Hæstiréttur íslands

Mál nr. 463/2013


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Viðbótarkrafa
  • Fullnaðarkvittun
  • Endurgreiðsla ofgreidds fjár


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. desember 2013.

Nr. 463/2013.

Hagar hf.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Andri Árnason hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Endurgreiðsla ofgreidds fjár.

H hf. krafði A hf. um endurgreiðslu fjár sem félagið taldi sig hafa ofgreitt af tveimur lánssamningum sem gerðir höfðu verið við forvera A hf. Voru lánin að fullu greidd af hálfu H hf. á árinu 2009. Á árinu 2011 endurreiknaði A hf. lánin þar sem í samningunum tveimur hafði verið mælt fyrir um ólögmæta gengistryggingu þeirra. Við endurútreikninginn miðaði A hf. við að lánin skyldu bera vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Laut deila aðila annars vegar að því hvort reglur um endurheimt ofgreidds fjár stæðu í vegi fyrir kröfu H hf. og hins vegar hvort A hf. hefði verið heimilt að krefja félagið um viðbótargreiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum, sem þegar höfðu verið greiddir af lánunum, og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Að því er varðaði fyrra álitaefnið vísaði Hæstiréttur til þess að A hf. hefði átt frumkvæði að því að taka skuldasamband aðila upp að nýju með því að endurgreiða H hf. það sem hann taldi nema inneign félagsins vegna ólögmætrar gengistryggingar og þannig viðurkennt í verki að H hf. ætti rétt á endurheimt ofgreidds fjár. Þá hefði því ekki verið haldið fram af hálfu A hf. að H hf. hefði firrt sig rétti til frekari greiðslu með fyrirvaralausri viðtöku á greiðslum A hf. vegna gengismunarins. Að því er varðaði síðar álitaefnið vísaði Hæstiréttur til dóma réttarins í málum nr. 600/2011, 464/2012 og 50/2013 og þeirra sjónarmiða sem þar komu fram um heimild til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem hefur fengið hefði minna greitt en hann hefði átt rétt til, ætti kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt hefði verið. Heildarmat þyrfti að eiga sér stað á grundvelli þeirra sjónarmiða, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari væru rökin til að víkja frá meginreglunni. Taldi Hæstiréttur ljóst að H hf. hefði verið í góðri trú um að greiðslur hans hefðu falið í sér fullar efndir. Þá hefði festa verið á framkvæmd lánssamninganna og hefði umfang viðbótarkröfu A hf. vegna vaxta verið verulegt hvort sem miðað væri við upphaflegan höfuðstól lánanna eða litið væri til hlutfalls af greiddum vöxtum. Einnig yrði að telja að það hefði staðið A hf. nær að gæta þess að í samningum við H hf. væru ekki skilmálar sem stönguðust á við ákvæði laga nr. 38/2001. Á hinn bóginn var litið til þess að við gerð lánssamninganna hefði H hf. verið eitt stærsta verslunarfyrirtæki landsins með umfangsmikinn rekstur. Hefðu gögn málsins borið með sér að félagið hefði verið í samningsstöðu til að hafa áhrif á skilmála lánssamninganna og hefði það haft brýnt tilefni til að leita sér sérfræðiaðstoðar við samningsgerðina. Yrði ekki litið svo á að viðbótarkrafa A hf., sem H hf. hefði þegar greitt, hefði valdið röskun á fjárhagslegri stöðu hans þannig að jafna mætti til óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu. Þá hefði A hf. haft viðbótarkröfu sína uppi án ástæðulausra tafa. Þóttu því ekki skilyrði til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu A hf. staðfest.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. júlí 2013. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.151.734.830 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. október 2009 til 9. apríl 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum tveimur innborgunum 19. desember 2011, samtals að fjárhæð 514.891.325 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi gerði 2. febrúar 2004 tvo lánssamninga við Kaupþing Búnaðarbanka hf., sem síðar fékk nafnið Kaupþing banki hf., en stefndi fékk réttindi samkvæmt samningunum framseld samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Í samningi sem fékk númerið 1256 lofaði bankinn að lána og áfrýjandi að taka lán „að jafnvirði íslenskar krónur 570.000.000,-“ sem væri „100%“ í sænskum krónum. Lánið skyldi endurgreitt með 52 afborgunum þannig að 1/112 hluti upphæðarinnar greiddist fyrst 5. september 2004 og síðan mánaðarlega á 50 gjalddögum en eftirstöðvarnar í einu lagi á lokagjalddaga 5. desember 2008. Lánið bæri LIBOR vexti með nánar tilgreindu álagi sem greiðast skyldu mánaðarlega eftir á í fyrsta skipti 5. mars 2004. Í skilmálum lánsins var gert ráð fyrir að lántaki gæti farið fram á að fá það framlengt til allt að tveggja ára.

Hinn samningurinn bar númerið 1257 en með honum lofaði bankinn að lána og áfrýjandi að taka lán „að jafnvirði íslenskar krónur 680.000.000,-“ sem einnig væri „100%“ í sænskum krónum. Lánið yrði endurgreitt í einu lagi 5. febrúar 2007. Skyldi það bera LIBOR vexti með tilgreindu álagi og þeir greiðast mánaðarlega eftir á í fyrsta sinn 5. mars 2004. Í samningnum var hliðstætt ákvæði um framlengingu lánsins og í fyrrnefnda samningnum.

 Á sama tíma tók áfrýjandi fjölmyntalán að jafnvirði allt að 4.250.000.000 krónur hjá Landsbanka Íslands hf. Gögn málsins bera með sér að samvinna var milli bankanna um lánveitingu þessa. Skilmálar lánanna, sem að stofni má rekja til bankanna, tóku í sumum greinum mið af athugasemdum fjármálastjóra áfrýjanda. Lánin, sem málið snýst um, voru greidd út í íslenskum krónum. Fyrrgreinda lánið var framlengt til tveggja ára með viðauka 5. desember 2008. Skyldi það greitt með 24 mánaðarlegum afborgunum sem hver yrði 1/112 upphaflegrar lánsfjárhæðar en eftirstöðvarnar greiddar á lokagjalddaga. Síðargreinda lánið var einnig framlengt til tveggja ára með viðauka 5. febrúar 2007, en vextir skyldu áfram greiðast á mánaðarlegum gjalddögum.

