. Hann bendir á, að það hafi verið mat geðlæknis og tveggja sálfræðinga, að kærandi bæri engin einkenni eða merki um heilaskaða eftir bílslys, hún væri hvorki haldin geðsjúkdómi né einkennum alvarlegrar geðtruflunar og ekki væru merki um persónuleikaröskun. Það hafi einnig verið mat sérfræðinganna, að stúlkan væri meðalgreind, eðlilega félagsmótuð með sjálfsmynd í lagi og að hún hafi haft ýmis einkenni áfallastreitu um árabil. Niðurstaða rannsóknar þeirra hafi verið sú, að engar þær forsendur hafi fundist hjá kæranda, sem renndu stoðum undir þá ályktun, að sönnunargildi framburðar hennar rýrðist. Högni Óskarsson segir á hinn bóginn, að vísindarannsóknir á fórnarlömbum kynferðislegrar misnotkunar sýni, að tengsl séu milli alvarleika misnotkunar og geðrænna og félagslegra afleiðinga. Ákæruatriðin feli í sér, að um hafi verið að ræða mjög grófa misnotkun, og því hefði mátt búast við mjög neikvæðum áhrifum á geðheilsu og félagslega aðlögun. Meðal afleiðinga, sem fyndust hjá fórnarlömbum alvarlegrar misnotkunar væru veikir varnarhættir sjálfsins, neikvæð sjálfsmynd, erfiðleikar við að mynda náin tengsl, alvarlegar persónuleikaraskanir, alvarleg og langvinn einkenni áfallastreitu og aðrar geðraskanir. Hann segir, að sérfræðingarnir hafi ekki fjallað sérstaklega um þá staðreynd, að minningar umbreytist og litist með tímanum og eigi það ekki síst við um minningar, sem tengdar séu neikvæðum upplifunum. Högni Óskarsson segir að lokum, að um tvo kosti sé hér að ræða. Annars vegar þann, að endurminningar kæranda hafi í tímans rás og við stöðugar upprifjanir umbreyst og tekið á sig aðra mynd, þannig að innihald kærunnar hafi orðið mun dekkra en tilefni hafi verið til. Hinn kosturinn sé sá, að kærandi hafi í meginatriðum rétt fyrir sér, en hafi verið óvenju harðgert barn og unglingur, sem hafi þolað „hrottalega misnotkun“ án þess að sýna nokkrar þær afleiðingar á geðheilsu og sjálfsmynd, sem búast hefði mátt við og samræmdist vísindalegri þekkingu.
III.
Eins og mál þetta liggur fyrir verður ekki miðað við, að kærandi hafi hlotið vægan heilaskaða í umferðarslysi 2. maí 1996 og framburð hennar og kæru eigi af þeim sökum að taka með fyrirvara. Þá verður ekki talið, að í bréfi ákærða til móðurfjölskyldu kæranda 9. júlí 1997, sem að mestu er rakið í héraðsdómi, sé að finna viðurkenningu hans á misnotkun á dóttur sinni, en þar kveðst ákærði hafa brugðist henni og brotið gegn henni með þeirri gægjuhneigð, sem hann hefur frá upphafi viðurkennt. Eins og bréf þetta er orðað verður að líta svo á, að í því felist ekki annað og meira en staðfesting á þessari viðurkenningu.
Sönnunarfærsla í málinu hefur ekki leitt til þess, að unnt sé að leggja til grundvallar, að ásakanir um kynferðisbrot ákærða gagnvart yngri dóttur sinni og bróðurdóttur verði taldar sannaðar. Þá er jafnframt ósannað, að ákærði hafi brotið gegn vinkonu dóttur sinnar umfram það, sem gægjuhneigð hans leiddi til umrætt sinn og hann hefur gengist við.
IV.
Umsagnir þeirra sérfræðinga, sem leitað var til við meðferð málsins fyrir héraðsdómi, styrkja það mat meirihluta dómsins, að framburður kæranda sé trúverðugur. Það dregur hins vegar úr styrkleika þeirrar niðurstöðu, að héraðsdómur var ekki einhuga um sakfellingu ákærða. Hinu sama gegnir um álitsgerð Högna Óskarssonar geðlæknis. Þá liggur fyrir, að ákærði hefur viðurkennt framferði gagnvart dóttur sinni, sem er ekki til þess fallið að styrkja framburð hans um það, að hann hafi í engu gengið lengra en hann heldur fram. Það leiðir þó ekki til þess, að slakað verði á kröfum um sönnunarbyrði og sönnunarskyldu ákæruvaldsins í málinu samkvæmt 45. gr. laga nr. 19/1991, enda standa því í gegn 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 62/1994.
Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi verður Hæstiréttur að meta, hvort fram sé komin nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 46. gr. laganna. Til þess verður meðal annars að líta, að langt er um liðið frá ætluðum brotum ákærða og því örðugt um sönnunarfærslu. Kærandi bar ekki fram kæru á hendur föður sínum fyrr en í febrúar 1997 eða tæpum tveimur árum eftir að athæfi hans á að hafa lokið. Ekki er fram komið, að kærandi hafi fyrr en þá lýst atferli ákærða á þann veg, sem í kærunni greindi. Á þessum tíma var kominn upp ágreiningur um umgengni ákærða við yngri dóttur sína í kjölfar þess, að hann hóf sambúð með annarri konu. Í skilnaðarsamningi ákærða og móður kæranda frá 31. júlí 1996 hafði verið kveðið á um umgengni ákærða við yngri dóttur sína og rétt hans til samfunda við hana að jafnaði eigi sjaldnar en einn dag í viku, en að auki skyldi hann hafa rétt til að hafa barnið hjá sér í eina viku á sumri hverju. Ákærði kom reglulega á heimili mæðgnanna eftir sambúðarslitin í maí 1995, umgekkst þar yngri dóttur sína og hélt jafnframt með þeim jól það ár. Þá skrifaði kærandi honum ástúðleg bréf haustið 1995, sem ekki þykir unnt að horfa framhjá við sönnunarmat, þrátt fyrir skýringar hennar, sem greint er frá í héraðsdómi.
Þegar litið er til alls þess, sem fram er komið í málinu, verður ekki fallist á, að ákæruvaldinu hafi tekist, gegn eindreginni neitun ákærða, að færa fram vafalausa sönnun um sekt hans samkvæmt þeirri verknaðarlýsingu, sem fram kemur í ákæru. Eins og hún er úr garði gerð getur ekki til þess komið, að öðrum refsiákvæðum verði beitt um þá framkomu ákærða gagnvart dóttur sinni, sem hann hefur þó gengist við.
Samkvæmt þessu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 700.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns kæranda í héraði, Sifjar Konráðsdóttur héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.
|
Sératkvæði |
|
|
Garðars Gíslasonar og Hjartar Torfasonar hæstaréttardómara í hæstaréttarmálinu nr. 286/1999: Ákæruvaldið gegn X |
I.
Við erum sammála meiri hluta dómenda um efni I., II. og III. kafla atkvæðis þeirra og upphaf IV. kafla. Svo sem í II. kafla þess greinir hefur verjandi ákærða lagt fyrir Hæstarétt þrjár álitsgerðir sérfræðinga, sem aflað var eftir uppkvaðningu héraðsdóms, og er meginefni þeirra skýrlega rakið í kaflanum. Ekki verður séð að álitsgerðir þargreinds taugasálfræðings og sérfræðings í taugalækningum varpi sérstöku ljósi á áðurfengin sérfræðigögn, sem héraðsdómur studdist við. Þriðji álitsgefandinn er geðlæknir, sem hefur stundað ákærða frá sumri 1997. Var því haldið fram af hálfu ákæruvalds við málflutning fyrir Hæstarétti, án mótmæla af hálfu ákærða, að fyrir þá sök hefði ekki verið unnt að leita til hans sem sérfræðings í héraði. Ber að virða álitsgerðina í ljósi þessa.
II.
Enginn ágreiningur er um þau orð í upphafi IV. kafla atkvæðis meiri hlutans, og er tekið undir þau, að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi verði Hæstiréttur að meta, hvort fram sé komin að öðru leyti nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum.
Við málflutning fyrir Hæstarétti var leitast við af hálfu ákærða að sýna fram á að í raun væri ekki við annað að styðjast um ákæruatriði málsins en framburð kæranda og ákærða. Þau feðginin væru ein til frásagnar og um annað væri ekki að ræða. Með tilstyrk hinna nýju álitsgerða var og leitast við að veikja álitsgerðir þeirra sérfræðinga, sem dómkvaddir voru í héraði og héraðsdómur studdist við í niðurstöðu sinni.
Þegar héraðsdómur er grannt skoðaður og gögn þau er þar er til vitnað má ljóst vera að framburður annarra en feðginanna varpar ljósi á frásagnir þeirra. Er þar sérstaklega á það að líta, að tvær ungar stúlkur, önnur frænka kæranda og hin vinkona hennar, hafa hvor um sig skýrt frá samskiptum við ákærða, sem hann kannast við. Er frásögn þeirra beggja á þá lund, að hann hafi káfað eða reynt að káfa á líkama þeirra, þar sem þær höfðu lagst til svefns. Þótt ákærði mótmæli frásögnum stúlknanna að þessu leyti veita þær auknar líkur fyrir því, að samskipti hans við dóttur sína hafi ekki verið einskorðuð við gægjur, eins og hann sjálfur segir, heldur hafi einnig komið til líkamlegar snertingar milli þeirra.
Þá er ekki síður skylt að líta til framburðar móður kæranda, sem er skýr og glöggur um það sem hún segir frá. Hún hefur lýst því að það hafi verið í ársbyrjun 1995, sem eiginkona bróður ákærða kom á heimilið og sagði henni frá því að ákærði hefði misnotað dóttur sína, sem var ári eldri en kærandi, þegar hún hafði gist hjá þeim, og hefði sér skilist að hann hefði einnig misnotað kæranda. Í framhaldi af þessu spurði móðir kæranda hana hvort ákærði hefði misnotað hana og játaði kærandi því. Hún var þá fimmtán ára gömul. Móðirin spurði ákærða, eiginmann sinn, að því sama, og játaði hann fyrir henni að líklega hefði eitthvað gerst. Var það ekki rætt frekar. Í frásögnum hjónanna kemur fram, að fram eftir vori þetta ár hafi móðir kæranda sífellt spurt ákærða nánar um þetta, og honum hafi ekki þótt hún trúa því að ekki hafi meira gerst en hann sjálfur sagði. Endaði þetta með því að hann fór af heimilinu í maí sama árs og þau skildu að borði og sæng.
Hjónin eignuðust tvær dætur, kæranda árið 1979 og yngri dótturina 1989. Hjónin hafa bæði borið um samlíf þeirra sjálfra. Í skýrslu læknis þess er gerði heilbrigðisrannsókn á ákærða og vísað er til í héraðsdómi kemur fram, að ákærði taldi kynlíf þeirra fábrotið og tilfinningasnautt. Aðspurð um hið sama fyrir héraðsdómi bar eiginkona ákærða að það hafi verið í lagi þegar það var, en það hafi verið sjaldan, mjög sjaldan. Nánar aðspurð um þetta af dómendum skýrði hún þetta nokkru frekar, eins og rakið er í dómi þeirra, og kvaðst oft hafa innt ákærða eftir því að kvöldlagi, hvort hann kæmi til sín, án þess að hann sýndi því áhuga. Þegar hún hafi lýst áhyggjum sínum yfir þessu hafi hann sagt að þetta væri allt í lagi.
Ekkert er fram komið í málinu sem gefur ástæðu til að efast um þennan framburð móðurinnar. Um málsefnið er framburður hennar í heild varfærinn og virðist bera þess merki, að hún hafi ekki getað trúað eða áttað sig á hvað gerst hefði milli feðginanna og leitast við að gera gott úr, þar til dóttir hennar sagði sjálf frá í kæru fyrir lögreglu.
Frásögn kæranda hefur frá upphafi kæru í febrúar 1997 ávallt verið staðföst og á sömu leið. Eins og fyrr greinir hefur verjandi ákærða lagt fyrir Hæstarétt vottorð þriggja sérfræðinga, sem aflað var eftir uppsögu héraðsdóms og virðist ætlað að hnekkja áliti héraðsdóms á sönnunargildi framburðar kæranda. Þessi vottorð verða ekki talin varpa rýrð á þau atriði málsins, sem horfa til sakfellingar á hendur ákærða um annað og meira en hann hefur viðurkennt. Veita þau ekki efni til að hnekkja því mati meiri hluta dómenda í héraði, að framburður kæranda sé trúverðugur.
Samkvæmt þessu er það álit okkar, að ekki séu rök til annars en að staðfesta sakfellingu héraðsdóms og niðurstöðu hans með vísan til forsendna hans að öðru leyti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 1999.
Ár 1999, föstudaginn 2. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara og dómsformanni, svo og samdómurum hans, Hervöru Þorvaldsdóttur og Hirti O. Aðalsteinssyni, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 569/1997: Ákæruvaldið (Sigríður Jósepsdóttir saksóknari) gegn X (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) sem tekið var til dóms hinn 18. júní sl. að lokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 12. ágúst 1997 á hendur ákærða, X, [...], “fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni, D fæddri [...] 1979 með því að hafa margsinnis á árunum 1988 til og með 1992 komið inn í svefnherbergi stúlkunnar á heimili þeirra að [...], lagst upp í rúm hennar, káfað á kynfærum hennar og öðrum líkamshlutum, nuddað sér upp við stúlkuna og fróað sér um leið, borið liminn að kynfærum hennar, látið stúlkuna fróa honum, stungið getnaðarlim sínum upp í munn hennar og látið hana sleikja liminn og að hafa frá árinu 1993 og fram í maímánuð 1995 auk framangreindrar háttsemi, margsinnis sett getnaðarlim sinn að hluta inn í leggöng stúlkunnar og hafið samfarahreyfingar.”
Er þetta talið varða við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 8. gr. og 10. gr. laga nr. 40, 1992. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Mál þetta hafði áður verið dæmt í héraði 1. apríl 1998 en með dómi Hæstaréttar Íslands 17. september sl. var dómur héraðsdóms og aðalmeðferð málsins ómerkt og málinu vísað til meðferðar í héraði að nýju. Héraðsdómaranir í málinu viku sæti í því með úrskurði og kom það til úthlutunar að nýju.
Málavextir.
Ákærði og eiginkona hans, K, fædd [...] 1947, kynntust vorið 1978 og hófu sambúð þá um haustið og gengu í hjónaband árið 1985. Bjuggu þau saman til 25. maí 1995 en þá flutti ákærði af heimili þeirra. Þau eiga saman tvær dætur, D, fædda [...] 1979, og E, fædda [...] 1989. Í fyrstu áttu þau ákærði og K heimili á [...] þar sem ákærði var kennari frá 1978-1980. Eftir það fluttust þau með dóttur sína til [...] og áttu heima á [...] frá því um haustið 1980 og fram til ársins 1983 þegar fjölskyldan flutti til [...]. Bjuggu þau í [...] til vors eða sumars 1985 en þá fluttu þau til [...] og bjuggu þar til 1987. Þær mæðgur fluttu til Íslands á undan ákærða sem dvaldi þar ytra veturinn 1987-8 en kom heim um sumarið. Var fjölskyldan fyrst á [...] en flutti svo í fjögurra herbergja íbúð [...] í nóvember 1988. Gengið er inn í íbúðina um anddyri en úr því er komið inn í forstofu sem er nokkurn veginn í miðri íbúðinni. Gengt er úr forstofunni inn í öll herbergi íbúðarinnar. Hjónaherbergið og herbergi það sem D hafði fyrir sig eru samliggjandi en steinveggur er á milli og stæða af föstum skápum á þeim vegg. Stutt er á milli dyranna á þessum herbergjum og snúa þær í sömu átt inn í forstofuna. Ákærði og K eru skilin. Var gengið frá lögskilnaði þeirra með samningi dagsettum 31. júlí 1996. Í 1. gr. samningsins er kveðið á um það að ákærði skuli hafa rétt til samfunda við barnið E, „eigi sjaldnar en einn dag í viku hverri, að undanteknum 4 vikna sumarleyfistíma konunnar ár hvert.” Ennfremur skuli hann „hafa rétt til að hafa barnið hjá sér samfellt í eina viku á sumri hverju.” Meðal gagna málsins eru tvö bréf sem D sendi föður sínum haustið 1995 meðan hann dvaldist í Noregi og Svíþjóð. Eru bréf þessi ástúðleg. Þá er í málinu hlýlegt póstkort til hans frá sama tíma og er það stílað frá yngri dótturinni til hans.
