Hæstiréttur íslands

Mál nr. 636/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 15

 

Föstudaginn 15. desember 2006.

Nr. 636/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Herdís Hallmarsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Krafa sóknaraðila er reist á því að rannsóknarhagsmunir krefjist þess, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að varnaraðili verði sviptur frelsi sínu vegna rannsóknar á kynferðisbroti gegn 13 ára stúlku. Fallist er á með héraðsdómi að fyrir liggi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn hefur þegar farið fram á vettvangi og húsleit verið gerð á heimili varnaraðila. Verður frelsissvipting hans ekki rökstudd með því að brýnt sé að koma í veg fyrir að hann afmái hugsanleg verksummerki. Skýrslutaka af ætluðum brotaþola samkvæmt a. lið 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991 hefur ekki farið fram. Framburður vitna kann að geta varpað ljósi á ferðir varnaraðila á því tímabili sem ætlað brot er talið hafa verið framið. Eitt vitni hefur þegar gefið skýrslu fyrir lögreglu um það atriði en eftir er að yfirheyra önnur. Verður fallist á með sóknaraðila að nauðsynlegt sé að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi til að koma í veg fyrir að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X með lögheimili að [heimilisfang], en dvalarstað á [heimilisfang], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 20. desember 2006, kl. 16.00.

Lögregla kveðst rannsaka meint kynferðisbrot kærða gagnvart ungri stúlku, A, sem fædd sé 1993.  Móðir stúlkunnar hafi þann 7. desember sl. lagt fram kæru þar sem fram komi að stúlkan hafi greint móður sinni frá því sunnudagskvöldið 3. desember sl. að henni hefði verið nauðgað á lóð leikskólans [...], [heimilisfang], annað hvort mánudagskvöldið 27. nóvember eða þriðjudagskvöldið 28. nóvember sl., af manni sem væri svartur á hörund.  Jafnframt hafi stúlkan greint frá því að sunnudaginn 3. desember sl. hafi hún verið stödd í Mjóddinni, ásamt frænku sinni og hafi þá séð manninn sem nauðgaði henni.  Hafi frænka hennar þekkt manninn sem kærða en kærði hafi í gær verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kynferðisbrot gagnvart henni.

Rannsókn málsins sé á frumstigi.  Lögregl­an hafi skoðað vettvang föstudaginn 8. desember sl.  Hafi brotaþoli vísað lögreglu á þann stað á leikskólalóðinni, þar sem hið meinta kynferðisbrot átti sér stað og fannst þar lítil rifa utan af smokkapakkningu.  Í gær handtók lögregla kærða og tók af honum skýrslu vegna málsins.  Hafi hann neitað sök og kvaðst ekkert kannast við brotaþola.  Á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá í gær hafi lögreglan í Reykjavík framkvæmt í gærkvöldi húsleit á dvalarstað kærða.  Hafi þá fundist m.a. úlpa eins og sú sem brotaþoli hafi lýst að kærði hafi verið í þegar hið meinta brot hafi átti sér stað.  Þá hafi lögreglan enn fremur tekið skýrslu af vitni sem kærði segist hafa verið hjá að kvöldi mánudagsins 27. nóvember sl.  Lögregla telji mikla rannsóknarvinnu vera fyrir höndum. 

Til rannsóknar er meint brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga.  Kærði er undir rökstuddum grun.  Ekki hefur enn verið tekin formleg skýrsla af kæranda, en hún mun verða tekin fyrir dómi.  Verður því að fallast á að brýnt sé enn að hindra að kærði geti spillt rannsókn málsins með því að afmá hugsanleg verksummerki eða hafa áhrif á vitni sem enn hafa ekki verið yfirheyrð.  Verður kærða samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi í eina viku eins og lögregla hefur krafist. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, A, [kt.], með lögheimili að [heimilisfang], en dvalarstað á [heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember 2006, kl. 16.00.