Áfrýjandi stóð í skilum með bæði lánin frá upphafi til 19. október 2009, en þá voru þau greidd upp með nýju láni frá stefnda. Höfðu þá verið inntar af hendi umsamdar greiðslur á 68 gjalddögum af hvoru láni um sig.

Með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 var komist að niðurstöðu um að óheimilt væri að binda fjárhæðir lána, sem teldust veitt í íslenskum krónum, við gengi erlendra gjaldmiðla. Með dómi réttarins 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 var talið að í slíkum tilvikum yrði að líta fram hjá ákvæðum lánssamnings um vexti og miða þess í stað við vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Í kjölfar þessara dóma voru sett lög nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001 þar sem meðal annars 18. gr. þeirra var breytt og með almennum hætti mælt fyrir um hvernig standa skyldi að uppgjöri lána með ólögmætri gengisviðmiðun. Voru ákvæði laganna um vaxtaviðmið efnislega í samræmi við síðastnefndan dóm.

 Í kjölfar dóms Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 voru lán í eigu stefnda með samningsskilmálum hliðstæðum þeim sem voru í framangreindum lánssamningum endurreiknuð í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001. Endurútreikningur á framangreindum lánum áfrýjanda var dagsettur 8. desember 2011. Þar var munur á heildargreiðslum áfrýjanda af láni nr. 1256 og svonefnds uppgreiðsluvirðis þess talinn nema 39.991.931 krónu en samsvarandi munur heildargreiðsla og uppgreiðsluvirðis láns nr. 1257 var talinn nema 473.854.908 krónum. Þessi mismunur var talinn mynda inneign áfrýjanda. Þegar sú inneign var greidd honum 19. sama mánaðar höfðu þessar fjárhæðir hækkað lítillega og námu annars vegar 40.121.923 krónum og hins vegar 474.769.402 krónum.

Á grundvelli niðurstöðu dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 taldi áfrýjandi sig eiga frekari inneign hjá stefnda vegna ólögmætrar gengistryggingar framangreindra lána. Sendi áfrýjandi stefnda fyrirspurn 9. mars 2012 um viðbrögð við fyrrgreindum dómi. Kvaðst áfrýjandi hafa látið endurreikna lánin „miðað við dóminn“ og ætti hann samkvæmt því rétt á rúmum 820.000.000 krónum til viðbótar við fyrri endurgreiðslu. Stefndi svaraði erindinu 12. sama mánaðar og taldi dóminn ekki gefa tilefni til að ætla að áfrýjandi ætti rétt til frekari endurgreiðslu. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 14. nóvember 2012.

II

Í máli þessu leitar áfrýjandi endurgreiðslu á því sem hann telur sig hafa ofgreitt vegna ólögmætrar gengisviðmiðunar fyrrnefndra tveggja lána. Lán þessi voru að fullu greidd samkvæmt skilmálum sínum og var skuldasambandi aðila á grundvelli samninga um þau þar með lokið. Stefndi hefur borið því við að reglur um endurheimt ofgreidds fjár standi því í vegi að fallist verði á kröfu áfrýjanda. Um þá málsvörn stefnda verður að líta til þess að hann átti sjálfur frumkvæði að því að taka skuldasambandið upp að nýju með því að endurgreiða áfrýjanda það, sem hann taldi nema inneign áfrýjanda vegna ólögmætrar gengistryggingar, og viðurkenna þar með í verki að áfrýjandi ætti rétt á endurheimt ofgreidds fjár. Getur stefndi að því gættu ekki borið við að reglur um þetta standi því í vegi að áfrýjandi leiti nú úrlausnar um það hvort við þá endurgreiðslu hafi stefndi ranglega dregið frá gengismuninum óréttmæta viðbótarkröfu um vangreidda vexti af lánunum. Þá er til þess að líta að stefndi hefur ekki uppi málsástæðu um að áfrýjandi hafi firrt sig rétti til frekari kröfugerðar með fyrirvaralausri viðtöku 19. desember 2011 á greiðslum stefnda vegna gengismunarins.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu snýst ágreiningur aðila því í eðli sínu um hvort stefnda hafi eftir almennum reglum kröfuréttar verið heimilt að krefja áfrýjanda um viðbótargreiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum, sem hann hafði þegar greitt af láni í íslenskum krónum með ólögmætu ákvæði um gengisviðmiðun, og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Ágreiningur aðila er því í grundvallaratriðum hliðstæður þeim sem kom til úrlausnar meðal annars í dómum Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 og 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013.

Eins og rakið er í áðurgreindum dómum er meginreglan sú að kröfuhafi, sem hefur fengið minna greitt en hann átti rétt til, á kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni eru þó undantekningar, meðal annars að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu, en tilkalli hans um viðbótargreiðslu verður þó einungis hafnað af þeim sökum við sérstakar aðstæður. Að baki undatekningunum búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum og að það geti haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegri stöðu skuldara að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð þvert á væntingar sínar.

 Þau atriði sem litið hefur verið til við mat á því hvort svo standi á að efni séu til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu eru í fyrsta lagi hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans var ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi. Ljóst er að aðilar samninganna gengu út frá því við hverja greiðslu að útreikningur kröfuhafans á fjárhæð afborgunar og vaxta tæki mið af því að ákvæði um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild. Var áfrýjandi því í góðri trú um að greiðslur hans fælu í sér fullar efndir.