Föstudaginn 28. febrúar 1997 kom dóttir ákærða, D, fædd [...] 1979 til rannsóknarlögreglu ríkisins og kærði hún föður sinn fyrir það að hafa misnotað hana kynferðislega frá unga aldri, a. m. k. frá því að hún var sex eða sjö ára gömul. Sagði hún föður sinn hafa notað hvert einasta tækifæri sem gafst, þegar þau voru tvö ein, til að misnota hana þegar hún hefði verið lítil. Hann hefði komið inn til hennar, stundum á hverri nóttu og stundum aðra hverja nótt, og misnotað hana kynferðislega. Á þessum tíma hefði hann oftast vakað á nóttunni og sofið á daginn. Í fyrstu hefði hann káfað á henni og oft nuddað sér upp við hana og fróað sér. Þegar hann hefði komið inn til hennar á nóttunni og kannski talið að hún væri sofandi, hefði hann lagst upp í rúm til hennar og nuddað sér upp við hana og fróað sér. Hann hefði svo káfað á henni allri en hún sagðist ekki minnast þess að hann hefði sett fingur eða annað inn í leggöng hennar þegar hún var lítil. Hún greindi einnig frá því að hún hefði verið látin fróa honum með höndunum en einnig hefði hann stungið getnaðarlimnum í munn henni. Hún sagði þessa misnotkun hafa aukist með aldrinum. Þegar hún hefði verið þrettán ára gömul hefði hún farið að vera með strák og það varað í tvö ár. Þegar hún hefði verið búin að vera með honum í um hálft ár hefði faðir hennar gengið lengra í misnotkuninni. Þá hefði hann oft sett getnaðarlim sinn inn í leggöng D og hafið samfarahreyfingar en svo hætt þeim en þess í stað fróað sér upp við kynfæri hennar. Hefði hún grátið meðan á þessu stóð. Taldi hún ákærða hafa gert þetta einu sinni til tvisvar í viku, en á þessum tíma hefði hún verið farin að flýja heimili sitt æ oftar. Ákærði hefði haldið þessari háttsemi sinni áfram, þ.e.að byrja samfarir eins og fyrr segir, auk þess sem hann hefði haldið áfram káfinu og því að láta hana fróa honum.
D sagði að meðan hún var lítil og þurfti að vera heima, svo sem vegna veikinda, hefði hún iðulega reynt að fá móður sína til að vera heima því hún hefði ekki viljað vera ein með föður sínum. Hefði móðir hennar margoft spurt sig hvort ákærði gerði henni eitthvað, en hún ávallt neitað því. Faðir hennar hefði ekki beinlínis hafa verið með hótanir við sig, en sagt henni að það sem gerðist á milli þeirra mætti ekki segja neinum. Hún yrði að vera góð við hann vegna þess að svo margir aðrir væru vondir við hann. Þá sagðist hún stundum hafa haft kjark í sér til að biðja ákærða um að hætta þessu en hann ekki sinnt því. Oftast hefði hana þó brostið kjark til þess að segja eða gera nokkuð þegar ákærði misnotaði hana. Hann hefði líka höfðað til samvisku hennar í þessu sambandi og sagt að allir aðrir en hún væru vondir við hann og ef hann hefði hana ekki myndi hann deyja.
Það hefði svo líklega verið í nóvember 1994 að fyrrverandi svilkona móður hennar hefði sagt móður hennar að ákærði hefði misnotað dóttur hennar, stúlku sem sé einu ári eldri, þegar frænkan hefði fengið að gista heima hjá þeim. Í framhaldi af þessu hefði móðir hennar spurt sig hvort faðir hennar hefði misnotað hana og hefði hún játað því. Sagði hún móður sína hafa svo spurt ákærða um þetta og hann viðurkennt að líklega hefði eitthvað gerst. Hún kvaðst þó ekki vita vel hvað þeim hefði farið í milli. Ákærði hefði þó áfram verið á heimilinu þangað til í maí 1995. Á þessum tíma hefði hann einu sinni eða tvisvar misnotað hana áður en hann fór af heimilinu. Eftir að ákærði hefði loks farið út af heimilinu hefði hann eitt sinn komið ölvaður heim og brotið húsmuni. Strax sama dag hefði verið skipt um læsingu að útidyrum íbúðarinnar og þar með hefði sambandi foreldra hennar lokið.
D sagðist telja líklegt að ákærði hefði líka misnotað yngri dóttur sína, E, fædda 1989. Einu sinni þegar E var þriggja ára gömul kvaðst hún hafa komið inn í svefnherbergi ákærða. Hefði hann setið nakinn á rúmstokknum og E staðið hjá honum og líklega eitthvað að koma við kynfærin á honum. Hún gæti þó geti ekki fullyrt að eitthvað hefði gerst þarna en henni hefði brugðið mjög við þetta hugsað um það eitt að koma systur sinni út. Hefði E systir hennar sagt sér að faðir þeirra hefði látað hana snerta kynfæri hans.
Þá sagði D frá því að eitt sinn eftir að ákærði var fluttur frá þeim hefði hún farið heim til hans. Hefði hann komið niður í stiga til þess að hitta hana og hún þá borið á hann margt af því sem hann hefði gert henni undanfarin ár. Hefði hann þá viðurkennt sumt af því fyrir henni. Hefði hún orðið mjög reið út í hann og ráðist á hann og sparkað í hann. Tveir vinir hennar, piltar, hefðu verið í för með henni þegar þetta varð. Þeir hefðu verið utandyra og heyrt það sem fram fór. Loks sagði D frá því að ákærði hefði áreitt eða misnotað tvær frænkur þeirra, systurdótturina Ö og bróðurdótturina R, og ennfremur eina vinkonu hennar, Æ.
Systurdóttir ákærða, Ö, fædd [...] 1972, gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglunni 25. mars 1997. Skýrði hún frá því að um áramótin 1985-6 hefði hún verið í áramótasamkvæmi hjá móðurforeldrum sínum. Hefði ákærði verið þar, mjög drukkinn, og fjölskylda hans. Kvaðst Ö hafa sofnað þarna í rúmi og hefði ákærði komið að rúminu til þess að bjóða henni góða nótt. Hann hefði kysst hana á kinnina en svo farið að káfa á brjóstum hennar utan á bolnum sem hún var í og svo ætlað að færa hendina neðar, en hún ýtt honum frá. Hefði hann farið við það.
Eiginkona ákærða og móðir D, K, gaf tvær skýrslur hjá rannsóknarlögreglunni 2. apríl 1997. Skýrði hún frá því að hún hefði unnið allan dagin utan heimilis eftir að þau fluttu [...] eða þar til yngri dóttirin fæddist. Eftir að barnsburðarleyfið var úti hafi hún unnið í 80% starfi, að hún telur, þangað til ákærði flutti frá henni 1995. Hún sagðist hafa frétt af athæfi manns síns gagnvart D um veturinn 1995, líklega í febrúar. Hefði S, fyrrverandi svilkona hennar, komið að máli við sig og sagt henni að dóttir hennar R, hefði sagt frá því að ákærði hefði misboðið henni kynferðislega. S hefði jafnframt sagt að líklega hefði hann einnig misboðið D kynferðislega. Kvaðst K hafa spurt dóttur sína hvort faðir hennar hefði misnotað hana og hefði D játað því strax en ekki sagt sér nákvæmlega hvað hefði gerst og hefði ekki gert það enn. Þó hefði hún sagt að það hefði gerst oft og að það hefði verið ógeðslegt. Kvaðst hún hafa gengið á mann sinn og spurt hann hvort hann hefði misboðið stúlkunni kynferðislega og hann þá viðurkennt að hann hefði eitthvað ónáðað stúlkuna en ekki skýrt það nánar. Hann hefði jafnframt sagt við hana að hann hefði önnur viðhorf til þessarar hegðunar en tíðkaðist í þjóðfélaginu. K sagði að hana hefði aldrei grunað að maður hennar misnotaði dóttur sína kynferðislega á þeim tíma sem þau bjuggu saman. Hins vegar sæi hún núna, þegar hún liti um öxl, ýmislegt sem styddi það sem D segði. Til dæmis minntist hún þess að stundum þegar hún hefði þurft að skreppa út og stúlkan orðið eftir heima hjá föður sínum, hefði hún grátbeðið sig um að fara ekki út. Hún hefði ekki skilið í þessari hegðun stúlkunnar og einu sinni hefði hún spurt hana hvort faðir hennar væri vondur við hana. Hefði stúlkan neitað því. Þá skýrði K frá því að þegar D hefði verið á aldrinum 10-13 ára hefði hún stundum farið fram á að fá að sofa uppí hjá sér en hún reynt að vísa því á bug. K sagði D hafa verið gott barn og gengið vel í barnaskóla. Hefðu þær mæðgur og verið mjög samrýmdar. Um 13 ára aldur hefði stúlkan hins vegar breyst í mjög erfiðan ungling og hefði hún jafnvel haldið að stúlkan væri komin í slæman félagsskap og jafnvel byrjuð að neyta eiturlyfja en ákærði hafi hins vegar talið að það væri táningsaldurinn sem hefði breytt stúlkunni. Sitthvað annað fannst K styðja það sem D hefði borið á föður sinn, svo sem það að hún virtist aldrei hafa eirð í sér til að einbeita sér lengi að neinu. Hefði hún lært á píanó hálfan vetur, á flautu í einn vetur en svo gefist upp á því. Þá kvaðst hún líka hafa reynt að láta stúlkuna sauma og prjóna en hún aldrei enst til þess að ná almennilegum tökum á neinni tómstundaiðju. K sagðist stundum hafa orðið vör við að X væri á nóttunni á vappi frammi í forstofunni í íbúð þeirra á [...]. Hefði hún álitið að hann væri að fara til að athuga hvort útidyrnar væru læstar, en hún hefði átti það til að gleyma því. Hefði hún stundum heyrt að hann lokaði einhverjum dyrum og talið að það væru útidyrnar. Það hefði þó allt eins geta verið dyrnar inn til D, en hvorugar dyrnar hefði hún getað séð úr svefnherberginu. K sagðist muna eftir því að hún hefði þrisvar sinnum komið að manni sínum inni hjá D að kvöld- eða næturlagi í íbúðinni á [...] og hefði D þá legið í rúmi sínu. Í eitt skiptið hefði vinkona D gist í herberginu og legið í sama rúmi og D. Hefði ákærði þá setið á rúmstokknum. Í hin tvö skiptin hefði X staðið á gólfinu í herberginu. Hefði hún spurt hann hvað hann væri að gera þarna og hann svaraði því til í öll skiptin að hann væri að leita að Andrés önd-blaði. Hefði hún tekið þessa skýringu hans trúanlega, enda vissi hún að hann læsi slík blöð þegar þau kæmu á heimilið. Eitt sinn hefði vinkona D gist heima hjá þeim. Hefðu stúlkurnar legið á dýnum á stofugólfinu. Hefði hún þá séð að ákærði stóð á gólfinu, við höfðalag stúlknanna og í náttslopp einum fata. Kvaðst hún hafa haft á orði við hann að henni fyndist ekki tilhlýðilegt hvernig hann stóð þarna hjá stúlkunum en hann svarað því til að hann væri bara að horfa á sjónvarpið eins og þær. Ákærði hefði alltaf sofið nakinn og eftir að hann háttaði sig á kvöldin hefði hann gengið oft um í náttslopp einum fata. Þá skýrði hún frá því að þegar yngri dóttir þeirra E hefði verið þriggja ára hefði hún tvisvar sinnum komið að litlu stúlkunni þar sem hún var uppi í rúminu hjá föður sínum og var að toga í kynfæri hans. Í bæði skiptin hefði K skammað X fyrir að leyfa E þetta en ákærði sagt að þetta væri eðlileg forvitni í barninu og að hann hefði ekkert fundið hvað hún var að gera því að hann hefði verið sofandi. Ekki hefði liðið langur tími milli þessarra tveggja atburða og hún hefði litið á þetta sem kæruleysi hjá honum. Þegar yngri stúlkan hefði verið á fimmta ári, einhvern tíma á bilinu frá febrúar-maí 1995 og eftir að D hefði sagt sér frá misnotkun X hefði hún verið tala í síma en ákærði legið á bakinu á sófa í stofunni. Hefði hann haldið á stúlkunni svo að hún sat klofvega yfir hann og voru bæði klædd. Hefði hann haldið um mjaðmir E og hnykkt henni oftsinnis upp og niður eftir búk sínum. Hefði hún þá rokið til og tekið litlu stúlkuna og þá veitt því athygli um leið að limur ákærða var stífur svo að ekki gat farið á milli mála. Hefði hún sýnt ákærða hneykslan sína á framferði hans og að henni fyndist þetta óeðlileg hegðun en hann neitað því að hann hefði nokkuð verið að gera barninu.
Að lokum sagði K sambúð þeirra hefði lokið með því að hann hefði komið ölvaður heim og misst stjórn á skapi sínu án þess að nokkur á heimilinu gæfi tilefni til slíks. Hefði hann gert sig líklegan til þess að henda lausum munum í þær D. Kvaðst K hafa getað forðað litlu stúlkunni til fólks í annarri íbúð í húsinu og eftir að D hefði talað við móðurbróður sinn í síma hefði ákærði farið út af heimilinu. Eftir það hefði verið skipt um læsingar á útidyrunum og hann ekki komið heim eftir þennan atburð. K kvaðst hafa skilið við ákærða eingöngu út af kynferðisbroti hans gegn dóttur þeirra og enda þótt þau hjónin hefðu ekki verið sammála um ýmislegt, svo sem svefnvenjur og annað, hefði hún aldrei viljað skilja við hann út af slíku. Jafnvel þótt ákærði hefði haldið fram hjá henni hefði hún heldur ekki viljað skilja við hann af þeim sökum.
Ákærði var yfirheyrður hjá rannsóknarlögreglunni 27. júní 1997. Hann neitaði þá alfarið að hafa átt nokkurs konar kynferðisleg mök við dóttur sína og hefur hann haldið fast við þann framburð síðan. Hann benti á að stúlkan hefði t.d. sofið upp í hjá móður sinni þangað til hún var 10 ára gömul og í íbúðinni sem þau bjuggu í í [...] hafi aðeins verið eitt svefnherbergi og stúlkan sofið þar inni ásamt þeim foreldrunum. Þá kvað hann ásökun Ö, systurdóttur hans, ekki vera rétta. Hefði þetta verið þannig að hann hefði farið inn til Ö og strokið henni um öxlina en hún ýtt honum frá sér og hann þá farið fram.