Þá hefur í annan stað verið litið til þess hvort sá aðstöðumunur hafi verið á aðilum að það réttlæti að hafna viðbótarkröfu og í framhaldi af því hvorum þeirra standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til þess að vangreitt var. Í þeim efnum hefur einkum verið litið til þess hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök komu fram þar til að krafa var höfð uppi, hvorum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssamband sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Öll eru þessi atriði ásamt öðrum til viðmiðunar og ekkert eitt þeirra getur ráðið úrslitum um hvort vikið verði frá meginreglunni um að kröfuhafi eigi rétt á viðbótargreiðslu. Þar ræður heildarmat á aðstæðum öllum, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni.

Ljóst er að festa var á framkvæmd lánssamninganna enda greiddi áfrýjandi umsamdar afborganir og vexti allan lánstímann og hafði staðið í skilum á 68 gjalddögum varðandi hvort lánanna þegar hann 19. október 2009 greiddi skuld sína upp með nýju láni. Þá verður að telja að umfang viðbótarkröfu stefnda vegna vaxta, sem hann dró frá endurgreiðslu sinni á fjárhæð sem svaraði til hækkunar á skuld áfrýjanda sökum gengistryggingar, sé verulegt hvort sem miðað er við upphaflegan höfuðstól lánanna eða litið er til hlutfalls af greiddum vöxtum, en viðbótarkrafa stefnda vegna vaxta nam samtals 636.843.505 krónum. Einnig verður að telja að það hafi staðið lánveitandanum sem fjármálastofnun nokkru nær að gæta þess að ekki væru í samningum við áfrýjanda skilmálar sem stönguðust á við ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 38/2001. Á hinn bóginn er til þess að líta að við gerð lánssamninganna var áfrýjandi eitt stærsta verslunarfyrirtæki landsins með umfangsmikinn rekstur á mörgum sviðum, bæði hér á landi og erlendis. Lánssamningarnir voru liður í umfangsmikilli fjármögnun sem sérstaklega var sniðin að þörfum áfrýjanda. Bera gögn málsins með sér að hann hafi verið í samningsstöðu til að hafa áhrif á einstök atriði í skilmálum lánssamninganna og hafði hann jafnframt brýnt tilefni til að leita sér allrar nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðar við samningsgerðina. Á gildistíma lánssamninganna endurgreiddi áfrýjandi upphaflegan höfuðstól skuldanna, 1.250.000.000 krónur, ásamt vöxtum að fjárhæð samtals 335.541.104 krónur og 1.151.734.830 krónur vegna áhrifa gengisbreytinga á höfuðstól skuldanna, en af síðastgreindri fjárhæð hefur stefndi þegar endurgreitt 514.891.325 krónur og standa því eftir af henni 636.843.505 krónur. Á árinu 2009, þegar áfrýjandi greiddi upp skuld samkvæmt lánssamningunum, voru heildartekjur hans um 68.430.000.000 krónur, en fjármagnsgjöld alls um 2.926.000.000 krónur. Í því samhengi verður ekki litið svo á að viðbótarkrafa stefnda, sem áfrýjandi hefur í raun þegar greitt, hafi valdið röskun á fjárhagslegri stöðu hans þannig að jafna megi til óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu. Þegar til kom hafði stefndi viðbótarkröfu sína uppi án ástæðulausra tafa með því að draga hana frá greiðslu til áfrýjanda 19. desember 2011. Að öllu þessu gættu eru ekki skilyrði til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hagar hf., greiði stefnda, Arion banka hf., 2.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2013.

I.

             Mál þetta, sem var dómtekið 14. maí sl., er höfðað 14. nóvember 2012 af Högum hf., Hagasmára 1 í Kópavogi, gegn Arion banka hf., Borgartúni 19 í Reykjavík.

             Í málinu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur:

a.         Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 299.408.555 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. október  2009 til 9. apríl 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda að fjárhæð 40.121.923 krónur 19. desember 2011.

b.         Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 852.326.275 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. október 2009 til 9. apríl 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda að fjárhæð 474.769.402 krónur 19. desember 2011.

c.          Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

             Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

II.

         Stefnandi er félag sem er umsvifamikið á smásölumarkaði hér á landi. Félagið gerði 2. febrúar 2004 tvo lánssamninga við forvera stefnda sem fengu lánsnúmerin 1256 og 1257. Í fyrrgreinda samningnum lofaði lánveitandi að lána „að jafnvirði íslenskar krónur 570.000.000,-“ í sænskum krónum. Skuldbatt stefnandi sig til að endurgreiða lánið með 52 afborgunum með nánar tilgreindum hætti, síðast 5. desember 2008, en heimilt var að framlengja lánið í allt að tvö ár. Í síðargreinda samningnum lofaði lánveitandi að lána „að jafnvirði íslenskar krónur 680.000.000,-“ í sænskum krónum. Með honum skuldbatt stefnandi sig til að endurgreiða lánið að fullu með einni greiðslu 5. febrúar 2007, nema lánið yrði framlengt. Um vexti sagði í báðum samningum að lánin bæru breytilega LIBOR-vexti eins og þeir ákvörðuðust hverju sinni á millibankamarkaði í London fyrir „viðkomandi gjaldmiðil“ að viðbættu 1,7% vaxtaálagi.

         Á sama tíma tók stefnandi fjölmyntalán að jafnvirði allt að 4.250 milljónum króna hjá Landsbanka Íslands hf., en gögn málsins bera með sér að samvinna hafi verið milli bankanna um lánveitingar þessar. Andvirði lánanna frá forvera stefnda átti að nýta til að greiða skuldbindingar stefnanda hjá Landsbanka Íslands hf. Óumdeilt er að lánin voru greidd út í íslenskum krónum. Þá veitti stefnandi lánveitanda heimild til að skuldfæra reikning sinn í Landsbanka Íslands hf. fyrir greiðslum afborgana á lánunum nr. 1256 og 1257. Viðaukar voru gerðir við framangreinda lánssamninga 5. febrúar 2007 og 5. desember 2008 þar sem lánin voru framlengd til tveggja ára. Óumdeilt er að þau voru í skilum allt til 19. október 2009 er þau voru greidd upp, en það var gert með nýrri lántöku hjá Landsbankanum og stefnda.

         Með dómum Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að binda fjárhæðir lána, sem þar var fjallað um, við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, enda um lán í íslenskum krónum að ræða. Í dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 var jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að líta yrði fram hjá ákvæðum samnings um vexti á láni í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu og miða þess í stað við vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Því var fallist á kröfu lánveitanda um greiðslu eftirstöðva lánsins sem tók mið af þessari forsendu. Í kjölfar þessa dóms voru sett lög nr. 151/2010  um breytingu á lögum nr. 38/2001 þar sem 18. gr. þeirra var m.a. breytt. Þar er með almennum hætti mælt fyrir um það hvernig standa beri að uppgjöri lána með ógildum samningsákvæðum um vexti. Í ákvæðinu er m.a. kveðið á um vaxtaviðmið sem er efnislega í samræmi við fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.

         Fleiri dómar féllu í kjölfar framangreindra dóma þar sem skorið var úr um hvort lánveiting væri með ólögmætri gengistryggingu. Meðal þeirra var dómur Hæstaréttar frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011. Í kjölfar hans voru lán í eigu stefnda, með samningsskilmála á borð við þá sem voru í lánssamningum nr. 1256 og 1257, endurreiknuð í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001.

         Í málinu liggur fyrir endurútreikningur á framangreindum lánum, dags. 8. desember 2011. Þar var svokallað uppgreiðsluvirði láns nr. 1256 talið nema 1.366.834.534 krónum og var þá tekið mið af vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Alls hafði stefnandi greitt 1.406.826.465 krónur af láninu. Mismunurinn 39.991.931 króna myndaði inneign stefnanda hjá stefnda. Uppgreiðsluvirði láns nr. 1257 var talið nema 1.630.609.619 krónum, en innborganir stefnanda á lánið höfðu samtals numið 2.104.464.527 krónum. Mismunurinn, 473.854.908 krónur, myndaði inneign stefnanda hjá stefnda. Þegar framangreindar inneignir voru greiddar stefnanda 19. desember 2011 höfðu fjárhæðirnar hækkað lítillega, en þær námu annars vegar 40.121.923 krónum og hins vegar 474.769.402 krónum.

         Í dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 var tekist á um það hvort lánveitanda hefði verið rétt að skuldajafna kröfu sinni um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 á móti málskostnaðarkröfu lántaka sem fallið hafði til í máli, þar sem komist hafði verið að þeirri niðurstöðu að skuldabréf lántaka hefði verið með ólögmætri gengistryggingu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 14. febrúar 2011 í máli nr. 604/2010. Lántakarnir báru fyrir sig að hvað sem liði niðurstöðu Hæstaréttar í því máli, um að skuld þeirra ætti allt frá upphafi að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, teldust þau hafa fullgreitt vexti fyrir liðna tíð með því að hafa jafnan greitt þá í samræmi við greiðslutilkynningar lánveitanda, enda hefði hann tekið við þeim án fyrirvara um frekari kröfu um vexti síðar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að það væri meginregla að kröfuhafi, sem hefði fengið minna greitt en hann átti rétt til, ætti tilkall til viðbótargreiðslu. Frá þeirri meginreglu væru þó undantekningar meðal annars um að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Komist var að þeirri niðurstöðu að svo hagaði til í umræddu máli þannig að það stæði kröfuhafa nær en lántaka að bera þann vaxtamun sem hlotist hefði af hinni ólögmætu gengistryggingu. Var þá meðal annars litið til þess að lántakar hefðu verið í góðri trú um að greiðslur þeirra á vöxtum fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu. Jafnframt hafi fjárhæð viðbótarkröfu kröfuhafa um vexti fyrir liðna tíð verið umtalsverð þegar litið væri til upphaflegrar lánsfjárhæðar. Þá skipti máli að lánveitandi var fjármálafyrirtæki sem hafði boðið upp á lán með ólögmætri gengistryggingu og voru skilmálar þess láns ákveðnir einhliða af hans hálfu. Því var komist að þeirri niðurstöðu að lánveitandi hefði ekki getað krafið lántaka um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann, eins og byggt hafði verið á við skuldajöfnuðinn. Fengu lög nr. 151/2010, sem eins og áður segir breyttu lögum nr. 38/2001, ekki haggað þeirri niðurstöðu, þar sem með almennum lögum væri ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reyndi í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilt hafði þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt.

          Í kjölfar framangreinds dóms Hæstaréttar taldi stefnandi sig eiga frekari inneign hjá stefnda. Í tölvuskeyti stefnanda 9. mars 2012 kom fram að stefnandi hefði látið reikna út „lánið miðað við dóminn“ og er þar talið að inneign stefnanda, til viðbótar við það sem þegar hefði verið endurgreitt, næmi rúmum 820 milljónum króna. Var ósk um viðbrögð stefnda við þessu áréttuð. Með bréfi stefnda 12. mars 2012 var fyrirspurn stefnanda svarað. Þar var talið að atvik í máli stefnanda væru ekki sambærileg þeim atvikum sem fjallað hefði verið um í framangreindum dómi Hæstaréttar. Taldi stefndi því að stefnandi ætti ekki rétt til frekari endurútreiknings á lánunum.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Til stuðnings kröfum sínum í máli þessu tekur stefnandi fram að lán hans nr. 1256 og 1257 hafi ekki verið gild lán í erlendum myntum, heldur hafi þau falið í sér ólögmæta gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum. Því hafi lánveitandi ekki átt rétt til þess að einstakar afborganir tækju breytingum í samræmi við breytt gengi erlendra gjaldmiðla og að á þær reiknuðust umsamdir erlendir vextir.

         Stefnandi tekur og fram að hann hafi greitt af lánunum í samræmi við greiðsluseðla og stöðu lánanna, eins og hún hafi verið reiknuð af stefnda á hverjum tíma. Verulegur hluti af þessum greiðslum hafi verið verðbætur á höfuðstól vegna gengistryggingarinnar.