Að því er varðaði Æ, vinkonu D, væri það einnig rangt að hann hefði áreitt hana kynferðislega. Hið sanna væri að hann hefði farið inn í herbergið í þetta skipti til þess að horfa á Æ. Hann myndi eftir því að Æ hefði legið nær veggnum sem rúmið stóð upp við. Hefði hann dregið sængina að einhverju leyti ofan af stúlkunni en hún þá vaknað og spurt eitthvað á þá leið hvort maður gæti ekki fengið að sofa í friði. Hefði hann farið fram eftir þessi orð en hugsanlega hefði hann þó farið inn í herbergið aftur.
Ákærði sagði að hann hefði að vísu gert svolítið gagnvart D sem hafi verið rangt. Hefði hann stundum farið inn til hennar á nóttunni til þess að horfa á hana. Stundum hefði hann tekið sængina ofan af henni að hluta til þess að sjá fótlegg hennar eða læri og stundum hefði hann líka eitthvað komið við sín eigin kynfæri. Hefði hann gert þetta til þess að fá kynferðislega örvun. Hefði þetta gerst nokkrum sinnum á ári. Sagðist hann aldrei hafa orðið var við annað en að stúlkan væri steinsofandi og þegar hann hefði fengið minnsta grun um að stúlkan væri að vakna hefði hann alltaf hætt og forðað sér út úr herberginu. Hann sagðist hafa gert þetta frá því stúlkan var um það bil ellefu ára gömul og í síðasta skipti hefði þetta gerst árið 1994, líklega um vorið þá en hugsanlega um haustið sama ár. Ákærði sagði móður stúlkunnar hafa komið að honum inni hjá D í líklega þrjú skipti. Hefði hún spurt hann hvað hann væri að gera og hann einhvern veginn snúið sig út úr því. Hefði hann hætt því að fara inn til stúlkunnar eftir að þau foreldrarnir fóru í viðtal hjá kennara D og hefði það tengst viðtali þessu. Stúlkan hefði átt við erfiðleika að stríða í skólanum á þessum tíma og auk þess hefði kennarinn sagt að D hefði sagt eitthvað á þessa leið: „og svo er það þetta heima”. Þessi orð stúlkunnar hefðu þó ekki verið rædd frekar á fundi þeirra.
Ákærði neitaði því að hafa áreitt E, yngri dóttur sína, kynferðislega. Hann minntist þess að K hefði borið þetta á hann. Hið sanna væri að hann hefði verið sofandi og K líklega sent E inn að vekja hann. Hefði barnið komið við kynfæri hans í þessi skipti þá hafi hann ekki orðið var við það. Geti hann ekki sagt til um það hvort E hafi verið uppi í rúminu í þessi skipti. Að því er varðaði atvikið í febrúar-maí 1995 væri hið sanna að hann hefði legið uppi í sófa og E verið þarna hjá honum. Hann minntist þess að hann hefði verið að vakna og hugsanlega hefði hann eitthvað ýtt við barninu. Hefðu þetta verið allt of sterk viðbrögð hjá K. Hann segist minnast þess að K var að tala í síma þegar þetta gerðist og hefðu þau verið í beinni sjónlínu hvort við annað.
Aðspurður um hugsanlega ástæðu þess að D væri að bera á hann rangar sakir sagðist hann helst geta ímyndað sér að hún hefði einhvern tíma vaknað þegar hann kom inn til hennar á nóttunni eins og hann hefði sagt frá. Hann benti á að á nóttunni hefði ávallt verið opið bæði inn í hjónaherbergið og inn til D. Væri herbergjaskipan þannig á [...] að K hefði átt að verða vör við það ef hann hefði verið að misnota dóttur sína enda sofi K laust. Hann sagði D hafa hótað honum þrisvar að hún myndi kæra hann, fyrst í símtali í september 1996 og aftur seinna í öðru símtali. Ekki hefði komið fram hjá henni fyrir hvað hún ætlaði að kæra hann að öðru leyti en því að hún hefði talað um „misnotkun” en ekki skýrt það nánar. D hefði líka komið tvisvar sinnum heim til hans á [...] um miðja nótt og verið ölvuð. Í fyrra skiptið hefðu tveir strákar verið með henni. Þá hefðu þau talað saman niðri við útidyrnar og stúlkan borið á sig að hann hefði misnotað hana og að hann hefði brugðist trausti hennar. Hefði hún einnig sparkað í sig. Í seinna skiptið, í marsmánuði 1997, hefði hún komið þangað ásamt sambýlismanni sínum sem hefði ráðist á sig, kýlt sig í andlitið og sparkað í sig og í hurðina þannig að hún skemmdist. Í þetta skipti hefði komið fram að D væri búin að kæra hann, þ.e. ákærða og hefði sambýlismaðurinn sagt að það væri fyrir nauðgun og samræði við barn yngra en 14 ára. Hefði þetta verið í fyrsta sinn að hann heyrði hvað D ætti við með „misnotkun”. Þá kvað ákærði D hafa haft samband við N, 17-18 ára dóttur O, núverandi sambýliskonu sinnar og sagt henni að hann hefði misnotað sig frá 5 ára aldri en ekki skýrt það nánar.
Ákærði sagði einnig að eftir að hann hefði viðurkennt að hafa farið inn til D á nóttunni hefði hann búið á heimilinu um hálfs árs skeið. Auk þess hefði hann komið þangað í heimsóknir um 15 mánaða skeið eftir að hann flutti þaðan, tvisvar til þrisvar í viku, og samskiptin við mæðgurnar verið góð. Eftir það hefði honum verið ýtt út í kuldann og hann ekki fengið að umgangast yngri dóttur sína eðlilega og frá því í ágúst 1996, þegar hann fór að búa með konu, hefði hann ekkert fengið að umgangast stúlkuna. Síðast hefði hann komið á [...] í september það ár. Eftir skilnaðinn og meðan hann enn kom á heimili mæðgnanna hefði hann rætt bæði við K og D um það sem gerst hafði og hefði D þá sagt honum að þetta væri allt í lagi og hann skyldi ekki hafa áhyggjur út af því. Kvaðst hann hafa stungið upp á því fyrir skilnaðinn að þau þrjú færu í fjölskyldumeðferð. K hefði ekki viljað það en hins vegar hefði hún verið hlynnt því að D færi í einhverja meðferð hjá sálfræðingi. Það hefði D hins vegar ekki viljað. Hann sagði enn fremur að 22. nóvember þetta sama ár hefði D komið heim til hans á [...] þar sem hún fékk peninga hjá honum fyrir afmælisgjöf handa móður sinni. Hefðu þau þá einnig rætt saman um það sem gerst hafði og hún þá sagt að hún ætlaði sér að kæra hann fyrir kynferðislega misnotkun. Þá og oftar hefði hún sagt við hann að hún vildi sjá hann kveljast og pínast eins mikið og hægt væri. Að lokum tók hann fram að samskiptin við K og D hefðu hríðversnað og síðan orðið að engu 3-4 vikum síðar eftir að upp komst að hann var byrjaður að vera með annarri konu.
Ákærði ritaði fyrrverandi eiginkonu sinni og fleirum úr fjölskyldu hennar samhljóða bréf 9. júlí 1997. Segir þar meðal annars:
“K, Þ, C, F og J.
Ég leita til ykkar í nauðum mínum og bið ykkur um að hjálpa bæði mér og D og reyndar allri fjölskyldunni. Ég skrifa ykkur öllum sama bréfið til þess að málið komist örugglega á dagskrá innan fjölskyldunnar og bið ykkur að lesa bréf mitt á enda með öllum þeim velvilja sem ykkur er unnt.
........................
Eins og þið vitið víst allar varð sú ógæfa innan fjölskyldunnar að ég brást trúnaði D. K komst að þessu nálægt áramótum 1994-5 og ég játaði það strax og hún bar það á mig. Ég var allur af vilja gerður til þess að bæta fyrir brot mitt og þótt við K skildum um sumarið 1995 héldum við saman jól, áramót, páska, þjóðhátíðardaginn og afmæli og áttum öll afar góð samskipti þangað til í ágúst, september 1996, þegar upp komu deilur um umgengni mína við E. Upp úr þessum deilum fóru samskiptin hríðversnandi og innan mjög skamms fór svo að K neitaði mér um alla umgengni við E og tók að skella á mig símanum þegar ég hringdi og auk þess hringdi D sjálf í mig og hótaði mér því að hún myndi kæra mig (sem ég tók ekki alvarlega þar sem brot mitt var aðeins lítilsháttar). Bæði K og D kröfðust þess að ég léti þær algerlega í friði og ég var því miður svo barnalegur að sætta mig við þá kröfu í þeirri von að ástandið kæmist smám saman í samt lag aftur. Þess iðrast ég sárlega nú.
Allt frá því snemma árs 1995 hef ég verið að vinna í mínum málum, fyrst með því að ræða málið innan fjölskyldunnar; einkum við B systur mína, og síðan með því að leita sáluhjálpar, bæði hjá kirkjunni og hjá lækni.
Þetta er nú allt nógu hræðilegt en sennilega er þessi fjölskylduharmleikur þó bara rétt að byrja. D hefur nú kært mig til lögreglunnar, ekki fyrir það sem ég gerði, það minnist hún ekki á, heldur fyrir algerlega upplognar sakir. Ég trúi því ekki að þið vitið hvað það er sem D ber á mig, það er svo skelfilegt, og þess vegna neyðist ég til að rekja fyrir ykkur frásögn hennar í fáum dráttum (eftir minni). Það er óskemmtilegt en því miður óhjákvæmilegt:
........................
Það blasir við að frásögn D getur ekki staðist.
D á greinilega mjög bágt. Ef frásögn hennar væri rétt væri fengin afar augljós ástæða fyrir bágindum hennar. Það er þess vegna mjög skiljanlegt að fólk skuli gjarnan vilja trúa henni en það er hörmulegur misskilningur að henni sé hjálp í þeirri trúgirni. Ofan á þá erfiðleika sem hún á þegar við að striða bætist nú þessi nýja hörmung, ef svo fer fram sem horfir, að hún fremur meinsæri í þeim tilgangi að faðir hennar verði dæmdur í margra ára fangelsi og steypist í algjöra glötun.
......................................
Ég afsaka ekki mínar yfirsjónir en þær heyra fortíðinni til og verða þess vegna ekki aftur teknar. Á hinn bóginn er enn hægt að draga úr skaðanum og koma í veg fyrir stórslys og það bið ég ykkur að gera, að því leyti sem það er á ykkar færi.
Ég á ekki gott með að átta mig á því hvers vegna D ber mig þessum voðasökum og er auðvitað þrumu lostinn yfir því. Einhvern tíma hefur hún byrjað að skálda og það getur verið erfitt að komast út úr slíku (t.d. gagnvart sambýlismanni). Ég verð líka að játa að ég sagði víst einhvern tíma við D að hún gerði allt of mikið úr bágindum sínum af mínum völdum, brot mitt væri aðeins mjög lítilfjörlegt. Þessi orð kunna að hafa vakið með henni slíka heift að hún hafi hugsað með sér að hún skyldi svo sannarlega sjá til þess að ég fengi mestu refsingu sem hugsast gæti. Líka kann að vera að áðurnefndar deilur okkar K um umgengni mína við E litlu hafi orðið til þess að D hafi hugsað sér að koma endanlega í veg fyrir að ég fengi að sjá hana (enda lét K mér einhvern tíma skiljast að augljós ást mín á E vekti upp mikla afbrýðissemi með D).
Það er í öllu falli augljóst að D þjáist og ef til vill heldur hún að það muni draga eitthvað úr sviða hennar ef hún getur látið mig kveljast sem allra mest líka og helst lagt líf mitt í rúst. En það er til margt verra en vera borinn röngum sökum og að lokum mun sá áburður hitta D sjálfa fyrir, verða henni ný þjáning.
Það er hræðilegur sálarháski að vilja valda annarri manneskju óbætanlegu tjóni, full af hatri og meira að segja að vandlega yfirlögðu ráði. Eg bið ykkur að reyna að forða D úr þessum háska.
Það er víst mála sannast að mér tókst ekki að verða D sá faðir sem hún hefði þurft að eiga, þótt ég hafi reyndar alltaf viljað vera henni góður. Samband okkar E var á hinn bóginn yndislegt og þess vegna er grátlegt að það skuli nú vera dregið í svaðið með tilhæfulausum getsökum og yfirheyrslum yfir barninu, sem aldrei geta gert henni neitt nema illt, jafnvel mjög illt. Því miður gaf ég umgengnisrétt minn við hana í raun eftir um skeið, af því að ég hélt að það væri öllum fyrir bestu, en það voru mistök sem ég mun aldrei endurtaka, hvað sem á dynur.
.................................”
D hitti Hrefnu Ólafsdóttur félagsráðgjafa í marsmánuði 1997 að undirlagi móður sinnar. Áttu þær saman 14 viðtöl, klukkustund í senn. Hefur Hrefna gert skýrslu um viðtölin sem dagsett er 14. ágúst 1997 og hún hefur staðfest fyrir dómi. Kemur þar fram að stúlkan hafi í upphafi verið mjög óróleg og átt erfitt með að sitja kyrr í stólnum og greinilega verið mjög taugaspennt. Hún hefði fyrst sagt mjög yfirborðslega frá atburðum, hratt og án þess að sýna neinar tilfinningar í tengslum við þá. Þegar á leið hefði hún farið að segja skýrar frá atburðum og í samhengi. Hún hefði sagt að faðir hennar hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi allt frá því hún var 5-6 ára gömul. D hefði sagt að hún myndi ekki nákvæmlega hvenær þetta athæfi hófst, því hún myndi ekki eftir öðru en að það væri hluti af lífi hennar, að undanteknu einu ári eða svo þegar hún hefði flutt með móður sinni til [...] þar sem fjölskyldan dvaldist. Hún myndi vel eftir sér í [...] en þar átti hún heima frá 6 til 8 ára aldurs. Kvaðst hún vera viss um að þetta athæfi hefði verið byrjað þar vegna þess að hún myndi eftir því að henni létti við það að faðir hennar kom ekki með þeim heim til [...] en eftir að hann kom heim hefði þetta hafist aftur.
Að sögn stúlkunnar hefði athæfi föður hennar verið káf innanklæða og einnig hefði hann nuddað kynfærum sínum utan í hana, til dæmis þegar hann sat með hana í fanginu. Fljótlega hefði þetta farið út í það að hann lét hana káfa á kynfærum hans og fróa honum. Síðar hefði hann sett getnaðarlim sinn upp í munn hennar. Stöku sinnum hefði hún orðið þess vör að hann fengi sáðlát en þegar að því kom hefði hann oft snúið sér undan. Myndi hún eftir því að hann hefði í eitt eða tvö skipti fengið sáðlát í munn hennar. D hefði sagt að hún ætti erfitt með að meta hve oft í viku hún var beitt kynferðislegu ofbeldi en faðir hennar hefði notað öll tækifæri sem gáfust. Hún myndi eftir því að hún hefði reynt að bjarga sér út úr þessu með því til dæmis að fá alltaf að fara með móður sinni þegar hún fór eitthvað út, en það ekki alltaf tekist. Þá hefði hún reynt að fá að sofa uppí hjá móður sinni eins oft og hún gat því þá hefði faðirinn oftast sofið í hennar herbergi og hún þá laus við hann. Hún hefði sagt að faðir hennar hefði oftast gert á hlut hennar kynferðislega eftir að móðir hennar var farin að sofa og hann var frammi í stofu eitthvað að gera fram eftir nóttu. Oft hefði hann verið að drekka áfengi og þá komið inn í herbergi til hennar. Eins hefði þetta oft gerst á daginn þegar móðir hennar var ekki heima. Hefði hann aldrei sagt neitt við hana en haldið henni svo hún gat sig ekki hreyft. Oftast hefði hann haldið höfði hennar föstu á hárinu.