         Stefnandi kveðst reisa endurgreiðslukröfur sínar á hendur stefnda á því að hann hafi greitt stefnda hærri fjárhæð en stefndi hafi átt rétt til af framangreindum lánum. Ofgreiðslurnar nemi samtölu þeirra verðbóta sem stefndi hafi innheimt með ólögmætum hætti. Stefnandi eigi því rétt á að fá það sem ofgreitt hafi verið endurgreitt samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, eins og þær hafi verið skýrðar í nýlegum dómafordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum.

         Stefnandi vísar einnig til þess að stefndi hafi nú þegar viðurkennt rétt stefnanda til endurgreiðslu með því að endurgreiða honum hluta af því sem ofgreitt hafi verið. Útreikningsforsendur þeirra endurgreiðslna hafi að mati stefnanda verið rangar. Hafi stefndi endurreiknað lánin miðað við þá forsendu að þau hefðu borið almenna vexti frá upphafi, þrátt fyrir skilmála lánanna um tilgreinda LIBOR-vexti.

         Stefnandi byggir á því stefnda hafi verið óheimilt að endurreikna lánin með almennum vöxtum frá upphafi lánstímans. Slíkur endurútreikningur feli í raun í sér mjög háa viðbótarkröfu um vexti fyrir liðna tíð. Um þetta vísar stefnandi til fordæma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og í máli nr. 464/2012. Á sama hátt og í þessum fordæmismálum hafi stefnandi greitt aðra og lægri vexti samkvæmt greiðsluseðlum stefnda og teljist þannig hafa fyrirvaralausa fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vaxta fyrir viðkomandi tímabil. Stefnandi byggi á því, að á sama hátt og í síðarnefnda fordæmismálinu, þar sem aðstöðumunur hafi verið talinn vera á milli sveitarfélags annars vegar og fjármálafyrirtækis hins vegar, þá hafi verið aðstöðumunur milli stefnanda sem fyrirtækis í verslunarrekstri og Kaupþings, síðar stefnda, eins stærsta lánafyrirtækis landsins. Við aðalmeðferð málsins lagði stefnandi áherslu á að enginn munur væri á aðstæðum í þessu máli og í fyrrgreindum hæstaréttarmálum þó að hér hafi lántaki verið búinn að greiða allt lánið en í síðargreindu málunum hafi verið tekist á um leiðréttingu á stöðu viðkomandi lánsskuldbindinga. Endurgreiðslukrafa stefnanda sé sama eðlis og krafa um viðurkenningu á breyttri stöðu láns.

         Stefnandi styður fjárhæð stefnukröfunnar í a- og b-liðum kröfugerðar sinnar við útreikninga endurskoðunarfyrirtækisins KPMG hf. sem lagðir hafi verið fram í málinu. Þar séu tilgreindar allar afborganir á höfuðstól og á vöxtum af lánunum og endurgreiðslukröfur stefnanda reiknaðar út frá því. Útreikningarnir hafi verið gerðir að beiðni stefnanda og hafi þeir verið kynntir stefnda.

         Stefnandi tekur fram að útreikningsniðurstöður KPMG taki mið af almennum vöxtum allt til 29. febrúar 2012, þegar útreikningarnir hafi verið gerðir. Í kröfugerð stefnanda sé höfuðstóll krafna hins vegar miðaður við 19. október 2009, þ.e. daginn er lánin hafi verið greidd upp og endurkröfuréttur stefnanda hafi stofnast. Í stefnu er nánari grein gerð fyrir þeirri aðferð sem lögð sé til grundvallar útreikningnum og er tekið fram að stefnandi telji að hann sé í samræmi við þá aðferð sem fallist hafi verið á í dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012. Felur hún í sér að staða lánanna er reiknuð út með því að draga hverja afborgun af höfuðstólnum frá eftirstöðvum hans hverju sinni. Ástæðulaust er að rekja þá útlistun nánar í ljósi þess að ekki er ágreiningur um útreikning fjárkröfunnar.

         Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kveður hann þá kröfu gerða með stoð í 10. gr. sömu laga. Á því sé byggt að kröfur um endurgreiðslu á ofgreiddu fé beri almenna vexti frá þeim degi sem ofgreiðslur hafi átt sér stað, þ.e. 19. október 2009. Stefnandi krefst enn fremur dráttarvaxta á grundvelli III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Upphafsdagur dráttarvaxta sé 9. apríl 2012, þ.e. mánuði eftir að stefnandi hafi ítrekað erindi um endurútreikning lánsins, en stefndi hafi svarað erindinu 12. mars 2012. Þá kveður hann kröfu um málskostnað reista á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að enginn endurheimturéttur sé fyrir hendi samkvæmt meginreglum kröfuréttar. Í öðru lagi er á því byggt af hálfu stefnda að jafnvel þótt svo væri hafi engin ofgreiðsla átt sér stað. Í þriðja lagi er sýknukrafan reist á því, að sé endurútreikningur beggja lánsskuldbindinganna talinn fela í sér viðbótarkröfu eða ígildi hennar, þá hafi hún átt sér lagastoð. Telur stefndi að öll þessi atriði, hvert um sig og saman, leiði til sýknu af kröfum stefnanda.

         Varðandi fyrstu málsástæðu stefnda tekur hann fram að þótt umþrættar lánsskuldbindingar hafi reynst fela í sér ólögmæta gengistryggingu sé einsýnt að á lánstímanum hafi greiðslur stefnanda og móttaka lánveitanda hverju sinni byggst á eðlilegri og forsvaranlegri túlkun á samningsákvæðunum, þótt hún hafi reynst röng, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 (þrír dómenda hafi talið jafnvirðisorðalag að sönnu vísa til skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum sem færi því ekki gegn lögum nr. 38/2001). Af framangreindu leiði að hafna beri endurheimturétti samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Stefndi vísar í þessu sambandi jafnframt sérstaklega til þess að heimild til endurheimtu fjár vegna þegar uppgreiddra samningssambanda feli í sér röskun á þeirri réttarstöðu, sem eigi að skapast við fullnaðargreiðslu, og að mikilvægt sé að slík greiðsla feli í sér endalok samskipta aðila, enda stuðli slíkt að öryggi og festu í viðskiptum.

         Stefndi áréttar í þessu sambandi að sú endurgreiðsla sem hafi farið fram hafi ekki verið reist á almennum reglum kröfuréttar, heldur á ákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og ákvæðið varð með lögum nr. 151/2010. Stefndi hafi ekki viðurkennt neinn endurheimturétt umfram þá endurgreiðslu sem fram hafi farið samkvæmt þeirri útreikningsaðferð sem þar sé lögð til grundvallar, þ.e. að vextir eigi að miðast við 4. gr., sbr. 3. gr. laga laga nr. 38/2001.

         Stefndi byggir jafnframt á því að það sé bundið í lög, sbr. ákvæði 5. mgr. 18. gr., sbr. 2. málsl. ákvæðisins, að við útreikning endurheimtukrafna skuli lán reiknuð þannig að vextir séu miðaðir við 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Hafi stefndi að öllu leyti uppfyllt þá lagaskyldu. Stefnandi geti ekki átt frekari rétt sér til handa en samkvæmt tilvísuðu lagaákvæði.

         Eins og áður segir byggir stefndi einnig á því að engin ofgreiðsla hafi átt sér stað. Í því sambandi tekur stefndi fram að endurheimtukrafa stefnanda, þ.e. hinn tölulegi grundvöllur kröfunnar, sé reistur á því að við útreikning kröfunnar beri að miða við erlenda samningsvexti sem vaxtaviðmiðun. Stefndi fellst ekki á það. Þegar af þeim ástæðum telur stefndi að sýkna beri hann af kröfum stefnanda, enda ljóst að endurgreiðsla hafi þegar átt sér stað til samræmis við þá vexti sem taka beri mið af.

         Stefndi vísar til þess að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 hafi verið skorið úr um það hvernig færi um vexti af gengistryggðum skuldbindingum. Hafi verið dæmt að í stað umsaminna erlendra vaxta skyldu vextir miðast við 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, sbr. einnig dóm réttarins í máli nr. 464/2012, hafi niðurstaðan orðið sú að vextir af slíkum skuldbindingum hafi talist fullgreiddir samkvæmt fullnaðarkvittun kröfuhafa. Sá síðarnefndi gæti því ekki krafið skuldara um greiðslu vaxta umfram þá erlendu vaxtaviðmiðun, sem hann hafði greitt. Rangur lagaskilningur aðila, sem hafi legið til grundvallar lögskiptum þeirra um vaxtakjör, yrði ekki leiðréttur aftur í tímann heldur einungis vegna vaxta til framtíðar. Viðbótarkröfu kröfuhafa hafi því verið hafnað. Af forsendum í dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012 verður ráðið, líkt og í fyrri dóminum, að reglur kröfuréttar um viðbótargreiðslur fyrir liðna tíð, og undantekningar frá henni, taki til þeirrar aðstöðu þegar réttarsambandið er tekið upp vegna liðins tíma og skuldara síðan gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar hans um hið gagnstæða. Samkvæmt forsendum Hæstaréttar búi hér að baki sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en því geti fylgt mikil röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, sem um lengri tíma hafi hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp vegna liðins tíma.

         Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, sbr. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, fær stefndi ekki ráðið að erlendir samningsvextir teljist rétt vaxtaviðmiðun eins og hér standi á. Samningssambandið sé hér ekki tekið upp vegna liðins tíma og skuldara síðan gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð. Þvert á móti er kröfuréttarsambandið hér þegar liðið undir lok og skuldari, hér stefnandi, en ekki kröfuhafi, að endurvekja það. Engri röskun sé til að dreifa gagnvart stefnanda. Því standi engin rök til annars en að í stað umsaminna erlendra vaxta skuli vextir miðast við 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 við útreikning endurheimtukröfunnar, til samræmis við dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Undantekning frá rétti kröfuhafa til að krefjast viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð verður með öðrum orðum ekki lögð að jöfnu við reglur kröfuréttar um endurheimturétt. Hér hafi enda átt sér stað fullar og réttar efndir af hálfu skuldara til samræmis við það sem samningarnir áttu að fela í sér, sbr. hins vegar reglur um viðbótarkröfurétt.

         Í þessu sambandi tekur stefndi fram að ekki verði litið svo á að ákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um útreikning endurheimtukröfu, sbr. 2. málsl. ákvæðisins um vaxtaviðmiðun, séu í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, þ.e. þannig að um afturvirka réttarreglu sé að ræða. Sú vaxtaviðmiðun, sem þar komi fram, sé til samræmis við þá niðurstöðu sem þegar hafi leitt af gildandi réttarreglum, þ.e. samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sem hafi verið í gildi á tímamarki lögskipta aðila, sbr. hér að ofan. Þó að ákvæðin hafi verið talin andstæð stjórnarskrá við þær aðstæður þegar skuldari er krafinn um viðbótargreiðslu á grundvelli þess, þá verði ekki séð að sömu sjónarmið eigi við þegar skuldari krefst endurgreiðslu vegna þegar uppgreiddra lána, sbr. og fyrrgreinda umfjöllun.

         Að lokum byggir stefndi á því að hvað sem þessu líður eigi þau sjónarmið alls ekki við í þessu máli sem í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 voru talin réttlæta undantekningu frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð. Því hafi meginreglan um rétt til viðbótargreiðslu gilt fullum fetum við uppgjör aðila, verði fyrri endurútreikningur stefnda og endurgreiðsla til stefnanda til samræmis, talinn í raun fela í sér „viðbótargreiðslu“ úr hendi stefnanda, líkt og hann virðist byggja á.