D hefði sagt að hún hefði verið þrettán ára þegar hún fór að vera með kærasta og fljótlega eftir það hefði faðir hennar byrjað að hafa við hana mök í leggöngin. Henni hefði þó fundist að hann hafi ekki farið alveg inn og ekki fengið sáðlát inn í hana. Á aldrinum 14 til 15 ára hefði dregið úr því að faðir hennar leitaði á hana án þess að það hætti þó alveg. Þegar hún var orðin 15 ára hefði ákærði leitað á vinkonu hennar sem dvaldi næturlangt hjá henni en vinkonan hefði öskraði á hann og rekið hann út úr herberginu. Eftir þetta hefði dregið verulega úr þessu athæfi hans en því hefði þó ekki lokið að fullu fyrr en hann flutti af heimilinu á sextánda afmælisdegi hennar.
Vegna þessa máls var Valgerði Baldursdóttur, barna- og unglingageðlækni, falið að rannsaka D með tilliti til þroska hennar og heilbrigðisástands, andlegs og líkamlegs, viðhorfs hennar til ákærða og ákæruefnisins og rannsaka hvort fyrir hendi væru aðstæður sem kynnu að vera til þess fallnar að rýra sönnunargildi framburðar stúlkunnar. Að því er það síðasttalda varðar var m.a. haft í huga að stúlkan hafði lent í umferðarslysi í maí 1996 og fengið höfuðhögg. Hafði verjandi ákærða í Hæstarétti vísað til sérfræðilegra gagna um að slíkir áverkar gætu haft áhrif á skaphöfn og persónuleika þess sem fyrir þeim verður. Auk geðlæknisins önnuðust þessa rannsókn dr. Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur og dr. María K. Jónsdóttir taugasálfræðingur. Fór rannsóknin fram í janúar, febrúar og mars á þessu ári.
Í skýrslu Jóns Friðriks Sigurðssonar um sálfræðilegt mat á persónuleika hennar kemur fram að matið byggist á þremur viðtölum við hana, niðurstöðum 12 mismunandi sálfræðiprófa sem lögð voru fyrir hana svo og upplýsingum úr málsskjölum. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir svo:
„D er 19 ára gömul stúlka sem hefur verið í sambúð í tvö ár og á 14 mánaða stúlku með sambýlismanni sínum. Hún mælist meðalgreind á sálfræðiprófi og með gott minni. Á sálfræðiprófum kemur einnig í ljós að hún virðist ekki hafa tilhneigingu til að fylla upp í eyður í minni sínu, hvorki meðvitað né ómeðvitað. Hins vegar virðist hún hafa tilhneigingu til að gefa eftir og breyta framburði sínum við yfirheyrslur, ef hún er beitt þvingunum eða ef spurt er um sama atriðið aftur og aftur.
Á sálfræðiprófum koma ekki fram alvarleg persónuleikavandamál hjá D, hún virðist vera eðlilega félagsmótuð og sjálfsmynd hennar virðist vera í lagi. Hins vegar mælist hún mjög taugaóstyrk og viðkvæm og virðist hafa mikla þörf til þess að fegra ímynd sína og líta vel út í augum annarra. Hún virðist hins vegar ekki hafa tilhneigingu til þess að blekkja sjálfa sig og afneita sterkum neikvæðum tilfinningum sínum. Þó koma fram hjá henni á sálfræðiprófi vísbendingar um bælda reiði, hatur og tortryggni í garð annarra, tilfinningar sem hún leggur mikið á sig við að hafa stjórn á. Slík tilfinningabæling getur komið fram í streitueinkennum og því að hún reynir að fegra ímynd sína á sálfræðiprófum.
Ýmislegt bendir til þess að framburður D sé trúverðugur og að hún hafi orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri misnotkun. Lýsingar hennar á tilfinningalegum og líkamlegum vandamálum eru í samræmi við það sem búast má við af stúlku sem orðið hefur fyrir misnotkun eins og hún hefur lýst. Hér er átt við ýmis einkenni áfallastreitu sem hafa komið fram hjá henni í gegnum árin, s.s. þreyta, vöðvabólga, höfuðverkur, kvíði og þunglyndi, erfiðleika hennar í grunnskóla, þrátt fyrir meðalgreind, svo og tilraunir hennar til að fegra ímynd sína og siðgæðiskennd út á við.
D hefur lýst atburðarásinni fyrir undirrituðum, frá því að hún fyrst sagði frá misnotkun föður síns, á sannfærandi hátt og skýringar hennar á því hvers vegna hún dró það svo lengi að segja móður sinni frá því og að kæra hann til lögreglu virðast eðlilegar. Í fyrsta lagi hafi hún ítrekað beðið hann um að hætta því sem hann var að gera við hana, en án árangurs, hann hafi sagt henni að hann myndi deyja ef hún væri ekki góð við hann og að hún mætti ekki segja neinum frá þessu. Í öðru lagi fann hún fyrir sektarkennd og skömm vegna þess sem faðir hennar hafði gert við hana og forðaðist að tala um það við aðra. Í þriðja lagi þá var hún beitt utanaðkomandi þrýstingi af einstaklingum sem hún treysti, til þess að leysa málið á annan hátt og láta sem ekkert væri, og frásagnir hennar voru jafnvel dregnar í efa af föðursystur hennar, sem þó á dóttur sem segist einnig hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu föður D.
Viðhorf hennar til föður síns, sem koma fram í viðtölum og á sálfræðiprófum, eru að því er virðist fremur raunsæ. Hún lýsir honum bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt og segir að í dag sé henni í raun og veru alveg sama um hann. Viðhorf hennar virðast fyrst og fremst mótast af framkomu föður hennar í hennar garð og almennri framkomu hans á heimilinu, en ekki því að hann tók saman við aðra konu eins og hann gefur til kynna í framburði sínum hjá lögreglu.
Þrátt fyrir að ítarlegar geðlæknis- og sálfræðilegar rannsóknir á D undanfarið hafi komið henni úr jafnvægi bendir athugun undirritaðs ekki til þess að framburður hennar sé ótrúverðugur.” Sálfræðingurinn hefur sagt fyrir dómi að prófin sem hann lagði fyrir D hafi verið valin með tilliti til þess að hann hafi fyrst og fremst verið beðinn um að meta persónuleika D og að einhverju leyti áreiðanleika framburðar hennar. Eins ráði vali á prófum hvaða próf séu til þýdd á íslensku. Þá hafi það einnig ráðið valinu á þessum tilteknu prófum að hann hafi notað þau sjálfur, bæði í klínísku starfi með skjólstæðingum og í rannsóknum. Hann upplýsir að hann hafi masterspróf í sálfræði frá háskólanum í Sterling í Skotlandi 1989 og doktorspróf frá Institute of Psychiatry, King´s Collins University of London 1998. Hann hafi starfað sem sálfræðingur í tæp 11 ár hjá Fangelsismálastofnun ríkisins. Þar að auki hafi hann unnið ýmis verkefni utan þeirrar stofnunar og rekið sálfræðistofu í Hafnarfirði.
Í skýrslu Maríu K. Jónsdóttur segir svo:
„Taugasálfræðileg skoðun:
D var mjög samvinnufús og myndar góð tengsl. Hún var eilítið kvíðin og fannst talsvert mikið álag að gangast undir þessa ítarlegu skoðun sálfræðinga og geðlæknis. Ég tel þó ekki að þetta hafi haft áhrif á frammistöðu hennar.
Þegar D mætti til skoðunar hjá mér neitaði hún að hafa nokkru sinni fundið fyrir minnis- eða einbeitingarerfiðleikum í kjölfar slyssins í maí 1996. D er nú í námi í [...] og segir að námið sækist henni vel og hún fái góðar einkunnir. Hún hefur ekki fundið fyrir neinum erfiðleikum með að taka eftir í tímum né að einbeita sér að lestri heima við. Síðan slysið átti sér stað hefur D kynnst manni sem hún hefur búið með í tvö ár og hyggst giftast í sumar og á með honum rúmlega eins árs gamla dóttur.
D var ákaflega fljót að vinna og vann markvisst og af einbeitni. Hugrænn hraði er eðlilegur og á einföldu prófi sem reynir á hraða og samhæfingu sjónar og handar var hún í 90. prósenturöð sem þýðir að 90 % jafnaldra eru seinni en hún. Á flóknara sams konar prófi þar sem mjög reynir á einbeitingu var hún hægari en þó samt fyrir ofan meðallag. Annars konar einbeiting þar sem einungis reynir á hugann (endursögn talna afturábak) var mjög góð.
Formleg prófun á minni leiðir ekki í ljós neina erfiðleika. Augnabliksminni er gott. Hleðsla nýrra minnisatriða inn í minni til lengri tíma (langtímaminni) er einnig gott. Minni fyrir orðalista er einu staðalfráviki fyrir ofan meðallag fyrir jafnaldra og minni fyrir sögu er einnig fyrir ofan meðallag. Óyrt minni er innan eðlilegra marka og er í meðallagi fyrir aldur. Engin tilhneiging til íspuna (confabulation) eða afbökunar á minnisatriðum kemur í ljós. Frásögn á minnisatriðum sem fyrir hana eru lögð er mjög nákvæm og D endursegir sögu nánast orðrétt, bæði þegar hún er prófuð tafarlaust eftir frásögn og eftir 30 mínútna seinkun.
Öll próf sem næm eru á truflun í framheilastarfi voru fullkomlega eðlilega af hendi leyst. D var markviss í öllum lausnum, var snögg og gerði mjög fáar villur. Engin eiginleg einkenni framheilaskaða koma heldur í ljós í samskiptum við D. Hún er ekki hvatvís, frumkvæði í samræðum er eðlilegt, hún virðir venjulegar samskiptareglur, er snyrtileg til fara og kemur á allan hátt vel fyrir.
Niðurstaða prófunar:
Taugasálfræðileg prófun á D er í alla staði eðlileg og reyndar er frammistaða hennar oft yfir meðallagi. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að minni er gott og án tilhneigingar til afbökunar eða íspuna. Ennfremur er mikilvægt að geta þess að próf sem eru næm fyrir skerðingu í framheila eru eðlileg. Þannig eru engar vísbendingar um að dómgreind D kunni að vera skert eða að hana skorti innsæi eða aðra þá eiginleika sem eru viðkvæmir fyrir skaða í framheila. Niðurstaða mín hlýtur því að vera sú að D hafi enga þá persónuleikabresti eða minnistruflun sem geri að verkum að ástæða sé til að efast um trúverðugleika framburðar hennar.”
Í skýrslu Valgerðar Baldursdóttur geðlæknis segir þetta m. a.:
“Niðurstöður geðheilbrigðismats :
D kemur vel fyrir og myndar góð tengsl. Hún er há og myndarleg stúlka, snyrtileg til fara og klæðist samkvæmt tísku ungs fólks. Hún virðist nokkuð spennt en þess ber að geta að hún er gjarnan í þó nokkurri tímapressu milli skóla og þess að sækja dóttur sína í gæslu dagmóður. Hún sýnir góðan samstarfsvilja en ljóst er að það gengur mjög nærri henni að rifja upp atriði þessa máls og má stundum skynja á henni að henni geti orðið um megn að fara í gegnum allt það sem af henni er krafist. Hvort tveggja eru skiljanleg og eðlileg viðbrögð. Hún finnur fyrir töluverðum kvíða, m.a. er hún kvíðin gagnvart því að hún geti rekist á X þegar hún er á leið í viðtöl til undirritaðrar. Hún á einnig við töluverða svefnerfiðleika að stríða.
Hún virðist leggja sig mjög fram um að sinna hlutverki sínu af ábyrgð og samviskusemi þ.m.t. umönnun dóttur sinnar, heimili, námi og vinnu. Svo virðist sem hún eigi ekki auðvelt með að þiggja utanaðkomandi hjálp.
D býr við mikið álag um þessar mundir. Það er óneitanlega styrkleikamerki að þetta álag nær hvorki að raska hugsun hennar né dómgreind. Samkvæmt þessum viðtölum og í samræmi við niðurstöðu sálfræðimats virðist persónuleiki hennar standa á heilbrigðum grunni, þ.e. ekki verður vart merkja um persónuleikaröskun.
D sýnir engin merki um hugsanatruflanir, ranghugmyndir né ofskynjanir og má fullyrða að hún er hvorki haldin geðsjúkdómi, né einkennum alvarlegrar geðtruflunar.”
Í lok skýrslunnar tekur geðlæknirinn undir ályktanir sálfræðinganna um mat á persónuleika, viðhorfum og trúverðugleika D.
Ásgeir Karlsson geðlæknir, hefur gert geðheilbrigðisrannsókn á ákærða. Er rannsóknin byggð á 8 ítarlegum viðtölum í janúar og febrúar á þessu ári svo og málsskjölum sem læknirinn hafði til hliðsjónar. Í skýrslu læknisins um rannsóknina segir svo:
“Geðskoðun:
X er meira en meðalmaður á hæð, grannvaxinn og er vel á sig kominn líkamlega. Ekkert er a.ö.l. sérkennilegt við útlit hans eða hegðun. Kvíði kemur vart fram en er í samræmi við þær aðstæður sem þessi rannsókn gefur tilefni til. X er samvinnuþýður, gefur greinagóðar upplýsingar, tal hans er eðlilegt, frásögn skýr og nákvæm og talhraði er eðlilegur. Hraði hugsunar eðlilegur og engar hugsanatruflanir koma fram. Geðhrif eru algjörlega innan eðlilegra marka og í samræmi við umræðuefni hverju sinni. Geðslag er sömuleiðis hlutlaust og í góðu jafnvægi. Hugsun er skýr, engar hugsanatruflanir koma fram, hugsanatengsl og hraði eðlilegur. Engar hugvillur koma fram.
X hefur upplifað mikið álag undanfarin 2 - 3 ár í sambandi við núverandi ákæru og málsmeðferð. Honum finnst jafnframt að hann hafi staðið sig allvel undir þessu álagi með hjálp sambýliskonu sinnar. Jafnframt telur hann að mikil útivist og hreyfing hafi hjálpað sér. Hann virðist ekki hafa nein sérstök taugaveiklunareinkenni, óhóflegan kvíða, svefnleysi eða þunglyndi á þessum tíma. Minni X er með ágætum og virðist vera mjög nákvæmt. Öll vitræn starfsemi vel yfir meðallagi s.s. menntun hans og starfsferill ber með sér .
Niðurstaða:
X er ekki haldinn neinum geðsjúkdómum, truflunum á starfsemi í miðtaugakerfi, greinilegum taugaveiklunareinkennum eða persónuleikatruflunum. Hann virðist hins vegar hafa í eitt skipti árið 1974 verið með einkenni um þunglyndi sem gekk yfir á u.þ.b. 2 árum. Hann virðist þó hafa verið vinnufær lengst af þennan tíma. X er hins vegar haldinn Gægjuhneigð F65.3 (Voyeurism). Hneigð þessi virðist koma fram hjá X þegar hann er undir andlegu og félagslegu álagi. Þeir karlmenn sem haldnir eru gægjuþörf, forðast að vekja á sér athygli þannig að eftir þeim verði tekið. Þeir verða sjaldan uppvísir af grófari kynferðislegri áreitni.” Geðlæknirinn hefur skýrt nánar það sem segir um gægjuhneigð ákærða. Hafi þessi sjúkdómsgreining númerið F653 - „voyeurisme”. Þessi hneigð komi almennt fram hjá mönnum þegar þeir séu undir andlegu og félagslegu álagi. Geti þetta þannig verið tímabundið, legið niðri um óákveðinn tíma og komið svo upp aftur. Sú tilhneiging manns að káfa á eða þukla unglingsstúlkur innan klæða sé hins vegar flokkuð öðru vísi í geðlæknisfræðinni. Í fræðiritum sé því almennt haldið fram að þeir sem hafa gægjuþörf og önnur minni frávik í kynhegðun og eru fastir í þessu séu yfirleitt mjög „passívir”, ekki árásargjarnir einstaklingar og því yfirleitt mjög hættulítið fólk. Þetta sé sú almenna viðtekna skoðun sem maður sjái í flestum kennslubókum en það sé til ein rannsókn þar sem talað er um að þetta þurfi ekki endilega að vera svona. Í viðtölunum hafi ákærði aftekið með öllu að hann hefði gert meira en þetta á hlut dóttur sinnar. Læknirinn kveðst telja að þótt ákærði hefði gengist undir sálfræðipróf hefði það ekki gefið neinar sérstakar viðbótarupplýsingar um kynhegðun hans.