         Í þessu sambandi vísar stefndi til þess að ekki sé um neinn augljósan aðstöðumun að ræða milli aðila. Stefnandi hafi um árabil verið eitt stærsta fyrirtæki landsins og sé nú skráð í Kauphöll Íslands. Fyrirtækið sé leiðandi verslunarfyrirtæki á íslenskum markaði og efnahagur félagsins hlaupi á gríðarlegum fjárhæðum eða tugum milljarða króna og hafi gert það í mörg ár. Þá sé því lýst yfir í skráningarlýsingu á stefnanda að helstu hluthafar félagsins og stjórnendur, nú sem fyrr, búi yfir umfangsmikilli þekkingu og reynslu af alþjóðlegum viðskiptum. Einnig hafi stofnun lánsskuldbindinganna verið liður í fjármögnun stefnanda með aðkomu fleiri en eins fjármálafyrirtækis. Um hafi verið að ræða sérhæfða fjármögnun og hafi stefnandi, og í öllu falli ráðgjafar hans, búið yfir yfirgripsmikilli þekkingu á lánamálum. Stefndi vísar einnig til þess að fjárhæð „viðbótarkröfu“ sé ekki umtalsverð, m.a. að teknu tilliti til umsvifa og stærðar stefnanda. Að þessu virtu telur stefndi engin rök standa til þess að stefnandi verði ekki krafinn um „viðbótarkröfu“ fyrir liðna tíð, að svo miklu leyti sem endurútreikningur og endurgreiðsla því samfara verði talin jafngilda „viðbótarkröfu“ á annað borð.

         Stefndi gerir ekki tölulegan ágreining við stefnanda verði á annað borð fallist á málsástæður hans. Stefndi telur þó að engin lagastoð sé fyrir því að krafa stefnanda beri vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, þ. á m. frá þeim tíma sem miðað er við í dómkröfum. Þá telur stefndi að dráttarvextir reiknist í fyrsta lagi frá dómsuppsögu, en ella frá þingfestingardegi, eins og máli þessu sé háttað. Stefndi hafnar því einnig að stefnandi hafi að sönnu áður krafið stefnda um þá fjármuni sem hér um ræði, þ.e. þannig að upphafstími dráttarvaxta, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001, geti miðast við fyrra tímamark.

         Um lagarök vísar stefndi einkum til meginreglna fjármunaréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga. Þá vísar hann til almennra reglna kröfuréttar um endurheimturétt og rétt til að krefjast viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð. Jafnframt vísast til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, þ. á m. laga nr. 151/2010. Um málskostnað vísar stefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr.

IV.

         Eins og rakið hefur verið voru þær lánsskuldbindingar, sem mál þetta lýtur að, gerðar upp samkvæmt efni lánssamninganna 19. október 2009. Óumdeilt er að lánin hafi verið í íslenskum krónum sem hafi verið bundin við gengi erlendrar myntar með ólögmætum hætti, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Þá virðist enginn ágreiningur vera milli aðila um að stefnandi hafi af þeim sökum öðlast endurkröfu á hendur stefnda á þeim grundvelli að stefnandi hafi greitt stefnda meira en honum bar 19. október 2009. Á þessum forsendum endurgreiddi stefndi stefnanda samtals 514.891.325 krónur hinn 19. desember 2011 eftir að hafa endurútreiknað bæði lánin. Við endurútreikning lánanna var fylgt þeirri aðferð sem lýst er í 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010. Í samræmi við ákvæðið var staða skuldarinnar fundin út með því að upphaflegur höfuðstóll lánanna var vaxtareiknaður með vöxtum samkvæmt 1. málsl. 4. gr. sömu laga, en greiðslur stefnanda af lánunum umfram það mynduðu ofgreiðslu hans. Framangreindir vextir samkvæmt 4. gr. laganna fólu í sér viðbótarkröfu stefnda á hendur stefnanda sem gerð var upp 19. desember 2011. Stefnandi telur stefnda ekki hafa átt rétt til þeirrar viðbótarkröfu og krefur stefnda um endurgreiðslu á því sem hann telur sig hafa ofgreitt af þeim sökum á grundvelli almennra meginreglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Þessu hafnar stefndi. Um röksemdir aðila til ágreiningsefnisins er nánar vísað til kafla III í dóminum.

         Ganga verður út frá því sem almennri meginreglu í kröfurétti að sá sem hefur greitt fjármuni umfram skyldu, annað hvort vegna þess að engin krafa hafi verið fyrir hendi eða að greitt hafi verið of mikið, eigi jafnan kröfu á hendur móttakanda um endurgreiðslu þess sem ofgreitt var, sbr. dóm Hæstaréttar frá 13. september 2007 í máli nr. 32/2007. Við tilteknar aðstæður er viðurkennt að víkja beri frá meginreglunni og hafna kröfu um endurgreiðslu. Skiptir þá máli hvers eðlis kröfusamband aðila er, hvor aðila beri sök á ofgreiðslunni, atvik að baki henni og það sem ætla má um vitneskju aðila um þau atriði.

         Upphafleg krafa stefnda á hendur stefnanda var um endurgreiðslu á lánum í peningum með umsömdum vöxtum sem tekin höfðu verið í þágu atvinnurekstrar stefnanda. Stefnandi greiddi stefnda hærri fjárhæð en honum bar vegna þess að samningarnir höfðu að geyma ólögmæta tengingu við gengi erlendrar myntar. Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, eins og þau verða skilin í ljósi athugasemda við frumvarp til laganna og annarra lögskýringargagna, eru nokkuð ótvíræð um að lán í íslenskum krónum megi ekki verðtryggja með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Lánveitandi, Kaupþing banki hf., var fjármálafyrirtæki sem bauð viðskiptavinum sínum meðal annars upp á lántökur með skilmálum er brutu gegn þessu banni. Þó að á það megi fallast að lánssamningarnir hafi ekki borið það augljóslega með sér að um skuldbindingu í íslenskum krónum væri að ræða, sem er forsenda ályktunar um að óheimilt hafi verið að gengistryggja lánin, hvíldi ábyrgðin á því að svo reyndist vera á lánveitanda, en ekki á stefnda sem lántaka. Mátti stefndi í lögskiptum sínum við lánveitanda ganga út frá því að skilmálar samninganna að þessu leyti væru lögmætir og liggur ekki annað fyrir en að hann hafi verið grandlaus um þessi atriði við efndir á skuldbindingum sínum 19. desember 2009. Af þessu leiðir að stefnandi öðlaðist endurkröfurétt á hendur stefnda um það sem ofgreitt var á grundvelli almennra reglna kröfuréttar. Ekki er því fallist á með stefnda að endurgreiðslukrafa stefnanda hafi einungis stuðst ákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, sem tekið höfðu gildi er lánin voru endurútreiknuð í desember 2011.