Verður nú rakið það sem fram hefur komið við aðalmeðferð málsins hjá ákærða og vitnunum D, K, L, O, Æ, Ö, Hrefnu Ólafsdóttur og N.
Ákærði neitar alfarið að hafa gerst sekur um það athæfi sem hann er ákærður fyrir. Hann kannast hins vegar við að hafa komið inn í herbergi dóttur sinnar að nóttu til, þrisvar til fimm sinnum líklega á árunum 1990 - 1994 og verið á gægjum augnablik í hvert sinn. Hann hafi yfirleitt staðið í dyragættinni en nokkrum sinnum, örsjaldan, farið augnablik inn í herbergið og strax út aftur. Fyrir hafi komið að hann fór inn og lyfti sængurhorni af fótleggjum stúlkunnar en snerti hana aldrei. Hafi hann ekki vitað betur en að hún svæfi. Þessar heimsóknir hafi tengst kynferðislegum hugsunum hans. Herbergið hafi yfirleitt eða alltaf verið opið. Móðir hennar muni ekki hafa orðið vör við þessar heimsóknir en þó muni hann eftir því að hún hafi komið að honum í herberginu þrisvar sinnum og spurt hvað hann væri að gera þar. Hann kveður dóttur sína hafa hótað sér því haustið 1996 að hún myndi kæra hann fyrir einhverjar ótilgreindar sakir, fyrir „það sem þú hefur gert“. Hafi þau ekki rætt um þetta efnislega en hann hafi auðvitað fundið til sektar. Málið hafi annars komið upp á heimilinu þarna um áramótin 1994-5 en D viljað eyða því tali mjög eindregið. Móðir hennar hafi verið áhyggjufull og viljað ganga á hann um þetta og óttast að þetta gæti ekki hafa verið eins lítið og hann hafi sagt og haldið áfram að spyrja þau um þetta. Hafi þeta verið mjög erfiður tími. Aðspurður segir ákærði að hann telji líklegast að D hafi kært hann þar sem hún hafi ákveðið að taka sér stöðu við hlið móður sinnar í deilum þeirra foreldranna út af E, yngri systur hennar, sem komið hafi upp haustið 1996. Hafi hún líklega ekki gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta mundi hafa, þegar hún fór fram með það. Hann voni og ímyndi sér að hún hafi haldið að ekki yrði tekið fullt mark á henni og málið færi aldrei svona langt. Hann segist giska á að móðir hennar hafi grátið og borið sig aumlega á heimilinu eftir síðasta símtal þeirra foreldranna og D hafi verið í hlutverki huggarans. Deila þeirra K hafi snúist um það að hann vildi fá að umgangast E litlu en K ekki viljað það. Hann segist ekki geta svarað því hvað K hafi gengið til með því en kannast þó við að K hafi sagt við hann að hún ætlaði að kæra hann fyrir kynferðislega misnotkun á E. Kveðst hann þá hafa sagt að ef hún vogaði sér að gera eitthvað slíkt skyldi hann sjá til þess að hún missti forræðið yfir barninu. Við það hefði þetta samtal þeirra „splundrast“ og samskiptum þar með lokið. D hafi hringt í sig daginn eftir og sagst vera ákveðin í að kæra sig fyrir það sem hann hefði gert, eins og hún hafi orðað það. Kveðst ákærði hafa talað lengi við hana og sagði eitthvað á þá leið að þetta væri ekki nokkur skapaður hlutur og hún gæti ekki kært sig. Við þetta hafi hún orðið óskaplega reið eða bara yfir þessu öllu saman. Síðan hafi þetta verið að koma upp aftur og aftur. Hafi stúlkan hringt aftur seinna og kom á [...] þar sem hann hafi búið einn. Eins hafi hún komið tvisvar í næturheimsóknir til þeirra O sambýliskonu og loksins þegar hún hafi verið komin með þennan kærasta hafi hún tekið þetta skref og kært.
Um ásakanir K á hendur honum varðandi yngri dóttur þeirra segir ákærði þær skýrast af því að hann hafi verið byrjaður að vera með annarri konu þegar þetta var og K ekki viljað að hann fengi að umgangast barnið með henni. Hefði K talið sig hafa einhvern tíma orðið vara við að barnið hefði í frammi skrítna tilburði um hann. Hann segir þetta ekki hafa gerst meðan hann var vakandi.
Um það sem borið hefur verið á hann varðandi aðrar stúlkur en dætur hans segir ákærði að hann haldi að hann muni lítillega eftir þessu með Ö, systurdóttur hans. Þetta hafi gerst fyrir löngu um einhver áramótin. Þarna hafi verið gleðskapur og heldur hann sig muna eftir því að hafa farið inn í herbergið til hennar, sennilega til þess að horfa á hana eða þá að bjóða henni góða nótt eða eitthvað þess háttar. Hann muni þetta ekki. Að því er varðar Æ kannast hann við að hafa komið inn í herbergi D þar sem þær telpurnar voru sofandi. Kveðst hann hafa staðið við rúmið þar sem þær sváfu eins og hann hafði gert nokkrum sinnum og tekið sængurhorn ofan af henni. Telur hann að hann hafi komið óvart við hana, líklega við kálfann „eða eitthvað svoleiðis“. Reyndar muni hann ekki eftir því að hafa komið við hana og kveðst einungis álykta það. Verið geti að hann hafi verið búinn að bragða lítið eitt af áfengi þegar þetta varð. Hann hafi staðið við fótagaflinn og verið að taka svona sængurhorn ofan af henni og hún þá vaknað og brugðist ókvæða við og sagt: „Getur maður ekki fengið að sofa í friði hérna?“ eða eitthvað á þá lund. Sjálfum hafi honum brugðið mjög mikið. Hafi hann orðið hræddur og farið út en hún skellt hurðinni. Kannast hann ekki við að hafa farið inn til stúlknanna aftur. Hann kveðst aðspurður ekki geta gert sér í hugarlund af hverju stúlkan sé að bera allt þetta á hann sem hún geri.
Aðspurður um skólagöngu D segir hann að henni hafi gengið vel í skólanum á meðan móðir hennar hafði þekkingu og færni til að þess að hjálpa henni að lesa. Henni hafi farið að ganga verr um 13 ára aldur að hann telur og þau haft áhyggjur af þessu. Ekki hafi verið nein sérstök hegðunarvandamál sem fylgt hafi en stúlkan hafi byrjað að reykja. Þá hafi hún byrjaði að vera með strák, ósköp vænum. Seinna, um 15 ára aldur, hafi komið upp vandamál með einn kennarann sem hún hafi sakað um einhvers konar einkennilegt athæfi og hafi orðið talsverð rekistefna út af því. Hann muni þetta þó ekki vel. Þá kemur fram hjá ákærða að umsjónarkennari stúlkunnar, [...], hafi sagt að stúlkan hefði talað um að svo væri „þetta heima“ og spurt út í þetta. Kveðst ákærði hafa skilið að stúlkan ætti við það að hann kæmi inn til hennar til þess að horfa á hana og hafi þetta orðið til þess að hann hætti því.
Ákærði segir að ekki hafi verið mikil ást í sambandi þeirra K en kynlíf hafi verið í lagi. K hafi verið óánægð með það að dvelja erlendis og eiginlega orðið þunglynd þegar þau voru í [...] og hafi viljað skilja við hann til þess að komast heim. Hafi hann því stungið upp á því að mæðgurnar flyttust heim á undan sér til þess að þetta lægi ekki svona þungt á henni.
Ákærði segir það vera rangt sem fram hafi komið hjá D að hann hafi verið hneigður til áfengisneyslu og jafnvel ofbeldis á heimilinu. Hann kannast við það að hafa einhvern tíma smakkað áfengi og einhvern tíma hafi það komið fyrir að heimilisfólkinu hafi orðið sundurorða. K hafi oft reiðst og oft hafi heyrst hátt í henni, miklu oftar heldur en í honum.
Ákærði segir D hafa verið ósköp indælt barn. Um 13 ára aldur hafi hún byrjað að vera með pilti að nafni V. Mæðurnar hafi grunað að þau væru byrjuð á kynmökum og hafi talsverð rekistefna orðið út af því. K hafi verið mjög eftirlitssöm gagnvart stúlkunni og veitt henni lítið athafnafrelsi. Sé K hrædd að upplagi. Henni líði illa í flugvél og hún hafi látið barnið sitja við gluggann af því að hún þoldi ekki að horfa út um gluggann sjálf. Hún hafi vakað of mikið yfir henni að því er honum hafi fundist. Ekki leyft henni að leika sér með öðrum krökkum eins og hún vildi og gengið of langt í aðgæslu gagnvart stúlkunni. Eins hafi þetta verið með lærdóminn hjá stúlkunni, því hún hafi ekki leyft henni að reyna á sig sjálf. Hafi hún alltaf lært allt með henni og ekki getað hugsað sér að sleppa af henni hendinni, þótt hann hefði fundið að þessu við hana.
Ákærði kveðst hafa fengið grun um hvers eðlis sakargiftir D væru á hendur honum í mars 1997 þegar hún hafi komið heim til hans í seinna skiptið með kærastanum sínum, en hann hafi fengið fullvissu um það þegar lögreglan kallaði hann til yfirheyrslu í júní eða júlí 1997. Þetta hafi því ekki borið á góma með þeim hjónunum, svo að honum skildist það, í deilum þeirra síðari hluta sumars eða um haustið 1996, að um svo alvarlegar ásakanir væri að ræða. Þó geti vel verið að D hafi skilið það þannig sjálf en hún hafi alltaf orðað þetta svona: „Fyrir það sem þú hefur gert.“ Hann hafi náttúrlega skilið það á sinn hátt, að þetta snerist aðeins um gægjurnar.
Ákærði segist hafa verið kominn í samband við O, núverandi sambýliskonu sína, þegar gengið var frá skilnaðarsamningi þeirra K í júlí 1996, en hún hafi ekki vitað um þetta samband. Ákærði segir engan ágreining hafa verið með þeim K um umgengni hans við E þegar samningurinn var gerður. Hafi hann komið fyrst upp eftir að K hafi séð þau O saman á gangi, stuttu eftir afmæli E í ágúst þetta sumar. Hafi K sakað sig um kynferðislegt athæfi gagnvart barninu í símtali sem þau áttu eftir þetta. Daginn eftir eða kannski 2 dögum síðar hafi D hringt og hótað að kæra hann. Hann kveðst ekki hafa fengið að umgangast E eftir þetta. Ákærði segir samband sitt og mæðgnanna hafa verið mjög gott eftir samvistaslitin og fram að þessu. Hafi hann oft komið á heimili þeirra og oft borðað þar. Þá hafi hann haldið jól með fjölskyldunni 1995 þó að hann gisti þar ekki. Hafi engar hótanir verið hafðar í frammi á þessum tíma. Ákærði kveðst hafa orðið var við það haustið 1996 að K væri að bera hann út við fólk. Hafi starfsfélagi hans, U, sagt sér að K hefði talað við Z konu hans og sagt henni, að hann hefði misnotað báðar dæturnar og væri rétt að háskólasamfélagið fengi að vita þetta. Hefði hún farið fram á við Z að hún léti samstarfsmenn hans vita um þetta.
Ákærði kannast við það að þegar hann hafi lyft sænginni ofan af D eins og hann hefur sagt. Hafi hann stundum einnig eitthvað komið við sín eigin kynfæri utanklæða. Hann hafi örvast við þetta, „ég kom stundum við mig svona í gegnum fötin. Svona þetta hafði svona einhver örvandi áhrif á mig“ og honum risið hold og hann komið við það hold í gegnum fötin. Stúlkan hljóti að hafa vaknað og séð þetta. Ákærði kveðst alltaf sofa nakinn og hafi komið fyrir að hann hafi verið á ferli á nóttunni í sloppnum einum þótt oftast hafi hann verið klæddur.
Um atvikin að samvistaslitum þeirra K segir ákærði að hann hafi verið að koma heim úr stúdentsveislu þetta kvöld og verið drukkinnn. Hafi K sárnað það. Hún hafi haldið áfram að nudda í sér út af því sem hann hefði kannast við að hafa gert gagnvart stúlkunni og því komið til deilna milli þeirra. Muni hann hafa orðið hávær og hún hafi sagt að hann hafi slitið gardínur einhvers staðar og tekið upp tréskál og látist ætla að fleygja skálinni í D. Hann hafi farið út af heimilinu við þetta og heim til móður sinnar. Hafi K sent fötin á eftir honum og hringt í P systur hans og sagt að þessu væri lokið.
Ákærði kveðst vera hófdrykkjumaður og aldrei hafa lent í vandræðum út af áfengisneyslu sinni. Hann kannast við að hafa verið mikið á ferðinni og vakað um nætur á þessum tíma. Hafi hann sofið yfirleitt til hádegis og unnið langt fram á nótt. Hafi hann unnið geysilega mikið og þetta hentað honum af því að honum hafi orðið meira úr verki á nóttunni.