         Fyrrgreind fyrirmæli 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 eiga rætur að rekja til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Eins og áður segir var þar komist að þeirri niðurstöðu að líta yrði fram hjá ákvæðum samnings um vexti á láni í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu og miða þess í stað við vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Þessi niðurstaða var á því reist að umrædd vaxtakjör, sem voru LIBOR-vextir með tilteknu álagi, gætu ekki komið til álita nema í tengslum við hina ólögmætu gengistryggingu. Einnig var tekið fram að skuldbindingin væri að öllu leyti í íslenskum krónum, eftir að gengistryggingin hafði verið metin ógild, og væri algerlega óháð þeirri tengingu við hina erlendu gjaldmiðla sem aðilarnir hefðu gengið út frá við gerð samningsins. Síðan sagði orðrétt í dóminum: „Þegar virt er að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna er ógilt og bein og órjúfanleg tengsl eru samkvæmt framansögðu milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti er hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda liggur fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hafa aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa er óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.“ Þá var í dóminum vísað til þess að í samningi aðila hefði eftir sem áður verið ákveðið að skuld lántakans bæri vexti. Var talið óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik svöruðu hér til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, skyldu vextir þegar svo stæði á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákvæði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og væru birtir samkvæmt 10. gr. laganna. Það varð því niðurstaða Hæstaréttar að skýra bæri 4. gr. laga nr. 38/2001 á þann veg að vaxtaskilmálar þess kæmu til fyllingar samningum með ógild samningsákvæði um vaxtahæð.

         Á sama hátt og í framangreindum máli eru bein og órjúfanleg tengsl milli ákvæða í lánssamningum aðila um gengistryggingu og samningsákvæða um LIBOR vexti fyrir sænsku krónuna. Þar sem óheimilt var að gengistryggja lánin, og þar sem þau eru í raun skuldbinding í íslenskum krónum, var ekki unnt að taka mið af ákvæðum þeirra um LIBOR vexti, þar sem slíkir vextir hafa aldrei verið skráðir á millibankamarkaði í London af lánum í íslenskum krónum. Ógildi ákvæða um gengistryggingu leiddi því til þess að samningsákvæðin um vexti urðu marklaus. Þar sem lánssamningarnir kveða eftir sem áður á um að lánin beri vexti, án þess að þar sé að finna marktæka lýsingu á inntaki þeirra, verður að leggja til grundvallar að lánin eigi að bera vexti í samræmi við 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.

         Þessar forsendur lágu skýrar fyrir er réttarsamband aðila var endurvakið vegna endurkröfuréttar stefnanda, sbr. fyrrgreindan hæstaréttardóm í máli nr. 471/2010 og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Tók endurútreikningur á stöðu lánanna því eðlilega mið af þeim. Raunar lágu lagaforsendur framangreindrar ályktunar einnig fyrir er lánssamningar aðila voru gerðir í febrúar 2004, enda hefur 4. gr. laga nr. 38/2001 staðið óbreytt í lögunum frá setningu þeirra. Í því efni breytir engu þó að fyrrgreind lögskýring ákvæðisins samkvæmt dómi Hæstaréttar væri samningsaðilum þá ekki kunn. Verður því að álykta að við uppgreiðslu lánanna 19. október 2009 hafi vextir samkvæmt samningunum verið vangreiddir af hálfu stefnanda sem nam muninum á samningsvöxtum og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.

         Stefndi dró frá það sem vangreitt var samkvæmt framansögðu er hann endurgreiddi stefnanda samtals 514.891.325 krónur 19. desember 2011. Ekki liggur annað fyrir en að stefnandi hafi tekið við þeirri greiðslu án fyrirvara um frekari rétt sinn úr hendi stefnda. Hvað sem líður möguleika hans til að bera fyrir sig við uppgjörið að stefndi hafi glatað kröfu sinni um vexti fyrir liðna tíð, þar sem hann hafi þegar greitt vexti í samræmi við greiðslutilkynningar stefnda, fær dómurinn ekki séð að hann eigi af þeim sökum endurkröfurétt á hendur stefnda. Yrði á það fallist væri verið að taka réttarsamband aðila upp að nýju, sem þegar hefur verið gert upp, annars vegar með greiðslum 19. október 2009 og hins vegar með uppgjöri 19. desember 2011 á grundvelli endurútreiknings skuldanna. Með uppgjörinu var komið á jafnvægi milli of- og vangreiðslu í réttarsambandi aðila. Stefnandi leitar í máli þessu dóms sem myndi raska því jafnvægi og valda því að skuldbindingar hans, sem áttu að bera vexti, yrðu efndar með greiðslu á höfuðstól lánanna og ógildum samningsvöxtum. Slík niðurstaða er andstæð tilgangi almennra meginreglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár, sem miða að því að tryggja réttar efndir á kröfum í samræmi við það sem fyrir liggur um réttindi og skyldur aðila. Kröfur stefnanda verða því ekki teknar til greina og ber að sýkna stefnda af þeim.

         Í ljósi þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

         Stefndi, Arion banki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Haga hf.

         Stefnandi greiði stefnda 700.000 krónur í málskostnað.