D, dóttir ákærða, hefur sagt að hún geti ekki með vissu sagt hvenær kynferðisleg háttsemi í hennar garð hafi byrjað, en hún hafi eflaust verið á bilinu 6-8 ára. Þetta hafi hafist með litlu áreiti sem hafi svo aukist. Í upphafi hafi þetta verið þannig að ákærði hafi komið fram á morgnana, nakinn í náttsloppnum sínum, eftir að hún var komin á fætur, og tekið sloppinn frá sér og nuddað sér utan í hana. Eins hafi hún vaknað við að hann sat á rúmstokknum og var að fróa sér. Ekki viti hún hvort hann hafi þá fellt sæði, enda hafi hún oftast reynt að snúa sér undan og lokað augunum þangað til hann var farinn og sofnaði á endanum. Svo hafi hann farið að leggjast upp í rúm til hennar á næturnar og nuddað kynfærunum upp við hana, á ýmsum stöðum á líkamanum. Hún segist hafa vaknað við þetta en oft látið sem hún svæfi. Oft hafi hún beðið hann um að hætta þessu en hlutirnir hafi bara ágerst og hann farið að koma oftar til hennar. Telur hún að þetta hafi hafist þegar þau voru búsett í [...]. Upphafið sé mjög þokukennt. Hún kveður ákærða hafa sagt við sig, þegar hún bað hann að hætta þessu og færa sig frá, að hún yrði að vera góð við hann því enginn annar væri það. Síðan hafi hann farið að koma oftar og oftar inn í herbergið til hennar á næturnar, þegar móðir hennar svaf. Hafi hann oftast komið um miðja nótt að því er hún heldur. Ekki hafi alltaf verið opið inn til hennar á nóttunni en móðir hennar hafi stundum haft rifu á dyrunum að hjónaherberginu. Síðar hafi þetta gerst oft eftir hádegi þegar hún var byrjuð í skóla og þau feðgin heima en móðir í vinnunni en hún hafi unnið frá kl. 8-4. Síðan breyttist það og kveðst hún hafa verið heima fyrir hádegi en í skólanum eftir hádegi. Eitt sinn þegar hún var 9 ára gömul hafi hún vaknað að morgni við það að ákærði var nakinn ofan á henni en þá hafði hún sofið á dýnu inni í hjónaherbergi. Ástæða þess að hún svaf þar hafi verið sú að hún var alltaf að reyna að fá að vera inni hjá móður sinni. Í þetta sinn hafi móðir hennar líklega verið farin í vinnuna. Ákærði hafi einnig farið að draga hana inn á skrifstofu til sín og látið hana hafa munnmök. Ekki man hún hvað hún var gömul þegar það gerðist fyrst en það gæti hafa verið um 10 ára aldur. Hann hafi haldið aftan í hnakkann á henni en hún hafi bara lokað augunum og heldur að hún hafi bara grátið í hljóði og beðið til Guðs. Hann hafi haldið sínu striki kaldur. Þetta hafi gerst að næturlagi. D telur að hún hafi verið 13-14 ára þegar ákærði fór að hafa samræði við hana inn í leggöngin að hluta. Hafi það oftast gerst inni í rúminu hennar en einu sinni í hjónaherberginu. Þegar hann gerði þetta lokaði hann herbergisdyrunum hennar eða hallaði aftur. Hún viti ekki hvort þá var einnig lokað inn í hjónaherbergið. Hún segist aldrei hafa látið heyra í sér. Hafi hún verið of hrædd til þess. Hún hafi beðið hann um að hætta þessu. Þegar hann var „búinn með sitt“ hafi hann alltaf sagt: „Fyrirgefðu elskan.“ Hún giskar á að þetta hafi gerst tvisvar til þrisvar í viku að jafnaði á árunum 1993-5. Hún segir að honum hafi ekki orðið sáðfall inn í leggöngin og hún viti ekki hvort það gerðist þegar hann nuddaði sér utan í hana. Hann hafi líka oft látið hana setjast ofan á sig í stól inni á skrifstofunni sinni. Hafi hún ýmist verið klædd eða í náttkjól en hann í náttsloppnum sínum eins og alltaf. Hún segist ekki hafa sagt móður sinni frá neinu meðan á þessu stóð en á þessum tíma, 13-14 ára aldri, hafi hún verið byrjuð að vera með strák og verið í kynferðissambandi við hann. Hafi hún einhvern tíma sagt kærastanum sínum að „það ætti sér eitthvað stað“ - en ekki sagt honum meira. Síðan hafi það gerst að frænka hennar, R, kom til hennar og sagði að „þetta hefði átt sér stað með sig, hvort hann gerði þetta við“ - hana líka. Hafi hún þá sagt: „Hann er bara svona“ og snúið sig út úr þessu og farið. Hafi þær ekki rætt þetta frekar. R hafi svo sagt móður sinni frá þessu, líklega í október eða nóvember 1994, sem svo sagði móður hennar. Segir D að hún hafi komið heim til sín eitt sinn og þá hafi þær mæðurnar setið inni í eldhúsi hágrátandi. Hafi móðir hennar spurt hana hvort þetta væri satt. Hafi hún svarað með jái og gengið inn til sín og lokað á eftir sér. Þær mæðgur hafi ekki rætt þetta neitt nánar svo hún muni en móðir hennar hafi talað við ákærða um þetta. Þau foreldrarnir hafi ekki rætt þetta við hana svo að hún muni en faðir hennar hafi sagt við hana eitthvert sinn: „Var þetta nokkuð svo mikið?“ eða eitthvað í þá átt. Eftir þetta samtal hafi hann hætt að leita á hana og komið aðeins einu sinni inn til hennar eftir þetta og fram að því að þau foreldrarnir skildu 25. maí 1995. Þau hafi skilið bæði út af þessu og eins því að hann hafi komið heim augafullur kl. 6 að morgni á afmælisdaginn hennar. Segist hún hafa vaknað við mikil læti þar sem verið var að henda öllu til, brjóta og bramla. Kveðst hún hafa gripið yngri systur sína og hlaupið með hana niður til fólksins niðri og beðið þau um að hafa hana. Síðan segist hún hafa farið inn í eldhús og æpt og öskrað, örugglega í fyrsta skipti. Hafi hann elti hana um íbúðina með einhverja ávaxtaskál og sagst ætla að berja hana en hún náð að læsa sig inni í herbergi. Hann hafi svo farið út og skipt hafi verið um lás.
Eftir þetta hafi þó verið talsverð samskipti milli þeirra feðginanna og móðir hennar hafi talað um að það yrði að gera gott úr þessu þar sem þetta væri þó faðir hennar. Hún segist ekki hafa rætt það ítarlega sem komið hafði fyrir fyrr en hún hafði gefið skýrslu í málinu. Hún segir móður sína hafa fengið sig til þess að senda ákærða bréfin sem nefnd eru hér að ofan og hún hafi skrifað að undirlagi móður sinnar enda hafi hún viljað láta allt vera slétt og fellt. Hafi móðirin setið yfir henni meðan hún skrifaði föður sínum og auk þess hafi hún sjálf verið bæld af þessu öllu.
D kannast við að hafa verið búin að hóta föður sínum því að kæra hann áður en hún lét til skarar skríða. Hafi hún gert þetta í janúar 1997, að hana minnir. Hafi hún þá tekið „brjálæðiskast“ og sagt við hann að ef hann kæmi sér ekki í burtu og kæmi aldrei aftur myndi hún kæra hann. Skyldi hann þá fá að finna fyrir því sem hann hefði gert henni. Um ástæðu þess að hún hefði tekið þessa ákvörðun að lokum segir hún aðspurð að bæði hafi hún verið orðin styrkari og eins hafi henni fundist að hann þyrfti að gjalda fyrir gjörðir sínar. Auk þess hafi hann ekki látið þær í friði og hótað því að taka systur hennar frá þeim. Hafi hún ekki getað hugsað sér að barnið þyrfti að fara til þessa manns. Aðalástæðan hafi þó verið sú að henni hafi fundist hann þurfa að gjalda fyrir það sem hann hefði gert.
D segist hafa staðið sig vel í námi til 11 ára aldurs eða svo en ekki gengið vel í félagslegum samskiptum við önnur börn á sínum yngri árum. Eftir 11 eða 12 ára aldur hafi námsárangri hennar farið að hraka. Upp úr því hafi hún farið að reykja og drekka og stinga af út um gluggann heima hjá sér, til þess að flýja þetta ástand heima, að því er hún telur. Ákærði hafi sagt við móður hennar að þetta væri allt í lagi, hún væri bara unglingur. Foreldrar hennar hafi einu sinni farið á fund í skólanum út af því að hún og tvær vinkonur höfðu kært smíðakennara fyrir ósæmilegt atferli. Telur hún að hún hafi verið 15-16 ára þegar þetta gerðist. Hún hafi hins vegar aldrei sagt frá því í skólanum sem gerðist heima hjá henni. Hafi hún ekki talað við neinn um þetta ítarlega fyrr en hún fór að ganga til Hrefnu Ólafsdóttur félagsráðgjafa.
D segir að þegar faðir hennar hafi fellt sæði hjá henni hafi það ýmist farið á hann sjálfan, í rúmfötin eða annað. Hafi hún sjálf reynta að nudda úr bletti eða þá þvegið sjálf. Eins hafi dýnan hennar orðið blettótt eftir þetta og væri enn.
D segist hafa reynt að læsa að sér en lykillinn hafi þá verið tekinn af henni og falinn. Hafi móðir hennar ekki viljað að hún læsti að sér. D segist alltaf hafa lokað augunum þegar faðir hennar leitaði á hana og reynt að hugsa um eitthvað annað á meðan.
D hefur sagt frá því að hún hafi farið í heimsókn til föður sín þar sem hann bjó á [...]. Í annað skiptið hafi tveir kunningjar hennar verið í för með henni en í hitt sinnið hafi hún verið með barnsföður sínum. Hafi hún verið drukkin í annað skiptið af þessum tveimur. Í seinna skiptið hafi hún æpt að ákærða og barnsfaðirinn orðið æstur og slegið ákærða en þetta hafi nú verið „bara tóm della“. Þá hefur hún kannast við að hafa farið til samtakanna „Stígamóta“ og fengið aðstoð þar til þess að komast í samband við dóttur sambýliskonu ákærða til þess að segja henni frá því sem faðir hennar hefði gert. Ekki muni hún nákvæmlega hvenær þetta var.
D segist hafa farið að reykja og drekka snemma, tekið svefnlyf og einu sinni prófað hass. Hún segist ekki hafa verið beinlínis lauslát en hún hafi verið með nokkrum strákum, hverjum á eftir öðrum.
Þá segir hún að P, föðursystir hennar, hafi boðið henni út að borða og rætt þetta mál við sig. Hafi föðursystir hennar viljað að hún leitaði sér hjálpar og sagt að það væri algjör óþarfi að kæra. Muni þetta hafa verið áður en hún kærði föður sinn. Þá hafi hún hringt í hana og oft reynt að hafa áhrif til þess að hún kærði ekki. Það væri ekki rétta leiðin. Fólk ætti að leita sér hjálpar, fara í fjölskyldumeðferð og þess háttar, og allir að reyna að sættast og gera gott úr hlutunum.
D lýsir bernsku sinni þannig að hún hafi ekki verið mjög skemmtileg. Auðvitað muni hún eftir góðum stundum með ákærða og fjölskyldunni. Skólagangan hafi verið henni erfið af félagslegum ástæðum, þ.e. varðandi umgengni við önnur börn. Henni hafi verið strítt mikið vegna þess að hún lokaði sér og ýmislegs annars. Henni hafi liðið mjög illa, komið grátandi heim úr skólanum en þá var það bara heimilislífið sem tók við. Á tímabili hafi hún farið út í algjöra dellu til þess að reyna að flýja hugsanir sínar og raunveruleikann. Núna líði henni misvel. Hún sé hætt að drekka og hafi ekki gert það í langan tíma. Líðanin sé komin undir því hvernig hún nái að loka á minningar sínar og tilfinningar. Almennt líði henni ekki vel og sjálfstraustið sé ekki mikið þótt það hafi batnað að mun frá því sem var.
Aðspurð um atvikið þegar Æ, vinkona hennar, gisti hjá henni segist hún ekki muna hvort móðir hennar hafi verið heima. Æ hafi sest upp í rúminu og öskrað á ákærða: „Hvað er eiginlega að þér, fær maður engan helvítis svefnfrið hérna?“ Hún kveðst ekki muna hvort Æ hafi skellt hurðinni en þær vinkonurnar hafi sofnað aftur.
Móðursystir D, L, hefur komið fyrir dóm og gefið skýrslu í málinu. Hún kveðst hafa fengið vitneskju um þetta mál áður en þau K og ákærði skildu. Kveðst hún hafa frétt af þessu fljótlega eftir að farið var að tala um þetta í fjölskyldunni. Þær systur hafi rætt þetta og hafi K verið miður sín út af þessu ástandi sem upp hafði komið á heimilinu. Hafi hún átt erfitt með að trúa þessu og erfitt með að horfast í augu við þetta. Tal þeirra hafi snúist um það að gera henni ljóst að hún yrði bara að horfast í augu við þessi mál og taka á þeim. Hún hafði trúað dóttur sinni um leið og hún hafi sagt henni frá þessu en langur tími hafi liðið þar til hún gat horfst í augu við þetta og tekið á því. Sjálf kveðst hún ekki hafa þekkt málavexti í smáatriðum en hún hafi vitað að stúlkan hefði orðið fyrir ofbeldi af föður sínum. Á tímabili hafi ástandið milli þeirra K og ákærða verið þannig að hún hafi tekið að sér að tala á milli þeirra. Hafi ákærði þá sagt við sig að hann hefði farið yfir mörkin sem faðir og brugðist skyldum sínum. Nánar hafði hann ekki viljað segja frá þessu en sagt að það væri ekki alvarlegt og ekki í þeim mæli sem D héldi fram. Kveðst hún hafa sagt D frá því sem ákærði segði um þetta. Hafi hún þá spurt: „Heldurðu að ég léti svona ef þetta væri rétt?“ Annars hafi stúlkan átt erfitt með að tala um þetta enda hafi þetta verið nýkomið upp. Á þessu stigi hafi ekki verið talað um að hún myndi kæra þetta heldur hafi hún í rauninni verið að reyna að horfast í augu við þá stöðu sem upp var komin og taka á henni. L segist aðeins hafa verið tengiliður milli þeirra K og ákærða í stuttan tíma eftir að þetta mál kom upp. Einnig hafi það komið í hennar hlut að bera á milli þeirra þegar ósamkomulagið um umgengni við yngri dótturina kom upp. Hafi það verið áður en þau gerðu samning um skilnaðarkjörin.
L kveðst hafa komið oft á heimili K og ákærða og kveðst hún hafa fundið fyrir því að mjög mikið öryggisleysi og streita hafi ríkt þar. Systir hennar hafi nefnilega alltaf verið mjög óörugg og ef hún hafi þurft að fara að heiman og stúlkan ekki verið með henni hafi verið eins og hún þyrfti alltaf að flýta sér heim. Eftir að þau hjónin voru skilin hafi hún fundið mikla breytingu á þessu. Hún segir D hafa verið greindan krakka, skemmtilegan og líflegan. Hún hafi svo byrjað að vera svolítið hjárænuleg um 8 eða 9 ára aldur, hokin, undirleit og breytt í hegðun. Hún kveðst ekki vita hvernig stúlkunni lynti við skólafélaga en hún hafi átt marga vini og kunningja. Á unglingsárunum hafi hún verið svolítið óstýrilát, kannske málað sig mikið og verið svolítið lífleg stelpa en það hafi þó ekki verið neitt sem tekið hafi verið eftir. Hún hafi þó alltaf verið svolítið hjárænuleg og innibyrgð en það hafi henni fundist að breyttist eftir að þetta mál kom upp á yfirborðið. Þá hafi hún virst verða frjálslegri öll og rétt úr sér.
Að því er varðar bréf ákærða til ýmissa í fjölskyldunni segir hún að fjölskyldan hafi verið sammála um að þetta bréf væri þess eðlis að það væri ekki í valdi þeira að fjalla um það eða ræða um það við hann persónulega. Þau hafi vitað um kæruna og litið svo á að þetta mál væri ekki fjölskyldumál.
Móðir D, K, hefur komið fyrir dóm og gefið skýrslu. Hún hefur skýrt frá því að í febrúar 1995 hafi fyrrverandi mágkona hennar komið að máli við hana og sagt sér eftir dóttur sinni, R, að ákærði hefði verið að misnota D. Kveðst hún hafa orðið þrumu lostin en þó haldið ró sinni. Kveðst hún hafa spurt ákærða hvort þetta væri satt að hann hefði verið að misnota D kynferðislega og hann játað því. Hann hafi þó ekki sagt hvernig hann hefði gert þetta og þau ekki rætt það nánar. Hún hafi talað við stúlkuna, bæði áður og eftir að hún talaði við ákærða en stúlkan hafi ekki viljað segja henni hvað ákærði hefði gert. Hún hafi þó sagt að „það hefði verið oft og ógeðslegt“. Þau þrjú hafi ekki rætt þetta saman. Ákærði hafi svo flutt að heiman um vorið 1995. Eftir það hafi samskiptin við hann gengið ágætlega. Hafi hún reynt að halda þeim gangandi E vegna. Miklar breytingar hafi orðið á þeim öllum mæðgunum við það að ákærði fór af heimilinu. Hún kveðst stundum hafa reynt að fá D til að tala um það sem gerst hafði en hún ekki viljað það.
Eftir á að hyggja sjái hún að sitthvað hafi bent til þess að D hafi ekki liðið vel í návist föður síns. Til dæmis hafi hún oft ekki viljað vera skilin eftir heima þegar hún hafi þurft að bregða sér frá, út í búð eða eitthvað. Hafi þetta verið þegar hún hafi verið um 10, 11 ára gömul, að hún muni þetta sérstaklega. Hún segist oft hafa spurt hana hvort hún væri hrædd við pabba sinn þar sem henni hafi fundist svo undarlegt að hún vildi helst ekki vera ein hjá honum, en hún hafi ekki látið þetta eftir henni.
K segir ákærða hafa vakað allar nætur við vinnu. Hann hafi gengið um alla nóttina og hún alltaf heyrt umgang svo sem fram í eldhús, inn í stofu eða hvert sem hann var að fara. Hann hafi oft horft á sjónvarp um miðja nótt, eldað mat, reykt inni í sínu herbergi. Hafi hann oft gengið fram hjá dyrunum eins og hann væri að koma frá útidyrunum eða herbergi D. Hafi ekki hvarflað að henni að hann ætti þangað erindi nema, eins og hann hafi sagt einhvern tíma, að hann væri að leita að Andrésblöðum. Hafi hún komið að honum þar inni þrisvar sinnum að næturlagi og í tvö af þeim skiptum hafi hann sagt að hann væri að leita að Andrésblöðum. Í eitt skiptið hafi hún átt erindi fram og hann þá setið á rúmstokknum hjá R og D og engin sæng verið yfir fótum þeirra. Hún segir ákærða hafa iðulega verið í náttslopp einum fata þegar hann vakti á nóttunni. K segir það alveg mögulegt að tíðar ferðir ákærða inn til stúlkunnar hafi farið fram hjá henni þótt hún svæfi í næsta herbergi. Oftast hafi verið opið inn til hennar í hjónaherbergið á nóttunni. Hún sofi yfirleitt laust fyrri part nætur en frekar fast seinni part nætur. Hún kveðst hafa unnið úti á þessum tíma og stundum hafi stúlkan verið ein með föður sínum á morgnana, ef hún var veik eða átti frí. Hún segist ekki hafa vitað annað en að stúlkan svæfi fyrir opnum dyrum, þegar hún sjálf fór að sofa því þannig hafi hún, vitnið, yfirleitt viljað hafa hana. Lykillinn að herberginu hafi verið geymdur frammi í eldhússkáp eins og aðrir lyklar. Þá rámar hana í það að hafa einhvern tíma falið herbergislykilinn fyrir D því hún hafi ekki viljað að hún væra að læsa inn til sín.
Hún hafi ekki tekið eftir neinum sýnilegum ummerkjum sem gætu gefið vísbendingu í þessa átt. Stúlkan hafi oft haft með sér mat inn í herbergið sitt þannig að blettir þar hefðu ekki átt að vekja athygli. Umgengnin hjá henni hafi verið eins og hjá öðrum unglingum eftir að hún komst á þann aldur. Eitt sinn hafi hún beðið sig um að kenna sér á þvottavélina því hún hafi viljað þvo sjálf. Hafi hún lært á þvottavélina og oft þvegið þvotta eftir það. Hafi þetta verið um það leyti sem hún var í [...].
K segir Æ oft hafa gist hjá D. Hún man ekki til þess að ákærði hafi farið inn í herbergi til þeirra þegar hún gisti hjá henni og man ekki eftir neinum sérstökum hávaða eða hurðarskelli við slíkt tækifæri.
K skýrir frá því að þegar E hafi verið 4 eða 5 ára hafi hún verið að leika sér á gólfinu í svefnherbergi þeirra hjóna. Kveðst hún hafa brugðið sér fram en þegar hún hafi komið inn aftur hafi barnið verið komið upp í rúm hjá ákærða og engin sæng ofan á honum. Hafi barnið verið að handfjatla kynfæri hans og kveðst hún hafa brugðist illa við þessu og spurt hann hvort hann vildi ekki reyna að hafa sængina ofan á sér. Hafi hann sagt að hann hefði ekkert vitað því hann hefði verið sofandi. Hafi hann einnig sagt að þetta væri bara eðlileg forvitni hjá barninu. Í annað skipti hafi þetta gerst aftur og þá hafi hún vitað að hann var vel vakandi, því hún hafi rétt fyrir augnabliki verið að tala við hann. Í þriðja skiptið hafi hún verið að tala í símann á ganginum og horft inn í stofuna. Hafi hann legið í sófa inni í stofu og barnið setið ofan á honum og snúið að sjónvarpinu og bakinu í andlitið á ákærða. Hafi hann hnykkt henni hvað eftir annað ofan á sér, fram og til baka, og þá hafi hún séð að lá stífur limurinn undir fötunum. Eftir símtalið hafi hún farið og talað við ákærða en hann brugðist reiður við og sagt þetta vera ímyndun hjá henni. Hún sé hins vegar ekki í vafa um að hann hafi gert þetta. Minnir hana að þetta hafi verið eftir að þetta kom upp hjá K.
Eftir að ákærði fór af heimilinu í maí 1995 segist hún hafa reynt að halda utan um allt eins og áður og sjá til þess að allir væru góðir og ákærði gæti komið og lesið fyrir E og vonað að þetta myndi kannske allt lagast. Það hafi hins vegar aldrei hvarflað að henni að hægt væri að endurreisa hjónabandið eftir það. Hún segir að D hafi farið að líða miklu betur þegar ákærði fór af heimilinu en henni hafi ekki liðið vel fyrr en hann fór endanlega, þ.e. hann hætti að koma á heimilið. Að því er varðar kort og bréf sem D skrifaði föður sínum þegar hann var erlendis sumarið 1995 segist hún alltaf hafa hvatt hana til að skrifa honum. Hún segist hins vegar ekki muna hvort stúlkan var fús til þess að skrifa honum. Eftir að þau hafi gert skilnaðarsamninginn í júlílok 1996 hafi samskiptin verið með svipuðum hætti og verið hafði undanfarið rúmt ár, meðan þau voru skilin að borði og sæng. Ákærði hafi hins vegar farið fram á það að fá E eina til sín, en það hafi hún ekki getað samþykkt. Hafi ákærði verið búinn að segja við hana að það væri eins gott að hún hefði hent sér út því annars hefði hann „bara haldið áfram með E“. Minnir hana að þetta hafi hann sagt í júní 1996.
K kveðst ekki hafa hvatt D til þess að kæra. Hafi hún aðeins sagt við hana að hvort sem hún vildi kæra hann eða ekki þá stæði hún með henni. Eftir að gengið var frá skilnaðarsamningnum hafi komið upp ágreiningur um umgengni ákærða við E. Hann hafi viljað fá hana eina til sín en hún ekki getað samþykkt það. Hann hafi eitt sinn viljað fara í Húsdýragarðinn með hana og vinkonu hennar en hún hafi ekki getað samþykkt að hann færi með þær einar. Þá hafi hann reiðst og síðan hafi samtöl þeirra þetta haust spunnist þannig að hún hafi sagt honum frá því að það stæði til að E færi til sálfræðings. Hann hafi brugðist svo reiður við að hann hafi sagt við hana í símann að ef hún vogaði sér að gera það skyldi hann sjá til þess að hún yrði tekin af henni og hann skyldi gera líf hennar óbærilegt það sem eftir væri. Upp frá þessu hafi hún beðið hann um að tala við L, systur hennar, ef hann hefði eitthvað við hana að tala því hún treysti sér ekki til þess að tala við hann. Hann hafi tvisvar reynt að hringja eftir þetta og hún lagt á. Að öðru leyti hafi hún ekki þurft á því að taka að hann hafi reynt að komast til E eða hafa samband við hana á nokkurn hátt, nema að hann hafi reynt að hitta hana tvisvar í [...] þar sem hún hafi verið í gæslu.
K segir að D hafi gengið mjög vel framan af í [...] en hún hafi ekki náð prófinu upp úr 10. bekk. Þegar hún hafi byrjað í [...] hafi farið að halla undan fæti fyrir henni. Þar hafi komið fyrir að hún skrópaði og skrökvaði til þess að breiða yfir það. Í þeim skóla hafi komið upp mál þar sem hún og tvær aðrar stúlkur hafi ásakað einn af kennurunum um að hafa verið með ósæmilegt athæfi. Kveðst hún hafa frétt af þessu þannig að hringt hafi verið úr skólanum og segist hún hafa verið kvödd á fund þar. Þær mæðgurnar hafi farið en ákærði hafi ekki farið með þeim. Hafi þær hitt fyrir skólastjórann og kennarahóp þar á meðal umsjónarkennarann, [...]. Segir K þetta mál hafa verið [...], skólastjóranum, kennurunum og foreldrum barnanna til skammar. Hún hafi verið þarna ein með D og börnunum hafi aldrei verið gefinn kostur á öðru en biðjast afsökunar. Svo hafi hún verið rekin úr skólanum í viku. Ákærði hafi vitað um þetta mál en sýnt því lítinn áhuga. K segir ákærða hafa verið vondan með víni þótt hann væri ekki beinlínis drykkfelldur. Hann hafi ekki verið ofbeldishneigður en mjög þreytandi og leiðinlegur.
K segist fyrst hafa komist að því hversu alvarlegar ásakanir D væru á hendur föður sínum þegar hann hafi skrifaði bréf til hennar og annarra í fjölskyldunni sumarið 1997.
K kveðst einu sinni hafa farið í heimsókn vestur til foreldra sinna og hafi D og E þá orðið eftir ásamt föður þeirra. Hafi hún ekið með foreldra sína vestur og flogið strax til baka. Muni hún ekki eftir öðrum slíkum tilvikum þótt hún fortaki ekki að þetta hafi gerst oftar. Hún kveðst hafa farið vestur á sumrin að jafnaði og stundum á jólum. Hún kveðst muna eftir tilviki að hún hafi farið vestur að heimsækja skyldfólk sitt og D orðið eftir í bænum í vikutíma eða svo en gist hjá vinkonu sinni.
K kannast við að hafa haft samband við kunningja ákærða í [...] eftir að ágreiningur kom upp haustið 1996 og varað við honum og skýrt þeim frá því að hann hefði orðið sekur um ósæmileg brot í fjölskyldunni. Hafi þetta komið til af því að hún hafi verið mjög sár og reið út af því sem komið hafði fyrir. Hún hafi svo verið að hitta fólk úti í bæ og fólkið talað um hvað ákærði liti vel út og hefði það gott. Hún hafi setið heima með dætur sínar og vandamálin, sorgina. Í reiði sinni hafi hún hring í þau og sagt þeim frá því hvað hefði gerst. K segir ákærða hafa sagt sér í óspurðum fréttum að hann væri kominn í sambúð með annarri konu haustið eftir að það varð. Hún segir það aldrei hafa hvarflað að sér að þau sambýliskonan ætluðu að ná forræði yfir E.
K segir kynlíf þeirra hjónanna hafi verið í lagi þá sjaldan það var, sem hafi verið mjög sjaldan. Hafi þau haft kynmök 3svar til 4um sinnum á ári en stundum oftar. Hún hafi stundum farið til hans á kvöldin og spurt hann hvort hann vildi koma inn og hann sagt jú, en svo ekki komið og hún sofnað. Hafi hún oft lýst áhyggjum sínum yfir þessu en hann sagt að þetta væri allt í lagi, hann leysti þetta öðru vísi. Hafi hún haldið að hann leysti það bara við klámblöðin sem hann hafi verið með í læstri skúffu inni í herberginu sínu.
Æ, hefur skýrt frá því fyrir dómi að þær D hafi verið vinkonur í [...], komið oft heim til hvor annarrar og hún oft gist hjá D. Um atvikið haustið 1994, sem vikið hefur verið að hér áður, segir hún að dyrnar að herbergi D hafi verið lokaðar þegar þær fóru að sofa í rúmi D, hvor undir sinni sæng. Kveðst hún hafa legið við vegginn en fótagaflinn, smáfjöl, hafi verið rétt við dyrnar. Hún hafi verið í nærbuxum og bol. Hún hafi vaknað um nóttina við það að pabbi D hafi verið að káfa á henni, innan undir nærbuxunum. Ekki muni hún hvort hann sat eða stóð. Hún hafi ýtt honum út og sagt honum að fara og hann farið. Eftir smástund hafi hann opnað dyrnar hljóðlega aftur en hún skellt aftur hurðinni og læst, þótt D hefði verið búin að segja að það mætti ekki læsa. Hafi lykill staðið í skránni. Hún segist ekki vita hvort D hafi verið vakandi en hún hafi sagt við sig eftir að hún læsti: „Ef að þú hefðir ekki verið þarna þá hefði ég lent í þessu.“ Ekki muni hún hvort móðir D hafi verið heima þegar þetta gerðist. Hún segist ekki hafa gist aftur hjá henni eftir þetta þótt hún kæmi þarna í heimsókn eftir þetta en henni hafi liðið illa þegar hún kom eftir þennan atburð. Seinna, líklega sumarið eftir, hafi D sagt sér undan og ofan af því sem ákærði hefði gert. Hún hafi ekki lýst þessu í smáatriðum en sagt að hún væri „búin að búa við þetta í mörg ár“, þ.e. að hann væri að beita hana kynferðislegu ofbeldi. Hafi þetta verið gróft, meira en snerting. Hún hafi ekki nefnt nauðgun en hún hafi talað um að þetta hefði verið slæmt. Hún hafi ekki getað lýst þessu mikið nánar. Hún hafi ekki notað gróf orð heldur talað undir rós um þetta. Þær hafi verið staddar í stofunni hjá henni í [...], þar sem hún átti þá heima, þegar D hafi sagt henni mest um þetta, en hún muni þó hafa sagt sér eitthvað um þetta fyrr. Nánar aðspurð segir vitnið að D hafi sagt að hún hefði verið látin koma við tippið á honum og einnig að hafa munnmök við hann eða eitthvað í þá veruna. Vitnið er annars treg að tjá sig um þetta í smáatriðum og ber því við að það sé svo óþægilegt.
Systurdóttir ákærða, Ö, hefur skýrt frá því að á nýársnótt 1987 hafi verið boð á heimili ömmu hennar og afa, foreldra X. Hún hafi sofnað á dýnu inni í herbergi um um nóttina. Hafi hún verið undir áhrifum áfengis eftir að hafa etið ávextina úr „bollunni“ sem þarna var á boðstólum. Hafi ákærði komið einhvern tíma um nóttina inn í herbergið til hennar og lagst við hliðina á henni og farið að kyssa hana á kinnina og þukla hana niður á brjóst. Hún hafi ýtt honum frá sér og hann farið við það. Hún kveðst hafa sagt móður sinni frá þessu mörgum árum seinna en móðir hennar hafi sagt sér að hún hefði gert það fyrr, þótt hún muni það ekki sjálf. Hún segist hafa sagt D frá þessu eftir að hennar mál kom upp, að hún telur. Hún kveðst vita til þess að móðir hennar hafi verið í sambandi við D út af þessu áður en hún kærði í rauninni „til að aðstoða hana í sínum ákvörðunum“ og „til að aðstoða hana með hennar tilfinningar“. Segist hún ekki vita hvort hún var að reyna að fá frænku sína ofan af því að kæra. Vitnið segist telja að með ákærða og móður hennar hafi alltaf verið ágætis systkinasamband.
O, sambýliskona ákærða, hefur komið fyrir dóm. Hefur hún skýrt frá því að sambúð þeirra hafi hafist um áramótin 1996-7. Auk þeirra sé á heimilinu tvítug dóttir hennar. Hún kveðst hafa orðið vör við ágreining um rétt ákærða til umgengi við yngri dóttur hans. Segir hún að þegar þau hafi kynnst hafi ákærði komið á fyrrum heimili sitt tvö til þrjú kvöld í viku og verið með henni þar. Þau hafi því farið að velta fyrir sér af hverju barnið kæmi ekki og væri með þeim, eins og henni hafi fundist eðlilegt. En þetta hafi gengið svona í stuttan tíma. Þá skýrir hún frá því að D hafi sett sig í samband við N og varað hana við ákærða sem væri vondur maður. Hafi þetta verið skömmu eftir að ákærði flutti inn til þeirra þarna um áramótin. Fyrr um haustið hefði hún hringt heim til þeirra og talað við ákærða sem var þá staddur þar. Hafi stúlkan verið mjög sár. Þá hafi hún komið tvisvar í heimsókn að næturlagi til þess að tala við föður sinn. Hafi hann farið út til þess að tala við hana. Í seinna skiptið hafi þau verið með háreysti fyrir utan og læti.
Dóttir O, N, hefur komið fyrir dóminn og skýrt frá því að D hafi eitt sinn haft samband við hana og þær síðan hist. Hafi þetta verið haustið 1996. Hafi D sagt henni að ákærði hefði misnotað hana ásamt fleiri vinkonum hennar. Hafi D haft áhyggjur af henni og viljað vara hana við ákærða. Vitnið sagðist ekki hafa orðið fyrir því að ákærði misbyði henni kynferðislega.
Niðurstaða.
Ákærði hefur neitað sakargiftum. Hann hefur þó viðurkennt að hafa komið til dóttur sinnar að næturlagi í 3-5 skipti á árunum 1990 til 1994 í þeim tilgangi að horfa á hana og viðurkennir ákærði að heimsóknir þessar hafi verið af kynferðislegum toga. Ákærði kvaðst og nokkrum sinnum hafa lyft upp sængurhorni af fótleggjum stúlkunnar í sama tilgangi. Hafi honum risið hold við að horfa á stúlkuna og nokkrum sinnum hafi hann strokið kynfæri sín utan klæða án þess þó að snerta kynfærin sér til fróunar.
Dóttir ákærða, D, hefur staðfastlega borið á ákærða að hann hafi alla hennar æsku, eða svo langt sem hún muni, beitt hana grófri kynferðislegri misnotkun. Hefur hún lýst því, að um langvarandi og nær órjúfanlega misnotkun hafi verið að ræða. Í upphafi líkt því sem ákærði hefur lýst, en þá hafi ákærði einnig nuddað kynfærum sínum upp við hana og strokið henni um leið. Er á æsku hennar leið hafi athafnir ákærða breyst með þeim hætti, að hann hafi neytt stúlkuna til þess að hafa við hann munnmök og síðar að hafa við hann samfarir. Lýsingar stúlkunnar hafa allt frá upphafi, er hún kærði ákærða fyrir athæfi hans, verið á sömu lund, ýkjulausar og án nákvæmra lýsinga á einstaka atvikum. Hefur framburður hennar verið staðfastur og trúverðugur og framkoma hennar fyrir dómi einörð og traustvekjandi.
Móðir stúlkunnar hefur borið að hafa í þrjú skipti komið að ákærða að næturlagi í herbergi stúlkunnar og hefur ákærði kannast við það. Einnig hefur hún lýst kynferðislegum tilburðum ákærða gagnvart yngri dóttur þeirra, E, þegar hún var þriggja til fimm ára gömul. Hefur ákærði kannast við að eiginkona hans hafi komið að dóttur þeirra, þar sem hún hafi verið að snerta kynfæri hans, en ákærði kvaðst hins vegar ekki hafa fundið fyrir því, þar sem hann hafi verið sofandi í þau skipti.
Þá hefur bróðurdóttir ákærða, R, borið á ákærða, að hann hafi káfað á brjóstum hennar utan klæða, þar sem hún hafi verið lögð til vegna ölvunar í áramótasamkvæmi fjölskyldunnar. Hafi þetta annað hvort verið á nýársnótt 1986 eða 1987, þegar hún var 14 eða 15 ára. Ákærði hefur neitað þessu, en kvaðst muna eftir að hafa farið inn í herbergið til stúlkunnar umrætt sinn annað hvort í þeim tilgangi að bjóða henni góða nótt eða til að horfa á stúlkuna.
Æ, vinkona D, hefur borið að ákærði hafi káfað á kynfærum hennar innanklæða eitt sinn er hún var næturgestur á heimili ákærða. Ákærði hefur neitað þessu, en viðurkennt að hafa í það skipti lyft upp sængurhorni af fótlegg stúlkunnar, þar sem hún hafi sofið við hlið dóttur hans, í þeim tilgangi að fullnægja kynferðislegum hvötum sínum.
Stúlkan, D, hefur sætt ýtarlegum prófunum hjá sérfræðingum, bæði sálfræðingi og geðlækni, á persónuleika sínum og trúverðugleika framburðar hennar auk þess sem kannað var hvort umferðarslys sem hún varð fyrir, allnokkru áður en hún bar fram kæru sína á hendur ákærða, hefði haft áhrif á persónuleika hennar og skaphöfn. Samkvæmt greinargerðum þessara sérfræðinga og vættis þeirra fyrir dómi, er ekkert sem bendir til þess að stúlkan sé haldin neinum þeim sjúkdómum, geðrænum eða líkamlegum, sem kastað gætu rýrð á trúverðugleika framburðar hennar eða bentu til að um uppspuna hennar væri að ræða. Þá leiddu þessar rannsóknir til þeirrar niðurstöðu að áðurgreint umferðarslys hefði ekki haft neinar varanlegar afleiðingar á persónuleika stúlkunnar.
Samkvæmt greinargerð og framburði Hrefnu Ólafsdóttur, félagsráðgjafa, sem hafði stúlkuna í viðtalsmeðferð vegna hinnar ætluðu misnotkunar, gætti aldrei ósamræmis í frásögn hennar og taldi hún stúlkuna bera ýmis merki kynferðislegrar misnotkunar.
Þá er það mat fyrrgreindra sérfræðinga að skýringar stúlkunnar á því hvers vegna hún lagði ekki fram kæru á hendur föður sínum fyrr en tveimur árum eftir að ætlaðri misnotkun lauk séu sennilegar og trúverðugar.
Stúlkan, D, lagði ekki fram kæru á hendur ákærða fyrr en tæpum tveimur árum eftir að ætlaðri misnotkun lauk. Þegar litið er til þess að stúlkan kærði föður sinn fyrir kynferðislega misnotkun alla sína uppvaxtartíð þykja skýringar hennar á því, hvers vegna hún lagði ekki fyrr fram kæru á hendur honum, vera trúverðugar.
Eins og áður greinir hefur ákærði viðurkennt að hafa horft á dóttur sína í þeim tilgangi að fullnægja kynferðisórum sínum. Í málinu liggur frammi bréf sem ákærði sendi til móðurfjölskyldu dóttur sinnar eftir að upp hafði komist um misnotkun hans á dóttur sinni. Í því bréfi viðurkennir ákærði að hafa misnotað dóttur sína, án þess að þar komi fram í hverju sú misnotkun fólst. Ákærði hefur gefið þær skýringar á þessu bréfi sínu, að hann hafi skammast sín vegna hugsana sinna gagnvart dóttur sinni og hafi það verið tilefni bréfsins að afsaka þær. Þegar virtur er framburður stúlkunnar og annarra vitna þykja skýringar ákærða á framburði stúlkunnar bæði langsóttar og ótrúverðugar.
Þegar allt framanritað er virt þykir ekki varhugavert að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar og telja fram komna lögfulla sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.
Háttsemi ákærða, sem svo er lýst í ákæru: „að hafa margsinnis á árunum 1988 til og með 1992 komið inn í svefnherbergi stúlkunnar á heimili þeirra að [...], lagst upp í rúm hennar, káfað á kynfærum hennar og öðrum líkamshlutum, nuddað sér upp við stúlkuna og fróað sér um leið, borið liminn að kynfærum hennar, látið stúlkuna fróa honum, stungið getnaðarlim sínum upp í munn hennar og látið hana sleikja liminn” varðaði fram til gildistöku laga nr. 40/1992, við þágildandi 202. gr. og 1. mgr. 200. gr. laga nr. 19/1940, en við gildistöku laga nr. 40/1992, um breytingu á fyrrgreindum greinum hegningarlaga, hinn 10. júní 1992, varðar þessi háttsemi ákærða við 1. mgr. 200. gr. og 1. málslið 1. mgr. 202 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 40/1992 og 10. gr. laga nr. 40/1992.
Háttsemi ákærða, sem svo er lýst í ákæru: „og að hafa frá árinu 1993 og fram í maímánuð 1995 auk framangreindrar háttsemi, margsinnis sett getnaðarlim sinn að hluta inn í leggöng stúlkunnar og hafið samfarahreyfingar.” varðar við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202 almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fram til 25. maí 1993, er stúlkan varð 14 ára gömul, en frá þeim tíma varðar háttsemin við 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ber að dæma ákærða eftir núgildandi refsilögum, svo fremi að refsing hans verði ekki þyngri en orðið hefði samkvæmt eldri lögum.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða gekkst hann undir dómsátt með greiðslu sektar árið 1982 fyrir brot á 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber að hafa hliðsjón af því að brot ákærða voru alvarleg og náðu yfir langan tíma. Brotin voru framin innan veggja heimilisins. Ákærði brást trausti dóttur sinnar og skyldum sínum gagnvart henni. Þá liggur fyrir að meingerð ákærða gagnvart dóttur sinni hafi haft alvarleg áhrif á sálarástand hennar og vellíðan.
Með vísan til alls framanritaðs þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár.
Samkvæmt þessari niðurstöðu verður ákærði dæmdur til að greiða allan kostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur og þóknun Sifjar Konráðsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns D, sbr. VII. kafla laga nr. 19/1991, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999, 100.000 krónur.
Sératkvæði Péturs Guðgeirssonar héraðsdómara.
Samkvæmt 45. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 hvílir sönnunarbyrðin á ákæruvaldinu, bæði um sekt og þau atvik sem eru í óhag sakborningi. Skilja verður ákvæðið þannig að ákæruvaldið verði að sanna hvert atvik sérstaklega og að óheimilt sé að álykta af ósönnuðu málsatviki, hvort sem það er um önnur atvik eða um sakarefnið sjálft. Vitni hafa verið leidd að nokkrum atvikum sem telja verður að væru ákærða í óhag ef sönnuð þættu. Verður nú vikið að hverju þeirra fyrir sig:
-Gegn neitun ákærða og án frekari sönnunargagna en frásagnar bróðurdótturinnar mörgum árum eftir atvikið þykir vera ósannað að hann hafi káfað á henni.
-Frásögn og framkoma vinstúlku D fyrir dómi hefur ekki verið fyllilega traustvekjandi og hefur ekki beinan stuðning af frásögn D fyrir dóminum um það að ákærði hafi káfað á vinstúlkunni. Þar sem ekki nýtur við annarra sönnunargagna um þetta en frásagnar hennar rúmum tveimur árum eftir atburðinn verður að telja ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi káfað á stúlkunni.
-Loks hefur ákærði neitað því að hafa viðhaft kynferðislegt athæfi gagnvart yngri dóttur sinni og verður gegn neitun hans og án sönnunargagna, annarra en frásagnar móður stúlkunnar nokkrum árum eftir að það á að hafa gerst, að telja það ósannað.
Í málinu liggja aftur á móti fyrir nokkur atvik sem þýðingu hafa fyrir sönnunarmat í því. Af þeim atvikum sem skýra má ákærða í óhag eru þessi helst:
-Skýrslur sálfræðinganna tveggja og geðlæknisins um persónuleika D þykja styrkja mjög frásögn hennar.
-D var eðlilegt barn framan af, en eftir að kom á unglingsárin, þ.e. þann tíma sem hún segir athæfi ákærða hafa versnað að mun, féll hún á prófi upp úr 10. bekk og gekk illa í framhaldsskóla og félagslífi.
-Mæðgunum ber saman um það að stúlkan hafi sóst eftir því að fara með móðurinni í búðarferðir og önnur erindi í stað þess að vera heima með föður sínum.
-Mæðgunum ber saman um það að stúlkan hafi viljað læra á þvottavél heimilisins og eftir það hafi hún oft þvegið af sér.
-Næturheimsóknir D til ákærða þykja vera vottur um mikla og uppgerðarlausa reiði hennar í garð hans.
Af þeim atvikum sem skýra má ákærða í hag eru þessi helst:
-D kom ekki fram með kæru sína fyrr en tæpum tveimur árum eftir að athæfi ákærða á að hafa lokið og eftir að upp kom ágreiningur um umgengni ákærða við yngri dóttur hans.
-Eftir að málið kom upp á heimilinu og meðan ákærði dvaldist erlendis haustið 1995 skrifaði D honum ástúðleg bréf og einnig fékk hann hlýlegt póstkort sem stílað var fyrir E, yngri dóttur hans.
-Í skilnaðarsamningi ákærða og K frá 31. júlí 1996 er kveðið á um umgengnisrétt ákærða við yngri dóttur hans og rétt hans til samvista við hana samfellt í viku á hverju sumri.
-Eftir að ákærði flutti frá mæðgunum í maí 1995 kom hann reglulega á heimili þeirra, umgekkst þar yngri dóttur sína og hélt auk þess jól með þeim það ár.
Ákærði hefur neitað því staðfastlega frá upphafi að hafa haft kynferðismök við dóttur sína. Skýrslur ákærða hafa verið stöðugar um öll atriði sem máli skipta og tel ég að í þeim séu engin sérstök atriði sem veikja þær. Enda þótt sannað sé að hann sé haldinn gægjuhneigð og að hann viðurkenni að hafa veitt þessari hneigð sinni útrás þegar dóttir hans átti í hlut tel ég að það eitt nægi ekki ásamt frásögn hennar, þótt einörð og staðföst sé, til þess að fella sök á hann fyrir kynferðismökin sem hann er ákærður fyrir. Ekki er neinum áþreifanlegum sönnunargögnum til að dreifa í máli þessu. Þau atriði sem talin hafa verið upp hér að ofan, og skýra má ákærða í óhag, eru ekki ótvíræðar vísbendingar um það að hann hafi haft kynferðismök við dóttur sína og má einnig skýra þau á annan veg. Bréf ákærða til fyrrverandi eiginkonu og mágafólks er ritað eftir að hann gekkst við gægjum sínum í lögregluyfirheyrslu og fæ ég ekki séð að það bæti neinu við þá játningu, heldur áréttar hann þar mótmæli sín við ásökunum dótturinnar. Þegar allt þetta er athugað, og þegar einnig er höfð hliðsjón af þeim atriðum sem geta verið ákærða í hag og rakin voru hér að framan, álít ég að ekki séu komnar fram lögfullar sönnur fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um það athæfi sem honum er gefið að sök og því beri að sýkna hann af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Ég tel einnig að ekki komi annað athæfi ákærða til álita í málinu eins og ákæran er orðuð. Eftir málsúrslitunum er ég sammála meirihluta dómsins um sakarkostnað í málinu.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 ár.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur og þóknun Sifjar Konráðsdóttur, héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns D, 100.000 krónur.